136. löggjafarþing — 134. fundur
 17. apríl 2009.
heimild til samninga um álver í Helguvík, 2. umræða.
stjfrv., 394. mál (heildarlög). — Þskj. 664, nál. 884 og 910.

[16:42]
Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um heimild til samninga um álver í Helguvík. Nefndin hefur fjallað þó nokkuð ítarlega um málið og fengið fjölda aðila á sinn fund, frá verkalýðsfélögum, sveitarstjórnum, náttúruverndarsamtökum og fleirum. Sömuleiðis hafa okkur borist fjölmargar umsagnir sem tíundaðar eru í nefndarálitinu.

Á fund nefndarinnar komu einnig aðilar frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem eru að vinna úttekt á hagrænum áhrifum stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf sem jafnframt er gerð grein fyrir í nefndarálitinu. Þá var leitað álits umhverfisnefndar Alþingis vegna umhverfisþátta málsins og jafnframt álits efnahags- og skattanefndar Alþingis á þeim þáttum frumvarpsins sem lúta að efnahags- og skattamálum. Báðar þessar nefndir skiluðu meirihluta- og minnihlutaálitum og eru þau öll sem fylgiskjöl í nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar. Gerð er grein fyrir þeim.

Í frumvarpinu er iðnaðarráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands heimilað að gera samning við Norðurál Helguvík ehf. og eiganda þess, Century Aluminum Company, um að reisa álver í Helguvík á Reykjanesi.

Gert er ráð fyrir því að almennar reglur um skatta og önnur opinber gjöld gildi um félagið og starfsemina, með tilteknum frávikum sem eru tilgreind tæmandi í frumvarpinu. Eru þau frávik að mestu leyti sambærileg þeim sem kveðið er á um í lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, og í lögum nr. 12/2003, um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Frávik samkvæmt frumvarpi þessu eru þó nokkuð færri en í áðurnefndum lögum sökum breyttra skattalaga hér á landi síðan þau lög voru samþykkt.

Nefndin ræddi sérstaklega um ákvæði 4. gr. þar sem sett er fram sú aðalregla að félagið greiði alla almenna skatta og opinber gjöld hér á landi vegna álversins samkvæmt lögum sem gilda á hverjum tíma með þeim sérákvæðum sem eru tilgreind í greininni. Önnur ákvæði greinarinnar eru því tæmandi upptalning frávika frá aðalreglunni. Samkvæmt ákvæðinu er félagið sjálfstæður skattaðili og tryggt er að tekjuskattur félagsins á samningstímanum fari ekki yfir 15%, eins og er nú, og þá gilda sérreglur um stimpilgjöld og fyrningu eigna. Einnig gilda sérreglur um útreikning fasteignaskatts og um byggingarleyfisgjald og skipulagsgjald. Þá eru veittar undanþágur frá iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi. Þá eru ýmis öryggisákvæði varðandi upptöku nýrra skatta. Að lokum er gert ráð fyrir undanþágu frá rafmagnsöryggisgjaldi. Í þessari eftirgjöf á sköttum og gjöldum felst ríkisstyrkur sem skylt er að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Í umræðum um málið komu fram athugasemdir við það að í frumvarpinu kynnu að felast ákvæði sem gengju gegn EES-samningnum og teldust ólögmætur ríkisstyrkur. Af þessu tilefni er rétt að taka fram að skylt er að tilkynna öll áform um ríkisstyrki til ESA. Nefndin hefur fengið upplýsingar um að fjármálaráðuneytið hafi sent tilkynningu um efni frumvarpsins þangað og að hún sé til meðferðar hjá stofnuninni en ekki liggur fyrir hvenær niðurstöðu er að vænta. Því fæst úr því skorið af hálfu stofnunarinnar hvort einhver ákvæði frumvarpsins gangi gegn reglum um ríkisstyrki.

Virðulegi forseti. Sú heimild sem hér er verið að veita í lögum á ekki að hamla eða breyta neinu þar um og mun taka mið af því. Til samanburðar má samt nefna að ef farið væri út í heildarfjárfestingu fyrir fullbúið álver með 360.000 tonna ársframleiðslugetu nemur ívilnunin í þessu tilfelli 0,9% af áætluðum stofnkostnaði. Ívilnun vegna fjárfestingarinnar í Reyðarfirði nam rúmu 1,8% af stofnkostnaði. Ívilnunin til Helguvíkur í þessu tilfelli er töluvert minni og þar af leiðandi ætti að vera góður möguleiki og geri ég ráð fyrir því að ESA eigi eftir að samþykkja þessa ívilnun þar sem hún er talsvert minni og Reyðarál var samþykkt.

Í umfjöllun um frumvarpið hefur komið fram gagnrýni á að félagið Norðurál Helguvík njóti sérkjara varðandi skattgreiðslur sem önnur fyrirtæki í landinu eiga ekki möguleika á að njóta. Í því sambandi er einkum gagnrýnt að tekjuskattshlutfall félagsins verði ekki hærra en 15% á samningstímanum. Í frumvarpinu kemur fram að erfiðleikar við fjármögnun verkefnisins réðu úrslitum um að stjórnvöld tóku þá ákvörðun að leita eftir heimild Alþingis til að ganga til samninga við félagið um sérkjör við skattgreiðslur. Slíkur samningur er talin forsenda þess að fjármögnun verkefnisins takist. Samningurinn hefur í för með sér að auðveldara verður fyrir fyrirtækið og lánardrottna að meta rekstrarhorfur álversins fram í tímann. Samningurinn felur í sér ríkisstyrk en meiri hluti nefndarinnar telur að með tilliti til stærðar verkefnisins og áhrifa þess á atvinnulíf, þar með talið afleiddra starfa og kaupa álversins á vörum og þjónustu, sé þessi styrkur réttlætanlegur og verði ekki byrði á ríkissjóði.

Nefndin fjallaði sérstaklega um 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. þar sem kveðið er á um heimildir Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs til að semja um fyrirkomulag við álagningu fasteignaskatts, þ.m.t. um stofn til álagningar í stað fasteignamats. Um er að ræða frávik frá 2. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga sem kveður á um að stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skuli vera fasteignamat þeirra. Er þetta frávik sambærilegt þeim sem kveðið er á um í áðurnefndum lögum um álverið á Grundartanga og álverið á Reyðarfirði. Þó er sá munur á að í þeim lögum eru bæði skatthlutfall og skattstofn (viðmiðunarfjárhæð) ákvörðuð og tilgreind. Hvorki í ákvæðinu sjálfu í frumvarpinu né skýringum í greinargerð er að finna nánari afmörkun eða leiðbeiningar um það við hvað skattfjárhæðin geti miðast og heimild til samninga virðist vera án nokkurra takmarkana. Við meðferð málsins hjá nefndinni komu fram ábendingar um að í ákvæðinu væri líklega gengið of langt hvað framsal skattlagningarvalds varðar. Ábendingar komu einnig fram í umsögn meiri hluta efnahags- og skattanefndar um að skoða þyrfti samræmi umræddra samningsheimilda sveitarfélaganna við ákvæði stjórnarskrár. Þá var því einnig hreyft fyrir nefndinni að óbreytt kunni ákvæðið að brjóta í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrár sem báðar kveða á um að skattamálum skuli skipað með lögum. Af þeim dómum sem fjalla um þetta atriði má draga þá ályktun að heimild til framsals skattlagningarvalds verði að vera afmörkuð á þann hátt að stjórnvaldið hafi ekki algerlega frjálst mat um það hvort skattur sé lagður á og hversu hár skatturinn skuli vera. Meiri hlutinn fellst á þessi sjónarmið og leggur þess vegna til eina breytingartillögu við frumvarpið sem er þá á þessari grein þar sem fram kemur bæði skatthlutfall og skattstofn.

Virðulegi forseti. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við það að fyrirliggjandi starfsleyfi og umhverfismat félagsins miðist við 250.000 tonna ársframleiðslugetu en samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að gera fjárfestingarsamning vegna álvers með 360.000 tonna framleiðslugetu. Meiri hlutinn vill árétta að frumvarpið leggur ekki til nein frávik frá reglum um umhverfismat og starfsleyfi og félagið verður því að afla þeirra samkvæmt almennum heimildum. Í þessu frumvarpi er ekki kveðið á um neitt slíkt eða breytingar á fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum eða þá fyrirliggjandi starfsleyfi. Heimild til samninga um sérreglur varðandi skatta munu þó alltaf að hámarki miðast við 360.000 tonna framleiðslugetu.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti vísa ég í nefndarálitið hvað vinnu nefndarinnar varðar. Ég hef gert grein fyrir því og stiklað á því helsta sem um er fjallað í því áliti og gert grein fyrir breytingartillögum sem við gerum við frumvarpið og finna má í nefndarálitinu.

Virðulegi forseti. Ég vil jafnframt geta þess að ég held að fjárfestingarsamningurinn sem er áformað að gera á grundvelli þessara laga sem þetta frumvarp miðar að fjalli ekki — það er vert að taka það fram — á nokkurn hátt um sjálfa fjármögnun verkefnisins, raforkusölu eða það umhverfismat og starfsleyfi sem fyrir þurfa að liggja. Þetta frumvarp fjallar eingöngu um þann stuðning og það rekstrarumhverfi sem fyrirtækið mun búa við komi það hingað og reisi hér álver.

Mér þykir leitt að sjá að ekki hefur náð inn á dagskrá í lok umræðunnar þingsályktunartillaga sem hv. þm. Björk Guðjónsdóttir lagði fram um að gert verði mat og úttekt á samfélagslegum áhrifum þessara framkvæmda. Við afgreiddum þessi mál samhliða út úr nefndinni vegna þess að við töldum gríðarlega mikilvægt að þetta mat færi fram. Úttekt hefur verið gerð á áhrifum álversframkvæmdanna fyrir austan og hefur gefist mjög vel og skipt gríðarlega miklu máli.

Það er mikilvægt fyrir okkur þegar svona stórframkvæmdir eru á ferðinni að við séum með mat á áhrifum þeirra á samfélagið, og atvinnulífið líka. Því miður hefur ekki náðst inn á dagskrá að afgreiða þetta mál með en ég mæli svo sannarlega með því og mælist til þess og vona að við berum gæfu til þess á næsta þingi eftir kosningar að samþykkja það mál sem hv. þm. Björk Guðjónsdóttir lagði hér fram og ljúka því.



[16:53]
Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Við 1. umr. um þetta mál tók ég skýrt fram að ég styð ekki það frumvarp sem hér er lagt fram til laga um heimild til samninga um álver í Helguvík sem byggt er á fjárfestingarsamningi við Century Aluminum og Norðurál. Þetta þarf í rauninni engum að koma á óvart enda andstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til verkefna af þessu tagi ríkisstyrktra og stórkarlalegra stóriðjuframkvæmda þekkt.

Andstæðingar okkar hafa gert nokkuð mikið úr því að hér sé á ferð ríkisstjórnarfrumvarp og þeim finnst greinilega undarlegt að þeir flokkar sem starfa saman í þessu minnihlutasamstarfi í þinginu skuli ekki ganga í takt í þessum efnum.

Af þessu tilefni leyfi ég mér að minna þingheim á að þetta frumvarp er arfur frá fyrri ríkisstjórn. Þetta er arfur frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en á tíma þeirrar ríkisstjórnar skrifaði hæstv. iðnaðarráðherra, þáverandi og núverandi, Össur Skarphéðinsson, undir fjárfestingarsamninginn sem hér liggur fyrir. Með þeirri undirskrift var áskilið að ráðherrann flytti samninginn inn í þingið.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð tekur ekki ábyrgð á verkum fyrri ríkisstjórnar og af því tilefni var í þingflokki Vinstri grænna 4. mars sl. gerð svofelld yfirlýsing vegna málsins sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs staðfestir að iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefur heimild til að leggja fram á Alþingi frumvarp til fullnustu skuldbindinga frá tíð fyrrverandi ríkisstjórnar við Norðurál Century Aluminum um skattaleg atriði vegna áforma um álver í Helguvík. Iðnaðarráðherra er kunnug andstaða þingmanna Vinstri grænna við málið og að þeir hafa ekki heitið stuðningi við það á Alþingi.“

Undir þetta bréf ritaði fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs Jón Bjarnason sem er formaður þingflokks okkar.

Frú forseti. Ég vil líka í upphafi máls míns nefna að við í Vinstri grænum höfum margoft verið ásökuð á undanförnum vikum um að við værum að tefja það að þetta mál kæmi til afgreiðslu í þinginu. Það er alrangt. Það er kolrangt. Það er Sjálfstæðisflokkurinn einn og óstuddur sem hefur heiðurinn af því að við erum að fara að ræða þetta mál í mjög mikilli tímaþröng á síðasta degi þingsins sem þýðir að það mun fá allt of litla umfjöllun í þingsal og miklum mun færri komast að til að fjalla um það. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt á áttunda hundrað ræður til að tefja fyrir þingstörfum undanfarnar vikur.

Það verður ekki sagt um okkur vinstri græn að við þorum ekki að leggja sannfæringu okkar fram fyrir þingið og standa með henni, jafnvel þó að við séum í minni hluta. Við erum ekki að reyna að hindra slíka afgreiðslu í þinginu eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert undanfarnar vikur eins og kristallaðist í dag þegar sá flokkur kom í veg fyrir að meiri hluti þingsins fengi að neyta þess lýðræðislega réttar sem á að vera aðalsmerki þessa þings, að ganga til atkvæða um mikilsverð mál.

Frú forseti. Ég sagði að ég legðist eindregið gegn þessu frumvarpi og lýsti afstöðu þingflokks Vinstri grænna. Ástæðurnar fyrir afstöðu okkar er að finna á þskj. 910 í áliti minni hluta iðnaðarnefndar sem er sú sem hér stendur og minnihlutaálitum fulltrúa Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd annars vegar og umhverfisnefnd hins vegar. Þau nefndarálit er að finna með nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar sem þegar hefur verið gerð grein fyrir.

Yfirlýstur tilgangur þessa frumvarps er að ætlunin sé að tryggja álfyrirtækinu Norðuráli Helguvík ehf. og eiganda þess, Century Aluminum Company, lánsfé til framkvæmda við álverið sjálft. ég ætla, frú forseti, að hlaupa aðeins á rökunum fyrir andstöðu okkar við þessi áform.

Þar er fyrst til að telja að umhverfismat framkvæmda gerir ráð fyrir heimild til að reisa álver fyrir 250.000 tonn á ári en í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir samningi um álver sem anni framleiðslu allt að 360.000 tonnum. Hér er um óásættanlegt ósamræmi að ræða og engar skýringar fengust á því í nefndinni hvernig á því stæði.

Í öðru lagi hafa ekki verið metin umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, svo sem línulagna og virkjanaframkvæmda, til að fæða þetta álver.

Í þriðja lagi eru losunarheimildir samkvæmt frumvarpinu miðaðar við úthlutun sem tekur til áfanga með ársframleiðslu á allt að 150.000 tonnum af áli en ekki 360.000 tonnum eins og samningurinn gerir ráð fyrir. Enn og aftur er um hrópandi ósamræmi að ræða.

Í fjórða lagi bendum við á að arðsemisútreikningar byggjast á þessum háu tölum, 360.000 tonna framleiðslu. Arðsemisútreikningarnir og yfirlýsingar stuðningsmanna frumvarpsins um fjölda nýrra starfa við byggingu og rekstur fyrirhugaðs álvers byggja þar með á óraunhæfum forsendum sem ég hef rakið. Minni hlutinn telur að með því séu vaktar falskar vonir um að álverið muni í eitt skipti fyrir öll leysa atvinnuleysi í byggðum á Reykjanesi.

Þetta er afskaplega óábyrgur málflutningur. Í gær voru 1.873 á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum. Þeim hafði fjölgað um 50 frá síðustu áramótum og þar er um að ræða 1.095 karla og 778 konur. Ég leyfi mér að fullyrða að þessi samningur mun ekki leysa vanda þessa fólks hér og nú og ekki á næstu mánuðum og jafnvel ekki á næstu árum vegna þeirrar miklu óvissu sem um verkefnið ríkir að öðru leyti og ég mun koma að á eftir.

Í fimmta lagi er orkuöflun til verkefnisins mjög ótrygg og orkulindir á Hengilssvæðinu og á Reykjanesi munu ekki duga fyrir fullbyggt álverið, sem á að framleiða 360.000 tonn á ári, án þess að verðmæt háhitasvæði á þeim svæðum verði eyðilögð. Álverið mun þannig verða gríðarleg orkusuga sem mun leiða til þess að engin orka verður til ráðstöfunar til annarra og vistvænni verkefna.

Það er ljóst að komi þessi samningur til framkvæmda eins og hann liggur nú fyrir með 360.000 tonna framleiðslugetu verður gengið afar nærri orkulindunum á suðvesturhorninu. Líklega yrði þá ekkert eftir af orkukostum á því svæði nema virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Nái samningurinn fram að ganga gæti það af þeim sökum einum eyðilagt möguleika á verndun Þjórsár og gengið gegn vilja heimamanna í einu blómlegasta landbúnaðarhéraði landsins.

Þjóðin á heimtingu á því að fá að vita nákvæmlega hvaðan fullbyggð álverksmiðja í Helguvík hyggst fá orkuna sem enn hefur ekki verið samið um. Ég vek athygli á því að fylgiskjal númer 1 með nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar er samningur Flóahrepps og Landsvirkjunar um skipulag og undirbúning virkjunar við Urriðafoss í Þjórsá af tilteknum ástæðum. Ég hef kannski tíma til að koma að því máli á eftir.

Í sjötta lagi er vert að benda á vegna orkuöflunarinnar að hér er um að ræða ágenga en ekki sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda sem að endingu mun leiða til þurrðar þeirra. Þá er ég að tala um jarðhitavinnsluna á Hengilssvæðinu. Þar hafa verið gefnar yfirlýsingar um að menn ætli sér að fara í ágenga nýtingu. Menn ætla að fleyta rjómann ofan af orkuauðlindunum þar, fullnýta holurnar í 30–40 ár, ganga frá þeim dauðum og hvíla þær síðan í jafnlangan tíma. Það þýðir að það verður endalaus orkuvinnsla, hola eftir holu á þessum svæðum.

Þess utan, frú forseti, eru einungis 10–12% orkunnar nýtt þegar gufa frá jarðhitavirkjunum er notuð til þess eins að framleiða raforku. Ég vek athygli á því að hér er bara um mengandi sóun á orkulindum að ræða.

Í sjöunda lagi er nöturlegt að með þessum samningi er verið að veita starfsemi sem hefur í för með sér útblástur gróðurhúsalofttegunda og aðra losun mengandi úrgangsefna 20 ára skilyrðislausa undanþágu frá umhverfisgjöldum og umhverfissköttum eins og lagt er til í frumvarpinu. Við teljum rétt að leggja á starfsemi sem hefur í för með sér losun mengandi efna þá kvöð að útblásturinn verði hreinsaður til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á lífríki og heilsu manna. Engin tilraun er gerð til þess með þessu frumvarpi og það átelur minni hluti iðnaðarnefndar harðlega eins og kemur fram á blaðsíðu 3 í nefndaráliti. Ég bendi á að gróðurskemmdir sem hefur orðið vart í kringum jarðhitavirkjanir á Hellisheiði og Reykjanesi hafa nýlega verið raktar til slíkrar losunar, einkum til brennisteinsvetnis H 2 S sem er skaðlegt heilsu manna í miklum mæli.

Álverið í Helguvík mun valda verulegri losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur um 13% af heildarlosun Íslendinga á viðmiðunarári Kyoto-bókunarinnar frá árinu 1990. Ég leyfi mér að lýsa verulegum efasemdum um að Ísland geti uppfyllt alþjóðlegar samningsskuldbindingar sínar verði af byggingu og rekstri álvers í Helguvík.

Enn er ýmislegt ótalið sem skýrir andstöðu okkar við þetta frumvarp, frú forseti. Ég ætla að víkja næst að raforkuverðinu. Skemmst er frá því að segja að ekkert hefur verið upplýst um raforkuverð til fyrirhugaðs álvers og minni hluti iðnaðarnefndar gerir athugasemdir við það. Lágt orkuverð til mengandi stóriðju hefur leitt til verulegrar hækkunar á orkuverði til annarra orkunotenda og með því telur minni hlutinn augljóslega brotið gegn jafnræðissjónarmiðum og að það sé sérstaklega ámælisvert gagnvart öðrum orkunotendum sem nýta orkuna í vistvænni framleiðslu, svo sem garðyrkjubændum sem eru stórnotendur orku og stunda vistvæna starfsemi en þeir bændur hafa einmitt orðið nýlega fyrir skerðingu á umsömdum greiðslum ríkisins á raforkuverði.

Þá er enn ótalinn, frú forseti, sá mikli afsláttur sem hér er veittur á gjöldum og sköttum til þessa fyrirhugaða álvers. Helsti efnahagslegi ávinningur landsins af starfsemi stóriðju í eigu erlendra aðila er greiðsla skatta í ríkissjóð. Arðurinn af rekstrinum, ef einhver er, flyst úr landi til hinna erlendu eigenda. Minni hlutinn telur óforsvaranlegt að með fyrirhuguðum samningi um álver í Helguvík séu takmarkaðar mögulegar heimildir ríkisins til að afla tekna í ríkissjóð með veigamiklum frávikum sem þar koma fram frá reglum um skatta og gjöld á 20 ára samningstíma. Ég tel það sérstaklega ámælisvert nú þegar sýnt er að við Íslendingar þurfum að hækka gjöld og hækka skatta. Þá hefur því fyrirtæki sem hér um ræðir verið komið í einstakt skattaskjól. Samningurinn gerir ráð fyrir að félagið greiði aldrei hærri tekjuskatt en 15% og skiptir þá engu þótt tekjuskattshlutfall annarra lögaðila muni hækka á gildistíma ákvæðisins. Með þessu er í reynd verið að binda almennt skatthlutfall félagsins til frambúðar og tryggja því tiltekin skattfríðindi umfram önnur álver og annan iðnað í landinu.

