137. löggjafarþing — 7. fundur
 27. maí 2009.
um fundarstjórn.

umræða um stöðu heimilanna.

[13:32]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Það sem mig langar að vekja athygli á og ræða örstutt snertir vissulega fundarstjórn forseta. Ég velti fyrir mér hvernig stendur á því að sú umræða sem fara átti fram um stöðu heimilanna getur ekki orðið, hvers vegna forsætisráðherra getur ekki orðið við því að ræða þetta stóra og mikilvæga mál á þessum degi eins og fyrir fram var samþykkt og ákveðið á fundi þingflokksformanna. Mig langar að fá að vita það eða þá að forseti grennslist fyrir um hvers vegna þessi umræða getur ekki orðið. Það er mjög mikilvægt að hún eigi sér stað. Ég veit að forsætisráðherra á mjög annríkt vegna mikilvægra mála. En þetta er eitt af þeim stóru málum sem þarf að ræða og þess vegna er mjög mikilvægt að fá að vita hvers vegna ekki er hægt að hafa þessa umræðu. Það getur vel verið að það séu eðlilegar skýringar á því en það er mjög gott að þær komi fram því að eins og ég sagði var á fundi formanna í byrjun vikunnar ákveðið að þessi umræða mundi fara fram og ég sakna þess að svo skuli ekki vera.



[13:33]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vakti athygli á. Við söknum þess einnig, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að þessi umræða um hag heimilanna skuli ekki fara fram í dag. Ég tek eindregið undir þau orð hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar að það er auðvitað forgangsmál á þessu þingi að ræða um hagsmuni heimilanna við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu. Það er mikilvægt að fram komi einhverjar skýringar á því af hverju sú ákvörðun var tekin að slá af þær utandagskrárumræður sem fyrirhugað var að hafa í þessari viku. Ég bendi á að þrátt fyrir að ráðherrar gegni mikilvægum skyldum á öðrum vettvangi hafa þeir einnig mikilvægar skyldur gagnvart þinginu.



[13:34]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir þær athugasemdir sem fram hafa komið af hálfu hv. þingmanna sem hafa gert athugasemd við að ekki hafa fengist nægilega skýrar útskýringar á því hvers vegna boðuð umræða um jafnmikilvægt mál og fjármál, um stöðu heimilanna, getur ekki farið fram. Það er rétt að taka það fram að við höfum skilning á því ef hæstv. forsætisráðherra er önnum kafin við verkefni sem þola enga bið. En það er mjög mikilvægt, fyrst talað er um að það þurfi að vera gott samstarf á milli ríkisstjórnarinnar og Alþingis, að þegar svona kemur upp eins og í dag þar sem löngu boðuð umræða um jafnmikilvægt mál eins og það sem hér átti að ræða getur ekki farið fram, séu gefnar skýringar sem komið sé til skila til þingflokkanna, sérstaklega til þeirra sem báðu um umræðuna. Menn hafi það þá á hreinu hvers vegna hæstv. forsætisráðherra hefur ekki tíma til að koma í þingið til að sinna umræðunni.

Ég ítreka að við gerum okkur grein fyrir því að það kunna að vera lögmætar, eðlilegar og gildar ástæður fyrir því en við þurfum að fá að vita þær og í tæka tíð.



[13:36]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að á fundum formanna þingflokka með forseta var rætt fyrir nokkru að tilteknar umræður færu fram á tilteknum dögum. Fremst í forgangi var umræðan sem var í fyrradag, um stöðu efnahagsmála.

Hæstv. forsætisráðherra var þann dag í þinginu og svaraði fjórum óundirbúnum fyrirspurnum. Síðan var ágæt umræða í tæpa tvo klukkutíma um stöðu efnahagsmála. Í dag getur hæstv. forsætisráðherra ekki komið hingað einfaldlega af því að nú stendur yfir stíf fundalota með þeim sem kallast yfirleitt aðilar vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmálann. Þeim umræðum er að ljúka. Þeim hefur miðað vel og stóðu langt fram á gærkvöldið og standa í allan dag. Þess vegna gat forsætisráðherra ekki verið við þessa umræðu í dag og eins og allir vita færast oft á milli daga umræður utan dagskrár um einstök málefni þótt þau séu gríðarlega brýn. Enginn efast um það, allra síst forsætisráðherra sem er viðstödd hverja umræðu sem beðið er um þegar tími er til. Sú umræða fer því fram um leið og forsætisráðherra getur verið viðstödd.



[13:37]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem kom fram hjá þingflokksformönnum sem talað hafa að það skiptir afskaplega miklu máli að gefnar séu greinargóðar upplýsingar um breytingar eins og hér er um að ræða. Hv. þingmaður og þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, segir okkur að forsætisráðherra sé mjög upptekin við að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að því að ná sáttum um þær breytingar sem eru fram undan og nauðsynlegar eru. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt. Ég bið fyrir kveðjur og vonast til þess að menn nái góðri lendingu, það er afskaplega mikilvægt. Hins vegar verðum við að ræða um málefni heimilanna og ég treysti því að það gerist sem allra fyrst.



[13:38]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá skýringu sem fram kom frá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni á því hvers vegna hæstv. forsætisráðherra gat ekki verið við umræðuna. Ég tel að það sé mikilvægt þegar svona kemur upp eins og í dag að slíkum skilaboðum með viðeigandi skýringum sé komið til þingflokkanna þannig að menn geti gert sér grein fyrir hvað veldur töf. En ég vil líka ítreka það og benda á að þessi umræða, sem ég tel vera mjög mikilvæga, um fjárhagsstöðu heimilanna í landinu og viðbrögð við þeim vanda sem nú er uppi og hefur verið að magnast með hverri viku sem líður, mun að öllum líkindum frestast fram yfir helgi og fram í næstu viku þannig að það er ekki víst hvenær hún getur farið fram. Það er nokkuð síðan beðið var um þessa umræðu. Ef ég man rétt kom umræðubeiðnin fram í þar síðustu viku þannig að umræðan hefur að mínu mati dregist úr hófi fram, sérstaklega í ljósi mikilvægis þess efnis sem hér á að ræða.



[13:39]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir taka undir þessa umræðu og þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir þessar skýringar. Ég fagna því að hæstv. ríkisstjórn sé önnum kafin við að reyna að ná samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmála sem mun án efa koma heimilunum og fyrirtækjunum að gagni. Það er það sem þessi utandagskrárumræða átti að fjalla um. En ég vil spyrja í þessu samhengi hvort það liggi fyrir hvenær áætlað sé að kynna það fyrir hv. Alþingi, ekki síst fyrir stjórnarandstöðunni, vegna þess að í anda góðs samráðs og samvinnu sem mikið er rætt um, ekki síst á tyllidögum, er talað um að vinna þetta allt í sameiningu. Ég fagna því að verið sé að vinna með aðilum vinnumarkaðarins en ég sakna þess óneitanlega að ekki skuli haft samráð á Alþingi og þá ekki síst við stjórnarandstöðuna.