136. löggjafarþing — 133. fundur
 16. apríl 2009.
störf þingsins.

[10:32]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það hefur verið upplýst í fjölmiðlum og hér á þingi að eitt helsta kosningastefnumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir þessar kosningar sé að standa að launalækkun opinberra starfsmanna og leggja hærri skatta á heimilin í landinu. Áform vinstri flokkanna um þetta voru staðfest í umræðum á Alþingi í gær. Vinstri flokkarnir ætla að sýna sitt rétta andlit, lækka launin og hækka skattana. Það þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum um það hversu baneitraður sá kokteill er að lækka launin og hækka skattana. Í því felst ekkert annað en aðför að heimilunum í landinu (Gripið fram í.) sem nú berjast í bökkum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að hækka skatta á heimilin í landinu og hafnar alfarið skattpíningu vinstri manna. Fólkið í landinu mun heldur ekki láta bjóða sér að laun verði lækkuð og skattar hækkaðir eins og Vinstri grænir ætla að gera. Miðstjórn Bandalags háskólamanna hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem miðstjórnin mótmælir hugmyndum ríkisstjórnarflokkanna um launalækkanir og skattahækkanir.

Það er greinilegt og vekur furðu að formaður BSRB, hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson, ætli sér ekki að gæta hagsmuna sinna félaga. Hann virðist ætla að standa að því að lækka laun opinberra starfsmanna á spítölum, í menntakerfinu, í umönnunarstéttunum og alls staðar þar sem ríkisvaldið getur farið ofan í vasa fólksins í landinu.

Nú styttist í kosningar og ég tel að almenningur í landinu eigi að fá að vita nánar um áform Vinstri grænna og Samfylkingar í þessum málum. Þess vegna spyr ég hv. þm. Árna Þór Sigurðsson: Hvað ætla vinstri grænir að lækka laun opinberra starfsmanna mikið (Forseti hringir.) og hversu háar verða skattahækkanirnar (Forseti hringir.) sem búið er að boða? Við krefjumst svara (Forseti hringir.) og heimilin í landinu eiga rétt á upplýsingum um þetta.



[10:34]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Sjálfstæðisflokknum er mikil vorkunn um þessar mundir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur orðið uppvís að því að stunda spillingu og taka við háum greiðslum frá fyrirtækjum, (Gripið fram í: Segðu …) væntanlega fyrir pólitískan velvilja eða í öðrum málum (GMJ: Nota rétt orð.) og hann hefur ákveðið að snúa vörn í sókn með því að bera öðrum á brýn alls konar hluti sem eru staðlausir stafir. [Háreysti í þingsal.] Hér segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að helsta kosningastefnumál Vinstri grænna sé að standa að launalækkun og skattahækkun. (ÓN: Já.) Þetta er ósatt, (ÓN: Nei.) þetta er lygi (ÓN: Nei.) og Sjálfstæðisflokkurinn ætti, (Gripið fram í: Þetta er kjarni málsins.) ef hann ætlar að hafa einhverja sjálfsvirðingu, (Gripið fram í.) að hlusta á það sem sagt er. (Gripið fram í.) Það sem við höfum sagt er að það er búið að leggja auknar byrðar á almenning í landinu og það er Sjálfstæðisflokkurinn sem að sjálfsögðu hefur gert það. Það á ekkert að auka byrðarnar. Það að mæta þessum byrðum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt á þjóðina (Gripið fram í.) og ég ætla að biðja þennan hv. þingmann að hafa sig rólegan, herra forseti. Það sem við höfum sagt er að taka þarf til eftir Sjálfstæðisflokkinn. (Gripið fram í.) Það er eins og í leikritinu um Kardimommubæinn, Soffía frænka er komin til að taka til eftir ræningjana. Það er það sem þarf að gera.

