136. löggjafarþing — 132. fundur
 15. apríl 2009.
barnaverndarlög og barnalög, 3. umræða.
frv. KolH o.fl., 19. mál (bann við líkamlegum refsingum o.fl.). — Þskj. 793, frhnál. 832.

[22:04]
Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér framhaldsnefndarálit um frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum og barnalögum frá félags- og tryggingamálanefnd. Það er á þskj. 832 og er 19. mál. Málið var lagt fram í haust og þá var 1. flutningsmaður á frumvarpinu hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Frá því að frumvarpið var lagt fram sem eitt af fyrstu málum þingsins, enda ber það lága tölu, hafa töluverðar breytingar orðið á því í meðförum félagsmálanefndar sem ég mun gera grein fyrir frekar í framhaldsnefndarálitinu.

Málinu var vísað aftur til nefndar að lokinni 2. umræðu og hefur hún fjallað um málið að nýju. Nefndin fékk á sinn fund Hrefnu Friðriksdóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti og Bryndísi Helgadóttur og Jóhönnu Gunnarsdóttur frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti eftir 2. umr. málsins.

Það kom ábending frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti þess efnis að ekki væri nauðsynlegt að fella inn í barnalög fortakslaus ákvæði um að óheimilt sé að beita barn líkamlegum og andlegum refsingum heldur sé nægilegt að slíkt bann sé í barnaverndarlögum, samanber fyrri breytingartillögur nefndarinnar. Bent var á að unnið væri að því í ráðuneytinu að endurskoða ákvæði barnalaga um forsjá, búsetu og umgengni. Því væri eðlilegt að bíða með breytingu á barnalögum þar til þeirri endurskoðun lyki.

Það kom fram hjá fulltrúum ráðuneytisins að þessari vinnu miðaði vel áfram og mætti búast við að endurskoðun málsins lægi fyrir núna fyrir haustþingið.

Ekki virðist vera ágreiningur um það hjá hlutaðeigandi ráðuneytum að nægilegt sé að bannið sé fært í barnaverndarlögin. Breytingar sem nefndin lagði til á barnaverndarlögum kveða skýrt á um refsinæmi þess að beita barn hvers konar ofbeldi eða sýna af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni. Á það við hver svo sem beitir ofbeldinu, þ.e. hvort sem um er að ræða foreldri eða forsjáraðila eða aðra. Nefndin telur því rétt að bíða með breytingu á barnalögum enda þurfi hugsanlega frekari skoðunar við hvað viðkemur orðalagi og staðsetningu ákvæðisins í lagatextanum. Nefndin áréttar jafnframt að aðrar breytingar sem nefndin lagði til og gerð er grein fyrir í nefndaráliti og breytingartillögum nefndarinnar, samanber þskj. 772 og 773, séu nægilegar til að bregðast við dómi Hæstaréttar í máli nr. 506/2008, og til að tryggja það að fulltrúi barnaverndarnefndar geti verið viðstaddur skýrslutökur af barni hjá lögreglu og fyrir dómi.

Nefndin hefur fengið þær upplýsingar að endurskoðun barnaverndarlaga sem og vissra ákvæða barnalaga standi yfir. Lögin heyra hvor undir sitt ráðuneytið, hin fyrri undir félags- og tryggingamálaráðuneyti og hin síðari undir dóms- og kirkjumálaráðuneyti og eru sérfræðinefndir að störfum í báðum ráðuneytum. Nefndin beinir því til hlutaðeigandi ráðuneyta að hafa samráð um endurskoðunina og þær breytingar sem af henni leiðir. Þá telur nefndin að það yrði mjög til bóta ef mál yrðu tekin fyrir á þingi á sama tíma og á það var lögð áhersla í nefndinni þannig að hægt væri að hafa heildstæða umfjöllun um efni þeirra. Jafnframt ítrekar nefndin mikilvægi þess að hugtakanotkun í 99. gr. barnaverndarlaga verði skoðuð með tilliti til þess að nota annað orð í stað lauslætis. Vísar nefndin í því samhengi til þess að árið 2007 var gerð sú breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, að orðið vændi kom í stað lauslætis. Nefndin leggur þó áherslu á að sérstök sjónarmið varðandi börn verði höfð að leiðarljósi og notast verði við hugtak sem samrýmist verndarsjónarmiðum gagnvart börnum.

