136. löggjafarþing — 127. fundur
 6. apríl 2009.
dagskrá næsta fundar.

[12:46]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseta hefur borist dagskrártillaga samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 63. gr. þingskapa sem kynnt hefur verið um dagskrá næsta fundar. Greidd verða atkvæði um tillöguna.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[13:08]

Dagskrártillaga  felld með 31:20 atkv. og sögðu

  já:  ArnbS,  ÁKÓ,  ÁJ,  ÁMM,  ÁMöl,  BÁ,  BjörkG,  BBj,  DPál,  GSB,  GÞÞ,  HerdÞ,  IllG,  KÓ,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  SKK,  StB.
nei:  AtlG,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁRJ,  BjörgvS,  EMS,  EBS,  EyH,  GMJ,  GuðbH,  GSv,  HSH,  HHj,  HöskÞ,  JBjarn,  KVM,  KJak,  KaJúl,  KolH,  KHG,  KLM,  KHeim,  LB,  MÁ,  SF,  SJS,  SVÓ,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ.
12 þm. (BJJ,  BjarnB,  EKG,  GAK,  JóhS,  JónG,  JM,  KÞJ,  MS,  VS,  ÞKG,  ÖS) fjarstaddir.
15 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:48]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að gera grein fyrir því að ég styð auðvitað þá tillögu sem við greiðum hér atkvæði um vegna þess að hún gengur út á að til umræðu á Alþingi verði tekin fyrir mál sem varða heimilin og fyrirtækin í landinu. Mér finnst sorglegt að sjá að stjórnarliðar og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar skuli greiða atkvæði gegn því að við tökum til umræðu á Alþingi mál eins og fjárfestingarsamninginn í Helguvík sem mun tryggja hugsanlega 3.000–4.000 störf í landinu og vilji frekar ræða áfram um stjórnarskrána sem hvorki mun taka á skuldastöðu heimilanna, greiðsluvanda þeirra né byggja upp atvinnulífið í landinu. Ég lýsi furðu minni á þessari afstöðu (Forseti hringir.) stjórnarflokkanna.



[12:49]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Hér er einfaldlega verið að greiða atkvæði um forgangsröðun hjá þingmönnum. Hér eru greidd atkvæði um það hvort menn vilji nota síðustu daga þingsins og þann tíma sem er núna fyrir páska til að hjálpa heimilum og fyrirtækjum í landinu — eða ekki. Málið er ekkert flóknara. (Gripið fram í.) Það er algjörlega ljóst, virðulegur forseti, að þessi minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknarflokksins hefur ekki þá forgangsröð. Þannig forgangur er ekki hjá þessari ríkisstjórn þvert á það sem sagt var þegar ríkisstjórnin var mynduð, þvert á það sem hefur verið sagt hvað eftir annað. Núna þegar við lítum á töfluna sjáum við forganginn, heimilin og fyrirtækin í landinu eru aukreitis, eitthvað sem skiptir minna máli. Það er nokkuð sem mér þykir afskaplega miður og ég veit að ég er ekki einn um það.



[12:51]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka fyrir að við fáum þessa atkvæðagreiðslu. Það er gott að sjá hvaða forgangsröðun er uppi af hálfu þeirra flokka sem hafa með óbilgirni reynt að keyra þetta stjórnarskrármál í gegnum þingið. Það er í þeirra huga svo mikilvægt að öll önnur mál mega víkja fyrir þessu stjórnarskrármáli. Geta nú kjósendur í landinu velt fyrir sér hvort þetta mál hafi meiri þýðingu fyrir þá en þau mál önnur sem við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á að verði frekar tekin á dagskrá. Það er sem sagt ljóst, stjórnarskrármálið á að ganga fyrir, önnur mál eiga að bíða og það er á ábyrgð þessara flokka að það tefst að ganga frá þeim mikilvægu málum sem varða hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu.



