136. löggjafarþing — 134. fundur
 17. apríl 2009.
stjórnarskipunarlög, frh. 2. umræðu.
frv. JóhS o.fl., 385. mál (stjórnlagaþing, náttúruauðlindir í þjóðareign og þjóðaratkvæðagreiðslur). — Þskj. 648, nál. 881 og 892, frhnál. 948 og 951, brtt. 805, 882, 917 og 949.

[12:41]
Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir framhaldsnefndaráliti sem fulltrúi meira hluta stjórnarskrárnefndar, en ásamt mér standa að álitinu hv. þingmenn Atli Gíslason, Ellert B. Schram, Siv Friðleifsdóttir og Guðjón A. Kristjánsson.

Virðulegi forseti. Að mínu mati eru þær hugmyndir sem settar voru fram um breytingar á stjórnarskránni einhverjar þær merkustu til lýðræðisumbóta sem settar hafa verið fram í mjög langan tíma. Það vakti alveg sérstaka athygli mína að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem telja sig hafa komið í veg fyrir að þær hugmyndir geti orðið að veruleika, hafa lýst því yfir að þeir hafi unnið fullnaðarsigur, væntanlega á þjóðinni, og tekist að þeirra mati að koma í veg fyrir að merkar lýðræðisumbætur næðu fram að ganga. Meira að segja hv. þm. Björn Bjarnason, sem tjáði sig oft og iðulega í umræðum, lýsti því yfir sem fulltrúi minni hluta þingsins — en minni hluti þingsins hefur verið andvígur þessum breytingum — að hann mundi stunda málþóf a.m.k. fram á kjördag ef með þyrfti og taldi sig mann að meiri að stunda slíkar æfingar (Gripið fram í.) til þess að koma í veg fyrir að meiri hluti þingsins næði því fram að tryggja að íslenska þjóðin mundi öðlast þær lýðræðisumbætur sem í þeim hugmyndum felast, aukin heldur að tryggt yrði með ákvæði í stjórnarskrá að náttúruauðlindir yrðu varanlega í þjóðareign. Það að telja sig hafa komið í veg fyrir að slíkar hugmyndir yrðu að veruleika telur Sjálfstæðisflokkurinn, eða hv. þingmenn hans, að í því felist fullnaðarsigur.

Við hljótum að spyrja eðli málsins samkvæmt — fullnaðarsigur á hverju? Því að þetta voru umbætur til handa þjóðinni. Væntanlega er þá um það að ræða að fulltrúar valdaflokks um óbreytt ástand hafa talið að með þeirri niðurstöðu að náist þessar hugmyndir ekki fram séu þeir að tryggja stöðu sína og hag sinn til framtíðar. Það er væntanlega sá fullnaðarsigur sem þeir telja sig hafa unnið nái þessar hugmyndir ekki fram að ganga.

Virðulegi forseti. Málið var tekið aftur til umfjöllunar í sérnefnd um stjórnarskrármál áður en 2. umr. lauk í því skyni að reyna að ná samkomulagi milli fulltrúa þingflokks Sjálfstæðisflokksins annars vegar og fulltrúa meiri hlutans hins vegar. Það var gert, virðulegi forseti, vegna þess að í umræðum á hinu háa Alþingi um þetta mál hafði ítrekað komið fram, í mýmörgum ræðum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að þeir væru tilbúnir til að ná einhvers konar sátt eða lendingu um þrjár fyrstu greinar frumvarpsins, sem lúta í fyrsta lagi að því að náttúruauðlindir verði þjóðareign og þær verði ekki varanlega af hendi látnar, í annan stað að einfalda og auðvelda breytingar á stjórnarskrá m.a. í því skyni að niðurstaðan sé sú að ekki þurfi að fara fram alþingiskosningar í milli þar til breytingar á stjórnarskrá ná fram að ganga, og í þriðja lagi að almenningur geti haft frumkvæði að því að knýja á um að þjóðaratkvæðagreiðsla geti farið fram um málefni er lúta að almannahag. Þetta voru þau þrjú ákvæði sem ítrekað komu fram í andsvörum og ræðum sem talið var að mætti hugsanlega ná samkomulagi um. Á hinn bóginn hafa hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins verið samkvæmir sjálfum sér allan tímann að þeir voru algjörlega andvígir því að stjórnlagaþing næði fram að ganga.

Í því ljósi lýsti fulltrúi Framsóknarflokksins því yfir að hann vildi falla frá hugmynd um stjórnlagaþing ef það gæti orðið til þess að ná sátt um aðrar lýðræðisbreytingar og tryggingu á því að auðlindir yrðu varanlega í þjóðareign. Í því umhverfi var ákveðið að kalla málið til nefndar og leita sátta. Frá því er skemmst að segja að sú sátt tókst ekki og þess vegna var málið tekið út á nýjan leik og því var þetta framhaldsnefndarálit skrifað.

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að mér er nokkur vandi á höndum að fjalla um þær tillögur sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram í stjórnarskrárnefndinni. Vegna þess að svo undarlega vildi til að frá því að tillögur fulltrúa stjórnarskrárnefndar voru settar fram og kynntar sem sáttagrundvöllur í stjórnarskrárnefnd, tóku þær breytingum frá því að tillagan var kynnt í stjórnarskrárnefnd þar til hún var lögð fram á þinginu. (Gripið fram í.) Þetta er með hreinum ólíkindum og líklega óþekkt. Þetta er dæmi um hver hinn raunverulegi sáttavilji þingmanna Sjálfstæðisflokksins var í málinu. Með öðrum orðum, þeir lögðu fram í stjórnarskrárnefnd tillögur til viðræðna og umræða um þær dró fram að þeir töldu alveg fráleitt og vörðu það í umræðum í stjórnarskrárnefnd að sett yrði ákvæði um að auðlindir yrðu varanlega í þjóðareign. Þetta var tekið upp og spurt: Hvers vegna eru hv. þingmenn að leggja til að ákvæði þess efnis að lagt verði bann við framsali á náttúruauðlindum í þjóðareign, félli brott samkvæmt breytingartillögum þeirra? Svörin voru á þá leið að þetta væri ekkert síðra svona og þess vegna mætti vel ganga frá því á þann hátt.

Síðan er tillagan lögð fram á Alþingi breytt, sem sagt ekki sama tillaga og var kynnt í stjórnarskrárnefndinni. Mér er því dálítill vandi á höndum, virðulegi forseti, þegar ég fjalla um tillögu þá sem lögð var fram í stjórnarskrárnefnd, að hún hefur tekið breytingum frá því … (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Á þeim tímapunkti slitnaði upp úr viðræðum vegna þess að hugmyndin um þjóðareign — eitt hennar megineinkenni er einmitt bann við varanlegu framsali á auðlindum. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu til að það yrði tekið út og töldu það síðan tilefni til sátta. (Gripið fram í.)

Í mínum huga þótti mér þetta vera skýrt dæmi um að áhugi hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins á því að ná sáttum í málinu hafi ekki verið til staðar. Ég vil þó líka segja að þær breytingar sem þeir hafa gert á sinni eigin tillögu, frá því að þeir lögðu hana fram sem sáttatillögu í stjórnarskrárnefnd þar til þeir lögðu tillöguna fram, eru til mikilla bóta og koma til móts við þau sjónarmið sem við settum fram í nefndinni. Og vel má vera að sú umræða sem fór fram í þingsalnum síðar um þá hugmynd sem þeir lögðu fram í stjórnarskrárnefnd hafi leitt til þess að þeir hafi ekki treyst sér til annars en að gera þessar breytingar og væntanlega metið þá sína pólitísku hagsmuni þannig að betra sé að hafa þetta inni og er það vel að þeir hafi séð að sér. Hins vegar hefði verið gott að það hefði komið fram í umræðunni í stjórnarskrárnefndinni þar sem málið var tekið fyrir til þess að reyna að ná sáttum í málinu. Þetta var innlegg þeirra í það mál.

Í annan stað vil ég nefna að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu einnig fram tillögu um það hvernig breyta mætti stjórnarskránni og lögðu þar fram sömu tillögu er ekki náði fram að ganga árið 2007, þá tillögu sem unnin var í stjórnarskrárnefnd sem starfaði á árunum 2005–2007. Þeir lögðu fram með öðrum orðum sömu tillögu. Þetta er reyndar tillaga að danskri fyrirmynd og var sett í dönsku stjórnarskrána árið 1953, ef ég man rétt, og frá þeim tíma hafa ekki verið gerðar breytingar á dönsku stjórnarskránni, sem m.a. ræðst af því að það er mjög flókin útfærsla. (Gripið fram í.) Þetta er það sem hv. þingmenn lögðu fram. Staðreyndin og veruleikinn er sá að þeirri sömu tillögu hafði verið hafnað (Gripið fram í: Af hverjum?) af formönnum flokkanna um morguninn fjórum eða fimm tímum áður en þessi tillaga var lögð fram. (Gripið fram í.)

Ég spyr: Felst í því raunveruleg tillaga til að ná sátt þegar fyrir liggur að sama tillaga hafði verið rædd á fundi formanna flokkanna, sem haldinn var m.a. í því skyni að reyna að ljúka þingstörfum og ná um það sátt þar sem þetta mál var einnig á dagskrá? Ég sat þann fund bara svo það liggi fyrir. Á þeim fundi var sem sagt lögð fram þessi sama sáttatillaga og henni var hafnað. Fjórum tímum síðar mæta þeir hv. þingmenn til fundar við sérnefndina með sömu tillöguna og líta svo á að þeir séu að reyna að ná sátt og hafa jafnvel tjáð sig þannig í fjölmiðlum að þeir hafi haft raunverulegan áhuga á að ná sátt. Hið raunverulega verkefni þingmanna Sjálfstæðisflokksins, og það hefur komið hér fram þar sem minni hlutinn hefur barist mjög harðlega gegn þessu máli og sett Íslandsmet í umræðum á Alþingi í fjölda ræðna, var að koma í veg fyrir og standa vörð um óbreytt ástand. Það var í reynd verkefni sjálfstæðismanna í umræðunum. Það var erindið. Þess vegna var þetta leikrit sett upp þar sem menn reyndu að búa svo um hnútana að þeir væru raunverulega að reyna að ná sátt. Þessar tvær tillögur voru lagðar fram, tillaga sem var lögð fram í nefndinni sem tók síðan breytingum, það var sem sagt önnur tillaga lögð fram á þinginu en lögð var fram í nefndinni til ná sátt. Síðan leggja þeir fram sömu tillögu um breytingar á stjórnarskránni og var hafnað á fundi formanna fjórum, fimm tímum áður. (Gripið fram í.) Þetta er alveg með ólíkindum. Svo koma menn hér upp og segja: Ja, við vorum aldeilis tilbúnir að ná sátt, við vorum boðberar sáttarinnar. Þetta er alveg með ólíkindum.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða, eins og ég gat um í upphafi máls míns, að mínu mati miklar lýðræðisumbætur og þetta er fullnaðarsigur hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins á þjóðinni, eins og þeir hafa lýst, fyrir flokksræðið og fyrir vörð um óbreytt ástand. Að mínu mati er aðeins töf á eðlilegum lýðræðisumbótum. Í sögunni verður það væntanlega svanasöngur hv. þm. Björns Bjarnasonar hér á hinu háa Alþingi að hann hafi verið tilbúinn til þess að stunda málþóf fram á kjördag til að koma í veg fyrir þessar lýðræðisumbætur. Það er mjög athyglisvert.

Hv. þm. Björn Bjarnason hefur einmitt gengið manna lengst í stóryrðum og fullyrðingum um niðurlægingu Alþingis sem var rótin að því að hv. þingmaður var tilbúinn að vera hér fram á kjördag. Niðurlæging Alþingis fælist í því að öðrum en þinginu yrði falin heimild til þess að endurskoða stjórnarskrána og leggja tillögur fyrir þjóðina. Í því fælist áður óþekkt niðurlæging. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur komið hér upp með hugmyndafræði hv. þm. Björns Bjarnasonar og sagt að önnur eins niðurlæging hafi ekki átt sér stað frá því að Alþingi var stofnað 930, það er ekkert minna.

Ég held að ástæða sé til að skoða þá fullyrðingu, ég held að ástæða sé til að fara aðeins yfir hana í hverju niðurlæging Alþingis fælist. Viðhorf hv. þm. Björns Bjarnasonar virðist mér vera það að uppspretta valdsins sé á Alþingi, ekki hjá þjóðinni. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að leggja honum það í munn, en uppspretta valdsins sé einmitt hjá Alþingi og það sé þjóðarinnar að velja inn á Alþingi hvar valdið er, fólk eða einstaklinga til að fara með þetta vald. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þingmaður hljóti að túlka þetta svona, ég get ekki skilið hann á annan veg.

Hv. þm. Björn Bjarnason fór hins vegar ekkert í það stjórnlagaþing sem hér var haldið árið 1851, því 1851 var kosið á stjórnlagaþing persónukjöri, sem síðan var kallað þjóðfundurinn. Niðurlæging þingsins, eins og hv. þm. Björn Bjarnason leyfði sér að tala í ræðustól vegna þess að hugmyndin var að stofna stjórnlagaþing, er svo mikil að ekki yrði við unað og að hann skyldi tala og stunda málþóf í þágu mótmæla sinna við lýðræðisumbætur fram á kjördag. Staðreyndin er sú að þjóðfundurinn, stjórnlagaþing okkar, er svo hátt metið að stór mynd er af því stjórnlagaþingi á hinu háa Alþingi. Með öðrum orðum, Alþingi Íslendinga lítur ekki á það sem meiri niðurlægingu en svo að stór mynd af þjóðfundinum er einmitt í aðalanddyri þinghússins, (Gripið fram í.) að stór mynd er af þjóðfundinum, stjórnlagaþinginu sem kosið var á, kosnir voru 40 þjóðkjörnir fulltrúar inn á það stjórnlagaþing, tveir úr hverju kjördæmi, og kosið var inn á það í persónukjöri. Þetta er væntanlega eina viðmiðið sem hv. þm. Björn Bjarnason hefur þegar hann lýsir því að í því felist sérstök niðurlæging fyrir þingið að kosið skuli inn á stjórnlagaþing.

Ég held að rétt sé að rifja það upp og minna á að valdið allt er sprottið frá þjóðinni. Þjóðin getur kosið sér einstaklinga til þess að fara með þetta vald og getur kosið inn á stjórnlagaþing og stjórnlagaþing sækir vald sitt til þjóðarinnar og hefur á þann hátt möguleika á því að leggja tillögur fyrir þjóðina og endanlega er það þjóðin sem tekur um þetta ákvörðun. Þetta var hin mikla niðurlæging sem hv. þm. Björn Bjarnason taldi réttlæta að hann skyldi stunda málþóf sitt fram á kjördag til að koma í veg fyrir að meiri hlutinn næði hugmyndum sínum fram. Það var réttlætingin fyrir því.

Virðulegi forseti. Þar sem tíma mínum í þessari 1. umr. er að ljúka vil ég segja að það voru mér mikil vonbrigði að ekki væri hægt að ná sátt við Sjálfstæðisflokkinn, einn flokka af fimm hér á hinu háa Alþingi, sem barðist gegn þeim hugmyndum sem lagðar voru fram um breytingu á stjórnarskrá. Þetta tefur nauðsynlegar lýðræðislegar umbætur, það er það eina sem gerist. Í sögunni er ekki ólíklegt að hv. þm. Björn Bjarnason verði einmitt þekktur að því að hafa tekist að tefja um nokkur missiri nauðsynlegar lýðræðisumbætur á þessu sviði því að hv. þingmaður hefur leitt orðræðu og hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, það eru líklega þau eftirmæli sem umræðan mun fá.

Þrátt fyrir að við á hinu háa Alþingi hefðum getað stytt umræðuna með breytingum ákváðum við að gera það ekki. Það hefur einungis verið gert einu sinni, árið 1949, í umræðunni um NATO þar sem þingið ákvað að ljúka umræðu og ganga til atkvæðagreiðslu. Það er ekki eðli þeirra stjórnmálaflokka sem hafa lagt þetta fram, þ.e. meiri hluta þingmanna á Alþingi, að leggja til slíkar hugmyndir. Þess vegna var það ekki gert og eins þar sem fram hefur komið að samkomulag er um að reyna að ljúka þinginu í dag er líklegt að þessar lýðræðisumbætur muni ekki ná fram að ganga. En væntanlega felst í því sú grunnhugsun sem býr að baki fullyrðinga hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að þeir hafi unnið fullnaðarsigur á þjóðinni.



[13:03]
Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér áfram í 2. umr. frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskránni en það varð að samkomulagi á fundi hér á dögunum að málið skyldi tekið aftur til nefndar. Hv. síðasti ræðumaður, Lúðvík Bergvinsson, stýrði nefndarfundum og ég held að allir sem hlustuðu á ræðu hv. þingmanns átti sig á hvers vegna ekki náðist samkomulag í nefndinni. Viðhorfið sem birtist í ræðunni og viðhorfið sem birtist í garð okkar sjálfstæðismanna í þessu máli er þess eðlis að frá fyrsta degi var borin von að um það yrði nokkur sátt.

Við sögðum raunar, þingmenn Sjálfstæðisflokksins í sérnefndinni, í nefndaráliti sem við gáfum strax í upphafi þessarar umræðu, með leyfi forseta:

„Við meðferð þessa máls hefur verið gengið gegn þeirri venju að undirbúa breytingar á stjórnarskrá á þann veg að leitað sé samstöðu allra flokka. Þá hefur verið haldið þannig á málinu í sérnefnd um stjórnarskrármál að tillögu minni hluta nefndarinnar um leið til sátta í henni hefur verið hafnað. Á síðasta fundi sérnefndarinnar lýsti formaður hennar því einfaldlega yfir að tími sátta væri liðinn. Minni hluti sérnefndarinnar gagnrýnir þessa málsmeðferð harðlega og telur hana eina svo ámælisverða að vísa beri frumvarpinu frá að lokinni 2. umræðu um málið og flytur hér tillögu um það.“

Þetta eru upphafsorð í nefndaráliti okkar sem lá fyrir hér og hefur legið fyrir í þeim umræðum sem hér hafa farið fram. Ég ítreka þau sjónarmið mín að ég er stoltur af því að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessum umræðum og ég er einnig stoltur af því sem fram hefur komið að hér hafa verið fluttar meira en 700 ræður í tilefni af þessu máli og í tengslum við það og í tengslum við viðleitni okkar sjálfstæðismanna til að leiða stjórn þingsins og ríkisstjórninni það fyrir sjónir að það væri eðlilegt að haga dagskrá þingsins á annan veg en gert er og gert hefur verið. Ég er tilbúinn, eins og ég hef sagt og hv. síðasti ræðumaður minnti á oftar en einu sinni í ræðu sinni, til að flytja hér margar ræður enn til þess að koma í veg fyrir að sú ósvinna nái fram að ganga að svipta Alþingi stjórnarskrárvaldinu, að það verði hér á Alþingi sem menn ræði og komist að niðurstöðu um stjórnarskrána og því verði ekki vísað frá þinginu og ekki tekið það vald af þinginu. Sú afstaða mín er óbreytt og breytir engu um það þótt vitnað sé til þjóðfundarins árið 1851 þegar aðstaða okkar Íslendinga til valds í eigin málum var allt önnur en hún er nú og alls ekki saman að jafna stöðu Alþingis á þeim tíma og stöðu Alþingis nú. Menn fjölluðu þar um stöðu Íslands innan danska ríkisins en ekki það sem við erum að tala um hér, hvort afsala eigi Alþingi valdi í hendur annarri stofnun sem er jafn laus í reipunum og kemur fram í tillögunum um breytingar á stjórnarskránni. Allar svona sögulegar tilvitnanir finnst mér bera meiri vott um skort á söguþekkingu en raunveruleikanum og minni á það sem kom fram hér í gær að þegar menn eru að slá um sig með þessum hætti, eins og að tala um Soffíu frænku, getur það hitt þá sjálfa verr en þann sem árásin á að beinast að. Ég held að svo sé líka þegar rætt er um það að bera saman stöðu Alþingis nú og á tíma þjóðfundarins árið 1851, það sýnir mér bara að menn hafa ekki þann skilning á þróun mála hér, hvorki stjórnskipunarmála né stjórnarfarsmála né réttarstöðu Íslands almennt, að bera þetta tvennt saman og ótrúleg vanþekking sem birtist í því. Ég gef því ekki mikið fyrir slíka sagnfræði og slíkar sagnfræðilegar samlíkingar.

