136. löggjafarþing — 128. fundur
 7. apríl 2009.
um fundarstjórn.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:01]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Í umræðum um stjórnarskipunarlög sem eru númer 2 á dagskrá þess fundar sem hér liggur fyrir lagði hv. þm. og formaður Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í því skyni að greiða fyrir sáttum varðandi meðferð þess máls. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson formaður sérnefndar um stjórnarskrá tók vel í þá sáttaumleitun sem fram kom í máli hv. þingmanns og ég bind vonir við að sættir náist.

Á dagskrá fundarins kemur fram að áttunda mál á dagskránni er greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir heimilin í landinu og varðar greiðslubyrði heimilanna og greiðsluvandamál þeirra og úrræði til þess að bregðast við því.

Ég, sem einn af flutningsmönnum þessa frumvarps sem nefndarmaður í allsherjarnefnd, óska eftir því vegna þeirra hagsmuna sem í húfi eru fyrir heimilin í landinu í tengslum við þetta mál að forseti hlutist til um að það mál verði sett fyrst á dagskrá. Það eru flutningsmenn að þessu máli úr öllum (Forseti hringir.) stjórnmálaflokkum á Alþingi og ég vonast til þess að hæstv. forseti taki þessari beiðni minni vel svo ég þurfi ekki að leggja fram dagskrártillögu.



[11:03]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í mótmælunum í haust var mikil krafa um að lýðræði yrði aukið. Lýðræði út um allt og gagnsæi alls staðar. Hér liggja fyrir tvær tillögur þar sem meiri hluti alþingismanna eru flutningsmenn á. Að sjálfsögðu eiga slíkar tillögur að fara strax á dagskrá, herra forseti, vegna þess að meiri hluti Alþingis hlýtur að ráða. Það hlýtur að vera krafa þeirra sem vilja lýðræði að meiri hluti alþingismanna ráði á Alþingi.



[11:04]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna því mjög að fleiri og fleiri eru orðnir sammála mér um að það sé jafnbrýnt að taka á dagskrá málið um hvalveiðarnar og leggja fram öll rök, viðhorf og sjónarmið í því efni og fréttir af erlendum vettvangi, bæði frá mörkuðum og utanríkisþjónustu ýmissa þjóða sem við þurfum að eiga vingott við, að það sé jafnmikilvægt að taka þetta mál á dagskrá og hitt málið sem meiri hluti þingmanna stendur á bak við og var rætt áðan.

Það er hins vegar uppi sá misskilningur að ljónin í vegi þess að þetta mál verði tekið á dagskrá, sem ég teldi mjög æskilegt, séu með einhverjum hætti forseti þingsins eða stjórnarflokkarnir tveir. Svo er ekki. Forseti þingsins hefur upplýst að 1. flutningsmaður málsins hefur ekki æskt þess eða farið fram á að málið sé tekið á dagskrá, sem hann þarf að gera vegna þess að málsnúmerið er mjög hátt. Málið kom mjög seint fram. Meðan staðan er sú að hann eða aðrir flutningsmenn málsins vilja ekki að málið komist á dagskrá þá fer það ekki á dagskrá. Hvað sem sá sem hér í stólnum (Forseti hringir.) stendur óskar lengi eftir því. Þannig er málið. Maðurinn sem í vegi stendur heitir Einar K. Guðfinnsson, hv. þingmaður.



[11:05]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Við upplifum hér mikið málþóf og sérkennilegt ástand í þinginu. Það eru ekki nema átján dagar til kosninga og við þingmenn höfum ekki haft tækifæri til þess að fara út um kjördæmi okkar til þess að kynna það sem við erum að bjóða upp á og hvað við viljum gera eftir kosningar og ekki náð að komast í návígi við kjósendur okkar.

