136. löggjafarþing — 130. fundur
 8. apríl 2009.
um fundarstjórn.

mál á dagskrá, lengd þingfundar o.fl.

[10:02]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Dagskrá undanfarinna daga hefur orðið tilefni til þess að maður hefur undrast það hvernig forseti hefur raðað upp dagskrá. En það er ekki síður í dag þegar búið er að ryðja út af dagskrá þingsins þeim hefðbundnu liðum sem við byrjum alltaf á, sem eru annaðhvort óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra — en það hefði verið mjög vel við hæfi núna á síðasta degi fyrir páska að geta beint spurningum til hæstv. ráðherra og í öðru lagi ef ráðherrar víkjast undan því að svara spurningum þingmanna þá hefði verið í lófa lagið fyrir hæstv. forseta að hafa á dagskrá liðinn Störf þingsins.

Það er gert er ráð fyrir því alla þingdaga að við byrjum annaðhvort á liðnum Óundirbúnar fyrirspurnir eða Störf þingsins. Þess vegna vil ég inna hæstv. forseta eftir því hvað hann hyggist fyrir í áframhaldandi þinghaldi. Er hann að umturna öllum okkar venjum og þingsköpum með stjórn sinni?



[10:03]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég átti von á því að fundir mundu byrja í dag annaðhvort með umræðu um störf þingsins eða öllu heldur og mun frekar jafnvel óundirbúnum fyrirspurnum því það er full ástæða til að beina fyrirspurnum til hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég átti von á því að hann yrði hér í dag þar sem hann var ekki á mánudaginn var. Í dagblöðunum í dag eru ýmsar fréttir sem þörf er á að bera undir hæstv. ráðherra og m.a. eru fréttir á forsíðu Fréttablaðsins í dag um lífeyrissjóðina sem hugsanlega munu koma að fjármögnun á byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss. Síðan höfum við þingmenn ítrekað gengið eftir því hvað líði fjárlögum, líði áætlun um niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni. Það hefur verið afar fátt um svör og það kemur fram í dagblöðunum í dag að á fundi með heilbrigðisstarfsmönnum í gær hafi engin svör fengist um áætlanir ráðherra um hvernig standa eigi að niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni og jafnvel eru upplýsingar um hækkun lyfjakostnaðar. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég sakna þess að fá ekki tækifæri í dag til að beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra.



[10:04]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti ákvað að sleppa þessum dagskrárlið í von um að við gætum drifið áfram störf þingsins. Það er auðvitað kominn sá tími að við þurfum að fara að ljúka þinginu og það er mikilvægt að koma þeim málum sem hér hafa verið til umræðu áfram.

Ég vil líka upplýsa að forseti mun hitta formenn þingflokkanna í hádegishléi og ræða fundahöldin í dag og reyna að ná samkomulagi um það hvernig við förum með mál þannig að við getum farið að ljúka þessu vetrarþingi.



[10:05]
Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Hér erum við í dymbilvikunni, það er skírdagur á morgun og mér skilst að þetta sé í fyrsta skipti sem þing er haldið á miðvikudegi fyrir skírdag. (Gripið fram í.) Það kann að vera misskilningur, hv. þm. Mörður Árnason veit þá betur en mér skilst alla vega að það muni vera fátítt. Ég spyr þess vegna þar sem margir hafa gert ráð fyrir að verja deginum með öðrum hætti, hvað er meiningin að fundur standi lengi í dag? Það skiptir gríðarlega miklu máli að við fáum upplýsingar um það hvað fundur á að standa lengi fram eftir deginum í dag. Það er ekkert vandamál að vera hér ef þess er óskað en ég spyr forseta vegna þess að hann ræður því með hvaða hætti og hvernig hann hagar störfum þingsins. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu er það ekki þannig, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, að við ráðum því með hvaða hætti þinghald er. Það er í höndum forseta þingsins og þess vegna spyr ég forseta þingsins: Hvað á þingið að standa lengi áfram í dag?



[10:06]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti hefur þegar svarað því að hann mun á fundi kl. eitt með formönnum þingflokka ákveða það.



[10:07]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka það að forseti hyggist hafa eitthvert samráð við þingflokksformenn um það hvernig eigi að ljúka þinghaldinu fyrir páska. Það er þá kannski von til þess að fá fréttir af því hjá forseta á þeim fundi hvernig hann hyggist yfir höfuð ljúka þessu þinghaldi eða er hæstv. forseti að gefa það í skyn að hann muni ljúka þinghaldi á þessum degi eða þessum sólarhring? Það væri áhugavert að fá að vita það.

En ég ítreka að ég hefði talið að það væri við hæfi að geta borið fram fyrirspurnir til hæstv. ráðherra sem hafa sýnt þinginu þann heiður að mæta í þingsalinn, þ.e. hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra. En það eru ekki aðrir sem hafa sýnt sig hér og hafa ekki verið að sýna sig þótt þannig standi á hjá þessum hæstv. ráðherrum að mæta núna, þeir hafa ekki verið mjög duglegir fram að þessu en (Forseti hringir.) ég vil hrósa þeim núna.



[10:08]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Mér þykir það mjög miður að menn ætli ekki að láta ráðherrana svara fyrir það sem þeir eru að gera. (Gripið fram í: … bara ekki að gera neitt.) Það er einmitt vandamálið. Hæstv. ráðherrar virðast ekki gera neitt. Nú er gengi krónunnar t.d. í frjálsu falli og ég vildi gjarnan spyrja hæstv. viðskiptaráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra hverju það sætir og hvort þeir viti eitthvað meira en við um það hvað er að gerast á gjaldeyrismarkaði. Þetta skiptir þjóðina verulega miklu máli. (Gripið fram í.) Herra forseti, ég fæ ekki að tala fyrir gjammi. Þetta skiptir verulega miklu máli fyrir þá sem skulda í erlendri mynt og mér finnst að ráðherrarnir skuldi þinginu upplýsingar.

Menn hafa líka mikið talað um ráðherraræði og að ráðherrarnir stjórni öllu og þingið sé ekki nógu sterkt. Mér finnst að forseti sé einmitt að gangast inn á það með því að láta ráðherrana ekki svara fyrir eins og venja er til.