Hitt, að segja að lýðræðisóvild okkar sjálfstæðismanna felist í því að vilja halda þessu valdi hjá Alþingi, er að sjálfsögðu algjörlega fráleitt. Vandinn í þessu máli er sá að frá upphafi, frá fyrsta degi hefur verið beitt ólýðræðislegum aðferðum í tilrauninni til að knýja það fram. Strax á fyrsta degi og í fyrstu ræðu sem flutt var hér af hálfu okkar sjálfstæðismanna, af þáverandi þingbróður okkar, Geir H. Haarde, var því mótmælt að þessi málsmeðferð yrði viðhöfð og það hefur verið eins og óslitinn þráður í málflutningi okkar frá fyrsta degi að við sættum okkur ekki við að það sé brotin sú hefð sem hér hefur gilt um breytingar á stjórnarskránni allt frá árinu 1918. Það eru aðeins tvö tilvik, 1934 og 1959, þar sem farið hefur verið á svig við þá meginstefnu að leita sátta allra stjórnmálaafla í landinu til þess að vinna að breytingum á stjórnarskránni. Þetta hefur svo margsinnis komið fram að það er fráleitt að kenna það við óvild í garð lýðræðisins að við viljum viðhalda þessum aðferðum og þessum stjórnarháttum.

Það sem mér finnst hins vegar einkennilegt og get ítrekað hér er sú óvild sem komið hefur fram í máli margra þingmanna í garð Alþingis sjálfs, í garð þess að Alþingi hafi þetta vald í sínum höndum að breyta stjórnarskránni, og hefur valdið mér mestum vonbrigðum. Ég skil svo sem vel að prófessorar í háskóla Íslands, eins og prófessor Eiríkur Tómasson, telji sér sæma að ráðast á þingið og segja að þingið eigi ekki að fara með þetta vald og kenna því um og telja að slíkar kenningar hafi sannast nú af því að menn hafi ekki orðið sammála um þetta. Undirrótin að því að við stöndum í þessum sporum er aðferðin sem beitt var og það er sorglegt ef þau ráð að beita þessari aðferð eru komin frá mönnum sem teljast sérfræðingar utan þingsins og ætla síðan að beita því og tala um að það sé niðurlæging þingsins að þetta náist ekki fram hér vegna ósamlyndis. Að sjálfsögðu er það svo um mörg mál í þinginu að þau nást ekki fram vegna þess að menn eru ósammála um þau og þeim mun meiri ástæða er til að árétta mótmæli sín og andstöðu ef um breytingar á stjórnarskránni er að ræða.

Virðulegi forseti. Þegar við komum saman til fundar í sérnefndinni svonefndu, undir formennsku Lúðvíks Bergvinssonar, að morgni fimmtudags var farið yfir málið og það rakið hvernig það stæði og reifuð þau sjónarmið sem menn töldu og formaður sérstaklega taldi þá nauðsynlegt að reifa. Við sjálfstæðismenn fórum fram á hlé á fundinum til þess að við gætum ráðið ráðum okkar og komið síðan með tillögur af því að þess var óskað að við greindum frá því hvaða tillögur við hefðum þar sem við höfðum jú lagt áherslu á það að leitað yrði sátta. Það höfum við gert, virðulegi forseti, og hér liggja fyrir breytingartillögur okkar og nefndarálit sem ég get lesið því að það er mjög stutt:

„Við umræður í nefndinni lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram hugmynd að efnislegri sátt um 1. og 2. gr. frumvarpsins eins og sjá má á breytingartillögum minni hlutans. Þá var til viðbótar lögð fram tillaga til sátta um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Með samþykkt hennar væri lagður grunnur að vandaðri heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í anda umræðunnar í þinginu undanfarna mánuði.

Því miður sló meiri hlutinn á útrétta sáttahönd sjálfstæðismanna í öllum framangreindum liðum.“

Hér er tillaga til þingsályktunar sem er flutt af öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins auk hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og hún segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa hlutfallskosningu 25 manna nefnd sem hafi það verkefni að leggja fyrir Alþingi tillögu að endurskoðaðri stjórnarskrá í tæka tíð fyrir 17. júní 2011 svo að álykta megi um hana á hátíðarfundi Alþingis í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar.“

Það sem hér er lagt til er vinnuferli eins og segir í greinargerð með tillögunni sem er alkunnugt í öðrum löndum og þar er sérstaklega nefnd til sögunnar Svíþjóð og það þykir hafa tekist vel til við þá miklu vinnu sem þar hefur verið unnin á undanförnum árum við að endurskoða sænsku stjórnarskrána og við nefnum það til marks um góð vinnubrögð. Þessi tillaga er ekki hér á dagskrá en hún er hluti af því sáttaboði sem við kynntum á fundi sérnefndarinnar.

Síðan eru tvær efnisbreytingar, sú fyrri hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þeirra náttúruauðlinda sem ekki eru í einkaeign og hefur eftirlit með nýtingu þeirra eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slíkar auðlindir má hvorki selja né láta varanlega af hendi.“

Þetta er grein sem nú í þessari mynd tekur mið af þeim umsögnum sem við höfum fengið í nefndinni. Komið hefur fram mjög ákveðin gagnrýni á hugtakið þjóðareign og talið að það væri of óljóst og ef það væri í raun og veru skilgreint eins og eðlilegt væri með hliðsjón af eignarrétti væri þar um ríkiseign að ræða. Það er það sem við erum að segja í þessu án þess að nota hugtak sem veldur greinilega miklum deilum og kallar á gagnrýnin viðhorf sem eru óþörf þegar verið er að breyta stjórnarskrá. Þar á að okkar mati allt að vera klárt og kvitt, það á ekki að vera með atriði í stjórnarskránni sem augljóslega eru til þess fallin að valda ágreiningi og deilum eins og kom fram varðandi umsagnir um þetta hugtak. Við tökum það því burt en segjum sem svo að þarna sé um forsjá ríkisins að ræða. Og það er athyglisvert að í tillögum auðlindanefndar, sem lagðar eru til grundvallar öllum umræðum um þetta mál, þjóðareignina, er sérstaklega vísað til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum og þegar þau lög eru skoðuð og farið yfir þau er augljóst að þar er verið að fjalla um ríkiseign, eign sem ríkið á og ákveður að hljóti þá umsýslu sem lögin mæla fyrir um. Það er ekkert í þessari tillögu okkar annað en að skýra þetta betur, að taka burtu þessi ágreiningsefni um hugtök sem menn átta sig ekki nákvæmlega á hvað þýða.

Síðan hafa orðið hér umræður og hv. formaður sérnefndarinnar og málsvari meiri hlutans gerði mikið veður út af því að við höfum lagt fram skjal í nefndinni sem síðan hafi tekið breytingum áður en við lögðum það fram í þingsalnum og telur hann að það sé einsdæmi í sögu þingsins, ef ég veit rétt. Ég held að það sé álíka áreiðanleg sagnfræði og að bera saman stöðu þjóðfundarins og Alþingis 1851 og stöðu okkar í dag, því að að sjálfsögðu hafa menn lagt fram í þingnefndum skjöl til umræðu í nefndunum og síðan, eftir viðbrögð í nefndinni, komið fram með önnur skjöl inn í þingið þegar þeir sjá hvernig viðbrögðin eru. Ef gefist hefði tóm til þess í nefndinni að ræða efnislega um þessa þætti, það var m.a. fyrirspurn um túlkun á því skjali sem við lögðum fram og þegar við heyrðum hvernig menn túlkuðu það og svör okkar, það var augljóst að það skjal sem við lögðum fram í nefndinni gaf tilefni til þess að túlka skoðanir okkar á rangan hátt, vildum við að sjálfsögðu forðast slíkan ágreining um eitthvað sem eru raunar deilur um keisarans skegg þegar litið er á efni málsins og við lögðum því þetta skjal hér fyrir.

Það er þetta skjal sem er til umræðu nú í þinginu og var hálf hlálegt fyrir okkur að fylgjast með því upphlaupi sem varð hér í gær þegar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir rauk upp og gekk greinilega á milli þingmanna til að espa þá til mótmæla við okkur út af einhverju sem ekkert var og er ekki neitt, því að það liggur ekki fyrir annað en ímyndun þeirra sem fengu upphaflega plaggið í hendur hvað í því mundi standa þegar það yrði lagt fram í þingsalnum. Ég tel að þessar deilur séu eins og ég segi, deilur um keisarans skegg og tímasóun þegar litið er á þetta mál því að þessi tillaga okkar er alveg skýr eins og ég las hér og hef kynnt hana. Því þarf ekki að deila um það og setja það mál í einhvern annan búning en það er, nema menn vilji halda áfram að endurspegla það andrúmsloft sem var í nefndinni og þá óvild sem ávallt var sýnd þegar við sjálfstæðismenn vildum hreyfa hugmyndum til að kanna hvort það væri sáttagrundvöllur í starfi nefndarinnar. Á síðasta fundi nefndarinnar, áður en málið var tekið út úr henni, var sagt eins og ég las hér í upphafi að tími sátta væri liðinn þegar við vildum taka umræðu um málið og sögðum að það mundi spara mikinn tíma í þingsalnum ef nefndin gæfi sér tíma til þess að leita sátta í málinu. Það var ekki gert og því er málið statt núna í þeim ágreiningi sem það hefur verið frá upphafi. Sjónarmið okkar hafa skýrst og tillögur okkar liggja fyrir bæði varðandi efni málsins og eins varðandi málsmeðferðina, ef menn vildu taka tillögu okkar til þingsályktunar hér til afgreiðslu.

Virðulegi forseti. Við höfum unnið þetta mál málefnalega, við höfum skýrt okkar sjónarmið í umræðunum, margir hafa tekið til máls og margar ræður verið fluttar og sjónarmiðin eru algjörlega skýr. Okkur er því ekkert að vanbúnaði að halda umræðunni áfram á grundvelli hugmynda okkar og tillagna ef meiri hluti þingsins kýs að gera það. Okkur hefur hins vegar undrað að meiri hluti þingsins skuli ekki hafa áttað sig á því fyrr hver staða málsins væri í raun og veru, hvernig staða málsins væri og hvernig málum væri háttað í þessu, að við erum ósammála málsmeðferðinni og við erum ósammála ýmsum atriðum sem við höfum síðan gert tillögur um og sjáum fyrir okkur í þeirri mynd sem við höfum kynnt.

Hér var síðan vikið að því varðandi 2. gr. frumvarpsins þar sem við leggjum fram breytingartillögu, að það hafi verið eitthvert óhæfuverk af okkar hálfu að leggja þá tillögu fram af því að hún hafi verið rædd á einhverjum öðrum fundi en sérnefndarfundi og á einhverjum öðrum tíma en sérnefndarfundurinn var, formaður sérnefndarinnar hafi setið þann fund og þess vegna orðið mjög undrandi að fá þær tillögur aftur í hendurnar þegar við tillögumennirnir lögðum hana fram. Mér finnst þetta enn eitt dæmi, virðulegi forseti, um það hvernig á öllum þessum málum er tekið, annars vegar erum við sakaðir um að hafa lagt fram tillögu í nefndinni sem við höfum síðan betrumbætt og lagt fram í annarri mynd hér í þingsalnum og við hefðum vafalaust betrumbætt ef einhverjar umræður hefðu orðið um það í nefndinni, og hins vegar erum við sakaðir um að hafa lagt fram tillögu sem formaðurinn hefði séð áður á einhverjum öðrum fundi sem við sátum ekki og þetta er talið okkur mjög til hnjóðs og vanvirðu.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, ég tel að öll framganga meiri hlutans í þessu máli hafi verið á þann veg að í fyrsta lagi hafi verið borið við tímaskorti og síðan ómálefnalegum sjónarmiðum þegar slegið var á okkar framréttu sáttarhönd á fundi sérnefndarinnar í gær og síðan var komið hér upp í ræðustól síðdegis í gær og hugmyndir okkar affluttar og hrópað hástöfum að við hefðum misst einhverja grímu sem við höfum aldrei verið með í þessu máli, við höfum aldrei sett upp neina grímu í þessu máli. Eina fólkið sem ég hef séð með grímu við þinghúsið er fólkið sem hefur staðið hér fyrir utan og lét hana falla eftir að Vinstri græn komust í ríkisstjórnina. Það er eina fólkið sem ég hef séð með grímu í nágrenni við þinghúsið og hefur talið sér sæma að nálgast það með grímu. Við höfum verið án grímu í þessum umræðum, við höfum lagt okkar sjónarmið fram og við höfum kynnt þau og okkur er ekkert að vanbúnaði að halda þessum umræðum áfram. Eins og ég hef sagt hef ég góðan tíma fram að kosningum til að flytja hér fleiri ræður og ég mundi fagna því ef við gætum flutt svona þúsund ræður í tilefni af þessu máli. Við erum búin að tala hér núna rúmlega 700 sinnum, þingmenn, um þetta og ef við næðum þúsund ræðum til að verja heiður Alþingis (Gripið fram í.) væri það mjög til ánægjuauka og það yrði göfugt markmið, (Gripið fram í.) jafnvel tvö þúsund ræður til að verja heiður Alþingis, því að ég tel að aldrei verði fluttar nógu margar ræður hér til að verja heiður þingsins. Ég skora á þá hv. þingmenn sem hér eiga eftir að vera áfram við störf að gleyma ekki heiðri Alþingis og virðingu Alþingis þegar þeir ganga til starfa í þessum þingsal.



[13:22]
Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Bjarnason hóf ræðu sína á því að vísa í þekkta karaktera úr leikhúsinu og vísaði þar m.a. í Soffíu frænku. Eftir að hafa hlýtt á mál hv. þingmanns verð ég að játa að hann minnir mig pínulítið á Gosa því hv. þingmaður ræddi um óvild í garð sjálfstæðisþingmanna og ræddi um óvild í garð þingsins.

Ég hef setið í stjórnarskrárnefnd frá upphafi og sáttatónninn sem hv. þingmaður telur sig hafa leitt er með þeim eindæmum að ég hef aldrei orðið vitni að slíkri framkomu nokkurs þingmanns hér í nefnd eins og hv. þingmaður sýndi hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur meðan hún leiddi þetta starf. Það hefur aldrei í þessu ferli örlað á sáttatilboði frá hv. þingmanni. (Forseti hringir.) En í lokin langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig stóð á því að önnur tillaga var lögð til (Forseti hringir.) sátta í stjórnarskrárnefnd en sú tillaga sem síðan var lögð hér fram á hinu háa Alþingi?



[13:24]
Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að ræða bókmenntasmekk hv. þingmanns. Hér áður í umræðunni hefur hann vitnað í góða dátann Svejk og nú talar hann um Gosa.

Ég er ekki sérfræðingur í þessum bókmenntum og ætla ekki að taka þátt í umræðum um bókmenntasmekk þingmannsins. En ástæðan fyrir því að tillagan breyttist er auðvitað sú að hún var lögð fram til umræðu í nefndinni en lögð fram í endanlegri gerð hér. Það er náttúrlega sjálfsögð virðing við þá sem koma fram með sáttatillögur að þeir séu reiðubúnir til að laga þær að þeim sjónarmiðum sem koma fram ef það eru yfirleitt gerðar tilraunir til sátta. En þær hafa aldrei verið gerðar í þessari nefnd.

Ef hv. þingmaður er að saka mig um að hafa sýnt fráfarandi og forvera hans í formennsku í þessari nefnd einhverja óvirðingu þá voru málefnaleg rök fyrir öllum mínum skoðunum í því efni. Ef viðkvæmni hv. þingmanns er svo mikil að hann áttar sig ekki á því þá skal hann bara halda áfram að lesa Gosa.



[13:25]
Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tilefni bókmenntatilvitnana var upphafsorðræða hv. þingmanns, til að halda því til haga. En þetta þótti mér afar athyglisvert svar við fyrirspurn um það hvers vegna fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sérnefndinni lögðu fram allt aðra tillögu í stjórnarskrárnefndinni en síðan kemur hér fram. Vegna þess að í nefndinni fór einmitt fram umræða um hvers vegna hv. þingmenn legðu til að fellt yrði brott m.a. ákvæði þess efnis sem eru í upphaflegu tillögunum um breytingar á stjórnarskránni, um að náttúruauðlindir verði ekki látnar varanlega af hendi. Hvorki seldar né afhentar.

Vegna þess að í umræðu um þann þátt í sérnefndinni í gær tóku hv. þingmenn til varna fyrir því að það þyrfti ekki að vera inni. Það er því aldeilis rangt hjá hv. þingmanni að halda því fram að það hafi ekki verið leitað eftir því hvort þetta megineinkenni á því náttúruauðlindaákvæði sem var inni, hvernig á því stæði (Forseti hringir.) að það væri tekið út á þann hátt sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til.



[13:26]
Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við höfum verið á sama fundinum. Að vísu virðist hv. þingmaður hafa setið marga fundi um þetta mál sem ég sat ekki.

En ég hins vegar segi að fram kom það sjónarmið á þessum nefndarfundi að það mætti gagnálykta á þann hátt frá tillögu okkar, sem við lögðum þar fram, sem við töldum rangt. Við töldum að það væri ekki hægt að gagnálykta á þann veg sem fullyrt var á fundinum og við vildum að sjálfsögðu ekki að það væri snúið út úr þessari tillögu á þann veg að það væri eitthvað óljóst vegna þess að menn færu að gagnálykta á rangan hátt út frá tillögu okkar. Við sáum það að sjálfsögðu í hendi okkar að til þess að koma í veg fyrir það þá væri nauðsynlegt að hafa það orðalag sem við höfum á tillögunni nú til þess að menn fari ekki að álykta á rangan hátt út frá tillögu okkar.

Ég sé ekki að stjórnmálamenn eigi að vera að deila um það að mið sé tekið af umræðum og að lagðar séu fram sem skýrastar tillögur til þess að valda ekki misskilningi. Það er það sem við höfum gert.