Ég hefði lagt til að þingforseti kannaði möguleika á því hvort ekki væri hægt hreinlega að fresta kosningum um einn mánuð til þess að gefa mönnum tækifæri til að tala um þau mál sem þeir vilja og allur sá fjöldi manna sem stendur fyrir málþófi hafi og fái tíma til að tala sig út um þessi mál og leiti möguleika á því að fresta kosningum um einn mánuð.



[11:06]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tek eindregið undir tillögu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um að þessum fundi verði slitið og að boðað verði til nýs fundar þar sem hægt er að raða dagskránni þannig upp að það mál sem allsherjarnefnd flytur og er tilbúið til afgreiðslu, greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, að það frumvarp geti komið til umræðu.

Ég treysti því, hæstv. forseti, að það verði horft á þá hagsmuni sem fjölskyldurnar í landinu hafa af þessu máli og því verði lokið hér. Ég óska eindregið eftir því að hæstv. forseti taki tillit til þeirra óska sem fram hafa komið um að boðað verði til nýs fundar.



[11:07]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér upp og taka undir það sjónarmið sem kom fram hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur sem talaði á undan mér. Mér finnst hrein nauðsyn í því að sú tillaga sem allsherjarnefndin er einhuga um að flytja og er afar mikilvægt mál er varðar greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði verði tekin til umræðu á undan stjórnarskipunarlögunum sem við vitum öll að þarf að ræða mjög vel og vandlega.

Þetta er mál sem getur hjálpað heimilunum í landinu og það er það sem verið er að kalla eftir og verið að bíða eftir. Ég tel því einsýnt að þegar um er að ræða mál sem greinilega er mikil samstaða um þar sem nefndin flytur þetta mál sameiginlega að við hljótum að geta orðið sammála um að færa það fram í dagskránni.



[11:09]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Eins og aðrir þingmenn sem hér hafa talað tek ég undir tillögu hv. þingmanns, Sigurðar Kára Kristjánssonar. Ég á einnig sæti í allsherjarnefnd og við höfum unnið mjög mikið í þessu máli á undanförnum vikum og teljum að komin sé niðurstaða sem geti gagnast ákveðnum hópi heimila í landinu mjög vel.

Hér er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir þau heimili sem í hlut eiga og það væru vissulega skýr og góð skilaboð frá þinginu ef þetta mál yrði tekið fram fyrir deilumál eins og stjórnarskipunarlögin og afgreitt hratt og örugglega. Ég held að það væri mjög mikilvægt innlegg af hálfu okkar þingmanna að auka bjartsýni hjá almenningi í landinu sem vissulega hefur þungar áhyggjur af þeirri stöðu sem uppi er í efnahagsmálum, sérstaklega hvað varðar skuldastöðu heimilanna.



[11:10]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég hef ekki fengið svör við óskum mínum um að þessum fundi verði slitið og boðað til nýs fundar með nýrri dagskrá þar sem fyrsta mál á dagskrá verði greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Ég er flutningsmaður þessa máls ásamt öllum hv. þingmönnum í allsherjarnefnd. Ástæðan fyrir því að þverpólitísk samstaða skapaðist um þetta mál er mikilvægi þess fyrir heimilin í landinu.

Ég hreinlega trúi því ekki að hæstv. forseti og þingheimur allur geti ekki fallist á að þetta mál um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði verði ekki tekið hér fyrir sem fyrsta mál á dagskrá þessa þings. Ég óska eftir því að fundinum verði slitið, eftir atvikum boðað til fundar með (Forseti hringir.) formönnum þingflokka og boðað til nýs fundar. Ellegar mun ég leggja fram skriflega dagskrártillögu þar sem ég mun óska eftir breytingu á dagskrá þessa fundar.



[11:11]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir beiðni hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Nú er það svo að vandi íslenskra íbúðareigenda magnast með hverjum deginum sem líður. Þeim sem fylgjast með gengi íslensku krónunnar sjá að það lækkar í gríð og erg og magnar það mjög vandann hjá fjölda heimila í landinu.