Töluverðar líkur eru á því að mismunun af þessu tagi kunni að fara í bága við EES-samninginn og teljast ólögmætur ríkisstyrkur. Það er vert að benda á að samningar um álver í Reyðarfirði og á Grundartanga veita svigrúm fyrir 18% tekjuskatti en eins og allir vita er tekjuskattsprósentan núna 15% og því er með samningnum um Helguvík gengið lengra í sérstökum skattalegum undanþágum álfyrirtækja. Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneyti er núvirtur ríkisstyrkur til álvers í Helguvík, miðað við 20 ára samningstímann, áætlaður um 16,2 milljónir bandaríkjadala.

Ég er þess fullviss að hin álverin tvö, á Grundartanga og Reyðarfirði, munu að sjálfsögðu sækjast eftir sömu skattafsláttum og hér er verið að veita þriðja álverinu. Hér er því ekki aðeins verið að takmarka möguleika ríkisins til skattlagningar á þessu álveri heldur mun það kalla á hið sama hjá hinum álverunum tveimur enda þótt tekjuskattur yrði hækkaður á allan annan iðnað í landinu. Þá er hér komið skattaskjól fyrir þessi fyrirtæki.

Ég vil í þessu sambandi benda á að álit Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, á því hvort um ólögmætan ríkisstyrk upp á 16,2 milljónir bandaríkjadollara er að ræða liggur enn ekki fyrir. Ég hefði talið eðlilegt að bíða eftir niðurstöðu til að mynda ESA og eftir skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif stóriðju á Íslandi, að það hefði legið fyrir áður en samþykkt hefði verið heimild til handa iðnaðarráðherra um að semja um byggingu álvers í Helguvík.

Frú forseti. Álverð hefur farið lækkandi á heimsvísu og álframleiðsla hefur dregist verulega saman. Verulegar efasemdir eru því um hvort réttlætanlegt sé á viðskiptalegum og þjóðhagslegum forsendum að ráðast í uppbyggingu fleiri álvera á Íslandi. Auk þess eru allar líkur á að lánsfé til byggingar álvers, virkjanaframkvæmda og línulagna sé dýrt og í raun afar takmarkað. Orkuflutningur til álversins er einnig ótryggur í ljósi þess að sveitarstjórn Ölfuss hefur eindregið lagst gegn því að leggja raflínurnar í gegnum sveitarfélagið.

Í nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar er bent á erfiða fjárhagsstöðu móðurfélags Norðuráls sem ég hef kynnt mér nokkuð betur eftir að nefndarálitið var lagt fram. Álverð hefur á einu ári lækkað um helming, úr u.þ.b. 3.000 dollurum í 1.500 dollara á einu ári og nú er það svipað og það var á árinu 2003. Century Aluminum sem er móðurfélag Norðuráls á Grundartanga og hyggst reisa álverið í Helguvík hefur þegar lokað einu álveri sínu í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Samkvæmt tilkynningu frá höfuðstöðvunum var ástæða lokunar lágt heimsmarkaðsverð á áli. Við lokun álversins er talið að tæplega 680 manns muni missa vinnuna.

Þá sýna ársreikningar fyrirtækisins frá árinu 2008 gríðarlegt tap, samtals um 900 milljónir bandaríkjadollara. Það var í ljósi þess sem Logan Kruger, stjórnarformaður Century Aluminum, sagði 20. febrúar sl., daginn eftir að tilkynnt var um 700 milljóna dollara tap á síðasta ársfjórðungi 2008, að áform um uppbyggingu í Helguvík væru í endurskoðun.

Það er vert að taka fram að útlitið hefur ekki batnað síðan þetta gerðist og hlutabréf í Century Aluminum lækkuðu um 20% 30. mars sl. og aftur næsta dag um 21%, þann 31. mars. Þann 7. apríl sl. lækkaði Moody's lánshæfismat Century Aluminum vegna neikvæðra framtíðarhorfa í rekstri fyrirtækisins. Lánshæfismatið var lækkað úr B2 í CAA3. Og við Íslendingar munum hvað gerðist þegar lánshæfismat bankanna var lækkað úr A í B. Við erum að tala hér um lækkun úr B í C sem er gríðarlega mikil lækkun og þýðir í rauninni að það eru talsverðar líkur á því að fyrirtækið geti ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Það er ekkert öðruvísi.

Áhyggjurnar sem Moody's segist hafa af eiginfjárstöðu fyrirtækisins eru eðlilega raktar til niðursveiflunnar sem er á álmörkuðunum. Matsfyrirtækið segir að þrátt fyrir að Century hafi tekið stór hagræðingarskref í starfsemi fyrirtækisins í Bandaríkjunum sé hún ólíkleg til að skila hagnaði næstu missirin. Moody's segir enn fremur að eftir að Century lokaði álveri sínu í Vestur-Virginíu og dró úr framleiðslu í öðru í Kentucky sé erfitt fyrir það að draga frekar úr framleiðslu sinni í Bandaríkjunum vegna samningsskuldbindinga. Century er skuldbundið til að halda áfram að framleiða álið jafnvel þó að þeir tapi á því. Einnig bendir þetta matsfyrirtæki á að þrátt fyrir að álver Century á Grundartanga sé mjög hagkvæmt sé ólíklegt að fjármagn flæði þaðan og dugi til þess að viðhalda núverandi starfsemi samstæðunnar á sjálfbæran hátt.

Þá er þess að geta að nýlega var vakin í Bandaríkjunum hópmálssókn gegn Century Aluminum af hálfu fjárfesta sem keypt höfðu hlutabréf í fyrirtækinu á síðasta ári og fram til 1. mars sl. Þeir telja að hlutabréfaverð félagsins hafi ekki verið rétt skráð á þeim tíma.

Hlutabréf í Century Aluminum hafa hríðfallið eins og ég nefndi áðan. Þau voru í gær 3,76 dollarar en voru fyrir ári milli 70 og 80 dollarar. Í gær höfðu þau lækkað um 2%.

Frú forseti. Ég hlýt að vekja athygli þingheims á þessari stöðu vegna þess að samningurinn við íslensk stjórnvöld, ívilnandi samningur upp á 16,2 milljónir dollara, er væntanlega metinn sem verðmæt eign hins erlenda félags og getur þess vegna eftir atvikum runnið til kröfuhafa eða gengið kaupum og sölum eins og aðrar eignir.

Frú forseti. Lokaorð mín eru þau að sá samningur sem hér liggur fyrir brýtur gegn markmiðum um sjálfbæra þróun. Hann hamlar náttúruvernd og hann hefur ekki í heiðri græna og sjálfbæra atvinnustefnu. Auk þess bendi ég á að sérstakar ívilnanir geta komið harkalega niður á uppbyggingu annarra atvinnugreina en slíkt hefur ekki verið tekið með við gerð samningsins.

Ég hvet þingheim til að skoða þetta mál út frá öðru sjónarhorni en því sem hér var helst uppi 2007 og fyrir þann tíma, að það væri bara fínt að fara í meiri orkuframleiðslu og framleiða meira ál. Hlutirnir hafa breyst. Við þurfum að nýta orkuna okkar til vistvænnar starfsemi, til fjölbreyttari iðnaðarstarfsemi. Áliðnaðurinn er ekki sá bjargvættur sem menn telja. Það var dapurlegt að hlusta á oddvita Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í gær þegar einu atvinnutækifærin sem hann gat talið upp voru störf í álverum í Helguvík og á Bakka. Það kom frá flokknum sem ætlar að skapa 20.000 störf. Þau verður ekki að finna í þessum álverum.

Ég tel þetta mjög slæman samning eins og væntanlega hefur orðið ljóst af ræðu minni og nefndarálitinu sem er allmiklu ítarlegra en ég hef haft tök á að fara yfir hér. Ég hvet þingheim til að fresta afgreiðslu þessa samnings og skoða málið betur því að margt er að í samningnum.



[17:17]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa sett mál sitt fram með mjög sköruglegum og málefnalegum hætti. Hv. þingmaður veit að ég er henni að ýmsu leyti ósammála um þetta mál en geri mér hins vegar grein fyrir því að mörg þeirra raka sem hún setti fram eiga stuðning vísan. Það er ekkert launungarmál að ég hef stutt þetta mál, ekki síst með tilliti til atvinnuástands en ég vil hins vegar gera lýðum það algjörlega ljóst að ég hef aldrei sagt að þessi samningur eða þetta verkefni verði til þess að útrýma atvinnuleysi á Suðurnesjum en ég hef horft til atvinnuleysisstigsins.

Það er tvennt sem mig langar til þess að nefna sérstaklega: Þessi samningur verður ekki staðfestur fyrr en úrskurður er kominn frá ESA, svo að það liggi alveg ljóst fyrir. Í öðru lagi talaði hv. þingmaður töluvert um ágenga nýtingu jarðhita bæði á þessu svæði og á Hengilssvæðinu. Ég vil þess vegna að það komi algjörlega skýrt fram að ég hef falið starfshópi um rammaáætlun að setja starfsreglur þar um. Einn af þeim sem leiðir það starf er t.d. sá maður sem flokkur minn og flokkur hv. þingmanns hafa veitt þann trúnað að sitja í stjórn Landsvirkjunar. Það þýðir væntanlega að flokkur hv. þingmanns hefur fulla trú á þeim einstaklingi, sem er okkar fremsti sérfræðingur á sviði jarðhita eða meðal þeirra fremstu, þó að ég gæti talið upp nokkra góða líka þar til viðbótar.

Ég hef jafnframt lýst því yfir hér í þessum stóli tveimur sinnum að ég hyggist, verði ég áfram iðnaðarráðherra, að þær reglur verði staðfestar: Ég ætla mér ekki að heimila ágenga nýtingu jarðhita. Ég hef haldið sérstakt erindi um það tveimur sinnum og lýst nákvæmlega skoðunum mínum á því og ég fylgi þeirri reglu sem Gro Harlem Brundtland setti fyrst fram í frægri skýrslu að við eigum að skila auðlindunum í sama horfi til komandi kynslóða og við tókum við þeim. Þetta er grundvallaratriði af minni hálfu. Ég segi ekki að hv. þingmaður hafi sakað mig um það en (Forseti hringir.) ég vil að það liggi alveg ljóst fyrir hvaða afstöðu ég hef til nýtingar jarðhita.



[17:19]
Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst af þessum orðum ráðherra að samningurinn verður ekki staðfestur fyrr en úrskurður kemur frá ESA. Það kann að vera eftir einhverjar vikur eða svo. Þegar Kárahnjúkasamningurinn var samþykktur hér á Alþingi leið um það bil hálfur mánuður þangað til staðfesting kom frá ESA.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn til þess að bíða eftir næsta árshlutauppgjöri frá Century Aluminum — það er væntanlegt jafnvel núna fyrir kosningar — og skoða hvað verður um þennan samning ef horfur fyrirtækisins halda áfram að versna.

Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um að hann muni sjá til þess í embætti sínu að ekki verði fleyttur rjóminn ofan af orkuauðlindum okkar í jarðhitanum. En ég hlýt að spyrja: Hvaðan á þá orkan að koma? Hvaðan á þá orkan til Helguvíkur að koma, til 360 þús. tonna álversins í Helguvík? Og hvaðan á orkan að koma í alla vistvænu framleiðsluna og starfsemina eins og í gagnaverum og öðru ef ekki á að fara þá leið sem orkufyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur ætla sér að fara?



[17:21]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er a.m.k. í gadda slegið að orkan á ekki að koma úr neðri Þjórsá, það kemur alveg skýrt fram í þeim samningum og þessu frumvarpi, það kemur sérstaklega fram í samningnum.

Hv. þingmaður ræddi um fjárhagsstöðu Norðuráls. Það er rétt að það komi a.m.k. fram, hvernig sem þróunin er núna með tilliti til þess að það eru miklar dýfur og þrengingar á alþjóðlegum mörkuðum, að Norðurál var skuldlaust við lánastofnanir árið 2008 og það var með sterka sjóðsstöðu. Fyrirtækið greiddi upp skuldir sínar á árinu 2007 með rekstrarafgangi, að vísu líka með framlagi frá móðurfélaginu Century Aluminum. Það er einmitt hinn lági skattur sem við deilum stundum um sem gerir það að verkum að það er hagkvæmt að láta hagnaðinn koma fram hér á landi í samstarfi af þessu tagi.

Hv. þingmaður reifar þann möguleika að fyrirtækið verði fjárvana og framselji réttindin. Þá verð ég að segja eftirfarandi: Í samningnum kemur alveg skýrt fram að á byggingartímanum er óheimilt að framselja réttindi og skyldur til annarra aðila nema allir aðilar samningsins samþykki, þar með talið ríkið. Hv. þingmaður bendir réttilega á að sú staða kynni þá að koma upp að kröfuhafar mundu taka verkefnið yfir til þess að tryggja efndir gagnvart lánasamningum. Ef sú staða kemur upp er það rétt hjá hv. þingmanni að þeim yrði að heimilt yrði að framselja þessi réttindi en um það framsal yrði að gera sérstakan samning sem ríkið verður að eiga aðild að. Ég tel nú að það sé ákaflega ólíklegt að slíkt framsal yrði gert í óþökk ríkisins. Hv. þingmaður, sem hefur lýst yfir nokkurri pólitískri ást á mér og mínum flokki, verður hugsanlega í næstu ríkisstjórn og það mundi þá upp á hana standa, ef þessi staða kæmi upp, að taka slaginn við bola þann sem hér stendur um þau mál. (Gripið fram í.) Ég hef yfirleitt — þó ekki í þessari umræðu — í þeim viðureignum sem ég hef átt við hv. þingmann í gegnum ævina — þær eru margar og flestar jákvæðar — farið halloka.



[17:23]
Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það mun ekki standa á mér að taka þann slag með hæstv. ráðherra eftir kosningar að verja hagsmuni Íslendinga gagnvart erlendum auðhringum, það er alveg á tæru.

Staðan er sú að það er ekki aðeins Century Aluminum sem tapaði gríðarlega á síðasta ári, það eru þrengingar í áliðnaðinum um allt í heiminum. Við erum hér með risastór félög. Alcoa tapaði líka gríðarlega á síðasta ári, 500 millj. dollara, þó að það sé ekki jafnmikið og Century Aluminum sem töpuðu 900 milljónum. Það er ekkert launungarmál að innan skamms tíma geta öll álverin á Íslandi verið komin á eina hendi og ég er hér að tala um Rio Tinto.

Við skulum aðeins hugleiða hvað við erum þá búin að setja mikið af okkar eggjum í sömu körfu, í nákvæmlega sömu körfu. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég geld mikinn varhuga við þessu. En ég er til í að taka slaginn með hæstv. ráðherra til að verja hagsmuni Íslands gegn erlendum auðhringum hvenær sem er.



[17:24]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er núna að nálgast 15%. Með því að byggja álver í Helguvík er hægt að skapa þrjú til fjögur þúsund störf. Auðvitað getum við haft skoðanir á því hvort það er sanngjarnt eða réttlátt eða gáfulegt að byggja álver en fram hjá þeim staðreyndum er ekki hægt að horfa að okkur vantar virkilega störf. Í nútímaálverum eru 30% af störfum kvennastörf þannig að það hjálpar til í því atvinnuleysi sem við búum við á Suðurnesjum og skiptir verulega miklu máli að þetta gangi eftir.

Skatttekjur af fyrirtækinu verða miklar í gegnum tíðina þegar það er komið í gang og byrjaður alvörurekstur í fyrirtækinu. Einnig mun tekjuskattur renna í ríkissjóð af launum starfsfólks, útsvarstekjur renna í sveitarsjóð sem og hafnargjöld. Ég neita því ekki að auðvitað væri gaman og gott ef hægt væri að búa til áliðngarða við hliðina á þessum álverum sem ynnu úr álinu ýmiss konar vörur. Þeir mundu skapa störf við hliðina á álverunum. En ekki er bent á neinar lausnir sem komast í hálfkvist við það sem álver gera. Þess vegna spyr ég hv. þm. Álfheiði Ingadóttur: Hvað leggið þið til (Forseti hringir.) í atvinnulegum skilningi? Komið þið einu sinni með það.



[17:29]
Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Já, herra forseti, þrjú til fjögur þúsund störf í álveri í Helguvík, 1.873 á atvinnuleysiskrá í gær á Suðurnesjum. Ég vil spyrja hv. þm. Grétar Mar Jónsson á móti: Þessi tala, þrjú til fjögur þúsund störf, er hún miðuð við 250 þúsund tonna álver, eins og umhverfismatið gerir ráð fyrir eða er hún miðuð við 360 þús. tonna álver eins og samningurinn gerir ráð fyrir? Eða er þetta kannski miðað við 150 þús. tonna álver eins og loftslagsheimildirnar gera ráð fyrir?

Það er nefnilega ekki á vísan að róa í þessu, hv. þingmaður, og þær tölur sem fleygt hefur verið um atvinnusköpun í þessu verkefni eru bara ekki réttar, þær byggja ekki á raunhæfum forsendum. Það er allt á floti með þetta verkefni. Ég hef bent á það hér að leyfin eru ekki til staðar. Ég hef líka bent á að orkuöflunin er öll í uppnámi. Það er ekki til orka fyrir þessa starfsemi sem lofar þrjú til fjögur þúsund störfum.

Ég hef líka bent á að orkuflutningurinn er í uppnámi. Sveitarstjórnin í Ölfusi vill ekki hleypa línunum í gegn, segir að það verði banabiti í iðnaðarframleiðslu í sveitarfélagi sínu. Ég hef líka bent á að staðan á álmörkuðum er þannig að það er afskaplega lítil von um að þar batni eitthvað á næstu missirum. Verið er að loka álverum alls staðar í heiminum. Ég hef líka bent á að skuldastaða móðurfélagsins, Century Aluminum, er ekki beysin þegar Moody's breytir lánshæfismatinu úr B2 niður í CAA3.

Það er því margt að athuga áður en menn fullyrða að þarna séu þrjú til fjögur þúsund störf. Ég minni á að störfin í álverum eru einhver þau dýrustu sem hægt er að skapa. Það er hægt að skapa miklu fleiri störf fyrir sömu peninga í öðrum iðngreinum.



[17:29]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er sami söngurinn sem við heyrum frá Vinstri grænum þegar verið er að tala um stóriðju eða að virkja yfir höfuð og breytist ekki neitt í því, við fáum engin ný rök í málinu. Talið er að á Suðurnesjasvæðinu sé verið að nýta um 200 megavött og að þau geti farið upp í tvö þúsund megavött ef djúpborunarverkefnin, tilraunaverkefnin sem eru í gangi, ganga upp.

Auðvitað er það áhyggjuefni ef Hitaveita Suðurnesja, Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun og Landsnet fá ekki fjármagn til að fara í þær framkvæmdir. Ég lít þannig á að það sé verkefni stjórnvalda að tryggja að þessi fyrirtæki nái því fjármagni sem til þarf til þess að geta skapað þessi störf.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talar hér um að það séu bara 18 hundruð og eitthvað atvinnulausir á Suðurnesjum, (ÁI: Nú mótmæli ég …) Þá skulum við segja að ef hægt væri að koma þeim í vinnu í álveri væri miklu náð fram og þurrkað út það atvinnuleysi sem er, þó að það væru bara milli 1.800 og 1.900 manns sem fengju vinnu við það að byggja álver. En það er ljóst að í álveri er áætlað að tæplega 1.000 manns hafi þar fasta vinnu og svo eru afleidd störf hér og þar í kringum það, ýmiss konar þjónustustörf. Við þurfum á þessum störfum að halda, það er ekki spurning um það og þess vegna styð ég þetta frumvarp. Það veldur mér vonbrigðum þegar fólk eins og það sem er í þessari vinstri grænu-grúppu, svokölluðu stjórnmálaafli, skuli ekki taka sér tak og reyna að koma með lausnir á atvinnumálum fólks.



[17:31]
Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að stæla hér við hv. þm. Grétar Mar Jónsson. Sami söngurinn, segir hann, og ég segi: Sömuleiðis, takk. (Gripið fram í.) Við vinstri græn höfum, sérstaklega núna á undanförnum dögum, lagt fram tillögur okkar í atvinnumálum og er alveg ljóst að þar tölum við um ódýrari uppbyggingu, meiri möguleika á því að búa til störf með fjölþættari iðnaði en hér er um að ræða. Ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Það er hins vegar alveg ljóst að Frjálslyndi flokkurinn hallar sér í að verða fjórði stóriðjuflokkurinn á Alþingi og mér finnst það miður. Mér finnst það miður því að það samrýmist ekki hans afstöðu í öðrum málum sem hefur verið miklu nær fólkinu í landinu en auðhringjunum. Og við Grétar Mar Jónsson vil ég segja að lokum að djúpborunarverkefni sem á að skila Suðurnesjum 2000 megavöttum er í það minnsta 40 ár inn í tímann.



[17:33]
Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta mál skuli vera tekið til umræðu. Það er búið að vera nokkuð lengi á dagskránni en hefði verið hægt fyrir nokkrum vikum síðan að taka það fyrir og afgreiða það frá þinginu ef hæstv. forseta hefði sýnst svo. Það hefur aldrei staðið til af hálfu okkar sjálfstæðismanna að tefja framgang þessa máls á einn eða annan hátt frekar en við höfum tafið þau mál önnur sem til þjóðþrifa horfa og verið hafa á dagskrá og afgreidd.

Það er dálítið sérstakt að hlusta á umræður eins og hér hafa farið fram, stælur um hversu mörg störfin verða sem álverið skapar á uppbyggingartímabilinu, þegar álverið er tekið til starfa og þar fram eftir götunum. Hvort þarna verði svona stórt álver eða heldur stærra álver eða enn þá stærra álver. Sannleikurinn er einfaldlega sá, og er miður að sú staða sé uppi hjá okkur, að hér er um verulegt atvinnuleysi að ræða. Það er ekki um marga stóra fjárfestingarkosti fyrir okkur að velja. Það er ekki mikið um að menn vilji koma hingað og festa hér fé og skapa þannig störf með eigin fjármagni.

Þetta verkefni er langsamlega stærsta verkefnið sem við sjáum fram á að geti farið af stað í fyrirsjáanlegri framtíð og haft einhver veruleg mælanleg áhrif á það atvinnuleysi sem hér er til staðar, sérstaklega á því svæði landsins þar sem atvinnuleysi er hæst í dag.