[13:27]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Björn Bjarnason sagði að við værum að deila um keisarans skegg. Það er ekki þannig, virðulegur forseti. Í gær lögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um auðlindirnar og ég benti á það í ræðu í gær að inn í hana vantaði að náttúruauðlindirnar mætti ekki selja eða láta varanlega af hendi. Það vantaði inn í tillögu þeirra. Það vantaði líka inn í tillöguna að lýsa yfir eignarhaldi á auðlindunum, að þær væru í þjóðareigu.

Sjálfstæðisflokkurinn panikeraði síðan þegar við fórum að benda á þetta hérna í ræðustóli. Þeir hlupu til og settu þessa setningu inn varðandi það að hvorki megi selja né láta varanlega af hendi náttúruauðlindirnar. En sú setning er tilgangslaus nema að það fylgi með að náttúruauðlindirnar séu í þjóðareigu. Eignarhaldið verður að vera skýrt.

Sjálfstæðisflokkurinn passar sig á því að geta þess ekki í tillögu sinni hvernig eignarhaldinu á að vera háttað. Þjóðin á að eiga þessar náttúruauðlindir. Þjóðareign má hvorki selja né láta varanlega af hendi.

Ég vil spyrja hv. þm. Björn Bjarnason: Af hverju getur Sjálfstæðisflokkurinn ekki bara gengið alla leið til okkar og fallist á orðalagið, að náttúruauðlindirnar séu þjóðareign? Þá hefur aðgangurinn merkingu, þ.e. að náttúruauðlindirnar megi ekki selja né láta varanlega af hendi. Þetta er ekki deila um keisarans skegg, þetta er deila um grundvallaratriði.



[13:29]
Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er deila um keisarans skegg að velta fyrir sér af hverju við leggjum fram þessa tillögu ef menn eru sammála efni tillögunnar. Mér heyrðist að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson væri sammála efni tillögunnar eins og hún er núna. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir telur hins vegar að við hefðum átt að nota áfram hugtakið þjóðareign sem hefur valdið miklum deilum.

Við teljum að það sé óskynsamlegt í stjórnarskránni eins og ég sagði í ræðu minni að nota hugtök þar sem eru jafnilla skilgreind og hugtakið þjóðareign. Þess vegna tökum við af skarið í tillögu okkar um það að ríkið fari með þessar eignir og það vita allir hvað felst í því að ríkið fer með eignir af þessu tagi. Það er miklu skýrara og afdráttarlausara og ekki til þess fallið að valda þeim deilum sem deilurnar um hugtakið þjóðareign valda.



[13:30]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki svona að okkar mati og að mínu mati. Tillagan eins og hún liggur fyrir núna frá Sjálfstæðisflokknum er trix. Það vantar helminginn inn í hana. Það vantar að lýsa yfir eignarhaldi á auðlindinni. Það vantar að lýsa því yfir að hún sé þjóðareign. Annars hefur það enga merkingu að náttúruauðlindina megi ekki selja né láta varanlega af hendi.

Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega enn við það heygarðshorn að vilja ekki fallast á tillögur meiri hluta þingmanna. Ætlar að þráast við áfram og koma í veg fyrir að við getum afgreitt þetta mál sem við höfum rætt svo lengi í svo mörg ár. Ég vil minna á að þetta var líka ákvæði sem var samið um í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á sínum tíma og náðist ekki í gegn þá frekar en nú. Ég bara spyr: Hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að hleypa þessu í gegn?

Það er alveg ljóst að við verðum að halda stjórnlagaþing eða með einhverjum hætti að ná þessum vilja fram af því við erum alveg sannfærð um að þjóðin vill hafa það þannig.



[13:31]
Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þessu máli er ekki lokið. Það er klárt ef menn vilja koma orðinu þjóðareign inn í stjórnarskrána þá þarf að halda því áfram. Það er alveg skýrt. Það tókst ekki fyrir kosningarnar 2007 og við erum ekki með tillögu um það núna. Ég hef skilið það þannig að málinu sé að ljúka hér núna en umræðan verður að halda áfram.

Ég legg áherslu á að hv. þingmaður og aðrir læri af þeirri reynslu sem hér hefur skapast. Það þýðir ekki að fara fram með þetta mál á þessum grundvelli. Það verður að leita sátta og vinna þessi mál og þess vegna leggjum við fram þessa tillögu um að kosin verði nefnd, hlutfallskosningu, að menn fari í þessa vinnu með skipulegum hætti og leggi fyrir Alþingi ákveðnar tillögur eins og gert var vorið 1994 sem skilaði síðan góðum árangri með breytingum á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.



[13:32]
Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Það fer ekki fram hjá neinum að það eru afar sterkar lýðræðiskröfur meðal þjóðarinnar, kröfur um að hún komi beint og milliliðalaust að mikilvægum málum og fái meira um sín mál að segja.

Gegn þeirri kröfu, sem mikill meiri hluti þjóðarinnar setur fram og krefst, telur Sjálfstæðisflokkurinn sig hafa unnið fullnaðarsigur. Ég vil fremur nefna þetta fullnaðarósigur þjóðarinnar, sigur valds Sjálfstæðisflokksins síðastliðin átján ár. Ósigur lýðræðisins. Hér hefur þjóðin tapað en hún hefur aðeins tapað orrustu. Hún hefur ekki tapað þessu stríði um aukið lýðræði.

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson orðaði það svo í ræðu í morgun að stjórnarskrármálið kæmi ekki heimilunum við og úrræðum í þágu heimilanna. Sérkennileg ummæli, sem ég veit að hann sneri fyrst og fremst upp á efnahagsástandið. En lýðræðið skiptir samt sköpum fyrir einstaklinga og fyrir heimilin. Það skapar þá grundvallarumgjörð heimilanna sem við viljum búa við, beint, milliliðalaust og gagnsætt lýðræði. Með gagnsæju, beinu, milliliðalausu lýðræði standa heimilin mun betur gagnvart stjórnvöldum. Rétt eins og þau standa betur með þeim lýðræðisumbótum sem gerðar voru á stjórnarskránni mannréttindakafla hennar árið 1995 og ná stjórnsýslulögum. Afar mikilsverður áfangi fyrir heimilin í landinu, hæstv. forseti. Afar mikilsverður.

Það er sagt að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi staðið frammi með útrétta sáttarhönd. Gallinn á þeirri sáttarhönd var sá, eins og ég upplifði hana, að það var ekki flatur lófi borinn fram til friðar og sáttar heldur krepptur hnefi.

Það er aldeilis alrangt að það hafi ekki verið leitað sáttar um þetta mál. Ég vil aðeins fara yfir efnisatriði þess. 1. gr. varðar náttúruauðlindir, að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign og að þær megi ekki framselja varanlega. 2. mgr. í upphaflega frumvarpinu varðar sjálfbæra þróun sem ég tel afar mikilvægt atriði og hin þriðja varðar líffræðilega fjölbreytni og heilsusamlegt umhverfi. Ákvæði sem eru grundvallarþáttur í lífi manna í dag og hafa verið teknar inn í stjórnarskrár þjóða sem við berum okkur saman við.

Þessar tvær málsgreinar sættu ágreiningi. Við tókum þær út til sáttar. Að því er varðar 2. gr. um að auðvelda breytingar á stjórnarskránni þannig að þær færu undir þjóðaratkvæðagreiðslu, við breyttum líka orðalagi þar og fleiru. Um þriðju greinina gildir hið sama. Það er aukið lýðræði. En um 4. gr. var mikill ágreiningur. Þar rétti Framsóknarflokkurinn fram sáttarhönd og bauðst til að fella þá grein niður og berjast ekki fyrir henni. Það var slegið á hana.

Ég vil vekja athygli á því að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt hér á áttunda hundrað ræður þar af yfir fimm hundruð um fundarstjórn forseta. Langflestar snerust þær um formsatriði og málsmeðferð. Efnisatriðin voru lítt rædd. Ég kostaði kapps um að hlusta á þessar ræður allflestar, flestar úr þingsal og aðrar af skrifstofu minni í Vonarstrætinu.

Ég spurði í andsvörum um afstöðu sjálfstæðismanna til efnisins, margsinnis. Ég heyrði það að 1. gr. gæti gengið, 2. gr. gæti gengið og 3. gr. gæti gengið. Það þyrfti að miðla málum þar. Málamiðlunin sem kom á síðasta fundi nefndarinnar, sem var haldinn þar sem 2. umr. var frestað, var ekki málamiðlun. Okkur voru settir úrslitakostir og meira að segja þannig að það mætti framselja náttúruauðlindirnar. Það stóð greinilega í fyrstu tillögunum. Eins var með 2. gr., þar var Sjálfstæðisflokknum beinlínis fengið neitunarvald og þrengdir kostir til að breyta stjórnarskránni frá því sem nú er. Þetta voru auðvitað úrslitakostir.

Við teygðum okkur eins langt og kostur var en við mættum kröfum, óbilgjörnum kröfum, við mættum úrslitakostum. Þannig upplifði ég það. Ég hef margsinnis í starfi mínu sem lögmaður leitað sátta og átt sáttatilboð. Það eru sáttafundir en ekki til að taka á móti úrslitakröfum.

Mín skýring á málatilbúnaði sjálfstæðismanna í þessu stjórnarskrármáli er ein: Baráttan um völdin. Þeir eru að missa völd sem þeir hafa farið með óskorað í átján ár. Átján ára drottnunarvald. Slíkt drottnunarvald spillir og slíkt drottnunarvald og það að sitja við völd svo lengi hefur áhrif á hugsunarhátt manna. Það hefur birst mjög berlega í umræðunni um stjórnarskrármálið.



[13:39]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur stundum fyrir hér í þingsal að hv. þm. Atli Gíslason kastar af sér skikkju lögmannsins og íklæðist hempu lýðskrumarans og ýmislegt af því sem hann sagði áðan ber vitni um það. Til dæmis að andstaða okkar sjálfstæðismanna við frumvarpið sem hér er til umræðu og aðdraganda þess máls alls stafi af því að við viljum halda í einhver völd.

Ástæðan fyrir því að við beitum okkur gegn þessu frumvarpi hér á þingi er ekki út af einhverjum flokkshagsmunum. Alls ekki. Það eru engir flokkshagsmunir í húfi hér. Alls ekki. Ég bið menn að benda á þá flokkshagsmuni sem kynnu að vera fyrir hendi varðandi þessar breytingar. Mér er alveg óskiljanlegt hvernig menn halda því fram. Það hefur reyndar gerst áður í þessari umræðu.

Hæstv. forseti. Ég átti tvær mínútur en ekki eina.

(Forseti (GSB): Forseti hafði tilkynnt áður að það var ákveðið að stytta tíma í andsvörum og hver ræðumaður hefði eina mínútu.)

Þá verð ég að beygja mig undir það vald, hæstv. forseti. En ég nota þá bara tækifærið og ítreka mótmæli mín við aðdróttunum hv. þm. Atla Gíslasonar.



[13:41]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Það er orðið fremur regla, frú forseti, en undantekning að sjálfstæðismenn komi hér í ræðupúltið og gefi mönnum sem eru á annarri skoðun en þeir einkunnir. Og yfirleitt laklegar, skikkja lýðskrumara var eitt dæmi um það. Við höfum heyrt mörg svona dæmi í umræðunni. Þeim sem eru ósammála Sjálfstæðisflokknum eru valin einkunnarorð sem eru ekki þeim til sóma sem færa þau fram.

Það er eitt sem ég gleymdi að nefna í fyrri ræðu minni, frú forseti, þegar ég hlustaði á andsvörin. Það er það að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í þessu máli í herðar niður. (Gripið fram í.) Mér virðist af andsvörum að meiri hluti í flokknum styðji þessar breytingar þó að þeir vilji einhverjar minni háttar tæknilegar útfærslur. En það virðist einhver minnihlutahópur í flokknum hafa stjórnað för.

Þær athugasemdir sem þeir vitna stöðugt í eru langflestar um málsmeðferð og form en menn eru efnislega sammála í 2. og 3. gr. og 1. mgr. 1. gr. (Forseti hringir.)



[13:42]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt. Mjög margar af athugasemdum okkar og athugasemdum umsagnaraðila lúta að málsmeðferð og formi. Andstaða okkar hefur auðvitað byggst á því að við höfum talið að sú málsmeðferð sem hér hefur verið höfð uppi frá því að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að beita sér fyrir þessum stjórnarskrárbreytingum hefur verið, að mínu mati eins og ég hef sagt í nokkrum ræðum hér í þinginu, skólabókardæmi um það hvernig á ekki að breyta stjórnarskrá. Hvernig á ekki að haga vinnubrögðum í málum af þessu tagi. Hvernig á ekki að standa að málum þegar grundvallarlöggjöf lýðveldisins er í húfi.

Ég er viss um að hv. þm. Atli Gíslason þekkir þau skrif fræðimanna á sviði stjórnskipunarréttar sem fjalla um hvernig breyta eigi stjórnarskrá bæði innlendra og erlendra. Alls staðar eru ákveðin viðmið lögð til grundvallar (Forseti hringir.) varfærni, vönduð málsmeðferð og víðtæk sátt.



[13:43]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Er það rétt hjá mér að Sjálfstæðisflokkurinn sé klofinn í herðar niður í þessu máli, hv. þm. Birgir Ármannsson? Það er staðreynd að í þessum ræðusal kom fram samþykki á 1., 2. og 3. gr. ef frá eru taldar 2. og 3. mgr. 1. gr.

Ég hlustaði á nokkur hundruð ræður sem snerust allar um það hvernig eigi að breyta og hvernig eigi ekki að breyta stjórnarskrá. Og maður skilur fyrr en skellur í tönnum. Þetta var orðið alveg á hreinu hjá mér eftir svona fimm ræður.

En þrátt fyrir að undirbúningur og málsmeðferðin væru ykkur ekki að skapi sjálfstæðismönnum, hvers vegna fórum þið aldrei í þá efnislegu vinnu að taka upp 1. mgr. 1. gr., 2. og 3. gr. þar sem meiri hluti sjálfstæðismanna var samþykkur þeim greinum?



[13:44]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það mál sem við ræðum hér varðar lýðræðisúrbætur í landinu og það hefur verið víðtæk samstaða um þetta mál ef ég dreg Sjálfstæðisflokkinn þar frá. Við höfum upplifað það upp á síðkastið í samfélaginu og ekki bara upp á síðkastið heldur í mörg ár, að við erum með of mikla samþjöppun valds í landinu. Það þarf að aðskilja valdaþættina og hugmyndin sem við bárum fram um stjórnlagaþing var einmitt til þess fallin að við gætum undirbúið nýja stjórnarskrá sem mundi aðskilja valdaþættina betur og gera stjórnarskrána nútímalegri. Hún er afar gamaldags, virðulegur forseti. Það þarf að aðskilja löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald. Löggjafarvaldið þarf að styrkja á kostnað framkvæmdarvaldsins. Það þarf að breyta hvernig hagar til varðandi dómsvaldið. Það þarf t.d. að koma á nýju ferli varðandi val á dómurum. Það blasir við og framkvæmdarvaldið þarf að sleppa tökunum af þinginu. Ráðherrar eiga ekki að eiga sæti á þinginu á sama tíma og þeir gegna ráðherraembætti. Þannig er það í Noregi og víðar.

Það eru fleiri úrbætur sem þarf að gera, virðulegur forseti, eins og breytingar á aðferðafræðinni við að breyta stjórnarskránni og það eru geysileg vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki einu sinni hafa getað samþykkt tillöguna sem liggur fyrir varðandi aðferðafræði við að breyta stjórnarskrá. Það varð fljótt ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn mundi ekki samþykkja neitt sem snýr í áttina að stjórnlagaþingi. Síðan kom í ljós að þeir meintu ekki mikið með því sem við héldum að þeir hefðu talað um á fyrri tíð varðandi náttúruauðlindirnar í þjóðareigu. Þar hafa þeir hafa passað sig á því í tillögum sínum að nefna ekki að náttúruauðlindirnar eigi ekki að vera í þjóðareigu, lýsa ekki yfir eignarhaldi á náttúruauðlindunum og það er alveg með ólíkindum að þeir skuli ekki gera það eftir allt sem á undan er gengið. En svo kastar alveg tólfunum þegar Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki einu sinni fallist á aðferðafræðina við að breyta stjórnarskránni sem fjölmargir sjálfstæðismenn hafa sagt í pontu að væri hægt að afgreiða.

Útspil Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefndinni var með þeim hætti að það var óaðgengilegt, líka gagnvart 79. gr., um aðferðafræðina við að breyta stjórnarskrá. Meiri hlutinn vildi að það væri hægt að breyta stjórnarskránni á þann veg að eftir að meiri hluti þingmanna væri búinn að leggja fram tillögu um það, eitthvert ákvæði í stjórnarskránni um að því yrði breytt, þá gæti þjóðin fengið að samþykkja slíkt ákvæði eða hafna með 25% atkvæðagreiðslu ef sá hluti mundi fylgja tillögunni, þ.e. 25% þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki fara þá leið, nei, Sjálfstæðisflokkurinn vildi koma sér í þá stöðu að auka líkurnar á því að þeir gætu notað neitunarvald í þinginu gagnvart breytingum á stjórnarskrá af því að þeirra tillaga var sú að það væri ekki einfaldur meiri hluti þingmanna sem gæti komið breytingum á stjórnarskrá til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu heldur yrðu a.m.k. tveir þriðju þingmanna að samþykkja slíkt. Af hverju var þessi þröskuldur hækkaður hjá Sjálfstæðisflokknum úr einföldum meiri hluta upp í tvo þriðju? Jú, það á að reyna að auka líkurnar fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn gæti sett fótinn fyrir, stigið niður fæti gagnvart breytingum á stjórnarskránni.

Þeir lögðu líka til, sú tillaga var ekki nógu góð, að meiri hluti þingmanna gæti komið fram með breytingar á stjórnarskrá ef það væri einungis meiri hluti þingmanna en ekki tveir þriðju. Þá ætti tillagan að liggja, það áttu að fara fram alþingiskosningar og ef nýtt þing mundi samþykkja tillöguna þá mætti tillagan fara til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er erfiðara ferli en er í dag. Þetta var útspil sjálfstæðismanna til sáttar og þegar maður hlustar á sjálfstæðismenn dirfast að koma hérna upp í pontu og segja að það væri slegið á útrétta sáttarhönd, þá spyr ég, virðulegi forseti, á móti: Kanntu annan? Það nær engu tali að Sjálfstæðisflokkurinn skuli dirfast að halda því fram að þeir hafi rétt fram útrétta sáttarhönd. Þeir komu með tillögu sem er verri en sú sem liggur fyrir varðandi auðlindir í þjóðareigu og kemur fram með tillögu sem er miklu verri en sú sem fyrir liggur varðandi 29. gr., aðferðafræði við að breyta stjórnarskrá og slógu stjórnlagaþingið af og hælast svo um og segja að þeir hafi unnið fullnaðarsigur. Mikil skal skömm Sjálfstæðisflokksins vera í þessu máli, virðulegi forseti.



