137. löggjafarþing — 18. fundur
 11. júní 2009.
skipun samninganefndar um ESB-aðild.

[10:54]
Þór Saari (Bhr):

Frú forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra á þessa leið: Með hvaða hætti hyggst ráðherrann velja í samninganefnd Íslands um hugsanlegar aðildarviðræður að Evrópusambandinu með hliðsjón af því að nýjasta afrek Íslands í samningagerð á alþjóðavettvangi var hraksmánarlegt? Sendinefndin var ekki skipuð neinum sérfræðingum að málinu, hafði greinilega ekki reynslu og hefði sendinefnd nánast valin af handahófi úr símaskrá gert betur.

Í öðru lagi: Verða erlendir sérfræðingar fengnir til ráðgjafar í þessum samningaviðræðum? Við teljum sýnt að þetta verkefni sé það risavaxið að sú sérþekking sé ekki til staðar hér á landi.



[10:55]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Málið er nú í höndum þingsins og ég hyggst ekkert gera í því fyrr en vilji þingsins liggur fyrir. Ekki verður skipuð nein samninganefnd fyrr en það liggur fyrir að Alþingi er samþykkt því að menn fari þá leið að sækja um aðild að Evrópusambandinu með það fyrir augum að koma heim með samningsniðurstöðu og leggja í þjóðaratkvæði.

Hins vegar kom fram, hv. þingmaður, þegar við ræddum þetta hér fyrir tíu dögum eða svo að það væri alveg ljóst af minni hálfu að leitað yrði til þeirra sem við getum kallað faglega sérfræðinga. Ég held að í ræðu sinni hafi hv. þingmaður einmitt fjallað töluvert um það hvaða kostum þeir þyrftu að vera búnir. Ég var alveg sammála hv. þingmanni. Það verða því menn og konur í þeirri samninganefnd sem ekki verður hægt annað en að fallast á að búi yfir sérfræðiþekkingu og langri reynslu í þessum efnum. Það fólk er að finna í utanríkisráðuneytinu og líka annars staðar.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns um hvort leitað verði til erlendra faglegra sérfræðinga hefur það líka legið fyrir af minni hálfu hér í umræðunum að það verði gert.

Ég sagði við umræðurnar að ég mundi gera mér far um að hafa sem nánast samráð um þessa hluti. Ég tel t.d. að þegar menn fara í að skipa svona mikilvægar nefndir þurfi að hafa samráð um það við þá sem málinu tengjast. Þar á meðal tel ég að viðhorf Alþingis um hvers eðlis þeir eigi að vera sem skipa samninganefndina, megi gjarnan liggja fyrir. Ég sagði það hér í umræðunum að ég mun hlusta mjög grannt eftir því sem Alþingi og utanríkismálanefnd segja og eins þeir flokkar sem eiga hér sæti.



[10:57]
Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrt og greinargott svar og jafnframt þakka ég hæstv. forsætisráðherra fyrir ráð hennar varðandi Evu Joly. Komið hafa fram nokkur skýr svör við fyrirspurnum í morgun sem er svolítið óvanalegt hér í þinginu. Það gefur tilefni til þess að velta því fyrir sér hvort það sé einhvers staðar ljóstíra sem hægt er að horfa á í framhaldinu. (Gripið fram í: Nei.) [Hlátur í þingsal.]



[10:58]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér finnst alla vega að hin frísklega Borgarahreyfing hafi þrátt fyrir allt haft nokkur áhrif hér í þessum sölum. Hún hefur að minnsta kosti tryggt málfrelsi utanríkisráðherra. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Þór Saari um að það er ljóstíra í þessum sal, meðal þingmanna og líka í efnahagsmálunum.

Varðandi það mál sem við ræddum hér, þ.e. hugsanlega umsókn að Evrópusambandinu, hefur það komið algjörlega skýrt fram af minni hálfu að ég vil hafa sem breiðast samráð við sem flesta stjórnmálaflokka, við þær nefndir þingsins sem um það véla. Ég hef sagt það alveg skýrt að eitt af því sem þarf að gera er auðvitað að fá aðstoð hlutlausra faglegra sérfræðinga frá útlöndum ef menn telja það nauðsynlegt til þess að tryggja að málinu vindi vel fram.

Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar og er sammála hv. þingmanni um að þarf líka að tryggja það, ef í þetta ferli verður farið eftir að Alþingi hefur afgreitt málið, að öll upplýsingamiðlun verði með sem hlutlægustum hætti. Ég er alveg reiðubúinn til þess að hlusta á hið háa Alþingi varðandi með hvaða hætti það er gert.

Hv. þingmaður hefur sett fram ákveðnar skoðanir á því. Aðrir á þinginu hafa sett fram örlítið mismunandi skoðanir en ég er þeirrar skoðunar að upplýsingamiðlun skipti mjög miklu máli.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég er reiðubúinn að láta nú af ræðuflutningi til þess að fleiri komist að.