136. löggjafarþing — 134. fundur
 17. apríl 2009.
stefna VG í efnahagsmálum.

[10:56]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að heimilin og fjölskyldurnar í landinu óttist um sinn hag um þessar mundir sem eðlilegt er þegar aðstæður í efnahagslífinu eru eins og þær eru núna. En yfirlýsingar forustumanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að þeir áformi að lækka laun opinberra starfsmanna og hækka skattana á heimilin í landinu hafa ekki verið til þess fallin að auka bjartsýni fólksins í landinu, því miður.

Ég hef óskað eftir upplýsingum um það hvernig Vinstri grænir hyggist útfæra launalækkunar- og skattahækkunarstefnu sína sem ég hef kallað baneitraðan kokteil og aðför að heimilunum í landinu, einkum barnafjölskyldunum. (Gripið fram í: ... í síðustu ríkisstjórn.) Í gær upplýsti hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, því yfir að laun undir 250–300 þús. kr. yrðu ekki lækkuð. Ég skil þá yfirlýsingu þannig að opinberir starfsmenn sem eru með laun yfir 250–300 þús. kr. megi búast við launalækkunum. Það er mjög athyglisvert í ljósi þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér eru meðalheildartekjur í landinu 380 þús. kr. á mánuði. Vinstri grænir ætla sem sagt, komist þeir til valda, að lækka laun fólks sem er með minna en meðalheildartekjur í laun á mánuði sem er sérstaklega athyglisvert. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra tveggja spurninga:

Hvað mega opinberir starfsmenn búa sig undir miklar launalækkanir (Forseti hringir.) eftir kosningar og hversu miklar verða þær skattahækkanir sem Vinstri grænir hyggjast beita sér fyrir?



[10:59]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er kærkomið tækifæri að geta brugðist við þessum ævintýralegu útúrsnúningum frá Sjálfstæðisflokknum sem eru aðalinnlegg þeirra í kosningabaráttuna núna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur enga stefnu, engar tillögur, ekki neitt, byggir allan sinn málflutning núna á málþófi og útúrsnúningum á afstöðu annarra, allan. Það stendur ekki til að hrófla í einu eða neinu við föstum umsömdum kjörum, hvorki opinberra starfsmanna né annarra launamanna, það er alveg á hreinu. Við ætlum að verja þau en við ætlum að verja líka störfin þannig að það komi ekki til fjöldauppsagna opinberra starfsmanna sem verður niðurstaðan af því ef Sjálfstæðisflokkurinn kæmist nálægt völdunum. Það er algerlega á hreinu. Þess vegna er það betra að jafna vinnu og jafna kjör t.d. þannig að hægt sé að verja föst umsamin og óskert kjör, þá drægju menn frekar úr yfirvinnu, óunninni yfirvinnu, aukavöktum og öðru slíku og jafni þannig kjörin. En það er líka hægt að gera það þannig að þó að það séu kjör ofan á umsamin laun séu sett mörk fyrir því og það var í það sem ég vísaði á Akureyri í gær.

Hvað er Sjálfstæðisflokkurinn að gera þar sem hann fer með völdin? Hann er með flatar launalækkanir, flata kröfu á lækkun launa í Akureyrarbæ og Reykjavíkurborg niður úr öllum launastiganum. Þvílíkur tvískinnungur að bera það á aðra sem þeir eru sjálfir að gera. Sjálfstæðisflokkurinn hækkaði skatta um 11,5 milljarða fyrir áramót. Sjálfstæðisflokkurinn hækkað útsvar á Akureyri og er að lækka þar laun. Það er veruleikinn. Farið þið nú að koma út úr glerhúsunum, góðir sjálfstæðismenn.



[11:00]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er a.m.k. alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að standa að því að hækka skattana á heimilin í landinu, nógu erfitt eiga þau fyrir. (Gripið fram í.) Það ætla hins vegar Vinstri grænir að gera og það þýðir ekkert fyrir formann Vinstri grænna að koma hérna upp og saka okkur sjálfstæðismenn um útúrsnúninga og hlaupa undan sínum eigin orðum. Forustumenn Vinstri grænna hafa lýst því yfir, þar á meðal varaformaður Vinstri grænna, að það eigi að lækka laun opinberra starfsmanna í landinu og það er kosningastefna Vinstri grænna að hækka skatta á heimilin í landinu. (Heilbrrh.: Útúrsnúningar.) Þetta er tvöfaldur löðrungur sem Vinstri grænir ætla að veita heimilunum í landinu og úr því að hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson kallar hér fram í furða ég mig á því að sá maður, sem einnig er formaður BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þegi þunnu hljóði og sætti sig við að hans eigin flokkur ætli að lækka laun sinna eigin (Forseti hringir.) skjólstæðinga. Öðruvísi mér áður brá, ég bjóst við öðru frá formanni (Forseti hringir.) BSRB en þessum viðbrögðum. (ÁÞS: Reyndu að segja satt.) Ég segi satt.



[11:02]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð ætlar að verja föst umsamin laun, að sjálfsögðu gilda kjarasamningar og laun. Það stendur ekki til að hrófla við því en við ætlum líka að verja störfin, við ætlum að reyna að forða því að mörg þúsund opinberir starfsmenn í viðbót lendi á atvinnuleysisskrá. Það skulu menn hafa í huga áður en þeir fara að leiða hugann að því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifar góða grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fer yfir hringlandahátt sjálfstæðismanna og skammast sín fyrir flokksbræður sína (Gripið fram í.) varðandi tal um skattahækkanir. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að fara í tvo hringi í skattamálum síðan í desember. Í desember sagði fyrrverandi formaður flokksins: Það er ekkert hægt að útiloka um þörfina á frekari skattahækkunum. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins voru þeir komnir í gamla gírinn, engar skattahækkanir. Í sjónvarpinu á föstudag fyrir hálfum mánuði sagði nýr formaður Sjálfstæðisflokksins: Það er ekki hægt að útiloka einhverjar skattahækkanir, bara ekki nýja skatta. Nokkrum dögum síðar var öðrum hringnum lokað: Nei, engar skattahækkanir.

Eigum við eftir að sjá þriðja hringinn (Forseti hringir.) hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningar, (Forseti hringir.) að það megi ýmist hækka eða ekki hækka skatta?