[13:50]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara öllu sem fram kom í ræðu hv. þingmanns. Ég kem nánar inn á það í ræðu á eftir. En það er eitt atriði sem ég vildi geta vegna þess hve hörðum orðum hún fór um þá tillögu sem við lögðum á borðið varðandi breytingar á stjórnarskrá, þ.e. 2. gr. frumvarpsins, ákvæðið sem gengur út á það hvernig eigi að breyta stjórnarskrá.

Af því að henni fannst fráleitt að þarna væri um sáttarboð að ræða þá vil ég minna á að þessi tillaga, orðrétt, var sameiginleg niðurstaða stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005–2007 og tillagan var m.a. undirrituð af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni, hæstv. ráðherra Össuri Skarphéðinssyni, hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur, hv. fyrrverandi þingmönnum Jóni Kristjánssyni og Jónínu Bjartmarz úr Framsóknarflokki og svo okkur sjálfstæðismönnum. Hugmyndin á bak við þá tillögu var því málamiðlun milli allra flokka (Forseti hringir.) og okkur þótti ekki fráleitt að það mætti byggja nýja sátt á þeirri sátt (Forseti hringir.) sem náðist fyrir tveimur árum.



[13:52]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, þessi tillaga er fráleit í stöðunni sem er uppi núna, algerlega fráleit vegna þess að hún er svo þung í framkvæmd og jafnvel þó að þingmenn hafi fallist á eitthvað í einhverjum sáttarumleitunum og togi á fyrri tíð þá er ekki þar með sagt að menn vilji samþykkja það núna. Hlutirnir þróast, það eru framfarir í landinu og menn verða að taka sönsum í nýju umhverfi. Sjálfstæðisflokkurinn neitar að skilja það.

Í stað þess að leyfa þessari tillögu sem meiri hlutinn styður að fara fram, um að einfaldur meiri hluti þingmanna geti komið tillögu um breytingu á stjórnarskrá, ákveðnum atriðum hennar inn í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 25% þjóðarinnar þurfa að samþykkja tillöguna, að leggja stein í götu þeirrar tillögu núna er algerlega fráleitt að mínu mati. (Forseti hringir.) Þessi sáttartillaga var mjög slæm (Forseti hringir.) og að sjálfsögðu var henni hafnað.



[13:53]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er enn þá óskiljanlegt hvers vegna hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og raunar aðrir sem tóku þátt í að mynda meiri hluta í sérnefnd um stjórnarskrármál, álíta að tillaga sem fyrir rétt tveimur árum var samstaða um milli flokka, (Gripið fram í.) níu stjórnmálamenn, fulltrúar fimm flokka undirrituðu þá tillögu og enginn var neyddur til að undirrita þá tillögu, hvernig er hægt að líta á þá tillögu sem einhvers konar ögrun. Þar var um málamiðlun að ræða milli ólíkra sjónarmiða. Ég veit ekki hvernig á að túlka orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, að við sjálfstæðismenn skyldum í þessu máli telja að það gæti horft til sátta að byggja á þeim grunni sem þá var ákveðinn. Mér finnst alveg fráleitt að taka málinu með þeim hætti. Það er ekki eins og þetta hafi gerst fyrir einhverjum áratugum. Þetta gerðist fyrir tveimur árum og margir af þeim sem tóku þátt í þeirri sátt fyrir tveimur árum sitja enn á þingi.



[13:54]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það ferli sem hv. þm. Birgir Ármannsson er að vitna til er síðasta tilraunin sem var gerð til að breyta stjórnarskránni. Þá settust flokkarnir niður og allt koðnaði niður, það kom ekkert út úr því af því að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn voru aðallega að rífast um forsetaembættið. En það fæddist þessi mús, þessi málamiðlunartillaga um hvernig ætti að breyta stjórnarskránni og það var ekki góð tillaga. Þegar meiri hlutinn leyfir sér, allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn — nema hluti Sjálfstæðisflokksins ætti kannski að segja af því að hér komu þingmenn upp frá Sjálfstæðisflokknum og vildu fallast á 79. gr., en síðan kemur Sjálfstæðisflokkurinn upp og dustar rykið af þessari gömlu tillögu og vill fá hana í gegn, tillögu sem eykur líkurnar á því að Sjálfstæðisflokkurinn geti beitt neitunarvaldi á næsta kjörtímabili gagnvart því að breyta stjórnarskránni. Það sjá allir í gegnum þetta, virðulegi forseti. Að sjálfsögðu verður þessari tillögu hafnað hér.



[13:55]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er sennilega rétt að taka málið upp þar sem hv. þingmenn voru að enda, um þá neyðarlausn sem menn reyndu að búa til í lok samstarfsins í stjórnarskrárnefndinni þegar menn sáu að það kom eiginlega ekkert út úr því. Það var svolítið neyðarlegt að sitja í þessu í tvö ár og koma ekki með einn einasta texta. Þar af leiðandi reyndi nefndin að teygja sig talsvert í því að reyna að finna einhvern farveg sem hugsanlega gæti opnað á það að þjóðin fengi að kjósa beint um stjórnlagabreytingar. En í þessari tillögu voru margar girðingar og þegar hún er skoðuð í ljósi tímans kemur auðvitað í ljós að þær girðingar eru gersamlega óviðunandi.

Þegar hv. þm. Birgir Ármannsson furðar sig á því að menn gætu breytt skoðunum sínum á tveggja ára fresti þá held ég að hv. þingmaður ætti að líta í eigin barm í því ferli sem við höfum verið í í stjórnarskrárnefndinni og hvað Sjálfstæðisflokkurinn hefur sagt og hvað hann hefur svo lagt til. Hvað ætli þeir segðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í umræðunni? Jú, 2. gr., já, allt í lagi með 2. gr. við getum alveg hugsað okkur að afgreiða hana. Þegar á átti að reyna með það þá var það ekki nokkur leið, komið inn með aukinn meiri hluta þingmanna og hærri girðingar o.s.frv. Mér finnst því að menn ættu ekki að vera að velta sér mikið upp úr því þó að menn skipti kannski um skoðun á tveggja ára fresti þegar Sjálfstæðisflokknum tekst að gera það dags daglega fram og til baka og aftur á bak og áfram, eins og í öllu þessu máli.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað staðið þessa vakt vel, þ.e. vaktina gegn því að þjóðin fái aukin réttindi, hann hefur staðið þá vakt vel og dyggilega, haldið hundrað ræður um það eða mörg hundruð ræður. En út á hvað gengur sú vakt? Sú vakt sjálfstæðismanna hefur fyrst og fremst gengið út á það að vernda sérhagsmuni, tryggja sérhagsmuni gegn almannahagsmunum, vernda sérhagsmuni gegn almannahagsmunum, festa í sessi þau ákvæði sem hugsanlega gætu orðið með áframhaldandi óbreyttri stjórnarskrá og lögum, festa í sessi hefðarrétt íslenskra útgerðarmanna til að eiga aflaheimildirnar í sjónum og að þær erfist til barna þeirra, barnabarna og barnabarnabarna, um aldur og ævi. Það er hin sérstaka vakt sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið í öllu þessu máli.

Það er alveg með ólíkindum að upplifa það hvernig menn hugsa þessi mál, að vilja verja sérhagsmunina gegn almannahagsmunum og koma í veg fyrir að þjóðin eigi auðlind sína og að hana megi ekki selja eða láta varanlega af hendi. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að þetta veldur mér miklum vonbrigðum. (Gripið fram í: Það kemur ekki á óvart.)

Nýlega gekk einn þingmaður til liðs við Sjálfstæðisflokkinn úr röðum Frjálslyndra sem var búinn að skrifa um það í 6–10 ár að reyna að verja hagsmuni almennings í þessu máli, auðlindamálinu. Þvílík umskipti.

Það virðist svo að menn séu ævinlega tilbúnir til að falla frá sannfæringu sinni þegar þeir komast inn í Sjálfstæðisflokkinn og verja einhver allt önnur sjónarmið sem ganga gegn hagsmunum þjóðarinnar. (Gripið fram í: Þú þekkir flokkinn.) Ég var þar einu sinni og komst að þeirri niðurstöðu að þar gæti maður ekki verið ef maður ætlaði að reyna að fylgja sannfæringu sinni í þeim málum er varða auðlindir þjóðarinnar.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það hefur valdið mér vonbrigðum að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa tekið þá vaktstöðu sem hann tók fyrir sérhagsmunum. Það hefur valdið mér vonbrigðum. Það verður líka að segjast alveg eins og er, hæstv. forseti, að það veldur mér einnig vonbrigðum hversu harðir sjálfstæðismenn voru á móti 3. gr., um það að þjóðin gæti fengið að kjósa um umdeild mál, mikil deilumál sem þjóðin átti rétt á að gengju til þjóðaratkvæðis og hún fengi að kjósa um. Það veldur mér vonbrigðum að menn skyldu hafa staðið þá vakt af slíkri hörku sem komið hefur í ljós.

Sjálfstæðismenn verða auðvitað að svara því gagnvart þjóðinni og væntanlega gera það í komandi kosningabaráttu, þeir sem þar verða, ekki endilega Björn Bjarnason eða aðrir sem ekki verða í þeirri baráttu, en þeir sem verða í þeirri baráttu verða að svara því hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn tekur sérhagsmunina fram fyrir almannahagsmuni og kemur í veg fyrir það með verkum sínum að þjóðin eignist auðlindir sínar um aldur og ævi og að þær megi eingöngu ráðstafa til nýtingar og notkunar en ekki láta varanlega af hendi eða selja varanlega. Og hitt líka, hvers vegna þjóðin getur ekki fengið til sín mál sem eru mikil hitamál í þjóðfélaginu til að greiða um þau atkvæði lýðræðislega þannig að meirihlutaviljinn komi í ljós. Við verðum auðvitað að beygja okkur undir það í þjóðfélaginu að það sem þjóðin vill, jafnvel þótt við séum ekki sammála málum sem ganga til þjóðaratkvæðis að meiri hlutinn ráði. Það er lýðræðið. Lýðræðið hefur ekki birst í vaktstöðu minni hlutans á Alþingi til að koma í veg fyrir framgang þessa máls, hæstv. forseti. Það er leitt að málið skyldi hafa endað svona.



[14:02]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að það er leitt að ekki skyldi nást samkomulag hér á Alþingi um breytingar á stjórnarskránni, ég tek undir það. Það er ekki vegna málatilbúnaðar Sjálfstæðisflokksins heldur vegna þess að þeir sem tóku að sér að leggja í þennan leiðangur gerðu það með þeim hætti að liðið sundraðist.

Vegna þess sem hv. þingmaður sagði hér um auðlindir þjóðarinnar vil ég minna á það að tillaga sem við gerðum um 1. gr. frumvarpsins hljóðaði þannig:

„Íslenska ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þeirra náttúruauðlinda sem ekki eru í einkaeign og hefur eftirlit með nýtingu þeirra eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slíkar auðlindir má hvorki selja né láta varanlega af hendi.“

Þennan texta, þessar tillögu, vildi Guðjón Arnar Kristjánsson ekki samþykkja. Hann getur ekki kennt Sjálfstæðisflokknum um þá sundrungu sem varð meðal flutningsmanna frumvarpsins. Það var forustan sem brást en ekki Sjálfstæðisflokkurinn.



[14:03]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Tillagan sem kynnt var í nefndinni var ekki sá texti sem hv. þingmaður las hér upp heldur texti með viðbótum sem menn töldu henta að setja inn til umræðu hér í Alþingi. Við í nefndinni höfnuðum ekki þeim texta sem hér var lesinn upp, hæstv. forseti.



[14:04]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það mátti skilja á hv. þingmanni að hann væri samþykkur þessari breytingartillögu okkar sjálfstæðismanna og það er hún sem er hér til umfjöllunar. Umræðurnar sem fóru fram í nefndinni gengu að sjálfsögðu út frá þeim tillögum sem þar lágu fyrir. Í nefndinni fór engin umræða fram að öðru leyti en því að formaður nefndarinnar hélt ræðu, aðrir tóku ekki þátt í efnislegri umræðu eða gagnrýni á breytingartillögur okkar sjálfstæðismanna.

Áður en til fundarins kom — það hefur komið fram í umræðum af hálfu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að hann og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, sem sátu formannafund fyrr (Forseti hringir.) um morguninn, höfðu fyrir fram hafnað öllum (Forseti hringir.) tillögum Sjálfstæðisflokksins. Það er sannleikurinn í málinu. (Gripið fram í: Þetta er ekki svaravert.)



[14:05]
Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það vantar hér tímaskrá. Ég vildi bera af mér sakir, ekki var talið að það gengi með öðrum hætti svo að ég verð að taka til orða undir fundarstjórn forseta.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hélt því fram í þingræðu áðan að ég hefði skipt um skoðun hvað varðar afstöðu til (Forseti hringir.) veiðiheimilda og það er ómaklegt.

Ég vil taka það fram að ekkert í því stjórnarskrárfrumvarpi (Forseti hringir.) sem hér er um að ræða hefur nokkra þýðingu hvað það varðar. Tíminn er ekki búinn. Hér var því ómaklega (Forseti hringir.) komið fram af manni sem er sjálfur kvótaeigandi.



[14:06]
Forseti (Þuríður Backman):

Fellur þetta undir ósk hv. þm. Jóns Magnússonar um að fá að taka til máls um fundarstjórn forseta? (Gripið fram í.)



[14:06]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessa dagana verðum við vitni að undarlegum og dapurlegum lokum á 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þæfst hér og tafið framgang mikilla þjóðþrifabreytinga á stjórnarskrá lýðveldisins á undanförnum vikum. Hann hefur farið fram með fals og yfirdrepsskap. Hann hefur gefið í skyn að hann væri tilbúinn að standa að breytingum sem mundu tryggja þjóðareign á auðlindum, sem mundu auðvelda breytingar á stjórnarskrá, en svo stendur hann gegn því þegar á hólminn er komið. Ekki er orð að marka nokkurn hlut sem forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt hér á undanförnum vikum.

Þeir standa gegn því að efna gamalt loforð sem þeir gáfu fyrst Framsóknarflokknum við ríkisstjórnarmyndun og svo Samfylkingunni við ríkisstjórnarmyndun 2007, um að sett yrði í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Sú tillaga sem frá Sjálfstæðisflokknum kemur nú hljóðar upp á að sett verði ákvæði í stjórnarskrána sem fjalli um allt annað en þjóðareign á auðlindum, sem fjalli um það hvernig fara skuli með handhöfn ríkisins á auðlindum sem ekki eru í einkaeigu. Það eru ekki ákvæði um þjóðareign á auðlindum vegna þess að orðið þjóðareign vantar einfaldlega í ákvæðið eins og lagt er upp með það.

Í hádegisfréttum útvarps voru leikin ummæli hv. þm. Geirs H. Haarde, hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og hv. þm. Bjarna Benediktssonar þar sem þau lýsa því öll yfir að þau séu tilbúin að styðja breytingar á stjórnarskrá sem auðveldi stjórnarskrárbreytingar í framtíðinni, þannig að ekki (Gripið fram í.) þurfi samþykki tveggja þinga til.

Þessi fyrirheit voru skýrt gefin. Alveg skýrt. Hvað gerist svo núna? Sjálfstæðisflokkurinn, til þess að standa vörð um óbreytt ástand, til að standa gegn því að þjóðin fái að koma að ákvörðunum um stjórnarskrána, leggur fram breytingartillögur sem munu þvert á móti torvelda breytingar á stjórnarskrá frá því sem nú er. Áskilja tvo þriðju þings til samþykktar og ef það tekst ekki þá dugir ekki lengur samþykki einfalds meiri hluta tveggja þinga heldur á til viðbótar að koma þjóðaratkvæðagreiðsla. Með öðrum orðum er verið að gera ríkari kröfur en nú eru um formlegheit við breytingar á stjórnarskrá. Það er verið að torvelda breytingar á stjórnarskránni.

Af hverju er verið að gera þetta? Spyr sá sem ekki veit. En maður hlýtur að geta sér þess til að Sjálfstæðisflokkurinn standi hér sem fyrr vörð um sérhagsmuni gegn almannahagsmunum. Hann er að verja hagsmuni kvótaauðvaldsins sem hann hefur verið að sendast fyrir undanfarin ár. Hann er að reyna að torvelda leið okkar til þess að breyta stjórnarskrá, til þess að við getum gengið í Evrópusambandið á næsta kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn gengur skýrt á bak orða sinna, það er engin leið að eiga orðastað við þennan flokk með siðuðum hætti hér í sölum Alþingis. Hann stendur ekki við nokkurn skapaðan hlut sem sagt er af hálfu forustumanna flokksins í umræðunni. Eftir stendur að höfuðerindi flokksins í stjórnarskrármálinu er að standa vörð um sérhagsmunina, koma í veg fyrir að ákvæði um þjóðareign á auðlindum verði samþykkt, koma í veg fyrir að auðvelt verði að breyta stjórnarskránni, gera það erfiðara og flóknara að breyta henni og gera það nær ómögulegt að breyta henni án tveggja þingkosninga, þvert á það sem fyrirheit voru gefin um áður.

Ekki er orð að marka yfirlýsingar Geirs H. Haardes, ekki orð að marka yfirlýsingar hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og ekki orð að marka yfirlýsingar hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Öll eru þau orðin ómerkingar orða sinna. Sjálfstæðisflokkurinn gerir forustufólk sitt að ómerkingum orða sinna. Kemur þannig fram að það er greinilega ekkert að marka þau fyrirheit sem gefin eru af hálfu forustumanna flokksins.

Auðvitað torveldar þetta öll þingleg vinnubrögð, virðulegi forseti. Auðvitað er það ekki til mikils sóma að þurfa að horfa upp á vel á áttunda hundrað ræður Sjálfstæðisflokksins til þess að koma í veg fyrir að meiri hlutinn fái vilja sínum framgengt. Málþóf af þessum toga er einsdæmi í þingsögunni. Það er einsdæmi í þingsögunni að flokkur komi með þessum hætti í veg fyrir að meiri hluti fái að koma fram málum sem skýr þingmeirihluti er fyrir.

Þetta er dapurlegur endir, virðulegi forseti, á 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn sýnir þjóðinni nú með skýrum hætti fyrir hvað hann stendur. Hann vill standa í vegi fyrir því að þjóðareign verði tryggð á auðlindum í stjórnarskrá. Hann vill torvelda leið okkar í Evrópusambandið. Hann vill með öðrum orðum standa í vegi helstu framfaramála sem við þurfum að taka ákvörðun um og hann vill standa gegn rétti almennings til þjóðaratkvæðagreiðslna.



[14:12]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að koma loks til þessarar umræðu. Þetta er fyrsta ræðan sem hv. þingmaður flytur um þetta mál hér í þingsalnum. Hann hefur gefið miklar yfirlýsingar í fjölmiðlum um efni þessa máls en ekki séð ástæðu til að halda eina einustu ræðu um það þar til nú að hann kýs að ausa úr skálum reiði sinnar yfir sjálfstæðismenn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga: Telur hv. þingmaður að samþykkt frumvarpsins hefði verið fyrsta skrefið á þeirri leið sem flokkur hans, Samfylkingin, vill fara, þ.e. að taka upp fyrningarleið í sjávarútvegi og innkalla allar veiðiheimildir? Úr því að hv. þingmaður heldur því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé að koma í veg fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið með því að samþykkja ekki frumvarpið (Forseti hringir.) spyr ég: Af hverju í ósköpunum var ekki lögð til breyting á stjórnarskránni (Forseti hringir.) af hálfu hv. þingmanns og flokks hans til þess að tryggja að hægt væri að ganga í Evrópusambandið? Frumvarpið hefur ekkert (Forseti hringir.) með það að gera.



