136. löggjafarþing — 127. fundur
 6. apríl 2009.
um fundarstjórn.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:08]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það stefnir enn einn daginn í að dagskrá þingsins verði helguð stjórnarskrármálinu meðan önnur og mikilvægari mál í þágu heimila og atvinnulífsins bíða. Við sjálfstæðismenn, herra forseti, höfum ítrekað bent á að dagskrá þingsins verði að taka mið af því ástandi sem er úti í þjóðfélaginu um þessar mundir og þingið verði að taka fyrir önnur og brýnni mál en stjórnarskrárfrumvarpið sem allir sérfræðingar — það er rétt að draga það fram — sem allir sérfræðingar og umsagnaraðilar hafa raunar bent á að þurfi lengri aðdraganda og vandaðri undirbúning.

Ég vil því gera það að tillögu minni að frumvarp forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá verði sett aftast á dagskrá í dag og að fyrsta mál á dagskrá fundarins verði frumvarp iðnaðarráðherra um heimild til að reisa álver í Helguvík sem talið er að geti skapað þúsundir starfa og verið mikil vítamínsprauta fyrir hagkerfið.

Ég legg þetta til, herra forseti, og vísa í 2. mgr. 63. gr. þingskapa þar sem fram kemur að forseta Alþingis er heimilt að breyta röðun á þeim málum sem eru á dagskrá. Stjórnarskrárfrumvarpið verði að sjálfsögðu á dagskrá en það verði rætt síðar í dag.



[11:10]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er ánægjulegt í sjálfu sér að sjá það eftir hálfs mánaðar fjarveru að Sjálfstæðisflokkurinn situr við sinn keip og er enn í sama málþófinu um stjórnarskrárfrumvarpið og hann var þegar ég varð að yfirgefa þennan vinnustað fyrir 14 dögum. Og það er enn sami fulltrúinn, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem stendur upp þó að Árni Johnsen hafi að vísu sótt mjög hart að forustusætinu í Sjálfstæðisflokknum í þessum efnum. (Gripið fram í.)

Ástæðan er líka enn sú sama. Það er fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að ákvæði um þjóðareign á auðlindum á Íslandi og einkum auðlindum sjávar sé samþykkt á þinginu og komist í stjórnarskrá. Það er varðstaðan um sérhagsmunina sem Sjálfstæðisflokknum er efst í huga og fremst í mun á þessum tímum. (ÞKG: ... Helguvík.) Um Helguvík er það því miður þannig að það skiptir engu máli hvort það frumvarp sem hér liggur fyrir er samþykkt eða ekki. Helguvík ræðst annars staðar en í þingsalnum. (Gripið fram í.)

(Forseti (GuðbH): Ég vil biðja hv. þingmenn að gefa ræðumönnum tækifæri til að flytja mál sitt.)



[11:11]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi vildi ég segja, hæstv. forseti, að ég hvet forseta til að taka til greina þá tillögu um breytingu á dagskrá sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir lagði fyrir forseta og óska eftir því að forseti gefi svar strax.

Að öðru leyti vil ég vekja athygli á því að hingað er kominn þingmaðurinn Mörður Árnason, hv. varaþingmaður. Samkvæmt áformum forseta á að ljúka þinghaldi á morgun. Hann er kallaður inn sem varamaður í dag og á að sitja þá væntanlega tvo daga á þingi áður en þinghaldinu er lokið. Það vekur afskaplega mikla athygli hvernig að málum er staðið þegar auknar kröfur voru gerðar í breyttu skipulagi þingsins um að gæta þess að kalla ekki inn varamenn nema brýn þörf væri á og (Forseti hringir.) reglum breytt til að fækka inntöku varamanna og (Gripið fram í.) þá kemur hv. þm. Mörður Árnason hér inn.



