137. löggjafarþing — 7. fundur
 27. maí 2009.
Nýsköpunarsjóður námsmanna.
fsp. BJJ, 23. mál. — Þskj. 23.

[14:45]
Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Staða námsmanna í dag er mjög erfið, a.m.k. hjá mörgum þeirra, erfiðleikar við að fá vinnu í ljósi mikils atvinnuleysis og við hljótum að velta fyrir okkur hvernig kröftum þeirra sé best varið núna þegar sumarið er að ganga í garð. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra um Nýsköpunarsjóð námsmanna: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra efla nýsköpunarsjóðinn og þar með fjölga tækifærum og störfum fyrir námsmenn?

Eftir að ég lagði þessa fyrirspurn fram kom fréttatilkynning frá menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti um að 15 millj. hefðu verið settar í það að styrkja nýsköpunarsjóðinn þannig að í raun og veru er búið að svara þessari spurningu að hluta. En ég velti fyrir mér hvaða áhrif þessi fjárframlög hafi, hvort þetta sé nægjanlegt til að mæta þeirri brýnu þörf sem blasir við hjá námsmönnum, hvort ekki sé rétt að við virkjum það hugvit sem býr í ungu og mjög frjóu fólki og við eflum þennan sjóð enn frekar. Ég get nefnt því til staðfestingar að árið 2003 var 161 verkefni til handa námsmönnum styrkt en einungis 79 árið 2008, það voru því helmingi færri verkefni styrkt árið 2008 en árið 2003. Ég velti fyrir mér í þessu samhengi hversu mikil fjölgun verður við þær 15 milljónir sem iðnaðarráðuneytið og menntamálaráðuneytið hafa ákveðið að verja til nýsköpunarsjóðsins en við gerum okkur grein fyrir því að vandamálið er mjög stórt. Næsta fyrirspurn, sem ég beini til hæstv. ráðherra á eftir, er einmitt um sumarnám í háskólum landsins og þessar tvær spurningar tengjast í raun og veru því mikla vandamáli sem blasir við námsmönnum í dag. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hún telji að nóg sé að gert að setja 15 millj. kr. í Nýsköpunarsjóð námsmanna, hvort það mæti þeirri gríðarlega miklu þörf sem er í samfélaginu og hvort ekki væri rétt að reyna að ná mjög víðtæku samstarfi, m.a. líka við sveitarfélögin, um að efla nýsköpunarsjóðinn enn frekar þannig að ungt og hæfileikaríkt fólk geti komið hugmyndum sínum í framkvæmd í gegnum þennan mikilvæga nýsköpunarsjóð sem ég tel að við þurfum að efla á tímum sem þessum.



[14:48]
menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrirspurnina. Ég veit að hann, eins og ýmsir aðrir þingmenn, hefur áhyggjur af atvinnumálum námsmanna. Það er rétt að sú ákvörðun var tekið af menntamálaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra að styrkja sjóðinn til viðbótar núna um 15 millj. og koma þar 5 millj. frá menntamálaráðuneyti og 10 frá iðnaðarráðuneyti. Þetta er auðvitað umtalsverð viðbót í ljósi þess að heildarfjármunir sjóðsins hafa verið í kringum 40 millj., 20 frá menntamálaráðuneyti og 20 frá Reykjavíkurborg. Aðrir aðilar að sjóðnum eru Framleiðnisjóður landbúnaðarins og önnur sveitarfélög en framlög þeirra samanlagt eru í kringum 1–2 millj. Ég þori ekki að fara alveg nákvæmlega með töluna.

Það sem er kannski athyglisvert við þetta er að sjóðurinn var stofnaður 1992 en grunnframlög til sjóðsins hafa hækkað mjög lítið á undanförnum árum og hlutfall þeirra umsókna sem hafa fengið styrki hefur á sama skapi farið niður á við. Í vor var það svo að rétt ríflega 20% umsókna fengu styrki eða u.þ.b. 23%. Þau verkefni voru hins vegar með ríflega 100 störf á bak við sig, þ.e. það voru fleiri störf í kringum hvert verkefni en fengu. Þarna er auðvitað um umtalsverða hækkun að ræða, úr 40 millj. í 55 millj., þannig að við vonumst til að sjá fram á nokkra fjölgun. Við áttum von á að hugsanlega gætu u.þ.b. 120 manns fengið störf og þarna gætu verið að bætast við 40–50 störf. Það fer auðvitað eftir verkefnum og hvernig þau raðast.

