137. löggjafarþing — 15. fundur
 5. júní 2009.
um fundarstjórn.

umræða um Icesave.

[15:46]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er lokið fundi formanna þingflokka ásamt forseta þingsins með hæstv. fjármálaráðherra. Að sjálfsögðu ríkir trúnaður um ýmislegt sem þar fór fram en þó er sú niðurstaða að það verður ekki tekin fyrir sérstök umræða um stöðuna í Icesave-málinu eins og var beiðni stjórnarandstöðunnar.

Staðan er sú að stjórnarandstaðan er bundin trúnaði um þær upplýsingar sem henni voru veittar hér í morgun þó að við teljum reyndar að það hafi engan veginn nægar upplýsingar komið fram til þess að við getum myndað okkur nokkra afstöðu til þeirra atburða sem nú eiga sér stað sem hafa jafnmikið vægi fyrir íslenska þjóð til langs tíma, ef fram gengur. Við höfum þess vegna viljað eiga möguleika á að eiga hér umræður í þingsalnum um þetta mikilvæga mál og teljum með öllu ófært að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra, geti tjáð sig um þessi mál á opinberum vettvangi á meðan stjórnarandstaðan er bundin. (Forseti hringir.) Það er óeðlilegt.



[15:48]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er lítið eða ekkert orðið eftir af því sem þessi ríkisstjórn lagði upp með og kynnti sem ástæðu þess að menn ættu að fagna þessari sögulegu valdatöku vinstri flokkanna á Íslandi. Hér er níðst á þinginu og það sem verra er, það er verið að níðast á þjóðinni með því sem hér er að gerast í dag.

Ég ætla aftur að vitna í hæstv. fjármálaráðherra frá því fyrir tveimur dögum þegar ég spurði hann um það hvort eitthvað væri að gerast í Icesave-málinu.

Hæstv. ráðherra svaraði þá, með leyfi forseta:

„Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.“

Þetta er ósatt, frú forseti.



[15:49]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég er að velta því fyrir mér í ljósi mikilvægis þeirrar umræðu sem hér fer fram hvort hæstv. forseti muni beita sér fyrir því að kalla hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra til þingsalarins. Ég vil minna á að þingmennskunni fylgir sú skylda að vera viðstaddur umræður eða fylgjast með þeim. Ég legg mikla áherslu á það í ljósi mikilvægis málsins að hæstv. ráðherrar komi til þessarar umræðu, sýni þinginu þá virðingu að vera hér viðstaddir því að við vitum svo fátt í þessu stóra máli, hvenær eigi að skrifa undir til dæmis. Ég trúi því ekki að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ætli að skrifa undir skuldbindandi samkomulag, ætli að skuldbinda íslensku þjóðina — kannski er þetta mesta skuldbinding í sögu lýðveldisins — án þess að bera það formlega undir þingið eða kynna það með viðunandi hætti. Það er verið að traðka á þingræðinu. Það er verið að traðka (Forseti hringir.) á lýðræðinu ef það á að halda svona áfram. Því spyr ég frú forseta hvort hún hyggist (Forseti hringir.) beita sér fyrir því að kalla þessa tvo ráðherra hingað til þingsalarins.



[15:50]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum enn að ræða þetta risastóra mál sem er dembt hér yfir okkur í dag af ríkisstjórninni. Á okkur í stjórnarandstöðunni er lögð sú skylda að halda trúnað um mál sem við munum að sjálfsögðu að gera. Meðan ætlar ríkisstjórnin að ræða málið í fjölmiðlum án þess að okkar sjónarmið eða önnur sjónarmið komi fram. Þetta er mjög óeðlilegt og það er líka sorglegt að ríkisstjórnin skuli ekki beita sér fyrir því og ráðherrarnir að þetta mál skuli tekið upp og rætt hér í þinginu til þess að við getum fjallað um það með eðlilegum hætti líkt og ríkisstjórnin og ráðherrarnir ætla sér að gera.

Það er algjör lágmarkskrafa að forseti beiti sér fyrir því að þær nefndir sem þetta mál snertir verði kallaðar saman og þær upplýstar um málið. Það er algjör lágmarkskrafa. Þetta er það stórt mál að það er ólíðandi að verið sé að pukrast með það einhvers staðar, hugsanlega að gera eitthvert samkomulag sem þingið er ekki upplýst um á þessum tímapunkti, (Forseti hringir.) mjög viðkvæmum tímapunkti í þjóðfélaginu.



[15:51]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að hún er reiðubúin til þess að sjá til þess að viðkomandi nefndir verði kallaðar saman sé það ósk hv. þingmanna.



[15:52]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að halda áfram að upplýsa þingheim með því að lesa upp úr mbl.is. Á þeim vef klukkan 15.07 er frétt þess efnis að Steingrímur fái fullt umboð og að það hafi verið ákveðið á ríkisstjórnarfundi þannig að við vitum það þá, þingheimur góður.

Hér stendur, með leyfi forseta, haft eftir hæstv. forsætisráðherra:

„Vonir standi þó til að þetta verði undirritað fljótlega með fyrirvara um samþykki Alþingis.“

Ég vil því ítreka spurningu okkar þingmanna frá því í morgun, virðulegur forseti, sem hæstv. fjármálaráðherra sá sér ekki fært að svara þegar hann þó heiðraði okkur hér með nærveru sinni: Mun þingheimi gefast tækifæri og kostur til að ræða þetta mikilvæga mál áður en samningurinn verður undirritaður?

Þetta er spurning sem ég tel að við þingmenn höfum rétt á að fá svar við vegna þess að það er til einskis að boða hér (Forseti hringir.) umræður um þetta mikilvæga mál eftir að skaðinn er skeður.



[15:53]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það eru gríðarleg vonbrigði að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra séu ekki viðstaddir hér í dag til þess að fara í þessa umræðu. Vissulega ber að fagna því að gert var hlé á þingfundi til að kalla saman formenn þingflokka til þess að ræða málið. En satt að segja bjóst maður við því að niðurstaðan yrði sú að hér yrði umræða um Icesave-málið. Það eru mikil vonbrigði að svo varð ekki.