[14:14]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur séð um ræðuhöld í þessu máli. Af hálfu Samfylkingarinnar hafa góðir félagar mínir flutt ágætar ræður og hef ég ekki séð ástæðu til að orðlengja það eða drepa umræðunni á dreif. Sjálfstæðismenn hafa séð um að draga hana á langinn. Það er alveg ljóst að meiri hluti þingsins vildi sjá í stjórnarskránni ákvæði um að auðlindir væru í almannaeigu, í þjóðareigu.

Það er líka ljóst að það ákvæði sem ætlunin var að hafa í 79. gr. stjórnarskrárinnar átti að gera það kleift að breyta stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu á miðju kjörtímabili. Það hefði t.d. einfaldað og auðveldað leið okkar í Evrópusambandið á næsta kjörtímabili og það eru brýnir hagsmunir atvinnulífsins. Ég legg til að hv. þingmaður fari að tala við atvinnulífið um hag þess, (Forseti hringir.) hann þykist jú bera hag þess fyrir brjósti, og átta sig á því hve (Forseti hringir.) mikilvægt það er að við höfum opnað þessa leið nú þegar (Forseti hringir.) ástand efnahagsmála er eins og það er.



[14:15]
Forseti (Þuríður Backman):

Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutímann, ein mínúta er fljót að líða og tíminn telur þegar margir fara fram yfir.



[14:15]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það væri óskandi að hv. þingmaður hefði verið meira við umræðuna og tekið þátt í henni vegna þess að þá mundi hann vita það að Sjálfstæðisflokkurinn lagði til breytingartillögur strax í upphafi umræðunnar til að tryggja það að 79. gr. yrði breytt til að hægt væri með auðveldari hætti en nú er að gera breytingar á stjórnarskránni. Þetta hefur legið fyrir frá upphafi og ótrúlegt að það skuli fara fram hjá hv. þingmanni, sem kemur hérna við lok umræðunnar og belgir sig út.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að hæstv. forsætisráðherra sagði við 1. umr., með leyfi forseta:

„Hv. þingmaður spyr hvort þau ákvæði sem eru í frumvarpinu haggi í engu núverandi kvótakerfi. Ég kom mjög inn á það atriði í máli mínu og tel mikilvægt að árétta að stjórnarskrárákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign muni ekki skerða réttindi þeirra sem hafa veiðiheimildir í kvótakerfinu eða svipta þá kvótanum.“

Ef hv. þingmaður ætlar að halda því fram að sjálfstæðismenn séu að ganga hér einhverra sérhagsmuna, ganga hagsmuna LÍÚ eða þeirra sem eru handhafar kvótans, (GMJ: Ertu að þræta fyrir það?) þá er alveg ljóst (Forseti hringir.) að hæstv. forsætisráðherra sagði það sjálf í fyrsta andsvari sínu (Forseti hringir.) í þessari umræðu. Það er því ekki hægt að væna okkur um eitthvað (Forseti hringir.) sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt.



[14:17]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn er að berjast gegn þjóðareign á auðlindum, að það verði fest í stjórnarskrá. Hann hefur staðið gegn því árum saman og núna eyðileggur hann þetta frumvarp með málþófi og óþingræðislegum vinnubrögðum.

Eftir stendur líka að til stóð að einfalda breytingar á stjórnarskrá. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson lofuðu því öll að standa að slíku, hétu því héðan úr ræðustól Alþingis. Það er ekki að marka orð þessa fólks, ekki orð. Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki við fyrirheit forustumanna sinna. Hann leggur fram breytingartillögur sem fela í sér að torveldara verður að breyta stjórnarskránni, (Gripið fram í.) það verður flóknara, það dugar ekki lengur einfalt samþykki tveggja þinga samkvæmt þeim tillögum sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur núna fram. Með öðrum orðum, Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki við orð af því sem hann segir. Hann gerir Geir H. Haarde að ómerkingi, hann gerir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að ómerkingi og hann gerir Bjarna Benediktsson að ómerkingi.



[14:18]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Öll þessi umræða um sameign þjóðarinnar og annað er varðar náttúruauðlindirnar er sérstök af hálfu Samfylkingarinnar. Ég hlýt að minna á að í lögum um stjórn fiskveiða, í 1. gr., er algjörlega gengið frá því, og þar höfðu sjálfstæðismenn forustu, að auðlindir sjávar væru sameign þjóðarinnar. Tillaga okkar er því að hluta til og að verulegu leyti til þess að undirstrika þær staðreyndir og koma í veg fyrir nokkurn misskilning í því efni.

Að öðru leyti verð ég að segja, hæstv. forseti, að það er mjög sorglegt hvað þessi ungi þingmaður leyfir sér að bera hér á borð fyrir okkur þingmenn af stóryrðum, ómálefnalegum stóryrðum, og ég hvet hann til þess, af því að ég veit að hann vill halda (Forseti hringir.) áfram í stjórnmálum, að ganga með öðrum hætti fram. (Forseti hringir.) Af því að hann er að hluta til Snæfellingur hvet ég hann alveg sérstaklega til þess að gera það.



[14:19]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Ég þakka föðurlegar ráðleggingar frá Snæfellingum.

Virðulegi forseti. Það er nokkurt misminni hjá hv. þingmanni að ákvæðið um sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum í lögum um stjórn fiskveiða sé komið þar inn fyrir tilverknað Sjálfstæðisflokksins. Það ákvæði kom inn við breytingar á lögunum árið 1990 að frumkvæði Alþýðuflokksins og það var Jón Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, sem samdi það ákvæði. Það ákvæði var sem sagt sett inn af ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn átti ekki einu sinni aðild að. Því ákvæði var ætlað að sporna gegn þeirri einkavæðingu auðlindanna sem Sjálfstæðisflokkurinn var þá þegar byrjaður á.

Núna stendur Sjálfstæðisflokkurinn enn og aftur dyggan vörð um þau grundvallarsjónarmið að reyna að koma auðlindinni í hendur vildarvina og félaga og gegn (Forseti hringir.) þjóðareign á auðlindum.



[14:20]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má eiginlega segja að hv. þingmaður hafi gengið algjörlega beint í gildruna sem hann lagði út sjálfur vegna þess að hann vitnaði einmitt til þeirra laga frá 1990 sem eru undirrót að deilunum um stjórn fiskveiða og auðlindanýtingu, lögin frá 1990, um stjórn fiskveiða, þar sem framsalið var heimilað að undirlagi Alþýðuflokksins og hann gat réttilega um það. Framsóknarflokkurinn hafði forustu um það, höfundurinn er staðfestur hér af hv. þm. Árna Páli Árnasyni að hafi verið Jón Sigurðsson höfuðráðgjafi Samfylkingarinnar í efnahagsmálum. (Gripið fram í.) Já, höfundur framsalskerfisins. Það er mjög mikilvægt að fá þetta fram og er mikilvægt innlegg í þessa umræðu alla, en ég hvet hv. þingmann aftur til þess að gæta hófs í þessum umræðum öllum því að Alþingi þarf á því að halda að (Forseti hringir.) hér sé aukin virðing fyrir samstarfsmönnum í hópi þingmanna.



[14:22]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jón Sigurðsson á heiðurinn af 1. gr. eins og ég nefndi, ég ætla ekki að eigna honum heiðurinn af lögunum um stjórn fiskveiða að öðru leyti. (Gripið fram í.) Það eru nú aðrir sem eiga upphafið að þeim.

Það sem eftir stendur í þessu máli og er sá lærdómur sem þjóðin þarf að draga af framgöngu Sjálfstæðisflokksins er að Sjálfstæðisflokknum er greinilega ekkert heilagt þegar kemur að meðferð mála hér í þinginu, meðferð grundvallarmála. Það er ekki hægt að semja við flokkinn, ekki er hægt að taka trúanlegar yfirlýsingar forustumanna hans vegna þess að þeir hlaupast burt frá ítrekuðum loforðum. Flokknum finnst ekkert að því að gera formann sinn, fyrrverandi formann og varaformann flokksins alla að ómerkingum. Það gerir Sjálfstæðisflokkurinn purkunarlaust með því að koma með tillögur um að þrengja möguleika til að (Forseti hringir.) breyta stjórnarskránni þvert ofan í gefin loforð Geirs H. Haardes, (Forseti hringir.) Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Bjarna Benediktssonar um að þau skyldu standa að því að gera breytingar auðveldari á stjórnarskránni.



[14:23]Útbýting:

[14:23]
Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Umræðan um stjórnarskipunarlögin heldur áfram. Gerð hefur verið grein fyrir framhaldsnefndaráliti nefndarinnar sem fjallaði um málið og gerð hefur verið grein fyrir þeim breytingartillögum og þeirri tillögu sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram við umræðuna.

Ég vil í upphafi máls míns undirstrika það alveg sérstaklega, vegna þess að hér hafa hv. þingmenn reynt að afflytja afstöðu okkar sjálfstæðismanna, að frá því fyrsta í þessari umræðu hefur komið skýrt fram af okkar hálfu að við viljum standa að breytingum á stjórnarskránni, breytingum sem gætu orðið til farsældar en ekki til þess að auka á óvissu í okkar íslenska samfélagi. Þess vegna bjuggumst við við því að forsætisráðherra, sem er 1. flutningsmaður að frumvarpinu, mundi leggja metnað sinn í það þegar hún komst til valda sem forsætisráðherra, að vinna að því að leggja fram frumvarp í sátt meðal flokka á Alþingi. Það fór á annan veg, því miður.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt á það ríka áherslu, eins og ég sagði, að gera mætti breytingar á stjórnarskránni en við tökum ekki hverju sem er. Ég legg á það áherslu að við sjálfstæðismenn teljum að það sé hlutverk okkar, og við höfum skrifað undir eiðstaf um það, að vinna á grundvelli stjórnarskrárinnar. Við munum ekki og ég mun ekki standa að því sem þingmaður að ganga gegn Alþingi, ganga gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Því miður, hæstv. forseti, fór það svo að forsætisráðherra stóð þannig að málum að hún lagði allt á sig sem hugsast gat til þess að reyna að koma í veg fyrir að við sjálfstæðismenn gætum staðið að því frumvarpi sem hér er til meðferðar. Það er kannski ekki við öðru að búast eins og til þeirrar ríkisstjórnar var stofnað. Ríkisstjórnin var mynduð í kjölfar ofbeldisaðgerða og árása á Alþingishúsið þar sem menn voru hræddir til þess að hlaupa frá stjórnarsamstarfinu. Samfylkingin sveik samstarfsmenn sína í ríkisstjórn, byrjaði að hlaupa frá stjórnarsamstarfinu í haust og það var vitað og þekkt og fylgst með því hvernig Samfylkingin hagaði sér í stjórnarsamstarfinu, talaði gegn ríkisstjórninni sem hún var í. Því var ekki við öðru að búast en að það færi sem fór.

Hvað um það, við höfum að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að forsætisráðherra og ríkisstjórnin legði fram tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem væru forsvaranlegar. Niðurstaða nær allra umsagnaraðila var að þessar breytingar væru óforsvaranlegar, illa unnar, allt of skammur tími til umfjöllunar og efnislega væru þær óforsvaranlegar. Það var á þeim grundvelli, málefnalegum grundvelli, sem við sjálfstæðismenn höfum lagst gegn frumvarpinu eins og það var lagt fram. Við höfum lagt okkur fram um að reyna að koma vitinu fyrir þá sem hafa unnið að málinu en því miður er breytingartillögum okkar hafnað.

Ég vil sérstaklega geta þess sem viðkemur breytingum á 1. gr. frumvarpsins og hér hefur verið nokkuð mikið til umræðu. Við lögðum okkur alveg sérstaklega fram, eins og fram kemur í breytingartillögunni, um að ná sáttum og leggja áherslu á að náttúruauðlindir okkar Íslendinga væru hvorki seljanlegar né látnar varanlega af hendi, ríkið hefði með þær að gera eins og fram kemur í breytingartillögu okkar.

Með sama hætti gátum við ekki fallist á það sjónarmið eða þá tillögu að setja á stjórnlagaþing þannig að tvö þing væru í gangi á sama tíma sem bæði gætu staðið að breytingum á stjórnarskránni. Það er þvílík aðstaða sem er algjörlega óforsvaranleg og á sér hvergi hliðstæðu í hinum vestræna lýðræðisheimi.

Hæstv. forseti. Ekki er tími til þess að fara efnislega ofan í þessar breytingartillögur okkar að öðru leyti, ég vísa bara til framsögumanns okkar hvað það varðar, en það liggur alveg ljóst fyrir að við sjálfstæðismenn gátum ekki fallist á tillögur sem gerðu ráð fyrir að ýta Alþingi Íslendinga til hliðar. Það er heilög skylda okkar alþingismanna að tryggja að Alþingi njóti virðingar og að við stöndum undir þeim kröfum sem gerðar eru til okkar sem hluta af löggjafarstarfinu.

Hæstv. forseti. Vegna þess að talað hefur verið um lýðræðisumbætur þá vil ég minna á að lýðræðisumbótunum sem áttu að verða, m.a. með breytingum á lögum um kosningar til Alþingis, var ýtt til hliðar og hefur ekki heyrst af þeim síðan.

Hæstv. forseti. Vegna þess að ég geri ekki ráð fyrir að halda mjög margar ræður hér til viðbótar á þessu þingi að sinni vil ég í lokin þakka þeim ágætu alþingismönnum sem hafa unnið með mér í gegnum tíðina, á vettvangi fjárlaganefndar, forsætisnefndar og í tengslum við starf mitt sem samgönguráðherra fyrir ánægjulegt samstarf. En umfram allt og ekki síður vil ég þakka skrifstofustjóra Alþingis og því góða fólki sem starfar á Alþingi fyrir góð störf og ánægjulegt samstarf.



[14:30]
Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að veita andsvar við því þakkarerindi sem hann flutti í lokin en vil þakka fyrir það samstarf sem við höfum átt. Það breytir ekki hinu að í fyrri hluta ræðunnar kviknuðu hjá mér nokkrar spurningar en ég mun ekki geta komið þeim öllum að.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni: Við sjálfstæðismenn tökum ekki hverju sem er. Og hvað erum við að tala um? Við erum að tala um auðlindir í þjóðareign sem var í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins 2003 og 2007. Við erum að tala um einföldun á breytingu á stjórnarskrárákvæði, við erum að tala um þjóðaratkvæði og við erum að tala um stjórnlagaþing eða að endurtaka leikinn frá þjóðfundinum 1851.

Hv. þingmaður sagði enn fremur: Við höfum skrifað undir eiðstaf að stjórnarskránni. Mig langar að vita, svo að það liggi ekki í lausu lofti, hvort hv. þingmaður er að bera flutningsmenn þessa máls og þá sem það styðja þeim sökum að þeir séu að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar (Forseti hringir.) með því að leggja til (Forseti hringir.) að þessar hugmyndir verði að veruleika?



[14:31]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við sjálfstæðismenn tökum ekki hverju sem er hér á Alþingi, það er alveg hárrétt og ég undirstrika það og endurtek. Við tökum m.a. ekki undir tillögur eða samþykkjum tillögur sem gera ráð fyrir því að Alþingi Íslendinga verði sett til hliðar og þar af leiðandi göngum við gegn þinginu. Þess vegna minntist ég á það að við vinnum eið að stjórnarskránni og við eigum að halda hana og ég tel að þess vegna þurfum við að fara eins varlega gagnvart breytingum á stjórnarskránni og nokkur kostur er, vinna það verk vandlega en það hefur því miður ekki verið gert að þessu sinni.



[14:32]
Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít svo að hv. þingmaður sé ekki að saka okkur um að ganga gegn stjórnarskránni og það er gott að það sé hreinsað út úr umræðunni.

Mig langaði einnig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það stjórnlagaþing sem efnt var til 1851 og hefur gengið undir nafninu þjóðfundurinn, burt séð frá því hver staða þingsins var á þeim tíma, það er ekki atriði í þessari umræðu, þá var efnt til stjórnlagaþings. Telur hv. þingmaður að sú ákvörðun að efna til stjórnlagaþings sé blettur á sögu þjóðarinnar? Eða hvernig má skilja það þegar hv. þingmaður segir að aldrei komi til álita að þingið sé sett til hliðar þegar verið er að tala um breytingar á stjórnarskrá — það var gert þegar þingið var endurreist 1845, staða þess hafði verið önnur, en þá var efnt til stjórnlagaþings í því skyni að endurskoða eða skapa stjórnarskrá, (Forseti hringir.) það var tilefni fundarins.



[14:34]
Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er skemmtilegt að rifja upp þjóðfundinn frá 1851 sem sérstaklega er minnst í Alþingishúsinu með eftirminnilegri mynd í fordyrinu. Þar var gerð tilraun til eins konar stjórnlagaþings, það er rétt. Það lá við stórslysi þar. „Vér mótmælum allir,“ sagði Jón Sigurðsson (Gripið fram í: Hvers vegna var það?) sem hér vakir yfir okkur. Að bera þetta saman við aðstæður sem þá voru, löngu áður en við fengum fullveldi og löngu áður en lýðveldið og þingræðið fór að virka á Íslandi — þetta er algjörlega ósambærilegt. Ég tel að við eigum að fara að tillögu okkar sjálfstæðismanna, setja á fót öfluga og stóra nefnd sem leitar samstarfs vítt og breitt í samfélaginu, (Forseti hringir.) sem undirbýr breytingar á stjórnarskránni (Forseti hringir.) sem Alþingi Íslendinga fjallar um og afgreiðir.



[14:35]
Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að ekki skyldi nást sátt um hluta þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir og þá það sem lá undir hvað varðar 1. og 2. gr., sem ég taldi að raunhæft væri að sátt gæti náðst um. Við sjálfstæðismenn teygðum okkur til sátta hvað varðar orðalag 1. gr. og ég tel að enginn efnismunur sé á þeirri 1. gr. sem við leggjum til eða því sem er í tillögu meiri hluta nefndarinnar að því undanskildu að vikið er til orðalags sem fræðimenn telja að sé nákvæmara og eðlilegra.

Í þessum umræðum hefur það ítrekað komið fram að 1. gr. hafi eitthvað með fiskveiðistjórnarkerfið að gera eða það sem þar er um að ræða en það er rangt. Í þeirri greinargerð sem fylgir frumvarpinu kemur það fram og lesa má um það í athugasemdum á bls. 15 flutningsmönnum til glöggvunar ef þeir átta sig ekki á því hvað þeir voru að leggja til í upphafi. Það hefur ekkert með breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu að gera. Þess vegna eru þær aðdróttanir sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hélt fram í ræðustól á Alþingi, um að ég hefði gersamlega skipt um skoðun hvað varðar fiskveiðistjórnarkerfið, ómaklegar og rangar. Ég bendi honum á hans eigin orð í athugasemdum við frumvarpið, á bls. 15 í frumvarpinu sem lagt var til til stjórnarskipunarlaga, sem hann flytur. Ég lagði töluvert mikið á mig til þess að reyna að ná samkomulagi um 1. gr. og taldi að sátt ætti að geta náðst um þá tillögu sem við sjálfstæðismenn flytjum hér. Ég vona að það geti orðið að þingmenn samþykki þá tillögu, ég tel að hún hafi ákveðna þýðingu sem stefnuyfirlýsing.