[12:52]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér leggur Sjálfstæðisflokkurinn fram tillögu um að endurraða dagskránni og það gerir Sjálfstæðisflokkurinn einungis til að reyna að ýta frá þeirri staðreynd að hann stendur hér í miklu málþófi, heldur geysilega langar ræður, er eiginlega einn á mælendaskrá og hleypur þess á milli upp í umræður um störf þingsins. Það er með ólíkindum að upplifa að sá flokkur sem fór hér mikinn í að tala illa um málþóf stendur í endalausu málþófi og er að reyna (Gripið fram í.) að segja fólkinu í landinu að þeir einir telji að það eigi að koma til hjálpar fólki og fyrirtækjum í landinu. Þvílík vitleysa, virðulegur forseti. (Gripið fram í.) Það er einmitt það sem allir flokkar vilja, allir flokkar vilja það en við viljum auðvitað líka gjarnan breyta stjórnarskránni, leggja það til að fólkið í landinu fái völd enda teljum við að valdið komi frá fólkinu (Forseti hringir.) en ekki úr Valhöll, virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Ég segi nei.



[12:53]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt að skilja þessa tillögu vegna þess að þau mál sem sjálfstæðismenn vilja taka á dagskrá eru á dagskrá. Þau eru öll á dagskrá. Það eina sem er (Gripið fram í.) er að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa raðað sér þannig á mælendaskrá að málin komast ekki á dagskrá. Ef raunverulegur vilji væri hjá hv. sjálfstæðisþingmönnum að taka þau á dagskrá mundu þeir að sjálfsögðu stytta mál sitt og tæma mælendaskrána mun fyrr. Þetta er staðreynd málsins og mikilvægt að — (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … fullkomin lítilsvirðing.)

Virðulegi forseti. Þetta liggur svona. Ef menn eru ósáttir við þetta gæti ég svo sem lesið upp þau átta mál sem eru á dagskrá, ef menn telja að ég fari hér með rangt mál. (Gripið fram í.) Þannig stendur þetta (Gripið fram í.) en ef ég skil rétt eru 25 þingmenn Sjálfstæðisflokksins á mælendaskrá, eða 26, og mér finnst mikilvægt, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að þeir fái að ljúka máli sínu (Forseti hringir.) og síðan höldum við áfram með dagskrána.



[12:54]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég styð að sjálfsögðu þá tillögu sem við greiðum atkvæði um vegna þess að það á að vera í forgangi að sinna málum sem varða heimilin og fyrirtækin. Ef þessi tillaga verður felld undirstrikar það að ríkisstjórnarflokkarnir eru með haustöfluhnykk á þinginu, þeir vilja ekki heyja kosningabaráttu í landinu, vilja ekki eðlilega kynningu, vilja ekki að stjórnmálamenn landsins fari um byggð og bæ og kynni það sem þeir vilja leggja áherslu fyrir komandi kosningar.

Ríkisstjórnin er með haustak á Alþingi til að koma í veg fyrir eðlilega kosningabaráttu á Íslandi í fyrsta skipti (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn …) í sögu lýðveldis á Íslandi. (Gripið fram í: Það eru ekki ríkisstjórnarflokkarnir sem …) Það eru ríkisstjórnarflokkarnir sem keyra með valdbeitingu gegn rökum og nota stjórnarskrána sem skjól (Gripið fram í.) til að dansa þennan dans. (Forseti hringir.) Stjórnarskráin er skjól og það er ekki mikil virðing fyrir stjórnarskránni að gera það.



[12:56]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þessi tillaga hér er einstök í sögu þingsins, að hér komi fram dagskrártillaga á miðjum þingfundi um dagskrá sem liggur fyrir. Öll málin sem hér er talað um eru á dagskrá en samt kemur tillaga um að dagskránni verði breytt. Auk þess eru 25 þingmenn úr þeim flokki sem ber upp óskina á mælendaskrá um það mál (Gripið fram í: 26.) (Gripið fram í: Enda málið mikilvægt.) sem sýnir einmitt hvað málið er mikilvægt og þess vegna þarf að ræða það og á að ræða það. [Hlátur í þingsal.] Þess vegna er algjör þversögn þegar sömu þingmenn koma hér, 25 á mælendaskrá, og segjast ekki vilja ræða málið. Þeir vilja fresta því að ræða málið. Þetta er svo fáránleg þversögn að það er viðkomandi flokki til háðungar.