Þess vegna er alveg gríðarlega nauðsynlegt að Alþingi einbeiti sér að því að vinna í lausnum fyrir fólkið í landinu, fyrir heimilin. Nú förum við sjálfstæðismenn enn á ný fram á það við virðulegan forseta að gert verði hlé á umræðunni um stjórnarskrána og tekin fyrir mál sem skipta svo gríðarlega miklu máli fyrir heimilin og þau afgreidd í góðri sátt. Það mál sem hér er verið að ræða hefur að baki sér alla þá nefnd sem afgreiddi málið fyrir skömmu. (Forseti hringir.) Það er engin afsökun fyrir því að bjóða þjóðinni upp á þau vinnubrögð (Forseti hringir.) sem nú tíðkast hér í sölum Alþingis.



[11:13]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég tel að það færi vel á því að hæstv. forseti settist niður með þingflokksformönnum og ræddi um þetta mál, þá tillögu sem hér hefur komið fram.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur boðað að hann muni leggja fram dagskrártillögu um málið. Hugsanlega er hægt að leysa málið án þess að til atkvæðagreiðslu komi. En það er auðvitað undir því komið að hæstv. forseti hafi forgöngu um að leysa málið.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi málsins. Það hefur verið nefnt hér í umræðunni. En það er með ólíkindum að ríkisstjórnin og þeir flokkar sem henni fylgja að málum hér í þinginu skuli ætla að keyra þetta stjórnarskrármál í gegn og ýta öllum öðrum málum út af borðinu á meðan. Brýnum málum fyrir hagsmuni heimilanna eins og í þessu tilviki og öðrum málum sem snúa að hagsmunum fyrirtækjanna. Það er alveg með (Forseti hringir.) ólíkindum sá ofsi og sú óbilgirni sem ræður ferðinni hjá ríkisstjórnarforustunni og fylgismönnum hennar hér á hv. þingi.



[11:14]
Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni. Þannig háttar til að hér í morgun komu þingmenn bæði úr stjórnarliðinu og stjórnarandstöðunni og lögðu fram tillögur um að dagskránni verði breytt. Það hefur verið óskað eftir því að þrjú mál yrðu tekin á dagskrá og þau rædd á undan þeim málum sem fyrr eru á dagskránni.

Ég tel að oft hafi verið minna tilefni til þess að fresta fundi og halda fund með þingflokksformönnum til að fara yfir það hvað sé dagskrá sem þinginu sé þóknanlegt að ræða.



[11:15]
Forseti (Kjartan Ólafsson):

Forseti hefur dagskrá fundarins sem var dreift hér í morgun. Hún liggur fyrir og engin önnur tillaga liggur fyrir forseta.



[11:16]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil benda á að borin hefur verið fram skrifleg tillaga um að fundi skuli slitið núna og boðað til nýs fundar þar sem tilgreind mál, í fyrsta lagi mál sem snúa að greiðsluaðlögun fasteignaveðlána og í öðru lagi loftslagsmálin og í þriðja lagi hvalamálið, verði rædd. Allt eru þetta mál sem snúa að fjölskyldum og atvinnulífi og nú þegar hefur verið óskað eftir þessu. Ég óska eindregið eftir því að forseti úrskurði um það hvort hann muni slíta fundi og boða nýjan fund með þessum málum þar sem þau eru á dagskrá.

Ég geri mér grein fyrir því að væntanlega vill forseti láta greiða atkvæði um þetta og mér finnst eðlilegt (Forseti hringir.) að forseti geri stutt hlé á fundinum þar sem verði komist að niðurstöðu um hvernig þessu verði hagað.



[11:17]
Forseti (Kjartan Ólafsson):

Forseti hefur ekki fengið neina skriflega tillögu um dagskrárbreytingu (Gripið fram í.) þannig að eina tillagan sem liggur fyrir forseta er sú sem dreift var í morgun. Það er því sú tillaga sem forseti hefur og aðrar ekki. Á meðan ekki berst skrifleg tillaga til forseta getur forseti ekki tekið slíka tillögu fyrir.



