137. löggjafarþing — 13. fundur
 3. júní 2009.
umræður utan dagskrár.

staða heimilanna.

[15:07]
Forseti (Þuríður Backman):

Nú fer fram áður boðuð utandagskrárumræða um stöðu heimilanna. Málshefjandi er hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir verður til andsvara.

Umræðan fer fram samkvæmt 3. mgr. 50. gr. þingskapa og stendur í tæpa klukkustund.



[15:07]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Hæstv. forseti. Það er tímabært að við ræðum á Alþingi um stöðu íslenskra heimila. Raunar ættum við að vera betur í stakk búin til að fara í þessa umræðu en við erum vegna þess að ríkisstjórnin hefur vanrækt það að upplýsa þingið og raunar þjóðina alla um hvert ástandið er svo ekki sé minnst á hvaða lausnir hún sér fyrir sér.

Í dag bárust mér upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu sem gefa dálitla innsýn í þróun mála varðandi stöðu einstaklinga gagnvart bönkunum. Þar koma fram alvarleg vanskil einstaklinga, þ.e. vanskil sem hafa varað í þrjá mánuði eða lengur, fólk sem sér ekki fram á að geta borgað. Inni í þessu eru ekki þeir sem hafa gert einhverjar ráðstafanir, hafa fengið lengt í lánum eða frystingu lána eða eitthvað slíkt. Þetta eru sem sagt þeir sem hafa ekki með nokkru móti getað staðið í skilum og kemur á daginn að það hefur orðið sjöföldun frá því á sama tíma í fyrra, þ.e. á fyrsta ársfjórðungi 2009 eru sjöfalt fleiri í alvarlegum vanskilum en árið áður. Á síðustu mánuðum, eftir að bankakerfið hrundi í október, hefur orðið tvöföldun svo ástandið heldur áfram að versna og hefur gert það alveg fram á þennan dag væntanlega. Við höfum ekki upplýsingar um síðustu vikurnar en ástandið hefur jafnt og þétt verið að versna, stöðugt fleiri lenda í hópi þeirra sem geta ekki með nokkru móti staðið í skilum og ekki gert neinar ráðstafanir.

Ef fyrirtæki eru tekin inn í þetta er ástandið enn svartara og þá er rétt að hafa í huga að ástand einstaklinga og heimila er að sjálfsögðu nátengt stöðu atvinnulífsins og fyrirtækjanna en því virðist þessi ríkisstjórn ætíð gleyma. Síðasta árið hefur orðið tuttugu og fjögur földun á alvarlegum vanskilum hjá bönkunum. Ef við lítum á hvernig þetta hefur þróast frá því síðasta haust eftir hrunið er fimm- til sexföldun alvarlegra vanskila ef saman eru tekin heimili og einstaklingar og ef við lítum bara á fyrirtækin, og þetta eru enn nýjar upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu, er þrjátíuföldun frá síðasta ári. Þrjátíufalt fleiri fyrirtæki eru nú í alvarlegum vanskilum, búin að vera í vanskilum þrjá mánuði eða lengur, hafa ekki getað gert neinar ráðstafanir, ekki getað nýtt öll þau góðu úrræði sem ríkisstjórnin kvartar undan að fjölmiðlar hafi ekki kynnt nógu vel, þrjátíufalt fleiri en fyrir ári síðan og sex- til sjöfalt fleiri en þau voru í vetur.

Svo eru hér enn nýjar upplýsingar, frá Creditinfo á Íslandi, sem bárust einnig fyrr í dag. Þar segir að í dag séu 18.733 einstaklingar 18 ára og eldri á vanskilaskrá. Hér er enn verið að tala um alvarleg vanskil og ég tek fram að þetta eru einungis þeir sem eru í alvarlegum vanskilum, ekki þeir sem eru með frystingar lána eða nokkur önnur úrræði eða hafa bara verið í vanskilum í vikur, heldur þeir sem eru lentir í alvarlegum vanskilum og hafa lent í því að lögmenn og kröfuhafar hafa bankað upp á og reynt að innheimta. Þeir eru tæp 19 þúsund og er gert ráð fyrir að á næstu 12 mánuðum bætist 10.271 í þennan hóp þannig að það verði u.þ.b. 30 þúsund einstaklingar á Íslandi í alvarlegum vanskilum að ári liðnu og áætlað að botninum verði ekki náð hvað þetta varðar fyrr en í fyrsta lagi vorið 2010 og svo séu fram undan a.m.k. 4–5 mjög erfið ár til viðbótar ef fram heldur sem horfir. Þá er rétt að hafa í huga að Creditinfo hefur að undanförnu tekist að þróa aðferðir sem hafa spáð aftur og aftur rétt fyrir um þróun mála og reynist þeir sannspáir í þessu efni stefnir í ógurlegt ástand hjá íslenskum heimilum næstu 5–6 árin ef ekkert verður að gert, ef ekki verður ráðist í róttækar úrbætur.

Svo getum við kannski klárað þessa yfirferð á því að líta á þær upplýsingar sem komið hafa frá fjármálaráðuneytinu. Þar er gengist við því að það stefni í að í árslok 2009 verði tæplega 30 þúsund heimili komin með neikvætt eiginfjárhlutfall, 30 þúsund heimili tæknilega gjaldþrota. Þá segja stjórnvöld sem hafa svarað þessu á þann veg fram að þessu, að það sé ekki svo mikið mál, svo framarlega sem fólk geti haldið áfram að borga skipti ekki svo miklu máli þó að eignirnar séu minna virði en skuldirnar. Það kann að vera að hægt sé að halda fram slíkum rökum þegar aðeins er um nokkur tilvik að ræða og menn í aðstöðu til að vinna sig út úr vandanum og auka tekjurnar og horfa hugsanlega fram á að verðmæti eigna þeirra komi til með að aukast aftur. En þannig er ekki staðan núna, verðmæti eignanna fer áfram hratt lækkandi og á sama tíma dragast tekjurnar hratt saman. Verði ekki gripið inn í mun þessi þróun bara halda áfram og óumflýjanlega munum við standa frammi fyrir því, ef ekki á þessu ári þá á því næsta eða þar næsta, að það er ekki til innstæða fyrir öllum þessum lánum sem verið er að reyna að innheimta. Við munum fyrr eða síðar þurfa að horfast í augu við það að afskrifa þarf lán til íslenskra fjölskyldna og íslenskra fyrirtækja að miklu leyti. Því seinna sem við horfumst í augu við þessa staðreynd þeim mun meiri verður skaðinn fram að því og þeim mun minni eru líkurnar á að þegar loksins verður ráðist í aðgerðir hafi þær nægileg og tilætluð áhrif.

