137. löggjafarþing — 14. fundur
 4. júní 2009.
lokafjárlög 2007, 1. umræða.
stjfrv., 57. mál. — Þskj. 59.

[13:32]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga, sem er þá mælt fyrir hér í annað sinn a.m.k., eða lokafjárlög er það víst fyrir árið 2007.

Frumvarp þetta er lagt fram til breytinga á fjárheimildum vegna frávika í mörkuðum tekjum ríkisins og stofnana frá áætlun fjárlaga og til að gera tillögur um ráðstafanir á stöðu fjárheimilda í árslok, og það er annaðhvort gert með niðurfellingu eða flutningi til næsta árs. Þá er frumvarpið einnig til staðfestingar á niðurstöðum í ríkisreikningi ársins 2007. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi, þ.e. fyrr í vor eða síðla vetrar, en vegna anna í þinginu náðist ekki að afgreiða málið þó ég hyggi að það hafi verið fullunnið að mestu leyti af hálfu fjárlaganefndar, en frumvarpið er nú endurflutt óbreytt.

Uppbygging frumvarpsins er með sama hætti og verið hefur undanfarin ár, uppgjör og ráðstöfun á fjárheimildastöðum í árslok byggja á sömu vinnureglum og áður.

Í fylgiskjali 2 er birt yfirlit yfir talnagrundvöll frumvarpsins. Heildarfjárheimildir ársins 2007 námu 409,9 milljörðum kr., útgjöld samkvæmt ríkisreikningi voru 397,5 milljarðar kr. og fjárheimildastaða í árslok 2007 var því jákvæð um 12,4 milljarða kr. Í frumvarpinu er að vanda lagt til að stöður fjárheimilda í árslok verði annaðhvort felldar niður, eins og fram kemur í 2. gr. frumvarpsins, eða fluttar til næsta árs, eins og fram kemur í fylgiskjali 1 með frumvarpinu.

Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á fjárheimildum stofnana og verkefna vegna frávika markaðra ríkistekna frá áætlun fjárlaga og fjáraukalaga, samanber nánari skiptingu í sundurliðun 1. Alls er lagt til að fjárheimildir hækki um 2.117,7 millj. kr. samkvæmt þessu uppgjöri á fjármögnun verkefna með mörkuðum ríkistekjum. Nánari skipting niður á fjárlagaliði og viðfangsefni er sýnd í sundurliðun 1. Hér er leitað eftir heimild Alþingis fyrir því að ráðstafa mörkuðum skatttekjum og öðrum ríkistekjum stofnana í samræmi við það hverjar tekjurnar urðu samkvæmt uppgjöri ríkisreiknings eða hver metin fjárþörf reyndist vera við skil ríkissjóðs á mörkuðum tekjum til viðkomandi stofnana.

Almennt gildir að útgjaldaheimildir fjárlagaliða hækka hafi lögboðnar ríkistekjur til fjármögnunar á útgjöldum verið meiri en áætlað var í fjárlögum, en lækka hafi tekjurnar verið minni. Þetta er þó ekki algilt því að ekki eru lagðar til breytingar á fjárheimildum stofnana í þeim tilvikum þegar ekki er beint samband milli útgjaldaþarfar og fjármögnunar þannig að breytingar í tekjum hafi samsvarandi bein áhrif á kostnað.

Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til niðurfellingar á fjárheimildastöðum í árslok. Er þar bæði um að ræða ónotaðar fjárveitingar og gjöld umfram heimildir. Nánari skipting niður á fjárlagaliði og viðfangsefni er sýnd í sundurliðun 2. Gert er ráð fyrir að á rekstrargrunni falli niður samtals 7.054,7 millj. kr. umfram gjöld en að á greiðslugrunni falli niður 6.770,3 millj. kr. sem eru afgangsheimildir. Þessi mikli munur sem er á milli rekstrargrunns og greiðslugrunns hvað hinar niðurfelldu stöður varðar stafar að stærstum hluta af því að niður falla háar stöður sem ekki hafa áhrif á útgreiðslur, svo sem stöður á liðnum Lífeyrisskuldbindingar og Afskriftir skattkrafna.

