136. löggjafarþing — 125. fundur
 3. apríl 2009.
um fundarstjórn.

röð mála á dagskrá.

[21:02]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta vegna þess að við sjálfstæðismenn höfum bæði í gær og í dag gert tillögur til forseta um að mál nr. 3–7 á dagskrá yrðu tekin til umræðu á undan stjórnarskipunarlögum, þ.e. að gert yrði hlé á umræðum um stjórnarskipunarlög til að koma að þeim brýnu málum sem eru þar næst á eftir og varða með skýrum og augljósum hætti hagsmuni atvinnulífsins og heimilanna í landinu.

Ég vek athygli hæstv. forseta á því að undir þetta sjónarmið var tekið fyrir stundu í sjónvarpsþætti með leiðtogum stjórnmálaflokkanna. Þar heyrði ég ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, legði áherslu á að þau mál sem eru á dagskrá yrðu tekin fyrir og afgreidd í þinginu. Ég gat ekki skilið orð hans með öðrum hætti en svo að hann (Forseti hringir.) teldi það skyldu þingsins að reyna að koma þessum málum að.



[21:03]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni, það er algerlega nauðsynlegt að fresta þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, ekki vegna þess að ekki sé ástæða til að ræða það frumvarp sem er til meðferðar, heldur vegna þess að brýn mál liggja fyrir og eru á dagskrá sem ég tel að við þurfum að láta ganga fyrir.

Það blasti algerlega við í sjónvarpinu í kvöld þegar stjórnmálaforingjar ræddu saman að úrræðaleysi forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar er þvílíkt að þingið verður að koma til skjalanna, afgreiða þessi mál og koma í veg fyrir að frekari skaði verði af úrræðaleysi og stjórnleysi á Íslandi. Þess vegna hvet ég hæstv. forseta til að hlusta á þær ábendingar að við snúum okkur að því að ræða atvinnumál og uppbyggingarmál og frestum um sinn umræðunni um það mikilvæga mál sem stjórnarskipun landsins er.

(Forseti (ÞBack): Forseti hefur hlustað á hv. þingmenn og athugasemdir þeirra. Enn eru fjölmargir á mælendaskrá.)



[21:04]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um atvinnumálin, að forseti fresti því máli sem við ræðum núna og er á dagskrá og ræði frekar mál nr. 7 sem er um álverið í Helguvík. Þá geta menn líka komið inn á fleiri álver.

Á Alþingi eru 63 þingmenn. Þeir eru á stjórnlagaþingi og menn hafa lagt mikla áherslu á að þetta væri stjórnlagaþing og það væri mjög nauðsynlegt að setja á laggirnar stjórnlagaþing og það væri mjög virðingarvert og allt slíkt. Þetta fólk tekur síðan ekki þátt í umræðunni, ekki nema þingmenn Sjálfstæðisflokksins að mestu leyti. Ég sakna þess að þeir þingmenn sem ekki hafa tekið þátt í umræðunni og ekki eru á mælendaskrá taki þátt í umræðunni á stjórnlagaþinginu sem við erum stödd á akkúrat núna.



[21:06]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rík ástæða til að hvetja hæstv. forseta aftur til að taka tillit til ábendinga sem hér hafa komið fram um að fresta umræðu um dagskrármálið, ekki síst vegna þess að flutningsmenn þessa frumvarps hafa ekki komið í umræðuna og eru ekki einu sinni í húsinu, að ég fæ best séð. Fyrir utan það tel ég nær að ræða það mál sem varðar atvinnuuppbygginguna í landinu og kallað er eftir alls staðar að úr þjóðfélaginu. Þess vegna hvet ég hæstv. forseta til að hlusta á þetta og fara yfir málið með forustumönnum þingflokkanna á þann veg að þessari umræðu (Forseti hringir.) verði ekki haldið áfram inn í nóttina.



[21:07]Útbýting:

[21:07]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti hefur hlýtt á þær umræður sem hér hafa farið fram um fundarstjórn forseta. Enn eru mjög margir á mælendaskrá og enn eru mörg brýn mál sem þarf að ræða og því telur forseti rétt að halda umræðunni nokkuð áfram.