Ég held samt að þessi atburður hér, að keyra fram á svona (Forseti hringir.) röngum og vitlausum forsendum breytingar á dagskránni — (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) það er bara dapurlegt að stærsti núverandi flokkur, vonandi verður hann ekki svona stór eftir kosningar, komi með þetta fram.



[12:57]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er samþykkur þeirri tillögu sem hér hefur verið borin undir atkvæði. Það er afar mikilvægt að það komi rækilega fram hér og nú hver vilji stjórnarþingmanna og stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar er í því að taka þau mál sem mikilvægust eru fyrir land og lýð á dagskrá þannig að við getum flýtt (Gripið fram í.) afgreiðslu málsins. [Háreysti í þingsal.] Það er mjög fróðlegt að heyra viðbrögð hjá hv. þingmönnum þegar þeir reyna að koma í veg fyrir að ég fái að gera grein fyrir atkvæði mínu. Það er mjög mikilvægt að þetta ákvæði þingskapanna sé til staðar og það sýnir hversu mikill styrkur það er fyrir þingmenn að geta átt leið til þess þegar óforsvaranlegar ákvarðanir um dagskrá þingsins eru teknar þannig að meiri hluti þingsins geti breytt dagskránni eins og hér er gerð tilraun til. (Forseti hringir.) Ég hvet hv. þingmenn til að taka tillit til þess (Forseti hringir.) um hvað við erum að greiða atkvæði. Við erum að gera greiða atkvæði um að koma mikilvægum málum (Forseti hringir.) í gegnum þingið.



[12:59]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að þingheimur sé sammála um tvennt í þessu máli, annars vegar að umræðan um stjórnarskrána er mikilvæg, það er eðlilegt að menn tjái sig um hana og reyndar tel ég skyldu þingmanna að ræða það mál til hlítar. Það höfum við sjálfstæðismenn gert. Jafnframt tel ég ágætan skilning á því að það þurfi að koma þessum málum hér í gegn, málum sem lúta að Helguvík og fleiri mikilvægum sem snúa að þeim málum sem skipta máli fyrir þjóðfélagið akkúrat núna.

Ég tel að við sjálfstæðismenn höfum lagt hér fram góða lausn á þessu máli, þ.e. að við snúum okkur strax í góðu samkomulagi að því að afgreiða þau mál sem virkilega skipta máli fyrir heimilin og atvinnulífið í landinu, göngum frá þeim hratt og örugglega, höldum síðan áfram að sinna skyldu okkar sem er að ræða um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. (Gripið fram í: Hvað segir …?) Það er fyrir neðan virðingu þingsins að tala eins og hér hefur ítrekað verið gert, að það sé eitthvert málþóf þegar menn ræða um stjórnarskrána. Ræður þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafa verið innihaldsríkar [Hlátur í þingsal.] og skipta töluvert miklu máli í þeirri umræðu sem hér er. Það getur vel verið að hv. þingmönnum, mörgum hverjum, þyki (Forseti hringir.) þetta skemmtilegt. Fæstir þeirra hafa þó haft þolinmæði til að sitja í salnum og fylgjast með (Forseti hringir.) þeim umræðum og kann að vera að þeirra eigin hugur (Forseti hringir.) valdi kátínu.



[13:00]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forseta fyrir að taka þetta mál á dagskrá og gefa þingheimi tækifæri til að greiða atkvæði um það. Við greiðum atkvæði um þá tillögu okkar sjálfstæðismanna að fresta eða setja síðar á dagskrá lið sem fjallar um stjórnarskrána og taka til umræðu önnur þau mál sem eru á dagskrá plús tvö önnur mál sem nefnd hafa verið, öll mikilvæg mál fyrir samfélagið í dag. Það kemur í ljós í atkvæðagreiðslu hvaða áherslur þingmeirihlutinn hefur, hvort hann vill afgreiða fljótt og vel þau frumvörp sem hér liggja fyrir og sátt er um sem eru til hagsbóta fyrir heimilin í landinu eða hvort menn vilja halda áfram því sem hér er, að ræða fyrst stjórnarskrána og síðan að taka fyrir þau mál sem skipta máli. Atkvæðagreiðsla mun leiða í ljós þá forgangsröð (Forseti hringir.) sem þingmenn vilja.



