137. löggjafarþing — 30. fundur
 30. júní 2009.
störf þingsins.

[13:32]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill tilkynna að þar sem fjórir hv. þingmenn hafa beðið um orðið undir dagskrárliðnum um störf þingsins þá mun forseti haga umræðunni þannig að hann gefur hv. þingmanni orðið og síðan þeim sem hann vil eiga orðastað við og svo koll af kolli.



[13:32]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Margir stofnfjáreigendur víðs vegar um land tóku þá afdrifaríku ákvörðun að auka stofnfé sitt til að verja sjóðinn sinn og oft undir miklum samfélagslegum þrýstingi til að verja þjóðina gegn ýmsum lukkuriddurum. Fjölmargir fjármögnuðu þá aukningu með gengistryggðum lánum. Þessum einstaklingum var m.a. bent á að ef allt færi á versta veg færu bréfin aldrei á minna en nafnvirði þar sem ekki væri heimilt að skrifa niður stofnfé, aldrei á minna en verðinu 1. Reglur um stofnframlag voru afgreiddar frá fjármálaráðuneytinu. Sparisjóðirnir sóttu þá um það framlag sem ríkið var búið að lofa en svo birtist allt í einu frumvarp um sparisjóði þar sem algerlega á að breyta hugmyndafræðinni á bak við stofnfé og fara að meðhöndla það líkt og hlutafé.

Í frumvarpi viðskiptaráðherra er ætlunin að leyfa að skrifa alveg niður stofnfé eða eins og henta þykir. Látið er að því liggja að niðurfærsla stofnfjár sé forsenda þess að ríkissjóður afgreiði umsóknir sparisjóða um stofnfjárframlag á grundvelli neyðarlaganna. Þannig á enn á ný að fara að breyta leikreglunum eftir á. Því beini ég eftirfarandi spurningu til hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar: Gerir þingmaðurinn sér grein fyrir að niðurfærsla stofnfjár getur þýtt að fjöldi stofnfjáreigenda getur orðið gjaldþrota? Í Sparisjóði Keflavíkur er um 1.500–1.600 stofnfjáreigendur, þar af eru það um 200 í Húnaþingi vestra sem eiga stórar upphæðir í stofnfé, að langmestu leyti einstaklingar, bændur, ellilífeyrisþegar og venjulegt vinnandi fólk. Sama má raunar segja um langstærstan hluta stofnfjáreigenda í Sparisjóði Keflavíkur.

Einnig hefur verið bent á að sama staðan sé uppi í Sparisjóði Bolungarvíkur sem er líka í kjördæmi hv. þingmanns. Mjög margir eða 25% eru kjósendur hv. þingmanns sem hafa trúað á loforð VG um að standa vörð um sparisjóðina. Telur þingmaðurinn þetta vera í anda þess að tryggja hinn félagslega grunn sparisjóðanna að ríkisvæða þá? (Forseti hringir.) Telur hann að frumvarp þetta sé í anda þess að endurskipuleggja sjóðina í samræmi við grunngildi sparisjóðanna, félagshyggju, samvinnu, byggðarfestu og uppbyggingu landsbyggðarinnar?



[13:35]
Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli og bera það upp. Sparisjóðirnir eru eitt af því sem Vinstri græn hafa ávallt lagt mikla áherslu á, það er alveg hárrétt. Við höfum varað við því á hvaða vegferð þeir hafa verið, við höfum flutt frumvarp í þinginu til þess að reyna að sporna við því sem þar var í gangi. Hv. þingmaður þarf ekki að uppfræða mig um hvernig nágrannar mínir í Strandasýslu og Húnavatnssýslu fóru út úr þessu. Það er alveg hárrétt, þarna eru margir aðilar sem standa mjög illa (Gripið fram í.) hvað þetta snertir.

Varðandi lækkun stofnfjár er einfaldlega verið að framfylgja neyðarlögunum. Í neyðarlögunum kemur skýrt fram að ekki er heimilt að leggja sparisjóðunum til 20% aukafjárveitingu nema stofnféð sé lækkað niður í raunvirði. Það er staðreynd, undir það hefur verið tekið, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir þekkir, enda situr hún í nefndinni sem hefur málið til umfjöllunar. Það hafa forsvarsmenn Sambands íslenskra sparisjóða bent á, það hefur Seðlabankinn bent á, það kemur skýrt fram í neyðarlögunum, svo grátlegt sem það er. Það þekkir hv. þingmaður og það þekki ég líka úr mínu héraði og hjá nágrönnum mínum.