Við höfum einfaldlega sagt að við ætlum að segja þjóðinni satt. Sjálfstæðisflokkurinn segir, hv. þingmaður, að nú séu menn að sýna sitt rétta andlit. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að vera með grímuna fyrir andlitinu. Hann ætlar að halda áfram að segja þjóðinni ósatt og koma aftan að kjósendum eins og hann hefur gert til þessa. Við segjum einfaldlega: Það þarf að takast á við þessar auknu byrðar. Það munu allir þurfa að taka eitthvað á sig. (Forseti hringir.) Almennt launafólk hefur tekið á sig launalækkun nú þegar. Það munu fleiri þurfa að gera. Það mun þurfa að auka tekjur ríkissjóðs. (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur engin svör um það hvernig hann ætlar að standa að málum.



[10:36]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég kem upp út af öðru máli, út af yfirlýsingum hæstv. heilbrigðisráðherra í gær á fundi Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu sem ekki er hægt að túlka með öðrum hætti en sem árás á lækna landsins og aðra heilbrigðisstarfsmenn. Það var haft eftir honum að ávísanakerfi í heilbrigðisþjónustu, þ.e. að greiðsla fylgi sjúklingi, mundi leiða til þess að læknar færu að meðhöndla sjúklinga gegn meinum sem ekki væru til staðar. Dæmið sem hæstv. heilbrigðisráðherra tók var einhvern veginn á þann veg að ef fjármagn fylgi sjúklingum og sjúklingur fengi að velja lækni þýddi það að ef hann færi með 10.000 kall til sérfræðings á Akranesi út af eyranu sínu og sérfræðingurinn fyndi ekkert að eyranu mundi hann samt finna eitthvað að því eða í einhverju öðru líffæri til að ná í peninginn, það gerðu fjárvana stofnanir. Hér er hæstv. ráðherra ekki að tala um neina framtíðarmúsík, eitthvað sem gæti gerst ef ávísanakerfi yrði komið á. Ávísanakerfi er til staðar í dag í samningum við lækna og aðrar heilbrigðisstéttir gegnum sjúkratryggingar. Það hefur verið við lýði um áratugaskeið. Ávísanakerfið er með öðrum orðum það að greitt er fyrir hverja meðferð eða aðgerð sem sjúklingur gengur í gegnum.

Hæstv. heilbrigðisráðherra vegur með orðum sínum að að heiðri lækna og annarra heilbrigðisstétta þegar hann heldur því fram að þeir veiti ónauðsynlega meðferð, geri aðgerðir eða veiti meðferð sem ekki er þörf á til þess eins að fá greiðslu í hús, hvort heldur í eigin vasa eða viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Þessar ásakanir eru fáheyrðar og fordæmalausar og það er mikill óróleiki meðal heilbrigðisstétta vegna þessa. Þegar þær koma þar að auki í kjölfar yfirlýsingar forustumanna Vinstri grænna um launalækkun hjá opinberum starfsmönnum sem BHM og BSRB hafa þegar mótmælt hljóta heilbrigðisstarfsmenn sem eru þúsundir talsins að staldra við.

Ég spyr því hv. þm. Þuríði Backman um óviðurkvæmilegar ásakanir hæstv. heilbrigðisráðherra í garð fagmenntaðra heilbrigðisstarfsmanna og hvað þær segja um viðhorf Vinstri grænna til þessa stóra hóps opinberra starfsmanna. (Gripið fram í.)



[10:39]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Svar mitt til hv. þm. Ástu Möller er að hluta til svar til hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Sjálfstæðisflokkurinn stundar leik sem ég hélt að væri aflagður, (Gripið fram í: Nú?) hefði verið lagður af í lok kaldastríðsáranna, að þegar múrinn hrundi hefði sá málflutningur sem hér er hafður uppi verið lagður af.

Kaldastríðsáróðurinn, svart og hvítt, er hafður í frammi, skattahækkanir og lækkun launa glumdu hér í allan gærdag, orð eru slitin úr samhengi þegar þingmenn vita vel og vita betur hvað liggur að baki þeim orðum sem vitnað er til.

Sjálfstæðisflokkurinn og þær ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn starfaði með skildu allt eftir í rúst. (Gripið fram í.) Þjóðarbúið er núna á mjög viðkvæmu stigi. Ríkissjóður er skuldum vafinn. Við verðum sem þjóð að koma okkur fram úr þeim miklu erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir. Það verður ekki gert með þeim hætti sem Sjálfstæðisflokkurinn segir núna, það eigi ekki að lækka skatta, það eigi eingöngu að fjölga störfum.