Auk þeirrar breytingar sem gerð er grein fyrir hér að framan leggur nefndin til aðrar smávægilegar breytingar til leiðréttingar á texta en ítrekar að þeim breytingum fylgir ekki breyting á inntaki eða merkingu ákvæða og vísar í þeim efnum til umfjöllunar í áliti nefndarinnar um málið og breytingartillagna á þskj. 772 og 773.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við 2. gr. Á eftir orðunum „svo og“ í 1. efnismálslið komi: skýrslutöku, þannig að það sé alveg ljóst að ákvæðið eigi við um skýrslutöku.

2. Við 3. gr. Í stað orðanna „eða annarri vanvirðandi háttsemi, hótunum eða ógnunum“ komi: hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni.

3. Við 4. gr. Greinin falli brott.

4. Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum.

Hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson, Árni Johnsen, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Helga Sigrún Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þuríður Backman, Kristinn H. Gunnarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Jón Bjarnason stóðu að nefndarálitinu.

Ástæðan fyrir því að titillinn breytist er að með því að fella niður 4. gr. á þetta frumvarp til laga ekki lengur við um barnalög heldur eingöngu barnaverndarlög og er þar vísað til þess og því er treyst að við endurskoðun barnaverndarlaga og barnalaga verði litið til þeirra sjónarmiða sem hér koma fram í greininni og er ekki talin ástæða til þess að vera að fara inn í þá vinnu sem nú er í gangi.

Ég endurtek og ítreka að það er mikilvægt að endurskoða lögin, bæði barnalögin og barnaverndarlögin með tilliti til þess dóms sem féll á síðasta ári og gengið hefur undir nafninu „flengingardómurinn“, og taka tillit til aðstæðna barna í dag sem eru á svo margan hátt ólíkar því sem áður var bæði hvað varðar uppeldisskilyrði og betri meðvitund hjá þjóðinni. Þjóðin er upplýstari hvað varðar ýmsa þætti sem brjóta börn niður og skemma til framtíðar sem var litið fram hjá áður og trúlega að hluta til vegna þess að fólk gerði sér ekki grein fyrir því hvaða áhrif hlutir eins og einelti, ljót orð og vanhirða á ýmsum sviðum gætu haft á sálarlíf barna til lengri tíma. Síðan hafa bæst við nýjar ógnir eins og netnotkun og einelti gegnum netið, vændi í gegnum netið þar sem verið er að tæla og lokka ung börn eða ung börn notuð í því umhverfi sem þrífst í klámi og í öðru slíku umhverfi. Börn eru því að mörgu leyti óvarðari en þau voru áður og því er mikilvægt að vanda vel til verks, nota það orðalag sem bæði verndar börnin og sem notað er í dag, hafa möguleika til að grípa inn í sem allra fyrst ef einhver minnsti grunur er á misnotkun eða valdbeitingu eða illri meðferð á börnum, sama hvort það snýr að barnaverndinni eða refsingunum.

Hæstv. forseti. Ég tel að með þeirri niðurstöðu sem varð hjá nefndinni, sem breytir að mörgu leyti upphaflegu frumvarpi, er inntakið það sama. Ég treysti því að unnið verði enn frekar að innihaldi frumvarpsins eins og það var lagt fyrir í upphafi.



[22:15]
Dögg Pálsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum og barnalögum sem raunar breytist í breytingu á barnaverndarlögum í ljósi framhaldsnefndarálits sem hv. þm. Þuríður Backman hefur gert grein fyrir.

Upphaf málsins má rekja til frumvarps á þingskjali 19, sem ég sé ekki betur en að gervallur þingflokkur Vinstri grænna hafi lagt fram síðastliðið haust, hið mætasta og besta frumvarp, sem var skýr viðbrögð við dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra sem þá var nýfallinn, dómur sem síðan var staðfestur af Hæstarétti og ég mun víkja nánar að á eftir.

Það er hins vegar áhugavert, kannski ekki síst út af lagatæknilegum atriðum, hvað þetta frumvarp er búið að taka ótrúlegum breytingum í meðförum þingsins. Það stendur nánast ekki steinn yfir steini þó að innihaldið sé enn þá hið sama með annarri framsetningu sem er númer eitt, tvö og þrjú að tryggja að líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum eða réttara sagt líkamlegar refsingar eða andlegar refsingar séu refsiverðar. Því það er í raun kjarninn í þeim dómi sem ég ætla víkja að nánar á eftir að gildandi ákvæði 99. gr. barnaverndarlaga sé ekki nægilega traust stoð fyrir refsingu ef foreldri, forráðamaður eða einstaklingur með leyfi þess aðila refsar barni líkamlega eða andlega.