[11:12]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi. Ég mundi einmitt halda að það væri mjög nauðsynlegt að klára umræðuna um stjórnarskipunarlögin vegna þess að þar erum við að setja inn í stjórnarskrána ákvæði um auðlindir þjóðarinnar. Miðað við þær upplýsingar sem komu fram um helgina frá hagfræðingnum Michael Hudson og rithöfundinum John Perkins er einmitt kannski ástæða til að setja þetta ákvæði inn í stjórnarskrána til að tryggja að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem innheimtumaður erlendra kröfuhafa, komist ekki yfir náttúruauðlindir og fjármuni Íslendinga. Það var nú þannig og má minna á það að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn kvittuðu upp á það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi hingað til lands. Áður en við förum að ræða um fjárfestingarsamninginn um Helguvík, áður en við höldum áfram að ræða nokkurt annað mál held ég að við verðum að tryggja það að auðlindir þjóðarinnar verði í eigu þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Það gerum við ekki öðruvísi en að setja þetta ákvæði inn í stjórnarskrána. (Gripið fram í.) Við klárum það fyrst og síðan getum við rætt Helguvík.



[11:14]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég tel, án þess að við förum að ræða efnisatriði þeirra mála sem hér hefur verið vikið að, mjög mikilvægt að hæstv. forseti svari þeirri spurningu sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir bar upp áðan um það hvort forseti væri tilbúinn að taka þeirri tillögu sem hér var lögð fram um breytta röð dagskrárliða. Mér finnst í rauninni að umræðan gæti styst til muna og það væri til að greiða fyrir störfum fundarins ef hæstv. forseti svaraði þessu skýrt.



[11:14]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vill upplýsa að dagskrá fundarins liggur fyrir. Það er einlægur vilji forseta að við reynum að klára stjórnarskipunarlögin til 3. umr. í þinginu og mun hann freista þess í dag og biður um liðsinni þingmanna um að hafa umræðuna þannig að þetta hafist svo við getum komist í að afgreiða önnur mál sem þarf að ljúka áður en þingi lýkur í vor. Afstaðan er alveg skýr og lá fyrir með dagskrá fundarins og forseti hefur svarað því og kynnti það á fundi forsætisnefndar í morgun.



[11:15]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þetta er að verða hefðbundinn dagskrárliður að hlaupa upp um störf þingsins og það eru sjálfstæðismenn sem hefja þennan leik hér í upphafi nánast hvers einasta fundar.

En það er alveg skýrt að þetta er mál sem við leggjum áherslu á að verði klárað og ég vil taka undir orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem sagði svo réttilega að sjálfstæðismenn ættu að hætta að halda Alþingi í gíslingu.

Meiri hluti er fyrir málinu hér á þingi og sjálfstæðismenn ættu frekar að gera grein fyrir þessum málflutningi sínum í næstu kosningum. Af því að valdið kemur frá þjóðinni en ekki frá Valhöll. Þannig að ég legg til að við höldum áfram með dagskrána og látum þetta mál ganga fram og greiðum síðan atkvæði um það. Þá kemur í ljós hvort ekki sé öruggur meiri hluti fyrir málinu.



[11:16]
Björn Bjarnason (S):

Herra forseti. Hér hefur komið fram ósk á grundvelli 63. gr. þingskapalaga þar sem segir í 2. mgr., með leyfi forseta:

„Forseti getur breytt röðinni á þeim málum sem eru á dagskrá og einnig tekið mál út af dagskrá.“

Sú ósk hefur komið fram hér að forseti noti þetta vald sitt til að greiða fyrir þingstörfum og taka fyrir önnur mál áður en hafist verður handa við að ræða áfram stjórnarskipunarmálin. (Gripið fram í: Búið að svara þessu.) Forseti á að úrskurða um þetta samkvæmt þeirri ósk sem fram hefur komið. Þá dugar ekki fyrir forseta að vísa til umræðna á fundi (Gripið fram í.) þingflokksformanna eða í forsætisnefnd. Það er forsetinn sem ber þessa ábyrgð að þingið geti starfað og lokið þeim málum sem fyrir því liggja.