Ég get svarað spurningunni hvað varðar hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann er þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, (Gripið fram í.) hann vinnur samkvæmt okkar hugmyndum, hann vinnur í anda samráðs og samstarfs, hann vinnur með trúnaðarmönnum stéttarfélaganna, hann vinnur með því að leita lausna, hann setur á starfsdaga með heilbrigðisstarfsmönnum. Það hefur aldrei komið til tals (Forseti hringir.) að lækka taxta. Það hefur komið til tals (Forseti hringir.) að þeir sérfræðingar sem eru á ofurlaunum taki þátt í því (Forseti hringir.) að spara og leggja eitthvað af sínum ofurlaunum fyrir lítið vinnuframlag.



[10:41]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, formanns efnahags- og skattanefndar, vegna tíðinda sem mér finnst mjög uggvænleg, þ.e. vegna gengisfalls krónunnar undanfarnar vikur. Ég hef spurt hæstv. fjármálaráðherra að þessu, fékk ekki viðhlítandi skýringu á því hvað ylli þessu. Frá áramótum styrktist krónan reglulega fram undir stjórnarskipti og eitthvað fram yfir þau, mánuð fram yfir stjórnarskipti, en síðan hefur krónan fallið verulega. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir heimilin í landinu, sérstaklega þau sem eru með gengistryggð lán, bílalán og íbúðalán, en ekki síður fyrir allan almenning því að það er viðbúið að verðbólga fylgi í kjölfarið sem kemur niður á öllum þeim sem skulda verðtryggð lán.

Þetta er mikið áhyggjuefni og ég ætla að spyrja hv. formann efnahags- og skattanefndar hvort hann hafi á þessu einhverjar skýringar og viti hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir þessa þróun. Er eitthvað að ákvörðunum Seðlabankans um stýrivexti, þessa nýja Seðlabanka sem hæstv. forsætisráðherra hefur skipað alfarið einn, bæði peningastefnunefndina og þennan norska seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjórann og ber þar af leiðandi fulla ábyrgð á stýrivöxtunum? Seðlabankinn heldur uppi geysilega háum stýrivöxtum og það er spurning hvort þessir háu stýrivextir eigi þátt í því að fella krónuna í staðinn fyrir að styrkja hana.



[10:43]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fall krónunnar um tæpan þriðjung fyrir 13 mánuðum markaði upphaf að miklu erfiðleikaskeiði í íslenskum þjóðarbúskap. Þá hófust miklar umræður um það hvernig mætti verja krónuna frekara falli og styrkja stöðuna í þeim erfiðleikum sem fram undan væru í heimsbúskapnum. Mest var rætt um að styrkja gjaldeyrisforðann og gera allt sem væri hægt að gera til að efla varnirnar sem við hefðum í þessum litla fljótandi gjaldmiðli og landamæralausa fjármálaheimi. Það gekk ekki eftir og krónan féll áfram út árið og endaði með gengishruni.

Núna eru ýmis batamerki eins og verðhjöðnun, vaxtalækkunarferli er hafið, vextir hafa verið lækkaðir um 2,5 prósentustig síðan peningastefnunefndin tók við í Seðlabankanum og ég held að mjög vel sé staðið að verki uppi í Seðlabanka. Menn eru að sjálfsögðu varfærnir í öllum örlagaríkum aðgerðum og verða að skoða hvernig það spilar saman við gengi krónunnar. Við styrktum gjaldeyrisvarnirnar um daginn eins og kunnugt er. Það mun skila sér. Það hefur skilað sér lítillega nú þegar, krónan styrktist lítillega í gær og aftur í morgun og ég held að hún muni styrkjast áfram enn um sinn. Það getur vel verið að það taki tíma. Mestu skiptir að ná samningum við eigendur krónu- og jöklabréfanna um hvernig gengið verður frá þeim málum.