Ekki þarf að hafa mörg orð um atvinnuleysið, það er mikið búið að fjalla um það þó að staða þeirra mála virðist koma ríkisstjórninni stöðugt á óvart. Síðast í gærkvöldi sagði hæstv. forsætisráðherra að ástandið væri líklega enn alvarlegra en hún hefði gert sér grein fyrir. Stjórnarandstaðan og raunar samfélagið allt er búið að reyna að benda þessari ríkisstjórn á það vikum og mánuðum saman að ástandið sé miklu alvarlegra en hún gerir sér grein fyrir. Ég held að það sé orðið tímabært að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir ástandinu, heildarumfangi ástandsins, og upplýsi síðan þjóðina um það hvernig hún ætlar að leiða okkur út úr þessu. Það þýðir ekki að bíða og bíða og sjá, bíða eftir því að hin eina rétta lausn, hin eina rétta leið lendi allt í einu í fanginu á ráðherrunum. Það verður ekki svoleiðis. Við þessar aðstæður verða allar aðferðir umdeilanlegar. Þá þarf ríkisstjórn sem þorir að taka af skarið og er það ekki bara vandinn núna að sú ríkisstjórn sem nú situr þorir ekki að taka af skarið, þorir ekki að taka ákvarðanir? Hvaða ákvarðanir hefur þessi ríkisstjórn tekið nú þegar liðinn er þriðjungur úr ári? Ég var bara að átta mig á því fyrr í dag að það er liðinn þriðjungur úr ári frá því að núverandi ríkisstjórn tók við. Hún hefur tekið eina ákvörðun, fór í sögubækurnar og skoðaði hvað menn höfðu gert og sá hækkun á tóbaki, áfengi og bensíni. Og notuð var þessi gamla aðferð sem skilar hverju? Hún skilar 8 milljarða kr. hækkun á lánum til íslenskra fjölskyldna og í hvað stefnir svo í framhaldinu? Creditinfo upplýsir um það í dag að spá fyrir um að 3.500 fyrirtæki fari í greiðsluþrot á árinu 2009 sé að ganga eftir og þungi þeirra greiðsluþrota verði á haustmánuðum. Hvernig verður atvinnuleysið á haustmánuðum þegar þessi fyrirtæki fara í þrot? Hvernig verður staða heimilanna þá? Er ekki rétt að við tökum af skarið núna, jafnvel þó að það feli í sér að taka ákvarðanir sem orka tvímælis, og ríkisstjórnin sýni að hún hafi þor til að takast á við ástand íslensks samfélags?



[15:15]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Þensluhvetjandi aðgerðir ríkisvaldsins og fjármálastofnana frá árinu 2004 er stór ástæða þess að mörg heimili standa nú frammi fyrir mikilli skuldasöfnun og greiðsluerfiðleikum. Hæst láta þeir nú, eins og hér kom fram, sem voru í fararbroddi fyrir þessum þensluhvetjandi aðgerðum. Hvað sem öllum úrtöluröddum líður og hvernig hér er máluð svört mynd af ástandinu þá er það staðreynd að ríkisstjórnin hefur gripið til margþættra og viðamikilla aðgerða til að koma til móts við skuldavanda heimilanna. Það veit allur þorri almennings, enda hafa tugþúsundir heimila þegar nýtt sér úrræði ríkisstjórnarinnar en gegndarlaus yfirboð um skuldaniðurfellingar í ýmsu formi sem dynja á almenningi eru hins vegar fullkomlega ábyrgðarlausar.

Seðlabankinn hefur nú lagt mat á helstu tillögur um almenna niðurfellingu skulda og komist að þeirri niðurstöðu að þær séu ófærar í núverandi stöðu og mundi leggja á ríkissjóð 100 milljarða skuldbindingar sem ekki er nokkurt svigrúm fyrir án þess þó að leysa vandann sem við er að etja. Fram kemur að tillögur um flata niðurfellingu skulda séu enda ómarkvissar og kostnaðarsamar leiðir til að leysa úr vanda þeirra sem brýnast þurfa á slíku að halda og þær færa líka mikið fjármagn frá skattgreiðendum til þeirra sem ekki þurfa á aðstoð að halda. Það liggur jafnframt fyrir nú mat Seðlabankans á tillögum talsmanns neytenda sem er eitt form af niðurfellingu skulda og í mati Seðlabankans kemur fram að tillögur hans mundu setja allt endurreisnarferli bankanna í uppnám yrðu þær að veruleika. Með þessu er ég alls ekki að draga úr þeim vanda sem fjöldi fólks stendur frammi fyrir vegna gerbreyttra efnahagsaðstæðna í samfélaginu þar sem skuldir fólks hafa vaxið, kaupmáttur rýrnað, eignir fallið í verði og margir hafa misst atvinnu sína. Það hefur því þrengt verulega að fjárhag allra venjulegra íslenskra heimila. Engu að síður vitum við að langflest heimili munu komast yfir þessa erfiðleika, sum hver hjálparlaust, önnur með þeim úrræðum sem standa fólki til boða til að laga skuldir sínar að greiðslugetu ásamt ýmsum öðrum aðgerðum sem hrint hefur verið í framkvæmd.

Í úttekt Seðlabankans frá því í mars er mikilvæg greining á skuldavanda heimilanna. Af heimilum með neikvæða eiginfjárstöðu eru tæplega 5 þúsund þeirra með neikvæða stöðu upp á 5 millj. kr. eða meira og skulda samanlagt tæplega 20% af öllum heildarhúsnæðisskuldum. Þessi heimili standa verst og eru í mestri hættu á að fara í þrot verði þau fyrir tekjumissi. Hins vegar eru um 60% heimila með meira en 5 millj. kr. í jákvæða eiginfjárstöðu með samtals um 44% af heildarhúsnæðisskuldum.

Nú hefur Seðlabankinn fengið ítarlegri upplýsingar um stöðu þessara sömu heimila, bæði varðandi tekjur þeirra og einnig stöðu bílalána og verða þær niðurstöður kynntar með ítarlegum hætti á næstu dögum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þegar fengið virðast þessar nýju upplýsingar staðfesta að skuldavandi heimilanna sé ekki eins víðtækur og ýmsir halda fram. Tölurnar sýna að um þrír fjórðu hlutar heimila með fasteignaveðlán eða um 74% verja innan við 30% ráðstöfunartekna sinna til að standa undir fasteignalánum sínum og um 80% heimila verja innan við 20% af ráðstöfunartekjum sínum í bílalán. Langstærstur hluti heimila landsins býr því við viðráðanlega greiðslubyrði vegna fasteigna- og bílalána samkvæmt nýjum niðurstöðum Seðlabankans. Um er að ræða um 60% af húsnæðisskuldum landsmanna. Helmingur þeirra heimila sem greiða yfir 30% af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir af fasteignaveðlánum er einnig í viðkvæmri eiginfjárstöðu og um 60% þeirra eru með minna en 250 þús. í ráðstöfunartekjur á mánuði. 12% heimila greiða hins vegar yfir 50% af ráðstöfunartekjum sínum í fasteignaveðlán og er helmingur þeirra, um 6% eða um 5 þúsund heimili, einnig með viðkvæma eiginfjárstöðu í húsnæði. Þetta eru hátt í 5 þúsund heimili. Þetta eru heimilin sem sannarlega þurfa á aðstoð að halda og það þarf ekki að koma á óvart að þeir sem hafa tekið lán í erlendum myntum eru fyrirferðarmiklir í þessum hópi.

Rétt er hins vegar að minna á að frá því að þessar upplýsingar voru veittar hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir greiðslujöfnun myntkörfulána og því má vænta þess að staða þeirra einstaklinga sem hafa slík lán hafi batnað talsvert hafi þeir nýtt sér það úrræði. Þessar nýju upplýsingar frá Seðlabankanum sýna hins vegar svart á hvítu að skuldavandi heimilanna er ekki eins skelfilegur og málshefjandi í dag og ýmsir aðrir vilja láta í veðri vaka.

Það er einnig athyglisvert að nýjustu tölur varðandi nauðungarsölu fasteigna og gjaldþrotabeiðnir einstaklinga virðast síður en svo benda til aukningar. Að meðaltali á árinu 2008 bárust sýslumanni um 559 beiðnir um nauðungarsölu fasteigna á mánuði samanborið við 547 beiðnir að meðaltali á mánuði á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs eða aukning um 2%. Fasteignir seldar á uppboðum voru að meðaltali á mánuði á síðasta ári 62 en fyrstu fjóra mánuði þessa árs voru uppboðin 61 að meðaltali á mánuði eða einu færra.

Eftir að lög ríkisstjórnarinnar sem heimiluðu frestun á nauðungarsölu tóku gildi hefur nauðungarsölum eðlilega fækkað stórlega. Frá lokum mars var 71 eign seld á nauðungaruppboði en 354 uppboðum var frestað. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa því komið að miklu gagni hvað þetta varðar þó að ekki hafi allir nýtt sér heimild til frestunar uppboðanna. Fjöldi einstaklinga sem úrskurðaðir voru gjaldþrota á árinu 2008 voru að meðaltali 33 á mánuði en á fyrstu fimm mánuðum þessa árs voru gjaldþrotabeiðnir hins vegar að meðaltali 18 á mánuði en gjaldþrotabeiðnir eru alltaf fleiri en gjaldþrot og því bendir allt til helmingsfækkunar á gjaldþrotum einstaklinga. Það blasir því við að úrræði ríkisstjórnarinnar eru að virka. Ég ítreka að þau ættu að duga langstærstum hluta þeirra sem nú eru í vanda vegna húsnæðisskulda enda ætti greiðslubyrði þeirra sem nýta sér greiðslujöfnun að vera svipuð eða jafnvel lægri en hún var hjá viðkomandi fyrir hrun. Við þurfum hins vegar að tryggja að þeir sem eru í vanda fái nauðsynlegan stuðning og ekki síður upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði.

Nú starfa á vegum Ráðgjafarstofunnar um 30 starfsmenn en við hrunið voru þeir sjö. Enginn biðlisti er lengur eftir þjónustu Ráðgjafarstofunnar og munum við kappkosta að tryggja að svo verði áfram. Í samræmi við 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar er í undirbúningi öflugt kynningarátak með útgáfu bæklings sem dreift verður á öll heimili í landinu til að upplýsa almenning um greiðsluerfiðleikaúrræði stjórnvalda sem og fyrirbyggja misskilning um einstök úrræði. Í samræmi við 100 daga áætlunina er nú einnig unnið að endurmati á aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna. Ný greining Seðlabankans sem ég lýsti áðan mun gegna þar lykilhlutverki en einnig er til skoðunar að rýmka heimildir fjármálastofnana ríkisins til einstaklingsbundinna afskrifta í anda greiðsluaðlögunar án þess að til opinberrar innköllunar þurfi að koma eða að niðurfellingin verði skattlögð eins og nú er. Greiðsluaðlögun er afar mikilvægt úrræði en e.t.v. er óþarfi að gera ráð fyrir því að allar aðlaganir skuldabyrði að greiðslugetu fari í gegnum þetta ferli. Það er mikilvægt að skapa forsendu fyrir því að bankar taki á skuldamálum einstaklinga og fyrirtækja eins og kostur er án milligöngu dómskerfisins. Að tillögu ríkisstjórnarinnar var skattalögum breytt í lok síðasta árs til að greiða fyrir slíkum aðgerðum.

Af hálfu fjármálaráðuneytisins er nú verið að leggja lokahönd á reglugerð um beitingu þessa úrræðis þannig að afskriftir eru ekki skattlagðar sem greiða mun mjög fyrir því að bankar geti mætt þörfum viðskiptavina um aðlögun skulda að greiðslugetu og veðrými eigna. Forsendan er að settar verði almennar reglur um slíka greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun sem tryggir jafnræði, gagnsæi og málefnalega meðferð. Einnig er verið að meta betur stöðu einyrkja gagnvart greiðsluaðlögunarúrræðinu. Þá er einnig verið að meta hvort og hvernig koma mætti til móts við þann hóp sem hvað verst er staddur vegna myntkörfulána, ekki síst þeirra sem hafa bílalán í erlendri mynt. Eins og menn þekkja hefur greiðslubyrði þeirra aukist svo um munar og greiðslujöfnun tekur enn sem komið er aðeins til fasteignalána. Þá minni ég á að samkvæmt samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar skal unnið að því að draga úr vægi verðtrygginga og auka vægi óverðtryggðra íbúðalána á kjörtímabilinu. Ég hef því þegar falið Seðlabankanum að koma með tillögur um leiðir í þessu efni og vænti þeirra áður en langt um líður.

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur komið fram hefur margt verið gert til að styrkja stöðu heimilanna og gera fólki kleift að standa af sér storminn og sú vinna verður viðvarandi verkefni ríkisstjórnar minnar á meðan við göngum í gegnum efnahagserfiðleikana. Margir munu bogna en rétta úr sér aftur þegar um hægist. Þessar staðreyndir breyta hins vegar ekki því að fjárhagsstaða heimilanna hefur versnað gríðarlega á undanförnum missirum og flest ef ekki öll heimili landsins finna fyrir þeim miklu breytingum sem orðið hafa vegna hækkandi verðlags og samdráttar í tekjum. Þann mikla vanda heimilanna getum við aðeins tekist á við á vettvangi efnahagsmálanna með því að styðja við krónuna m.a. með aðhaldi í ríkisfjármálum, vinna gegn verðbólgu og skapa þannig forsendur fyrir enn frekari vaxtalækkunum. Aðeins þannig geta fyrirtækin eflst að nýju og heimilin notið vaxandi kaupmáttar.



[15:25]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum stöðu og vanda heimilanna í landinu, vanda sem byggist á bankahruni, gengi krónunnar, verðbólgu liðinna mánaða, verðtryggingu og háum vöxtum, vanda sem eykst þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar. En til þess að geta komið heimilunum til bjargar þarf að leysa önnur brýn verkefni. Það þarf fyrst og síðast að koma bankakerfinu í gang og hafa heildarframtíðarsýn í ríkisfjármálum. Það er líka nokkuð ljóst, frú forseti, að atvinnulífið fer ekki almennilega í gang fyrr en við búum við skilvirkt bankakerfi, nýja peningastefnu, lækkun vaxta og afnám gjaldeyrishafta. Þá fyrst dregur úr atvinnuleysi, hjólin fara að snúast á nýjan leik til hagsbóta fyrir fjölskyldur í landinu. Þessir þættir eru forsenda þess, frú forseti, að möguleiki verði að koma þjóðinni til bjargar.

Frá hruni bankanna hefur verið gripið til ýmissa aðgerða með lögum. Má þar nefna greiðsluaðlögun, breytingar á greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, greiðslu séreignarsparnaðar, vaxtabóta og annað í þeim dúr. En þetta, frú forseti, dugar ekki fyrir fjölskyldurnar í landinu, því miður.

Við sjálfstæðismenn höfum talað um að íbúðareigendur eigi að geta lækkað greiðslubyrði sína um allt að helming í þrjú ár og framlengt lánstímann á móti. Jafnframt að hugað verði að höfuðstólslækkun til að mæta þeim forsendubresti í hagkerfinu sem orðið hefur. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram tillögu um 20% flatan niðurskurð og hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur talað fyrir áþekkri tillögu eða nefnt 4 millj. kr. Ekkert af þessu er skoðunarvert af hálfu ríkisstjórnarinnar, öllu er ýtt út af borðinu og, frú forseti, það eru óásættanleg vinnubrögð í því árferði sem nú er og þeim vanda sem fjölskyldur í landinu standa frammi fyrir.

Ég tel að ekki verði hjá því komist að grípa til sérstakra aðgerða vegna þeirra sem eiga í verulegum vanda. Margar leiðir eru á þeirri vegferð en hver þeirra sem farin er þá er nauðsynlegt fyrir fjölskyldurnar að meta markaðsverð eigna þeirra og það verði síðan þekkt stærð því að ef bankinn eða Íbúðalánasjóður gengur að skuldara og selur eignina þarf þetta að vera ljóst. Síðan þarf að meta greiðslugetu viðkomandi fjölskyldu. Ef greiðslugeta fjölskyldunnar nær markaðsvirði eignarinnar græðir enginn á því að ganga að fjölskyldunni ef skuldirnar eru hærri en markaðsvirðið og senda fjölskylduna í gjaldþrot og út á götu. Bankar og Íbúðalánasjóður þyrftu að afskrifa sömu tölu hvort sem gengið væri að fjölskyldunni eður ei og það vinnst ekkert svo það sé ítrekað, frú forseti, með því að ganga að fjölskyldunni, gera hana gjaldþrota og senda hana á götuna. Vandamálið kann að vera stærra þar sem skuldir eru meiri en markaðsvirði eigna og greiðslugeta minni. Þá má hugsa sér að þeirri fjölskyldu gæti gefist frestun á greiðslu á þeim mismun sem er á greiðslugetu og markaðsvirði í einhvern tíma. En hvaða leið sem valin er núna sem sértæk leið þá þarf alltaf að afskrifa skuldir umfram markaðsvirði. Það er staðreynd og það þarf ríkisstjórnin að horfast í augu við.

Hvort er skynsamlegra, frú forseti, að það verði gert í þágu fjölskyldna í landinu eða banka, fjárfesta og Íbúðalánasjóðs? Svarið er einfalt, frú forseti: Að sjálfsögðu í þágu fjölskyldna í landinu. Og hópurinn sem er í þessari stöðu er á aldrinum 20–40 ára, fólkið sem á að standa í því að endurbyggja þetta land þegar til framtíðar er litið. Einhverjir úr þessum hópi í dag, frú forseti, eru nú í hópi atvinnulausra eða hafa tekið á sig launalækkun. Flestar þessar fjölskyldur réðu við afborganir sínar í upphafi árs 2008 en ytri aðstæður, hrun krónunnar og verðbólga hafa sett þær fram á bjargbrúnina. Allt tal um hugsanleg brot á jafnræðisreglu ef við tökum til hendinni og hjálpum þessum hópi er bull, frú forseti, vegna þess að við brutum jafnræðisregluna þegar við settum 200 milljarða inn í peningamarkaðssjóðina í upphafi árs. Það kann að hafa verið, frú forseti, til að viðhalda trú á kerfinu en það er brýn nauðsyn nú til að koma fjölskyldum í landinu til hjálpar. (Forseti hringir.) Við þurfum að huga að því, frú forseti, að við sem erum á Alþingi erum hér fyrir fólkið í landinu en ekki vegna fólksins í landinu.



[15:30]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. málshefjandi útlistaði hér ágætlega erfiðleikana sem við er að glíma. En ég verð að segja að mér fannst minna fara fyrir raunsæi í máli hans eða uppbyggilegum tillögum um úrlausnir. Það minnti mig dálítið á málflutninginn hér fyrir helgi þegar talsmaður Framsóknarflokksins fór hamförum gegn hugmyndum um að auka tekjur ríkissjóðs en fór þó hér upp í óundirbúnum fyrirspurnatíma daginn eftir og krafðist hækkunar atvinnuleysisbóta. Er þetta alveg svona auðvelt?

Ef ríkissjóður á að leggja af mörkum í aðgerðir af hvaða tagi sem er verður hann að hafa til þess tekjur og bolmagn. Heimilin í landinu hafa að sjálfsögðu orðið fyrir miklu áfalli, sérstaklega þau sem misst hafa tekjur, þar sem menn hafa misst atvinnuna og orðið fyrir tekjusamdrætti á sama tíma og þeir glíma við þyngri skuldabyrði.

En það er ágætt að hafa það í huga að mikill skuldavandi íslenskra heimila er því miður ekki nýtilkominn. Hann er ekki bara afleiðing bankahrunsins frá því í haust. Þegar Framsóknarflokkurinn settist í ríkisstjórn 1995 voru skuldir heimilanna rétt undir 150% af ráðstöfunartekjum. Þær voru þá þegar með því hæsta sem þekktist. Þær gerðu ekkert annað en að aukast árin á eftir og svo var komið að árin 2001–2002 að þær voru rétt undir 200% af ráðstöfunartekjum. Ískyggileg mörk. Þær lækkuðu lítillega árin 2003 og 2004 en hvað gerðist árið 2005 í góðærinu mikla? Þær fóru yfir 200% af ráðstöfunartekjum og hafa verið þar síðan, hækkuðu árin á eftir í góðærinu 2006 og 2007. Og hvar stóðu þær um síðustu áramót? Jú. Það má ætla að þær hafi verið 272% af ráðstöfunartekjum, það má ætla að þær hafi verið um 136,5% af landsframleiðslu.

Það er alveg sama á hvaða mælikvarða við skoðum þetta og þegar við berum þetta saman við skuldir heimila t.d. í öðrum OECD-ríkjum var staðan orðin grafalvarleg og ískyggileg á Íslandi fyrir mörgum árum síðan. Menn voru ótrúlega dofnir gagnvart þeim mikla vanda sem þarna hlóðst upp þegar skuldir íslenskra heimila og skuldir atvinnulífsins slógu metið innan OECD um svipað leyti.

Mér finnst undarlegt að menn skuli ræða þessa hluti hér á þeim forsendum að það sé spurning um vilja hvort einhverjir vilji reyna að aðstoða heimilin eða ekki, að okkur greini á um það í þessum sal. Spurningin er um úrræði og getu til þess og með hvaða aðferðum við beitum takmörkuðum fjármunum þannig að það komi sem mest að gagni.

Það er alveg ljóst og ítrekuð talnagögn staðfesta að það er um einn tíundi til einn sjötti hluti heimilanna sem á við umtalsverðan vanda að stríða og einhver hluti þess hóps mun ekki ráða við skuldir sínar nema með umtalsverðri aðstoð. Á þeim tímum sem við gríðarlegan vanda í ríkisfjármálum er að kljást, þegar ríkissjóður tekur á sig næstum því óviðráðanlega skuldabyrði af öðrum ástæðum, verðum við ekki þá að leita leiða til að nota það bolmagn sem við höfum með markvissum og hnitmiðuðum hætti í þágu þeirra sem sannarlega og mest þurfa á aðstoð að halda? Jú, ég held það. (Gripið fram í.)

Það eru slíkar leiðir sem menn leita að og hafa verið að leita að. Töfralausnirnar, yfirboðin og popúlisminn hjálpa ekki nokkrum manni nokkurn skapaðan hlut heldur raunhæfar aðgerðir (Gripið fram í.) sem eru í samræmi við getu þjóðarbúsins og við gætum orðið sammála um að séu viðráðanlegar. Það er það sem við erum að ræða og ég vona að sama raunsæi eigi eftir að ríkja í þessum herbúðum og ríkir núna í samtölum okkar við aðila vinnumarkaðarins. Þar horfast menn í augu við alvöru málsins en ég held að stjórnarandstaðan eigi svolítið eftir í þeim efnum. (Gripið fram í.)

Ég vil svo að lokum geta þess að reglugerð um skilyrði þess að eftirgjöf skulda manna utan atvinnurekstrar, sem er mikilvægur þáttur í því að bankakerfið geti síðan (Forseti hringir.) farið í þá skuldaúrvinnslu sem þar stendur yfir, er nú tilbúið í drögum og verður gefin út einhvern næsta dag. (Forseti hringir.)



[15:34]
Þráinn Bertelsson (Bhr):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan eitthvað á þá leið að um 60% heimila virtust ætla að pluma sig í kreppunni án þess að lenda í vanskilum. Því ber auðvitað að fagna. Það er dásamlegt. 60% heimila ætla að komast í gegnum kreppuna án þess að lenda í verulegum vandræðum.

Hitt er ekki jafnjákvætt að þá er eftir að huga að þeim 40% heimila sem ekki virðast ætla að pluma sig í gegnum kreppuna án þess að lenda í verulegum vanskilum. Rétta talan er reyndar ekki 40%, nýjasta talan er 42%. Það eru 42% heimila á Íslandi sem hafa neikvæða eða afar þrönga eiginfjárstöðu. Og hvað um þau? Hvað er verið að gera þeim til hjálpar? Í stað hjálpar búa þessi heimili við sértækar, flóknar og jafnvel lítillækkandi aðgerðir af hálfu stjórnarinnar. Teygjulán, bómullargjaldþrot og því um líkt.

Þau búa við handstýrða vísitölu, þau búa við handstýrða okurvexti og þau búa við þá vitneskju að alþýðu Íslands verður falið að greiða ekki bara sínar skuldir upp í topp heldur líka skuldir verstu óreiðumanna sem Íslandssagan kann frá að greina. Þetta er sá hluti af stöðu heimilanna sem við hjá Borgarahreyfingunni höfum sérstakan áhuga á jafnvel þótt við sendum árnaðaróskir okkar til þeirra 60% eða 58% sem betur mega sín.

Það eru engar heildstæðar eða altækar aðgerðir fyrirhugaðar. Skeytingarleysið um vanda og hagsmuni heimilanna er svo himinhrópandi að ég yrði ekki hissa þótt ég heyrði hérna frammi í okkar ágæta mötuneyti hæstv. forsætisráðherra spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Af hverju borðar fólkið ekki kökur? (Gripið fram í: Góð vísa er aldrei of oft kveðin.)



[15:38]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru Íslendingar tæp 319.500 í ársbyrjun 2009. Samkvæmt sömu heimild frá fyrsta ársfjórðungi 2009 eru einungis 123.500 einstaklingar í fullu starfi á vinnumarkaði og 42.000 einstaklingar í hlutastarfi. Það er því minna en helmingur þjóðarinnar sem er á vinnumarkaði í dag og enn færri miðað við þessar tölur því að nú er annar ársfjórðungur að renna sitt skeið á enda.

Hvernig á svo smá og fámenn þjóð sem varla er fjölmennari en meðalstórt fyrirtæki erlendis að standa undir þeirri fjárglæfrastarfsemi sem teygði anga sína um allan heim og olli hér að lokum á haustdögum bankahruni? Engu var eirt og nú hefur verið sannað að bótasjóður tryggingafélags var veðsettur þvert á lög og reglur. Sjávarútvegsfyrirtæki voru rekin sem fjármögnunarfyrirtæki og lífeyrissjóðirnir voru í afar áhættusömum og hæpnum fjárfestingum sem líklega fást aldrei bættar. Þessu eiga 148.000 einstaklingar að standa undir með skatttekjum sínum. Hér er eitthvað galið á ferðinni, frú forseti.

Hæstv. forsætisráðherra lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu í morgun að staða landsins væri mun verri en áður var talið. Bíðið þið við. Eru þetta fréttir? Eru þetta nýjar fréttir? Framsóknarflokkurinn hefur bent á þessa staðreynd í marga mánuði, að hér séu fjölskyldur sem eru í verulegum vandræðum og heimili þeirra eru að brenna upp vegna eignaupptöku og eignarýrnunar í boði ríkisstjórnarflokkanna.

Á Framsóknarflokkinn er ekki hlustað frekar en aðra sem koma með góð ráð. Hrokinn er slíkur. Hér lét einn hv. stjórnarþingmaður hafa eftir sér í ræðu að sjónarmið Framsóknarflokksins hefðu orðið undir í kosningunum og þess vegna ættum við ekki að halda þeim fram hér í umræðu á Alþingi. Þessi málflutningur sýnir það eitt að ekki skuli taka undir neitt af því sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa, hversu gott sem það er og jafnvel þótt það bjargi hér heimilum og fjölskyldum í landinu frá þroti.

Þetta er vinstri græna velferðarríkisstjórnin sem einhverjir voru að bíða svo lengi eftir. Það er augljóst að ríkisstjórnin hefur engan skilning á verkefni sínu eða ástandi mála hvað varðar íslenskar fjölskyldur. Áfram skal staðið með fjármagnseigendum og lánardrottnum. Ríkisstjórnarflokkarnir, fjármagnseigendur og lánardrottnar vita sem er að íbúðalánaeigendur eru bestu skuldarar sem völ er á. Því kemur niðurfelling skulda hjá þessum hópi ekki til greina hjá ríkisstjórninni.

Þess vegna, frú forseti, á ekkert að gera fyrir heimilin í landinu. Þau eiga að standa af sér storminn eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan úr þessum ræðustól. Jafnframt vil ég benda á að sá einstaklingur sem fer í gjaldþrot stendur ekki af sér neinn storm. Honum er kastað á dyr. Honum er kastað út úr samfélaginu og því skulum við taka eftir og muna.

Hér hefur orðið alvarlegt siðrof í boði ríkisstjórnarinnar. Því spyr ég enn á ný úr þessum ræðustól: Ætlar ríkisstjórnin að nota tillögu Framsóknarflokksins? Á að fara í skuldaniðurfellingu til að bjarga því sem bjargað verður? Tíminn er að hlaupa frá þjóðinni. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í málefnum heimilanna annað en að skuldajafna, lengja lán, loka augunum og fara í kynningarátak? Þjóðin vill fá svör.



[15:42]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Trúverðug áætlun um aðlögun ríkisfjármála að gjörbreyttum aðstæðum er eitt mikilvægasta hagsmunamál heimilanna auk atvinnustigsins. Ríkisstjórnin vinnur því að tillögum til útgjaldalækkunar og tekjuöflunar ríkissjóðs og skuldir ríkisins eru einnig skuldir heimilanna í landinu. Lánshæfismat íslenska ríkisins byggir á trúverðugri áætlun í ríkisfjármálum og hefur því mikil áhrif á greiðslubyrði ríkissjóðs og þar með möguleika til að veita opinbera þjónustu og beinar greiðslur til heimilanna.

Á sama tíma og stjórnvöld vega og meta þá kosti sem eru í stöðunni fara fjölskyldur landsins yfir fjármál sín og leita allra leiða til að draga úr kostnaði til að geta greitt af lánum sínum. Verðtrygging af húsnæðislánum er nánast séríslenskt fyrirbæri vegna óstöðugleika í efnahagslífinu. Í öðrum löndum hefur efnahagskreppan þau áhrif að á sama tíma og tekjur heimilanna dragast saman lækka vextir af húsnæðislánum þegar seðlabankar lækka vexti til að örva hagkerfin. Á Íslandi erum við ekki eingöngu að fást við hrun fjármálakerfisins og djúpa efnahagslægð. Gjaldmiðillinn hrundi um leið og bankakerfið og verðbólga hefur því verið mun meiri hér en í öðrum Evrópuríkjum. Áhrifin verða þau að húsnæðisskuldir hækka vegna verðbótaþáttarins.

Frú forseti. Óstöðugt verðlag hefur lengst af verið mikið böl fyrir íslensk heimili. Verðtryggingin er leið til að draga úr sveiflum á greiðslubyrði skulda heimilanna og í stað breytilegra vaxta á húsnæði erum við með fasta vexti og verðtryggingu. Þannig auðveldar verðtryggingin heimilunum að komast í gegnum tímabil efnahagslægða því að aukin greiðslubyrði greiðist jafnt á eftirstöðvar lánsins en kemur ekki fram í vaxtastiginu sem væri nú hátt í 20%.

Á síðustu mánuðum hefur verið gripið til margra aðgerða til að lækka greiðslubyrði heimilanna og einnig lögfest úrræði fyrir þær fjölskyldur sem ekki sjá fram úr efnahagsvandræðum sínum eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra. Meiri hluti heimilanna í landinu getur staðið undir greiðslubyrði sinni óháð því hver eiginfjárstaða í húsnæði er og erlendar rannsóknir sýna að eiginfjárstaða í húsnæði hefur ekki áhrif á afkomu fólks svo lengi sem það heldur atvinnu sinni.

Við göngum nú í gegnum tímabundna efnahagslægð. Hún er vissulega djúp og það mun reyna mjög á stjórnvöld og landsmenn alla á næstu árum. En þegar tekjur fara að aukast mun íbúðaverð og eiginfjárhlutfall fara hækkandi.

Virðulegi forseti. Framtíðarsýn Samfylkingarinnar byggir á jafnvægi og velferð. Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að flýta endurreisn Íslands og tryggja að hún verði á varanlegum grunni. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu er að okkar mati eitt mikilvægasta skrefið sem við verðum að stíga nú í sumar. Við teljum það efnahagslega nauðsyn. Samhliða aðlögunarferlinu að evru munum við fylgja áætlun um endurreisn íslensks efnahags.

Okkar mat er það að til að hér verði efnahagsstöðugleiki til framtíðar verðum við að taka upp evru. Stöðugt verðlag og gengi er eitt af mikilvægustu hagsmunum heimila og fyrirtækja. Fáir vita það betur en Íslendingar. Gengisstöðugleiki er jafnframt mikilvæg forsenda þess að innlendir jafnt sem erlendir aðilar vilji fjárfesta hér á landi. Ef fyrirtækin hafa ekki trú á íslensku hagkerfi mun draga úr verðmætasköpun. Þá getum við ekki tryggt gott velferðarkerfi og fjölbreytt atvinnutækifæri. Þá mun verðtryggingin verða förunautur okkar til framtíðar. Þess vegna leggur Samfylkingin svo ríka áherslu á aðild að Evrópusambandinu því að hún er eitt (Forseti hringir.) af mikilvægustu hagsmunamálum íslenskra heimila. (Forseti hringir.)



[15:46]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hafi einhverjir hv. þingmenn eða landsmenn gert sér vonir um að hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra mundu skýra með einhverjum hætti í þessari umræðu hvernig þau og ríkisstjórnin hygðust koma til móts við skuldavanda heimila í landinu hafa viðkomandi orðið fyrir sárum vonbrigðum. Hér töluðu leiðtogar ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, og hvorugur þessara leiðtoga ríkisstjórnarinnar kom með nokkuð sem hönd á festi til að leysa úr þeim vanda sem mörg heimili í landinu vissulega standa frammi fyrir. Við getum deilt um það hversu margir nákvæmlega eiga í verulegum greiðsluvanda, við vitum hins vegar að það eru þúsundir fjölskyldna í landinu sem eiga í þeim vanda. Þúsundir fjölskyldna hafa orðið fyrir þungum áföllum vegna hækkandi greiðslubyrði, vegna atvinnumissis eða verulegs tekjumissis sem kemur hart niður á þeim.

Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra notuðu a.m.k. ekki þetta tækifæri sem gafst við þessa umræðu til að koma með svo mikið sem eitt einasta atriði sem mætti verða til að bæta stöðu þessa fólks, ekki eitt einasta atriði. Þau voru með ýmsar lýsingar á vandanum, sögulega upprifjun á ýmsum aðgerðum sem gripið hefur verið til á undanförnum mánuðum, aðgerðir sem ég get tekið undir með hv. síðasta ræðumanni, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, að eru ágætar svo langt sem þær ná.

Ég tók þátt í því í vor að samþykkja lög um greiðsluaðlögun o.fl. sem vissulega getur komið til móts við ákveðna hópa, ákveðna einstaklinga sem eru komnir í veruleg vandræði, sem í raun og veru eru komnir á barm gjaldþrots. En varðandi alla hina sem eru miklu, miklu fleiri, öll hin heimilin sem eiga við gríðarlegan greiðsluvanda að stríða er svar ríkisstjórnarinnar ekki neitt, við bara bíðum af okkur vandann. Það er útspil ríkisstjórnarinnar ef marka má ræður hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra.

Ég ætla ekki að fara yfir það í sjálfu sér, það hefur komið ágætlega fram við umræðuna þannig að ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir þau vandamál sem við er að stríða. Það er hins vegar rétt sem kom fram hjá hv. fyrsta ræðumanni í þessari umræðu, hv. formanni Framsóknarflokksins, að vandinn er ekki að minnka, hann er að aukast, vandinn hvað varðar greiðsluvandræði einstaklinga og heimila og raunar fyrirtækja líka, vandinn varðandi atvinnustöðuna. Við vitum líka að vandi fyrirtækjanna er ekki að minnka, hann er að aukast og hann getur orðið töluvert meiri á næstu mánuðum með hörmulegum afleiðingum, gjaldþrot í fyrirtækjum hafa áhrif á fjölda heimila eins og menn þekkja.