[13:01]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég greiði að sjálfsögðu atkvæði með þeirri tillögu að taka málin sem virkilega skipta máli í þjóðfélaginu í dag á dagskrá fram fyrir það mál sem augljóslega er ágreiningur um á Alþingi. Ef menn vilja leysa málin og greiða fyrir störfum þingsins er þetta lausnin. Það getur verið að hæstv. ríkisstjórn vilji ekki opinbera þann ágreining sem nú hefur komið fram og sést glögglega á minnihlutaáliti hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um Helguvíkurmálið þar sem hún leggst eindregið gegn því. Þetta er kannski liður í því að koma í veg fyrir að þjóðin fái að vita að vinstri grænir styðja ekki atvinnuuppbyggingu í þessu landi.

Ég neita því enn fremur, virðulegi forseti, að við sjálfstæðismenn stöndum í einhverju málþófi hér. Við erum 26 þingmenn og stöndum vörð um mesta og merkasta plaggið í stjórnskipan okkar, stjórnarskrá lýðveldisins. (Gripið fram í.) Þvert á það sem minnihlutastjórnin og stuðningsmenn hennar og fylgismenn halda fram ef menn skoða málið og kynna sér umsagnir þær sem liggja fyrir (Forseti hringir.) eigum við sjálfstæðismenn svo sannarlega skoðanabræður og -systur (Forseti hringir.) úti í þjóðfélaginu meðal þeirra sem láta sig málið varða. (Forseti hringir.) Við ætlum að standa með því fólki.



[13:03]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig talsverð hugmyndaauðgi hjá minni hlutanum að flytja tillögu um að breyta dagskrá sem forseti hefur sett upp með hefðbundnum hætti og ég tel að forseti Alþingis sýni mikið umburðarlyndi með því yfir höfuð að leyfa atkvæðagreiðsluna. Kosturinn við það er auðvitað sá að þá rennur væntanlega upp fyrir Sjálfstæðisflokknum að hann er í minni hluta. Það er staðreynd sem Sjálfstæðisflokkurinn á greinilega mjög erfitt með en er staðreynd engu að síður.

Það er gott að Sjálfstæðisflokkurinn vill sýna umhyggju fyrir heimilum og fyrirtækjum í landinu. Það er ákaflega verðmætt fyrir ríkisstjórnina að fá þann mikla gæðastimpil á fyrirliggjandi tillögur og frumvörp sem aftur og aftur hefur komið fram í ræðum sjálfstæðismanna, viljann til að taka fyrir þessi mál sem eru virkilega mikilvæg fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, sagði hv. þm. Illugi Gunnarsson. Hann á væntanlega við stórhækkun vaxtabóta, endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja og mikilvæga löggjöf um fjármálafyrirtæki og fjármálamarkaðinn svo dæmi séu nefnd. (Gripið fram í: Og Helguvík.) (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Það er ekki dónalegt að fá þann stimpil frá Sjálfstæðisflokknum að þetta séu virkilega mikilvæg mál fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. (Forseti hringir.) Þau komast á dagskrá um leið og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lokið (Forseti hringir.) málflutningi sínum í stjórnarskrárfrumvarpinu. (Gripið fram í.)



[13:04]
Karl V. Matthíasson (Fl):

Herra forseti. Ísland stendur frammi fyrir miklum vanda og það þarf að byggja upp landið á ný eftir að það hrundi, m.a. vegna þess að auðlindanýting á Íslandi hefur verið með eindæmum slæm og léleg og hefur leitt okkur til mikilla vandræða og vansældar. (Gripið fram í: Hvað meinarðu?) Eitt fyrsta atriðið sem við verðum að hafa á hreinu í uppbyggingunni er að breyta lögum og reglum og setja inn í stjórnarskrá að íslenska þjóðin eigi sínar auðlindir sjálf. (Gripið fram í: Rétt.) Þess vegna þarf að ganga frá þessu stjórnarskrármáli nr. 1, 2 og 3 og svo tökum við hin málin. Hættið þið sjálfstæðismenn að syngja hér og lesa upp hverja ræðuna á fætur annarri sem er nákvæmlega eins og sú síðasta sem flutt var á undan, (Gripið fram í.) hvert nefndarálitið á fætur öðru sem er nettengt og klifað hér á því sama (Forseti hringir.) sem sýnir Alþingi Íslendinga mikla óvirðingu. Það er alls ekki í anda tryggðarinnar sem sjálfstæðismenn þykjast (Forseti hringir.) sýna þjóðinni og landinu. Ég segi nei. (Gripið fram í: … fyrir Frjálslynda flokkinn.)