Það hafa verið vextir af þessum bréfum á gjalddögum og það hefur fellt gengið. Á móti er skilaskylda á gjaldeyri og afurðum. Það er hagstæður vöruskiptajöfnuður þannig að batamerkin eru mörg. Mestu skiptir þó að ná utan um stöðu krónunnar af því að sé hún áfram veik eða haldi áfram að falla kemur það í veg fyrir frekari batamerki í íslensku efnahagslífi sem svo sannarlega eru í sjónmáli gangi það eftir að krónan styrkist en haldi ekki áfram að veikjast.



[10:45]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við höldum áfram umræðu um efnahagsmálin og hvernig einstakir stjórnmálaflokkar ætla að standa að málum fyrir þær kosningar sem í hönd fara. Við vitum öll hvernig efnahagshrunið hefur leikið íslenskt samfélag, aukið skuldir ríkisins og aukið atvinnuleysi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið mikinn að undanförnu við að reyna að beina sjónum að öðrum stjórnmálaflokkum en hann hefur hins vegar engu svarað sjálfur um það hvernig hann ætlar að standa að málum, hverjar séu lausnir Sjálfstæðisflokksins ef hann hefur einhverjar. Ég tel mikilvægt að fá svör við því og vil þess vegna spyrja formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur: Hvaða þjónustu ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að hækka? Hvaða þjónustugjöld ætlar hann að hækka? Hann hefur sagt að hann ætli ekki að standa fyrir neinni skattahækkun en hvaða þjónustugjöld ætlar hann að hækka? Hvaða ný þjónustugjöld ætlar hann að leggja á? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að hefja nýja rússíbanareið í einkavæðingu? Hversu mörgum störfum þarf að segja upp samkvæmt stefnu Sjálfstæðisflokksins? Verða það hjúkrunarfræðingar eða ljósmæður eða framhaldsskólakennarar? Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að auka tiltrú og traust á stjórnmálum? Mun Sjálfstæðisflokkurinn opna allt sitt bókhald vegna kosninga? Mun hann opna bókhald frambjóðenda sinna vegna prófkjara? (Gripið fram í: Það er í lögum.) Og hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að biðja þjóðina afsökunar á afglöpum sínum?



[10:47]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég bið hv. þm. Árna Þór Sigurðsson um að kynna sér þau lög sem gilda um fjármál stjórnmálaflokka og jafnframt um fjármál þeirra sem fara í prófkjör. Um það gilda lög á Íslandi.

Það er alveg makalaust hvernig Vinstri grænir reyna að komast undan þeim orðum sem hafa fallið um það að nú eigi að ráðast í skattahækkanir og launalækkanir. Það er eina stefnan sem hefur komið frá Vinstri grænum. Eina stefnan sem þeir hafa getað kynnt til sögunnar eru skattahækkanir og launalækkanir. Þetta er stefna VG.

VG ákvað að fara í samstarf með Samfylkingunni sem bar ábyrgð á bankamálum þegar hrunið varð hér á fjármálamörkuðum. Nú hlýtur það að vera spurningin til VG: Hvernig ætla þeir að vinna okkur út úr kreppunni sem leiddi af þessu? Getur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson svarað því? Eða eigum við að vinna okkur út úr kreppunni með skattahækkunum? Er það málið? (Gripið fram í: Það eru engin svör.)

Úrræðaleysi Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í þessu ríkisstjórnarsamstarfi er æpandi. Þeir treysta sér ekki til að ræða hér fjárfestingarsamning um álverið í Helguvík. (Gripið fram í.) Af hverju skyldi það vera? Á ekki bara að ráðast í það að vinna þjóðina út úr kreppunni með skattahækkunum? Það er stefna VG. En atvinnumálastefnan er ekki til. (Gripið fram í: Hver voru svörin?) Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson ætti að svara því (Forseti hringir.) hver atvinnustefna VG er.



[10:49]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. En það er greinilegt að hv. þingmönnum Vinstri grænna líður illa þegar hér er talað um áform Vinstri grænna um að lækka laun og hækka skatta og ég skil það vel. Ég skil það vel vegna þess að það síðasta sem heimilin í landinu þurfa á að halda núna er þessi baneitraði kokteill sem Vinstri grænir eru að krukka hér saman, að lækka laun opinberra starfsmanna og hækka skattana.