[11:17]
Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Það virðist vera einhver misskilningur í stöðunni. Lögð hefur verið fram önnur tillaga þó að hún hafi kannski ekki borist forseta í forsetastól, hún hefur þá verið lögð fram á skrifstofu. Væntanlega hefur hún borist forseta núna, ef mér skjátlast ekki. Þá ætti að vera til tillaga sem hægt væri að fresta fundi út af og boða til fundar með þingflokksformönnum og ræða um framhald málsins, hvort sátt náist um nýja dagskrá í anda þess sem þingmenn úr stjórnarliðinu og stjórnarandstöðu hafa lagt til eða hvort rétt er að greiða atkvæði um dagskrártillöguna.



[11:18]
Forseti (Kjartan Ólafsson):

Forseta hefur borist svohljóðandi dagskrártillaga:

„Ég geri það að tillögu minni skv. 1. mgr. 63. gr. þingskapalaga að þingmál nr. 461, um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, verði sett fyrst á dagskrá 128. þingfundar 7. apríl. Þingsályktunartillaga um loftslagsmál og þingsályktunartillaga um hvalveiðar bætist einnig við á dagskrá en umræðu um stjórnarskrárfrumvarpið fari aftast. Ég fer fram á að tillagan verði tekin til atkvæðagreiðslu og dagskrá fundarins verði því þannig:

1. Greiðsluaðlögun.

2. Heimild til samninga um álver í Helguvík.

3. Tekjuskattur.

4. Hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

5. Endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

6. Fjármálafyrirtæki.

7. Breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

8. Tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

9. Veiðar á hrefnu og langreyði.

10. Listamannalaun.

11. Stjórnarskipunarlög.“

Undir þessa dagskrártillögu skrifar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson.



[11:20]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þingreynsla mín er ekki mikil enda er ég varamaður hér á þinginu að þessu sinni, en 1. mgr. 63. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forseti boðar þingfund og ákveður dagskrá hvers fundar.“ Það er meginmálið.

Síðan stendur hér: „Þó má ákveða dagskrá næsta fundar eftir ályktun þingsins.“

Þetta var gert í gær, sá ég, þá var borin hér upp dagskrártillaga, reyndar um dagskrá þess fundar sem þá stóð yfir. Nú er borin fram önnur dagskrártillaga í dag um dagskrá þessa fundar sem á að slíta og síðan um dagskrá næsta fundar.

Ég óska eftir því að þingreyndir menn, starfsmenn þingsins og þeir sem lengst hafa setið hér, geri okkur grein fyrir því hvaða skýringar eru á bak við aðra setninguna um að ákveða dagskrá næsta fundar eftir ályktun þingsins, því að allir sjá að það er gjörsamlega útilokað að halda uppi þingstörfum hér ef taka á til afgreiðslu fjölda dagskrártillagna (Forseti hringir.) um þann fund og hina næstu á hverjum fundi. Það er bara leið til þess að eyðileggja þingstörfin og það er greinilega það sem vakir fyrir flutningsmanni (Forseti hringir.) þessarar tillögu og félögum hans í Sjálfstæðisflokknum sem halda hér uppi málþófi og koma í veg fyrir að þingið geti gengið sinn gang.



[11:21]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni, það er bersýnilegt að hér beitt öllum brögðum til þess að reyna að trufla og eyðileggja það að þingstörf geti gengið eðlilega fyrir sig.

Í gær var lögð fram dagskrártillaga um, eins og ég skildi hana, dagskrá þessa fundar sem stendur yfir núna. (Gripið fram í: Nei.) Hún var felld. Að sjálfsögðu var hún um dagskrá næsta fundar, það var þannig sem forseti las hana upp og það er í samræmi við þingsköp, og ég vona að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir vilji halda sig við þingsköpin.