[13:05]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að benda á það að af töflunni virðist sem minnihlutaríkisstjórnin hafi náð því fram að við fjöllum hér í dag um stjórnarskipunarlög í staðinn fyrir að ræða t.d. um heimild til samninga um álver í Helguvík. Ég hlýt því að reikna með því að í þessari atkvæðagreiðslu komi fram sá gífurlegi ágreiningur sem er á milli þeirra flokka sem sitja í ríkisstjórn, Vinstri grænna og Samfylkingar, þar sem Samfylkingin og Vinstri grænir hafa ekki getað komið sér saman um sameiginlegt nefndarálit. Flokkarnir sitja þó saman í ríkisstjórn. Hérna endurspeglast sá ágreiningur (Forseti hringir.) sem er innan ríkisstjórnarinnar um hin stærstu mál. (Forseti hringir.) Það er merkilegt, hæstv. forseti, að forseti skuli ekki taka tillit til þess þegar hann raðar á dagskrá.



[13:07]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er í raun og veru ágætt að þjóðin fái að sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hagar sér um þessar mundir í þingsal Alþingis. Ef forseti getur fengið að lýsa atkvæðagreiðslunni innan skamms fáum við að vita hvernig hún hefur farið við þá ómálefnalegu tillögu sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram. 31 segir nei, aðeins 20 segja já. Sjálfstæðisflokkurinn mætir ekki einu sinni allur til leiks í þessa atkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: Láttu ekki svona.) (Gripið fram í.)

Þegar þessari atkvæðagreiðslu lýkur mun þjóðin áfram fá í boði Sjálfstæðisflokksins, (Gripið fram í.) og þar á meðal í boði fyrrverandi forseta Alþingis, áframhaldandi málþóf vegna þess að nú ættu þeir sem eru að horfa á sjónvarpið að taka sig til og telja. Nú munu koma 7, 8, 9, jafnvel 15, þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ræða um fundarstjórn forseta í framhaldi af þessari atkvæðagreiðslu. (Gripið fram í.) Hvað er þetta annað en málþóf, virðulegi forseti? Við höfum orðið (Forseti hringir.) vitni að því hérna að menn eru skikkaðir til að koma (Forseti hringir.) í ræðustól Alþingis, meira að segja óundirbúnir vegna þess að þeir vissu ekki að þeir ættu að vera (Forseti hringir.) næstir í málþófsræðum Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: … í umræðuna.) (Gripið fram í.)



[13:09]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti þakkar það traust sem hann fær þar sem hann ber ábyrgð á þeirri dagskrá sem var lögð fyrir fundinn. Samkvæmt 63. gr. er það forseti sem leggur upp dagskrá og það er einsdæmi að til atkvæða þurfi að koma um dagskrártillögu. Ég taldi sjálfsagt og eðlilegt að verða við þeirri ósk þegar hægt er að kalla alla til fundar til að geta haft atkvæðagreiðslu. Nú hefur þingheimur skorið úr um þessa tillögu og vona ég þá að dagskrá gangi fram með eðlilegum hætti í dag og fram á kvöldið og að við megum ljúka þessu dagskrármáli sem fyrst, koma því í eðlilegan farveg til nefndar þannig að hægt sé að fá eðlilega umfjöllun fyrir 3. umr. Að sjálfsögðu mun forseti sjá til þess að þau dagskrármál sem beðið hefur verið hér um verði áfram á dagskrá og komi til umræðu eins fljótt og auðið er.