Sú ríkisstjórn sem hér starfar talar á tyllidögum um gagnsæi, samráð, lýðræði. En það er augljóst að þær yfirlýsingar allar, öll sú umræða, er bara í orði en ekki á borði.



[15:54]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess vegna ummæla hv. þingmanns að hæstv. forsætisráðherra er utan bæjar af persónulegum ástæðum.



[15:54]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að upplifa þá lítilsvirðingu sem er verið að sýna hér þingheimi af hæstv. ríkisstjórn. Hvað með allar fyrri yfirlýsingar þessa ágæta fólks um gagnsæi, lýðræði og málefnalega umræðu? Við erum hér að fjalla um eitt mikilvægasta mál sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir, sem við sem þingmenn stöndum frammi fyrir og þær upplýsingar sem við höfum fengið, hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni, eru svona um það bil 15–20 mínútna kynning á þessu máli þar sem við vorum beðin um trúnað sem við lásum síðan allt um í blöðunum eða á netmiðlunum stuttu seinna.

Það er skýlaus krafa að þetta mál verði tekið hér til málefnalegrar umræðu, að hæstv. forseti sjái til þess að þetta mál verði rætt hér utan dagskrár í dag (Forseti hringir.) og það verði gefinn lengri ræðutími í því. Ef einhvern tímann (Forseti hringir.) er tilefni til þess þá er það við þessar aðstæður.



[15:55]
Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Nú hefur það verið upplýst að hæstv. fjármálaráðherra hefur fengið umboð ríkisstjórnarinnar til að ganga frá þessu svokallaða Icesave-máli, væntanlega á grundvelli þeirra upplýsinga sem við fengum afar lauslegar á þingflokksfundum í morgun. Gagnvart okkur ríkir afar mikill trúnaður þótt svo sé ekki þegar hæstv. forsætisráðherra fer mikinn í fjölmiðlum.

Það er algjörlega gagnslaust, frú forseti, að ætla að boða hér til umræðna um Icesave eftir að undirskrift hefur farið fram. Það var algjörlega ófært að fá hæstv. fjármálaráðherra til að segja frá því hér áðan hvenær til stæði að skrifa undir. Það gæti þess vegna orðið bara mjög fljótlega. Það hefur enga þýðingu fyrir þingið að bjóða þinginu upp á það, frú forseti, að ræða þetta þegar það er um garð gengið. Það er til háborinnar skammar fyrir Alþingi og á bara ekki að líðast. Frú forseti verður að beita sér fyrir því að svo verði ekki og þetta mál verði tekið á dagskrá nú strax í dag. (Forseti hringir.) Vilji stórs hluta þingmanna liggur hér fyrir, virðulegi (Forseti hringir.) forseti, enda er hún kjörin af okkur öllum til hennar starfa. (Gripið fram í: Nákvæmlega.)



[15:57]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er viðvaningur í þessu öllu saman, nýr á þingi. En ég verð að segja að mér ofbýður þessi málsmeðferð, að við skulum standa frammi fyrir því að hér séu hugsanlega að bresta á samningar um mestu skuldbindingar sem við Íslendingar höfum tekið á okkur og það fáist ekki að ræða þetta mál í þinginu.

Ég skora á virðulegan forseta að beita sér fyrir því að hér verði umræður um þetta mál þannig að málsatvik megi koma í ljós og fólk geti þá myndað sér einhvers konar skoðanir og rökrætt um þennan samning vegna þess að það er ekki hægt og það er ekki bjóðandi að skrifa upp á einhvern samning þar sem niðurstaðan er ekki vituð.



[15:58]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við enn að ræða þá staðreynd að þingið virðist standa frammi fyrir orðnum hlut. Það er mjög alvarlegt hvernig að þessu er staðið ef það er rétt sem hefur verið sagt hér að það er um það bil verið að fara að skrifa undir þessa samninga. Þá er svartur dagur í sögu þjóðarinnar runninn upp. Það er verið að skuldbinda þjóðina fram í tímann, langt fram í tímann. Það er verið að afsala okkur að nokkru leyti fullveldinu. Það er verið að skuldsetja næstu kynslóðir.

Samt er aðalmálið í þessu að hæstv. fjármálaráðherra sagði hér ósatt fyrir tveimur dögum. Hann sagði þinginu ósatt. Hann sagðist ekki kannast við að nokkurs staðar væri til staðar einhver samningur sem ætti að fara að undirrita, hvað þá heldur meir, eða yfir höfuð samningur um það hvernig ætti að leysa þetta Icesave-mál.

Ég bið hæstv. fjármálaráðherra að endurskoða stöðu sína sem ráðherra. Það að segja þinginu ósatt er grafalvarlegt (Forseti hringir.) og jaðrar við að það þurfi að víkja hæstv. fjármálaráðherra frá og vísa ég þar í 14. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar (Forseti hringir.) um ráðherraábyrgð.



[15:59]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Rétt til að draga fram það sem kom fram á fundinum áðan með hæstv. fjármálaráðherra þá tilkynnti hann þar að hann mundi við fyrsta tækifæri mögulega, strax og hægt væri, kynna þinginu skýrslu um gang mála, að nefndirnar sem nú væru að ræða saman hefðu umboð til að ná saman drögum sem þær mundu kynna sínum stjórnvöldum, að nefndin hefði umboð fjármálaráðherra til að halda áfram. Hvernig því reiddi af ætti eftir að koma í ljós og fyrr gæti hann ekki gefið þinginu skýrslu um málið. Það var afdráttarlaus vilji ráðherrans að kynna þinginu niðurstöðu um leið og hægt væri, fyrr gæti hann ekki gert það. Það var alveg afdráttarlaust. Það á að ræða málið hér í þinginu um leið og hægt er, um leið og nefndirnar hafa komið sér saman um einhver drög til að kynna, þannig að því sé til haga haldið að ráðherra fjármála var ekki að víkja sér undan því að ræða málið hér og kynna það fyrir þinginu um leið og þess væri kostur og gaf hann þess vegna upp með það að (Forseti hringir.) ræða það hér á kvöldfundi ef það væri vilji manna, ef það lægi fyrir þá.