Tillaga um dagskrá fundarins í dag var felld og þess vegna á þessi fundur að sjálfsögðu að halda áfram eins og forseti hefur lagt dagskrána upp. Ef menn vilja endilega koma með dagskrártillögu um dagskrá næsta fundar, sem er þá væntanlega á morgun, geta menn gert það í lok dags. Dagskrá þessa fundar hlýtur að eiga að halda áfram (Gripið fram í.) í samræmi við þá dagskrá sem forseti hefur lagt fram og í samræmi við þingsköp, virðulegi forseti. (Gripið fram í.)



[11:22]
Forseti (Kjartan Ólafsson):

Forseti vill geta þess að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur komið með smábreytingu á tillögu sinni þar sem segir að hann eigi við 129. fund (ÁÞS: Já, það er þessi.) og það er næsti fundur. (Gripið fram í: Það er næsti fundur.)

(ÁÞS: Eigum við þá ekki bara að halda áfram þessum fundi eins og lagt var upp með í gær?) Forseti hyggst beita sér fyrir því að formenn þingflokka fari yfir málin en við höldum enn áfram fundi.



[11:23]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir okkur tillaga um að slíta yfirstandandi fundi og boða til nýs fundar með breyttri dagskrá. Sú dagskrá sem lagt er til að verði þar til umræðu snýr að málefnum sem snúa að atvinnulífinu og heimilunum í landinu. Við vitum að í þessari minnihlutastjórn er ágreiningur um þessi mál, við vitum að stjórnarliðar eru ekki samstiga þegar kemur að því að efla atvinnulífið í landinu og að hjálpa heimilunum. Það eru þau mál sem við sjálfstæðismenn viljum setja í forgang og út á það gengur dagskrártillagan. Hún gengur út á að við snúum okkur aftur að þeim málum sem skipta einhverju fyrir heimilin, að við hjálpum þessari ríkisstjórn, sem er hálffötluð í starfi sínu, við að koma á dagskrá (Gripið fram í.) þeim málum sem hún hefur lofað þjóðinni (Gripið fram í.) að beita sér fyrir.

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja þig til þess (Forseti hringir.) að slíta þessum fundi og boða til fundar formanna þingflokkanna (Forseti hringir.) og reyna að fá niðurstöðu í þetta mál.



[11:25]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er ekki mikill kunnáttumaður um þingskapalögin og ætla ekki að fara að vegast hér á um túlkun einstakra greina í þeim. Það sem ég sé þó er að ef heldur fram sem horfir er starf Alþingis komið í ógöngur vegna þess að ósvífinn minni hluti getur truflað hvern einasta fund Alþingis með endalausum dagskrártillögum, ósvífinn minni hluti undir forustu hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur (Gripið fram í.) getur stöðvað hvern einasta fund með sífelldum dagskrártillögum og komið í veg fyrir að (Gripið fram í.) Alþingi Íslendinga, sem þjóðin kýs til tiltekinna verka, geti klárað þau verk. Það er óháð Arnbjörgu Sveinsdóttur sem þorir ekki að ræða hlutina sem hér eru á dagskrá en tönnlast á sömu setningunni sífellt og ætíð, enda hefur hún flutt sömu ræðuna fimm sinnum hér í tilteknu máli. (Gripið fram í.)

Þjóðin ætlast ekki til þess að þessum þingmanni haldist uppi að eyðileggja verk hinna 62 þingmannanna sem (JónG: … varamann …) Já, það getur Arnbjörg auðvitað gert, hún getur kallað inn varamann. (Gripið fram í.)

Forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson vekur athygli á því að Arnbjörg Sveinsdóttir geti kallað inn varamann. Það er ábending sem mér kemur ekki við. Það er alveg augljóst, forseti, (Forseti hringir.) að með þessari túlkun á þingsköpunum eru störf Alþingis í uppnámi. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér með þessu (Gripið fram í.) að setja störf Alþingis í uppnám og það er ekki tilgangur þessara laga (Gripið fram í.) sem ég held hér á. (JónG: … finna formsatriði.) Ég þakka Jóni Gunnarssyni fyrir ákafa þátttöku í þessari ræðu minni. (JónG: Það er ekkert að þakka, það var velkomið.)