Reynt er að kasta rýrð á þann samning sem lagður er fyrir í frumvarpsformi. Þessi samningur er að öllu leyti sambærilegur hvað efnisatriði varðar við aðra samninga sem gerðir hafa verið. Ef eitthvað er er um heldur minni skattaívilnanir að ræða en verið hefur í öðrum sambærilegum samningum. Hér hefur verið reynt að efast um að hann stæðist samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en út frá því sem ég nefndi, út frá öðrum samningum sem samþykktir hafa verið af ESA, er ekki nokkur einasta ástæða til þess að efast um að þessi samningur muni ekki verða samþykktur af Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins.

Frekar en að vera tortrygginn gagnvart því sem hér er lagt fram og staglast um hvort þetta séu mörg eða fá störf ættum við að fagna því að við skulum yfirleitt vera með mál eins og þetta til umræðu í þinginu. Mál sem leiðir til fjárfestingar, skapar störf í uppbyggingu, skapar störf til framtíðar og skapar okkur útflutningstekjur í framtíðinni til þess að bæta stöðu okkar í viðskiptum við útlönd. Það er því full ástæða til þess að fagna þessu máli og ég treysti því að við klárum afgreiðslu þess áður en þingstörfum lýkur í dag og það leiði til þess að þær framkvæmdir sem um ræðir fari af stað bæði fljótt og vel og skili Suðurnesjunum og Íslandi öllu miklum og ómældum arði í framtíðinni.



[17:37]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti tekið undir hvert einasta orð sem sá sem talaði á undan mér, hv. þm. Árni Mathiesen, sagði. Ég fagna því mjög að þetta mál sé loksins komið á dagskrá og til umræðu á hinu háa Alþingi og allt tal, eins og í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið að tefja þetta mál, er náttúrlega þvílík fjarstæða að það tekur engu tali. Það er minnihlutaríkisstjórnin sem fer með dagskrárvaldið hér í þinginu eins og ítrekað hefur komið fram núna á síðustu dögum. Hún hefði haft það í hendi sér hvenær sem er að setja þetta mál á dagskrá og ekki tefja fyrir því og senda óvissuskilaboð út á markaði sem eru mjög alvarleg skilaboð á þessum tíma.

Þessi framkvæmd er mjög mikilvæg í margvíslegu tilliti. Hún er mikilvæg út frá hagsmunum fyrirtækisins vegna þess að ákveðið er að byggja upp fyrirtæki á hagkvæman hátt með hagkvæma og hreina orku.

Þessi framkvæmd er ekki síður mikilvæg út frá hagsmunum Suðurnesja því að eins og komið hefur fram og verið tiltekið skapast fleiri þúsund störf, hvort sem það er við uppbyggingu eða til framtíðar. Ég tek undir með hv. þm. Grétari Mar Jónssyni, það eru störf sem skipta máli og eru mjög mikilvæg, einkum og sér í lagi á þessum tíma þegar fjöldi manns er atvinnulaus á Suðurnesjum.

En þetta er ekki síður mikilvægt út frá hagsmunum Íslands og Íslendinga allra og þeirri atvinnuuppbyggingu sem við þurfum að fara í á næstu missirum til þess að koma okkur út úr þessari blessuðu kreppu.

Verið er að senda skilaboð út um allan heim. Norðurál er nefnilega eitt fárra íslenskra fyrirtækja sem nú um stundir hefur tækifæri og möguleika til þess að fá fjármögnun úti í hinum stóra heimi. Og við þær aðstæður sem við glímum við nú eru fjárfestingarsamningar af þessu tagi nauðsynleg forsenda til þess að það gangi eftir. Við vitum að lánastofnanir erlendis fylgjast mjög grannt með framvindu mála hér og allt það hik sem verður á svona framkvæmd og sem orðið hefur, sendir ekki góð skilaboð til þeirra sem ætla sér að fjármagna svona verkefni.

Það er skylda okkar að tryggja að umhverfið verði stöðugt og gott og að við getum boðið fjárfestum, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir, upp á bestu mögulegu aðstæður eins og hægt er. Það er allt mjög mikilvægt, ekki síst í núverandi árferði þegar mikið liggur við.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Það kemur allt fram í áliti nefndarinnar og meirihlutaálitum hv. iðnaðarnefndar og efnahags- og skattanefndar þar sem lykilatriði verkefnisins eru tiltekin.

Eftir þá umræðu sem spannst hér áðan get ég ekki annað en nefnt það sem allt snýst í rauninni um. Þetta snýst allt saman um pólitík og mismunandi hugmyndafræði. Það kom svo glögglega í ljós þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ræddi áðan um hver hugmyndafræði þeirra og nálgun gagnvart atvinnulífinu er og hugsunin gagnvart skattlagningu á atvinnulífið.

Ég held að það hafi kristallast hér að í augum fylgismanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er atvinnulífið fyrst og fremst hressilegur skattstofn. Hann er ekkert annað. Það kom svo bersýnilega í ljós þegar þingmaðurinn talaði áðan að hún fann allt því til foráttu að þessi samningur skyldi gerður. Hér væri verið að grafa undan einhverjum möguleikum á því að hafa eins háa skattprósentu og við gætum hugsanlega einhvern tímann hugsað okkur að setja á þetta ágæta fyrirtæki. Hún notaði orðalagið „að læsa félagið inni“ í 15% skatti.

Ég var í gær stödd á fundi þar sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs talaði um að það væri verið að „bólusetja“ fyrirtækið fyrir skattahækkunum. Ef það er ekki einhver undarlegur hugsanagangur þá — ég á bara ekki orð yfir það. Þarna koma pólitísk hugmyndafræði, pólitískur ágreiningur og pólitísk sýn á hlutina glögglega fram.

Ég lít svo á að þarna séum við að tryggja sterkan, stöðugan og fastan atvinnuveitanda á svæði sem svo sannarlega þarf á því að halda. En hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sér bara fyrirtæki sem ekki er hægt að hækka skatta á. Og ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra, sem ég held að deili skoðunum hv. þingmanns, er genginn hér í salinn. (Gripið fram í.) Hvað sagði ráðherrann? (Gripið fram í.) Ég sé atvinnutækifæri og ég sé verðmætasköpun á svæði sem þarf svo sannarlega á því að halda. En hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sér fyrirtæki sem ekki er hægt að hækka skatta á. Ég sé tekjur inn í samfélag sem þarf svo sannarlega á því að halda en hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sér bara ofsjónum yfir því að ekki sé mögulega hægt að hækka skatta einhvern tímann í framtíðinni á þessu fyrirtæki.

Ég segi bara fyrir mig að ef það er spurningin um að fá minni part af stærri köku en stóran part af minni köku leyfi ég mér að fullyrða að þessi fjárfestingarsamningur tryggi til framtíðar að það verði einhver skattstofn á þessu svæði sem mun gefa tekjur til framtíðar.

Það kom líka berlega í ljós í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur og í andsvörum hennar og viðræðum við hæstv. iðnaðarráðherra að þessi minnihlutaríkisstjórn, sem er ætlað vera hér í örfáa daga í viðbót, er nokkurs konar með eða á móti ríkisstjórn. Hún getur í krafti lýðræðisins að eigin áliti verið með stefnu bæði með og á móti í sama málinu. Hæstv. iðnaðarráðherra og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar sem eru með þessu máli — sem eru nú reyndar ekki allir þingmenn Samfylkingarinnar, geri ég fastlega ráð fyrir, en þeir sem ég gruna um að vera mótfallnir þessu máli eru nú ekki hér í salnum — mæla þessu mikið bót og eru búnir að tala hér hátt og snjallt fyrir þessu máli og ég fagna því. Ég fagna því að þeir eru þeirrar skoðunar.

(Gripið fram í.) Hver fór með málið í gegn? Það er gott að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir spyr að því, ég skal lesa upp nöfn þeirra sem eru á nefndarálitinu. Það eru nefnilega Katrín Júlíusdóttir, formaður iðnaðarnefndar, Einar Már Sigurðarson, líka samfylkingarmaður, Björgvin G. Sigurðsson, líka samfylkingarmaður, þau eru sem sagt þrjú. (Gripið fram í.) Síðan eru fjórir aðrir þingmenn og ég get ekki betur séð en að það séu þrír sjálfstæðismenn og einn framsóknarmaður þannig að þetta er sannkallað samvinnuverkefni (Gripið fram í.) Samfylkingar með okkur sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum.

En með-og-á-móti-ríkisstjórnin getur verið bæði með og á móti sama málinu, segir hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Hún hélt því fram að það væri vegna þess að þetta væri arfur frá gamalli tíð, þau gerðu þetta svona og gætu ekki stoppað málið af því að þetta væri minnihlutastjórn.

Ég leyfi mér að efast um það og ég leyfi mér að halda því fram að verði þessir tveir flokkar — og guð forði því — í samvinnu í ríkisstjórn eftir kosningar held ég að þetta sé nefnilega einmitt línan. Þessir flokkar munu ekki ná saman um eitt eða neitt og munu vera með sitt hvort minnihlutaálitið í hvaða máli sem við getum hugsað okkur að verði lögð fram þegar þeir eru ekki sammála. Þá munum við reyna að treysta á t.d. eins og í svona málum að Samfylkingin, sem er tilbúin að leggja í orkufrekan iðnað, mun treysta á að fá okkur sjálfstæðismenn og jafnvel framsóknarmenn með í málinu og skilja vinstri græna eftir með hjáróma minnihlutaálit eins og verið er að gera núna.

Þeir kjósendur Vinstri grænna sem halda að með því að kjósa geti þeir komið í veg fyrir og stoppað öll mál sem Vinstri grænir eru einir á móti og hafa sérstakar skoðanir á — ég leyfi mér að fullyrða að þeir muni bara sitja eftir og hafa minnihlutaskoðanir eins og alltaf. Samfylkingin muni þá treysta á vel hugsandi og þenkjandi fólk til að hjálpa sér með góð mál í gegnum þingið þegar þingmenn, eins og sá sem hér labbar fram hjá, geta ekki komið sér saman um þessi mál.

En virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir að forseti hefur komið þessu ágæta máli á dagskrá og ég hlakka mjög til að sjá þessa framkvæmd verða að veruleika sem er góð framkvæmd og mun styrkja og styðja við atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Við hv. þm. Katrín Júlíusdóttir getum notið þess að vera sammála í þessum málum, kæri þingmaður.



[17:48]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni, ég fagna því mjög að þessi fjárfestingarsamningur er á dagskrá og verður afgreiddur frá þinginu. Ég held að hann skipti töluverðu máli og renni stoðum undir það að verkefnið gangi eftir, enda hefur verið unnið að honum um margra mánaða skeið. Hann var kominn á teikniborðið og tilbúinn í tíð fyrri ríkisstjórnar og iðnaðarráðherra fór með hann inn í ríkisstjórn og Alþingi í febrúar. Formaður iðnaðarnefndar leiddi hann síðan í gegnum sína nefnd. Ég held að við eigum bara að fagna því mjög að þetta verkefni verður vonandi frekar að veruleika eftir að þessi samningur er kominn fram.

Það sem stendur okkur Íslendingum núna næst er að auka framleiðslu í landinu, verðmætasköpun og fjölga verðmætum og góðum störfum. Það skiptir öllu máli og þess vegna eigum við að fagna því að þetta verkefni er komið fram um leið og við eigum að bera virðingu fyrir skoðunum þeirra sem eru því andstæð og vilja nýta orkuna í annað. Það gengur þvert á flokka hvernig fólk vill standa að uppbyggingu í atvinnulífi, hvort menn eru með eða á móti einstökum verksmiðjum eða hvort menn vilja byggja upp öðruvísi iðnað, gagnaver, álþynnuverksmiðjur eða annað. Niðurstaða er samt fengin í þetta mál. Sveitarfélögin suður frá og stjórnmálamenn á Alþingi í miklum meiri hluta eru því fylgjandi að byggt verði álver í Helguvík og það er mikið fagnaðarefni.

Þarna gætu orðið þúsundir starfa strax í haust við uppbygginguna. Það er tæpt ár síðan við fyrrverandi fjármálaráðherra tókum skóflustungu að þessu verkefni. Síðan hefur töluvert mikið verið byggt þarna og milljarðar settir í verkefnið. Vonandi fjölgar þeim mjög. Þess vegna eigum við að fagna því að þetta mikil og breið pólitísk samstaða hafi náðst um málið, bæði á Alþingi og heima í héraði. Á Suðurnesjunum er nokkuð órofa samstaða um þetta verkefni. Þar verður maður ekki var við nokkra einustu merkjanlegu andstöðu við málið, heldur mikla eftirvæntingu eftir því að þetta mikilvæga atvinnuverkefni gangi fram og því vildi ég spyrja hv. þingmann hvort við ættum ekki að fagna því að þetta gangi fram (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að gera lítið úr skoðunum þeirra fáu sem eru á móti.



[17:50]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get fagnað með hv. þingmanni og tek undir að það er mjög gott að þetta sé komið í framkvæmd.

Ég var ekki að gera lítið úr einum eða neinum skoðunum í ræðu minni áðan. Ég ber virðingu fyrir skoðunum annarra og ég ber virðingu fyrir skoðunum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Það sem ég fetti fingur út í hér var stefnuleysi og ósamstæð stefna í ríkisstjórn. Ég var að gagnrýna að ríkisstjórn sem er skipuð tveimur flokkum sem ætla sér að fara hér áfram í ríkisstjórnarsamstarf fái þeir til þess umboð eru algjörlega hvor á sínum endanum þegar kemur að þessu verkefni. Ég set spurningarmerki við það sem kjósendur standa frammi fyrir núna þegar þeir ganga að kjörborðinu. Hver verður stefna með-og-á-móti-ríkisstjórnarinnar? Hvort verður stefna þeirrar ríkisstjórnar sem yrði þá mynduð fylgjandi framkvæmdum sem þessum og tilbúin til að beita pólitískum vilja og pólitískri stefnu í þágu þess að byggja upp svona verkefni eða á móti þess háttar samningum og þess háttar verkefnum? Það var það sem ég var að fetta fingur út í.

Ég ber mikla virðingu fyrir andstæðum skoðunum en mér þykir verra þegar þær er að finna innan sömu ríkisstjórnar um svona grundvallaratriði, sérstaklega þegar það er innan ríkisstjórnar sem verið er að mynda á teikniborðunum úti um allt miðað við það sem maður heyrir. Þessir tveir flokkar eru búnir að gefa það út að þeir vilji ekki vinna með neinum öðrum. Á hverju eiga kjósendur von? Eiga þeir von á að með-og-á-móti-ríkisstjórnin verði með orkufrekum iðnaði eða verður með-og-á-móti-ríkisstjórnin á móti orkufrekum iðnaði?



[17:52]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Helguvík verður ekki byggð nema einu sinni. Nú erum við að ná fram þessum áfanga hér sem verður vonandi til þess að álverið rísi og fari á fullt, þær framkvæmdir sem nú þegar eru hafnar af miklum krafti eins og stóð á forsíðu Víkurfrétta í vikunni undir fyrirsögninni: Það verður ekkert hik á Helguvík. Ég tel allar líkur á því að þetta verkefni gangi fram, Norðuráli gangi áfram vel að fjármagna verkefnið og það verði til þess að störfum fjölgi, tekjustofnar sveitarfélaga og íbúa á Suðurnesjum og suðvesturhorninu eflist og batni verulega.

Ég held að hvaða ríkisstjórn sem tekur við eftir kosningar verði með því að auðlindir Íslands, orkan í iðrum jarðar og fallvötnin, verði nýttar. En auðvitað hafa flokkar og fólk þvert á flokka mismunandi skoðanir á því hvernig eigi að nýta orkuna, hvað eigi að ganga langt hverju sinni og með hvaða hætti. Það er ekkert annað en gott, heilbrigt og jákvætt að flokkarnir spegli litróf í því.

Mestu skiptir að ná samstöðu um svona grundvallaratriði, svona stórbrotin verkefni í atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun í samfélaginu eins og álverið í Helguvík. Ég hef stutt það um langt skeið og er ánægður með að þessi samningur skuli nú ganga fyrir þingið. Að honum hafa margir unnið og eiga þakkir skildar fyrir það. Það er góð samstaða um málið í þinginu og því er engin ástæða til að gera lítið úr því að einhverjir stjórnmálamenn og flokkar hafi aðrar áherslur í þessu en við sem styðjum málið. Það er bara svoleiðis sem það er.

Auðvitað starfa gjörólíkir flokkar saman til lengri og skemmri tíma. Flokkarnir sem voru í síðustu ríkisstjórn eru gjörólíkir, hægri sinnaður íhaldsflokkur annars vegar og jafnaðarmannaflokkur hins vegar, en menn reyna að ná saman um mikilvæg verkefni. Það eiga menn að bera gæfu til að gera í þinginu líka, þvert á flokka og þvert á ríkisstjórnarsamstarf, að mikilvægustu málin gangi fram hverju sinni sé um það góð samstaða eins og þetta verkefni hér, að álver rísi í Helguvík.



[17:55]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nefnilega lykilatriði að um þetta verkefni er mikil samstaða í þinginu, um það er ekki deilt. Það er nákvæmlega það sem kemur fram þegar við horfum til þess hverjir skrifa undir meirihlutaálitið.

Það er heldur ekki um það deilt að ósamstaða er um þetta mál í ríkisstjórninni og hv. þingmaður vék sér fimlega undan því að nefna það í ræðu sinni. Hann talaði bara um að við þyrftum að bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Ég ítreka að ég ber alla virðingu fyrir skoðunum annarra en mér þykir verra að þær séu margar innan sömu ríkisstjórnar þegar um svo merkilegt og mikilvægt verkefni er að ræða.

Hv. þingmaður nefndi einmitt fyrrverandi ríkisstjórn, fráfarandi ríkisstjórn, sem við vorum bæði aðilar að, ég sem þingmaður og þingmaðurinn sem bankamálaráðherra. Það er alveg rétt að þeir flokkar eru mjög ólíkir og um mörg mál vorum við ekki sammála — enda hvernig fór sú ríkisstjórn? Hún fór ekki vel, blessunin, og fór frá völdum einmitt vegna þess að ekki var næg samstaða um grundvallarmál í þeirri ríkisstjórn. Þess vegna segi ég að þegar gerðir eru samningar, ekki síst þegar gerðir eru stjórnarsáttmálar, verða svona hlutir að liggja fyrir. Maður getur borið alla virðingu fyrir andstæðum skoðunum, en þá verður líka að liggja fyrir að þegar menn eru búnir að gera samkomulag um ákveðin atriði í ríkisstjórnarsamstarfi haldi þeir hlutir. Það er nákvæmlega það sem ég vil leyfa mér að halda fram að hafi klikkað í seinustu ríkisstjórn, það var sífellt verið að tala um hluti sem var vitað að ekki væri samkomulag um. Þess vegna velti ég fyrir mér þessum tveimur flokkum í ríkisstjórn. Í framhaldi af kosningunum núna leyfi ég mér að draga í efa að um þessi mál, sem menn hafa andstæðar skoðanir á, verði (Forseti hringir.) endanleg samstaða. Þau verða dregin fram og það verður talað (Forseti hringir.) um þau þrátt fyrir alla stjórnarsáttmála. Ég leyfi mér að halda þessu fram.



[17:57]
Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér er loks komið til umræðu það mál sem við sjálfstæðismenn höfum ítrekað kallað eftir til umræðu hér undanfarna daga. Margsinnis höfum við óskað eftir því við hæstv. forseta að hann breyti dagskrá þingsins þannig að hægt væri að ræða þetta mál á undan öðrum. En nú er málið komið á dagskrá og er það vel.

Eins og flestir hljóta að sjá er um mjög mikilvægt atvinnuskapandi mál að ræða, ekki einungis fyrir Suðurnesin þar sem álverið mun rísa í sveitarfélögunum Garði og Reykjanesbæ, heldur munu þessar framkvæmdir og starfsemin, þegar hún hefst á árinu 2011, hafa jákvæð áhrif langt út fyrir Reykjanesið.

Í meginatriðum felur þetta frumvarp í sér heimild til ríkisstjórnar Íslands og iðnaðarráðherra fyrir hennar hönd að veitt verði heimild til að semja við Norðurál Helguvík ehf. og eiganda þess um álver í Helguvík í samræmi við ákvæði frumvarpsins um að Norðurál reisi og reki álver til framleiðslu á allt að 360.000 tonnum af áli á ári. Einnig felur frumvarpið í sér undanþágu Norðuráls frá ýmsum almennum reglum vegna rekstrar álversins.

Helstu undanþágurnar snúa að frávikum frá reglum um skatta og gjöld. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þessi frávik séu sambærileg þeim sem kveðið er á um í lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga og á Reyðarfirði og heldur minni ef eitthvað er.

Efnahagshrunið síðastliðið haust hafði mikil áhrif á framkvæmdirnar við álverið í Helguvík, m.a. vegna þess að íslenskir bankar ætluðu að sjá um fjármögnun framkvæmda Norðuráls. Á sama tíma hefur heimskreppan valdið lækkun á álverði og eftirspurn eftir áli hefur minnkað vegna samdráttar á flestum sviðum framleiðslu í heiminum. Hins vegar má ætla að eftirspurn eftir áli muni aukast um leið og efnahagur á Vesturlöndum fer batnandi.

Aðdragandann að byggingu álvers í Helguvík má rekja allt til ársins 2004 þegar forsvarsmenn Norðuráls komu á fund Reykjanesbæjar til að kynna sér aðstæður í Helguvík fyrir álver sem þeir vildu ráðast í að byggja. Æ síðan hefur verið unnið að því að þetta verkefni verði að veruleika. Er skemmst frá því að segja að þetta verkefni Norðuráls í Helguvík hefur allan tímann notið mikils stuðnings og velvildar íbúa á Suðurnesjum. (Iðnrh.: Og í iðnaðarráðuneytinu.) Og í iðnaðarráðuneytinu, eins og hæstv. iðnaðarráðherra skaut hér inn í. Einnig er mikill og almennur áhugi á framgangi verkefnisins hjá verkalýðsfélögum, atvinnulífinu, verktökum, verkfræðingum, arkitektum og iðnaðarmönnum, svo eitthvað sé nefnt. Ljóst er að mörg störf muni skapast jafnt við framkvæmdina sjálfa og þegar álverið tekur til starfa.

Eins og fram kemur í nefndaráliti leitaði nefndin eftir umsögnum fjölmargra aðila þar á meðal sveitarfélaga á Suðurnesjum. Álit bárust frá sveitarfélögunum Garði, Vogum og Reykjanesbæ. Í álitum þessara sveitarfélaga kemur mjög skýrt fram að þau binda miklar vonir við álversframkvæmdir og leggja ríka áherslu á mikilvægi álversframkvæmda í Helguvík fyrir atvinnulíf og íbúa á Suðurnesjum.

Einnig komu fyrir iðnaðarnefnd fulltrúar verkalýðs- og sjómannafélags Suðurnesja sem höfðu mjög sterkar skoðanir á nauðsyn þess fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum að álver rísi í Helguvík. Þeir bentu á máli sínu til stuðnings að mesta atvinnuleysi á landinu er á Suðurnesjum en samkvæmt tölum sem mér bárust í gær eru 1.879 manns á Suðurnesjum skráðir án atvinnu sem skiptast þannig að það eru 1.089 karlar og 790 konur.

Í álveri eru fjölmörg störf fyrir bæði kynin, ekkert síður konur en karla. Má ætla að álver í Helguvík komi til með að létta á atvinnuleysi kvenna einkum þar sem Norðurál er með þá stefnu að ráða konur ekki síður til starfa en karla. Fjölmörg störf eru í álveri sem henta konum jafnt sem körlum. Þegar atvinnuástandið er með þeim hætti sem nú blasir við er ekki hægt að hafna verkefni eins og þessu. Samdráttur í byggingariðnaði er mikill á Suðurnesjum eins og annars staðar á landinu og mun því verkefni eins sem þetta hafa mjög jákvæð áhrif á byggingartíma álversins.

En ég get vissulega tekið undir það með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og hæstv. iðnaðarráðherra að álverið verður ekki til þess að útrýma atvinnuleysi á Suðurnesjum enda er sífellt verið að kanna önnur atvinnutækifæri á svæðinu.

Virðulegi forseti. Allt frá því að varnarliðið fór af landi brott hefur atvinnuleysi á Suðurnesjum verið viðvarandi. Þegar varnarliðið fór má segja að rúmlega 700 störf hafi horfið af vinnumarkaðnum og ekki hefur enn tekist að skapa þau störf að nýju. Álver í Helguvík gefur því fólki á Suðurnesjum von um vel launuð framtíðarstörf. Þá er ljóst að bæði á byggingartíma álvers og eftir að starfsemin hefst mun álverið veita fjölda háskóla- og tæknimenntaðra einstaklinga atvinnu. Í stóriðju er talið að um 40% starfsfólksins sé með háskóla- eða tæknimenntun. Þá eru ekki taldir með arkitektar og sérfræðingar og verkfræðistofur sem m.a. þjónusta þessi fyrirtæki. Álver í Helguvík mun því hafa mikil og margvísleg áhrif á atvinnulífið á Suðurnesjum.

Starfsemi álvera byggist mjög á þjónustu utanaðkomandi fyrirtækja. Á síðasta ári greiddi Norðurál um 25 milljarða til þjónustufyrirtækja, orkufyrirtækja og í laun og launatengd gjöld. Þar af námu greiðslur til þjónustufyrirtækja um 10 milljörðum kr. Það er því eftir miklu að sækjast fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum að álver rísi í Helguvík.

Þegar varnarliðið fór af landi brott hægðist á starfsemi fjölmargra þjónustufyrirtækja sem höfðu fyrst og fremst þjónustu af varnarliðinu. Nú sjá þessi fyrirtæki möguleika á að auka starfsemi sína að nýju með tilkomu álversins.

Gert er ráð fyrir að álverið verði byggt í fjórum 90.000 tonna áföngum og að ársframleiðsla þess verði allt að 360.000 tonn. Áætlað er að álverið taki til starfa á seinni hluta árs 2011 og að fjöldi starfsmanna í fullu starfi verði þá um 210 talsins. Við gangsetningu fjórða áfanga er áætlaður starfsmannafjöldi 540 manns í fullu starfi en áfangaskipting og byggingartími mun taka mið af orkuöflun álversins auk annarra aðstæðna.

Það er því ekki nema von að sveitarfélögin á Suðurnesjum, aðilar vinnumarkaðarins og ekki síst allur almenningur á Suðurnesjum séu hlynnt því að álver rísi í Helguvík. Jákvæðni gagnvart þessum framkvæmdum í Helguvík nær langt út fyrir Suðurnesin ef marka má nýjustu skoðanakannanir en samkvæmt skoðanakönnunum Fréttablaðsins sem birtist í blaðinu um páskana kom fram að 57,5% aðspurðra sögðu já við álveri í Helguvík.

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að koma hjólum atvinnulífsins af stað að nýju. Það er álit Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að gott svigrúm sé til stórframkvæmda á árinu 2009–2011 þar sem slaki verður í hagkerfinu á þessu tímabili að öðru óbreyttu. Sökum aukinnar þátttöku innlends verkafólks munu auknar framkvæmdir ekki valda miklum usla á vinnumarkaði. Þá má búast við jákvæðum áhrifum á gengi íslensku krónunnar og auknar framkvæmdir valdi því að vextir verði hærri en ella.

Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að frumvarp þetta verði nú að lögum m.a. vegna þess að fjárfestingarsamningurinn mun styðja Norðurál Helguvík við öflun fjármagns og tryggja þannig framvindu framkvæmda við álversuppbygginguna í Helguvík

Auk mikilvægis framkvæmdanna fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum og á Suðvesturhornið og þeirra jákvæðu breytinga sem það mun hafa á tekjustofna sveitarfélaga, húsnæðismarkaðinn og atvinnumarkaðinn almennt þurfum við Íslendingar á því að halda á þessari stundu að sjá fram á að það sé raunverulega verið að gera eitthvað til að koma atvinnulífinu af stað aftur og skapa ný atvinnutækifæri. Því ber að fagna. Auk þess sem verkefnið mun hafa margvísleg jákvæð hliðaráhrif eins og kom fram hjá fulltrúum sveitarfélaganna á Suðurnesjum sem komu fyrir iðnaðarnefnd. Allir mæltu þeir eindregið með að frumvarpið yrði samþykkt og skjóta með því styrkari stoðum undir atvinnulífið á Suðurnesjum eftir langt skeið atvinnuleysis, virðulegi forseti.



[18:09]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Nú sér væntanlega fyrir endann á langþráðu baráttumáli sem skiptir miklu máli fyrir þjóðina í heild, fyrir atvinnustöðu og uppbyggingu atvinnu á Suðurnesjum, fyrir stöðu heimilanna á Suðurnesjunum, stöðu atvinnusköpunar á Suðurlandi og í landinu í heild.

Reikna má með að um 400 störf muni skapast í álverinu í Helguvík á frumframleiðslustigi en alls um 1.100 störf með störfum tengdum álverinu sjálfu. Á byggingartíma má reikna með á þriðja þúsund starfa á Suðurnesjum og víðar, til að mynda með línulögnum, kísilversmöguleikum og fleiri þáttum og verkefnum. Reiknað er með að álverið í Helguvík verði byggt í fjórum áföngum, 90.000 tonn í hverjum áfanga. Að loknum áfanga 2, þegar framleiðslan getur farið í 180.000 tonn, má reikna með frekari framleiðslu varnings úr áli og nú þegar hefur meiri hluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ lagt drög að því með aðstandendum álversins í Helguvík. Framleiðsluverksmiðjur úr áli gætu verið á Suðurlandsundirlendinu með tilkomu nýs Suðurstrandarvegar sem er á lokastigi fyrri hluta, 35 kílómetra vegalengd, en seinni hlutinn, 15 kílómetrar, verður boðinn út fyrir næsta haust ef framvindan gengur fram sem horfir.

Virðulegi forseti. Tafir á framgangi málsins í höndum ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar er vissulega mikið áhyggjuefni. Málið hefur verið tafið af ríkisstjórninni til afgreiðslu Alþingis. Fáir töldu vera hindrun fyrir framgangi uppbyggingar álvers í Helguvík á byrjunarreit, ekki síst með tilliti til þess áfalls sem varð á Suðurnesjum við óvæntu og skyndilegu brotthvarfi bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli þar sem nær þúsund manns misstu vinnu sína. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum, sér í lagi í Reykjanesbæ, hafa brugðist við af miklum metnaði og ákveðni, djörfung og bjartsýni, og margt hefur áunnist eftir svo mikið áfall sem varð.

Viljayfirlýsing um byggingu álvers á Bakka við Húsavík gekk lengra en hvað Helguvík snertir en hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson skrifaði þá undir viljayfirlýsingu um fjárfestingarsamning varðandi Bakka. Nú hefur viljayfirlýsing stjórnvalda varðandi álver í Helguvík verið dregin von úr viti. Slíkt sleifarlag hæstv. ríkisstjórnar á viðkvæmum og viðsjárverðum tímum er vítavert og jaðrar við skemmdarverk í möguleikum á mikilli atvinnusköpun á Íslandi. Allar tafir í framgangi slíkra stórverkefna sem bygging álvers er, geta valdið því að vænleg og örugg verkefni geta fallið milli skips og bryggju. Tafir og mismunandi yfirlýsingar stjórnvalda eru stórhættulegar í þessum efnum og illt er að núverandi stjórnarflokkar hafi gefið misvísandi yfirlýsingar út og suður.

Fjárfestingarfyrirtæki láta ekki teyma sig á asnaeyrunum þegar ýmsir aðrir valkostir standa til boða í öðrum löndum. Eftir er að sjá hvort fjáröflunarmöguleikar til smíði álvers í Helguvík hafi versnað því að drátturinn á framgangi þessa máls og sleifarlagið allt hefur haft mjög neikvæð áhrif í stöðunni. Nú sér vonandi og væntanlega fyrir endann á þessu máli, og þótt fyrr hefði verið, virðulegi forseti.



[18:15]
Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Herra forseti. Hér er til umræðu eitt stærsta hagsmunamál Suðurnesjamanna til áratuga en eins og fram hefur komið í umræðunni hafa þeir orðið illa úti í atvinnumálum að undanförnu.

Ég sakna þess að hæstv. iðnaðarráðherra skuli ekki vera í salnum en ég vil hæla honum, og alveg sérstaklega fyrir að hafa lagt umhverfisstefnu Samfylkingarinnar frá árinu 2007 á hilluna í bili.

Fyrir tveimur árum tók varnarliðið sig upp og hélt vestur um haf með allt sitt hafurtask með tilheyrandi atvinnu- og tekjumissi fyrir þetta landsvæði, Suðurnesin. Í framhaldinu var komið á þróunarfélagi sem hefur með höndum uppbyggingu á svæðinu og leggur sitt af mörkum við að koma á fót verkefnum sem skapað geta ný tækifæri. Margt hefur verið gert þar ágætlega, t.d. með uppbyggingu á háskólasamfélagi, og ýmislegt var í burðarliðnum og er kannski enn þá. Mörg, kannski flest, þeirra verkefna sem unnið var að hafa verið sett í frost eða salt vegna efnahagskreppunnar sem vonandi hefur ekki farið fram hjá neinum.

Það má líka nefna að síaukinn ferðamannastraumur til landsins gerði uppbyggingu í tengslum við flugsækna starfsemi mögulega þó að staða flugstöðvarinnar hafi vissulega verið betri en hún er núna. Nú blasir þar við samdráttur eins og alls staðar annars staðar.

Eins og staðan er í dag, 17. apríl 2009, mælist atvinnuleysi yfir 17% á Suðurnesjum og hvergi annars staðar á landinu hefur það náð tveggja stafa tölu enn þá. Meðaltalið á landinu öllu var innan við 9% í mars en í dag ganga tæplega 1.900 manns um bæina og mæla göturnar. Þeim fer ört fjölgandi.

Því þarf engum að dyljast að verkefni við uppbyggingu álvers í Helguvík gæti orðið til þess að rétta verulega af þann mikla halla sem finna má á Suðurnesjum því að fátt annað virðist í farvatninu sem er í líkingu við stærðina sem þetta verkefni býður upp á. Sumir virðast halda að við höfum enn þá efni á að velta fyrir okkur hvort við eigum að nýta náttúruauðlindir okkar. Mér finnst, virðulegi forseti, svolítill 2007-bragur á því. Draumalandið var ekkert annað en sæmilegur draumur. Blákaldur veruleikinn blasir nú við þegar við erum vöknuð.

Þessir sömu og velta fyrir sér hvort við eigum að nýta náttúruauðlindir okkar eru líka að velta fyrir sér hvort ekki sé betra að gera eitthvað annað en að reisa álverksmiðju. Því miður eru þær hugmyndir ekki komnar lengra en það að menn velta fyrir sér alls konar hugmyndum, sem er ágætt út af fyrir sig og fínt að menn hugsi sem mest um nýsköpun og ný tækifæri, en eins og sakir standa er varla tími til að velta slíku fyrir sér öllu lengur hvað þetta varðar því að Suðurnesjamenn geta ekki beðið.

Það er áætlað að ársverk við byggingu álversins verði um 4.300 og að jafnaði verði um 950 manns þar beinlínis við störf en til viðbótar skapist afleidd störf. Það má gera ráð fyrir að á heildina litið verði þarna 8.000–9.000 ársverk.

Í umræðunni undanfarið hafa menn farið mikinn í andstöðu sinni við atvinnuuppbyggingu í Helguvík á forsendum umhverfissjónarmiða. Það hefur svo sem komið fram í umræðunni í dag hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem var í minni hluta í iðnaðarnefnd og skilaði þar séráliti. Menn hafa jafnvel talað um að vaktar séu falskar vonir um að álver í Helguvík muni leysa í eitt skipti fyrir öll atvinnuleysið í byggðum á Reykjanesi. Málflutningur af þessu tagi er fullkomlega óásættanlegur og ekki til neins annars en að slá ryki í augu fólks og drepa málinu á dreif. Álveri í Helguvík er sem betur fer ekki ætlað það hlutverk að skapa atvinnu í eitt skipti fyrir öll, enda þyrfti tvö til að útrýma því atvinnuleysi sem menn horfa upp á þar í dag.

Það verður því af metnaði haldið áfram að vinna í þróunarverkefnum og nýsköpun um ókomna tíð ef ég þekki mitt heimafólk. Menn ættu að horfa í augun á því fólki sem þarna gengur um án atvinnu án þess að nokkur önnur von sé í sjónmáli en þessi metnaðarfulla uppbygging í Helguvík. Ég endurtek að draumalandið var ekkert annað en sæmilegur draumur á meðan allt lék hér í lyndi.

Hvar og hvernig ætla vinstri græn að skapa 9.000 ársverk? Ekki er fjallagrösunum fyrir að fara á Reykjanesinu. Þráhyggja manna í tali um losun gróðurhúsalofttegunda í landi þar sem yfir 70% orkunnar eru sjálfbær er í fullkomnu ósamræmi við markmiðið ef menn horfa á þessi mál í hnattrænu samhengi. Það er gott að setja sér góð og göfug markmið, virðulegi forseti, en menn verða að hafa efni á þeim. Þeir verða að sýna fram á að þjóðin hafi efni á því að nýta ekki orkuna með þessum hætti. Þeir verða að benda á raunverulegar lausnir, virðulegi forseti, en ekki bara eitthvað annað.

Í fallegu ljóði segir, með leyfi forseta: Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt. Landslag er einskis virði ef allir eru dauðir úr hungri og geta ekki notið þess. Fólk hlýtur að njóta vafans í þessum efnum og við hljótum að taka hag fjölskyldnanna, heimilanna, barnanna og fólksins sjálfs fram yfir væntingar og langanir um fullkomna náttúruvernd þar sem ekki má hrófla við einni einustu mosaþembu.

Hafi menn einhverja minnstu glóru um hvar þeir geti mögulega grafið upp 9.000 ársverk væri það vel þegið en þau þurfa að koma á u.þ.b. næstu 10 mínútum, virðulegi forseti, því að tíminn er að renna út. Fólk vill fá að vinna. Það vill sjá fyrir sér með sómasamlegum hætti. Það vill geta borgað af lánunum sínum og það vill geta gefið börnunum sínum að borða. Það vill halda reisn sinni og virðingu. Það er mikilvægast, virðulegur forseti, að mínu mati að fólk gangi framar löngunum sem við höfum ekki efni á á þessum tíma. Ef erlent fjármagn streymir inn í landið í ofanálag segi ég: Já, takk, fyrir hönd umbjóðenda minna á Suðurnesjum. Ég er reyndar viss um að það gera ýmsir fleiri og það hefur svo sem komið fram í máli sjálfstæðismanna dag.

Í tilefni af ummælum hv. þm. Árna Johnsens um sleifarlag ríkisstjórnarinnar í þessu máli skulum við alveg hafa það á hreinu að það voru sjálfstæðismenn sem hafa lagt þetta brýna mál að veði með málþófi og málfundaæfingum um allt og ekkert hér undanfarið með tilheyrandi röskun á þingstörfum til að koma í veg fyrir að eðlilegar og langþráðar lýðræðisumbætur sem njóta stuðnings meiri hluta þjóðarinnar nái fram að ganga. Það hefur verið gert undir forustu og stjórn þeirra sem hér hafa setið lengst og haft mest völdin í fanginu.

Ég ætla reyndar að neita mér um að leggja mat á það hvernig farið var með þau völd. Ofbeldið var stutt af flestum eða öllum öðrum þingmönnum sjálfstæðismanna sem með framgöngu sinni halda áfram að bregðast trúnaði við þjóð sína, áður í meiri hluta og við stjórn en nú í minni hluta.

Virðulegi forseti. Ég tel að sjálfstæðismenn megi skammast sín ofan í rassgat. Ég held að ég láti það verða mín síðustu orð í þinginu. (Gripið fram í.)



[18:22]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég minntist á að atvinnuleysi á Suðurnesjum væri mikið. Ég hélt að það væri 15–16% en eftir því sem best er vitað er það orðið 17–18%. Það þrengir að hjá mörgum og þess vegna er þessi álversuppbygging mjög af því góða og þetta er það sem við þurfum að gera.

Ég held að á morgun verði flaggað á flestum heimilum á Suðurnesjum og þetta verður hátíðisdagur ef við berum gæfu til þess á eftir að samþykkja frumvarpið þegar það fer í atkvæðagreiðslu. Það verða margir á morgun bjartsýnni á Suðurnesjum en þeir hafa verið. Við getum eflaust fagnað vel og innilega þegar búið verður að greiða atkvæði um málið sem ég trúi ekki öðru en að verði samþykkt. Ég held ekki að nein teikn séu á lofti um annað.

Þegar búið verður að byggja þetta upp í framtíðinni, 3.000–4.000 manns verða búin að vera með vinnu í 2–3 ár og þegar þetta verður komið í gang af fullum krafti, verða þúsund manns þarna meira eða minna í fastri vinnu. Væntanlega verða orkufyrirtækin sem selja orku til þessa álvers, bæði Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur, sterkari en áður. Þetta mun skapa þeim meiri möguleika til að halda áfram að afla orku á Suðurnesjum, Hellisheiðinni og víðar. Vonandi tekst Landsvirkjun líka vel til við að afla meiri orku sem við getum notað til að skapa atvinnu og afla gjaldeyristekna fyrir þjóðina. Á þessu lifir fólkið, að hafa atvinnu, og þjóðin lifir á því að geta selt einhverjar afurðir. Svo sannarlega vonast ég til þess að á morgun geti menn flaggað á Suðurnesjum.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til bæði í landbúnaði og sjávarútvegi að fjölga störfum. Við höfum lagt til að meira verði veitt af fiski sem skapar mörg störf. Við höfum lagt til að farið verði í ákveðnar aðgerðir í landbúnaði til að skapa fleiri störf og spara gjaldeyri. Síðast en ekki síst höfum við lagt til að byggð verði tvö álver, annað í Helguvík og hitt á Bakka. Ef maður leggur til þessi störf sem við í Frjálslynda flokknum erum að tala um — við höfum lagt það í vana okkar í vetur að tala í lausnum — ef 3.000–4.000 manns fá vinnu við álverið í Helguvík og annað eins á Bakka erum við að tala um mikla atvinnuuppbyggingu í þessum tveimur verkefnum. Auðvitað snýst þetta ekki bara álverin heldur líka fyrirtækin sem vinna að orkuöflun, framleiða orku og byggja upp orkuverin sjálf sem verið er að tala um. Þá erum við að tala um 7.000–8.000 störf. Við giskum á 5.000 störf í sjávarútvegi og jafnvel 1.000 í landbúnaði. Við erum að tala í lausnum. Það er gott að fyrsta skrefið í þessum lausnum sé að við samþykkjum núna að hefja að fullu framkvæmdir í Helguvík.



[18:26]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir hvert orð í ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Ég hélt satt best að segja að svona stórkarlaleg „fix“ álbræðsluþungaiðnaðar, sem minnir mann óneitanlega á uppbyggingu í Ráðstjórnarríkjunum á sínum tíma, heyrði sögunni til eftir efnahagshrunið. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson vísar til framtíðarinnar og hann telur hér upp ótrúlega mörg störf. Framtíðin er komin á Austurlandi í kringum Reyðarál og Fjarðabyggð. Hún er ekki góð. Þar er atvinnuleysi. Þar stendur fjöldinn allur af íbúðum auður (Gripið fram í.) og því fer fjarri að þar hafi verið sú uppbygging sem menn hugðu. Þá voru fluttar (Gripið fram í.) nákvæmlega sömu ræður og hér hafa verið fluttar um störfin í þessar atvinnugrein.

Staðreyndin er sú að fyrir austan starfa, ef ég man rétt, 400 manns í álverinu og talið er að afleiddu störfin séu 400. Líti maður hins vegar til byggðanna í kring, til Þórshafnar og Vopnafjarðar sem byggja á okkar hefðbundnu greinum sjávarútvegi og til Hornafjarðar þar sem fjölbreytnin ræður ríkjum, er staðan mun betri. Lítum svo aðeins á Reykjanesið, á það skelfilega atvinnuleysi sem þar er. Það hvarflar ekki að mér að efast um að þarna verði til störf. En þá er atvinnuleysið bundið við Reykjanesbæ þar sem einsleitnin hefur verið og menn hafa gleymt sjávarútvegi. Í Grindavík er atvinnuleysið aðeins 2% þó að það sé 14% eða 15% á Reykjanesinu öllu.