[16:01]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég ítreka fyrri beiðnir sem hafa komið fram um það að forseti beiti sér fyrir því að veita þinginu upplýsingar um hvort skrifa eigi undir Icesave-samkomulag á næstu dögum, í dag eða á næstu 24 klukkustundum. Ég hvet líka frú forseta til að beita sér fyrir því að það verði kynnt fyrir þinginu á viðeigandi máta hvað er í gangi, að við fáum einhverjar upplýsingar.

Það hefur aðeins verið lesið úr fréttum sem hafa komið fram í dag en mig langar til að lesa setningu sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í tilefni þess að við vorum að ræða Icesave síðast, um þetta samkomulag sem hann sá fyrir sér þá, með leyfi forseta:

„Það er dapurlegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin skuli hafa látið beygja sig í þessu máli og ég þakka fyrir að sú ríkisstjórn sem nú situr skuli ekki hafa verið í forsvari fyrir þjóðina þegar við háðum fiskveiðideilurnar við Breta og aðrar þjóðir á sínum tíma, (Forseti hringir.) hún hefði lyppast niður á fyrsta eða öðrum degi.“



[16:02]
Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti. Sem nýliði á þingi er ég alveg rasandi hissa á þeim vinnubrögðum sem hafa viðgengist í dag og vinnubrögðum framkvæmdarvaldsins á Íslandi gagnvart almenningi og gagnvart þinginu. Ég sætti mig ekki við svona vinnubrögð. Það er verið að skuldbinda þjóðina upp á hundruð milljarða áratugi fram í tímann án þess að hún sé upplýst um það. Þingið er ekki upplýst um það fyrir fram með hvaða hætti þetta verður. Þetta heitir að starfa í reykfylltum bakherbergjum, frú forseti. Borgarahreyfingin kom ekki inn á þing til að taka þátt í því. Því mun ég fara úr þingsal á eftir og ég mun upplýsa mitt bakland um allt það sem ég hef orðið var við á þinginu í dag, hvers konar vinnubrögð líðast hér, hvers konar stofnun þetta er og hvers konar vanvirðingu þingið og framkvæmdarvaldið sýnir almenningi í landinu. Þetta er algerlega ótækt. Ég skammast mín fyrir að vera þingmaður á þingi sem hegðar sér með þessum hætti. (Forseti hringir.) Og meiri hluti þingmanna sem styður þessa ríkisstjórn ætti að taka til alvarlegrar athugunar hvers konar vinnubrögðum hann er að taka þátt í.



[16:03]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti, okkar allra þingmanna. Ég legg til að þessum fundi verði slitið, á honum eru fjögur mál sem eru innleiðing á tilskipunum Evrópusambandsins og tvö þingmannamál sem ég tel að megi bíða. Boðaður verði nýr fundur strax í kjölfarið þar sem fyrir er tekin skýrsla fjármálaráðherra sem hefur fengið fullt umboð samkvæmt mbl.is til að skrifa undir samning sem mun eyðileggja lánshæfismat Íslands, sem mun steypa þjóðinni í áratugafátækt. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)



[16:04]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Við komum hér enn undir liðnum Fundarstjórn forseta og ég trúi því ekki að óreyndu að ætlast sé til þess að við höldum áfram auglýstri dagskrá og ræðum það sem hér var sett á blað áður en þeir atburðir gerðust í morgun sem varða þetta Icesave-mál. Það er ekki hægt að ætlast til þess af þingmönnum þjóðarinnar sem eru kjörnir til að starfa samkvæmt fullri samvisku og hreinskilni að þeir standi hér og ræði mál samkvæmt auglýstri dagskrá en fari ekki í þau mál sem virkilega þarf að ræða eins og rætt hefur verið í allan dag.

Ég vil biðja hæstv. forseta um að taka málið aftur til athugunar og tek undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Péturs Blöndals, um að afboða þessa dagskrá og auglýsa nýjan fund þar sem við förum að ræða þau mál sem skipta máli. (Forseti hringir.) Ég trúi því ekki að við eigum að fara að standa hér og ræða um tilskipanir Evrópusambandsins í ljósi ástandsins.



[16:06]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að Icesave-deilan þýðir það að við erum að taka á okkur gígantískar upphæðir í skuldbindingar sem ætlast er til að almenningur borgi. Í morgun fengu allir stjórnmálaflokkarnir upplýsingar í trúnaði en hæstv. forsætisráðherra braut trúnaðinn í fjölmiðlum. Núna átta menn sig ekki alveg á stöðunni. Ríkir trúnaður enn þá og um hvað er sá trúnaður? Er það rétt að það sé yfirvofandi að skrifa eigi undir samning um þetta mál núna á næstunni? Er það rétt eða ekki? Er það rétt að ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu, Indriði Þorláksson, eigi að skrifa undir samning eða er það úr lausu lofti gripið? Það eru þær upplýsingar sem ég hef fengið, að ef einhver skrifar undir væri það væntanlega hann, með fyrirvara um samþykki Alþingis. Er það rétt eða er það einhver annar?

Ég tel, hæstv. forseti, að það eigi að slíta (Forseti hringir.) þessum fundi og það eigi að kalla saman utanríkismálanefnd og hún fari yfir það hvað eigi að vera í trúnaði og hvað ekki og fari yfir það hvernig málin standa. Það er ekki hægt að halda svona áfram, (Forseti hringir.) það verður að kalla saman utanríkismálanefnd sem fyrst.



