137. löggjafarþing — 12. fundur
 29. maí 2009.
frumvarp um þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki.

[10:32]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á þriðja fundi hv. efnahags- og skattanefndar 22. maí 2009 kom Mats Josefsson fyrir fundinn og fór í gegnum fyrsta mál þingsins, endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægara atvinnufyrirtækja. Hann kom inn á það að hann teldi að það væri æskilegt að gera mjög miklar breytingar á því frumvarpi og í rauninni líta allt öðruvísi á tilgang þess þannig að í stað þess að taka yfir þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki ætti að ráðleggja bönkunum — eftir því sem ég skildi það — að ráðleggja bönkunum varðandi meðhöndlun þessara fyrirtækja en ekki að eiga þau.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort Mats Josefsson hafi þá komið að gerð þessa frumvarps á síðustu stigum því að það kom fram á fundinum að hann hefði í raun ekki séð það fyrr en stuttu áður en fundurinn var og þá í enskri þýðingu og að hann hefði reyndar unnið að gerð þess á fyrri stigum en þá hefði ekki verið tekið tillit til athugasemda hans að fullu. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sáttur við þessar breytingar sem Mats Josefsson leggur til og hvort það gæti þá verið umræðugrundvöllur fyrir nefndina til að vinna frekar að.



[10:34]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að hinn ágæti ráðgjafi bæði fyrrverandi ríkisstjórnar og núverandi í þessum bankamálum, Mats Josefsson, hefur sterkar skoðanir á þessu máli eins og fleiru. Honum var sent frumvarpið rétt áður en það var sent til framlagningar á þingi. Hann kom sínum athugasemdum að. Það var vissulega skammur tími þá til stefnu því að við lögðum áherslu á að koma málinu fram. En eitt af þeim atriðum sem hann lagði til var að frumvarpinu yrði breytt í þá átt að eignaumsýslufélagið gæti eftir atvikum verið ekki síður ráðgefandi aðili og veitt bönkunum stuðning og faglega aðstoð við endurskipulagningu fyrirtækja frekar en taka þau yfir og 1. gr. frumvarpsins var nákvæmlega breytt í þessa átt þannig að nú er málið opnara en það var þegar það kom fyrir þing í vetur.

Mér er sömuleiðis kunnugt um að hann hefur komið á fund nefndarinnar og lýst þar sínum sjónarmiðum. Formaður og varaformaður nefndarinnar hafa rætt þau við mig og að sjálfsögðu er það í höndum þingnefndarinnar að vinna úr þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið, þessum eins og öðrum og ég mun fyrst og fremst fagna því ef nefndin nær góðri samstöðu um að afgreiða málið. Okkar áherslur hafa verið þær, og liggja skýrt fyrir, að þeim mun fleiri mál sem bankarnir á eigin vegum geta leyst þeim mun betra og æskilegast væri auðvitað að þetta tæki væri til staðar ef á þyrfti að halda en þyrfti sem minnst og jafnvel þess vegna aldrei að taka nein verkefni til sín ef þau leystust farsællega með öðrum hætti. Það er með öðrum orðum alls ekki ætlunin að sækjast eftir því að verkefni, hvort heldur þau eru í formi ráðgjafar eða aðstoðar við endurskipulagningu fyrirtækja eða beina yfirtöku fyrirtækja, færist þangað heldur að þetta tæki sé til staðar ef á þurfi að halda.



[10:36]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að hv. nefndir þingsins og hæstv. ráðherra vinni náið að því að finna góða lausn á þessu máli því það skiptir verulega miklu að fundin verði góð lausn.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson lét bóka á þessum fundi eftirfarandi, með leyfi frú forseta:

„Tryggvi vill að fram komi í fundargerð að Mats hafi fengið tækifæri til að gera athugasemdir við frumvarpið á síðasta þingi en ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda hans að öllu leyti. Þá hefur honum borist ensk þýðing á nýju frumvarpi í morgun ...“ — þ.e. rétt fyrir fundinn.

Það er spurning hvernig þetta fer saman við ummæli hæstv. fjármálaráðherra þann 19. maí þar sem hann segir við hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson, með leyfi forseta:

„Ég vona að hv. þingmaður sé ekki að reyna að halda því fram að ég fari með rangt mál.“

En Tryggvi Þór Herbertsson segir að Mats Josefsson hafi ekki komið að gerð þessa síðara frumvarps.



[10:37]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Það er mikilvægt að hv. þingnefnd nái farsælli lendingu í þetta mál og Alþingi allt en ég held að það sé skynsamlegt að þetta verði gert, að þetta tæki verði stofnað.

Varðandi athugasemdir Mats Josefssons þá liggur það einfaldlega þannig að sólarhring áður en málið var sent þingflokkum var honum send ensk þýðing á frumvarpsdrögunum eins og þau lágu þar fyrir. Athugasemdir hans bárust um kvöldið og að morgni þess dags voru gerðar breytingar á frumvarpinu og það síðan sent til þingflokka og lagt fram á Alþingi. Síðan var endanleg útgáfa frumvarpsins aftur þýdd á ensku og það mun hafa verið hún sem Mats Josefsson barst að morgni þess dags sem hann mætti fyrir þingnefndina. Vonandi útskýrir þetta þennan misskilning sem enginn á að þurfa að vera og ég hef það skjalfest og sannað og mörg vitni að því að ráðgjafanum var send ensk þýðing á frumvarpsdrögunum daginn áður en lögð var lokahönd á það í fjármálaráðuneytinu og það sent til ... (Forseti hringir.) — fór inn í ríkisstjórn og þingflokka.