137. löggjafarþing — 17. fundur
 9. júní 2009.
aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri, 1. umræða.
stjfrv., 37. mál (EES-reglur, aðild starfsmanna að ákvörðunum). — Þskj. 37.

[14:10]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

Frumvarp þetta var fyrst lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi en þá náðist ekki að ljúka afgreiðslu þess fyrir þinglok í september 2008 meðal annars vegna athugasemda sem bárust félags- og tryggingamálanefnd Alþingis frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fjármálafyrirtækja þar sem málið þótti varða hagsmuni banka sem ekki eru lengur starfandi. Frumvarpið er því lagt fram að nýju á Alþingi en efni þess hefur verið yfirfarið með hliðsjón af fyrrnefndum athugasemdum.

Drög að frumvarpi þessu voru samin af Rannsóknasetri vinnuréttar og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði lög hér á landi til innleiðingar á efni 16. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri. Sú tilskipun var reyndar að stórum hluta innleidd hér á landi með lögum nr. 54/2007, um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, og var það gert fyrir forgöngu viðskiptaráðuneytisins.

Sú löggjöf mælir þó ekki fyrir um þátttökurétt starfsmanna við samruna fyrirtækja og því er nauðsynlegt að setja sérstakar reglur um þátttökurétt starfsmanna sem kveðið er á um í 16. gr. tilskipunarinnar. Hér er því um að ræða, virðulegi forseti, að meginefni einnar tilskipunar er innleidd á vegum tveggja ráðuneyta hér á landi í samræmi við efni einstakra ákvæða hennar og skiptingu málaflokka innan Stjórnarráðs Íslands.

Þessi skipting á milli viðskiptaráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis er jafnframt í samræmi við þann hátt sem hafður var á annars vegar í tengslum við setningu laga nr. 26/2004, um Evrópufélög, og laga nr. 27/2004, um aðild starfsmanna að Evrópufélögum, og hins vegar setningu laga nr. 92/2006, um evrópsk samvinnufélög, og laga nr. 44/2007, um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum.

Frumvarp það sem hér er mælt fyrir hefur það meginmarkmið að innleiða reglur til að vernda rétt starfsmanna samrunafélaga til að eiga aðild að ákvörðunum sem varða starfsemi félagsins sem þeir vinna hjá. Jafnframt tekur verndin til þess að viðhaldið verði reglum um aðild starfsmanna sem í gildi eru í þeim félögum sem taka þátt í stofnun samrunafélags. Ef ekkert þátttökufélaganna starfar samkvæmt þátttökureglum fyrir skráningu félagsins er þess þó ekki krafist að það setji reglur um þátttöku starfsmanna.

Í frumvarpinu er kveðið á um að unnið verði samkvæmt tilteknu ferli. Ferlið byggir á því að þegar ákveðið hefur verið að stofna samrunafélag skuli framkvæmdastjórnir eða stjórnir þeirra félaga sem þátt taka í stofnun þess gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hefja samningaviðræður við fulltrúa starfsmanna félaganna um tilhögun á aðild starfsmanna í samrunafélaginu. Markmið samningaviðræðna er að ná samkomulagi um aðild starfsmanna að samrunafélagi, þ.e. varðandi rétt fulltrúa starfsmanna til upplýsinga, samráðs og þátttöku.

Gert er ráð fyrir að sérstök samninganefnd sé í forsvari fyrir starfsmenn þátttökufélaga við þær viðræður. Við myndun nefndarinnar skal m.a. tryggja að nefndarmenn séu kosnir eða tilnefndir í hlutfalli við fjölda starfsmanna hjá þátttökufélögum, hlutaðeigandi dótturfélögum og starfsstöðvum í hverju aðildarríki fyrir sig. Gert er ráð fyrir því að fulltrúar sem kjörnir eru á Íslandi til setu í slíkri samninganefnd séu kosnir af trúnaðarmönnum innan fyrirtækis en að starfsmenn sem ekki eiga trúnaðarmann velji sér sameiginlegan fulltrúa sem taki þátt í kjöri fulltrúa í samninganefndina. Séu engir trúnaðarmenn innan fyrirtækis eiga allir starfsmenn þátttökufélags rétt á að taka þátt í kjöri fulltrúa í samninganefndina.