Hv. þm. og formaður sérnefndarinnar, Lúðvík Bergvinsson, hefur líka haldið því fram að þær tillögur sem hér er um að ræða, sem við sjálfstæðismenn séum að hafna, séu merkustu tillögur til lýðræðisumbóta sem fram hafa komið. Þetta er rangt. Við sjálfstæðismenn höfum ekki hafnað einni eða neinni tillögu til lýðræðisumbóta ekki að einu eða neinu leyti. Við höfum bent á annmarka sem fram komu og viljað berjast fyrir því að greiðari leið væri til að breyta stjórnarskránni. Það er staðreyndin í málinu.

Þá hefur því líka verið haldið fram, m.a. af hæstv. forsætisráðherra og talsmönnum í sérnefnd um stjórnarskrármálið, að Sjálfstæðisflokkurinn sé með þessu að berjast gegn atriðum sem geti auðveldað aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er líka rangt. Ég vakti sérstaka athygli á því við 1. umr. frumvarpsins að það væri mjög sérstakt af flokki eins og Samfylkingunni sem segðist berjast fyrir því, og hefði það sem kosningastefnumál, að við sæktum um aðild að Evrópusambandinu að ekki væru gerðar nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá sem væri forsenda þess að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu.

Ég hef jafnframt sagt þá skoðun mína úr ræðustól á Alþingi að ég telji að það orki tvímælis að EES-samningurinn standist miðað við ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er því til hneisu fyrir Samfylkinguna að standa svo að málum og reyna að segja rangt frá um þau atriði sem raunverulega er verið að fjalla um og halda því fram að efni frumvarpsins sé allt annað en það raunverulega er. Til að koma til móts við þau sjónarmið að farið yrði í vandaða vinnu varðandi breytingar á stjórnarskrá lögðum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fram tillögu um að skipuð yrði 25 manna nefnd, stór nefnd, til að fjalla faglega um þessi mál sem skilaði störfum á ákveðnum tíma. Þetta væri gert til að koma málinu í ákveðinn farveg, fara sömu leið og Svíar hefðu gert með mjög góðum árangri þannig að fullnaðarsamkomulag náðist um breytingar á stjórnarskrá hjá þeim. Þetta var innlegg okkar í umræðuna, jákvætt innlegg, til þess að ná fram lýðræðisumbótum í samræmi við það sem kröfur hafa verið um í þjóðfélaginu.

Virðulegi forseti. Með þetta í huga, og miðað við það sem ég lagði á mig til að reyna að ná samkomulagi, og meðnefndarmenn mínir margir, finnst mér miður að það skuli ekki hafa náðst. Ég hefði búist við því að jafnþingreyndur maður og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er legði meira á sig til að ná samkomulagi en raun bar vitni. Um leið og tillögur okkar sjálfstæðismanna komu fram var nánast látið eins og það skipti engu máli og þau orð sem sögð höfðu verið væru ósögð. Ekki virðist nást nein breyting á stjórnarskránni og mér finnst miður að þær tillögur sem við flytjum, um breytingar á 1. gr. og 2. gr., skuli ekki nást fram að ganga. Ég hefði talið að veruleg réttarbót væri að því.



[14:41]
Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um það sem hér kom fram í lokin. Hv. þm. Birgir Ármannsson getur væntanlega staðfest að í heilan sólarhring var reynt að ná samkomulagi við sjálfstæðismenn. Þó nokkuð þokaðist en þeim hugmyndum sem þar fæddust eða hefðu getað leitt til sátta var hafnað. Það er best að það liggi þá fyrir og ég mun fara yfir það síðar.

Það er eitt atriði sem skiptir máli varðandi ræðu hv. þingmanns en það er að hv. þingmaður vísar til þess, og er þá að tengja við stjórnlagaþingið — og það finnst mér skipta máli vegna þess að hugmyndin um stjórnlagaþing snýst um það að taka málið út úr flokkunum, það er þetta flokksræði sem hefur verið gagnrýnt, og færa það til fólksins að velja fulltrúa sína til að setjast á stjórnlagaþing eins og gert var á þjóðfundinum 1851. Hugmynd Sjálfstæðisflokksins, þ.e. að flokkarnir á hinu háa Alþingi velji fulltrúa í nefnd til að endurskoða stjórnarskrá, er hins vegar allt annars eðlis. Það er dálítill misskilningur að bera þessar tvær hugmyndir saman. Þetta eru tvær hugmyndir af algerlega öndverðum meiði. Mér finnst hugmynd sjálfstæðismanna langt frá því að vera út úr kortinu en það er verið að leggja upp með allt aðra hugmyndafræði. Þess vegna er tillaga Sjálfstæðisflokksins engin tillaga til sátta í þeim efnum. Það er langur vegur frá því.



[14:43]
Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kemur inn á varðandi stjórnlagaþingið frá 1851 er byggt á ákveðnum sögulegum misskilningi. Ég held að hann þurfi að lesa Íslandssöguna sína betur ef hann telur að stjórnlagaþingið 1851 sé einhver tilvísun í það sem nú er að gerast, svo er ekki. Alþingi var allt annars konar fyrirbrigði og íslenskt þjóðfélag með öðrum hætti en nú er.

Hvernig getur hv. þm. Lúðvík Bergvinsson haldið því fram að stjórnlagaþingið og val á það hefði verið rifið úr höndum flokkanna ef kosið hefði verið á það með þeim hætti sem fyrirhugað var? Ég get ekki séð að það hefði verið nein breyting hvað það varðar. Hvernig var hægt að koma í veg fyrir stjórnskipulega ringulreið, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þegar búið var að kjósa Alþingi til að fara með breytingar á stjórnlögum og kjósa síðan stjórnlagaþing til að fara með þessar breytingar á stjórnlögum. Það hefði leitt til stjórnskipulegrar ringulreiðar og það var það sem ég var á móti.



[14:44]
Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er nýgenginn úr frjálslyndum flokki í íhaldsflokk. Það kannski endurspeglar það sem hér er á ferðinni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið afstöðu gegn þessum breytingum. Í raun og veru skiptir engu máli hvað hefur verið sett fram. Sjálfstæðisflokkurinn er algerlega andvígur þeim breytingum sem hér liggja fyrir og það liggur fyrir í þeim 850 ræðum eða svo sem hafa verið haldnar um þetta tiltekna mál. Hv. þingmaður segir að það hefði leitt til einhvers stjórnskipulegs slyss ef þetta hefði verið samþykkt. Það er ekki nema 2 til 3 ár síðan Austurríkismenn fóru þessa leið og enn hefur ekkert spurst af því stjórnskipulega slysi eða þeim áföllum sem sú þjóð varð fyrir. Þessi hræðsluáróður þeirra sem fyrst og fremst líta á það sem hlutverk sitt að standa vörð um óbreytt ástand er dæmdur til að falla ómerkur í umræðunni.



[14:45]
Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst svona orðhengilsháttur nánast ekki sæma virðingu Alþingis. Það er öldungis ljóst að ég innan stjórnarskrárnefndar eins og félagar mínir vildum beita okkur fyrir margvíslegum breytingum eins og m.a. koma fram í þeim tillögum sem við flytjum. Það er staðreyndin í málinu.

Hins vegar liggur fyrir og hefur alltaf legið fyrir að við vorum ekki fylgjandi þeim tillögum sem lágu fyrir um stjórnlagaþing. Það hefur ekkert með íhaldssemi eða frjálslyndi að gera. Það hefur með heilbrigða skynsemi að gera, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, að vera á móti svona fáránlegum tillögum eins og settar voru fram af meiri hluta sérnefndarinnar sem flutti þetta frumvarp um það stjórnlagaþing sem þar var um að ræða, enda breyttist þetta fram og til baka í meðförum af því að það var engin vitglóra í því sem menn voru að hugsa (Forseti hringir.) og það hefði leitt til stjórnskipulegrar ringulreiðar og þess vegna voru sjálfstæðismenn á móti því.



[14:46]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var þegar búið að boða það að fella út stjórnlagaþingið þannig að mér finnst að menn þurfi ekki að deila mikið um það, sú tillaga kom fram. Það var jafnvel búið að bjóða það að fella niður 3. gr. og þá stóð aðeins eftir 2. gr. og 1. gr.

Því miður náðu menn ekki saman um þær áherslur og útfærslur og þar komu fram breytingar af hálfu sjálfstæðismanna. Hv. þm. Jón Magnússon sagði að ég hefði verið með ómaklegar og rangar ásakanir í ræðu áðan og vænti ég þess að hann skýri það á eftir en til að átta mig á afstöðu hans spyr ég hv. þingmann hvort hann sé enn sama sinnis í því máli sem hann flutti með okkur í Frjálslynda flokknum að afnema beri veðsetningarrétt, sölurétt og leigurétt íslenskra útgerðarmanna en þeir haldi nýtingarrétti.



[14:47]
Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skoðanir mínar á fiskveiðistjórnarkerfinu hafa ekki breyst í neinu nema síður sé. Ég tel brýna nauðsyn bera til að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég átta mig hins vegar á að ég er í minni hluta í mínum flokki hvað það varðar. Ég vildi fara mun lengra og gera víðtækari breytingar en hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hvað það varðar að um raunverulega þjóðareign eða eign ríkisins yrði að ræða á fiskveiðiheimildunum. Það er staðreyndin í málinu.

Vegna þess sem hv. þm. Guðjón Arnar kom inn á, að búið hafi verið að fella niður 3. og 4. gr. þannig að málið hafi bara staðið um stjórnskipulega breytingu varðandi 1. og 2. gr., spyr ég: Miðað við þær tillögur sem við sjálfstæðismenn lögðum til var þá slíkur ágreiningur að það ætti ekki að vera hægt að ná samkomulagi um þetta, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson?



[14:48]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tvisvar tekið þátt í því að setja í stjórnarsáttmála sína ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Ég átta mig því ekki á hvaða viðsnúningur er núna á ferðinni, hvers vegna menn treysta sér ekki til að setja það í stjórnarskrána að náttúruauðlindir séu þjóðareign sem ekki megi selja eða láta varanlega af hendi. Hvers vegna eru menn að hártoga texta í kringum það sem flokkurinn hefur sjálfur sett í stefnumál sín þegar hann hefur komið að ríkisstjórnaraðild? Getur einhver hv. þingmanna í Sjálfstæðisflokknum skýrt það fyrir mér, því að svo virðist sem ekki sé hægt að færa fyrir því nein skynsamleg rök hvers vegna sjálfstæðismenn geta ekki fallist á ákvæðið?



[14:49]
Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði ekki að það kæmi neitt svar við þeirri spurningu sem ég spurði, hvernig á því gæti staðið að ekki hafi verið möguleiki að freista þess að ná samkomulagi um orðalag 1. og 2. gr. eftir að fyrir lá að við sjálfstæðismenn vorum í meginatriðum búnir að leggja fram atriði sem hefði átt að vera auðvelt fyrir meiri hlutann að gangast inn á miðað við þau orð sem hér höfðu fallið. En þannig er það og það þýðir ekkert um það að ræða.

Mér hefur fundist, því miður, og ég reikna ekki með að eiga eftir að standa oft upp í þessum ræðustóli, verulegur ágalli að hv. þingmenn hafa iðulega leyft sér að fara með rangan málflutning, halda fram hlutum sem standast ekki rök og standast ekki staðreyndir mála og það er ósæmilegt og hæfir ekki virðingu Alþingis.



[14:51]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja að nokkrum atriðum í þessu frumvarpi í ræðu minni en tíminn er knappur þannig að ég verð að fara hratt yfir sögu og get ekki drepið á alla þá þætti sem skipta máli.

Vegna þeirra orðaskipta sem áttu sér stað milli hv. þingmanna rétt í þessu um stjórnlagaþing og þess háttar verð ég að segja að stjórnlagaþingið var auðvitað ótækt eins og það var lagt upp í upprunalegu frumvarpi og það batnaði lítið, þó að það yrði vissulega ódýrara batnaði það lítið í þeirri útfærslu sem birtist í breytingartillögum meiri hlutans. Þess vegna skal það auðvitað viðurkennt að það var mikið framfaraskref í sambandi við meðferð þessa máls þegar fram kom að af hálfu flutningsmanna væri mönnum það ekki fast í hendi ef samkomulag gæti náðst að halda stjórnlagaþinginu inni. En bara til að undirstrika að það hefðu verið vandamál fylgjandi því að samþykkja frumvarpið eins og það kom upprunalega fram og reyndar eftir því sem það var í breytingartillögunum líka, m.a. vegna þess fyrirkomulags sem hv. þm. Jón Magnússon vék að áðan að á sama tíma og verið var að afgreiða stjórnarskrárbreytingar, sem annars vegar fólu í sér heimild fyrir Alþingi að fjalla um stjórnarskrárbreytingar eftir tilteknum reglum, átti að vera að störfum stjórnlagaþing sem gat breytt stjórnarskrá eftir tilteknum reglum. Það var þetta sem stakk í augun, var rökleysa að mati okkar sjálfstæðismanna og til þess fallið að skapa stjórnskipulega ringulreið.

Varðandi ákvæði frumvarpsins að öðru leyti hef ég margoft sagt að með vandaðri vinnu, vönduðum undirbúningi og víðtækri sátt hefði verið hægt að ná fram ýmsum af þeim atriðum sem þar er að finna og því hefur aldrei verið hafnað. En eins og kom fram hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni áðan fólust yfirlýsingar okkar sjálfstæðismanna um það að við værum reiðubúnir til að semja um útfærslu þeirra atriða sem þar er að finna ekki í sér skuldbindingu til að taka tillögunum eins og þær litu út af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.

Í dag hefur hvað mest verið rætt um breytingartillögur okkar sjálfstæðismanna. Ég ítreka að breytingartillaga okkar varðandi ákvæðið um hvernig breyta eigi stjórnarskrá er orðrétt sama ákvæði og sátt var um í stjórnarskrárnefndinni í febrúar 2007 og því var ekki óeðlilegt að við sjálfstæðismenn teldum að það gætu verið forsendur til að nota þá niðurstöðu sem grundvöll sáttar núna. Við höfðum auðvitað væntingar um að það hefðu ekki orðið þær grundvallarbreytingar á sjónarmiðum manna að slíkt væri ómögulegt.

Varðandi hins vegar 1. gr. og vangaveltur um hana finnst mér rétt að hnykkja á því sem fram kom í andsvari hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar áðan að það sé rangt og rangtúlkun að halda því fram að tillöguflutningur okkar sjálfstæðismanna í þessu máli feli í sér einhverja varðstöðu um hagsmuni kvótaeigenda eða kvótahafa. Ég minni á það, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði, að í framsöguræðu fyrir frumvarpinu tók hæstv. forsætisráðherra skýrt fram að svo væri ekki. Hún sagði, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að hafa í huga að þessu nýja stjórnarskrárákvæði er ekki ætlað að svipta menn þeim réttindum sem þeir hafa öðlast, svo sem afnotarétti af náttúruauðlindum eða atvinnuréttindum á grundvelli opinberra leyfa sem kunna að njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar sem óbein eignarréttindi. Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við slíkum réttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda.“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra í framsöguræðu sinni og þegar hv. þm. Geir H. Haarde spurði ráðherrann um þetta í umræðunni svaraði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort þau ákvæði sem eru í frumvarpinu haggi í engu núverandi kvótakerfi. Ég kom mjög inn á það atriði í máli mínu og tel mikilvægt að árétta að stjórnarskrárákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign muni ekki skerða réttindi þeirra sem hafa veiðiheimildir í kvótakerfinu eða svipta þá kvótanum. Þau réttindi munu eftir sem áður njóta verndar sem atvinnuréttindi þeirra er stunda útgerð eða með öðrum orðum sem óbein eignarréttindi.“

Það var sem sagt ekki ætlunin með stjórnarskrárfrumvarpinu hagga grundvelli núverandi kvótakerfis eða hagsmunum þeirra sem eru handhafar kvótans. Það að halda því fram að við með tillöguflutningi okkar séum með einhverjum sérstökum hætti að standa vörð um sægreifana eða útgerðarauðvaldið, svo vitnað sé til orða hæstv. utanríkisráðherra í gær, er auðvitað bara lýðskrum þegar horft er til þess að tillögur ríkisstjórnarflokkanna og félaga þeirra í þinginu ganga heldur ekki út á það að raska réttindum handhafa kvóta. Það var einfaldlega ekki inni í frumvarpinu. Það snerist ekki um það. Þess vegna er sú túlkun sem hér hefur verið mjög uppi af hálfu andstæðinga okkar sjálfstæðismanna alröng og á sér enga stoð í efni málsins.



[14:57]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér hið mikilvæga mál stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ég vil óska eftir því við hæstv. forseta að hann kanni hvort formaður Sjálfstæðisflokksins sé einhvers staðar ínáanlegur og geti verið viðstaddur þessa umræðu. Ég þarf að eiga við hann orðastað vegna afstöðu og sjónarmiða Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og ég óska eftir því að forseti kanni það hvort formaður Sjálfstæðisflokksins geti látið svo lítið að vera viðstaddur þessa umræðu.



[14:58]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég geri í sjálfu sér enga athugasemd við þá ósk hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að kannað verði hvort formaður Sjálfstæðisflokksins geti verið við umræðuna. Á sama tíma og af sama tilefni vil ég leita eftir því hvort hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra geti verið viðstaddir umræðuna því vel getur verið að þeir ræðumenn Sjálfstæðisflokksins sem eiga eftir að tala geti átt erindi við þessa hæstv. ráðherra sem hafa ekki verið óskaplega miklir þátttakendur í þessari umræðu.



[14:58]
Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir ósk hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um að formaður Sjálfstæðisflokksins verði viðstaddur þessa umræðu. Ég held að það sé mikilvægt að fram komi hvort ný forusta í Sjálfstæðisflokknum muni standa vörð á sama átt og sú gerði sem nú er farin. Ég held að það styrki umræðuna um lýðræðið á nýrri öld og gott að vita hvernig nýr formaður Sjálfstæðisflokksins muni leiða flokkinn í þeim efnum.

Ég vildi aðeins nefna það vegna þess að hér var óskað eftir viðveru forsætisráðherra að ég veit að hæstv. forsætisráðherra er á ársfundi Seðlabankans (Gripið fram í: Hann byrjar klukkan fjögur.) og áður en að því kom var hún á fundi með ríkissáttasemjara. Ég vissi af þessu. Hæstv. forsætisráðherra verður því fjarverandi um stund en það er meira en sjálfsagt að reyna að tryggja það að hæstv. forsætisráðherra verði viðstödd þessa umræðu um leið og mögulegt er. En hæstv. forsætisráðherra hefur ekki lagt lítið lóð á vogarskálarnar í þessari umræðu, hæstv. forsætisráðherra er 1. flutningsmaður málsins, (Forseti hringir.) og, hæstv. forseti, ég virði henni það til vorkunnar nú þegar 845 ræður hafa verið fluttar um málið að hún hafi ekki getað verið viðstödd þær allar.