Ráðstafanir á fjárheimildastöðum í árslok byggja á viðmiðunarreglum þar sem einkum er litið til þess hvort útgjöld eru bundin, t.d. af lögum eða samningum, eða frekar á ábyrgð tiltekins stjórnsýsluaðila sem viðhaft geti virka útgjaldastýringu. Í sumum tilvikum kann að vera álitamál hvort fella beri niður stöður einstakra fjárlagaliða eða flytja til næsta árs og við gerð sérhvers lokafjárlagafrumvarps þarf að leggja mat á þessi tilvik.

Í samræmi við ákvæði 37. og 45. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, er í fylgiskjali 1 með frumvarpinu birt yfirlit yfir stöðu fjárheimilda í árslok 2007 sem færast yfir til ársins 2008. Gert er ráð fyrir að í heildina tekið flytjist tæplega 19,5 milljarðar kr. jákvæð fjárheimildastaða yfir til ársins 2008. Sú fjárhæð samsvarar 4,5% af fjárveitingum fjárlaga 2008.

Ég hef, virðulegur forseti, farið yfir helstu þætti frumvarpsins. Með því eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður úr rekstri ríkissjóðs gagnvart fjárheimildum á árinu 2007 og vísast í því sambandi til greinargerða í fjáraukalögum og ríkisreikningi og um meginatriði í framvindu ríkisfjármálanna og helstu frávik í tekjum og gjöldum. Ég tel því ekki ástæðu til að fara yfir einstök atriði frumvarpsins frekar og legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins, sem á að vera orðin frumvarpinu nokkuð vel kunn og á nú í vændum að fá það til umfjöllunar í annað sinn á þessu ári.



[13:37]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að fjárlaganefndin ætti að vera þessu frumvarpi til lokafjárlaga fyrir árið 2007 allvel kunn við lok yfirferðar ef við erum að fara — það er ekki ef, því við erum að fá þetta frumvarp aftur inn til nefndar vegna þess að ekki tókst að ljúka því á síðasta þingi.

Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs við umræðuna er kannski líka sú að vekja athygli á því með hvaða hætti upplýsingastreymi til Alþingis varðandi fjárlög og uppgjör er háttað. Við erum núna í þeirri stöðu að ræða það að ljúka yfirferð á frumvarpi til lokafjárlaga fyrir árið 2007 þegar langt er liðið á árið 2009. Með leyfi forseta, ætla ég að leyfa mér að vitna til nefndarálits sem lagt var fram af hálfu hv. fjárlaganefndar á síðasta þingi með því frumvarpi sem verið er að endurflytja núna. Á árinu 1997 var mörkuð skýr stefna um efni fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga, þ.e. allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir áttu að koma fram í fjárlögum, í fjáraukalögunum hefði átt að taka inn og ætti að taka inn fyrst og fremst atriði sem eingöngu voru ófrávíkjanleg og ófyrirséð útgjöld, en aðrar fjárhagsráðstafanir ættu að koma fram fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár eða þá í afgreiðslu lokafjárlaga eins og hér liggja fyrir.

Með sama hætti vil ég nefna að í því nefndaráliti var ítrekað það atriði að fjárstjórnarvaldið er í höndum Alþingis, samanber 41. og 42. gr. stjórnarskrárinnar. Í 41. gr. kemur fram að það má ekkert gjald greiða úr ríkissjóði nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Samkvæmt þessum lagafyrirmælum ber að leita heimilda til greiðslna úr ríkissjóði, eftirgjafa á kröfum og til hvers konar samninga um fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkisstofnanir. Þessar ákvarðanir eru teknar á fjárlögum eða eftir atvikum í fjáraukalögum eins og áður segir.