Það þýðir ekkert að hlaupast undan merkjum og benda á Sjálfstæðisflokkinn með einhverjum smjörklípuaðferðum. Varaformaður Vinstri grænna lýsti því yfir í sjónvarpi á þriðjudaginn að Vinstri grænir vildu lækka laun opinberra starfsmanna (Gripið fram í.) og gerði enga fyrirvara um það. Það var ekki talað um neina ofurlaunaþega. Það var talað um alla opinbera starfsmenn. (Gripið fram í.) Það voru ekki gerður neinir fyrirvarar og það þýðir ekkert að benda á Sjálfstæðisflokkinn í því sambandi. Þetta er stefna Vinstri grænna og þeir ætla í ofanálag að hækka skattana á heimilin í landinu. Það er það sísta sem heimilin þurfa.

Hvar er formaður BSRB, hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson? Af hverju tekur hann ekki þátt í umræðunni hér? Hann ætti að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna, félagsmanna í BSRB, sem hann ætlar núna að fara að lækka launin hjá og hækka skattana í ofanálag. Ég lýsi furðu minni á því að forsvarsmaður Vinstri grænna, Ögmundur Jónasson, skuli ekki vera hér og taka upp hanskann fyrir sína menn.

Ég spurði hv. þm. Árna Þór Sigurðsson tveggja einfaldra spurninga: Hversu mikið ætla Vinstri grænir að lækka laun opinberra starfsmanna og hvað ætla Vinstri grænir í samstarfi við Samfylkinguna að hækka skattana mikið? Hv. þingmaður svaraði ekki þessari spurningu og ég skora á formann (Forseti hringir.) Vinstri grænna, hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) Steingrím J. Sigfússon, að koma hingað upp og svara þessum einföldu spurningum. Heimilin í landinu (Forseti hringir.) eiga kröfu til þess að þeim verði svarað vegna þess að þetta er eitt brýnasta hagsmunamál þeirra.



[10:52]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil fá að taka hér undir athugasemdir sem komu fram hjá hv. þingmönnum Ástu Möller og Sigurði Kára Kristjánssyni. Í gær og í fyrradag fóru tveir ráðherrar frá Vinstri grænum mjög óvarlega fram. Í fyrsta lagi sagði hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir í þætti í sjónvarpinu að lækka ætti laun opinberra starfsmanna. Svona yfirlýsingar eru ekki gefnar af ráðherrum við þær aðstæður sem við erum í í dag. Það er fullkomið ábyrgðarleysi að koma með svona einhliða yfirlýsingar. Svona umræður eiga að fara fram á milli aðila vinnumarkaðarins. Ég lýsi furðu minni á því að hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir hafi slengt þessu framan í þjóðina í sjónvarpsþætti. Þetta er mjög ábyrgðarlaust.

Ég vil líka segja að orð hæstv. heilbrigðisráðherra í gær á málþingi Samtaka heilbrigðisþjónustufyrirtækja voru hæstv. ráðherra ekki til sóma. Þar var gengið allt of langt fram í því að kasta rýrð á störf lækna. Þar var farið fram með dylgjur og það var hæstv. ráðherra ekki til sóma. Íslenskt efnahagslíf er í mikilli kreppu núna og hæstv. ráðherrar verða að fara varlega með vald sitt. Þeir geta ekki, þó að flokkar þeirra mælist kannski vel í skoðanakönnunum, sagt hvað sem er. Vald ber að umgangast af virðingu og forðast það að koma málinu í meiri hnút en þörf er á. En báðir þessir hæstv. ráðherrar, Katrín Jakobsdóttir og Ögmundur Jónasson, hafa komið málum í meiri hnút en þörf var á með mjög óvarlegum og óábyrgum yfirlýsingum og ég geri athugasemd við það.



[10:54]
Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér úr allt annarri átt því að ég átti von á að til mín yrði beint spurningum um tónlistar- og ráðstefnuhús. Ég vil minna hér á minnisblöð og orðsendingar Ríkisendurskoðunar til þingsins sem ég hef gert grein fyrir um það að Ríkisendurskoðun telur að það séu lagaheimildir fyrir hendi vegna þessa.