[15:00]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að hæstv. forsætisráðherra vill leggja mjög mikið á sig til þess að þetta mál geti orðið að lögum. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að óska eftir því að hún sé hér viðstödd. Málið er þó á hennar forræði. Það er hún sem flytur málið. Það er hún sem hefur viljað framgang þess hér. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að hún fylgist með umræðum og framvindu málsins í þinginu og að ég tali nú ekki um aðra flutningsmenn þessa máls sem ekki hafa látið svo lítið að vera við umræðuna í dag sem var eiginlega búið að semja um að við mundum vera að ljúka um þessar mundir.

En hv. þm. (Gripið fram í: … formaður Sjálfstæðisflokksins.) Árni Þór Sigurðsson hefur ákveðið að kalla hér eftir formanni Sjálfstæðisflokksins. Ég hlýt þá að spyrja hv. þingmann af hvaða tilefni það sé. Er það eitthvað í tillögum hæstv. forsætisráðherra sem þarf (Forseti hringir.) að ræða við formann Sjálfstæðisflokksins? (Forseti hringir.)



[15:01]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Fyrst menn eru farnir að biðja um að einstaka flutningsmenn málsins komi til þingfundar vil ég geta þess að ég gat þess í hljóði við forseta áðan hvort ég gæti ekki fengið hv. þm. Siv Friðleifsdóttur til fundarins en hún skrifar undir framhaldsnefndarálit meiri hlutans og leggur til að málið verði rætt áfram óbreytt.

Þessi sami þingmaður hefur lagt til í fjölmiðlum að 4. gr. falli niður. Nú vil ég spyrja frú forseta: Hvað á maður að halda? Ég hef rætt þetta vandamál aftur og aftur, það vandamál að Framsóknarflokkurinn segist hafa fallið frá 4. gr. en samt sem áður leggur hann til seinna, eftir það, að frumvarpið verði rætt áfram óbreytt.

Á ég sem sagt að halda áfram að ræða um þennan tvískinnung, þessa rökleysu sem felst í því að tvö þing eigi að fjalla um breytingar á stjórnarskránni og bera þær undir þjóðina á sama tíma? Er búið að fella niður 4. gr.? Ég bara spyr.



[15:02]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú bregður svo við að sjálfstæðismenn taka það heldur óstinnt upp að óskað sé eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins sé viðstaddur þessa umræðu. (Gripið fram í.) Þeir setja upp einhvern svip og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir gerir kröfu um það að ég skýri fyrir henni hvaða erindi ég eigi við formann Sjálfstæðisflokksins.

Við höfum upplifað það í þessari umræðu, sem er orðin alllöng eins og allir vita, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa iðulega inn á milli í ræðum sínum óskað eftir því að einstakir ráðherrar komi til fundar og verði viðstaddir umræðuna. (Gripið fram í.) Þeir hafa oft komið hingað og verið viðstaddir þessa umræðu að nóttu sem degi og tekið þátt í henni. Þess hefur ekkert verið krafist að þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðu grein fyrir því hvað það væri sem þeir vildu eiga orðastað um við viðkomandi ráðherra. Þeir hafa komið og tekið þátt í þessari umræðu.

Ég óska eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins komi og verði viðstaddur þessa umræðu svo hægt sé að eiga við hann orðastað um stefnu og (Forseti hringir.) störf og framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins.



[15:04]
Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það væri mjög æskilegt að sem flestir forustumenn flokkanna væru viðstaddir þá umræðu sem hér fer fram um þetta mikilvæga mál.

Á hinn bóginn vildi ég aðeins upplýsa hv. þm. Pétur H. Blöndal sem kom hér með athyglisverðan vinkil og ítrekaði fyrri ræður sem hann hefur flutt um það sem hann kallar rökleysu en ég sjálfur á mjög erfitt með að skilja rökleysuna sem í hans málflutningi hefur falist.

Framsóknarmenn lögðu til leið til sáttar til þess að ljúka málinu. Það var að hugmynd, sem þeir hafa barist mikið fyrir um stjórnlagaþing, yrði dregin til baka. Á sáttarhönd þeirra var slegið af fullum þunga og af þeim sökum þótti ekkert tilefni til að leggja fram sérstaka tillögu um að draga þá hugmynd til baka, þegar enginn vilji var hjá þeim stjórnmálaflokki sem telur það sitt helsta hlutverk að standa vörð um óbreytt ástand, að stíga skref í átt til sáttar.



[15:05]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nokkur orð vegna ummæla hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem ég fagna að sé kominn til þessarar umræðu. Hann hefur lítinn þátt tekið í henni fram til þessa. Það hefði verið ánægjulegt að heyra meira í hv. þingmanni Árna Þór Sigurðssyni og fá sjónarmið hans fram. Ég minnist þess ekki að hafa séð hann mikið í ræðustól út af þessu máli eða heyrt sjónarmið hans. En hafi hann hlýtt á ræður okkar hinna þá hlýtur hann að átta sig á ýmsum göllum á þessu máli og það kemur vonandi fram í ræðu hans á eftir.

En ég vil taka það fram, hæstv. forseti, að ef stífar óskir eru um að einstakir hv. þingmenn eða einstakir hæstv. ráðherrar verði viðstaddir umræðuna þá væri kannski ráð að gera hlé á fundi og bíða eftir því að við fáum niðurstöðu um það hvernig verður með þá hv. þingmenn og hæstv. ráðherra sem óskað er eftir. Um leið væri gott að fá skýringar frá hæstv. forseta um það hvernig hún hyggst halda (Forseti hringir.) áfram þingstörfum í dag.



[15:06]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti vill upplýsa að þeim skilaboðum hefur verið komið til bæði ráðherra og þingmanna sem óskað hefur verið eftir og þess getið að óskað væri eftir að væru hér í þingsal við þessa umræðu. Við fáum síðan fréttir af því hvort úr því getur orðið.

Forseti vill einnig upplýsa, eins og þingmenn eiga að vita, að lagt var upp með dagskrá þingsins á þá leið að umræðu um alla dagskrárliði lyki um klukkan 17 í dag.

Forseti takmarkar ekki málfrelsi þingmanna. Það eru engin tímamörk sett hér á ræður þingmanna nema fullt samkomulag sé á milli þingflokka um ræðutíma og tímalengd ræðna.



[15:07]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þm. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins er kominn til þessar umræðu. Ég óskaði sérstaklega eftir því að hann yrði viðstaddur ef hann ætti þess nokkurn kost af því ég hafði áhuga á því að eiga nokkurn orðastað við hann um það mál sem hér er til umræðu.

Við erum að fjalla um frumvarp til stjórnarskipunarlaga, breytingar á stjórnarskránni sem lagt var fram fyrr á þessu þingi, fyrr í vetur af formönnum eða fulltrúum fjögurra stjórnmálaflokka, allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna þingmenn um að það er eingöngu einn fundur í einu í þingsalnum.)

Fulltrúar fjögurra flokka af fimm eru flutningsmenn þessa frumvarps. Í meginatriðum eru efnisatriði frumvarpsins þau að bætt verði í stjórnarskrána ákvæði um að náttúruauðlindir skuli vera í þjóðareign. Í öðru lagi að aðferðinni við að breyta stjórnarskránni verði breytt og hún gerð straumlínulagaðri og einfaldari og því verði vísað til þjóðarinnar að breyta stjórnarskránni. Í þriðja lagi að tiltekinn hluti kjósenda geti krafist þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um mál sem varða almannahag. Og í fjórða lagi að bætt verði í stjórnarskrána ákvæði um stundarsakir um stjórnlagaþing.

Allt hefur þetta mál fengið ítarlega umræðu í þinginu og það kom fram strax í upphafi að sjálfstæðismenn gerðu og ætluðu sér að gera atlögu að því að reyna að stöðva það að þetta mál fengi framgang hér á vettvangi Alþingis. Í fyrsta lagi var í upphafi gerð athugasemd við formið á málinu. Það að ekki hefði verið haft samráð við Sjálfstæðisflokkinn um flutning málsins. Sjálfstæðismenn hafa lagt mikið upp úr því að ekki séu mörg dæmi um það í sögunni að þannig sé staðið að stjórnarskrárbreytingum. Engu að síður er það staðreynd að fjórir flokkar af fimm eru áhugasamir um að ná fram þessum breytingum á stjórnarskránni.

Það mátti líka ætla af málflutningi Sjálfstæðisflokksins í upphafi að hann væri sammála að minnsta kosti sumum þeirra breytinga sem hér voru lagðar til og það væri hugsanlegt að hægt væri að ná samstöðu um einhverjar breytingar á stjórnarskránni sérstaklega hvað varðaði auðlindir í þjóðareigu og að því er varðaði aðferðafræðina við að breyta stjórnarskránni.

Það eru því mikil vonbrigði þegar það kemur síðan á daginn að allur sá leiðangur sem lagt var í í þeim tilgangi að ná einhverri samstöðu um málið var til einskis. Það var sem sagt í raun bersýnilegt allan tímann að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að hleypa neinum af þessum ákvæðum stjórnarskrárbreytinga frumvarpsins í gegn.

Fyrst var gripið til formsins. Síðan var eitt efnisatriði af öðru tekið fyrir þar til ekkert stóð eftir. Sjálfstæðismenn hafa líka breytt um málflutning í þessu máli. Vegna þess að í upphafi og þegar lesnar eru ræður fulltrúa Sjálfstæðisflokksins við 1. umr. þá mátti draga þá ályktun að flokkurinn væri reiðubúinn til þess að standa að tilteknum hlutum.

Þess vegna var farið í það að reyna að leita sátta. Þess vegna var farið í það að kanna hvort samstaða gæti tekist um að tilteknir hlutar yrðu teknir út úr frumvarpinu eins og ákvæðið um stjórnlagaþingið og jafnvel um þjóðaratkvæðagreiðslur þó að það hafi verið mörgum okkar, þingmönnum, þvert um geð. Vegna þess að við teljum að þetta mál snúist ekki síst um að koma til móts við að endurspegla þá lýðræðishreyfingu, lýðræðisvæðingu, lýðræðiskröfur sem hafa endurrómað um samfélagið undanfarna mánuði, allt frá hruninu í haust.

Mér hefur þótt dapurlegt horfa á Sjálfstæðisflokkinn í þessari umræðu sökkva dýpra og dýpra í forarvilpu andlýðræðis. Því það er það sem við höfum verið að horfa upp á. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það að hann er ekki reiðubúinn til þess að setja inn í stjórnarskrána ákvæði um að þjóðin eða tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðis um tiltekin mál. Hann hefur ekki reynst reiðubúinn til þess að kveða á um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindunum og hann hefur ekki reynst viljugur til þess að taka inn stjórnlagaþing og hann hefur ekki reynst fús til þess að gera breytingar á stjórnarskránni að því er varðar breytingar á aðferðarfræðinni, hvernig stjórnarskránni er breytt.

Þetta er dapurlegt, virðulegi forseti, og sýnir okkur að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér aldrei að ná neinni samstöðu um þetta mál. Mér hefur fundist að sjálfstæðismenn séu í raun ómerkingar orða sinna. Vegna þess að þegar það er skoðað hvernig þeir hafa staðið að vinnunni í sérnefndinni þá hafa þeir flúið úr einu vígi í annað. Þeir hafa breytt um afstöðu. Þeir hafa komið með tillögur sem búið var að fjalla um og hafna og síðan komið með ný skilyrði til þess að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn gæti haft úrslitaáhrif um það með hvaða hætti eða hvaða breytingar yrðu gerðar á stjórnarskránni til framtíðar, a.m.k. þegar horft er á stöðu þeirra á fylgi svona í sögulegu ljósi, sem vonandi sér nú fyrir endann á.

Það sem ég vil þess vegna spyrja formann Sjálfstæðisflokksins að, nýkjörinn formann Sjálfstæðisflokksins sem nú er kominn til starfa og maður hefði haldið að þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson tæki við formennsku í Sjálfstæðisflokknum þá hefði mátt búast við nýrri sýn, nýjum vinnubrögðum af hálfu Sjálfstæðisflokksins: Hvar er lýðræðishugsjón Sjálfstæðisflokksins og Bjarna Benediktssonar snemma á 21. öldinni? Hvaða sýn hefur hann á það að þjóðin eigi sjálf að geta fengið að taka afstöðu til mikilvægra almannahagsmunamála? Hver er afstaða hans til þess að þjóðin eigi að geta tekið ákvörðun um það hvernig stjórnarskráin sjálf er? Er hann sem sagt sokkinn í þetta fen sem gamla valdaklíkan í Sjálfstæðisflokknum er í? Ætlar hann ekki að standa fyrir neinum breytingum, neinni lýðræðisvæðingu á vettvangi eða innan Sjálfstæðisflokksins?

Þetta eru spurningar sem brenna á okkur, virðulegi forseti, og við hljótum að velta því fyrir okkur hvort það verði engin endurnýjun, engin hugmyndafræðileg endurnýjun í Sjálfstæðisflokknum, engin ný sýn á lýðræði í samfélaginu með nýrri forustu Sjálfstæðisflokksins.

Það er þetta sem ég vildi, frú forseti, gjarnan eiga orðastað um við formann Sjálfstæðisflokksins og leita eftir viðbrögðum hans við þessum brýnu spurningum.



[15:15]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef oft áður tekið þátt í þessari umræðu og lýst sjónarmiðum mínum um hvernig þessu máli hefur verið best fyrir komið. Það er reyndar þannig að með þeim breytingartillögum sem sjálfstæðisflokksfulltrúarnir í stjórnarskrárnefndinni tefldu fram, þá kemur alveg skýrt fram að undir öllum kringumstæðum vill Sjálfstæðisflokkurinn að það sé þjóðin sem staðfesti breytingar á stjórnarskránni.

Þar var miðað við að sú tillaga sem kom fram hjá fulltrúum í stjórnarskrárnefnd árið 2007, sem allir flokkar skrifuðu upp á, yrði lögð til grundvallar við breytingar á 79. gr. Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði einnig um það á landsfundi sínum að færa ætti í lög ákvæði um að þjóðaratkvæðagreiðslur færu fram þegar tiltekinn fjöldi þjóðarinnar óskaði eftir því.



[15:16]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvernig í ósköpunum stóð á því að Sjálfstæðisflokkurinn lagði þá fram í nefndinni tillögu sem áður hafði verið hafnað af formönnum stjórnmálaflokkanna? Hvernig stóð á því að Sjálfstæðisflokkurinn kom með nýja tillögu um að ekki mætti vísa málum, þ.e. breytingum á stjórnarskránni, til þjóðarinnar nema að aukinn meiri hluti Alþingis, tveir þriðju, mundi samþykkja slíkar breytingar? Af hverju kom Sjálfstæðisflokkurinn með tillögur um að gera breytingar á stjórnarskránni raunar enn flóknari en þær eru í dag?

Einhvern veginn lyktar það af því að það hafi verið gert til þess að koma í veg fyrir að mál færu til þjóðarinnar. Og það vekur mér undrun, ég segi það alveg eins og er. Mér finnst það sárt vegna þess að ég ber mikla virðingu fyrir nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins. Ég hef haft trú á því að hann mundi innleiða nýja siði og nýja sýn í þessum málum í sinn flokk, en því miður er því ekki að heilsa eins og (Forseti hringir.) málflutningur (Forseti hringir.) og vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins birtast okkur.



[15:17]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem skiptir máli er þetta: Tillagan sem sjálfstæðismenn, fulltrúar í stjórnarskrárnefndinni frá Sjálfstæðisflokknum, lögðu fram byggir á samkomulagi allra flokka frá því fyrir tveimur árum. Aðrar hugmyndir sem hafa verið uppi hafa verið þess eðlis að um þær hefur ekki verið full sátt.

Á þeim skamma tíma sem við höfum haft til ræða þetta mál á þinginu hefur lengst af verið reynt að þvinga málið fram með næturlöngum fundum, dag eftir dag svo sett hafa verið ný met. Það er ekki þannig að menn hafi af yfirvegun og af einhverri skynsemi lagt hér fram að höfðu samráði allra flokka og í kjölfarið á því hugmyndum sem líklegt væri að gætu fengið framgang á þinginu. Mál þetta var vanbúið frá upphafi og menn eiga ekki að standa svona að því að breyta stjórnarskránni.



[15:19]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það virðist sem sagt vera þannig að lýðræðisviðhorf Sjálfstæðisflokksins byggir á því að hann hafi neitunarvald um mál. Þannig birtist það hér. Af því að skoðanir Sjálfstæðisflokksins náðu ekki fram að ganga þá var hægt að stöðva framgang þessa máls.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga að mikið hefur gengið á í íslensku samfélagi síðasta hálfa árið, og reistar hafa verið mjög háværar kröfur í samfélaginu um aukið lýðræði, um aukinn möguleika þjóðarinnar til að taka þátt í ákvörðunum sem teknar eru og varða hana miklu.

Á þetta eru fjórir stjórnmálaflokkar af fimm að hlusta en Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Það hlýtur að valda okkur hinum mjög miklum vonbrigðum, frú forseti.



[15:20]
Kristrún Heimisdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú sér fyrir endann á ákaflega sögulegu þingi í sögu þjóðarinnar. Þetta þing hefur verið óvenjulegt í alla staði og atburðir hér innan þings og utan verða lengi í minnum hafðir.

Segja má að fyrir utan þinghúsið hafi risið sú gamla hefð frá því á þingtíma þjóðveldisins að menn gerðu háreysti og þannig haft áhrif á þingstörf. Menn geta svo spurt sig hversu gagnleg eða lýðræðisleg sú aðferð hafi verið. Hún á sér sem sagt stoð í sögu þessarar öldnu stofnunar. En í öllu falli er ljóst að Alþingi og allir þeir sem hér eru verða að rísa undir þeirri ábyrgð að breyta vinnubrögðum þingsins, að mæta þeirri umræðu sem stendur yfir í samfélaginu og að reisa við virðingu Alþingis.

Sumir kunna að vera þeirrar skoðunar að skoðanakannanir um virðingu fyrir stofnunum sé ekki endilega heilagur sannleikur en þegar staða Alþingis er orðin sú sem hún er núna í almennum skoðanakönnunum í landinu, sem almennt eru taldar vísindalegar, þá hljóta allir stjórnmálaflokkar og allir þeir sem tekið hafa sæti á Alþingi eða njóta lýðræðislegs umboðs til að starfa hér, að taka það til sín.