Ég vil líka segja að það er frábært tækifæri fyrir námsmenn að sækja um styrki í nýsköpunarsjóð og vinna þannig að verkefnum þar sem þeir nýta frumkvæði sitt og eigin kraft, sínar eigin hugmyndir. Þarna hefur skapast samstarf nemenda milli deilda og þarna hafa skapast þverfagleg verkefni. Þarna hafa nemendur kynnst sjálfstæðum vinnubrögðum, sjálfstæðum rannsóknum oft í fyrsta sinn af eigin raun í gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Þessi sjóður hefur kannski verið minna sýnilegur á undanförnum árum en hann var áður fyrr og ég tel að það sé full ástæða til að skoða hvort hægt sé að styrkja hann varanlega. Þessi aukafjárveiting kemur þannig til að þarna er í raun og veru fært af öðrum liðum til að styrkja þennan sjóð núna. Ég held hins vegar að við verðum að líta til þess að þarna erum við að horfa á atvinnusköpun í þeim anda sem við teljum æskilegan, þar sem byggt er á nýsköpun og byggt er á þekkingu. Þarna vinnur fólk verkefni sem oft þróast áfram í að verða eitthvað meira og oft koma líka inn fyrirtæki með mótframlög þannig að það skapast tenging háskólasamfélags og atvinnulífs sem er mjög æskileg ef við ætlum byggja hér áfram á tækniþróun og nýsköpun.

Ég tel að það eigi að skoða það þrátt fyrir erfitt efnahagsástand hvort við getum styrkt sjóðinn varanlega með frekari fjármunum því að þarna sjáum við atvinnusköpun sem er í raun og veru ódýr því að laun námsmanna sem vinna við nýsköpunarsjóðinn eru ekki há en geta um leið haft mikinn virðisauka í för með sér. Við sjáum líka fram á að nemendur gera eitthvað annað en þeir gera dagsdaglega í sínu háskólanámi. Þeir sinna einhverju út frá eigin hugmyndum og eigin forsendum, oft í tengslum við atvinnulífið. Ég tel að Nýsköpunarsjóður námsmanna sé ein af þeim mikilvægu brúm sem þarf að styrkja og tryggja á milli háskólasamfélags og atvinnulífs. Ég ætla kannski ekki að hafa frekari orð um það önnur en þau að ég vonast til að við sjáum að þessi fjárveiting nýtist vel og reyndar er ég ekki í nokkrum vafa miðað við það hversu mörgum umsóknum var hafnað núna sem þóttu þó fullframbærilegar hreinlega af því að ekki voru til fjármunir. Ég veit að þessir peningar eiga eftir að nýtast vel en ég tel líka að það eigi að skoða það hvort ekki sé ástæða til að efla sjóðinn til varanlegrar framtíðar.



[14:52]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni kærlega fyrir þessa fyrirspurn og þann stuðning sem hann sýnir nýsköpunarsjóðnum og ekki síður hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra fyrir það hve skjótt þær brugðust við með þessari aukafjárveitingu. Hún er umtalsverð eins og hæstv. menntamálaráðherra kom inn á í ljósi þess að fjárveitingarnar hafa verið í tiltölulega stöðugu formi síðan 1992.

Það er rétt að rifja það upp að þessi sjóður verður til við svipaðar aðstæður og núna eru þegar skyndilegt fjöldaatvinnuleysi kemur upp í samfélaginu, reyndar mun minna en við væntanlega horfum fram á núna. Það er full ástæða til að skoða það með þennan sjóð, af því að það er rétt að hafa í huga að það lætur nærri að 95% af þeim fjármunum sem koma í sjóðinn fari beint út í laun til námsmanna, að yfirbyggingin er afar lítil og hægt er að bregðast mjög hratt við atvinnuástandi eins og hér er með auknum framlögum í sjóðinn.



