137. löggjafarþing — 22. fundur
 18. júní 2009.
Icesave-samningar og ríkisábyrgð.

[14:05]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram ágætisumræða um Icesave-samningana. Ég get tekið undir allar þær spurningar sem hér hafa komið fram en því miður ekki fengist nægilega skýr svör við. Þetta mál verður sífellt undarlegra og því miður einkennist það allt af hálfsannleik, leynd og blekkingum. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að við þingmenn höfum ekki enn þá fengið afrit af þessum samningum sem átti að hvíla svo mikil leynd yfir sem reyndist svo ekki fótur fyrir.

Nú hefur komið í ljós að þetta er í rauninni ekki alþjóðasamningur eins og ríki gera sín á milli heldur ber þessi samningur, miðað við fréttaflutning, öll einkenni lánasamnings þar sem annar aðilinn fer á hnjánum til lánardrottins og gengst undir þá skilmála sem hann setur. Og það skýrir af hverju breskir dómstólar eiga að leysa úr ágreiningi en ekki gerðardómar eða Alþjóðadómstóllinn í Haag sem er annars venjan í alþjóðasamningum.

Hæstv. forsætisráðherra hélt því fram hér áðan að ekki væri verið að setja eignir þjóðarinnar að veði. Ég vildi bara fá skýr svör við spurningunni: Á hverju ætlar meiri hluti stjórnarinnar að veita ríkisábyrgð? Ég get ekki betur séð en að við séum að veðsetja eigur þjóðarinnar, þar á meðal gjaldeyrisvarasjóðinn sem er í rauninni blóð íslenska hagkerfisins.

Ég mundi vilja fá skýr svör: Hvaða eignir er verið að veðsetja? Fyrir hvaða eignum er væntanlega meiri hluti Alþingis, nema vinstri grænir fylgi sinni fyrri (Forseti hringir.) sannfæringu, að veita ríkisábyrgð?



[14:07]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er aftur og aftur að svara sömu spurningunum. Mér finnst að það eigi að verða við þeim óskum þingmanna sem hér hafa kallað eftir langri og ítarlegri utandagskrárumræðu um hana (Gripið fram í.) sem mér skildist að ætti að vera í dag. Það stendur ekkert á þessum samningi. Það hefur margkomið fram í dag að þessi samningur verður gerður opinber. Hann verður kynntur í utanríkismálanefnd, allir þingmenn fá hann og hann verður gerður opinber fyrir þjóðinni. Það hefur aldrei staðið á okkur Íslendingum að gera þennan samning opinberan. Hann verður gerður opinber. (Gripið fram í.) Það eru aftur á móti viðsemjendur okkar, Hollendingar og Bretar, sem óskuðu eftir því að hann yrði ekki gerður opinber. Þeim var tilkynnt í dag að þessi samningur yrði gerður opinber og það mun auðvitað standa á þessum degi, utanríkismálanefnd fær hann og þingmenn og öll þjóðin til þess að fara yfir.

Þegar spurt er aftur og aftur: Hvað kemur mikið á íslenska ríkið? hefur margsinnis verið sagt að það hefur verið farið yfir eignirnar og þær eiga að duga fyrir 75%–95% af þessari Icesave-skuld. (Gripið fram í: Hvað með …?) Það er ekki þar með sagt, hv. þingmenn, að restin eigi að falla á skattgreiðendur. Það er hægt að fara aðrar leiðir í því, við höfum t.d. rætt um að það væri hægt að setja álag á lánastofnanir til að setja inn í innstæðutryggingarsjóð. En hér talar hver þingmaðurinn á fætur öðrum eins og að hver einasta króna sé að falla á íslenska ríkið, og því jafnvel haldið fram að við séum að steypa þjóðinni í hreint gjaldþrot. (Gripið fram í.)

Mig undrar sá málflutningur (Forseti hringir.) þingmanna að það sé verið að hræða þjóðina með þessum hætti vegna þess að þetta er ekki rétt. Væri einhver minnsta hætta á því, eins og ég sagði hér áðan, að það væri verið að stefna þjóðinni í þjóðargjaldþrot og það væri hægt að ganga að innlendum eignum ríkisins mundi ég ekki greiða þessum samningi atkvæði hér þegar ríkisábyrgðin kemur til kasta þingsins. (Gripið fram í: Af hverju …?) Komi eitthvað í ljós (Forseti hringir.) á þessum tíma um það að við séum að stefna þjóðinni í gjaldþrot — sem er alrangt — mun ég auðvitað ekki styðja þá ríkisábyrgð sem hér verður lögð fyrir þingið. (Forseti hringir.)



[14:10]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Áður en ég gef hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni orðið vill forseti geta þess að eins og þingmenn vita er ráðgerð utandagskrárumræða um Icesave-samningana og upplýsingar um þá síðdegis. Forseti hyggst ræða það mál við þingflokksformenn á eftir á stuttum þingflokksformannafundi, að loknum þessum umræðum, en hyggst áður klára hér atkvæðagreiðslu.



[14:10]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega óvíst hvort það verður utandagskrárumræða um Icesave-samningana á eftir eins og hefur komið fram auk þess sem hæstv. forsætisráðherra verður ekki til svara þá heldur hæstv. fjármálaráðherra.

Ég vil líka taka fram að spurning mín snýst um hvað verið er að setja að veði. Hér spurði hv. þm. Eygló Harðardóttir um forgangskröfur. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir spurði um leyndina á eignasöfnunum. Af hverju er þeim ekki aflétt ef þetta á allt að vera uppi á borðum? Eigum við að treysta erlendum sérfræðingum eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hérna? Af hverju fáum við ekki bara að sjá safnið? Eins og við viljum fá að sjá samninginn. Og hv. þm. Pétur Blöndal spurði um áhættugreiningu og lánshæfismat.

Ég ber aftur fram spurninguna: Hvað erum við að setja að veði? Hvaða eignir íslensku þjóðarinnar erum við að setja að veði? Er það gjaldeyrisvaraforðinn? Er (Forseti hringir.) það blóðið í íslensku hagkerfi?



[14:11]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef margsvarað þessari spurningu. Ég er mjög hissa á því að hv. þingmaður skuli hvorki heyra né skilja það sem hér er sagt úr ræðustól. Það er ekki verið að veðsetja gjaldeyrisvaraforðann ef sérstaklega er spurt um það. (Gripið fram í: Hvað er verið að veðsetja?) (Gripið fram í.)