Hvernig svo sem til þeirra stjórnlagabreytinga var efnt sem hér hafa verið til umræðu síðustu vikur og hvaða svo sem óvenjulegu aðstæður það eru sem til þess hafa orðið hljóta það að vera mikil vonbrigði öllum þeim sem hafa mikinn áhuga á því að á Íslandi sé frjálslegt lýðræði, byggt á sterkum stjórnskipulegum grunni, að út úr þeirri umræðu komi ekki neitt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað skorið sig úr í umræðunni. Hægt var að hafa vissa samúð með því sjónarmiði Sjálfstæðisflokksins að stjórnlagaþingið og hugmyndin um það væri ekki fullkomlega hugsuð á þann besta veg sem mögulegur væri. En í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn hafði lýst því yfir að endurskoða mætti þá tillögu — og hefur sú sem hér stendur fylgst af mikilli athygli með ræðum sjálfstæðismanna undanfarnar vikur — og í ljósi þess að sjálfstæðismenn höfðu margir margítrekað — þar á meðal helstu forustumenn eins og komið hefur fram í umræðunni, fyrrverandi formaður flokksins, núverandi formaður flokksins og varaformaður flokksins — lýst því yfir að flokkurinn væri fyllilega reiðubúinn til að gera ákveðnar breytingar — þ.e. að auðvelda breytingar á stjórnarskránni og margir höfðu í umræðunni, þar á meðal núverandi formaður flokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, í ræðu sem ég hlýddi á gefið til kynna vilja til þess að lögfesta í stjórnarskrá þjóðareign á náttúruauðlindum — eru það gríðarleg vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki vera reiðubúinn til þess að ná samningum um þessa tvo þætti þess máls sem hér liggur fyrir þinginu.

Ég vil sérstaklega benda á að auðvitað er það langsamlega æskilegast og í raun nauðsynleg lýðræðisleg krafa að stjórnarskrá sé breytt og henni sé þokað áfram í sem mestri sátt allra þeirra sem þátt taka í stjórnmálum, allra stjórnmálaflokka. En við megum ekki gleyma því að stjórnmál eru ekki einkamál stjórnmálaflokka. Stjórnmál eru hluti af breiðara lýðræðislegu samfélagi og það skiptir miklu máli. Við sjáum það af sögunni að við Íslendingar höfum verið í einhvers konar læstri stöðu. Okkur hefur ekki gengið vel að þróa stjórnarskrána og okkur hefur ekki gengið vel að breyta henni. Úr því verður að bæta. Við hljótum að verða að stíga út úr því ferli.

Ég nefndi áðan tvö atriði, annars vegar að auðvelda breytingu á stjórnarskránni, sem var tillaga stjórnarskrárnefndar er starfaði á síðasta kjörtímabili. Nefndin skilaði tillögunni til þingsins en ekki náðist að afgreiða hana fyrir síðustu kosningar. Það er með hreinum ólíkindum að ekki skuli hafa tekist að koma því máli í höfn og það ber að harma.

Hins vegar er um að ræða breytingu sem á sér mjög langa forsögu, með aðkomu allra flokka og meira að segja að tilteknu frumkvæði Sjálfstæðisflokksins. Ákvæðið um þjóðareign var nefnilega í upphafi mótað í nefnd sem sett var á stofn, ef ég man rétt, árið 1999 og Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, veitti forustu. Síðan er liðinn áratugur og stjórnarsáttmálar hafa tilgreint að breytingar skyldu gerðar í þessa átt og málið hefur satt að segja verið bæði þaulrætt og er þrautrætt. Og prófunin sem stjórnmálakerfið stóð frammi fyrir á þessum síðustu vikum var í raun það hvort Alþingi Íslendinga réði við að tryggja festu í stjórnarframkvæmd, skýra hið óskýra og leggja nýjan grundvöll að fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur verið undirlagt réttaróvissu allt frá því 1982 þegar aflamarkskerfinu var komið á. Staðreynd er að fáum lögum í íslenska lagasafninu hefur verið breytt jafnoft á 27 árum. Breytingalögin eru öðru hvorum megin við fimmta tuginn. Ég hygg að enginn ábyrgur stjórnmálamaður hafi viðurkennt nokkru sinni að það hafi verið markmið laganna um stjórn fiskveiða að einkavæða auðlindina, fiskinn í sjónum, og breyta henni í kapítal sem yrði síðan spilapeningar í alls óskyldum atvinnurekstri á órafjarlægum svæðum.

Mér er mjög eftirminnileg heimsókn í Bolungarvík síðasta sumar þar sem kvótaeigandi stærði sig af fjárfestingum sínum í Reykjavík og öðrum háborgum heimskapítalismans, en þegar hann var spurður að því hvort hann hafi fjárfest eitthvað í heimabyggð þá hnussaði í honum og hann sagði: Svo vitlaus er ég ekki.

Það eru heldur engin rök, hinar holrómu upphrópanir úr fjarlægri fortíð, að endurskoðun framsalsveðsetningar og annarra einkaréttarlegra einkenna kvótans séu tilnefnd til að rústa þessum mikilvæga atvinnuvegi. Að mínu viti verður Sjálfstæðisflokkurinn að tala skynsamlegra en þetta og ég gæti líka bætt því við að hagsmunasamtök útvegsmanna þyrftu að gera það einnig.

Allir sem þekkja sögu kvótakerfisins, fræga dóma Hæstaréttar á síðustu árum og umræðuna miklu sem farið hefur fram meðal lærðra og leikra, atvinnufólks í greininni, fræðimanna og greinenda vita að það er tvennt sem hefur verið taumurinn á myndun einkaeignaréttar í kvótakerfinu. Í fyrsta lagi einkaréttarfyrirvarinn úr 2. gr. upphaflegu laganna 1982. Í öðru lagi hin almenna jafnræðisregla stjórnarskrárinnar.

Ég vil nota tækifærið til þess að vekja athygli á því sem horft hefur verið fram hjá í þessari umræðu og hefur með það að gera hvaða réttaráhrif breytingar geti haft, þ.e. innleiðing þjóðareignar í stjórnarskrá. Það hefur nefnilega algerlega verið horft fram hjá því til þessa að álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna markar tímamót í sögu kvótakerfisins. Einkum vegna þess að í því áliti felst að jafnræðisregla samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem jafnræðisregla stjórnarskrárinnar frá 1995 er m.a. byggð á og horft skal til sem lögskýringargagns, er beitt á íslenska kvótakerfið, ekki einungis framkvæmd þess núna, heldur tilurðina sjálfa. Hvernig veiðiheimildunum var upphaflega úthlutað, hvort það hafi verið sanngjarnt og réttlátt hvernig að því var staðið.

Ég ætla að rifja það upp að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fylgdi í hvívetna starfsreglum á ferli mannréttindanefndarinnar, með svari sínu til hennar, og vinna við endurskoðun kerfisins hefði hafist í haust hefði fjármálakreppan ekki sett hér allt í uppnám. Núverandi ríkisstjórn er að sjálfsögðu bundin af þessu ferli og væntanleg ríkisstjórn er það einnig.

Í efnismiklu svari ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar er gert ráð fyrir ýmsum leiðum til endurskoðunar og þar á meðal er í raun gert ráð fyrir fyrningarleið af einhverju tagi. Það er alveg ljóst að eignarréttarfyrirvarann frá 1982 þarf að styrkja og leiðin sem nefnd Jóhannesar Nordals, sem hann var formaður fyrir, fann um aldamótin 2000 er einfaldlega sú besta sem enn hefur komið fram og nýtur hér auðheyrilega — segi ég eftir að hafa hlýtt á ræður sjálfstæðismanna undanfarnar vikur — víðtæks stuðnings sem nær inn í alla flokka.

Ég bendi á að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, talaði við þjóðina í sjónvarpinu í gær og hélt því fram fullum fetum að þjóðareignarhugtakið væri svo óskýrt að ekki væri hægt að nota það. Samt sem áður beitti hann því síðan sjálfur til að túlka hugsun sína og tjá þá hugsun sem hann hafði í málinu. Og ef það hefði ekki fallið um sjálft sig að halda því fram að hugtak sé ónothæft sem menn svo beita sjálfir í sömu setningu, þá veit ég ekki hvernig hægt er að halda nokkru fram.

Að halda því fram að þjóðareignarákvæðið rústi atvinnugreininni er einfaldlega neyðarlegt. Útfærslan sem hér lá fyrir var vissulega málamiðlun en að uppfylltum kröfum um skýrleika hefði þetta þing stigið sögulegt skref til þess að byggja upp útgerð við Ísland á dögum stórskuldugra útgerða og bindingar gervieigna einstaklinga á óveiddum fiski í erlendum bönkum. Það er svo mikilvægt að hafa það í huga að styrking almannaeignar eða þjóðareignar á kvóta og aflamarki gæti einmitt verið bjarghringur ýmissa þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja í sjávarútvegi og að endurskoðun kvótakerfisins sem hefur nú þegar verið ákveðin í svarinu til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna mundi styrkja stöðu okkar sem viljum greina á milli spilapeninga áhættusækinna ungra karlmanna sem geysast um kasínóheiminn annars vegar og þeirra hinna sem nýta auðlindir landsins með útgerð, sem er alvöruatvinnurekstur.

Að mínu mati þarf Sjálfstæðisflokkurinn núna að rifja upp hvað það er að veita raunverulega forustu. Það að veita raunverulega forustu er ekki að hamra á hræðsluáróðri með hömrum sem þeim eru réttir af hagsmunagæslumönnum. Nú er einfaldlega svo að við erum öll á sama báti, eigendur útgerðarfélaga, fólkið sem hjá þeim vinnur, byggðarlögin og Ísland í heild. Einkaeignarréttur, ótakmarkað frjálst framsal og veðsetning eru alls ekki svörin við vanda okkar tíðar. Þau eru ekki fyrir útgerðarmenn, ekki fyrir byggðarlögin og ekki fyrir Ísland.

Þegar peningakröfur erlendra banka eru eins og þær eru nú er mikilvægt að við reisum öll varnarmúra svo þær nái ekki til auðlinda landsins.



[15:31]
Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er loks komið að lokum 136. löggjafarþings. Eftir veru mína á þingi undanfarin tvö ár tel ég nauðsynlegt að fara gaumgæfilega í endurskoðun ekki bara á stjórnarskránni heldur líka á Stjórnarráðinu, á vinnubrögðum og starfsháttum Alþingis, það er svo margt sem þarf að skoða.

Það er þörf á að breyta stjórnarskránni, ég er algjörlega sannfærð um það. Hún þarf að þróast og hún hefur reyndar verið að þróast eins og dæmin sanna. Mannréttindaákvæðið er dæmi frá 1995. Stjórnarskráin okkar er grundvöllur lýðræðis, mannréttinda, laga og réttar hér í landi. Ég þekki ekki dæmi þess að stjórnarskrárbreytingar hafi verið gerðar eða undirbúnar á þann hátt sem minnihlutaríkisstjórnin gerði. Mig langar því að spyrja hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur hvort hún þekki dæmi þess að stjórnarskrá hafi verið breytt á þann hátt sem við ræðum um núna (Forseti hringir.) með rúmlega mánaðarferli og -umræðu og hvort hún telji að slíkt séu fagleg vinnubrögð.



[15:33]
Kristrún Heimisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Það er auðvitað mjög sérkennilegt í íslenskri stjórnskipun að stjórnarskránni hefur alltaf verið breytt á svona stuttum tíma þegar horft er til sögunnar. Það er vegna þess að breyta þarf stjórnarskránni fyrir kosningar og oft og iðulega hefur það verið gert með miklu hraði. Ég er ekki gjörkunnug því hvernig þetta hefur verið gert í öðrum löndum en ég er þeirrar skoðunar að þessi íslenska hefð, sem byggist á því hvernig breytingaraðferðin hefur verið á Íslandi, sé ekki góð. Þess vegna sé mjög mikilvægt að komast út úr þeirri læstu stöðu sem ég nefndi áðan og þannig að hægt sé að gera þetta með öðrum hætti, sú aðferð sem stjórnarskráin mælir fyrir um hefur ekki reynst sérlega vel.



[15:34]
Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Hæstv. og virðulegi forseti. Það sem mér er efst í huga á þessum tímamótum þegar þingi er að ljúka er að málið allt hefur frá mínu sjónarhorni lyktað af pólitískum hrossakaupum og það er svo ógeðfellt að hugsa um grundvöll lýðræðismannréttinda og laga og réttar ganga kaupum og sölum á þennan hátt. Ég þrái að sjá fagleg vinnubrögð, ég þrái að sjá vísindaleg vinnubrögð, ég þrái að sjá vinnubrögð sem við getum treyst á.

Ég endurtek spurningu mína til hv. þingmanns: Finnst þingmanninum að við hefðum aukið virðingu þingsins ef þetta frumvarp hefði náð fram að ganga á þann hátt sem það virtist á einhverjum tíma ætla að gera? Ég hefði talið það vera mikið slys vegna þess að hið faglega verður að fá að vera með og við eigum að ráðast í breytingar, ekki að vera hrædd við það. (Forseti hringir.) En við eigum að taka okkur tíma og ég minni á það enn fremur (Forseti hringir.) að í öðrum þjóðþingum — og ég kynnti mér þetta rækilega — það er að sjálfsögðu ákvæði í (Forseti hringir.) öllum rituðum stjórnarskrám sem ég hef heimildir um hvernig standa skuli að breytingum og (Forseti hringir.) þau ákvæði eru ekkert sett í gamni.



[15:35]
Kristrún Heimisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög mikilvæg umræða og staðreyndin er auðvitað sú að í íslensku stjórnarskránni hefur frá upphafi verið kveðið á um hvernig henni skuli breyta. Staðreyndin er sú að sú aðferð hefur ekki reynst okkur vel vegna þess að ekki hefur tekist að þróa stjórnarskrána eftir því sem kröfur nútímans til frjálslynds lýðræðis hafa kallað eftir eða mundu kalla eftir. Og í raun og veru hafa Íslendingar aldrei sett sér eigin stjórnarskrá vegna þess að því verkefni var frestað 1944 þegar lýðveldið var stofnað.

Vegna þess sem þingmaðurinn sagði um fagleg vinnubrögð, þrána eftir vísindalegum vinnubrögðum og nýrri aðferðafræði í setningu laga og sérstaklega stjórnarskrár, vil ég bara benda á að ég held að ekki séu mörg dæmi um vandaðri vinnu en niðurstöðu auðlindanefndarinnar sem mig minnir að hafi komið út árið 2000. Þá voru forustumenn á sínum sviðum settir saman í kringum borð. Formaðurinn var, eins og ég nefndi áðan, fyrrverandi seðlabankastjóri, (Forseti hringir.) Jóhannes Nordal, og ég hefði haldið að Sjálfstæðisflokkurinn, sem skipaði þessa nefnd, mundi vilja fylgja því máli eftir en einhverra hluta vegna hefur það beðið í tíu ár, (Forseti hringir.) sem fyrir mér er óskiljanlegt.



[15:37]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil til að byrja með fagna því að hv. þm. Kristrún Heimisdóttir skuli taka þátt í þessari umræðu nú þegar líða tekur að lokum þingsins. Ég held að það hefði verið gagnlegt fyrir umræðuna ef hv. þingmaður hefði tekið meiri þátt í umræðunni á fyrri stigum (Gripið fram í.) og ég er sannfærður (Gripið fram í.) um að forseti hefði rýmkað til (Gripið fram í.) á mælendaskrá eins og honum er heimilt. — Hæstv. forseti, get ég fengið aukatíma vegna frammíkalla hérna? (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Ég bið þingmenn að stilla mál sitt.)

Að öllu gamni slepptu tel ég rétt að gera athugasemd við þann hluta ræðu hv. þingmanns sem vék að kvótakerfinu. Nú liggur fyrir að ekki var ætlunin með frumvarpinu að breyta neinu varðandi kvótakerfið. Las hv. þingmaður frumvarpið einhvern veginn öðruvísi en hæstv. forsætisráðherra gerði hvað það varðar?



[15:38]
Kristrún Heimisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að alþingismenn og Alþingi Íslendinga þurfi alltaf að virða valdmörk sín í allri umræðu. Þess vegna var ræða mín byggð á því að hugsa til þess hvernig ákvæði stjórnarskrárinnar með þjóðareignina innan borðs yrði túlkað fyrir dómstólum landsins og eftir atvikum yfirþjóðlegum dómstólum ef um það væri að ræða. Þess vegna setti ég fram þessar skoðanir og viðhorf í ræðu minni. Með allri virðingu fyrir öllum hæstv. ráðherrum og hv. þingmönnum er það bara svo að þegar texti er kominn í stjórnarskrá er það viðfangsefni dómstóla að túlka lögin og ég lýsti því hvernig ég sæi fyrir mér að sú túlkun færi fram.

Ég ítreka að ég er þeirrar skoðunar að þjóðareignarhugtakið, sú lausn sem nefndin, sem sett var á stofn til þess að ná sátt í íslensku samfélagi um kvótakerfið fyrir tíu árum, setti fram hafi verið mjög góð og þessu samfélagi hefði farnast betur ef við hefðum borið gæfu til þess að fylgja því á sínum tíma og miklu fyrr en við höfum gert.



[15:39]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þingmaður sagði um túlkun dómstóla er rétt. Það sem hjálpar dómstólum til að túlka lagaákvæði, þar á meðal stjórnarskrárákvæði, eru lögskýringargögn, m.a. greinargerð með frumvarpinu, ræða framsögumanns og slík gögn.

Í ræðu framsögumanns með frumvarpinu kemur skýrt fram, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að hafa í huga að þessu nýja stjórnarskrárákvæði er ekki ætlað að svipta menn þeim réttindum sem þeir hafa öðlast, svo sem afnotarétti af náttúruauðlindum eða atvinnuréttindum á grundvelli opinberra leyfa sem kunna að njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar sem óbein eignarréttindi. Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við slíkum réttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda.“

Þetta ítrekaði framsögumaðurinn síðar. Hvað sem líður túlkun hv. þingmanns eru lögskýringargögnin þess eðlis að ætla má að dómstólar hefðu túlkað málið með þeim hætti að stjórnarskrárbreytingin (Forseti hringir.) hefði engin áhrif á kvótakerfið eins og það liggur nú fyrir.



[15:40]
Kristrún Heimisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan um nauðsyn þess að virða valdmörk Alþingis, allra hv. þingmanna og hæstv. ráðherra. Ég verð að lýsa mig ósammála hv. þm. Birgi Ármannssyni að þessu leyti til (Gripið fram í: Lögskýringargögn …) vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að hinn frægi vilji löggjafans, sem tíðkast hefur talsvert lengi á Íslandi að byggja á við lögskýringu, hafi verið mjög víkjandi á síðustu árum og að staðan sé miklu nær því sem ég lýsti áðan vegna þess að endurskoðunarvald dómstóla á Íslandi hefur styrkst mjög á sl. 15 árum eða svo, þökk sé aðild okkar að yfirþjóðlegum stofnunum. Vil ég þá láta fylgja með hvatningu mína til sjálfstæðismanna nær og fjær um að taka nú þátt í því með okkur jafnaðarmönnum að opna Ísland og tengja okkur frekar við yfirþjóðlegar stofnanir.

En kjarni málsins er sem sagt þessi: Ég er þeirrar skoðunar og tel að það sé í samræmi við það sem uppi er í lögfræði á Íslandi nútímans (Forseti hringir.) að það sé dómstólanna að túlka (Forseti hringir.) en að vilji löggjafans, hvort sem er framsögumanna, hv. þingmanna eða hæstv. ráðherra ráði ekki öllu um þetta.