Þá vil ég einnig minna á nýútkomna ársskýrslu Ríkisendurskoðunar sem við fjölluðum um fyrir hálfum mánuði og ég vil hvetja þingmenn til að kynna sér þessa ársskýrslu. Í henni er til að mynda afar fróðleg grein um framkvæmd fjárlaga sem ég hef verið talsmaður fyrir á þinginu. Ég vonast til þess að ný fjárlaganefnd sem tekur til starfa á sumarþingi muni taka skýrsluna til meðhöndlunar og greina frá efnisinnihaldi hennar.

Ég hef alla jafna verið mjög alvarlegur hér í tvö ár á þinginu en vil að lokum vegna ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem minnti hér á Soffíu frænku og sagði að í leikriti Thorbjörns Egners hefði Soffía frænka komið og tekið til eftir ræningjana þrjá. Thorbjörn Egner skrifaði mjög góð leikrit og ég meðhöndlaði þau sem SG-hljómplötur í 20 ár og vil minna hv. þm. Árna Þór Sigurðsson á það að leikritið endar með þeim hætti að Soffíu frænku er skilað og ræningjarnir þrír verða síðan að betri mönnum. Einn þeirra verður slökkviliðsstjóri og sá hinn sami giftist Soffíu frænku í leikritinu. Og ég velti því fyrir mér bara í lokin, af því ég hlustaði á þetta hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, bíddu, eru einhver pólitísk skilaboð í þessum orðsendingum hans varðandi þetta mál? Maður verður auðvitað að kunna leikritið allt til enda.



[10:56]
Dögg Pálsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Út af orðum hv. þm. Gunnars Svavarssonar ættum við sjálfstæðismenn kannski að túlka þessi orð vinstri grænna sem bónorð um að fara í stjórn með þeim á næsta kjörtímabili. Það skyldi þó ekki vera?

En það var ekki út af þessu sem ég kem í ræðustól, virðulegi forseti, heldur ætla ég að fylgja hér eftir athugasemd frá hv. þm. Ástu Möller út af orðum hæstv. heilbrigðisráðherra í gær á fundi samtaka félaga sem starfa sjálfstætt í heilbrigðisstarfsemi þar sem hann með ótrúlegum hætti dró í raun og veru í efa heiðarleika heillar starfsstéttar, lækna. Beint var spurningum hér til hv. þm. Þuríðar Backman, formanns heilbrigðisnefndar, og ég verð að viðurkenna að ég hreinlega skildi ekki svör hennar því að mér fannst hún frekar vera svara einhverju um hærri skatta og lægri laun en hvaða skoðun hún hefði á þessum makalausu ummælum hæstv. heilbrigðisráðherra.

Það er grafalvarlegt mál, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór hér líka mjög vel yfir, þegar hæstv. heilbrigðisráðherra víkur með þeim hætti sem hann gerði í gær að læknum og gefur það í skyn og raunar gefur það ekkert í skyn heldur segir það beint út að þetta séu allt saman einhverjir svikahrappar (Gripið fram í: Hvaða rugl er þetta?) og þeir misvirði allt það sem þeim hefur verið kennt og þær siðareglur sem þeir hafa undirgengist að fylgja í störfum sínum. Því að hann sagði það beint út að ef læknar fyndu ekkert að sjúklingi í því kerfi sem þarna var verið að benda á byggju þeir það til til að geta stungið peningnum í eigin vasa. Það var nákvæmlega þetta sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði. Ég kalla (Forseti hringir.) eftir skýrari svörum frá hv. þingmanni.



[10:58]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið venjan á hinu háa Alþingi að þingmenn verji ráðherra sína. En hér hefur verið beint fyrirspurnum til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar út af hækkuðum sköttum og lækkun launa opinberra starfsmanna og til hv. þm. Þuríðar Backman varðandi orð heilbrigðisráðherra í gær. En engu er svarað. Þetta er hrópandi þögn. (Gripið fram í: Hverju svaraði …?) Þeir hljóta að skammast sín svona fyrir þessi orð ráðherra sinna. (Gripið fram í.)