[16:07]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég fer fram á að utanríkismálanefnd verði kölluð saman strax til að ræða þetta mál. Þetta er alveg gríðarlegt hagsmunamál sem hér er um að ræða. Það hafa þegar komið fram vissar upplýsingar um þennan áformaða samning í fjölmiðlum og út frá þeim upplýsingum sem þegar hafa komið fram má reikna út að eingöngu vextirnir, vextirnir fyrsta árið séu jafnháir og nemur meðallaunagreiðslum til 10 þúsund Íslendinga og þá eru ekki tekin með hugsanleg margföldunaráhrif. Það sé verið að borga sem samsvarar launum 10 þúsund Íslendinga í vexti fyrsta árið. Þetta vill ríkisstjórnin ekki ræða. Hún vill halda áfram að ræða einhver EES-ákvæði, hér er einn ráðherra mættur, ópólitískur ráðherra sem ætlar væntanlega að fara að fjalla um þessi EES-ákvæði sín þegar þetta mikilvægasta hagsmunamál hugsanlega nokkurn tíma í sögu þingsins, mikilvægasta efnahagslega hagsmunamál fæst ekki rætt í þinginu. Þetta er hneisa.



[16:08]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það litla sem hefur komið fram af hálfu stjórnarflokkanna í þeirri umræðu sem hefur farið fram hér í dag gefur eiginlega frekar tilefni til að spyrja fleiri spurninga en það hefur svarað nokkrum af þeim spurningum sem varpað hefur verið fram. Mér finnst margt í þessu máli mjög óljóst. Mér finnst, miðað við það sem hefur komið fram hér í umræðum, óljóst hvaða umboð það var raunverulega sem fjármálaráðherra var falið á ríkisstjórnarfundi í hádeginu. Hugsanlega gæti hæstv. viðskiptaráðherra sem sat þann fund, vænti ég, upplýst okkur um það í þessari umræðu: Hvers eðlis var það umboð sem ríkisstjórnin samþykkti til fjármálaráðherra? Ég skildi það svo af fréttum að það væri umboð til að undirrita samkomulag. Svo heyri ég í hv. formanni þingflokks Samfylkingarinnar sem er enn að tala um einhver drög, einhver samkomulagsdrög, óljós drög sem eigi að kynna fyrir þinginu og eitthvað þess háttar. Þannig að þegar talað er á vettvangi ríkisstjórnarinnar virðist málið miklu lengra komið en þegar hv. formaður þingflokks Samfylkingarinnar talar um það.

Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort (Forseti hringir.) forseti geti skýrt fyrir okkur afstöðu sína í því hvers vegna hæstv. forseti sjálf tekur ekki þá ákvörðun að (Forseti hringir.) efna til þeirrar utandagskrárumræðu sem hér hefur ítrekað verið beðið um.



[16:10]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hafði eftir hæstv. fjármálaráðherra að þetta mál yrði að sjálfsögðu rætt við fyrsta mögulega tækifæri. Ég hef ekki enn þá fengið svör við þeirri spurningu minni: Er það sem hæstv. fjármálaráðherra er að vísa til sem fyrsta mögulega tækifæri fyrir eða eftir undirritun samningsins? Og það sem er lykilatriði í þessu máli: Fær þingheimur tækifæri til að ræða þetta mál áður en undirritunin fer fram eða ekki? Ég tek undir þá kröfu sem hér hefur komið fram ítrekað, virðulegur forseti, sem ég get með ánægju upplýst að ég kaus sem forseta hæstv. Alþingis í þeirri trú og ég veit þeirri vissu að hæstv. forseti ætlar að gegna því embætti í þágu (Forseti hringir.) alls þingheims, en hvers vegna beitir virðulegur forseti sér ekki fyrir því að leyfa umræðu um þetta nú þegar og slítur fundi?



[16:11]
Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það sem hefur komið fram frá því í morgun þegar þingflokkarnir fengu þessa lauslegu útgáfu af því hvað fram undan væri í Icesave-málinu hefur einungis verið til þess að gera málið ruglingslegra. Í rauninni er það svo að það er miklu brýnna nú en áður að þetta mál komi á dagskrá strax í dag svo hægt sé að ræða það.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom fram með skýringar sem eru af allt öðrum toga en þær sem hæstv. fjármálaráðherra reyndi með einhverjum hætti að koma til skila fyrr í dag. Reyndar er það svo að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar láta sig þessa umræðu litlu varða, það er eins og sú skuldbinding sem fram undan er skipti ekki svo miklu máli að það sé ástæða til vera í þingsalnum til að ræða það. Þetta kemur mér afar mikið á óvart.

Ég verð líka að segja það, frú forseti, að hér fer stór meiri hluti þingmanna fram á það að forseti fresti fundi (Forseti hringir.) og setji á dagskrá utandagskrárumræðu og það kemur mér afskaplega mikið á óvart að sá forseti sem situr í stólnum núna skuli ekki verða við því.



[16:13]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég verð að segja það sem einn nýliðanna á þingi að maður er eiginlega að verða algerlega agndofa. Það sem búið er að gera frá því að þing var boðað saman og við tókum umræðuna um daginn í sambandi við hækkunina á olíugjaldinu og brennivíni og tóbaki eru nákvæmlega sömu vinnubrögðin og eru viðhöfð núna. Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst það afskaplega sérkennilegt að þegar menn fara í verkefni eins og fram undan er, að skrifa undir samkomulag út af Icesave-reikningunum, þá þarf enginn að segja mér það að sú nefnd sem er með það skrifi undir í umboði ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að sá samningur verði samþykktur á hinu háa Alþingi. Ég trúi því ekki að menn skrifi undir hann og ef hann yrði síðan felldur hér er varla hægt að taka mark á svoleiðis vinnubrögðum hér eftir. Ég segi enn og aftur, frú forseti: Ég hvet þig til þess að verða við beiðni okkar þingmanna um að slíta fundi og boða til annars.



[16:14]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég ítreka kröfur okkar í stjórnarandstöðunni um að fundi verði frestað og utanríkismálanefnd verði kölluð saman strax. Það er nefnilega þannig að í fyrri yfirlýsingum Vinstri grænna lýstu þeir því einmitt yfir að þetta væri riftanlegur eða ógildur nauðungarsamningur og töluðu um ömurlega uppgjöf í þessu illvíga máli.

Ég spyr: Hvar eru fulltrúar Vinstri grænna í dag? Hvar eru þeir þegar verið er að skrifa undir ömurlega uppgjöf í þessu illvíga máli? Þeir láta ekki einu sinni sjá sig hér þegar við óskum eftir að fá upplýsingar um það nákvæmlega hversu ömurlegt þetta er í staðinn fyrir að menn tali um bærilegar niðurstöður, stórglæsilegar niðurstöður eða miklu betri niðurstöður en viðkomandi þorði að vona. Ég reikna með að viðkomandi, hæstv. forsætisráðherra, hafi virkilega hraðað sér burt úr Reykjavík (Forseti hringir.) af þessum persónulegu ástæðum því að ég veit ekki betur en hún hafi verið á ríkisstjórnarfundi klukkan eitt. (Forseti hringir.) Við byrjuðum í stjórnarandstöðunni að tala um þetta mál klukkan tvö þannig að hún hefði átt að vita nákvæmlega hvað var í gangi í þinginu en samt lætur hún ekki sjá sig. Þetta er algerlega ásættanlegt, frú forseti.



[16:16]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur komið fram eindregin ósk þess að utanríkismálanefnd verði kölluð saman og ýtrasta ósk er að þessum fundi verði slitið og nýr fundur boðaður svo hægt sé að ræða þessi mál af viti í þinginu. Hér er framkvæmdarvaldið algjörlega að valta yfir löggjafarvaldið sem sýnir það hversu löggjafarvaldið stendur máttlaust gagnvart framkvæmdarvaldinu. Stjórnarskráin er til þess að vernda rétt borgaranna gegn óhæfum stjórnvöldum. Þetta er akkúrat nákvæmlega að gerast í dag. Hér er framkvæmdarvaldið að skrifa undir þann mesta skuldbindingarsamning sem íslenska þjóðin hefur staðið frammi fyrir. Hvort hún sé að því sjálfviljug efast ég um, ríkisstjórn, skuggaríkisstjórn erlendra afla situr nú með pennann uppi í fjármálaráðuneyti að skuldbinda íslensku þjóðina um marga tugi ára. Ég harma þetta. (Forseti hringir.) Ég óska eftir að þessum fundi verði slitið svo að löggjafarvaldið komist að þessum samningi.



[16:17]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að ekkert er því til fyrirstöðu að kalla utanríkismálanefnd saman. Það hefur líka komið fram á fundum með þingflokksformönnum að ekkert sé því til fyrirstöðu. (VigH: … komin saman til þess að ræða málið?) (Gripið fram í.)



[16:17]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hvar er hæstv. ríkisstjórn stödd? Hér er einn hæstv. ráðherra í salnum, utanþingsráðherra, hæstv. viðskiptaráðherra. Hvar er öll ríkisstjórnin og hvar eru þingmenn stjórnarflokkanna, meirihlutaflokkanna á þessu þingi, vinstri flokkanna sem eru að leiða hér í gegn einhverja mestu niðurlægingu þessa þings sem það hefur orðið fyrir örugglega í sögunni? Ég hvet virðulegan forseta til þess að gera ráðstafanir til þess að þetta fólk mæti hér til fundar til þess að taka þátt í þeirri mikilvægu umræðu sem hér fer fram.

Það flýgur fyrir að til standi að undirrita þessa samninga í dag. Það hefur komið hér fram í umræðunni bara á síðustu dögum að hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki hafa vitað af þeirri umræðu sem var í gangi. Hann virðist ekki hafa vitað af þeim samningaviðræðum sem voru í gangi, hvað þá hvað þær innihéldu. Hann kemur hér í dag og það þarf að klára þennan pakka í miklum hvelli. Af hverju er það? Hvað býr að baki því að þessi mikli hraði þurfi (Forseti hringir.) allt í einu að vera á þessu máli, að ekki sé hægt að gefa hér eðlilegan tíma til þess (Forseti hringir.) að ræða þetta mál? Hvað býr að baki? Er það svo að Evrópusambandsumsóknin sé svo mikilvæg — og hún er í farvatninu — að það sé verið að þóknast (Forseti hringir.) þeim þjóðum sem um hana munu fjalla?

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Margar sérstakar hugsanir fara um hugann (Forseti hringir.) við þessar aðstæður og ég skora (Forseti hringir.) á virðulegan forseta (Forseti hringir.) að taka nú til hendinni (Forseti hringir.) og hlusta á kröfur þingmanna.



[16:18]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti verður að biðja þingmenn um að virða ræðutíma.



[16:19]
Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Kæri forseti. Okkur var lofað bæði á fundi í morgun með formönnum flokkanna ásamt fundi í utanríkismálanefnd að fá gögn, að fá að sjá hvert þetta eignasafn er, að fá öll gögn sem hafa komið fram í tengslum við þessar samningsumræður. Það hefur verið svikið því að við áttum að fá þessi gögn áður en undir samninginn væri ritað.

Ég hvet þig, ég skora á þig að slíta þessum fundi þannig að við getum fengið að ræða um þetta mál og ég skora á þig að kalla saman stjórnina. Hvar er stjórnin?



[16:19]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill minna á hefðbundið ávarp í þingsal.



[16:20]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér eiginlega algjörlega gáttuð á þeirri umræðu sem hér hefur farið fram fyrst og fremst vegna þeirrar framkomu sem mér finnst einstakir hv. þingmenn sýna í orðavali sínu og málflutningi. Ég hef setið undir því hér fyrr í dag sem stjórnarliði að vera kölluð landráðamaður. Þetta er stórt orð sem ég tek mjög alvarlega og ég vil spyrja hæstv. forseta hver séu hefðbundin viðbrögð við orðnotkun af þessu tagi um leið og ég vil gefa hv. þm. Eygló Harðardóttur kost á því að skýra orð sín betur, (Gripið fram í.) draga þau til baka eða biðjast á þeim afsökunar (Gripið fram í: Nei.) og spyr (Gripið fram í.) hvort hv. þingmaður ætlar sér að standa við þau ... (Gripið fram í.) Fyrirgefðu forseti, (Forseti hringir.) gæti

(Forseti (ÁRJ): Þögn í þingsalnum.)