[11:17]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Mér finnst miður að forseti hafi ekki viljað fallast á ósk mína um að breyta röðun. Tillaga mín var að breyta röðun á dagskránni og því vil ég leggja það til að við slítum einfaldlega fundi og að boðað verði til nýs fundar þá þegar með eftirfarandi dagskrá:

1. Helguvík.

2. Hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

3. Veiðar á hrefnu og langreyði.

4. Stjórnarskráin.

Stjórnarskráin verður að sjálfsögðu á dagskrá og við ræðum hana þá einfaldlega síðar í dag þegar við höfum afgreitt þessi brýnu mál.

Ég vísa til 2. mgr. 63. gr. þingskapalaga og legg tillöguna fram til hæstv. forseta og geri ráð fyrir að hún verði tekin fyrir í atkvæðagreiðslunni hér á eftir.



[11:19]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti verður að viðurkenna að honum er ekki ljóst hvaða þingskapagrein (Gripið fram í.) — og telur réttara að þeir fái að tjá sig um fundarstjórn forseta sem þess hafa óskað á meðan við fáum nánari upplýsingar. Ef um er að ræða dagskrártillögu sem óskað er eftir að verði borin fram þarf hún að berast skriflega.



[11:19]
Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs sérstaklega vegna orða hv. þm. Marðar Árnasonar. Ég bíð eftir því að fá að komast að til að ræða um stjórnarskrána og fjalla m.a. um það ákvæði sem hv. þm. Mörður Árnason talaði um, þ.e. þjóðareign á auðlindum hafsins og öðrum auðlindum. Mér finnst skipta miklu máli með hvaða hætti og hvernig þetta verður afgreitt frá Alþingi, þannig að Alþingi sé sómi að.

Ég hins vegar stend fast á því að berjast af öllu afli gegn því að hér verði stjórnskipuleg ringulreið með því að samþykkt verði frá Alþingi það ákvæði sem hér liggur fyrir um stjórnlagaþing. Ég tel það skyldu mína sem þingmanns á Alþingi Íslendinga, á meðan ég er þar, að standa vörð um hagsmuni Alþingis, þjóðarinnar og stjórnarskrárinnar.

Ég sé ekki annað en að eitt það versta sem við getum gert í þessari stöðu sé að samþykkja það ákvæði sem hér liggur fyrir um stjórnlagaþing. (Forseti hringir.) Þar stendur hnífurinn í kúnni hvað mig varðar og það hefur ekkert með málþóf (Forseti hringir.) að gera heldur eðlilega (Forseti hringir.) málsvörn fyrir stjórnarskrána.



[11:21]
Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Hér í umræðu um fundarstjórn forseta hafa menn gert grein fyrir hvernig þeir skilgreina átakalínurnar í umræðunni um stjórnarskrárfrumvarpið. Ég vil láta koma fram hvernig ég lít á það mál.

Í meginatriðum er í því frumvarpi lagt til að breytingar á stjórnarskránni verði framvegis lagðar fyrir þjóðina. En átökin standa um það að þeir sem að frumvarpinu standa vilja ekki leggja tillögurnar fyrir þjóðina heldur vilja að þingið eitt afgreiði þær, annars vegar tillögu um stjórnlagaþing og hins vegar tillögu um náttúruauðlindir. Það er krafa meiri hluta þingmanna miðað við frumvarpið að þjóðin fái ekki að greiða atkvæði um þessi tvö mál. Mér finnst eðlilegt að þjóðin fái að greiða atkvæði um stjórnlagaþing og orðalag um náttúruauðlindir í stjórnarskrá.



[11:22]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Á laugardaginn var kom út skýrsla fjárlaganefndar breska þingsins þar sem fjármálaráðherra Bretlands var átalinn fyrir framferði sitt gagnvart okkur Íslendingum, fyrir það offors að beita íslensk fyrirtæki hryðjuverkalögum.

