137. löggjafarþing — 13. fundur
 3. júní 2009.
lög um fjármálafyrirtæki og bréf frá Kaupthing Edge.

[13:37]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. viðskiptaráðherra. Í síðustu viku afgreiddi Alþingi eins og kunnugt er á methraða frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki. Við í minni hlutanum lögðumst á eitt með meiri hlutanum um að afgreiða frumvarpið hratt og funduðum ítrekað um málið, m.a. tvisvar með hæstv. ráðherra, og bæði þar og líka í umræðum á þinginu var kallað eftir öllum upplýsingum sem máli gæti skipt fyrir afgreiðslu málsins. Útgreiðsla Kaupthing Edge var þar nefnd sem ein ástæða fyrir flýtimeðferð málsins en þó taldi hæstv. viðskiptaráðherra það ekki eiga að skipta sköpum því að lykilatriði væri að þýsk stjórnvöld sæju að verið væri að vinna að málinu í þinginu. Þess vegna kom það mér sem og öðrum nefndarmönnum í viðskiptanefnd mjög á óvart að á föstudaginn, sama dag og lögin voru samþykkt, kom frétt á Stöð 2 þess efnis að þýsk stjórnvöld hefðu hótað Íslendingum í bréfi til skilanefndar Kaupþings að ef lögin væru ekki samþykkt hefði það, svo ég vitni í fréttina, slæmar afleiðingar fyrir Ísland og áhrif á viðræður við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn svo eitthvað sé nefnt.

Þremur dögum síðar tjáði hæstv. ráðherra sig um málið og lét hafa eftir sér að það væri sitt mat að það væri ekkert í bréfinu sem túlka mætti sem hótun í garð Íslendinga. Þarna væru þýsk stjórnvöld að lýsa áhyggjum sínum. Formaður viðskiptanefndar, sem ég verð að hrósa sérstaklega fyrir sinn þátt í þessu máli, hefur kallað eftir því að fá bréfið frá viðskiptaráðuneytinu en viðskiptaráðuneytið vísar því til skilanefndarinnar sem svaraði nefndinni í morgun að hún sæi sér ekki fært að afhenda bréfið nema að undangengnu samþykki við viðkomandi aðila. Mér finnst með ólíkindum að ráðherrann — sem annars staðar, á Austurvelli fyrr í vetur, kallaði eftir opnu og gagnsæju efnahagslífi — treysti ekki hv. viðskiptanefnd fyrir þessum tölvupósti og spyr hvort hann ætli að beita sér fyrir því að nefndin fái þessi gögn eða hann feli sig hreinlega á bak við skilanefnd Kaupþings í þessu máli. Ég vil spyrja hann um þetta því að það er óþolandi að þingmenn þurfi að heyra af þessum meintu (Forseti hringir.) bréfaskriftum í fjölmiðlum. Og er eitthvað annað sem hæstv. ráðherra vill deila með okkur varðandi þessi mál?



[13:39]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til að skýra þetta undarlega mál en vil fyrst halda því til haga að ég kom, eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur bent á, tvisvar á fund viðskiptanefndar í síðustu viku og skýrði þá skilmerkilega frá sjónarmiðum aðila, þar á meðal Þjóðverja, í þessu máli. Það er alveg rétt að Þjóðverjar hafa og höfðu áhyggjur af því að útgreiðsla þessara innstæðna mundi dragast. En ég get hins vegar fullyrt og stend við það og það mun koma í ljós þegar viðkomandi skeyti verður birt, sem verður vonandi sem fyrst og ráðuneytið hefur þegar gripið til ráðstafana til að reyna að flýta því, að Þjóðverjar hafa ekki með neinum hætti haft í hótunum við Íslendinga, hvorki varðandi Evrópusambandið né Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða á annan hátt í þessu máli. Það er hreinlega röng fullyrðing eins og mun koma á daginn þegar þetta skeyti verður birt sem verður vonandi sem fyrst.

Ég vil segja við þá sem hafa verið með þann málflutning að halda því fram, og byggja það að því er virðist ekki á öðru en frétt í einum fjölmiðli, að hið stóra og mikla vinaland okkar Þýskaland stundi þau vinnubrögð í alþjóðasamskiptum að hóta vinaþjóðum sínum með því að láta starfsmann í ráðuneyti skrifa bankastarfsmanni og vera þar með einhver skilaboð sem eru ekki ljósari en svo að þegar ég hef lesið viðkomandi skeyti get ég á engan hátt skilið að þar sé verið að hóta Íslendingum, að þá eru menn að gera Þjóðverjum upp ansi miklar sakir. Það má kannski spyrja, ef Þjóðverjar hafa ekki betri leið til að koma skilaboðum til íslenskra stjórnvalda en að gera það með þessum hætti, hvort menn telji þá að næsta skref Þjóðverja í málinu verði að setja flöskuskeyti í höfnina í Hamborg og vonast til þess að með þeim hætti nái Íslendingar því hvað þeir eru að fara. Þjóðverjar hafa ýmsar leiðir til þess að tala við íslensk stjórnvöld. Ég hef m.a. hitt sendiherra Þýskalands margoft á undanförnum mánuðum og þeir þurfa ekki að grípa til þessa ráðs sem hér er verið að dylgja um.



[13:41]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Bara til að forðast allan misskilning var ég ekki að amast út í þýsk stjórnvöld í fyrirspurn minni heldur var ég að inna hæstv. ráðherra eftir því af hverju í ósköpunum hann lætur þennan tölvupóst þá ekki bara flakka og koma honum í umræðuna vegna þess að eins og hann sjálfur nefndi í ræðu sinni er það einungis opin umræða sem gæti komið í veg fyrir svona málflutning eins og hann kann að nefna það.

Það að tala um flöskuskeyti í Hamborgarhöfn er ekki til að upplýsa um þetta mál og gerir ekki mikið fyrir málefnalega umræðu. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra aftur: Er ekki langbest í stöðunni til að upplýsa þetta mál og koma í veg fyrir að samskipti okkar við okkar ágætu vini Þjóðverja, sem ég vona svo sannarlega að hafi ekki verið að beita okkur neinum þrýstingi og á ekki sérstaklega von á en ég heyrði í fjölmiðlum eins og aðrir hér? Er ekki málið að upplýsa um þennan tölvupóst til að koma í veg fyrir að svona málflutningur haldi áfram?



[13:42]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég gæti ekki verið meira sammála hv. þingmanni að besta leiðin til að upplýsa þetta mál er að birta þetta tölvuskeyti. Þegar ráðuneytið frétti að skilanefnd Kaupþings hefði talið að sér væri það ekki heimilt nema að fengnu samþykki þess sem skrifaði það, þá óskaði ráðuneytið þegar eftir því að skilanefnd Kaupþings útskýrði sjónarmið sín í málinu og mun reka á eftir því að skeytið verði birt hið fyrsta og það verður enginn fegnari en ég þegar það loksins kemur fyrir almenningssjónir.