[14:54]
Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Það eru nefnilega fjölmörg tækifæri í þeirri stöðu sem blasir við okkur í dag og ég held að ungt fólk sé jafnvel betur í stakk búið til að fá nýjar ferskar hugmyndir í þeirri stöðu. Við þurfum að virkja hugvitið, við þurfum að kalla fram það besta í okkar hæfileikaríkasta fólki og þess vegna er ég alveg viss um að þeir fjármunir sem við leggjum fram í Nýsköpunarsjóð námsmanna skila sér margfaldlega út í samfélagið. Eins og hv. þm. Skúli Helgason nefndi áðan borgar fólk skatta og skyldur af störfum sínum og síðan geta skapast mörg afleidd störf í framhaldinu sem geta veitt ríkissjóði og samfélaginu öllu ómældan hagnað og ágóða. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að árið í ár og trúlega næstu tvö ár verða mjög erfið í okkar samfélagi: Hefur hæstv. ráðherra hugleitt það að kalla til fleiri sveitarfélög, jafnvel atvinnulífið, að þessum sjóði með a.m.k. tímabundið framlag til að mæta þeim erfiðu tímum sem blasa við okkur, gera nýsköpunarsjóðinn öflugri, gera hann sýnilegri, markaðssetja hann þannig að fólk viti að þessi sjóður er fyrir hendi þannig að það kalli fram ákveðið frumkvæði hjá námsmönnum? Ég er viss um að ef fleiri vissu og væru meðvitaðir um að hann er til staðar mundi umsóknum fjölga, jafnvel góðum umsóknum sem gætu leitt af sér fullt af tækifærum og störfum fyrir íslenskt samfélag sem er nauðsynlegt í dag. Ég spyr hæstv. ráðherra um leið og ég lýsi yfir ánægju með að verið er að styrkja þennan sjóð, hvort ekki sé tilefni til þess í ljósi allrar umræðunnar um þjóðarsátt að kalla fleiri aðila að borðinu um það hvort hægt sé að efla sjóðinn með einhverjum hætti. Þá er ég hugsa jafnvel um háskólana, sveitarfélögin, atvinnulífið, ríkið, hugmyndir um að gera þennan sjóð að öflugri sjóði en hann er í dag sérstaklega á tímum eins og við búum við um þessar mundir.



[14:56]
menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, ég held að full ástæða sé til að skoða það að kalla fleiri aðila að borðinu. Ég vil minna á að þegar þessi sjóður var stofnaður á sínum tíma, árið 1992, að frumkvæði stúdenta var í raun og veru farið mjög veglega af stað, þá urðu til nýsköpunarverðlaun forseta Íslands sem ávallt hafa hlotið athygli í fjölmiðlum. Þar hafa birst námsmenn með framúrskarandi verkefni sem seinna að nokkrum árum liðnum hafa birst sem framúrskarandi vísindamenn jafnvel í eigin atvinnustarfsemi eða innan háskólasamfélagsins. Sjóðurinn hefur því vissulega verið mjög dýrmætur vaxtarsproti og það má eiginlega segja að ekki hafi verið lagt nægilega til hans. Fé til hans hefur ekki verið aukið á síðustu árum, kannski af því að þörfin hefur ekki verið fyrir hendi. En sú atvinnuþörf sem hv. þm. Skúli Helgason benti á var vissulega til staðar þegar sjóðurinn var stofnaður á sínum tíma.

Ég get tekið undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að það er full ástæða til að skoða það að kalla fleiri að borðinu. Sem stendur er það Reykjavíkurborg sem leggur til framlag en auðvitað sækja námsmenn úr fleiri sveitarfélögum í sjóðinn. Þarna gætum við verið að horfa fram á ódýra atvinnusköpun þar sem lögð er áhersla á þekkingarþróun og spennandi atvinnu fyrir námsmenn í háskólum landsins þar sem þeir virkja hugmyndir sínar, kraft sinn og frumkvæði, sem er nákvæmlega það sem við þurfum að reiða okkur á sem þjóð einmitt þegar illa árar. Ég tek því undir með hv. þingmanni að liður í því að efla sjóðinn varanlega væri að kalla fleiri aðila að þessu borði.