Kjarni málsins með þessu frumvarpi er að bæta, auka og efla vernd barna og ungmenna, og er það sérstakt ánægjuefni að þetta sé þingmannafrumvarp. Það sýnir hvað þingmenn geta brugðist snöggt við. Það er sérstaklega ánægjulegt að það skuli síðan hafa fengið meðbyr í gegnum þingið. Ég hygg að varla sé til, kannski örfá en þau eru a.m.k. fá dæmin um að þingmannafrumvarp fari alla leið í gegn á einu og sama þinginu.

Ég vona einlæglega að þetta sé vísbending um ný og breytt vinnubrögð hjá þinginu sem mér finnst að eigi að taka upp. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei skilið þessa feimni þingmanna í að beita sjálfir lagasetningarvaldinu, þ.e. frumvarpstillöguvaldinu sem þeir skýrt hafa. Það er ekkert sem kallar á að þingmenn sitji með hendur í skauti og bíði eftir því að framkvæmdarvaldið mati þá á frumvörpum sem hér eigi að afgreiða.

Það er nefnilega mjög oft alls konar mál, og þetta mál er mjög dæmigert um það, sem kalla á skjót og snögg viðbrögð, skjótar lagabreytingar og að bregðast þurfi við einhverju sem gerist en það getur stundum tekið framkvæmdarvaldið allt of langan tíma að bregðast við. Þó ég svo sem kaupi alveg þau rök sem hér eru lögð fram í framhaldsnefndarálitinu sem verða þess valdandi að 4. gr. frumvarpsins eins og það leit út eftir 2. umr. er hent út. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekki alveg glöð með að það skuli gert. Mér finnst þau rök að verið sé að endurskoða barnalögin, ákveðna þætti þeirra — í raun þekki ég þá vinnu því hún er m.a. afrakstur þess frumvarps sem ég sjálf lagði fram í fyrra og er raunar búin að endurleggja fram núna af því þar eru skiptar skoðanir um hluti. Í mínum huga er slík vinna stundum bara aðferð til að tefja mál, svo ég segi það hreint út. Ég hefði alveg getað hugsað mér að hafa 4. gr. inni þangað til barnalögunum verður breytt hvenær sem það verður gert.

En ég ætla svo sem ekki að vefengja þær ástæður sem gera það að verkum að hv. félags- og trygginganefnd er samhljóða og sammála í því að fylgja þeim ábendingum sem komu frá embættismönnum og bíða þá með breytingar á barnalögunum eftir þeirri endurskoðun sem þar er í gangi. Ég ítreka að ég hefði gjarnan viljað sjá þessa breytingu á barnalögunum líka og tel að það hefði ekkert skaðað þótt hún kæmist strax í gegn.

En við búum við það að dómur féll 22. janúar 2009, fyrst héraðsdómur sem var staðfestur af Hæstarétti, í máli nr. 506/2008. Héraðsdómurinn var frá haustinu eða síðla sumars í fyrra, ef ég man rétt, a.m.k. einhvern tímann áður en frumvarpið var lagt fram í byrjun október 2008.

Þar voru málavextir þeir að ákærða, sambýlismanni móður, var gefið að sök að hafa rassskellt drengi hennar tvisvar eða þrisvar á beran rassinn svo fast að þeir hlutu roða af á rassinn. Þetta athæfi var talið varða af hálfu ákæruvaldsins við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga í kynferðiskaflanum og 2. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga sem er um líkamlegt ofbeldi.

Enginn vafi var um það að þessi háttsemi átti sér stað, bæði af framburði ákærða, hann sem sé viðurkenndi að hafa rassskellt drengina, og af skýrslu drengjanna mátti ráða hversu oft þetta hafði gerst. Hins vegar lá fyrir að móðir drengjanna virtist hafa samþykkt þetta athæfi og það virðist vera ákveðin þungamiðja í þessum dómi. Það að hún gerði það virðist gera það að verkum að þetta er ekki talið ofbeldisbrot.