Ég óskaði eftir því við hæstv. forseta þá að í dag færi fram umræða hér í þinginu um þessa skýrslu og um viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar við henni. Skýrslan er auðvitað stórsigur fyrir málstað okkar Íslendinga og ég hefði talið að það þyrfti að ræða efni hennar og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við henni og hvernig hæstv. forsætisráðherra ætlar að bregðast við. Ég hefði talið einboðið að hæstv. forsætisráðherra færi nú strax og pantaði fund í Downing-stræti 10 og ræddi við flokksbróður sinn Gordon Brown um það hvernig hann ætli að bregðast við efni skýrslunnar.

Ég tel að svo miklir þjóðarhagsmunir (Forseti hringir.) séu í húfi hér, herra forseti, að taka verði þetta mál til umræðu hér á Alþingi (Forseti hringir.) strax í dag og óska eftir (Forseti hringir.) svörum við því hvenær forseti vill ræða þetta mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:23]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vekur athygli á því að beiðni er komin um utandagskrárumræðu um þetta mál frá hv. formanni þingflokks Samfylkingarinnar, Lúðvíki Bergvinssyni, og mun forseti fjalla um það í hádeginu með þingflokksformönnum hvenær málið fer á dagskrá.



[11:23]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í þessari umræðu um fundarstjórn forseta hafa komið fram ákaflega merkilegir punktar, svo sem sá að hv. þm. Jón Magnússon styður ákvæðið um þjóðareign á fiskimiðunum í stjórnarskrárfrumvarpinu sem aðrir sjálfstæðismenn gera ekki. Þannig að hér er komin upp sú staða að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einhuga í þessum efnum og (Gripið fram í.) ég tel að það hljóti að mæla mjög með því að nú verði þessari umræðu hætt og gengið til dagskrár og rætt um það stjórnarskrárfrumvarp sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einhuga um heldur klofinn í afstöðu sinni til.

Sjálfstæðisflokkurinn er á móti stjórnlagaþinginu vegna þess að hann vill hafa það ráðgefandi. Hann vil hafa það alveg eins en ráðgefandi vegna lýðræðisástar sinnar (Gripið fram í.) og flokkurinn er á móti auðlindaákvæðinu nema hv. þingmaður (Forseti hringir.) Jón Magnússon (Forseti hringir.) sem býr þar að fortíð sinni og grunni (Forseti hringir.) í Frjálslynda flokknum.



[11:25]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það virðist eins og hv. þingmenn stjórnarliðsins geri sér ekki grein fyrir því að í samfélaginu eru gríðarlega miklar deilur og óeining um þær breytingar sem verið er að gera á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það er bara svoleiðis. Þeir kjósa að skella skollaeyrum við öllum þeim aragrúa athugasemda sem hafa borist okkur þingmönnum um meðferð þessa máls. Þeir kjósa að hlusta ekki á helstu fræðimenn þjóðarinnar, helstu samtök þessarar þjóðar og þá óeiningu sem er í samfélaginu við það að keyra þessar breytingar í gegn.

Við sjálfstæðismenn munum standa vörð um stjórnarskrána og taka þátt í málefnalegri umræðu fram að kjördegi ef á þarf að halda. En við viljum hvetja hæstv. ríkisstjórn til að koma hér fram með þau mál sem varða heimilin og atvinnulífið einhverju í þessu landi, þau mál sem hún hefur lofað undanfarnar vikur. Við viljum hvetja hana og styðja til að koma fram (Forseti hringir.) með þau mál og ljúka þeim í kvöld og nótt ef með þarf (Forseti hringir.) eða þess vegna yfir páskana. En breytum forgangsröðinni (Forseti hringir.) og förum að koma fram með mál (Forseti hringir.) sem skipta heimilin, fjölskyldurnar og atvinnulífið máli.