Fjölbreyttur atvinnurekstur, að leyfa þúsund blómum að blómstra, er það sem kemur hjólum atvinnulífsins í gang. (Gripið fram í: Að láta hundrað blóm blómstra.) Að láta hundrað blóm blómstra, að skapa rekstrarumhverfi fyrir einstaklinginn, að hverfa fá ríkisstyrkjum. Það er það sem gefur störfin. Margt smátt gerir eitt stórt. Þessi framkvæmd er afar dýru verði keypt.

Þeir samningar sem gerðir hafa verið við álverin með leyndarraforkuverði — menn vita jú flestir að þeir borga tífalt minna verð fyrir orkuna en aðrir atvinnurekendur í landinu — eru afar dýru verði keyptir. Og þegar bent er á að fortíðarsamningar út af Reyðaráli og fleiri séu sambærilegir er það eins og Megas segir: „Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað“ verra eða þá jafnslæmt. Þetta eru ekki samningar sem markaðshyggjumenn geta staðið uppréttir og horft á. Þetta er ákveðin forsjárhyggja. Ríkið er að búa til störf ofan frá en þau spretta ekki úr grasrótinni. Ríkið á að hlúa að atvinnurekstri og skapa tækifæri í atvinnurekstri, umbúnað, rekstrarumhverfi, sjá til þess að menn eigi aðgang að þolinmóðu fjármagni á eðlilegum og heiðarlegum vöxtum en ekki að kosta því til sem hér hefur verið gert.

Ef maður horfir þá til þess til hvers er kostað og ef maður lítur svo á 4. gr. í frumvarpinu um tekjuskattsákvæðin, 15%, um að félagið skuli undanþegið iðnaðarmálagjaldi, um sérreglur varðandi fyrningu, um sérreglur varðandi stimpilgjöld — félagið er undanþegið ákvæðum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raflagna og skipulagsgjöldin eru lægri. Það er undanþegið breytingum ákvæða laga um tekjuskatt. Það greiðir aðra skatta samkvæmt tekjustofnum sveitarfélaga í fasteignagjöld en þeir sem starfa innan sama bæjarfélags. Félagið á ekki að greiða umhverfisskatt þrátt fyrir meginreglur um mengunarbætur: Þeir sem menga eiga að bæta, þeir eiga að borga.

Þarna ber allt að sama markinu, 16,2 milljónir dollara er afslátturinn frá ríkinu og maður spyr: Hvers eiga önnur fyrirtæki í Reykjanesbæ að gjalda sem borga öll þessi gjöld? Af hverju fær þetta fyrirtæki þessa ríkulegu meðgjöf meðan önnur fyrirtæki á svæðinu, jafnvel stórfyrirtæki, fá ekki þessa meðgjöf? Og af hverju er raforkuverðinu stillt svo lágt að það rétt hrekkur yfir kostnaðarverðið?

Það horfir ekki vel fyrir álframleiðslu í heiminum í dag og það horfir ekki vel fyrir Kárahnjúkavirkjun þó að ég voni hið besta. Þar eru arðsemisútreikningar miðaðir við 1.300 kr. fyrir tonnið á ári, ef ég man rétt. Það er komið niður fyrir 1.400 kr. Það horfir illa og ég hef áhyggjur. Ég hef af því áhyggjur að þjóðin muni til frambúðar tapa á þessu nema það verði mikil uppsveifla í notkun á áli sem ekkert útlit er fyrir næstu árin.

Hvernig geta sjálfstæðismenn réttlætt að atvinnureksturinn í landinu sitji ekki við sama borð og hvernig geta sjálfstæðismenn réttlætt slíka ríkisstyrki? Hvernig geta sjálfstæðismenn réttlætt að félaginu sé heimilt að semja um framsal á samningnum? Hvernig er það hægt?

Á blaðsíðu 28 í frumvarpinu í grein III er kveðið á um, með leyfi herra forseta:

„… að þar til álverið hefur framleiðslu geti yfirfærsla hluta Century í félaginu ekki átt sér stað nema með samþykki ríkisstjórnar Íslands. Ekki skal synja eða fresta slíku samþykki með ósanngjörnum hætti þegar um er að ræða [(a)] framsal til samstarfsaðila Century sem hefur aðsetur í OECD-landi …“ o.s.frv.

Þessir samningar eru milljarða virði jafnvel þótt þeir fari ekki af stað, þ.e. á grundvelli 150.000 tonna losunarheimilda og á grundvelli raforkuverðsins og á grundvelli skattaívilnana sem aðrir njóta ekki. Century getur selt og framselt samstarfsaðila samninginn fyrir milljarða tugi. Ég fullyrði það. Kvóti í losun verður dýrari með hverju ári sem líður og eftirsóttari, sérstaklega í ljósi ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn. Stefnt er að því að draga úr losun um 20% fram til ársins 2020 þannig að þeir verða gríðarlega verðmætir.

Ég verð líka að segja það í þessu samhengi, herra forseti, að talið er að hvert starf í álbræðslu kosti 150–200 milljónir, hvert einasta starf. Hvað gæti fólkið í Reykjanesbæ gert ef það fengi andvirði hundrað starfa eða um 15 milljarða til atvinnusköpunar? Ég hygg að fyrir hvert starf í álveri séu unnt að skapa tíu í eðlilegum rekstri þar sem hundrað blóm blómstra.

Fyrir 400 störf er hægt að skapa 4.000. Ég hef rætt þetta við sveitarstjórnarmenn á Hornafirði. Þeir segjast geta skapað tugi starfa, 100, 150, 200 varanleg störf fyrir 1,5 milljarða eða 1 milljarð eða minna.

Hvað er að gerast á Reyðarfirði? Þar er jú atvinnuleysi. Þessi samningur stenst engin markaðs- eða hagnaðarsjónarmið. Hann stenst engin gróðasjónarmið. Og þessi samningur mun hafa vond ruðningsáhrif á Reykjanesið, fyrir Bláa lónið eins og forstöðumenn þar hafa lýst, fyrir Reykjanesþjóðgarð, fyrir Reykjanesið sem eldfjallaþjóðgarð. Álverið er í anddyri Reykjanesbæjar þannig að það verða ruðningsáhrif. Menn munu hverfa úr öðrum atvinnugreinum inn í álverið vegna þess að þar eru borguð hærri laun. (Gripið fram í: Er það ekki gott?) Það er gott en það skapar vandræði hjá hinum. (Gripið fram í: Já.)

Svo vil ég nefna það líka og það verður að hafa það í huga að okkur sárvantar gjaldeyri. Það liggur fyrir og hefur verið sýnt fram á að 65% af tekjum álvers fyrir kaup á aðföngum, hráefni og öðru sem afla þarf frá útlöndum standa 35% eftir. Talið er að í 20 ár, sem er tími til að borga niður virkjunina, fari þessi 35% í niðurgreiðslu erlendra lána sem óhjákvæmilega verður að taka í þær virkjanir sem þarf til að reka þetta álver.

Álverið, álbræðslan, mun ekki gefa okkur gjaldeyristekjur á næstu árum 20 árum. (Gripið fram í.) Það er gnægð atvinnutækifæra á Suðurnesjum ef skapað er rekstrarumhverfi, að ég tali nú ekki um ef Reykjanesbær fengi 100 milljarða til ráðstöfunar eða hagsmunaaðilar þar. Þar er Reykjanesþjóðgarður. Það er vísindasetur á Keflavíkurflugvelli. Þar er Bláa lónið þar sem stórkostleg uppbygging hefur átt sér stað og getur orðið alheimsdæmi. Þar eru gríðarleg áform um uppbyggingu sem veitir hundruðum eða þúsundum manna vinnu ef rétt er að hlutum staðið. Því verð ég að halda til haga í þessari ræðu. Þetta eru ekki tómir plúsar, því fer fjarri.

Því miður er það svo að það er engin trygging fyrir því eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur lýst, að verkið fari af stað en menn voru jafnvel svo bjartsýnir í ræðum á þingi í fyrri viku að það gæti skapað 13.000 háskólanemum störf í sumar. Það er bara ekki rétt. Við megum ekki gefa íbúum Reykjanesbæjar gyllivonir.

Ég vil að endingu vísa til þess að ég skilaði sem fulltrúi í minni hluta umhverfisnefndar umsögn frá minni hlutanum þar sem koma fram alvarlegar ábendingar um mengunina. Það kemur reyndar fram í umsögn meiri hlutans. Þar koma fram alvarlegar ábendingar um að losunarheimildir séu bara fyrir 150.000 tonn og að eftir eigi að meta aðra þætti. Tengdir þættir hafa ekki verið metnir og það liggja ekki fyrir þjóðhagslegir útreikningar, arðsemisútreikningar. Af hverju ekki? Af hverju erum við í gamla farinu og fyrir efnahagshrunið að upplýsa ekki um orkuverðið? Hvernig getur Alþingi samþykkt samning þegar orkuverðið liggur ekki fyrir? Allir álframleiðendur í heiminum, stórfyrirtækin, vita hvert kaupið er á eyrinni á Íslandi, þeir vita það. Þeir sem ekki fá að vita það er almenningur. Af hverju ekki? Af hverju er verið að halda þessu leyndu á nýja Íslandi sem við ætlum að byggja upp á grundvelli gamalla góðra gilda með gegnsæi og lýðræði? Það gengur ekki.

Ég ítreka það. Af hverju fá bændur ekki að sitja við sama borð í orkuverði? Garðyrkjubændur? Af hverju fá þeir það ekki sem eru stórnotendur í orku og er nú nýbúið að skera niður við þá um 70 millj. kr.? Bóndi einn í Borgarfirði fékk reikning um daginn sem þýddi 700 þús. kr. hækkun á síðasta tímabili. Það logar allt stafnanna á milli í Samtökum garðyrkjubænda. Svo fá þeir að horfa upp á að álver fái orkuverð á útsöluprís. Hvað með sjávarútveginn? Hvað með alla aðra starfsemi í landinu? Af hverju fá þeir ekki orkuna á sama verði?

Ég hygg að fyrirtækin í landinu og almenningur borgi þennan brúsa. Við höldum því líka fram að með þessu álveri sé vandséð hvernig við getum uppfyllt skuldbindingar okkar varðandi útblástur, losun gróðurhúsalofttegunda.

Með umsögn minni fylgdi úrdráttur úr ritinu Græn framtíð sem er stefnumörkun okkar í umhverfismálum. Ég vil lesa smábút úr því, með leyfi herra forseta:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð aðhyllist sjálfbæra orkustefnu með það að markmiði að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum leysi innflutta orku af hólmi stig af stigi jafnhliða því sem gætt sé varúðar- og verndarsjónarmiða. Markvisst verði dregið úr orkusóun og gerðar áætlanir um umtalsverðan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Stóriðja og stórvirkjanir í þágu mengandi iðnaðar samrýmast ekki sjálfbærri orkustefnu. “

Stóri gallinn við þennan samning — og ég tala af fullri einlægni um það — er að við erum búin að ráðstafa verulega mikilli orku sem við gætum notað til orkusparandi aðgerða — í sjávarútveginum, í skipaflotanum, í fiskimjölsverksmiðjum. Það sparar okkur verulegan gjaldeyri. Sums staðar er það keyrt á olíu. Ég nefni þau tækifæri sem blasa við í vetnisframleiðslu. Það er örstutt í að við náum upp tækni þar, 20–25 ár er stuttur tími í lífi þjóðar. Það blasa við tækifæri varðandi rafmagnsbíla. Það eru ekki mörg ár í að bílar verði knúnir áfram með rafmagni. Við eigum á grundvelli þeirrar orku sem við ráðstöfum til Helguvíkur gríðarleg tækifæri til orkusparandi og gjaldeyrissparandi aðgerða, allt í þágu þjóðarbúsins.

Mér þykir miður, herra forseti, að þeim tækifærum skuli með þessum samningi sólundað. En ég vona að þetta verkefni gangi þó sem allra best og þær væntingar sem bundnar eru við það rætist.



[18:43]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Álver á Reyðarfirði hefur fjölgað störfum en ekki fækkað. Hvernig væri á Reyðarfirði í dag ef 800 manns hefði ekki atvinnu af álverinu á því svæði? Þeir væru sjálfsagt flúnir til Reykjavíkur eða farnir til útlanda eða eitthvert ef þeir hefðu ekki atvinnu í álverinu á Reyðarfirði.

Það eru rök sem ekki er hægt að trúa eða hlusta á. Við höfum gott dæmi í Hafnarfirði þar sem álverið var byggt fyrir 1970 og hefur verið Hafnfirðingum bara til góðs allan þann tíma sem það hefur verið starfrækt þar. Er löngu búið að borga upp Búrfellsvirkjun með því álveri.

Vinstri grænir tala um að grasrótin eigi ekki möguleika en nú eru þeir búnir að vera í ríkisstjórn og höfðu tækifæri til að breyta ýmsu bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Það hefur staðið á því hjá Vinstri grænum að gera það og svo tala þeir bara um að það þurfi að gera eitthvað annað.

Það er alltaf eitthvað annað. Það vantar allar raunhæfar tillögur. Hvernig á að fá peninga í eitthvað annað og hvað á að gera til þess að hægt sé að koma þessu í gang?

Verið er að tala um mismunun en hvað eru niðurgreiðslur í landbúnaði? Hvað er ríkisstyrkurinn í sjávarútvegi? Við erum alltaf að mismuna atvinnugreinum. Við gerum það í landbúnaði til þess að lækka neytendaverð og halda bændastéttinni gangandi. Við erum með ríkisstyrki í sjávarútvegi — gjafakvótakerfið er auðvitað ekkert annað en ríkisstyrkur. En Vinstri grænir hafa ekki lagt fram neinar hugmyndir um að breyta því og þeir halda meira að segja áfram að brjóta mannréttindi á (Forseti hringir.) fólki í sjávarútvegi.



[18:45]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég bendi hv. þm. Grétari Mar Jónssyni á að hverfa austur á Egilsstaði og í Fjarðabyggð og kynna sér af eigin raun hver staðan er þar, hver nútíðin er þar sem átti að vera framtíð fyrir sjö til níu árum. Ég skora á hv. þingmann að kynna sér það. Væntanlega hefur hann hlustað á kosningaþátt úr Norðausturkjördæmi þar sem voru viðtöl við íbúa þaðan.

Staðreyndin er sú að þar var sagt að skapa ætti 3.000–5.000 störf, það hefur ekki orðið. Og það er merkilegt að skoða hvað annar atvinnurekstur sem var þar hefðbundinn á svæðinu hefur hopað. Það er líka mikið atvinnuleysi þar en ekki á fjörðunum sem eru norðar eða sunnar, það er bara staðreynd. Ruðningsáhrifin hafa verið slík. (Gripið fram í.) Eitthvað annað? Ég fullyrði það af reynslu úr mínu kjördæmi, hv. þingmaður, að um leið og við náum vöxtunum verulega niður munu hundruð starfa og atvinnuverkefni losna þar úr læðingi. Ég nefni bleikju, ég nefni garðyrkjuna, ég nefni bændur, ég nefni kornrækt. Það er mjög margt en við eigum ekki að vera það stalínísk að koma ofan frá heldur leyfa fólkinu í landinu að búa þetta til og hafa rekstrarumhverfi til þess, búa til eðlilegt rekstrarumhverfi sem blóm geta sprottið upp úr, búa til jarðveg og hlúa að því sem aðrir eru að gera. Við eigum ekki að koma með hugmyndir ofan frá.

Ég vil líka nefna það, og það veit hv. þm. Grétar Mar Jónsson, að við flytjum út 50–60 þús. tonn á ári af óunnum fiski. Ég veit ekki betur en að tillaga mín þess efnis væri að til bráðabirgða yrði það ekki gert á meðan atvinnuástandið væri sem verst, þá mundum við stöðva það. Ég vildi leysa það í samráði. Hv. þingmaður hefur talað um að við gætum reist tíu frystihús, hann veit betur en ég hversu mörg störf eru þar.



[18:47]
Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru fimm millj. kr. árslaun hjá verkamanni sem vinnur í álveri. Það eru á bilinu 30–40% hærri laun við að vinna í álveri en í annarri verkamannavinnu. Ég minni líka á að 25–30% af störfum í álverum í dag eru orðin kvennastörf þannig að álver eru bara ágætur vinnustaður miðað við margt annað. Uppgangur í Bláa lóninu, í sprotafyrirtækjum og ýmsu öðru — það þarf ekkert að stoppa þó að það sé byggt álver. Að lækka raforkuverð til garðyrkjubænda er óháð álverum. (Gripið fram í: Nú? Hver á þá að borga niðurgreiðslurnar?) Það þarf ekkert að greiða það niður, það er hægt að taka það með ýmsum kostnaði.

Til að byggja upp nýtt Ísland verður að nýta alla möguleika til þess að skapa atvinnu og gjaldeyri, það er það sem við þurfum að gera á Íslandi. Við þurfum að tala í lausnum eins og við í Frjálslynda flokknum, eins og við höfum verið að gera í gegnum tíðina. (Gripið fram í.) Við tölum í lausnum, hvernig er hægt að afla meiri gjaldeyris og skapa fleiri störf eins og ég kom inn á áðan. Ef vilji væri fyrir hendi væri hægt strax á þessu ári að auka störf um 12–13 þúsund. En það vantar viljann og líka nýja hugsun í Vinstri græna í sambandi við grunnatvinnuvegina, bæði landbúnað og sjávarútveg. Þess vegna er nauðsynlegt að þau í Vinstri grænum sem tala á móti álverum, á móti stóriðju og bera fyrir sig að auðhringir megi ekki koma inn í landið með peninga því að það sé svo hættulegt — það er það sem er að og (Forseti hringir.) þar þurfa Vinstri grænir að taka sig á.



[18:49]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson stendur í miðjum brimskaflinum og rífur kjaft, (Gripið fram í.) stólpakjaft. (Gripið fram í.) Ég flutti hér ræðu, hv. þingmaður, þar sem ég studdi rökum m.a. sköpun gjaldeyris. Ég nefndi tölur, ég nefndi að 65% færu í aðföng, 35% færu í að borga niður erlend lán. Svo kemur hv. þingmaður hér upp og segir: Þetta er svo gjaldeyrisskapandi. (Gripið fram í.)

Ég bið hv. þingmann að svara mér með rökum og (Gripið fram í.) skiptast á málefnalegum andsvörum við mig en ekki standa gapandi uppi í brimskaflinum og koma ekki með nein rök á móti. Hv. þingmaður nefndi ekki óunna fiskinn sem fluttur er út og fjölmargar tillögur sem við höfum verið með í atvinnumálum, svo fjölmargar. Við höfum líka flutt fram dæmalaust góða sjávarútvegsstefnu (Gripið fram í.) sem mér finnst skorta hjá Frjálslynda flokknum, ég verð að segja alveg eins og er.

Að halda því svo fram, herra forseti, að það sé óháð álverum að lækka orkuverð til garðyrkjubænda, hvernig fæst það út? Eru álverin einhver eyja, sjálfstætt fríríki, og kemur ekkert málinu við hvað kostar að afla orku þangað? Það verður að skoða þessi mál í heildstæðu samhengi. Allur atvinnurekstur og heimili í landinu borga raforku en álverin borga raforkuverðið á verði sem er það lítið yfir kostnaðarverði að heimilin og atvinnureksturinn borga mun meira en þau þyrftu að gera. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) — Borga mun meira en þau þyrftu að gera.



[18:51]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég stenst ekki mátið að veita andsvar við ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, sem var alveg makalaus ræða og rökstuðningur hans er alveg með ólíkindum.

Mig langar aðeins til að fara inn á einn þátt — það voru margir þættir sem hv. þingmaður kom inn á — en það eru gjaldskrármálin. Hv. þingmaður fór yfir að það væri líklega um tíu sinnum lægra verð sem álverin greiða fyrir raforkuna. Það er með ólíkindum hvernig fulltrúar Vinstri grænna koma að þessari umræðu. Við vitum það í fyrsta lagi að álver nota raforku að fullu og öllu í 24 stundir á sólarhring. Þau nota orkuna í 365 daga á ári, alveg fullt afl. Gerðir eru langtímasamningar upp á tugi ára um kaupin. Flutningurinn, sem er kannski hvað stærsti liðurinn í orkuverði heimilanna, er miklum mun ódýrari þar sem orkan er flutt í miklu hærri spennu en gert er í dreifikerfi til almennings og fyrirtækja almennt, þannig að flutningurinn er miklu ódýrari til svona stórnotenda. Orkutapið er miklu minna þegar er verið að flytja orkuna með þessum hætti.

Þess vegna er ótrúlegt að hlusta á þennan rökstuðning og málflutning, að ekki skuli vera tekið tillit til kostnaðarins sem liggur til grundvallar því að skaffa álveri orku í 20, 30 ára samningi og með þeim hætti sem ég hef farið yfir hér. Hvernig í ósköpunum eru útreikningarnir og aðferðafræðin (Forseti hringir.) hjá Vinstri grænum? Ég vildi gjarnan fá að heyra um það.



[18:53]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hingað flytja álbræðslurnar hráefni sitt um 6 þús., jafnvel 10 þús. km leið yfir sjó frá löndum þar sem er orka, jafnvel græn orka fallvatna. Maður spyr sig: Af hverju leggja þau á sig að flytja hráefnið yfir hálfan hnöttinn? Af hverju skyldi það nú vera? Jú, það er vegna þess að við seljum orkuna til þeirra á undirverði, á verði sem er það lægsta sem þekkist í heiminum. Við getum selt þessa orku til vistvænnar framleiðslu, jafnvel stórnotenda, fyrir hærra verð. Garðyrkjubændur eru stórnotendur, allir garðyrkjubændur landsins samanlagt eru stórnotendur. Ég hef ekki séð tölur fyrir því að flutningskerfið til þeirra sé ýkja mikið dýrara eða öðruvísi en til álbræðslna sem þurfa sérlínur.