Því er hafnað í héraðsdómi að þessi háttsemi ákærða hafi verið einhvers konar kynferðislegt ofbeldi. Því er hafnað að þessi háttsemi sé heimfærð undir 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. En síðan er það rökstuðningurinn sem verður þess valdandi að þetta er heldur ekki heimfært undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Í dómi héraðsdóms segir, með leyfi forseta:

„Almennt séð varðar það við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga að slá mann nauðugan á rassinn með flötum lófa svo að undan roðnar. Til þess er hins vegar að líta að hugsanlega tíðkast eitthvað, eða hefur tíðkast, að flengja börn. Verður að gæta að því að ekki verður öðruvísi litið á en að ákærði hafi flengt drengina með samþykki móður þeirra, í tilefni af því að þeir höfðu sýnt af sér óþekkt, þótt ekki liggi fyrir í hverju hún hafi falist. Hversu óviðurkvæmilegt sem það kann að virðast nú á tímum að flengja börn fyrir óþægð þykir ekki verða kveðið á um það hér að það varði refsingu, ef uppalandi barns tekur á því ábyrgð með samþykki sínu og nærveru, þegar til þess er litið að skilja verður ákvæði 1. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002“ — þ.e. barnaverndarlaganna — „svo að ekki sé þar lagt algert bann við því að börn séu beitt refsingum og líkamlegar refsingar þar ekki undanskildar, sbr. hins vegar a-lið 3. mgr. 82. gr. laganna, sem leggur bann við því að börn sem dveljast á heimili eða stofnun skv. 79. gr. séu beitt andlegum og líkamlegum refsingum.

Til vara er háttsemi ákærða heimfærð til nefnds ákvæðis 1. mgr. og einnig 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002. Samkvæmt 1. mgr. varðar það hvern sem beitir barn refsingum, hótunum eða ógnunum og ætla má að slíkt skaði barnið andlega eða líkamlega, sektum eða fangelsi allt að þremur árum og samkvæmt 3. mgr. hvern sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar, sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Í þessu máli liggur ekkert mat fyrir á því að refsing sem ákærði beitti drengina með samþykki móðurinnar og að henni viðstaddri hafi verið til þess fallin að skaða þá andlega eða líkamlega. Ekkert liggur heldur fyrir um það að drengirnir hafi orðið fyrir slíkum skaða. Þótt það sé skoðun dómara að það sé óheppilegt og óæskilegt að flengja börn, er varhugavert að slá því föstu hér að það falli ætíð undir það að vera yfirgangur, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi í skilningi nefnds ákvæðis. Verður því ekki fallist á að verknaður ákærða verði heimfærður til ákvæða 1. mgr. og 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002. Samkvæmt þessu verður ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins að því er varðar 1. tölulið ákærunnar.“

Hæstiréttur staðfestir þennan dóm með dómi sínum 22. janúar 2009 og segir þar í dómnum, með leyfi forseta:

„Með 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er ekki lagt fortakslaust bann við því að foreldri eða annar maður með samþykki þess beiti barn líkamlegum aðgerðum til að bregðast við óþægð, heldur er refsinæmi slíkrar háttsemi háð því að gerðir hans séu til þess fallnar að skaða barnið andlega eða líkamlega. Ekki hafa verið færðar sönnur fyrir að háttsemi ákærða, sem 1. liður ákæru tekur til, hafi farið út fyrir þau mörk, sem þetta ákvæði felur í sér. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms verður að staðfesta niðurstöðu hans.“

Af þessum dómi má að vísu ráða að ef ákæruvaldið hefði leitast við að kanna hvort þessar rassskellingar hefðu haft varanleg áhrif á börnin, ef á einhvern hátt hægt er að komast að því, væri hugsanlegt að niðurstaða dómsins hefði verið önnur. Ég les það a.m.k. úr rökstuðningi héraðsdóms og Hæstaréttar.

Ég hygg að eftir að dómur féll sem og staðfesting Hæstaréttar hafi allir verið um það sammála að við gætum ekki í nútímasamfélagi, þar sem við viljum slá skjaldborg um börn og vernda þau fyrir hvers kyns ofbeldi, andlegu og líkamlegu, og hvers kyns vanvirðandi háttsemi, búið við það að líkamlegt ofbeldi, eins og rassskelling er, væri leyfileg. Við viljum ekki búa í slíku samfélagi. Það er ekki flóknara en það. Það var því mjög gott — og eins og ég hef áður sagt eiga þingmenn Vinstri grænna sérstakan heiður skilið fyrir að hafa brugðist svo skjótt við og lagt fram það frumvarp sem við erum nálægt því að samþykkja.