[11:27]
Forseti (Kjartan Ólafsson):

Forseti verður að biðjast velvirðingar á því að það er vandamál með klukkuna, tölvumál, þannig að hv. þingmaður fékk meiri tíma en ætlað var.



[11:27]
Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Þar sem ég er næstur á mælendaskrá til þess að ræða um stjórnarskrármálið hafði ég hlakkað til þess að koma í fyrsta skipti í þær umræður í björtu en hingað til hafa þetta verið alinlangar næturumræður. Mér þykir því miður ef þær umræður frestast en get vel skilið áhuga félaga minna sem hér hafa talað um að taka önnur mál á dagskrá sem mjög brýnt er að afgreiða. Ég mun því styðja þá dagskrártillögu sem hér liggur fyrir, sem ég tel að samkvæmt almennum fundarsköpum eigi að bera þá þegar undir atkvæði. Það mun þó eitthvað vera á reiki hvernig það er gert.

Við hv. þm. Mörð Árnason vil ég segja að það er ekki hægt að nota orðbragð eins og að tala um ósvífinn minni hluta. Hvað er verið að tala um? Hér er eingöngu verið að neyta lýðræðislegs réttar og það er spurningin um hvort meiri hluti Alþingis styður þá dagskrártillögu sem hér er borin fram. Er það einhver ósvífinn minni hluti? Nei, það er spurning um hvort það er meiri hluti fyrir því á Alþingi að styðja dagskrártillöguna. Það er hið einfalda í málinu. (Gripið fram í.)



[11:28]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Á dagskrá þessa fundar liggja ýmis brýn mál. Það eru mál sem eru ekki aðeins sanngirnismál, mörg hver, réttlætismál, heldur eru það mál sem full samstaða ríkir um, mál sem komin eru frá nefndum og þurfa að fá afgreiðslu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú í nokkuð marga sólarhringa, í 40 klukkustundir samtals af þingtímanum, komið í veg fyrir að gengið verði þannig frá stjórnarskipunarlögum að hægt verði að greiða um þau atkvæði og koma til nefndar. Þessi síðasta uppákoma núna er viðbót við líklega sjö klukkutíma þvarg um fundarstjórn forseta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir, 300 ræður um fundarstjórn forseta. Hversu lágt geta menn lagst?



[11:30]
Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. 8. mál á dagskrá er eitt það merkasta sem liggur fyrir í þinginu núna, mál sem allsherjarnefnd flytur í heild sinni um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Það er mál sem breið samstaða er um á þingi og rætur sínar að rekja til vinnu sem fór fram í allsherjarnefnd í vetur.

Að mínu áliti er afar brýnt, frú forseti, að málið komist á dagskrá hið allra fyrsta og ég held þess vegna að ástæða sé til þess að taka undir það sem kom fram hjá hæstv. forseta áðan, að kalla verði á fund þingflokksformanna þar sem lagt verði til að slíta þeim fundi sem hér stendur og boða til nýs fundar þar sem þetta mál verður tekið á dagskrá og afgreitt fljótt og vel.

Hér er um að ræða mál sem skiptir öllu máli fyrir fjölskyldurnar í landinu og það er það sem við eigum að vera að ræða núna. Það eru einmitt svona mál sem við eigum að afgreiða. Það liggur alveg fyrir að samstaðan um málið er breið, frú forseti, og ég brýni forseta til þess að taka það til athugunar þannig að við getum skoðað málið hratt og vel í dag. (Forseti hringir.)



[11:31]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg fyrir að það er mikill áherslumunur hjá Sjálfstæðisflokknum annars vegar og minnihlutaríkisstjórninni hins vegar um það hvaða mál beri að setja í forgang á Alþingi.