Hv. fjárlaganefnd sat á fundi í morgun þar sem farið var yfir með heilbrigðisráðuneytinu stöðu og framkvæmd fjárlaga fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins. Hv. fjárlaganefnd fékk samantekt frá fjármálaráðuneytinu, dagsetta 20. maí, þar sem gerð var grein fyrir stöðu þessara mála í öllum ríkisstofnunum. Fram kemur í þessu yfirliti sem hér um ræðir að það eru yfir 110 fjárlagaliðir með meira en 4% umframkeyrslu úr fjárheimildum, þar af 83 af þessum 110 sem fara meira en 10% fram úr fjárheimildum.

Þegar við göngum eftir þessu kemur fram í erindi fjármálaráðuneytisins að þeir hafi sent viðkomandi ráðuneytum bréf þar sem er óskað eftir skýringum forstöðumanna á því hvernig á þessu standi og leitað eftir tillögum þeirra um úrbætur og farið er fram á að þessu séu gerð skil eigi síðar en 3. júní, þ.e. í gær. Heilbrigðisráðuneytið var ekki búið að gera skil til fjármálaráðuneytisins. Í þessari stöðu er fjárveitingavaldið, í þessari stöðu er Alþingi gagnvart upplýsingum dagsins í dag. Hér erum við að ræða uppgjör fyrir árið 2007 og núna þegar fer að nálgast mitt ár er Alþingi ekki farið að sjá neinar útlínur af útkomu ársins 2008. Einu tölurnar um stöðu mála í dag sem við höfum eru bráðabirgðauppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuðina. Upplýsingagjöfin til Alþingis er að mínu mati fyrir neðan allar hellur og þessu verður að kippa í liðinn.

Í ljósi þeirra umræðna sem um þessi mál hafa átt sér stað á undanförnum mörgum árum — ég er ekki að beina skotum að hæstv. fjármálaráðherra hér og nú, þetta er verklag sem hefur viðgengist á mörgum, mörgum undanförnum árum og ber að kippa í liðinni, og ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir úrbótum í því — vil ég nefna í þessu sambandi að fjárlaganefndin hefur kallað eftir því mjög ríkt á síðasta ári að fá tækifæri til þess að endurbæta og virkja eftirlitshlutverk Alþingis, sem því er lögskipað að hafa með höndum, og hefur í þeim efnum leitað ítrekað eftir því við fjármálaráðuneytið að opnað verði fyrir skoðunaraðgang nefndarinnar að þeim gögnum sem hún telur sig þurfa að komast að í ríkisbókhaldinu. Við höfum ekki fengið nein svör við þessu enn þá en mjög brýnt er að úr þessu verði bætt og þá án tafar. Þetta er atriði sem ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að beita sér fyrir úrbótum á og treysti raunar á að svo verði gert.

Meginatriði mitt við umræðuna að koma hér upp í ræðustól undir þessu máli er fyrst og fremst að vekja athygli þingheims á því í hvaða stöðu Alþingi er til þess að reyna að vinna með upplýsingar þegar aldrei hefur verið brýnna en einmitt nú í ljósi efnahagsástandsins og fjármálalegrar stöðu ríkissjóðs, að þær upplýsingar sem Alþingi á að vinna með séu sem ferskastar og sem nýjastar. Það hefur aldrei verið brýnna en nú að þær séu tiltækar. Staðan er eins og ég hef verið að lýsa, því miður, og ég heiti á og skora enn og aftur á hæstv. fjármálaráðherra að beita sér fyrir úrbótum í þessum efnum.



[13:44]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta frumvarp til lokafjárlaga fyrir 2007 er orðið seint á ferðinni en það á sér þær skýringar að það var lagt hér fram sl. vetur. Ekki hafði unnist tími til að mæla fyrir því fyrr en eftir stjórnarskipti, ef ég man rétt gerði ég það síðla febrúar eða í byrjun mars og síðan vannst Alþingi ekki tími til að afgreiða það í önnunum í lok mars og byrjun apríl fyrir kosningar, því er það endurflutt hér einu sinni enn.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að eftirfylgni með framkvæmd fjárlaga er mjög mikilvæg og að styrkja rammann sem þar er unnið eftir. Það hefur heilmikið verið skoðað nú, sérstaklega í ljósi aðstæðna, og m.a. liggur fyrir skýrsla sem sérfræðihópur á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vann og ég þykist vita að fjárlaganefnd hafi fengið kynningu á. Sömuleiðis var haldinn kynningarfundur fyrir flesta ráðherra ríkisstjórnarinnar sem komu á óformlegan fund og fóru yfir þetta mál og ætlunin er að fara í ýmsar þær breytingar sem þar eru lagðar til og ég held að þær séu flestar ef ekki allar til bóta.

Það sem menn hafa gert að undanförnu að því er mér virðist er að menn hafa reynt að vera með ársfjórðungslegt mat og kynningu á stöðunni eins og þessi niðurstaða um útgjöld fyrsta ársfjórðunginn gefur til kynna. Í beinu framhaldi af því að hún lá fyrir var hún kynnt í ríkisstjórn, bréf send til ráðuneyta og allra þeirra aðila sem höfðu farið út fyrir mörkin, sem og gögnin send til fjárlaganefndar. Ég fagna þátttöku fjárlaganefndar í því að skoða slík gögn og veita aðhald í þeim efnum.

Hvað varðar aðgang nefndarinnar að nákvæmari og tímanlegri gögnum úr þróun ríkisbúskaparins eða ríkisbókhaldinu er alveg sjálfsagt að taka það til skoðunar. Reyndar hafa mér verið kynntar hugmyndir um sérstök kerfi sem notuð séu sums staðar í stofnunum eða fyrirtækjum sem hugsanlega mætti taka upp (Forseti hringir.) og væru þannig að þau veittu sjálfkrafa aðgang að tilteknum hlutum.



[13:46]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi svör og athugasemdir sem komu fram hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það er ástæða til að ítreka þá stöðu sem fjárlaganefndin er í varðandi þau atriði sem hér hafa verið nefnd. Ég vil fyrst tiltaka að enginn ágreiningur var í nefndinni um það nefndarálit sem lagt var fram fyrr í vor um þetta frumvarp og ber að fagna því að sparaðar eru held ég 500 þús. kr. með því að krota framan á forsíðu frumvarpsins í stað þess að endurprenta það og það er bara til eftirbreytni og hið besta mál.

Ég vil nefna sem dæmi í tengslum við skort á upplýsingum fyrir fjárlaganefnd til að geta rækt þetta eftirlitshlutverk sitt, að við höfum spurt eftir því ítrekað hvernig þessi grunnur að þeim 20 milljarða viðbótarhalla, sem menn ræða um að hafi myndast, sé til kominn. Við höfum engar sundurliðanir séð um það. Við inntum fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins eftir því á þeim fundi sem ég gat um áðan með hvaða hætti þeim væri ætlað eða því ráðuneyti, sem er gríðarlega stórt í ríkisbúskapnum, væri ætlað að koma að því að mæta útgjöldum af þessum 20 milljörðum. Engar óskir eru uppi til ráðuneytisins varðandi það og engar hugmyndir um hvernig það á að útfærast þar. Það er heldur engin áform enn þá uppi að því er okkur var tjáð í fjárlaganefndinni með hvaða hætti heilbrigðisráðuneytið byggi sig undir fjárlög næsta árs, vissi einungis það eitt í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefði sér stað að um niðurskurð yrði að ræða en engar línur þegar komnar í það mál.

Þetta er veruleikinn sem fjárlaganefndin stendur frammi fyrir í þessum efnum gagnvart því að rækja þetta lögbundna eftirlitshlutverk sem henni er áskipað með lögum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fjárln.