Með þessum breytingum mun það vonandi heyra sögunni til að framkoma sem umræddum drengjum var sýnd, þrátt fyrir samþykki forráðamanns, viðgangist lengur. Með þessu verða vonandi skýr og klár skilaboð til allra foreldra og forráðamanna að ekki er ætlast til að þeir hvorki framkvæmi sjálfir né samþykki að aðrir framkvæmi slíka háttsemi gagnvart börnum. Uppeldisfræðin er komin svo langt að aga á börn með öðrum hætti en refsingum, og það eru til alls kyns ögunaraðferðir. Það er hinn svokallaði blíði agi sem á að beita á börn þannig að þau geri sér grein fyrir hvenær þau eru að gera rétt eða rangt. Það á fyrst og fremst að tala við þau þannig að þau læri hvað sé rétt eða rangt. Líkamlegar refsingar eru ekki til þess fallnar.

En út af því sem kom fram hjá mér áðan um barnalögin þá megum við svo sem ekki horfa fram hjá því, þó ég hefði gjarnan viljað, að 2. mgr. 28. gr. barnalaganna hefði verið gerð skýrari þó svo að þar sé ákvæði sem sett var inn í barnalögin 2003, sem var nýmæli á þeim tíma, að í forsjá barns felist skylda foreldra til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Sem auðvitað vekur spurningar um það brot, þó það sé ekki umfjöllunarefni hér, sem foreldrið sem átti umrædda drengi sýndi á sínum forsjárskyldum, að hafa samþykkt þá háttsemi sem þar var viðhöfð. En það er ekki umfjöllunarefni hér og ekki ástæða til að fara nánar út í það.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp hefur farið í gegnum mjög mikla umræðu. Það hefur farið tvisvar í nefnd, búið er að margbreyta því og við sitjum hér með frumvarpið þannig að ekkert er eftir nema breyting á barnaverndarlögum af því það er samdóma álit þeirra embættismanna sem hingað hafa komið að það dugi. Í framhaldsnefndarálitinu sem liggur fyrir og hv. þm. Þuríður Backman kynnti voru gerðar nokkrar viðbótarbreytingar sem allar eru til þess fallnar að hnykkja og undirstrika enn betur að tryggja að það sé skýrt og klárt að háttsemi af því tagi sem samþykkt var með umræddum hæstaréttardómi geti ekki komið fyrir aftur.

Ég get lýst því yfir fyrir a.m.k. mína parta og ég hygg að ég tali þar fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins að við styðjum þetta frumvarp eindregið enda hafa (Forseti hringir.) fulltrúar flokksins í nefndinni skrifað undir nefndarálitið fyrirvaralaust. Það er sérstakt (Forseti hringir.) fögnunarefni að frumvarpið er að verða að lögum.



[22:30]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Upphaf þess máls sem við ræðum hér, frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum og barnalögum, má rekja til sýknudóma eins og hér hefur verið sagt frá, fyrst í Héraðsdómi Norðurlands og síðan í Hæstarétti, sýknudóma yfir manni sem ákærður var fyrir að hafa rassskellt á beran botninn tvo unga drengi, 4 og 6 ára gamla, og strokið þeim síðan um rassinn og olíuborið á eftir.

Fráskildir foreldrar barnanna voru þeirrar skoðunar að ekki hefði verið rétt að refsa þeim fyrir óþægð með flengingum og kærðu manninn, sem var kærasti móðurinnar en bjó þó ekki með börnunum. Hann var kærður bæði fyrir kynferðisafbrot og fyrir líkamsárás. Það er dapurlegt að réttarfari í þessu landi skuli svo komið að allur vafi hafi verið túlkaður ákærða í hag og sem fyrr segir var hann fundinn sýkn sakar. Í dómnum er m.a.s. bent á að það varði við hegningarlög að slá mann nauðugan á rassinn en dómurinn vísar síðan til þess að það hafi tíðkast eitthvað að flengja börn og ekki sé lagt algjört bann við því í lögunum.

Mig langar til að vitna hér í grein sem birtist í Morgunblaðinu 22. mars sl. í kjölfar hæstaréttardómsins. Höfundur greinarinnar er Guðrún Kristinsdóttir, sem er prófessor í uppeldisgreinum við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Í dómnum er vísað í barnaverndarlög. Segir að þótt það sé skoðun dómara að það sé óheppilegt og óæskilegt að flengja börn sé varhugavert að slá því föstu að það falli ætíð undir yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi í skilningi 3. mgr. sömu laga, sem varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.“

Síðan segir höfundur greinarinnar:

„Þetta er túlkunaratriði og er mér ekki kunnugt í þaula hvernig ákvæðið hefur verið túlkað hingað til. Í almennum skilningi og með hliðsjón af því sem fram kemur hér að ofan tel ég þó ótvírætt að maðurinn hafi verið með yfirgang á heimili móður og í garð umræddra barna.“

Lokaorðin í grein Guðrúnar Kristinsdóttur eru:

„Dómur af þessu tagi kann að ýta undir það viðhorf að líkamlegar hirtingar foreldra eða staðgengla þeirra, réttmætra eða óréttmætra, séu viðunandi hegðun.“

Við þessum dómi var hart brugðist eins og hér hefur komið fram og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir var 1. flutningsmaður frumvarps til breytinga á lögum sem ætlað var að tryggja að það væri fortakslaust refsivert að beita börn líkamlegu ofbeldi og sérstaklega í refsingarskyni. Þessi dómur sem hér liggur fyrir — ég hlýt að mótmæla því sem fram kom hjá hv. þm. Dögg Pálsdóttur áðan um að um brot á forsjárskyldum hafi verið að ræða hjá viðkomandi móður þar sem forsjáraðilum er skylt að vernda börn sín gegn ofbeldi, andlegu og líkamlegu.

Mig langar að vitna aftur til þess sem Guðrún Kristinsdóttir prófessor segir, en hún hefur mikla þekkingu á ofbeldi og ofbeldissamböndum. Hún er einn af stofnendum Kvennaathvarfsins og hefur fylgt þessum málum eftir, heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum og börnum, um áratugaskeið. Í grein sinni í Morgunblaðinu 22. mars vísar hún til þess sem segir í dómnum og ber vott um að maðurinn, sem eins og ég nefndi áðan var kærasti og ekki sambýlismaður, hafi tekið stjórnina af konunni.

Eins og Guðrún segir hér:

„… en hann tók yfir vald hennar til að siða börnin með rassskellingum. Lýst er hvernig ákærði vildi fylgjast með hegðun barnanna, hann vildi vita um hvert einasta skipti sem þeir gerðu eitthvað af sér.“ — Ég minni á að þeir eru 4 og 6 ára gamlir. — „Hann ræddi við móðurina um að það þyrfti að refsa þeim með flengingum og tók yfir að gera það sjálfur. Þetta allt ber vott um þá stjórnsemi sem er einkennandi fyrir þá sem beita ofbeldi á heimilum.“

Áfram:

„Bent er á að móðirin hafi samþykkt rassskellingarnar. Það segist hún reyndar hafa gert í fyrstu en síðan farið að leyna manninn því ef börnin voru óþekk. Í dómnum virðist mér mikið gert úr umræddu samþykki móður. Mun minna vægi fær það að hún dregur samþykkið til baka, leynir manninn óþægð barnanna og kemst þannig hjá því að hann haldi áfram hirtingum. Athygli vekur að konan sneiðir hjá því að segja manninum að hún vilji vera laus við þessa afskiptasemi hans.“

Af þessu dregur prófessorinn þá ályktun að sambandið sem hér er vitnað til hafi ekki byggst á trausti og öryggi heldur á óöryggi og ótta en slíkt er einmitt algengt og einkennandi þar sem ofbeldi er á ferð.

Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram, herra forseti, vegna þess að eins ótrúlegt og það kann að virðast bera ofbeldissambönd af þessu tagi ákveðin einkenni sem hægt er að lesa í. Dómendum, bæði í Héraðsdómi Norðurlands og í Hæstarétti, virðist því miður hafa verið það fyrirmunað.

Í annarri grein sem birtist í Morgunblaðinu 8. mars eftir Vilhjálm Rafnsson, prófessor í heilbrigðis- og faraldsfræði, er fjallað um þetta mál. Vilhjálmur segir dóminn óhugnanlega lesningu og lærdómsríka. Hann bendir á að strax þegar héraðsdómurinn féll á síðasta ári hafi forstjóri Barnaverndarstofu bent á það opinberlega að vitað væri og viðurkennt af þeim sem best þekkja að líkamlegar aðgerðir sem uppeldisaðferð gætu verið mjög skaðlegar börnum. Þær væru niðurlægjandi fyrir börnin, brytu niður sjálfsvirðingu þeirra og sjálfsmynd.

Síðan segir Vilhjálmur Rafnsson prófessor:

„Ýmislegt í dómnum bendir til þess að hegðun flengjarans hafi ekki haft eingöngu með uppeldi að gera eins og hann heldur fram, heldur geti hafa verið kynferðisleg, en dómarar Hæstaréttar leiða þetta hjá sér og spyrja hann ekki af hverju hann var á ferð með olíu eftir flengingar sem drengirnir kveinkuðu sér ekki undan.“ (Forseti hringir.)

(Forseti (EMS): Forseti vill vekja athygli hv. þingmanns á því að þegar lesinn er upp texti ber að gera það með leyfi forseta.)

Já. Ég skal muna eftir því og hér lýkur tilvitnun, með leyfi forseta.

Það er ekki nema von að mönnum hafi brugðið þegar héraðsdómur birtist og ég tala nú ekki um þegar hæstaréttardómurinn birtist, og virðast dómendur hafa verið algjörlega úr takti við það sem menn almennt töldu að væri fest hér í lög, að það mætti ekki berja börn og það væri refsivert að refsa börnum með líkamlegum flengingum eða barsmíðum. En svo reyndist ekki vera að mati dómendanna. Þeir lokuðu þar að auki augunum fyrir öllu því sem benti til þess að um ofbeldissamband væri að ræða, ofbeldisfullan einstakling, og að þarna gæti hafa verið um kynferðislega athöfn að ræða um leið. Það var þess vegna mjög nauðsynlegt og er mjög mikilvægt að samþykkja frumvarpið sem hér um ræðir en það gerir það fortakslaust refsivert að beita börn andlegum eða líkamlegum refsingum með þessum hætti.

Hér hefur komið fram að um þingmannafrumvarp er að ræða sem hefur tekið gríðarlega miklum breytingum. Eins og hv. framsögumaður nefndarálitsins, Þuríður Backman, sagði áðan, tók frumvarpið bæði til barnalaga og barnaverndarlaga en þessir lagabálkar heyra annars vegar undir dómsmálaráðuneyti og hins vegar undir félags- og tryggingamálaráðuneyti. Málinu var upphaflega vísað í allsherjarnefnd en þaðan fór það yfir ganginn til félags- og tryggingamálanefndar með góðum stuðningi ráðherra barnaverndarlaga, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Þar á bæ höfðu sömu hugsanir leitað á menn og í ráðuneytinu var vilji til þess að breyta sérstaklega þessum ákvæðum á sama hátt og hér er verið að gera. Enda þótt heildarendurskoðun stæði yfir vildu menn taka þetta ákvæði út og það varð niðurstaðan.

Hér hefur einnig komið fram að ekki aðeins er verið að endurskoða barnalögin á vegum dómsmálaráðuneytisins heldur einnig barnaverndarlögin í félags- og tryggingamálaráðuneyti. Er þess vænst að þeirri endurskoðun ljúki næsta haust og það er vel að nefndin sem hér skilar framhaldsnefndaráliti, á þskj. 832, ítrekar hversu mikilvægt það er að fá þessa lagabálka báða inn á sama tíma til þingsins. Ég vil minna á enn eitt atriði í sambandi við það, þ.e. að aðlögun íslenskra laga að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skal einmitt vera lokið fyrir 20. nóvember á þessu ári en þá verða 20 ár liðin frá því að hann var samþykktur.

Herra forseti. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt skref að ræða, mjög mikilvægt lagaákvæði, og ég fagna því sérstaklega, eins og hv. þm. Dögg Pálsdóttir gerði hér áðan, að þingið sjálft skuli grípa til þess að flytja, vinna og samþykkja jafnmikilvægt mál og þetta. Annað mál sem mikið hefur verið rætt um og er þingmannamál er frumvarp um ábyrgðarmenn sem hér var samþykkt fyrir 2–3 vikum, en það hefur ólíkt þessu, eins og bent hefur verið á, verið flutt einum tólf sinnum á undanförnum árum. Hér er verið að flytja þingmannafrumvarp sem mér sýnist að muni verða að lögum með stuðningi allra þingmanna allra flokka strax á morgun og það er vel.