Það féllu í gær orð frá hæstv. heilbrigðisráðherra sem er algjörlega óviðunandi fyrir bæði lækna og aðrar heilbrigðisstéttir að sitja undir. Læknar starfa ekki í tómarúmi. Þeir eru með starfsfólk með sér sem vinna að sama markmiði. Ef læknar eru að svíkjast undan og stinga í vasa peningum fyrir verk sem ekki eru rétt unnin og þeir veita meðferð sem er ónauðsynleg standa ásakanirnar líka á samstarfsfólki þeirra. Þetta er með ólíkindum að hæstv. heilbrigðisráðherra ásaki heilbrigðisstarfsmenn landsins fyrir vinnusvik. Ekki er hægt að láta því ósvarað á hinu háa Alþingi og ég skora á hv. þm. Þuríði Backman að svara spurningu minni hér áðan.

Hvað segja þessi orð hæstv. ráðherra um viðhorf vinstri grænna til þessa stóra hóps opinberra starfsmanna? Þau orð sem voru látin falla í gær og birt eru m.a. á forsíðu Morgunblaðsins í dag eru með ólíkindum.



[11:00]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi ummæli hæstv. heilbrigðisráðherra í gær. Ég verð að segja að skinhelgi sjálfstæðismanna nú er með eindæmum. Ég man ekki betur en að hv. þm. Ásta Möller og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi mælt sérstaklega fyrir að tekin yrðu upp innritunargjöld á spítala fyrir síðustu áramót með þeim rökum að ef ekki væri komið á samræmi í gjaldheimtu væri verið að búa til hvata til að leggja fólk inn að óþörfu. Var þá verið að bera fólki á brýn óheiðarleika? Var þá verið að bera heilbrigðisstarfsfólki það á brýn, hv. þingmaður, að það væri óheiðarlegt? Auðvitað ekki. Auðvitað var verið að ræða um hvaða hvatar lægju í greiðslufyrirkomulagi í heilbrigðiskerfinu sem gætu haft áhrif til aukinna ríkisútgjalda og þyrfti að hafa stjórn á. Auðvitað var það það sem hæstv. ráðherra sagði í gær.

Þótt menn séu komnir í kosningabaráttu og séu málefnalausir eins og sjálfstæðismenn hefðu þeir átt að vara sig á að fara ekki slíkar málefnaleysiskollsteypur (Gripið fram í.) eins og hv. þingmaður er kominn í núna. Það sem er auðvitað dapurlegra en tárum taki er að sjá Sjálfstæðisflokkinn ganga til kosninga án nokkurrar stefnu í ríkisfjármálum. Hann kemur hér upp og þykist verja hag heilbrigðisstarfsmanna en hefur boðað að hann ætlar ekki að taka skatta og í því felast að sjálfsögðu uppsagnir ríkisstarfsmanna. Það er engin önnur lausn sem Sjálfstæðisflokkurinn býður upp á. Hann boðar 10.000–15.000 atvinnulausa opinbera starfsmenn. Þannig á að leysa efnahagsvandann með 10.000–15.000 opinberum starfsmönnum til viðbótar. Þannig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að leysa málin því að hann ætlar ekki að hækka skatta, skattahækkanaflokkurinn mikli sem skilaði okkur þó raunaukningu í skattlagningu í stjórnartíð sinni, (Gripið fram í: Þetta er ekki …) skattlagningaflokkurinn mikli sem hækkaði skatta fyrir áramót, (Gripið fram í.) brá ekki við það og boðaði frekari hækkanir á þessu ári. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn stendur eftir með enga efnahagsstefnu og enga peningamálastefnu, enga stefnu í nokkrum málum [Háreysti í þingsal.] en kemur hér inn (Forseti hringir.) dag eftir dag á hinu háa Alþingi og boðar (Forseti hringir.) engar lausnir, sömu innantómu frasana (Forseti hringir.) og það á ekkert að gera til að leysa þann vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir.