136. löggjafarþing — 134. fundur
 17. apríl 2009.
málefni hælisleitenda.

[11:03]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það eru ekki þau stórtíðindi hér til umræðu sem verið hafa í morgun, heldur málefni nokkurra útlendra manna sem hér hafa leitað hælis og verið vísað brott samkvæmt Dyflinnar-reglugerðinni. Það mál skilst mér að sé enn þá í gangi og ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra um fréttir af því, hverjar þær séu og jafnframt hvort í undirbúningi séu einhvers konar breytingar eða a.m.k. hugleiðingar um breytingar á túlkun okkar á þessari reglugerð, einkum því sem varðar sendingu manna til Grikklands, sem vissulega er eitt af aðildarríkjum reglugerðarinnar en virðist ekki uppfylla þær kröfur sem reglugerðin gerir ráð fyrir um samræmt eftirlit og samræmda meðferð þeirra mála sem hér um ræðir.



[11:04]
dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegur forseti. Ég er spurð um stöðu kærumála sem til meðferðar eru í dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Ég get ekki tjáð mig um stöðu þeirra að öðru leyti en því að þau eru í vinnslu. Um er að ræða fimm mál. Eitt mál kom til sögunnar í fyrrahaust og hefur farið fram gagnaöflun í ráðuneytinu, bæði af hálfu ráðuneytisins og kæranda. Kærandi hefur sent inn gögn og ráðuneytið sömuleiðis aflað gagna.

Hvað varðar almennt stöðu mála um endursendingu á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar er ekki um að ræða neina stefnubreytingu almennt í þeim málum. Hins vegar hafa málefni hvað varðar Grikkland verið til umræðu og skoðunar í nágrannalöndum okkar og eru hér einnig. Á Norðurlöndum fer fram endursending til Grikklands. Sums staðar eru málefni þeirra einstaklinga sem um ræðir skoðuð sérstaklega og á grundvelli þeirrar skoðunar eru þeir sendir til Grikklands. Síðan benda gögn frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til þess að slík endursending sé ekki örugg. Undir það hefur Rauði krossinn tekið þannig að á grundvelli allra þessara gagna þarf að taka afstöðu. Það verður að sjálfsögðu gert þannig að rannsóknarskyldu stjórnvalda verði fullnægt.



[11:06]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra þessi svör. Að sjálfsögðu er ekki hægt að gefa hér út tilkynningar um það hvernig fer með mál þeirra manna sem eru í rannsókn en ég treysti því að dómsmálaráðherra vandi þá rannsókn og hagi úrslitum mála í samræmi við þá mannúðar- og lýðræðishefð sem hér hefur ríkt á flestum öðrum sviðum en í málefnum útlendinga og hælisleitenda. Við höfum ekki staðið okkur þar vel og þar er sárt að minnast afreka fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar sem nú situr í salnum sem hv. þingmaður.

Um Dyflinnar-reglugerðina vil ég segja að ég styð þátttöku okkar í henni. Ég tel að það sé jákvætt skref í evrópskri samvinnu. En við verðum líka að gæta okkar á því að þau ríki sem þar koma við sögu uppfylli þau skilyrði sem Dyflinnar-reglugerðin gerir ráð fyrir og þess vegna fagna ég orðum dómsmálaráðherra um Grikkland og aðstöðuna þar þar sem hún tekur í raun og veru (Forseti hringir.) undir með Rauða krossinum og Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna.



[11:07]
dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp öðru sinni vegna þess að ég gleymdi að svara síðari hluta spurningarinnar sem varðar það hvað fer fram núna varðandi endurskoðun þá sem ég hef tilkynnt að sé í gangi. Annars vegar er núna verið að fara yfir verkferla varðandi birtingu ákvarðana og brottvísanir. Embættismenn í dómsmálaráðuneyti, Útlendingastofnun og hjá ríkislögreglustjóra gera það. Einnig hef ég sett af stað endurskoðun reglna um málefni hælisleitenda, þ.e. hvað varðar lengd málsmeðferðar og önnur atriði. Þetta verður að skoða með tilliti til nýlegrar dómaframkvæmdar á Íslandi. Einnig verður að athuga dóma Mannréttindadómstólsins í þessu sambandi.