Enn fremur hefur frumvarpið að geyma ákvæði sem ætlað er að tryggja rétt fulltrúa starfsmanna í samninganefndinni til að fá upplýsingar um þau fyrirtæki sem standa að stofnun samrunafélags og áform þeirra er varða starfsemi félagsins. Einnig er kveðið á um rétt sérstöku samninganefndarinnar til að kalla eftir sérfræðiaðstoð og bera þau félög sem taka þátt í stofnun samrunafélags allan kostnað af starfi nefndarinnar.

Ef aðilar koma sér saman um að koma á þátttöku starfsmanna skal í samkomulagi kveðið á um nánari tilhögun svo sem fjölda fulltrúa í eftirlitsstjórn eða stjórn samrunafélagsins.

Samningaviðræður geta samkvæmt frumvarpinu að hámarki staðið yfir í eitt ár. Aðilar geta ákveðið að slíta viðræðum og gilda þá ákvæði III. kafla um aðild starfsmanna, eftir því sem við á. Sama máli gegnir ef ekki næst samkomulag innan þess frests sem veittur er til viðræðna.

Meginreglan er sú að einfaldur meiri hluti atkvæða ræður afstöðu sérstöku samninganefndarinnar. Ef niðurstaða samningaviðræðna verður að áhrif fulltrúa starfsmanna á skipan stjórnar eða framkvæmdastjórnar samrunafélagsins verði minni en fyrir stofnun þess þarf samkomulagið hins vegar að hljóta atkvæði frá auknum meiri hluta.

Virðulegi forseti. Tilskipunin sem frumvarpið byggir á er meðal annars sett með hliðsjón af þörf á samvinnu og sameiningu félaga með takmarkaðri ábyrgð frá mismunandi aðildarríkjum Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.

Með tilskipuninni er greitt fyrir samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri og er þar mælt fyrir um að lög aðildarríkjanna skuli heimila samruna innlends félags með takmarkaðri ábyrgð og félags með takmarkaðri ábyrgð frá öðru aðildarríki yfir landamæri að því tilskildu að lög hlutaðeigandi aðildarríkja heimili samruna þess háttar félaga.

Virðulegi forseti. Nánar er fjallað um meginefni frumvarpsins í ítarlegri greinargerð og vísa ég um frekari skýringar til hennar.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað hv. félags- og tryggingamálanefndar.



[14:16]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að óska hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra til hamingju með þetta fyrsta mál sem hann flytur sem ráðherra á þessu þingi og vek athygli á því að hér er um að ræða, eins og önnur þau mál sem hæstv. ráðherra mun flytja hér á eftir, innleiðingu á reglum frá Evrópusambandinu.

Ég kem ekki hér upp til að ræða sérstaklega efnisatriði þessara mála enda eru þau í sjálfu sér skýr og kannski ekki stór ágreiningur um þau. Ég kem hér upp til þess að vekja athygli á því að við erum á sumarþingi þar sem sérstaklega er boðað til fundar til þess að ræða þá alvarlegu stöðu sem er í samfélaginu, þá alvarlegu stöðu sem er hjá heimilum, fyrirtækjum og almenningi í þessu landi.

Ég kem hér upp til að vekja sérstaka athygli á því að þegar blásið er til fundar á þessu þingi undir þeim formerkjum eru fyrstu mál félags- og tryggingamálaráðuneytis, þess ráðuneytis sem á nú að vera í forustu og sókn til að slá umrædda skjaldborg um hag heimilanna í landinu, innleiðing á Evróputilskipun og þau eru jafnframt fyrsta mál hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra.

Það er svo sem vitað að í þessari ríkisstjórn er mikill áhugi fyrir aðild að Evrópusambandinu, það hefur ekki farið leynt. Og vissulega læðist sá grunur að manni að grunnurinn á bak við það hversu mikið þeim samningi hefur verið hraðað sem skrifað hefur verið undir út af Icesave-deilunni, sé tengdur hinum mikla áhuga á Evrópusambandinu, að klára verði hér ákveðin mál til þess að umræddar mögulegar aðildarviðræður við Evrópusambandið geti farið í gegnum þingið.