ég fengið að halda orði mínu hér?

Ég spyr hv. þm. Eygló Harðardóttur: Ætlar hún að standa við þau orð að þeir (Gripið fram í: Já.) stjórnarliðar sem hér sitja í (Forseti hringir.) salnum og (Gripið fram í.) bara eru starfandi á Alþingi Íslendinga séu landráðamenn? (Gripið fram í.) Ég óska eftir svari.



[16:21]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna það að á alllöngum ferli mínum sem stjórnmálamaður hef ég aldrei upplifað það ástand sem hér hefur verið í dag, að ég hafi verið kallaður á fund, upplýstur þar að hluta til og bundinn trúnaði um að tala um það mál sem síðan geisar í fjölmiðlum og fer hér um allt og ég hef enga heimild til þess að tala um málið. Ég hef heldur aldrei upplifað það að í stjórnmálum séu tveir aðilar, annar aðilinn sem ekki fær að koma að málum og ekki ræða þau en hinn aðilinn virðist hafa aðgang að öllum upplýsingum, tekur ákvarðanir, fer með þær í fjölmiðla og jafnvel skuldbindur íslenska þjóð til slíkra (Gripið fram í.) stærðargráða og hluta sem ég má víst ekki tala um en eru óstjórnlegar. (Forseti hringir.) Ég get því bara ekki orða bundist um af hverju við erum höfð hér (Forseti hringir.) nánast eins og ginningarfífl inni í sal í staðinn fyrir að fara út og reyna að vinna eitthvað af viti.



[16:23]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrir skömmu spurði ég hæstv. forseta um hvort hún væri ekki til í því að taka mál út af dagskrá sem þola bið og boða nýjan fund þar sem við fengjum skýrslu fjármálaráðherra um það mál sem hér hefur verið rætt og er efst á baugi. Ég hef ekki fengið nein svör við því.

Nú er forseti kosinn af okkur þingmönnum til þess að stýra þinginu. Ég hef ekki heyrt einn einasta þingmann hérna sem vill tala núna um tilskipanir Evrópusambandsins það sem eftir lifir fundar og allir hafa þingmenn óskað eftir því að fundi verði slitið og annaðhvort hv. utanríkismálanefnd kölluð til starfa eða boðaður nýr þingfundur.

Ég óska eftir því að fá svar hjá forseta mínum, forseta Alþingis, við þessum spurningum mínum sem eru í rauninni dagskrártillaga um að taka mál út af dagskrá og slíta fundi og boða nýjan fund.



[16:24]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég óskaði í fyrri ræðu minni eftir viðveru fjármálaráðherra og forsætisráðherra og virðulegur forseti hefur upplýst að forsætisráðherra sé vant við látin. Hins vegar hefur því ekki verið svarað hvar hæstv. fjármálaráðherra sé og hvers vegna hann getur ekki komið hér til umræðu við okkur. Ég ætti kannski að fletta því upp á mbl.is hvað er að gerast í Icesave-deilunni vegna þess að við hér í þinginu fáum virkilega ekki neinar upplýsingar um það aðrar en þessa sýndarkynningu sem við fengum á þingflokksfundum í morgun — ég leyfi mér að segja það — sýndarkynningu. Það hafa engin gögn verið lögð fram. Við höfum ekki fengið að sjá neinar tölur og engu að síður er verið að semja hérna um hagsmuni komandi kynslóða á Íslandi. Þetta er til skammar fyrir þingheim og ég trúi því varla að þetta séu vinnubrögðin á hinu nýja Íslandi. Kannski að þeir stjórnarliðar sem þó þora að vera hér og taka þátt í þessum umræðum geti upplýst mig um það hvort þau séu stolt af þessum lýðræðislegu vinnubrögðum og hvort þau sé stolt af því að þetta (Forseti hringir.) séu hin nýju vinnubrögð sem ríkisstjórnin boðaði.



[16:25]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að samkvæmt upplýsingum hér í borði forseta er hæstv. fjármálaráðherra í húsinu en það þyrfti að gera ráðstafanir til að kanna hvort það sé rétt.



[16:25]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum enn og aftur þann trúnaðarbrest sem ríkir á milli hæstv. forsætisráðherra frá þeim ummælum sem hún lét falla hér í hádegi og þess að þingmenn stjórnarandstöðunnar voru beðnir um trúnað varðandi þær upplýsingar sem bárust frá formanni samninganefndar, Svavari Gestssyni, á þingflokksfundum í morgun.

Við erum hér enn að ræða hvers vegna og af hverju ekki sé hægt að ræða innihald þeirrar tillögu sem reifuð var formlega og af hverju hæstv. ríkisstjórn leyfir sér að brjóta með þeim hætti sem þar er gert þennan trúnað við þingið og fjalla um í fjölmiðlum þau atriði sem reifuð voru á þingflokksfundi en veitir ekki þingmönnum Alþingis tækifæri til þess að eiga þær umræður við hæstv. ríkisstjórn.

Ég ítreka enn (Forseti hringir.) og aftur, frú forseti, að við erum hér fyrir fólkið í landinu, ekki vegna þess, og ég krefst (Forseti hringir.) þess, hæstv. forseti, og það er einlæg ósk mín að þessum þingfundi verði frestað þannig að tækifæri gefist til að ræða þessi mál. Þetta er afar alvarleg staða.



[16:27]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég ítreka enn og aftur það sem búið er að fara fram á, að þessum fundi verði slitið og að við förum að ræða þetta mál af alvöru. Hér erum við í raun að eyða öllum okkar tíma og krafti í að þrefa um hvernig skuli staðið að málum. Það er alveg klárt í mínum huga að það er mjög mikilvægt fyrir stjórn og stjórnarandstöðu að standa saman á þessum erfiðu tímum. En því miður hefur stjórnin valið þá aðferð að kynna eingöngu fyrir stjórnarandstöðunni málin, annaðhvort í dagblöðunum eða í útvarpi, og það er nánast skammarlegt, eins og hefur verið sagt hér, að það er verið að biðja menn um trúnað og síðan þegar menn eru að ræða trúnaðinn inni á þingflokksfundum kemur viðtal við hæstv. forsætisráðherra í fréttunum.