Með þessu er ég ekki, eins og hæstv. forsætisráðherra gaf í skyn áðan, að mála skrattann á vegginn. Það vil ég ekki en við getum heldur ekki reynt að mála yfir skrattann á veggnum, við getum ekki reynt að fela vandann með því að þykjast ekki horfast í augu við hann, við getum það ekki. Við verðum að takast á við þau vandamál sem við eigum við að glíma, við verðum að leggja fram tillögur og úrræði og miðað við hvernig ríkisstjórnin skilar auðu í þessari umræðu mun það koma í hlut okkar í stjórnarandstöðunni að leggja fram tillögur (Forseti hringir.) sem geta horft til úrbóta.



[15:50]
Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í dag eru mörg heimili í miklum vanda þar sem ráðstöfunartekjur þeirra hafa rýrnað vegna launalækkana, hækkandi verðlags og aukinnar greiðslubyrði lána. Verst er ástandið hjá þeim sem hafa misst vinnuna. Það verður aldrei hægt að ná þjóðarsátt um endurreisn hagkerfisins nema tekið verði á skuldavanda heimilanna. Ef gripið hefði verið til aðgerða strax í haust væri vandinn í ríkisfjármálum eða tekjufall ríkissjóðs ekki jafnmikið og raun ber vitni.

Á síðasta og þessu ári er gert ráð fyrir að verðbólgan verði um 26% sem mun að öllu óbreyttu leggjast með fullum þunga á skuldsett heimili sem búa við verðtryggingu. Ef húsnæðislán landsmanna hefðu verið með föstum nafnvöxtum til fimm ára, eins og víða þekkist á Norðurlöndunum, hefði verðbólguskotið lent að mestu leyti á lánveitendum eða bönkum, sparisjóðum og Íbúðalánasjóði en ekki lántökum eins og heimilunum. Rúmlega 40 lönd hafa frá árinu 1970 þurft að kljást við banka- og gjaldeyriskreppu og flest þeirra tókust á við kreppuna án þess að vera með verðtryggingu. Verðbólguskotið sem fylgdi í kjölfar hrunsins létti því skuldabyrði heimilanna í þessum löndum og varnaði því að kreppan yrði eins djúp og hún á eftir að verða hér á landi ef ekki er brugðist við hið fyrsta.

Nauðsynlegt er að leiðrétta höfuðstól húsnæðislána til að draga úr fjölda þeirra sem verða gjaldþrota og til að ná fram sanngjarnri skiptingu skuldabyrða af völdum fjármálakreppunnar. Við gjaldþrot heimila hverfa fasteignalán ekki heldur falla beint og óbeint á skattgreiðendur. Auk þess draga gjaldþrot heimila enn frekar úr eftirspurn í hagkerfinu og kreppan dýpkar þar af leiðandi.

Á undanförnum mánuðum hafa komið fram kröfur um að verðbólguhækkun höfuðstóls fasteignalána og afborgana verði leiðrétt. Mörgum mun finnast slík leiðrétting óréttlát gagnvart þeim sem ekkert skulda. Það má hins vegar ekki gleyma því að verulega hallar á skuldsett heimili í þeim björgunaraðgerðum sem nú þegar hefur verið gripið til. Jafnframt er lítið réttlæti falið í því að láta skuldsett heimili taka á sig auknar byrðar í hlutfalli við skuldastöðu þeirra.

Í byrjun mars sl. taldi Seðlabankinn að um 34 þúsund heimili væru komin með eða væru nálægt því að hafa neikvæða eiginfjárstöðu. Bankinn hefur jafnframt spáð því að raunvirði fasteignaverðs muni lækka um 30% til ársins 2010. Brugðist hefur verið við með því að bjóða upp á greiðslujöfnun og greiðsluaðlögun fyrir þá sem eru komnir í þrot með lánin. Þetta eru sértækar aðgerðir sem byggja á mati á þörf hvers og eins fyrir aðstoð. Áhersla á sértækar aðgerðir eins og greiðslujöfnun og greiðsluaðlögun eru ekki í samræmi við grundvallarmarkmið norræna velferðarkerfisins þar sem öllum er tryggður sami réttur án tillits til þjóðfélagsstöðu og síðan er skattkerfið notað til að ná fram jöfnuði.

Að minnsta kosti sex leiðir hafa verið lagðar til um hvernig taka megi á skuldavanda heimilanna. Þessar leiðir felast annaðhvort í því að lækka höfuðstól eða lækka greiðslubyrði. Aðgerðir þessar munu fela í sér eignatilfærslu frá einum hópi einstaklinga til annars þar sem ekki er búið að afskrifa öll fasteignalán landsmanna og leiðréttingin mun því að einhverju leyti falla á ríkissjóð og þar með á skattgreiðendur.

Frú forseti. Ég legg því til að hæstv. forsætisráðherra skipi nefnd með fulltrúum (Forseti hringir.) allra hagsmunaaðila til að fara yfir og ná samkomulagi um leiðir til að leiðrétta (Forseti hringir.) óréttlætið sem skapast hefur af völdum verðtryggingarinnar. Slík samráðsnefnd er forsenda þess að hér náist þjóðarsátt um endurreisnina.



[15:55]
Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra upplýsti okkur um að ekki séu eins mörg heimili í vanda stödd og almennt var talið. Það sem mestu máli skiptir er að of mörg heimili eru í vanda en ekki hve mörg.

Leiðrétta þarf alvarlega stöðu heimilanna með því að færa vísitölu verðtryggingarinnar handvirkt fram fyrir hrun hagkerfisins og hækkanir höfuðstóls og afborganir húsnæðislána til samræmis við það. Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána verður að lagfæra í samræmi við lagfæringu verðtryggðra íbúðalána. Afnema þarf verðtrygginguna eftir að skuldir heimilanna hafa verið leiðréttar. Fólkið í landinu vill greiða þær skuldir sem það sannarlega stofnaði til en þar við situr. Fólk almennt vill reka heimili sín af ábyrgð og skynsemi. Heimilin eiga ekki að bera ábyrgð á glórulausri efnahagsstjórn síðustu ára.

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra minntist á þá staðreynd að fjármunir séu takmarkaðir. Ríkisstjórnin hæstv. hefur ráðist í það óvinnandi verk að greiða skuldir óreiðumanna í útlöndum. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að það er ekki hægt og hætta að reyna það og gera það sem svo mörg heimili hafa neyðst til að gera. Að hætta að borga. Við þurfum að semja um skuldirnar og reyna að fá þær niðurfelldar. Þá fyrst er hægt að bjarga heimilunum og fyrirtækjunum.



[15:57]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Hæstv. forseti. Ég, eins og aðrir stjórnarandstæðingar hér, varð fyrir miklum vonbrigðum með svör fulltrúa stjórnarflokkanna. Raunar virtist hæstv. fjármálaráðherra vera hálfönugur yfir því að þurfa eina ferðina enn að ræða þetta mál. Það væri náttúrlega einfaldast fyrir hann að losna við þessa umræðu með því að leggja til einhverjar lausnir og þá hugsanlega líka að hætta að slá fyrir fram út af borðinu allar hugmyndir að lausnum sem koma frá öðrum.

