136. löggjafarþing — 131. fundur
 14. apríl 2009.
gengi krónunnar.

[13:32]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir fáeinum dögum ræddum við á þinginu og voru samþykkt lög til að styðja betur við þau gjaldeyrishöft sem eru í gildi á Íslandi. Við í Sjálfstæðisflokknum sátum hjá við þá atkvæðagreiðslu á þeirri forsendu að þeirri ríkisstjórn sem nú ræður för mistekst algerlega að fást við það verkefni að styrkja krónuna. Þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar sem féllu hér um mikilvægi þess að gera breytingar á Seðlabankanum, þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar um að ný ríkisstjórn mundi endurvinna traust og endurskapa traust á því sem þar var að gerast og í opinberum fjármálum heldur gengi krónunnar áfram að falla. Frá því að þessi ríkisstjórn tók við störfum hefur gengi krónunnar fallið um 16% síðan 1. febrúar, 16% fall á gjaldmiðlinum síðan 1. febrúar. Þetta er allur árangurinn. (Gripið fram í: Hvað féll …?) Þetta er nú allur árangurinn af starfi nýju ríkisstjórnarinnar við að endurvinna traust á efnahagsmálum, að vinna okkur út úr vandanum. Það stefnir í fleiri gjaldþrot (Gripið fram í: Þetta heitir að snúa vörn í sókn.) og það stefnir í að nú skelli að nýju verðbólgubylgja á okkur sem getur komið í veg fyrir það að Seðlabankinn geti lækkað vexti.

Hvað er þessi ríkisstjórn að gera til að hindra þessa atburðarás, að stöðva frekara fall krónunnar?



[13:34]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég var að rifja upp í huganum þegar gengi krónunnar hrundi á útmánuðum ársins 2008 og náttúrlega hið mikla áfall í haust, þá ræddu menn það auðvitað og höfðu af því miklar áhyggjur en ég man ekki eftir svona einföldum málflutningi þá, að menn hafi talið að þetta væri allt því að kenna að ríkisstjórnin hefði ekki í sínum höndum að kippa þessum hlutum í lag með einföldum hætti. Það væri fróðlegt að heyra það frá hv. málshefjanda: Hvað telur Sjálfstæðisflokkurinn að betur hefði mátt fara í þessum efnum, hvernig hefði Sjálfstæðisflokkurinn staðið að málum? (Gripið fram í.) Er Sjálfstæðisflokkurinn t.d. að mæla með því að við notum verulegan gjaldeyrisforða til að reyna að lyfta gengi krónunnar tímabundið?

Að sjálfsögðu eru það vonbrigði að krónan skuli hafa veikst aftur. Á því eru ýmsar skýringar, gjalddagar og vaxtaafborganir. Það er líka greinilega þannig að lengri gjaldfrestir útflutningsfyrirtækja þýða hægari skil gjaldeyris til baka. Birgðasöfnun hefur þarna áhrif og margt fleira sem leggst saman og veldur því að viðleitnin til að styrkja og koma stöðugu gengi á krónuna er erfiðari glíma en menn höfðu verið að vona.

Það hefur þó náðst að sjálfsögðu sá árangur að vaxtalækkunarferli er hafið og vextir munu lækka núna hratt hjá fjármálastofnunum sem hafa í raun og veru beðið eftir því tækifæri. Það eru ágætar ástæður til að ætla að gengi krónunnar styrkist á nýjan leik núna á fyrri hluta og fram á mitt ár. Þá eru að vísu aftur allþungir gjalddagar þannig að þetta er viðvarandi viðfangsefni að reyna að ná tökum á ástandinu en það er ekki þannig að menn hafi í sínum höndum einföld úrræði til að kippa þessu í liðinn nema þá ef það væri það eitt að taka áhættuna af því að nota í stórum stíl dýrmætan gjaldeyrisvaraforða til að kaupa upp gengi krónunnar.



[13:37]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rangt sem hér er haldið fram að það þurfi í stórum stíl að nota gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans til þess að styðja við gengi krónunnar. Staðreyndirnar tala sínu máli. Með litlum minni háttar inngripum í gjaldeyrismarkaðinn hafði Seðlabankinn mikil áhrif. Það sem hefur í millitíðinni gerst er að Seðlabankinn er horfinn af vettvangi. Nýi seðlabankastjóri ríkisstjórnarinnar hefur greinilega tekið ákvörðun og nýja peningamálastjórnin sem núna er rekin í Seðlabankanum, það er nýja stefnan (Gripið fram í.) að hverfa af vettvangi og leyfa krónunni að falla í frjálsu falli. 16% lækkun síðan 1. febrúar er árangur þessarar ríkisstjórnar og það þýðir ekkert að koma hingað upp núna, eftir allar yfirlýsingarnar sem féllu um að menn ætluðu að fara að menn ætluðu að fara að endurvekja hér traust og það mundi bjarga okkur út úr vandanum, og tala eins og ekkert sé hægt að gera. Þessari ríkisstjórn er gersamlega að mistakast stóra verkefnið, stóra loforðið er að engu orðið um að hér mundi allt lagast þegar lögum um Seðlabankann yrði breytt og (Forseti hringir.) þangað kæmi inn nýr seðlabankastjóri. Staðreyndin er sú að vextir munu ekki lækka (Forseti hringir.) ef krónan heldur áfram að gefa sig.



[13:38]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Kannski við fáum sjálfstæðismenn til að kenna okkur hvernig á að gera þetta. (Gripið fram í: Já, já.) Var það ekki Seðlabankinn sem fór á hausinn og þurfti að endurfjármagna upp á 270 milljarða kr.? Er ekki banka- og efnahagshrunið að leggja gríðarlegar byrðar á þjóðarbúið og þar með talið ríkissjóð? Þarf ekki að endurfjármagna allt bankakerfið? Svo kemur formaður Sjálfstæðisflokksins með mikinn hávaða og talar eins og sá sem valdið hefur og það sé einhver sérstakur aumingjaskapur að vera ekki búinn að kippa þessu öllu í liðinn. (BjarnB: Á að gefast upp?) Engar tillögur, ekki neitt annað en þá það að taka áhættuna af því að ráðstafa dýrmætum gjaldeyrisforða í tímabundnar aðgerðir til að lyfta upp gengi krónunnar. Er það það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill að ríkisstjórnin geri núna dagana (Gripið fram í.) fyrir kosningar? Það er ábyrgð og yfirvegun, hagstjórn sem tekur mið af erfiðum aðstæðum í þjóðarbúinu og því að við erum ekki í aðstöðu til að taka áhættuna af því að tapa í viðbót við hrunið í boði Sjálfstæðisflokksins dýrmætum gjaldeyrisforða í tilraunir sem kannski mundu ekki heppnast til þess að lyfta tímabundið upp gengi krónunnar. Hér er talað af hálfu Sjálfstæðisflokksins fyrir áframhaldandi ábyrgðarleysi í þessum efnum.