[11:26]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að elta mikið ólar við ummæli hv. þm. Marðar Árnasonar hér áðan. Ég tel víst að ónákvæmnin og rangfærslurnar í máli hans stafi ekki af neinni meinbægni eða neinu slíku heldur séu einfaldlega vegna þess að hann hefur ekki verið viðstaddur síðustu tvær vikur og hefur þess vegna ekki fylgst með þeirri málefnalegu umræðu sem átt hefur sér stað um stjórnarskrána. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður hefur ekki heyrt þau sjónarmið sem fram hafa komið og var þess vegna fullkomlega á villigötum í máli sínu hér áðan.

En hitt vildi ég nefna að það hefur komið skýrt fram í þessari umræðu að hæstv. forseti þingsins — (Gripið fram í: Af hverju syngur þú ekki eins og Árni Johnsen?) Ég gæti, hv. þm. Grétar Mar Jónsson, sungið eins og hv. þm. Mörður Árnason gerði hér fyrir nokkrum árum þegar hann söng hér í ræðustól Alþingis Hani, krummi, hundur, svín. Og var þar töluvert á undan hv. þm. Árna Johnsen í sambandi við (Forseti hringir.) söngæfingar í ræðustól Alþingis. (Gripið fram í.)



[11:27]
Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Það er nú einu sinni þannig með bæði mig og hv. þm. Mörð Árnason að við líkt og aðrir búum að fortíð okkar og með sama hætti flýr enginn heldur pólitíska fortíð sína.

Þar sem hv. þm. Mörður Árnason talaði um að ágreiningur væri í röðum okkar sjálfstæðismanna hvað varðar ákvæðið í 1. gr. þá höfum við bent á að hér var flutt tillaga um auðlindaákvæði af fyrrverandi formönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem hv. þm. Björn Bjarnason hefur m.a. talað um að ætti að geta náðst sátt um.

Vandamálið er að þeir sem flytja þetta frumvarp og málsvarar þessa stjórnarskrárfrumvarps hafa ekki verið tilbúnir til neinna málamiðlana eða að koma neitt til móts við þau sjónarmið. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti hér mjög góða ræðu á laugardaginn var um stjórnarskrármálið og vakti þá athygli á átakalínum hvað það varðar og gerði það hér áðan í ræðu sinni. (Forseti hringir.) Þessar átakalínur eigum við að hafa í huga og reyna að ná samkomulagi, (Forseti hringir.) eins og hv. þm. Ellert B. Schram hefur talað um. Við eigum að reyna að ná (Forseti hringir.) samkomulagi um það sem við getum náð samkomulagi um og afgreiða í sátt (Forseti hringir.) þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem við stöndum saman um.



[11:29]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi óska eftir því við hæstv. forseta að umræða um skýrslu bresku fjárlaganefndarinnar verði töluvert ítarleg hér á morgun ef forseti hyggst ræða um hana á morgun en ekki í dag, sem mér finnst reyndar óásættanlegt.

En talandi um málþóf þá vil ég taka það fram að ég mótmæli því harðlega að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum stundað hér málþóf í umræðum um stjórnarskrána. Ég vil benda þeim hv. þingmönnum (Gripið fram í.) sem hafa sakað okkur um það að þeir sjálfir gerðu hér mikinn ágreining um málefni eins fjölmiðils, nefnilega Ríkisútvarpsins, og um það mál ræddu samfylkingarþingmenn og vinstri grænir samtals í 119 klukkustundir og 46 mínútur. (Gripið fram í.)

Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum talað um stjórnarskrána í 34 klukkustundir og 30 mínútur. Þannig að þeir sem saka okkur sjálfstæðismenn um málþóf (Forseti hringir.) og stóðu sjálfir fyrir umræðum um einn fjölmiðil hér í tæpar 120 (Forseti hringir.) klukkustundir ættu frekar að líta í eigin barm en að halda slíku fram.