Mér finnst það forkastanlegt og mér finnst þetta vera kolröng forgangsröðun. Sú dagskrá sem við höfum fyrir framan okkur í dag er til vitnis um það metnaðarleysi sem ríkir í þessari hæstv. ríkisstjórn. Ég ætla ekki að fara að ræða hér efnislega um þessar innleiðingar heldur er ég fyrst og fremst að vekja athygli á þessu og lýsa vanþóknun minni á þeirri forgangsröðun sem þarna kristallast hjá hæstv. ráðherra félags- og tryggingamála og hæstv. ríkisstjórn.



[14:19]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Það er nú ekki svo að í ákvörðun um að flytja þetta mál eða önnur þau mál sem hér verða flutt í dag til innleiðingar á tilskipunum sem okkur ber að innleiða samkvæmt EES-samningnum, teljist einhver stórpólitísk tíðindi. Svo er ekki, ekki frekar en áður þegar innleiðingar hafa verið fluttar hér á Alþingi. Það er óþarfi að gera því skóna enda held ég að flokkssystkin hv. þingmanns hafi sem ráðherrar verið afar dugleg við að bera inn í þingið hestburði af tilskipunum frá Evrópusambandinu.

Það tíðkast alla vega þar sem ég er uppalinn að byrja á því að taka til og hreinsa það sem er á borðinu og koma því burtu svo maður geti einbeitt sér að því sem máli skiptir. Þetta mál sem og önnur mál sem flutt verða á eftir eru öll komin í skömm gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA og stefnir í málaferli gegn íslenska ríkinu. Ég sé ekki ástæðu til þess á erfiðum tímum þegar við þurfum að einbeita okkur að erfiðum málum að eyða orku embættismanna í mínu ráðuneyti eða öðrum í ástæðulausar bréfaskriftir eða málaferli við erlendar eftirlitsstofnanir heldur vil ég bara hreinsa þessi mál af borðinu og loka þeim málum sem fyrir löngu stendur upp á okkur að klára. Í því felast engin stórpólitísk tíðindi heldur einföld tilraun til þess að hreinsa borðið, spúla dekkið, svo hægt sé að einbeita sér að þeim málum sem meira máli skipta.

Allur tími okkar í félags- og tryggingamálaráðuneyti í dag fer að sjálfsögðu í þau mál sem mestu skipta. Þar eru mál sem varða skuldastöðu heimilanna efst á baugi. Að öðru leyti vinnum við nú baki brotnu að því að takast á við þær erfiðu aðstæður sem eru í efnahagsmálum og leggja grunn að hagræðingaraðgerðum sem geta hjálpað okkur að glíma við það geigvænlega og mikla vandamál.

Það eru óþarfar áhyggjur að telja að við séum að binda okkur með því að koma á framfæri málum sem löngu eru unnin og hafa fyrir löngu verið lögð fyrir þingið en hefur dagað uppi vegna misskilinna útrásardrauma íslenskra banka.



[14:22]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það má heyra á svari hæstv. ráðherra að þetta kemur við kaunin á honum og væntanlega fleirum í hæstv. ríkisstjórn. Ég held að hæstv. ráðherra ætti frekar að eyða tíma sínum í að vinna þau mál sem við erum boðuð sérstaklega til að taka á á þessu þingi og leyfa því sem er á borðinu að dvelja þar aðeins lengur, alla vega þeim sem skipta engu máli.

Það er einkenni þeirrar dagskrár sem er lögð fyrir þingið í dag að hér eru mál sem skipta í raun engu í þeim ólgusjó sem við erum í.

Það er mikilvægt að hæstv. ríkisstjórn fari að vakna og komi fram með einhverja von í samfélagið, fari að koma fram með eitthvað af þeim loforðum sem hún hefur gefið þessari þjóð og gefin voru í kosningabaráttunni. Fari að koma hér með mál og reyni að standa við öll fögru fyrirheitin. En það er einkenni á málflutningi og framsetningu mála þessarar ríkisstjórnar að það er fyrst og fremst verið að setja fram mál sem flokkast mega sem svikin loforð frá því sem þessir tveir stjórnarflokkar kynntu í aðdraganda kosninganna.

Ég hvet hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra til þess að leyfa nú málum sem skipta engu máli að eiga sig og fara að beina kröftum sínum að því að koma fram með eitthvað sem skiptir heimilin og fyrirtækin í þessu landi máli.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fél.- og trn.