Hér eigum við línur allt í kringum landið, hv. þingmaður, og frá þeim stofnlínum eru lagðar línur stuttan veg til flestra garðyrkjubænda. Af hverju ætti flutningskostnaður þá að vera svo miklu minni til virkjana — nema að það er auðvitað meiri orka flutt um strengina? Það réttlætir ekki að við bjóðum orkuna á því lága verði að það bitni á almenningi og öðrum atvinnurekstri í landinu. Sú var tíðin að inni í raforkulögum stóð að það mætti ekki, sú var tíðin að sagt var að Búrfellsvirkjun, þegar hún væri búin að borga sig upp, mundi lækka raforkuverð heimilanna. Það hefur ekki gerst, því miður.



[18:55]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í því andsvari sem ég fékk frá hv. þm. Atla Gíslasyni opinberaði hann algjörlega þekkingarleysi sitt á orkuflutningum og orkusölusamningum til stóriðju og til annarra notenda. Á meðan slík vitneskja er ekki í forðabúri Vinstri grænna er ekki nema von að þeir hafi málflutning sinn sem raun ber vitni og ég get engu þar um breytt. Þeir verða hreinlega að fá kynningu frá þeim sem selja raforku og standa að grunnkostnaði við flutninginn á orkunni.

Garðyrkjan hefur komið svolítið til tals og ég vil þeirri atvinnugrein allt hið besta í orkumálum. Það er rétt eins og hv. þm. Atli Gíslason sagði, raforkan á síðasta tímabili hefur hækkað gríðarlega. Ég stóð að því ásamt fleirum að gera aðlögunarsamning fyrir þá atvinnugrein sem miðaði að því að þeir fengju orkuna á sambærilegu verði við það sem var í nágrannalöndunum á þeim tíma, frá Noregi og Kanada. Nú stendur þannig á spori að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra endurnýjaði samninginn við garðyrkjubændur um orkuverð og ég veit það fyrir víst að þeir geta á engan hátt fellt sig við þær hugmyndir sem sá ráðherra, sem kemur frá Vinstri grænum, leggur upp með.

Nú skora ég á hv. þm. Atla Gíslason að beita sér fyrir því að það verði meira en orðin tóm varðandi garðyrkjuna fyrir kosningar og þau málefni sem Vinstri grænir standa að. Standið þið nú að því að koma til móts við þá atvinnugrein sem þið hafið möguleika og tækifæri til þar sem fjármálaráðherrann og landbúnaðarráðherrann kemur frá ykkur og er með samning sem er óundirritaður (Forseti hringir.) og upp í loft í dag.



[18:58]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Hv. þm. Kjartan Ólafsson segir mig hafa opinberað vanþekkingu mína. Það er líklega alveg hárrétt hjá honum. Það er vegna þess að orkuverðið er hernaðarleyndarmál, það er ekki hægt að nálgast þetta af fullri þekkingu á meðan það liggur ekki fyrir. (Gripið fram í: Til garðyrkjubænda?) Hvernig stendur á því að við getum ekki fundið og reiknað út arðsemisútreikninga? Það gæti töluglöggur maður eins og t.d. hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gert ef hann fengi þetta í hendurnar. (Gripið fram í.)

Ég ætla síðan að segja við hv. þm. Kjartan Ólafsson: Fyrri ríkisstjórn fór í það ólánsverk að skera niður flatt á hvað sem fyrir varð, heilbrigðisþjónustuna, bændur og alla sem fyrir urðu í staðinn fyrir að forgangsraða. Það var arfur sem fjármálaráðherra fékk eftir fjármálaríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins. Það hefur tekist með stífri vinnu að ná samningum út af búvörusamningunum. (Gripið fram í: Nei. …) — Niðurskurður sem lögmenn bænda töldu vera lögbrot og ég er sammála þeim. Unnið hefur verið að því hörðum höndum að leiðrétta þessi lögbrot fyrrverandi ríkisstjórnar gagnvart garðyrkjubændum. Það mál er því miður ekki í höfn en að því er unnið. Það er öðruvísi staðið að verki en hjá fyrri ríkisstjórn sem skar flatt á allt sem fyrir varð. Breytti þar engu þótt það væru aldraðir og öryrkjar, heilbrigðisþjónusta eða börn, engin minnsta félagslega hugsun var fólgin í því. (Gripið fram í.)



[19:00]
Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Sá samningur sem hér er til umræðu og bíður lögfestingar á sér aðrar fyrirmyndir sem á undan hafa gengið. Það má vissulega taka undir efasemdir sem komið hafa fram í umræðunni hvort rétt sé að gera slíka sérsamninga um skattalega meðferð við einstök fyrirtæki sem öll eru meira og minna í sömu atvinnugrein. Sérsamningar eru frávik frá almennum reglum og það er heillavænlegra til lengri tíma að styðjast við almennar reglur sem öll fyrirtæki undirgangast en að semja frávik í einstökum tilvikum, sérstaklega þegar horfur eru slæmar og stjórnvöld eiga óhægt um vik og þurfa að ganga að samningum sem að öðrum kosti væru ekki taldir ásættanlegir.

Það má taka undir þau sjónarmið að menn eigi að forðast það eins og kostur er en það er erfitt að taka undir að aldrei eigi að gera slíka samninga því að einmitt við aðstæður eins og nú verðum við að gera fleira en gott þykir þegar atvinnuleysið er staðreynd. Þá hvílir sú skylda á stjórnvöldum að nýta öll þau tækifæri sem í boði eru til að draga úr því sem fyrst.

Það sem ég vildi benda á er að þessi framkvæmd er gríðarlega stór á efnahagslegan mælikvarða í litlu hagkerfi eins og á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum sem fram komu með frumvarpinu er um að ræða 400 milljarða kr. framkvæmd sem er hátt í að vera jafnmikil fjárhæð og nemur útgjöldum ríkissjóðs í eitt ár eða um fjórðungi til 30% af landsframleiðslu eins árs. Slíkt er mjög stór framkvæmd í svo litlu hagkerfi. Þó að hún sé ekki alveg jafnstór og Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði slagar þessi framkvæmd langleiðina upp í þær framkvæmdir og var bent á að fyrr hefði ekki verið hjá neinni evrópskri þjóð svo stór einstök framkvæmd sem þessi var á þeim tíma mæld á þá mælikvarða sem við notum, þ.e. landsframleiðslu og umsvif ríkissjóðs.

Það ber að fara mjög varlega í svona stórar framkvæmdir. Það er hætt við því að ef menn slaka á í efnahagsstjórninni komi það niður á heildarhagsmunum eins og segja má að hafi að sumu leyti gerst með Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði. Ég studdi þá framkvæmd og styð hana enn, ég tek það fram svo það fari ekki á milli mála. Hinu ber þó ekki að neita að staðfestuna í efnahagsstjórninni hefur vantað á undanförnum árum. Það leiddi til þess að gengi íslensku krónunnar var hærra en ella hefði þurft að vera ef nægilegt aðhald hefði ríkt í ríkisfjármálum. Það bitnaði á atvinnufyrirtækjum í útflutningsgreinum og auðvitað fyrst og fremst á landsbyggðinni. Það gerði því atvinnustarfsemi erfiðara fyrir um nokkurra ára skeið en þurfti að vera vegna þess að stjórnmálamennirnir stóðu sig ekki nægilega vel.

Vissulega kom fleira til sem setti efnahagslífið úr skorðum, eins og gríðarlega mikið framboð á ódýru lánsfé, eins og verið hefur á undanförnum árum, sem leiddi til mikillar skuldsetningar, bæði atvinnufyrirtækja og heimila. Einkaneyslan fór á mikið flug og kaupmáttur jókst mjög mikið á stuttu tímabili og að baki þeirri aukningu var ekki að öllu leyti eitthvað raunverulegt eins og síðar kom í ljós.

Þessar aðstæður gætu hæglega komið upp aftur og ég mæli þessi varnaðarorð núna jafnvel þótt ekki sé útlit fyrir það á næstu 2–3 árum að menn þurfi að glíma við þær aðstæður. Hlutirnir breytast á ekki lengri tíma en reiknað er með í þessu, gert er ráð fyrir því að framkvæmdir standi til 2015, þ.e. næstu sex ár, og á því tímabili gætu orðið, sérstaklega á seinni þremur árunum, aðrar aðstæður en eru í dag. Þá reynir mjög á að stjórnvöld læri af reynslunni af síðasta stóra álveri og virkjunarframkvæmdum og gæti þess að haga efnahagsstjórninni og sérstaklega ríkisfjármálastjórninni með þeim hætti að það skaði ekki almenna hagsmuni, sérstaklega atvinnufyrirtækja í útflutningsgreinum.

Það versta við þau slæmu áhrif sem hafa orðið vegna þess að menn stóðu sig ekki nógu vel í efnahagsstjórninni er að landsbyggðin hefur fyrst og fremst goldið þess. Ýmis byggðarlög á landsbyggðinni, á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum og að nokkru leyti á Suðurlandi, hafa goldið þess að menn höfðu ekki staðfestu til að vinna þau verk sem þeir áttu að gera. Það er hætt við því að þetta gerist aftur eða gæti gerst. Ég vil minna á það og biðja menn að hafa í huga að endurtaka ekki sömu mistökin og gerð hafa verið hvað þetta varðar.

Ég vil líka benda á annan þátt í þessu máli sem er sjálf auðlindanýtingin. Þetta mál bendir á það mál sem mjög mikið hefur verið rætt undir öðru formi hér í þingsölum undanfarnar vikur sem er ákvæði í stjórnarskrá. Það skiptir miklu máli að þær auðlindir sem verið er að nota hér séu nýttar innan lands í innlendu hagkerfi og nýttar þeim sem búa hér á landi til hagsbóta. Þess vegna þarf að setja í stjórnarskrá lýðveldisins ákvæði sem tryggja að þær auðlindir sem fyrst og fremst nýtast almenningi til að bæta lífskjör hans uppfylli þessi skilyrði. Það verður að gera með því að skilgreina margar hverjar þeirra sem þjóðareign og tryggja að þeir sem nýta auðlindirnar geri það hér innan lands og borgi fyrir það. Þetta þarf allt að fara saman, virðulegi forseti, til að tryggja að ávinningurinn af nýtingunni verði almenningi til heilla en ekki örfáum einstaklingum innan lands eða erlendis. Það vantaði inn í stjórnarskrárfrumvarpið í fyrsta lagi að skilgreina hvaða auðlindir eiga að vera þjóðareign, háðar þessum skilmálum, því að það var ekkert að finna um það í frumvarpinu. Þess vegna lagði ég fram breytingartillögu um það sem skilgreindi fiskstofnana en ekki hvað síst, og það lýtur að þessu máli, um orkuauðlindir landsins, bæði orkuna í rennandi vatni og orkuna í heitu vatni sem kemur úr iðrum jarðar sem þjóðarauðlind. Ég minni á þær breytingartillögur sem eiga sína forsögu og lagðar voru fram fyrst fyrir rúmum áratug af fleiri þingmönnum en mér. Það skiptir miklu máli að orkan sem er undir yfirborði jarðar verði skilgreind sem þjóðareign en falli ekki sem einkaeign til landeigenda. (MÁ: Þú hefur aldeilis hjálpað til með það.) Ég hef komið að því, virðulegi forseti, og mun halda áfram að reyna að gera slæmt mál skárra. (MÁ: … stjórnarskrána …) Það geri ég með breytingartillögum mínum sem ég vænti að hv. þm. Mörður Árnason hafi lesið gaumgæfilega og kannist við á þingskjölum eldri en frá flokksbræðrum okkar á þeim tíma. (MÁ: … Sjálfstæðisflokknum …) Það stendur ekki á hv. þm. Merði Árnasyni að greiða fyrir þingstörfum og gera mönnum kleift að flytja mál sitt truflunarlaust því að honum hættir til að hafa skoðun á öllu sem menn segja og vilja koma henni á framfæri jafnvel þótt hann hafi ekki orðið.

Það er nokkuð sem menn verða að búa við í þessum þingsal meðan þetta er svona.

Síðan vil ég benda á að það er ekki sjálfgefið að auðlindir þjóðarinnar séu nýttar hérlendis. Það er ekki sjálfgefið að fiskstofnarnir verði nýttir hér innan lands af fyrirtækjum sem starfa hérlendis og af vinnuafli sem býr í íslensku hagkerfi. Þess vegna þarf að hafa skilgreiningarnar í lagi og það þarf að vera í stjórnarskránni sjálfri en ekki í almennum lögum.

Það skiptir líka máli hvað varðar orkuna. Það er hægt að flytja orkuna milli landa og verður mjög auðvelt innan fárra ára með sæstreng og öðrum þeim nýjungum sem menn munu koma á á komandi tímum. Það verður eftirsótt af hálfu fyrirtækja erlendis, sérstaklega innan Evrópusambandsins, að komast yfir auðlindirnar og geta nýtt þær sér til hagsbóta. Í öðrum hagkerfum en því íslenska, flytja orkuna um streng til að skapa atvinnu í verksmiðjum á meginlandi Evrópu, (Gripið fram í.) sem vantar hana. Það er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig sem er vel skiljanlegt af hálfu þeirra sem búa þar en við þurfum að horfa á hagsmuni þeirra sem búa hér og ætla að vera hér. Þess vegna þurfum við að tryggja þá hagsmuni með ákvæðum eins og þeim sem ég gat um að þyrftu að vera í stjórnarskrá. Ég skil ekki, virðulegi forseti, hvernig það gat farið fram hjá núverandi ríkisstjórn og þeim flokkum sem styðja hana til verka í stjórnarskrármálinu að flytja raunverulegar tillögur um þetta mikilsverða efni og skilja það eftir sem auða bók fyrir alþingismenn framtíðarinnar til að leika sér með í almennri löggjöf.

Allt of miklir hagsmunir eru settir í hendurnar á mönnum með allt of frjálsum hætti.

Vatnsaflið er heldur ekki alveg endurnýjanleg og ótímabundin auðlind. Orkan í rennandi fallvatni ræðst af m.a. snjósöfnun og við sjáum að a.m.k. nú á tímum og væntanlega næstu áratugi munu jöklarnir hopa. Það getur farið svo innan skamms tíma, ekki margra áratuga, að jöklar landsins hverfi meira og minna. Þá verður vatnsmagnið til að virkja miklu minna. Menn þurfa að gæta að því þegar þeir nýta þessa orku um þessar mundir, eða reikna út hvort eigi að nýta hana eða ekki, að hún verður ekki hér um alla framtíð. Það sem menn nýta ekki af virkjanlegri orku getur verið þorrið þegar þar að kemur og menn ætla að líta til þess. Þetta er eitt sem menn þurfa að hafa í huga og gá að þegar þeir meta gildi þess að nýta eða nýta ekki þá orku sem er í rennandi vatnsafli.

Síðan er gufuaflið eða jarðhitinn sem er í iðrum jarðar sem eflaust á eftir að verða okkur notadrýgst þegar fram líða stundir. Þar tek ég svolítið undir gagnrýni sem fram hefur komið um að menn treysti mjög mikið á orkulind sem er ekki mikið rannsökuð og er notuð í dag með mjög lítilli nýtingu og er eiginlega ekki forsvaranlegt að fara svona með jarðhitann eins og gert er í þeim efnum. Nýting á gufuafli er um 10% — ég sé að í þingskjali stendur 10–12%. Hér áður fyrr þegar ég var kunnugur þessum málum lærði ég að það væri um 9% nýting á jarðgufu og það er auðvitað engin hemja að fara svona með orkuna, að nota aðeins 9% eða 10% af henni en 90% fari út í andrúmsloftið.

Menn þurfa auðvitað að þróa þetta þannig að þeir nái betri tökum á og fari betur með þá orku sem kemur með þessum hætti.

Í öðru lagi hefur ekki verið rannsakað nægilega mikið hversu varanlegt þetta er, hversu mikið megi ganga á jarðhitann. Það liggur nokkuð ljóst fyrir að ef menn ganga fram eins og gagnvart Helguvík og ætla sér að treysta nær eingöngu á borholur og jarðhita, renna menn dálítið blint í sjóinn varðandi hversu stöðugur sá hiti er. Því meira sem menn dæla upp úr holunum því dýpra sekkur jafnvægispunkturinn í þeim efnum og menn ganga á það sem fyrir er. Það þarf að hvíla svæðið í einhvern tíma til að láta það jafna sig og er ekki vitað hversu hratt gengur á svæðið, hversu mikið megi taka og hvað tekur langan tíma að láta jafna sig. Það er varasamt að byggja stóra orkusölu á orkulind sem er ekki meira rannsökuð en raun ber vitni.

Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti, en undirstrika að ég er alls ekki andvígur því að nýta þessa orku. Það á að gera það en menn hafa farið dálítið fram úr sér í þeim efnum á síðustu árum.

Ég vil líka vara við því að opinber fyrirtæki gangi mjög fram eins og gerst hefur á síðustu árum með því að ráðast í stórfelldar virkjunarframkvæmdir, nánast eingöngu með lánsfé. Hitaveita Reykjavíkur var nánast skuldlaust fyrirtæki ekki fyrir svo löngu síðan. Nú er Orkuveita Reykjavíkur mjög skuldsett fyrirtæki. Landsvirkjun er líka mjög skuldsett. Ég held reyndar að bæði þessi fyrirtæki eigi fyrir skuldunum, þau hafa orkusölu sem á að tryggja þeim, ef ekkert óvænt kemur upp á, tekjur til að standa undir skuldum. Ég held að það séu réttir útreikningar. En mikil skuldsetning þýðir hins vegar að fyrirtæki er mjög viðkvæmt fyrir óvæntum áföllum og það er það sem getur komið upp á og gerist af og til eins og gerðist síðasta haust — óvænt áföll sem breyta öllum forsendum og þá sitja menn uppi með skuldirnar en skerta getu til að standa undir þeim. Þess vegna er mjög varasamt að safna miklum skuldum í örfá fyrirtæki. Menn eiga að forðast það eins og heitan eldinn að safna meiri skuldum í þau fyrirtæki sem þegar er búið að skuldsetja mikið.

Ég held að menn þurfi að fara að huga að því að greina í sundur næstu virkjanaframkvæmdir frá þeim sem eru fyrir Landsvirkjun til að reyna að dreifa áhættunni og minnka líkurnar á því að Landsvirkjun verði fyrir skakkaföllum ef eitthvað ber út af í áhættusömum fyrirtækjum. Mér finnst vera töluverð áhætta í fyrirtæki sem er byggt mjög mikið á jarðgufuafli.

Að þessum varnaðarorðum sögðum ítreka ég þá afstöðu mína að það eigi að nýta þessar auðlindir og það eigi að gera það með þeim arðsömu tækifærum sem fyrir hendi eru og ég hef enga ástæðu til að vefengja að áformin um byggingu álvers í Helguvík séu arðbær og styð þau því.

Ég vil þó segja að lokum, virðulegi forseti, að þegar ráðist er í slíka framkvæmd taka menn ákvarðanir sem snerta þjóðfélagið allt, taka ákvarðanir sem breyta afstöðu manna eða stöðu þeirra í öðrum byggðarlögum og að sumu leyti til hins verra, sérstaklega þegar menn gera það með sérstökum samningum um ríkisstuðning umfram það sem fer inn á eitt tiltekið svæði og önnur njóta ekki. Það er eðli ríkissamninga, hvort sem það á við um Helguvíkursamninginn, Austfjarðasamninginn eða Hvalfjarðarsamninga, að reyna að koma á fót atvinnufyrirtæki á tilteknu landsvæði til að efla atvinnulíf og byggð þar með beinum fjárstuðningi úr ríkissjóði. Þá skekkja menn stöðuna gagnvart öðrum byggðarlögum sem ekki njóta ríkisstuðningsins. Norðurland og Vestfirðir hafa farið mjög halloka í þessum ríkisstyrkjasamningum. Þó að þeir séu góðir fyrir þau svæði sem í hlut eiga hafa hin svæðin að sumu leyti goldið þess. Það verður að gera þá kröfu til stjórnvalda þegar þau ákveða ríkisstuðning fyrir ákveðin svæði, sem er réttlætanlegt við tilteknar aðstæður, að þau geri aðstæður sambærilegar á öðrum landsvæðum til að vinna á móti áhrifunum af ríkisstuðningnum. Það getur varla verið afstaða stjórnvalda, og ég trúi því ekki á hæstv. iðnaðarráðherra, að markmiðið með byggingu álvers í Helguvík sé að fá fólk til að flytja sig vestan af fjörðum til Suðurnesja, að fækka fólki á Vestfjörðum og fjölga á Suðurnesjum. Ég hef enga trú á að það sé markmiðið en það mun gerast ef ekki verður gripið til einhverra mótvægisaðgerða eða gagnaðgerða til að vinna á móti þessum ríkisstuðningi.

Á þetta vildi ég leggja áherslu, virðulegi forseti, og hvet hæstv. iðnaðarráðherra til að hafa það í huga að hann ber skyldur ekki bara við þau landsvæði þar sem álver eru reist heldur líka við þau landsvæði þar sem álver eru ekki reist. Ekki síður hefur hann skyldur við þau landsvæði því að þau eiga við ákveðna erfiðleika að glíma vegna framkvæmdanna, erfiðleika sem koma fram í hærra gengi og hugsanlega hærri verðbólgu. Þetta tvennt, áhrifin af framkvæmdunum og ríkisstuðningnum, leggst því gegn þeim landsvæðum sem eru utan áhrifasvæða þeirra landsvæða sem ríkisstuðningurinn beinist að.

Að svo sögðu, virðulegi forseti, ítreka ég niðurstöður mínar til þessa tiltekna þingmáls og ég mun styðja það.



[19:19]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta mál má ræða á marga vegu. Ég kýs að gera það út frá ræðu minni við 1. umr. um málið. Þar lýsti ég því yfir að það væri afar erfitt fyrir mig að styðja þetta frumvarp og benti á a.m.k. ein 11 atriði sem stæðu að baki þeirri afstöðu minni auk almennra efasemda um þá stórkarlastefnu sem undanfarna áratugi hefur viðgengist hér í atvinnuuppbyggingu og framkvæmdum og ég tel að sé ekki leiðin til Nýja Íslands eftir það fjárhagslega og siðferðilega hrun sem við höfum orðið vitni að í vetur.

