136. löggjafarþing — 134. fundur
 17. apríl 2009.
um fundarstjórn.

svar við fyrirspurn.

[11:16]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér barst í dag svar við fyrirspurn um vinnslu hvalafurða frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það var með nokkuð daufu sinni sem ég las það svar því að þar var m.a. beðið um upplýsingar um hversu mikill hluti hvers dýrs af tiltekinni vertíð var nýttur í vinnslu, um hrefnur og langreyðar, um vinnslu í kjöt, spik/rengi, mjöl og lýsi og hvernig stæði á þeim mun sem þarna kynni að vera á. Svör sjávarútvegsráðherra voru þau að ráðuneytið hafi ekki þessar upplýsingar en þingmanninum er bent á að leita þeirra hjá fyrirtækinu Hval hf. eða Hrefnuveiðimönnum ehf.

Það hefur ekki upplýsingarnar, það hefur þá greinilega ekki áhuga á að leita þeirra, það lítur ekki svo á að því sé skylt að gera það.

Forseti. Ég tel að þessi svör séu ekki fullnægjandi og að ráðuneytið standi sig ekki í þeirri upplýsingagjöf sem það er skylt að vera í gagnvart þingmönnum á Alþingi Íslendinga og bið um að forseti leiti skýringa á þessum skrýtnu svörum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. (Gripið fram í.)



[11:18]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Ég ætlaði ekki beinlínis að bera af mér sakir þó að mér þyki leitt að valda hv. þingmanni vonbrigðum með að svör úr ráðuneytinu séu ekki nægjanlega viðamikil eða með nægjanlega miklum upplýsingum. Ég verð hreinlega að játa það, er ekki best að vera heiðarlegur og segja satt? Ég hef ekki haft aðstöðu til að liggja yfir þessu sjálfur, alveg í einstökum atriðum. Ég hef þó aðeins getað litið yfir þessi svör áður en þau hafa farið frá mér eins og rétt og skylt er, enda ber ég ábyrgð á þeim. Það hefur mætt á ráðuneytinu að reyna að tína þarna saman einhver gögn þannig að ég þekki ekki nákvæmlega hvort það er einfaldlega vegna þess að þau hafi ekki borist, ekki fengist eða hvort ráðuneytinu hefur ekki gefist tími til að afla þeirra sem svarað er nákvæmlega með þessum hætti í því tiltekna tilviki sem hv. þingmaður spyr um.

Það er alveg sjálfsagt mál að halda áfram að aðstoða hv. þm. Mörð Árnason við að grafa í þessi mál. Hann hefur sýnt mikla elju í því að spyrja um þetta með nokkuð nákvæmum og sundurliðuðum fyrirspurnum og ég skal leggja mitt af mörkum til þess eins og ég get að tryggja að hv. þingmaður fái, þótt seint sé í einhverjum tilvikum, þessar upplýsingar. Það má að sjálfsögðu koma þeim til þingmannsins jafnvel þó að þing hafi lokið störfum.



[11:19]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Já, það var reyndar eins og mig grunaði, ég veit að fjármálaráðherra, sjávarútvegsráðherra og landbúnaðarráðherra í einni persónu hefur mikið að gera á þessum fyrir vora þjóð svo alvarlegu tímum. Mig grunar að þarna hafi sjávarútvegsráðuneytið verið á sjálfstýringu og svarað eins og þess er vandi. Ég er sum sé ekki sáttur við þau svör að ráðuneytið hafi ekki upplýsingar um hvalafurðir sem það sannanlega hefur úr undirstofnunum sínum, þar á meðal Hafrannsóknastofnun, um fiskafurðir og á að hafa og á þá ef um það er spurt að fá þær fram og færa sönnur á þær upplýsingar eins og hægt er frá þeim fyrirtækjum eða aðilum sem um er að ræða.

Ég þakka hins vegar ágæt viðbrögð hins trausta fjármála-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og vænti stuðnings hans í því að grafast enn frekar fyrir um þessi efni á næstunni.