137. löggjafarþing — 24. fundur
 22. júní 2009.
stuðningur við Icesave-samninginn.

[15:06]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það hefur komið skýrt fram í þjóðmálaumræðu og í sölum Alþingis sérstaklega að mikill vafi er uppi um það hvort meiri hluti sé í þinginu fyrir þeim gjörningi sem átti sér stað þegar samningamenn Íslands settu stafina sína undir samkomulagið um Icesave-reikningana við bresk og hollensk stjórnvöld. Bresk stjórnvöld hafa til að mynda nú þegar brugðist við þessu samkomulagi eða þessum drögum að samkomulagi með því að aflétta frystingu á íslenskum eignum og er augljóst að þau stjórnvöld gera ráð fyrir að þetta samkomulag hafi verið fullnustað á þingi. Það er því ástæða til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Úr því að komið hefur fram jafnskýrt að það er vafi á því hvort meiri hluti sé fyrir þessum gjörningi í þingsal, hefur breskum stjórnvöldum verið gerð grein fyrir því að þessi vafi sé uppi og að það sé jafnvel ólíklegt að samningurinn hljóti nægilega mörg atkvæði í þingsalnum til að hann verði fullnustaður? Og sé svo, þ.e. að breskum stjórnvöldum hafi verið gerð grein fyrir þessum vafa, hver voru þá viðbrögð þeirra stjórnvalda?



[15:07]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vona að þessar áhyggjur hv. þingmanns reynist ástæðulausar en ég þakka umhyggju hans fyrir málinu. Svarið er nei. Breskum stjórnvöldum hefur að sjálfsögðu ekki verið gerð grein fyrir neinu slíku, enda var þetta samkomulag undirritað á grundvelli þess samningsumboðs eða þeirra fyrirmæla sem framkvæmdarvaldið fékk frá Alþingi í desember um að leiða þetta mál til lykta með samningum, og í kjölfarið á því að samninganefndir með umboð frá ríkisstjórn höfðu verið skipaðar var málið þannig leitt til lykta. Það er núna verið að leggja lokahönd á frumvarp með fylgiskjölum þar sem gögn þessa máls verða framreidd og ég vonast til að það nái dreifingu hér strax eftir að þing kemur saman að nýju eftir nefndadaga sem eru fram undan frá og með morgundeginum. Ég held að hv. þingmenn geri réttast í því að anda rólega, þó að ég þakki umhyggjuna eins og áður segir, og bíða þess að málið komi fyrir þing.



[15:08]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil í engu draga úr umhyggju minni fyrir hæstv. fjármálaráðherra um leið og ég í þeirri umhyggju sem snýr ekki að hæstv. ráðherra persónulega heldur að ríkissjóði verð að segja að vissulega hljótum við þingmenn að hafa áhyggjur af því að erlent stjórnvald hafi nú þegar gripið til aðgerða á grundvelli þessa samkomulags sem síðan er alveg ljóst að eru miklar efasemdir um að njóti fulltingis Alþingis. Þess vegna hefur hæstv. ráðherra verið spurður áður hvort hann hafi haft það tryggt þegar samningamönnunum var heimilað að skrifa undir að það væri meiri hluti fyrir slíku í hans eigin þingflokki og þingflokki Samfylkingarinnar þannig að málið hlyti brautargengi á þingi. Vissulega er það á grundvelli þeirrar samþykktar sem hér var samþykkt á síðasta ári en þar voru sett ákveðin skilyrði fyrir þessum samningi, hvaða skilyrði hann yrði að uppfylla til að Alþingi samþykkti hann og það er mat margra manna að svo sé ekki.



[15:09]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í innantöku Sjálfstæðisflokksins sem leitar sér leiða til að hlaupast frá ábyrgð sinni í þessu máli sem er mikil en kúnstugar þykja mér þær æfingar, það verð ég að segja. Það var hluti af samkomulaginu að Bretar afléttu frystingunni fyrir 15. júní og það hafa þeir gert. Það er sömuleiðis í samkomulaginu gengið frá forsendum gildistöku samkomulagsins og ein af þeim er að Alþingi fallist á þá ábyrgð á eftirstöðvum samningsins frá og með 2016 sem samningurinn gengur út frá. Þegar frumvarpið kemur til þings gerist það væntanlega með hefðbundnum hætti og málið fer í hendur Alþingis og örlög þess ráðast þar.