Það er líka mjög dapurlegt vegna þess að örfáum mínútum áður eða hálftíma áður þá spurði hv. þm. Þór Saari forsætisráðherra að því, háttvirtan, hvernig þessu liði ...

(Forseti (ÁRJ): Hæstvirtan.)

Hæstvirtan, fyrirgefðu — að þá (Forseti hringir.) fullvissaði hún hann um það að þetta yrði kynnt fyrir þingflokkunum áður en að ...



[16:28]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Bara til að setja þetta í eitthvert samhengi þá höfum við ekki átt í stærri málum, Íslendingar, hvað varðar okkar hagsmuni síðan í landhelgisdeilunni. Við höfum ekkert átt í neinum stærri málum. Það er alveg ótrúlegt, virðulegi forseti, að sjá að það virðist vera algjör sátt meðal stjórnarliða að vinna hér eins og verið er að gera, virðulegi forseti.

Ég hvet stjórnarliðana sem hafa nú í stjórnarandstöðu sumir fyrir nokkrum vikum síðan verið með stór orð um að það þurfi að iðka lýðræðisleg vinnubrögð, gegnsæja stjórnarhætti og svo framvegis — ég hvet þá aðeins til að hugsa sitt mál áður en þeir leggja blessun sína yfir framgang málsins eins og það er núna. Málin verða ekki stærri og ætlast virðulegur forseti (Forseti hringir.) til þess að núna þegar þessi mál eru á fleygiferð í fjölmiðlum — ekki í þingsölum — að við ræðum um lög um vátryggingarsamninga?



[16:30]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur staðfest úr sæti sínu og ítrekað ummæli í þinginu um að þingmenn ríkisstjórnarinnar séu landráðamenn. Ég óska eftir upplýsingum um það frá forseta hvernig við skuli brugðist þegar önnur eins ummæli falla í ræðustóli og í heyranda hljóði á hinu háa Alþingi. Ég get ekki setið undir því, frú forseti, að vera kölluð landráðamaður.



[16:30]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Samkvæmt upplýsingum sem hafa komið fram í Morgunblaðinu liggur fyrir að vaxtagreiðslur vegna þessara skuldbindinga geti á næstu sjö árum orðið allt að 200 milljarðar. Þetta kemur til viðbótar við skuldbindinguna sjálfa og síðan eru eignir á móti eins og við vitum.

Ef ekki þykir ástæða til að ræða þetta mál í sölum Alþingis spyr ég sem nýr þingmaður: Hver er forgangsröðin hér? Eigum við ekki að ræða eitt af afdrifaríkustu málum sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir? (Forseti hringir.) Eigum við að eyða tíma okkar í næstum því einskisverð mál í samanburði við það?



[16:32]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Síðan í morgun, fyrst á fundi stjórnarinnar með leiðtogum stjórnarandstöðunnar, síðan á nefndarfundi utanríkismálanefndar, svo á þingflokksfundum og væntanlega á tveimur ríkisstjórnarfundum í dag þar að auki, hefur verið rætt um þær hugmyndir sem liggja á borðinu vegna samninganna um Icesave. Í raun má segja að vinnubrögðin í þessu máli hafi verið allt, allt önnur en þau sem tíðkuðust hér þegar meiri hluti sjálfstæðis- og framsóknarmanna (Gripið fram í.) fór hér með öll völd í tólf ár. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Við skulum rifja upp einkavæðingu bankanna, þar fóru engar upplýsingar á milli. (Gripið fram í.) Við skulum rifja upp yfirlýsingu og stuðning við innrásina í Írak, þar fóru engar upplýsingar á milli. Hér hafa hv. þingmenn (Gripið fram í.) stjórnarandstöðunnar verið (Forseti hringir.) upplýstir um hvert einasta atriði í þessu stóra máli. (Gripið fram í.)



[16:33]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram löng umræða um fundarstjórnina og dagskrána í dag þar sem farið hefur verið fram á að Icesave-deilan verði rædd sérstaklega. Af því virðist ekki ætla að verða og þess vegna hefur verið óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd. Jafnvel þótt þar hafi fundur farið fram í morgun hefur auðvitað í millitíðinni verið haldinn ríkisstjórnarfundur og því er full ástæða til að fá skýr svör og upplýsingar í utanríkismálanefnd um það hvernig ríkisstjórnin vill, á grundvelli þeirra upplýsinga sem hún fékk í morgun, að málinu verði haldið áfram, hvort til stendur að ljúka samningunum eður ei.

Í ljósi þess að málið virðist ekki fást rætt hér sérstaklega með breyttri dagskrá (Forseti hringir.) er nauðsynlegt að fara fram á fund í nefndinni.



[16:34]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að hún hefur ítrekað upplýst það úr forsetastóli að það er ekkert því til fyrirstöðu að kalla saman hv. utanríkismálanefnd.



[16:35]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að Alþingi hefur veitt ríkisstjórn umboð til þess að leiða til lykta samningaviðræður vegna þessa máls. Það umboð var veitt með atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks og hjásetu þingmanna Framsóknarflokks fyrir áramót. (Gripið fram í: Skilyrt.) Það var ekki skilyrt að öðru leyti en því að samningar ættu að vera á forsendum hinna sameiginlegu viðmiða. Ekkert annað hefur komið fram í þessu máli en að unnið sé á forsendum hinna sameiginlegu viðmiða. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega sú staðreynd sem liggur fyrir í málinu.

Þrátt fyrir það að ríkisstjórnin hafi fullt umboð til að gera þetta á eigin spýtur var samt ákveðið að leita samráðs við stjórnarandstöðuna (Gripið fram í.) og ræða við fulltrúa stjórnarandstöðunnar og utanríkismálanefnd um málið.