Við 2. umr. er sjálfsagt að athuga þessi 11 atriði, a.m.k. einhver þeirra, hvernig þau hafa verið tekin fyrir í störfum hinnar háu iðnaðarnefndar á Alþingi og í þeim tveimur öðrum nefndum sem skilað hafa áliti sínu til iðnaðarnefndar. Í fyrsta lagi kvartaði ég yfir því að hér væri verið að gefa heimild til samninga við eitt fyrirtæki og engar almennar reglur væru lagðar fram um ívilnun af þessu tagi sem auðvitað kemur vel til greina og ætti að bera fram. Ekki væri óeðlilegt að slíkt væri til um fjárfestingar af ýmsu tagi, innlendar og erlendar, og væri þá þannig að hægt væri að taka tillit til mismunar atvinnufyrirtækjanna eða framleiðslufyrirtækjanna, verksmiðjanna, svo sem þáttar þeirra í mengun og orkuverðs sem fyrirtækin geta greitt, væntanlegan skatthagnað af fyrirtækjunum, hvort þau auka fjölbreytni í atvinnulífinu o.s.frv. Það er ekki gert og meiri hluti nefndarinnar kemst einungis að þeirri niðurstöðu að tyggja það eftir frumvarpstextanum eða nefndarálitinu, með þínu leyfi, forseti:

„… að erfiðleikar við fjármögnun verkefnisins réðu úrslitum um að stjórnvöld tóku þá ákvörðun að leita eftir heimild Alþingis til að ganga til samninga við félagið um sérkjör við skattgreiðslur. Slíkur samningur er talin forsenda þess að fjármögnun verkefnisins takist.“

Það liggur engin sjálfstæð athugun að baki því hvort þessi samningur er forsenda þess að fjármögnun verkefnisins takist, heldur er þetta tekið upp í álitinu og ekkert um það fjallað. Síðan kemur sú lína í áliti meiri hlutans að hann telji, með leyfi forseta:

„… að með tilliti til stærðar verkefnisins og áhrifa þess á atvinnulíf, þ.m.t. afleiddra starfa og kaupa álversins á vörum og þjónustu, þá sé þessi styrkur réttlætanlegur …“.

Þarna er gefin lína um ríkisstyrki í framtíðinni, virðist vera, og það er athyglisvert að það sem í raun og veru er talið fram er stærð verkefnisins og hugsanleg kaup álversins á vörum og þjónustu.

Það er heldur dapurlegur rökstuðningur og raun og veru málflutningur á sómamörkum því að meiri hluti iðnaðarnefndar hafði fengið vísbendingar um það frá fleirum en mér, aumingja mínum, að um þetta þyrfti að fjalla.

Um skattamálin kemur það svo fram í áliti minni hluta efnahags- og skattanefndar að samningurinn gengur í raun og veru lengra en sá samningur sem sögð er fyrirmynd þessa samnings, þ.e. samningurinn um álverið í Reyðarfirði sem gefur svigrúm fyrir 18% tekjuskatt, væntanlega vegna þess að þá var 18% tekjuskattur í landinu, en þessi aðeins 15% þannig að að samþykktri þessari heimild er möguleiki að mismuna álfyrirtækjunum innbyrðis. Ég tel það alveg kostulega stöðu sem meiri hluti iðnaðarnefndar hefur sjálfsagt ekki áttað sig á.

Í öðru lagi taldi ég í ræðu minni við 1. umr. um málið að hér væri um að ræða 3 milljarða kr. styrk til álfyrirtækisins en um það er engin umfjöllun, hvorki hjá meiri hluta iðnaðarnefndar né meiri hluta efnahags- og skattanefndar og því verður að taka það þannig að þessi tala og aðrar sem nefndar hafa verið séu sannar og réttar. Ekki hefur farið fram nein sjálfstæð athugun hjá nefndunum um þetta og þær treysta þá væntanlega upplýsingum iðnaðarráðuneytisins og nú- og fyrrverandi hæstvirtra iðnaðarráðherra sem ég gerði líka, 3 milljarðar miðað við 30 ár. Þá verður líka að taka fram sem erfitt er að meta, að þetta er líka skattafesting. Þetta er ekki skattafesting í þriðjung aldar eins og talan 3 milljarðar miðast við heldur skattafesting í 40 ár. Samningurinn er þannig að hann skal gerður til 20 ára en álverið getur framlengt að eigin ósk um önnur 20 ár samkvæmt grein 17.3 í samningsuppkastinu. Það er enginn smátími.

Dofri Hermannsson, félagi minn og meðframbjóðandi, rifjaði það upp eða sagði um þetta að hann yrði áttræður þegar þessum 40 árum lyki. Ég verð þá 96 ára, það er svona hár aldur. Ég verð að vísu enn þá vel sprækur alþingismaður að berjast fyrir jafnaðarstefnunni og umhverfisvernd (Gripið fram í.) en það er nokkuð langur tími sem álverinu er gefinn með skattana. Það væri fróðlegt að vita, miðað við tilteknar forsendur, hvað þetta kostar í mati fjármálaráðuneytisins eða iðnaðarráðuneytisins eða Evrópumati sem þetta þarf að fara í.

Í þriðja lagi, forseti, spurði ég um þjóðhagslega hagkvæmni miðað við þær umræður sem verið hafa um þjóðhagslega hagkvæmni álvera og annarrar stóriðju síðustu ár og nánast áratugi þar sem traustir hagfræðingar og aðrir fræðimenn hafa gagnrýnt þann stóra sannleik sem hér ríkti fyrrum um hina gríðarlegu arðsemi af stóriðju af þessu tagi. Ég bendi á nýlega umfjöllun um þetta, bæði grein Sigurðar Jóhannessonar í bókinni Uppbrot hugmyndakerfis og grein Indriða H. Þorlákssonar, núverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Í báðum greinum er komist að þeirri niðurstöðu að arðsemi sé miklum mun minni en hér hefur yfirleitt verið látið. Indriði H. Þorláksson segir um þetta, með leyfi forseta:

„Í heild má segja að efnahagslegur ávinningur Íslands af starfsemi stóriðjuvera sé lítill og hafi farið minnkandi á síðustu árum.“

Það sem nefndin virðist hafa gert í þessu samkvæmt meirihlutaálitinu er að hún kallaði til tvo hagfræðinga eða hagfræðinema, þá Daða Kristófersson og Svein Agnarsson, sem vinna í Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og skrifa þar einhvers konar skýrslu um gagnrýni OECD á stóriðjustefnu Íslendinga. Þeirri skýrslu er ekki lokið hjá Hagfræðistofnun HÍ, sem er raunar ekki óumdeild. Hagfræðistofnun hefur framleitt pappíra sem mönnum hefur svelgst á, en sleppum því. Iðnaðarnefnd er hér að fræðast um skýrslu sem þessir tveir höfundar eru með í smíðum. Sú skýrsla hefur ekki fengið faglega gagnrýni, hún hefur ekki verið ritrýnd í neinum fagtímaritum og er ekki almenn eða opin. Það er engin leið að átta sig á því hvað í henni stendur.

Þessi vinnubrögð meiri hluta iðnaðarnefndar eru mér ekki að skapi. Þetta er það eina sem nefndin gerir til að ná utan um þjóðhagslega arðsemi af eigin völdum og tekur annars mark á því sem áður hefur verið sagt. Hvað segja þessir menn? Þeir segja eitt og annað, þeir segja m.a. það sem er fín niðurstaða að stórframkvæmdir séu heppilegar í niðursveiflu. Það segja þeir Daði Kristófersson og Sveinn Agnarsson, málvinir meiri hluta iðnaðarnefndar. Það var kannski ekki alveg nýtt, að stórframkvæmdir séu heppilegar í niðursveiflu. Það er aldagömul speki, að stórframkvæmdir séu heppilegar í niðursveiflu, kannski á okkar öldum — ég segi öldum — frægastar sem hluti af nýgjafarstefnu Delanos Roosevelts Bandaríkjaforseta í kreppunni miklu og þurfti ekki þá Daða Kristófersson og Svein Agnarsson til að segja okkur þetta.

Í fjórða lagi, forseti, kom ég fram með upplýsingar sem hæstv. iðnaðarráðherra aflaði mér í svari við fyrirspurn um þjóðhagslega hagkvæmni annars vegar ferðaþjónustunnar og hins vegar stóriðjunnar. (Iðnrh.: Það var gott svar.) Og það var gott svar, svo sannarlega. Þar kom m.a. fram að verðmætishlutfall — eins og við skulum kalla það — af þjóðarframleiðslu hjá ferðaþjónustunni hefur verið 16% að meðaltali á síðustu árum en 8% af álverunum. Ferðaþjónustan hefur tvöfalt hlutfall í þjóðarframleiðslu á við álverin en hér er aðeins um að ræða fjárfestingar. Ef maður tekur bara reksturinn eru tölurnar þannig að í ferðaþjónustunni er 13–17% en 2–5% í áliðnaðinum. (Gripið fram í.) Þessi iðnaður er sá sem við ætlum að styrkja með 3 milljarða kr. framlagi á þessu tímabili og með þeim skattafslætti sem þetta kann að fela í sér. (Gripið fram í: Ferðaþjónustan …) Um þetta, forseti, segir meiri hluti iðnaðarnefndar ekki nokkurn skapaðan hlut, þó er hún líka ferðamálanefnd. Í áliti meiri hluta iðnaðarnefndar eru aldrei nefndir neinir valkostir, aldrei fjallað um annað en þetta eina, álver og málatilbúnaðinn í kringum það. Hvergi er fjallað um annan orkufrekan iðnað eða framtíðargreinar ýmsar, bara plús eða mínus álver og stórvirkjanir. Þessi málatilbúnaður, sem er auðvitað ekki nýr hjá meiri hluta iðnaðarnefndar, minnir satt að segja mest á bifvélavirkjann í Spaugstofunni, þennan sem reiðir upp hamarinn og hefur kjörorðið „Allt vill lagið hafa.“

Í fimmta lagi, forseti, (Gripið fram í.) — mér er í raun og veru sama hverjir hlusta hér, ég flyt mál mitt líka til þjóðarinnar — vakti ég athygli á því eins og reyndar fleiri að það álver sem hér um ræðir, sem gera á samninginn um á að vera 360.000 tonn samkvæmt frumvarpinu en umhverfismat liggur ekki fyrir nema um 250.000 tonn. Sem betur fer var í nokkuð vandaðri umsögn meiri hluta umhverfisnefndar vakin sérstök athygli á því, með leyfi forseta, að mat Skipulagsstofnunar „snýr eingöngu að umhverfisáhrifum af fyrirhuguðu álveri“ — þ.e. miðað við 250.000 — „en ekki tengdum framkvæmdum“. Meiri hluti umhverfisnefndar segir enn fremur:

„Umhverfismat Skipulagsstofnunar byggist jafnframt á álveri með sömu framleiðslugetu og getið er í starfsleyfi, þ.e. 110 þúsund tonnum minni en framleiðslugetu samkvæmt samningi. Vekur meiri hlutinn athygli á þessu misræmi.“

Meiri hluti iðnaðarnefndar gerir ekki nokkurn skapaðan hlut með þessa ábendingu. Það er kannski ekki rétt að hún geri ekki nokkurn skapaðan hlut, heldur viðurkennir hún að „fabrikkan“ hafi ekki starfsleyfi. Og það er ekki umhverfismat umfram 250.000 en skýrir ekki fyrir okkur hvers vegna það var ekki eðlilegt að miða fjárfestingarsamninginn við þessi 250.000 heldur klykkir út með því að meiri hlutinn telji að þó sé þetta réttlætanlegt — það er þetta orð, „þó“, sem ekki er útskýrt. Okkur er ekki sagt hvers vegna ekki var þá hægt að setja reglur um viðbótarstærðina síðar og af hverju ekki er lögð til þá enn þá meiri stækkun því að talan er komin frá álfyrirtækinu og forgangsmönnum um álverið. Það er ekkert sjálfstætt mat sem liggur að baki þessari tölu frá ráðuneytinu og endar röksemdafærsla frá meiri hluta iðnaðarnefndar um þetta efni.

Í sjötta lagi benti ég á að ófrágengið væri um raflínur á Reykjanesskaga og nágrenni og það er einfaldlega um það að segja að iðnaðarnefnd hefur ekki áhuga á þeim þætti málsins. Umhverfisnefnd fjallar heldur ekki beinlínis um það en bendir þó á að umhverfismatið sé ekki frágengið við tengdar framkvæmdir. Hér á að fara í þessa samningagerð án þess að umhverfismat liggi fyrir um neitt annað en þessi 250.000 tonn. Það finnst mér ekki ábyrg afstaða, ég segi það hér með.

Í áttunda lagi, forseti, spurði ég hvort þetta þýddi ekki að hugsanlegt álver á Bakka væri úti vegna losunarheimilda og umfangs í hagkerfinu. Í öðru lagi hvort þetta væri ekki þannig að öll hin nýja stóriðja, mengunarminni eða mengunarlaus jafnvel, sem við höfum kallað stundum sætu stóriðjuna að gamni okkar, á orkusvæðinu suðvestanlands, sé ekki hreinlega búin nema þá að veitt verði til hennar rafmagn annars staðar að en frá jarðhitaorkuverunum á Reykjanesskaga og nágrenni. Þá væri auðvitað fyrst spurt um þær áætlanir sem uppi eru um neðri hluta Þjórsár. Um þetta fjallaði meiri hluti iðnaðarnefndar alls ekki, þar er ekkert um orkukosti eða möguleika á annarri orkufrekri atvinnustarfsemi, gagnaverum, sólkísilverksmiðjum eða álíka. Þar er ekkert um Þjórsá neðri sem sumum hefði þó þótt tilefni til miðað við mannaskipanina í nefndinni þegar álitið þar var afgreitt.

Í níunda lagi talaði ég svolítið um starfarökin, ég kallaði það „blackmail“ á ensku slangurmáli vegna þess að „fjárkúgun“, íslenska orðið, dugar ekki yfir það. Þegar verkefni af þessu tagi er fundið út reyna menn að reikna út sem allra glannalegast hvað þeir geta þá framleitt mörg störf og vegna þess að ekki er borið saman við neina aðra kosti eru menn nánast „blackmailaðir“ með því: Ætlar þú að vera á móti 300 störfum, 500 störfum, 8.000 störfum eða 11.000 störfum? Var það ekki sú tala sem hv. þm. Árni Johnsen nefndi í gær, sem er glannalegastur glannanna?

Ég spurði í þessari ræðu minni hvort ekki væru þá sömu rök á bak við að geyma geislavirkan úrgang í Loðmundarfirði eða bjóðast til að hafa Gvantanamó-fangelsið í Hnífsdal. Um þetta er svo sem engin umfjöllun frá nefndinni nema þá að telja upp sömu störfin þannig að hún situr við sama keip þar og sýnir ekki þann frumleika sem maður hefði kannski ætlast til af vandaðri vinnu í þessari nefnd.

Í tíunda lagi spurði ég sérstaklega um stöðu Century Aluminum sem er það fyrirtæki sem hér um ræðir vegna þess að Ágúst Þórhallsson hafði þá skrifað á vefsíðuna amx grein sem hét þessu nafni: Munu lánardrottnar Century Aluminum taka yfir Norðurálverkefnið?

Þar við bætast auðvitað nýlegar fréttir af gengi Alcoa og fréttir um álverð og stöðu álframleiðslunnar sem lesa má um í Fréttablaðinu í dag. Þar kemur fram að sjaldan eða aldrei hafa verið til jafnmiklar álbirgðir í heiminum og Kínverjar safna nú sérstaklega upp áli hjá sér sem þeir ætla svo að setja út á markað þannig að það er engin von til þess að álverð hækki í náinni framtíð og ósennilegt að álfyrirtækin vilji leggja út í ný ver. (Gripið fram í.)

Þá komum við að lokum að ellefta atriðinu sem ég spurði um á sínum tíma, samningurinn er hér sagður, fram og aftur í þessum deilum milli einstakra stuðningsmanna og hópa af þeim hér á þinginu og í samfélaginu, forsenda Helguvíkurálversins. Menn segja hér, eins langir og stuttir og þeir eru, að það sé beinlínis beðið eftir þessari samþjöppun, menn bíði með öndina í hálsinum eftir því að Alþingi Íslendinga komi þessum samningi í gegn. Þá standi jakkafataklæddir menn á flugvöllum Evrópu og Ameríku með gljáandi leðurklæddar stresstöskur með fullt af peningum, með 400 milljarða í vasanum að bíða eftir í farsímanum sínum að Alþingi Íslendinga hafi samþykkt þetta hér. Það er mikil ábyrgð að halda þessu fram og segja jafnframt að þegar þetta verður samþykkt hér á þinginu verði atvinna yfirfljótandi á Suðurnesjum með þúsundum afleiddra starfa og gríðarlegum kaupum á vöru og þjónustu um land allt. Það er mikil ábyrgð að halda þessu fram, forseti. Sömu stjórnmálamenn verða þá líka að æfa sínar ræður sem þeir ætla að flytja eftir tvo mánuði, hálft ár, við næstu kosningar ef þetta gerist ekki og það kemur í ljós að þetta frumvarp skiptir engu máli. Þetta er síðasta málið á síðasta efnisfundi þingsins á síðasta degi þessa mikla tíðindavetrar og samt vita allir í raun að þessi afgreiðsla skiptir ekki máli fyrir sjálft verkefnið, nánast engu máli. Því miður ræðst það ekki hér á Alþingi hvort þetta verður að veruleika, því miður. Menn geta blásið sig út í ræðustóli, barið sér á brjóst í fjölmiðlunum og þakkað sér þennan mikla árangur en þetta ræðst bara ekki hér.

Dofri Hermannsson, varaborgarfulltrúi og frambjóðandi Samfylkingarinnar, snjall og góður drengur af Dalaættum, hefur sagt þetta betur en ég. Ég ætla að ljúka ræðu minni með tilvísun í hans orð á netinu, með leyfi forseta:

„… það er búið að tala framkvæmdina svo mikið upp að það er pólitískt erfitt — einkum fyrir frambjóðendur í kjördæminu — að taka á málinu af skynsemi. Fáir vilja gefa færi á sér sem stjórnmálamanninum sem brá fæti fyrir 4.000 þúsund störf. Eða voru þau kannski orðin 8.000?

Þetta kann að vera klók afstaða fyrir stjórnmálamann. Og þó.

Þegar búið er að byggja upp miklar væntingar hjá kjósendum um fleiri þúsund störf verða vonbrigðin mikil þegar öllum er ljóst að ekkert verður af framkvæmdum. Verra verður það þó þegar kemur á daginn að af því það var búið að binda alla virkjanlega orku og áætlanir í áformum um Helguvíkurálver missa íbúar í Reykjanesbæ, Grindavík og Þorlákshöfn af gríðarlega mikilvægum tækifærum. Smærri verksmiðjum í umhverfisvænum iðnaði sem skapa mun fleiri störf og meiri virðisauka á hvert MW og staðnum betri ímynd.“

Þetta var Dofri Hermannsson. Mörður Árnason segir hér:

Meiri hluti iðnaðarnefndar hefur gefið út álit sem er óvandað, þar sem ekki er tekið á þeim hlutum sem er hægt að ætlast til að þingnefndir taki á í máli af þessari stærð. Það er ósköp einfalt, meiri hluti iðnaðarnefndar eða aðrir flutningsmenn þessa máls hér eða á Suðurnesjum eða í samfélaginu hafa ekki breytt afstöðu minni til frumvarpsins sem hér liggur fyrir.



[19:39]
umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir afar efnismikla ræðu þar sem kom fram fjöldinn allur af nauðsynlegum upplýsingum þegar þessu máli er fylgt úr hlaði á lokasprettinum. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að einu vegna þess að það vill svo til að einn af stóru flokkunum á Alþingi er einmitt flokkurinn sem hv. þingmaður situr fyrir á Alþingi og ég veit að hv. þm. Mörður Árnason og félagi hans sem hann nefndi í ræðu sinni oftar en einu sinni, Dofri Hermannsson, skrifuðu fyrir Samfylkinguna stefnu í umhverfismálum fyrir síðustu kosningar 2007, stefnuna Fagra Ísland. Mig langar til að vita hvort hv. þm. Mörður Árnason lítur svo á að sú umhverfisstefna sé nú með þessum gerningi og stuðningi Samfylkingarinnar við hann orðin að marklausu plaggi og þýðingarlausu eða þýðingarlitlu, hafi það plagg einhvern tíma haft einhverja þýðingu.



[19:40]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég kaus í þessari ræðu að flytja mín sjónarmið. Það vill svo til að þau njóta mikils stuðnings innan Samfylkingarinnar bæði í flokknum sjálfum og reyndar í þingliði Samfylkingarinnar og ekki síður meðal stuðningsmanna, en um daginn kom í ljós í könnun að meiri hluti almennings hafði tekið mark á þeim áróðri sem hafður hefur verið í frammi. Að vísu studdi meiri hluti stuðningsmanna Samfylkingarinnar álverið en um 44% stuðningsmanna hennar voru á móti því.

Ég tel ekki að umhverfisstefna okkar sem við höfum kennt við Fagra Ísland sé úr gildi fallin með þessum gerningi hér, þessu vandræðamáli sem Samfylkingin tók í arf frá síðustu ríkisstjórn og VG hefur ákveðið að láta fara í gegnum þingið af pólitískum ástæðum sem ekki eru kannski fagrar en ákaflega skiljanlegar.

Fagra Ísland gerði ráð fyrir því að við felldum þessi átök og eðlilegar deilur um nýtingu orkuauðlindanna í ákveðinn farveg með vandaðri rammaáætlun sem nú heitir Um vernd og nýtingu náttúrusvæða, og lagði fram lista yfir þau svæði sem væri sjálfsagt að taka út fyrir þann sviga og ákveðna aðferðafræði í bæði náttúruverndarmálum og loftslagsmálum sem enn gildir. Ég skal hins vegar viðurkenna að ég átti ekki von á því þegar við Dofri settumst niður að beiðni þáverandi formanns flokksins og bjuggum til uppkast að þessari stefnu að ég stæði hér í þeim sporurm að þurfa að horfa upp á þessa álverssamþykkt að aðeins tveimur árum liðnum.