Það liggur einnig fyrir að það er mikill ágreiningur í samfélaginu öllu vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru og liggja fyrir í frumvarpi um stjórnarskrá Íslands, um stjórnarskrá okkar. Það er ljóst að við sjálfstæðismenn ætlum að beita okkur fyrir því að því máli muni ekki ljúka með þeim hætti og í þeim mikla ágreiningi sem er um málið. (Gripið fram í: Ertu að hóta?) Það er engin hótun í því, hv. þingmaður. Það er bara staðreynd málsins. Við ætlum að standa vörð um þjóð og stjórnarskrá í þessu landi.

En við viljum taka á dagskrá þau mál sem skipta máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og við viljum keyra þau í gegn með ykkur. Þó að við þyrftum að vinna alla dymbilvikuna (Forseti hringir.) með ykkur erum við tilbúin til þess og við biðjum ykkur að koma í þá vegferð með okkur (Forseti hringir.) og ljúka þeim málum sem minnihlutaríkisstjórnin hefur ítrekað lofað fólkinu í þessu landi. (Forseti hringir.) Hitt liggur fyrir að við munum halda áfram að verja stjórnarskrána og beita okkur fyrir því að málið verði ekki afgreitt með þeim breytingum sem svo djúpur ágreiningur er um.



[11:32]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Mér finnst dapurlegt að fylgjast með framgöngu sjálfstæðismanna í þessari umræðu þar sem þeir beita með mjög markvissum hætti málþófi hér á þingi. Ég vil minna á að við erum einungis í 2. umr. um breytingar á stjórnarskipunarlögum. Lagafrumvörp sem þessi þurfa að fara í gegnum þrjár umferðir og fá þinglega meðferð. (Gripið fram í.) Við gætum klárað þá umræðu fljótt og vel og tekið önnur brýn mál fyrir. Væntanlega færu breytingar á stjórnarskránni inn í nefnd aftur á milli umræðna, ég býst við því.

En mér finnst sorglegt að fylgjast með framgöngu Sjálfstæðisflokksins hér þar sem hann reynir að tefja umræðu um mikilvæg mál eins og stjórnarskrána og um vanda heimila og fyrirtækja. Það er leitt að sjá hvernig fyrir þessum þingflokki er komið. (Gripið fram í.)



[11:34]
Björn Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason kom í ræðustól og sagði að þinghald stefndi í óefni vegna þess að hér væri flutt dagskrártillaga. Við sjálfstæðismenn erum algjörlega sammála því sjónarmiði, að þinghald sé komið í óefni vegna þess hvernig staðið er að fundarstjórn. Við höfum í marga sólarhringa hvatt til þess að hæstv. forseti haldi þannig á málum að hann nái sátt um dagskrá þingsins. Það hefur ekki verið gert og þess vegna flytjum við þessar tillögur.

Eina leiðin fyrir hæstv. forseta til að koma á viðunandi starfsháttum á þinginu er að semja um dagskrá þingsins og komast að niðurstöðu í samkomulagi við okkur um hvernig dagskránni verður háttað. (Gripið fram í: … Hvaða hótanir eru þetta?)



[11:35]
Forseti (Þuríður Backman):

Nú er rúmur klukkutími liðinn frá því að þessi þingfundur hófst og enn er annað dagskrármálið ekki komið á dagskrá, um stjórnarskipunarlög. (Gripið fram í.) Við erum ekki komin í annan dagskrárlið. Við erum enn, eftir klukkutíma, að ræða fyrsta dagskrármálið, Störf þingsins.

Fram hefur komið dagskrártillaga og forseti hyggst hafa sama hátt á og í gær þegar sams konar tillaga kom fram. Forseti leggur til að gefið verði svigrúm til að þingflokksformenn geti hist og farið yfir stöðu mála og komi til atkvæðagreiðslu. Verður þá gefið svigrúm til þess að þingmenn komi til að greiða atkvæði, ef til þess kemur.