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Á þeim forsendum auðvitað að það sé vilji til þess að reyna að skapa hér frið og sátt um meðferð þessa máls. (Forseti hringir.) En þessi viðbrögð stjórnarandstöðunnar hljóta að vekja efasemdir um hvort (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) sjálfstæðismenn og framsóknarmenn þora (Gripið fram í.) að standa í lappirnar og standa við þá afstöðu sem þeir hafa þegar markað í þessu máli.



[16:36]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla þeim ótrúlegu orðum hæstv. félagsmálaráðherra áðan, að það sé verið að vinna þetta í einhverri sátt. (Gripið fram í: Í friði og sátt.) Í friði og sátt. Það er dónaskapur við stjórnarandstöðuna að halda þessu fram, hæstv. ráðherra.

Í ræðu hv. þingflokksformanns Samfylkingarinnar áðan kom fram að það ætti að ræða málið þegar eitthvað væri að kynna, að fjármálaráðherra ætlaði að upplýsa okkur þegar eitthvað væri að kynna. Ég held að það sé heldur betur eitthvað að kynna í dag. Í fjölmiðlum er forsætisráðherra að tjá sig um einstök efnisatriði í hugsanlegu samkomulagi. Verið er að tala um innstæðutryggingarsjóð sem gefi út skuldabréf, það er verið að tala um 90% af eignasafni, það er verið að tala um ríkisábyrgð. Um hvað megum við ekki tala? Hvenær ætlar ríkisstjórnin að aflétta því þagnarbindindi sem hún setti á stjórnarandstöðuna? Þetta er með ólíkindum.



[16:37]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað algjörlega ómögulegt að hafa umræðuna í þessum farvegi, að það eigi að ríkja trúnaður og maður veit varla lengur um hvað sá trúnaður á að ríkja. Nú hafa þrír hv. þingmenn farið fram á fund í utanríkismálanefnd, hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson og Birgitta Jónsdóttir, þannig að það er skylt að halda þennan fund. Það er beðið um að þessi fundur verði haldinn hið fyrsta og áður en drög að samningi vegna Icesave-deilunnar verða undirrituð, þ.e. ef það á að undirrita með fyrirvara. (Gripið fram í: Er ekki búið að því?) Ef það er ekki búið. Ekki veit sú er hér stendur neitt um það. (Gripið fram í.)

Alla vega hlýtur að draga til tíðinda þegar ríkisstjórnin sér ástæðu til að ræða við alla stjórnmálaflokka landsins og fresta þingfundi í morgun vegna þessa máls. Auðvitað var að draga til tíðinda í því þá, það getur ekkert annað verið. Það verður að halda fund hið fyrsta í utanríkismálanefnd þannig að við fáum betri upplýsingar um (Forseti hringir.) stöðu mála þegar honum er lokið. Þetta eru allt of stórir hagsmunir (Forseti hringir.) til þess að við förum bara hér inn og slöppum af um helgina. Það gengur ekki, virðulegur forseti, það verður að funda strax í nefndinni.



[16:38]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti getur þess enn einu sinni að það er ekkert því til fyrirstöðu að kalla nefndina saman og það er auðvitað formannsins eða varaformanns. (Gripið fram í.)



[16:39]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þá fengum við lýsingu á því hvernig samráð fer fram, virðulegi forseti, þá vitum við það. Þetta er samráð Samfylkingarinnar. Það gengur út á það að það kemur gestur inn á fund, spjallar í tíu mínútur og segir: Þið verðið að lofa að segja engum frá neinu. Þetta er sátt og samlyndi og samráð. Það liggur fyrir.

Virðulegi forseti. Þessi vinnubrögð segja okkur það að allur fagurgalinn var nákvæmlega ekkert annað en fagurgali. Þetta eru vinnubrögðin sem á að praktísera. Ef þessar fregnir í fjölmiðlum eru réttar virðist Samfylkingin gera fleira en að iðka … (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Það er gott að hæstv. félagsmálaráðherra er ekkert pirraður yfir þessari ræðu. En það er augljóst að þeir eru að gera fleira ef eitthvað er að marka þessar fregnir í fjölmiðlum því að væntanlega eru þeir að hjálpa systurflokki sínum (Forseti hringir.) í Bretlandi, verkamannaflokknum þar, og Gordon Brown (Forseti hringir.) rétt fyrir kosningar því að þannig líta þessi samningsdrög út ef eitthvað er að marka fjölmiðla.



[16:40]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill upplýsa að varaformaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, hefur boðað til fundar í utanríkismálanefnd nú klukkan fimm.



[16:40]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég fagna því að komin er tímasetning á fund í utanríkismálanefnd og að nefndin geti og fái þá greinargóðar upplýsingar um þá atburði sem hafa átt sér stað í dag þannig að hægt sé að leggja mat á þá stöðu sem upp er komin.

Það er rétt að taka það fram vegna ummæla hæstv. félagsmálaráðherra að það var einmitt þannig að ríkisstjórnin kom til þingsins og fékk sérstakt umboð frá þinginu, sem er óvanalegt í þessari stöðu, um það að ganga til þessara samningaviðræðna og að leiða þær áfram til lykta en þó þannig að þinginu væri gerð full grein fyrir stöðu mála. Gerð var tilraun til þess að gera einhverja grein fyrir málinu hér í dag, engan veginn fullnægjandi, engan veginn þannig að hægt væri að líta svo á að haft væri eitthvert samráð eða að þinginu væri haldið upplýstu. Það voru einfaldlega ekki gefnar nægilegar upplýsingar til þess.

Á sama tíma og stjórnarandstaðan er sett undir þagnarbindindi kemur hæstv. forsætisráðherra fram í fjölmiðlum í hádeginu og lýsir því yfir að hér sé um að ræða mjög góðan samning og mjög góða niðurstöðu sem sé að nást. (Forseti hringir.) Það er það sem er algjörlega óþolandi að sitja undir og sitja hér sjálf í þagnarbindindi. (Forseti hringir.) Þessu verðum við að breyta.