[11:30]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni um Icesave-reikningana og skora á hæstv. fjármálaráðherra, sem er ekki í salnum, af því að hann barðist svo einarðlega gegn þessum reikningum, að upplýsa þingið um það hvernig staðan er í þeim málum. Þetta skiptir þjóðina verulegu máli eins og hæstv. ráðherra benti á í haust. Þetta skiptir börnin okkar máli, þetta er skuldbinding fyrir börnin okkar. Ég vil gjarnan að hann komi og segi frá því máli því að hann hefur það núna í sínum höndum.



[11:31]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég geri það að tillögu minni, í samræmi við 1. mgr. 63. gr. þingskapalaga, að fundi verði slitið og boðað nú þegar til nýs fundar með eftirfarandi dagskrá:

1. Heimild til samninga um álver í Helguvík.

2. Tekjuskattur (hærri vaxtabætur 2009).

3. Endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

4. Fjármálafyrirtæki (slitameðferð og kostnaður af störfum skilanefnda).

5. Breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

6. Listamannalaun.

7. Stjórnarskipunarlög.

Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að þessi tillaga verði tekin á dagskrá nú þegar. Hún liggur fyrir skriflega hjá hæstv. forseta.



[11:33]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti hefur móttekið dagskrártillögu sem er borin fram af hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur og mun ræða hana við þingflokksformenn í hádegisverðarhléi — (ArnbS: … gera þetta nú þegar.) Já, það er ekkert í þingskapalögunum sem segir að dagskrártillaga sé tekin fyrirvaralaust upp þannig að ég óska eftir að fara með hana á þingflokksformannafund á eftir og við ræðum dagskrána. (Gripið fram í.) Mun ég þá ganga til dagskrár um stjórnarskipunarlögin og ræða það mál þar til við getum þá leitt það til lykta með atkvæðagreiðslu eftir hádegisverðarhlé ef á þarf að halda.



[11:33]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ákaflega sérstök málsmeðferð. Ég hvet virðulegan forseta til að fresta nú fundi og kalla saman fund með þingflokksformönnum til að fara yfir þetta. Vonandi má á slíkum fundi finna fleiri mál sem koma heimilunum og atvinnulífinu til góða í þessu landi frá hæstv. ríkisstjórn, loforðum sem hún er búin að lofa þjóðinni á undanförnum vikum og mánuðum. Vonandi gæti ríkisstjórnin komið inn á dagskrána í dag einhverju máli sem skiptir máli fyrir þessa þjóð.

Ég er búinn að segja hér, hv. þingmenn, að við sjálfstæðismenn munum standa hér vaktina til að verja stjórnarskrána. Við munum standa hér vaktina í nafni lands og þjóðar, en við munum ekki gefast upp undir þessum þrýstingi sem er á okkur. Þess vegna hvet ég ykkur, og höfða hér sérstaklega til hv. þingmanna Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins, að standa nú með okkur sjálfstæðismönnum í því að gera hér breytingar á dagskrá þannig að á dagskrá komist mál frá þessari ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem skipta heimilin og fyrirtækin í landinu máli, (Forseti hringir.) að við tökum fyrir að ræða hér mál sem hafa einhverja þýðingu. Við munum standa vaktina fram (Forseti hringir.) á síðasta dag í stjórnarskrármálinu.



[11:35]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get skilið að forseti vilji taka sér nokkurn tíma til að taka ákvörðun í þessu máli en ég legg hér til að til að flýta hér öllum þingstörfum verði nú þegar gert hlé á þingfundi þannig að hann geti þá ráðfært sig við formenn þingflokkanna þannig að hægt sé að ná fram góðri sátt hér í þinginu og við getum — og það er vilji okkar sjálfstæðismanna — afgreitt nokkur þau mál sem skipta verulegu máli, t.d. samning um Helguvík og fleiri mál sem eru mjög brýn og aðkallandi fyrir þjóðina akkúrat þessa dagana og síðan höldum við áfram síðar í dag að ræða stjórnarskrána. Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt hvers vegna minnihlutastjórnin þráast svona við með þessum hætti við að hleypa hér inn málum sem skipta svona miklu máli fyrir þjóðina. Því ekki að sýna bara ábyrgð í störfum sínum, taka á þessum málum og halda svo áfram að ræða stjórnarskrána?