Hæstv. forsætisráðherra talaði enn um kostnaðinn sem lendi á ríkinu við það að ráðast í leiðréttingu skulda en gleymir því líka eina ferðina enn að það er ekki búið að færa lánin úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Þegar það verður gert verður það gert með verulegri afskrift og eðlilegt að sú afskrift sé umtalsverð í ljósi þess að væru þessi lánasöfn bankanna, ég tala nú ekki um ef við tökum sem dæmi húsnæðislánin, seld á uppboði á alþjóðlegum markaði fengist fyrir þau bara brot af því sem nú stendur til að innheimta. Möguleikinn er fyrir hendi að ríkið kaupi þessi lán á sanngjörnu verði en þó ekki hærra verði en svo að afskriftirnar geti að einhverju leyti gengið áfram til þeirra sem skulda og á endanum skilist þá meira til baka út úr hagkerfinu sem þá fer ekki algjörlega á hliðina heldur geta heimilin haldið áfram að borga og fyrirtæki vonandi sem flest haldist áfram í rekstri.

Ég tek undir með hv. þm. Lilju Mósesdóttur um að nú væri ráð að forsætisráðherra skipaði nefnd til að kanna möguleikann á því að vinda ofan af verðtryggingunni. Tækifærið til þess er að skapast núna og við eigum að nýta það tækifæri. Raunar held ég, svona í framhaldi af þessum umræðum í dag, að það gæti verið ráð að stjórnarandstaðan eða einhverjir úr stjórnarandstöðunni settust niður með fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna, til að mynda hér í húsinu, og tækju í það einn dag, svona einhvers konar vinnudag, til að skiptast á hugmyndum um lausnir því að ríkisstjórnin kemur ekki með lausnir en kallar þó eftir lausnum frá öðrum og þær munum við svo sannarlega halda áfram að koma með hér á Alþingi. En það hvarflar að mér að það gæti verið heppilegra og þægilegra fyrir ríkisstjórnina ef þessar lausnir væru fyrst ræddar í lokuðu herbergi svoleiðis að henni þætti ekki eins og verið væri að stilla henni upp við vegg, hún væri að taka við lausnum frá einhverjum öðrum, því að það virðist henni mislíka stórkostlega.

Ef við settumst nú niður saman og reyndum í sameiningu að verja í það þó ekki væri nema einum degi til að finna lausnir á vandanum sem allir flokkar á Alþingi geta skrifað upp á að tilraun verði gerð til að fara í, þá væri ríkisstjórnin að sýna það samráð sem hún hefur talað svo mikið fyrir og í rauninni á einhvern hátt kannski að leysa þann vanda sem hún er komin í, fengi hjálp upp úr skotgröfinni sem hún virðist vera föst í og fengi um leið hugmyndir því að hugmyndir virðist skorta. Við þessar aðstæður þarf óvenjulegar hugmyndir, menn þurfa að þora að fara óvenjulegar leiðir. Við erum í stöðu sem íslenskt efnahagslíf hefur aldrei nokkurn tíma verið í áður og mun vonandi aldrei lenda í aftur og við þeirri stöðu og því ástandi duga ekki hefðbundin gömul ráð eins og að kalla hér saman þingmenn seint um kvöld til að hækka skatta á áfengi, tóbak og bensín. Menn þurfa að þora að hugsa aðeins út fyrir kassann og væri ekki bara ráð að við reyndum að gera það saman svoleiðis að ríkisstjórnin hefði þá líka stuðning við þær hugmyndir sem út úr slíkri vinnu kæmu?



[16:01]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan hafði ekki mikið nýtt fram að færa í þessari umræðu. Það var klifað á því sama að ekkert hefði verið gert fyrir heimilin í landinu þrátt fyrir það að hver einasti þingmaður hér inni ætti að þekkja þær 22 aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur farið í á umliðnum vikum og mánuðum. (Gripið fram í.) Það er klifað á því líka að öllum tillögum sem koma fram frá stjórnarandstöðunni og öðrum sé ýtt út af borðinu eins og hér var sagt. Þetta er auðvitað alrangt, þessar tillögur hafa verið til skoðunar m.a. hjá Seðlabankanum og þær hafa fengið sinn dóm, m.a. tillaga talsmanns neytenda, og ég lýsti því hvað Seðlabankinn hefur að segja um þær tillögur sem m.a. framsóknarmenn hafa sett fram. (Gripið fram í.) Þær kosta um 900 milljarða kr., þar af vegna heimilanna 285 milljarða kr., og ef farið verður í þessar aðgerðir munum við fara í aðra kollsteypu. Þá hefur Framsóknarflokkurinn ekki tekið með hvað þetta þýddi fyrir Íbúðalánasjóð sem færi á hausinn ef farið væri að tillögum framsóknarmanna og það hefur ekki verið rætt um hvaða áhrif þetta hefði á lífeyrissjóðina og greiðslurnar ef farið væri út í svona flata … (Gripið fram í.)

Ég veit að hv. þingmaður er órólegur yfir þessu en þetta eru bara staðreyndir málsins. Ef farið væri að tillögum framsóknarmanna þýddi það að niðurfelling á húsnæðisskuldum 17.500 heimila sem eru með meira en 20 millj. kr. í jákvæða eiginfjárstöðu væri 41 milljarður kr. sem er meira en við förum núna með í allar barnabætur, húsnæðisbætur, fæðingarorlof o.fl. Þetta er tvöfalt meira en sá halli sem við þurfum að glíma við á þessu ári. (Gripið fram í.) Það er því ljóst að menn þurfa að átta sig á áhrifunum af því að fara í svona aðgerðir.

Það að ekki sé farið í neinar aðgerðir, ég boðaði aðgerðir í ræðu minni áðan en það virðist ekki hafa komist til skila til nokkurs einasta þingmanns. (Gripið fram í.) Ég nefndi að það væri ákveðinn hópur sem þyrfti að fara í aðgerðir út af, 12% af þeim hópi heimilanna sem þarf að verja yfir 50% af ráðstöfunarfé sínu í greiðslubyrði af fasteignalánum. Það þarf að skoða hvernig á að fara í það að grípa til frekari aðgerða vegna þessa hóps og ekki síst þessa 6% hóps sem er líka með neikvæða eiginfjárstöðu. Það er verið skoða, m.a. er verið að ganga frá reglugerð eins og hér kemur fram að afskriftir verði ekki skattlagðar. Verið er að skapa forsendur fyrir því að bankarnir geti farið í svokallaða frjálsa greiðsluaðlögun, það er verið að skoða myntkörfulánin og ekki síst bílalánin og hvernig í það verður farið. Allt þetta er verið að skoða í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem fram koma nú frá Seðlabankanum og þetta erum við að skoða einmitt í samráði við aðila vinnumarkaðarins hvernig fara skal í. En óraunhæfar aðgerðir eins og hér hafa verið lagðar fram, sem setja þjóðina þráðbeint á höfuðið, (Forseti hringir.) eru ekki tillögur sem ég vil fara í. (Gripið fram í.)