136. löggjafarþing — 135. fundur
 17. apríl 2009.
almenn hegningarlög, frh. 3. umræðu.
frv. AtlG o.fl., 342. mál (bann við kaupum á vændi). — Þskj. 959.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[20:25]

Frv.  samþ. með 27:3 atkv. og sögðu

  já:  AtlG,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁRJ,  BjörgvS,  EyH,  GuðbH,  GAK,  GSv,  HSH,  JóhS,  KVM,  KJak,  KaJúl,  KolH,  KHeim,  LB,  MS,  MÁ,  SF,  SJS,  SVÓ,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
nei:  BBj,  JM,  KÓ.
16 þm. (ArnbS,  ÁKÓ,  ÁJ,  ÁMM,  BjörkG,  DPál,  EKG,  GMJ,  GSB,  HerdÞ,  PHB,  REÁ,  RR,  SKK,  StB,  ÞKG) greiddu ekki atkv.
17 þm. (ÁMöl,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  EMS,  EBS,  GÞÞ,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JBjarn,  JónG,  KHG,  KÞJ,  KLM,  ÓN,  VS) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[20:22]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það mun hafa verið á útmánuðum árið 2000 sem við hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman og sá sem hér stendur fluttum í fyrsta sinn frumvarp með hliðstæðu efni. Það frumvarp sem hér er að verða að lögum er sem sagt afrakstur 10 ára baráttu. Það naut ekki mikils stuðnings í byrjun og fáir tóku undir þau sjónarmið sem þar var fyrst hreyft í íslenskum stjórnmálum, að við ættum að breyta okkar rétti í þá átt að kaup á vændi yrðu gerð refsiverð.

Með þessum gleðilegu tímamótum sem hér eru að verða kemst íslenskt réttarfar að mínu mati loksins í það horf sem það hlýtur eftirleiðis að verða, að refsivert sé að kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju. Í mínum huga erum við að upplifa stóran dag í kvenfrelsisbaráttu. Ég fagna þessum tímamótum sérstaklega.



[20:23]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er afar gleðilegt að við erum að ganga til atkvæða um svokallað vændismál. Héðan í frá verður refsivert að kaupa vændi og þeir sem gera það skulu borga sekt eða fara í fangelsi í allt að eitt ár. Ef um barn undir 18 ára aldri er að ræða getur fangelsisvistin varað allt að tveimur árum.

Ég vil nefna að Landssamband framsóknarkvenna var meðal þeirra 14 kvennasamtaka sem ályktuðu sérstaklega um þetta mál árið 2003. Ég vil líka nefna að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson og fyrrverandi þingmaður, Jónína Bjartmarz, voru á þessari skoðun þegar málið var skoðað í nefnd. Þrír hv. þingmenn frá Framsóknarflokknum eru á þessu máli, sú sem hér stendur og einnig hv. þm. Eygló Harðardóttir og Helga Sigrún Harðardóttir.

Þó að ég haldi þessu til haga vil ég sérstaklega taka fram að hæstv. umhverfisráðherra Kolbrún Halldórsdóttir hefur barist fyrir þessu máli (Forseti hringir.) í öll þessi ár og það er sómi að því að við göngum núna til atkvæða um það. Ég þakka henni sérstaklega (Forseti hringir.) fyrir ötula baráttu og það hefur verið ánægjulegt að geta stutt hana.



[20:24]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég óska okkur öllum hjartanlega til hamingju með daginn í dag, Alþingi Íslendinga og Íslendingum öllum með þennan stóra áfanga, ekki bara í kvennabaráttu heldur í mannréttindabaráttu. Það er brotið í blað í Íslandssögunni með samþykkt þessa frumvarps og ég tek undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem talaði á undan mér, það eru margir sem hafa komið að þessum málum, m.a. hæstv. núverandi umhverfisráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir, margar þær þingkonur sem eru núna í þessum sal og aðrir þingmenn. Þetta er stór dagur í íslenskri kvennabaráttu.