[19:42]
umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef nokkra samúð með hv. þingmanni að hann skuli nú standa hér í ræðustóli og flytja innblásna ræðu, vel samda, það var mikil vinna lögð í ræðuna, og hann skuli þurfa að viðurkenna það hér fyrir þingi og þjóð að stór hluti kjósenda sem kýs flokkinn skuli vera sama sinnis. Ég verð að segja það að Samfylkingin tók ekki þetta mál í arf frá síðustu ríkisstjórn óbeðin. Hún ákvað það upp á eigin spýtur að taka málið í arf og í fóstur og koma því í gegnum þingið.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð ákvað hins vegar að leggjast ekki gegn því að málið yrði tekið í gegnum ríkisstjórn. Hvað það kann að hafa vegið þungt á metunum við myndun síðustu ríkisstjórnar, þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, skal ég ekki segja, um það veit ég ekki, en það er skjalfest að Vinstri hreyfingin – grænt framboð formúleraði málið þannig að það var ekki lagst gegn því að iðnaðarráðherra fengi að taka málið í gegnum ríkisstjórn. Stuðningur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við þetta mál og þingmanna þess flokks hefur alla tíð verið ljós og hann á eftir að koma í ljós í atkvæðagreiðslu á eftir. En eins og ég segi, mitt sjónarmið er það að það leiki nokkur vafi á umhverfisstefnu Samfylkingarinnar eftir þann gerning sem hér er að fara í gegn með meirihlutastuðningi Samfylkingarinnar.



[19:44]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég kaus að lýsa í þessari ræðu afstöðu minni til þessa máls með ýmsum rökum og athugasemdum og hyggst ekki fara mikið lengra í því. Við erum sammála, ég og hæstv. umhverfisráðherra, í afstöðu okkar til málsins og í ýmsu öðru sem varðar umhverfismál þó að við séum í tveimur flokkum enn þá af ástæðum sem sprottnar eru af öðrum hlutum.

Ég get bara endurtekið þetta: Nei, ég tel að umhverfisstefna Samfylkingarinnar sé í fullu gildi. Ég veit að mikill meiri hluti forustumanna Samfylkingarinnar vill einlæglega koma henni í brúk enda hefur ekki verið neitt lát á, hvað eigum við að segja, flaggskipi þessarar áætlunar eins og það hefur komist í gegnum tvær ríkisstjórnir, rammaáætluninni. Ég bind miklar vonir við það að þegar þessum áfanga lýkur í því verki geti skapast ný undirstaða sem m.a. kemur í veg fyrir slys eins og hér kynni að vera í uppsiglingu, nefnilega það að allar orkulindir á Reykjanesskaga, allar tækar orkulindir — nema maður tali um stórslys, stórumhverfisslys — renni aðeins á þennan stað. Síðan verði ekki meira eftir fyrir annan orkufrekan iðnað en orka úr vatnsaflsvirkjunum eða jarðhitavirkjunum sem ekki verður við unað að nýttar séu með þessum hætti og þá er kannski ágætt að vísa til ágætrar ræðu sem á köflum var og Kristinn H. Gunnarsson flutti hér áðan, um verðmæti orkulindanna fyrir Íslendinga í bráð og lengd.



[19:46]
Kjartan Ólafsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að byrja ræðu mína á því að fagna eins og þeir þingmenn sem hafa hér talað og styðja það frumvarp sem hér liggur fyrir. Auðvitað eigum við að fagna þegar við sjáum fram á að það er að nást endir á mál sem hefur verið lengi í vinnslu og menn hafa trú á því að þarna sé verið að vinna verkefni sem muni skapa mikla atvinnu. Það er einmitt það sem samfélagið þarf í dag.

Ég verð hins vegar, frú forseti, að viðurkenna að eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar er ég uggandi um málið eins og hann fór yfir þetta frumvarp og eins og hann horfir á málið frá sínum bæjardyrum. Ég verð að viðurkenna að ég get ekki að fullu og öllu treyst Samfylkingunni til að fylgja þessu máli til enda eins og þarf að gera, því miður.

Auðvitað erum við sammála um að nýta náttúruauðlindir okkar, eins og vatnsafl og gufu til atvinnuuppbyggingar, til gjaldeyrissköpunar. Það er hlutur sem við þurfum að gera og vinna að og það hefur verið gert um langan tíma, og ég vil taka undir öll þau orð sem hafa lotið að þeim þætti málsins. Ég vil fara inn á tvo þætti málsins sem er annars vegar álit meiri hluta umhverfisnefndar, þar sem ég á sæti, og fara örlítið yfir það álit og hvað þar kemur fram, og svo vil ég aðeins fara yfir þann þátt sem mér finnst að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi ekki greint frá og farið yfir og það er hvernig á að skaffa orku í það álver sem hér um ræðir.

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst fara yfir umsögn umhverfisnefndar sem hún gaf iðnaðarnefnd en þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að Skipulagsstofnun hefur skilað áliti um mat á umhverfisáhrifum og er helsta niðurstaða stofnunarinnar sú að fyrirhugað álver í Helguvík muni ekki valda neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag.“

Þetta er auðvitað afar mikilvægt í þeirri miklu umræðu sem hér hefur farið fram um umhverfisþátt þessa máls.

„Stofnunin bendir þó réttilega á að matið snýr eingöngu að umhverfisáhrifum af fyrirhuguðu álveri en ekki tengdum framkvæmdum. Þá eigi þeir virkjunarkostir sem orkuveitendur álversins hyggjast nýta eftir að fara í umhverfismat.“

Síðan segir áfram um mengunarþáttinn, með leyfi forseta:

„Niðurstaða líkanreikninga er þó að styrkur efnanna í andrúmslofti“, þ.e. brennisteinstvíoxíði, „vegna útblásturs frá álverinu verði innan umhverfismarka og viðmiðana sem sett hafa verið á Íslandi og í Evrópusambandinu.“

Þetta er afskaplega mikilvægt að við höfum á hreinu. Svo segir áfram:

„Nánar er kveðið á um skyldur rekstraraðila til umhverfisvöktunar í 5. kafla starfsleyfis sem Umhverfisstofnun hefur gefið út.

Í umhverfismati Skipulagsstofnunar kemur skýrt fram að álver í Helguvík muni hafa verulega neikvæð áhrif vegna losunar gróðurhúsalofttegunda enda reiknast losunin um 13% af heildarlosun Íslendinga viðmiðunarár Kyoto-bókunarinnar 1990. Álverið hefur nú fengið úthlutað 539 þúsund losunarheimildum frá úthlutunarnefnd losunarheimilda sem jafngildir 150 þúsund tonnum áls á ári.“

Svo mörg voru þau orð í þessum kafla og auðvitað þarf engan að undra það að gróðurhúsalofttegundir aukast við þessa framkvæmd, það vita allir sem þekkja til.

Frú forseti. Ég ætla aðeins að fara frekar í það sem meiri hluti umhverfisnefndar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir samningi um álver sem anni framleiðslu á allt að 360 þúsund tonnum á ári en einungis hefur verið úthlutað losunarheimildum fyrir allt að 150 þúsund tonn á ári. Þá er starfsleyfi Umhverfisstofnunar vegna álversins gefið út vegna reksturs álvers í Helguvík með allt að 250 þúsund tonna ársframleiðslugetu á áli og er gildistími þess til ársloka 2024. Bæði losunarheimildir og starfsleyfi gera því ráð fyrir minni ársframleiðslu en áætlaðri framleiðslugetu álversins samkvæmt þeim samningi sem í frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að gera. Umhverfismat Skipulagsstofnunar byggist jafnframt á álveri með sömu framleiðslugetu og getið er í starfsleyfi, þ.e. 110 þúsund tonnum minni en framleiðslugetu samkvæmt samningi. Meiri hlutinn vekur athygli á þessu misræmi.“

Svo mörg voru þau orð og undir þetta ritar meiri hluti hinnar virðulega nefndar umhverfisnefndar og samþykkir þar með þessa framkvæmd.

Síðan langar mig aðeins að vitna í nefndarálit frá minni hluta iðnaðarnefndar þar sem undir skrifar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Hv. þingmaður víkur að því og segir í texta þar sem hún vitnar til blaðaviðtals við sveitarstjóra Ölfuss að það séu möguleikar á að flytja alla raforku Þjórsárvirkjana á Suðurnes. Mér finnst eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sé með þeim orðum að segja að það eigi að virkja Neðri-Þjórsá. Ég get auðvitað fagnað því að Vinstri grænir skuli vera með það í texta hér og vitna til þess með þeim hætti sem hér er gert, að neðri hluti Þjórsár verði virkjaður, en um leið eru þeir að reyna að koma upp óeiningu milli sveitarfélaganna á Suðurlandi og á Suðurnesjum, í sama texta og sama kafla þar sem sagt er að sveitarstjóri Ölfuss muni ekki heimila línulögn. Þarna finnst mér, frú forseti, að við þurfum að staldra aðeins við og fara yfir málið.

Það er einfaldlega ekki nærri búið að virkja alla þá orku sem mögulegt er að virkja á Suðurnesjum. Það er einungis farið að bora tilraunaholur í Krýsuvík þannig að af því svæði má kannski fá um 300 megavött. Á Reykjanesi eru jafnframt fleiri svæði sem hægt er að virkja til þess að fullnægja þeirri orkuþörf sem álverið í Helguvík hefur samkvæmt þeim leyfum sem ég hef farið hér yfir. Það er eðlilegt og sjálfsagt að heimaaðilar á Suðurlandi, eins og þeir aðilar sem eru í forsvari fyrir sveitarfélagið Ölfus, fyrir sveitarfélögin við Þjórsá, Tungnaársvæðið, Gnúpverja- og Skeiðahreppur, Ásahreppur, Rangárþing ytra, það er eðlilegt að þeir aðilar og forsvarsaðilar þeirra sveitarfélaga vilji atvinnuuppbyggingu tengda þeirri orku sem framleidd er á því svæði, það er bara ofur eðlilegt. Með sama hætti hafa Skagfirðingar talað um þá orkunotkun sem hugsanlega kæmi til í Skagafirði við virkjanir þeirra fljóta sem þar eru. Ég held að við eigum að ganga þannig um þetta mál að við séum ekkert að ljúka þeim virkjunarframkvæmdum og þeim virkjunarmöguleikum í þessu landi með því að virkja fyrir álverið í Helguvík, það er bara einfaldlega ekki svo.

Mér fannst hins vegar dálítið sérkennilegt að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem er hér einhvers staðar í hliðarherbergjum, viki ekki einu orði að því hvernig ætti að afla orkunnar. Sá hv. þingmaður hefur verið á móti því alla tíð að það verði virkjað í neðri hluta Þjórsár. Mér finnst skorta á að þingmenn Samfylkingarinnar hafi talað skýrt um það hvernig og hvar eigi að virkja og hvernig þeim málum eigi að vera háttað. Hv. þingmaður, sem er þingmaður Suðurkjördæmis, situr ekki í salnum, hann fylgist ekki með umræðunni og fer í felur til þess að þurfa ekki að tala um þessi mál, atvinnuuppbyggingu í Suðurkjördæmi og þá orku sem þar er óbeisluð.

Ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra hefur skrifað grein um það og hefur skilning á því, sá ágæti ráðherra, að heimaaðilar vilji nýta orkuna í héraði. Ég treysti því að sá ráðherra, á meðan hann fær að vera í stól iðnaðarráðherra, muni styðja það áfram eins og hann hefur gert hingað til að aðilar geti nýtt þá orku sem beisluð er í héruðunum sem næst virkjunarstað. Það er það sem ég vil koma skýrlega á framfæri, frú forseti, að það er hlutur sem við eigum að gera enda er það hagkvæmast að nýta orkuna sem næst upprunanum, það vitum við. Þá verður minnst umhverfismengun, ef svo má að orði komast, með línulagnir, landsvæði sem fara undir háspennulínur, við minnkum það eins og hægt er með því að vera með notkunina sem næst upprunanum. Það er hlutur sem er líka hagkvæmnismál vegna þess að það eru töp, það eru þrátt fyrir allt gríðarlega mikil töp við flutninga á orku og það er það sem við þurfum að minnka sem mest og láta sem flestar byggðir landsins fá að njóta þeirrar orku sem er aflað í heimabyggð og má þar nefna að á Suðurlandi er eitt stærsta orkubú landsins og mest orkan framleidd en er nánast öll flutt úr héraði. Það er það sem ég vil koma skýrlega á framfæri að þeir aðilar fylgist grannt með hvernig þessum málum vindur fram.

Ég verð að endurtaka að ég hef áhyggjur af því hvernig hv. þm. Mörður Árnason talaði hér áðan.



[19:58]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður átaldi hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fyrir að vera ekki hér í salnum þegar hann hélt ræðu sína. Nú er það þannig að fæstir þingmanna Sjálfstæðisflokksins eru hér í salnum undir þessari gagnmerku ræðu hv. þingmanns. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom hins vegar hér upp áðan og lýsti skoðun sinni með mjög ítarlegum hætti.

Hins vegar getur hv. þm. Kjartan Ólafsson ekki gert neina sérstaka kröfu, og það er ekkert tilefni til þess, á kollega sinn úr kjördæminu, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson um að hann lýsi yfir einhverri afstöðu varðandi það hvort orka eigi að koma til Helguvíkurframkvæmdar úr Neðri-Þjórsá. Ég sem iðnaðarráðherra hef bara séð fyrir því, það liggur alveg skýrt fyrir að Neðri-Þjórsá verður ekki virkjuð til þess að finna orku í Helguvík. Ég hef margsinnis sagt það og ekki bara sagt það heldur getur hv. þingmaður lesið það sjálfur út úr þeim samningi sem iðnaðarráðuneytið gerði á sínum tíma. Þetta er í gadda slegið.

Sömuleiðis er það alveg ljóst eins og ég hef sagt í þessari umræðu áður að stjórnvaldið, a.m.k. meðan það er í mínum höndum, mun ekki heimila að menn ráðist með ágengum hætti í nýtingu jarðorkunnar sem er að finna á svæði þeirra tveggja orkufyrirtækja sem koma að þessu máli. Ég hef sagt það algjörlega skýrt að ég hef gefið starfshópi um rammaáætlun skýr fyrirmæli um það að vinna starfsreglur um það með hvaða hætti eigi að nýta jarðorkuna með sjálfbærum hætti. Ég hef sagt það úr þessum stóli að ég hyggst staðfesta þær reglur óbreyttar og þar hafa valist fremstu sérfræðingar þjóðarinnar til þess að vinna. Það liggur sem sagt alveg ljóst fyrir að þó að ég hafi lagt fram þennan samning er hann ekki í sjálfu sér nokkurs konar óútfyllt ávísun um að menn geti aflað orkunnar með hvaða hætti sem er og það er algjörlega klárt og kvitt að í Neðri-Þjórsá verður ekki farið vegna þessara framkvæmda.



[20:00]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir andsvarið. Það er tvennt sem kemur þar fram — eða þrennt í raun, hann bregst ekki sem fóstri hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar og svarar fyrir hann hér. Það er góður greiði. Ég fagna því að hæstv. ráðherra vill að orkan verði nýtt sem næst upprunanum og í heimahéraði. Jafnframt kemur fram í þessu ágæta andsvari að hæstv. ráðherra geti hugsað sér að virkja neðri hluta Þjórsár og ég held að það sé þessari þjóð og samfélagi okkar til góðs að við nýtum þá orku. Það er einhver hagkvæmasti orkukostur sem við eigum að nýta rennslisvatnið í Þjórsá þar sem búið er að byggja upp alla miðlunina. Það eru rennslisvirkjanir sem kosta lítið og þessi orka verður okkur gjöful og góð.



[20:01]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ver alla mína félaga, ekki bara hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. Ég hef t.d. varið fullkomlega málfrelsi hv. þm. Marðar Árnasonar sem hefur allt aðra skoðun á þessu máli en ég. Ég tel að hann hafi fullan rétt til að koma hingað eins og hann hefur gert og flutt mál sitt með sterkum rökum, ég er þeim bara ósammála.

Hv. þingmaður hefur sérstakar gáfur til að túlka, er það vel. Ég sem iðnaðarráðherra hef margsinnis sagt að það kunni hugsanlega að koma til minna kasta að skera úr um deilumál varðandi hvort neðri Þjórsá verði virkjuð. Til að ég geti sinnt þeirri skyldu sem þá mundi á mér hvíla, m.a. rannsóknarskyldunni sem er gríðarlega rík í stjórnsýslulögum, hef ég gætt þess mjög vendilega að ég hef aldrei látið uppi hver afstaða mín er til þess hvort virkjað verði í neðri Þjórsá. Ástæðan er einfaldlega sú að sú ákvörðun, ef það verður ég sem tek hana, verður ekki tekin fyrr en búið er að uppfylla rannsóknarskylduna og skoða það mál til hlítar. Það tilefni hefur ekki gefist vegna þess að Landsvirkjun hefur aldrei komið með bón til mín um að neðri Þjórsá verði virkjuð, það verður að vera algjörlega skýrt.

Ég hef, eins og meiri hluti þeirra sem styðja minn flokk, lýst yfir að við þessar aðstæður styðji ég Helguvíkurframkvæmdina. Ég hef gert það vegna þess að með tilliti til atvinnuleysisstigs núna er ljóst að sú framkvæmd mun skapa fjölda starfa á þeim tíma þegar efnahagslægðin er dýpst og þegar atvinnuleysið rís hæst. Það skiptir máli fyrir mig og ég geri mér alveg grein fyrir því að á þessu eru skiptar skoðanir og ég hef sagt hér í umræðunum, m.a. í tilefni af ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, að ég ber fulla virðingu fyrir hennar rökum og rökum hv. þm. Marðar Árnasonar. Ég hef teflt fram mínum mótrökum og vona að menn virði þau líka. En ég vil að (Forseti hringir.) afstaða mín til neðri Þjórsár og tengsla hennar við þessa framkvæmd sé algjörlega skýrt.



[20:04]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi fá einmitt að koma hér upp og vera, að ég held, síðasti ræðumaður á þessu þingi. Það er sérstaklega ánægjulegt að við séum einmitt að fjalla um þetta mál, fjárfestingarsamninginn varðandi Helguvík. Ástæðan fyrir því að ég gleðst svona yfir þessu eru þær upplýsingar sem koma fram um fjölda starfa sem skapast við þetta verkefni. Talað er um að áætluð ársverk við byggingu álversins verði um 4.300 og fjöldi starfa muni ná hámarki á árinu 2011 og verði þá 1.200–1.500 auk þess sem áætlað er að í kringum framkvæmdina verði afleidd störf um 8.000–9.000 ársverk í heildina.

Í tilefni þess vildi ég gjarnan lesa, (Iðnrh.: Má ekki nota hjálpar…?) með leyfi forseta (Iðnrh.: Og iðnaðarráðherra.) — og iðnaðarráðherra, leiðara úr dagblaðinu DV. Þar segir, með leyfi forseta:

„Andri Snær Magnason rithöfundur dregur upp hjákátlega mynd af hjákátlegu landsbyggðarfólki í heimildarmynd sinni Draumalandinu sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum. Andri birtir myndskeið af fögnuði Húsvíkinga og Reyðfirðinga yfir álversframkvæmdum, sem virðist fádæma heimskulegur í ljósi drungalegs boðskapar myndarinnar.

Sú skoðun að Íslendingar ættu að beita sér gegn verksmiðjum og „bara gera eitthvað annað“ skaut rótum í þjóðarsálinni á þeim tíma sem uppgangur í þjóðfélaginu var drifinn áfram af stórfelldum lántökum. Þjóðfélagið virtist vera ósigrandi. Allt gekk upp þótt lítið væri reynt. Þegar allt kemur til alls var það sá hæfileiki Íslendinga að taka lán, taka áhættu, stunda spillingu og veðsetja verðmætin sem olli góðærinu síðustu ár. Út frá þessari forsendu, að allt kæmi af sjálfu sér, spratt hugmyndin um að Íslendingar gætu auðveldlega sleppt því að framleiða verðmæti, án sérstakra afleiðinga. Öfgar afturhaldssinna spretta úr hinu firrta samfélagi, rétt eins og frjálshyggjustefna Sjálfstæðisflokksins á sama tíma.

Margt fólk úti á landi dreymir um að starfa við eitthvað annað en sjávarútveg eða sauðfjárrækt en verður að horfa upp á drauma sína dofna eða flytja burt. Ólíkt því sem margir náttúruverndarsinnar halda fram, gat fólk á Reyðarfirði ekki ákveðið að vinna bara við eitthvað annað. Í frjálsu hagkerfi verður einhver að vilja borga fyrir vinnuna. Blind trú á því að álver leysi allt er skaðleg en trúin á að sprotar spretti sjálfkrafa um víðan völl óháð markaðslögmálum er engu betri.

Útsýnið frá Austurvelli er mjög takmarkað. Það sýnir ekki fábreytileikann í atvinnumálum margs landsbyggðarfólks. Andri Snær hæðist að fögnuði fólksins sem sá drauma sína rætast um að brjótast út úr einhæfni fiskvinnslu. Skilaboð hans til landsbyggðarfólksins eru í grófum dráttum: Þið getið bara gert eitthvað annað. Líkt og fólkið hafi ekki reynt það sem minnsti grundvöllur var fyrir. Viðhorfið gagnvart fólkinu minnir um margt á meint viðbrögð Frakkadrottningarinnar Marie Antoinette við bón múgsins um brauð: „Geta þau ekki bara borðað kökur?“ Öfgafullir náttúruverndarsinnar og frjálshyggjumenn byggja kröfur sínar á þetta reddast-hagfræði.“

Nýtt Ísland verður að hreinsa sig af þessu. Því tel ég mjög við hæfi þegar við förum í kosningar, þar sem við erum að fara að velja þá sem munu stjórna landinu og byggja upp hið nýja Ísland, að við ljúkum þinginu á þessu máli þar sem við ætlum að skapa raunveruleg störf, störf sem munu byggja á raunverulegri framleiðslu á raunverulegum verðmætum.