Þetta er mjög sanngjörn krafa okkar sjálfstæðismanna, krafa sem við gerum vegna þeirra aðstæðna sem eru uppi í þjóðfélaginu, vegna þess að brýn þörf er á því að þessi mál fái umfjöllun og afgreiðslu, jafnbrýnt og við ræðum hér stjórnarskrána þannig að sómi sé að því fyrir Alþingi Íslendinga. (Forseti hringir.) Þetta skiptir allt miklu máli.



[11:36]
Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér dagskrártillögu um að dagskrá þingsins verði breytt í dag með tilliti til þess að mál er varða heimilin og fyrirtækin verði tekin fyrir og að við færum dagskrárliðinn stjórnarskrána aftur fyrir þau mál. Það eru brýnustu verkefnin fyrir þetta samfélag, að ræða málefni heimilanna og fyrirtækjanna og við þurfum að koma því að, herra forseti. Þetta var rætt í forsætisnefnd, fékkst ekki í gegn þar en ég hvet til þess.

Mig langar að segja það hér úr stóli forseta — þegar stjórnarsinnar tala um málþóf hérna hjá okkur, þá vil ég spyrja: Hver var sá tími sem notaður var til að tala um fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma? Hefði okkur ekki verið nær á þeim tíma að nota betri og lengri tíma og vandaðri vinnubrögð þegar mótmælin stóðu uppi á móti fjölmiðlalögunum? (Forseti hringir.) Hefði ekki þjóðinni verið betra að hlusta á hvað við sjálfstæðismenn vildum á þeim tíma? (Forseti hringir.) Þá hefði kannski ekki myndast þessi hyldýpisgjá (Forseti hringir.) á milli forsetans og þingsins.



[11:38]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti hefur sagt að hann muni ræða þessa dagskrártillögu á fundi með formönnum þingflokka í hádegisverðarhléi. Það er ekkert í þingsköpum sem setur það þannig fram — almenn fundarsköp gilda ekki um þetta svo að forseti upplýsi um það. Hann hyggst nýta tímann fram til kl. hálftvö.



[11:38]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ítreka tillögu hv. þm. Illuga Gunnarssonar um að nú þegar verði gert hlé á fundinum þannig að hægt verði að ráða fram úr því hvernig dagskránni á að vera háttað og jafnframt að forseta gefist þá tóm til að fara betur yfir þingsköpin. Við höfum óskað eftir því að hún verði nú þegar tekin á dagskrá þessi dagskrártillaga sem við höfum lagt hér fram skriflega að ósk forseta. Ég óska því eftir því að forseti geri nú þegar hlé á fundinum og við förum yfir þetta mál.



[11:39]
Björn Bjarnason (S):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér gleðilegt að hæstv. forseti ætlar að taka fyrir dagskrártillögu. En eðli dagskrártillögu er það að þegar hún kemur fram á að bregðast við henni strax á þeim fundi þar sem hún er lögð fram þannig að fundurinn geti haldið áfram, annaðhvort með óbreyttri dagskrá eða þeirri nýju dagskrá sem hann samþykkir eftir að tillagan er flutt. Ég held að það sé ekki aðeins nauðsynlegt fyrir hæstv. forseta að endurskoða þessa ákvörðun sína, heldur held ég að það sé nauðsynlegt fyrir hann, til að átta sig á stöðu málsins, að gera strax hlé á þessum fundi svo hægt sé að komast til botns í málinu. Það er eðli dagskrártillögu að það ber að taka hana fyrir strax til að átta sig á því hvort fundur geti haldið áfram í sama formi eða ekki. (Gripið fram í: Ekkert um það í þingsköpum.)