[13:36]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í dag fer fram 1. umr. um frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Þingmenn Framsóknarflokksins og þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafa lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að einu mikilvægasta máli sem komið hefur inn á borð þingsins, Icesave-deilunni, verði skotið til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði í viðtali við Vísi þann 27. júní sl. að þetta tiltekna mál væri of snúið til að hægt væri að bera það undir þjóðaratkvæði. Auk þess væru ekki til nein lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. Því verður kippt í liðinn fljótlega ef þingmenn stjórnarinnar ætla að greiða þeim lögum atkvæði sitt en það sem vekur furðu mína er viðsnúningur ráðherrans á viðhorfi sínu. Hann sagði í umræðu á Alþingi 4. mars 2003 þegar verið var að ræða um álverið á Reyðarfirði:

„Stundum heyrist að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði. Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég heyri.“

Nú vil ég spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um skoðun hennar á þessum ummælum formanns flokks hennar og hvort hún vilji að Icesave-málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort málið sé ekki einmitt af þeirri stærðargráðu að það falli undir það frumvarp sem ríkisstjórnin leggur fram í dag.



[13:38]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill minna hv. þingmenn á að ef vitnað er í beinan texta þurfa þeir að fá leyfi forseta til þess.



[13:39]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður hafði óskað eftir því að ræða við mig um afstöðu mína til þjóðaratkvæðagreiðslu og ég vil segja það í upphafi að stefna Vinstri grænna í þeim efnum er mjög skýr. Við viljum beina aðkomu þjóðarinnar að mikilvægustu málum og við höfum ítrekað á undanförnum árum, allt frá þinginu 2001–2002, flutt um það tillögur á þingi, um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls, um þjóðaratkvæði um byggingu Kárahnjúkavirkjunar 2002–2003, um sölu Landssímans 2004–2005 og um framhald eða stöðvun stóriðjuframkvæmda á árinu 2005–2006.

Á þessum tíma var það ekki beinlínis Framsóknarflokkurinn sem studdi okkur í þessum hugmyndum, því miður var það ekki svo. Engin af þessum tillögum okkar náði fram að ganga. Í þessu ríkisstjórnarsamstarfi náðist hins vegar um það niðurstaða í verkefnaskrá að settur verði lagarammi um þjóðaratkvæðagreiðslur og nú er hann kominn fram, frumvarpið er komið fram og er á dagskrá í dag. Það er ákveðin málamiðlun eins og gengur og ég verð að segja það fyrir mig að ég sakna þess úr því frumvarpi (Gripið fram í.) að minni hluti þingmanna geti ekki kallað eftir því að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslu. (Gripið fram í.) Ég sakna þess líka, hv. þingmaður, að í þessu frumvarpi er ekki ákvæði um að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. (HöskÞ: En Icesave?) Ég skal koma að því, hv. þingmaður. Það hefði verið ágætt ef spurningin sem beint var til mín í morgun hefði snúist um það. Hún snerist um hvaða afstöðu ég hefði til þjóðaratkvæðagreiðslna almennt. En ég fæ tækifæri til að koma upp aftur í seinna svari, vona ég, og þá skal ég koma að aukaspurningunni sem þingmaðurinn beindi til mín.



[13:41]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þjóðin sem og þingheimur allur hafa beðið þess í ofvæni að fá einhverjar fréttir af því hvenær Icesave-samningarnir verða lagðir fyrir þingið og hvernig það muni bera að. Hæstv. fjármálaráðherra byggði á dögunum upp væntingar hjá þjóðfélaginu um glæsilega niðurstöðu og því verður að segja að vonbrigðin urðu mikil þegar samningarnir litu dagsins ljós fyrir þingmenn eftir mikið japl, jaml og fuður. Nú bíðum við þingmenn eftir því að málið verði lagt fram og nýjustu fregnir herma að það verði í dag. Samkvæmt sögusögnum verða fylgiskjöl með samningunum sem reynt er að vekja væntingar um að muni breyta afstöðu manna í þessu máli. En mér skilst að frumvarpið komi fram í dag og að í því verði falin ósk um ríkisábyrgð vegna þessara samninga. Heildartala samninganna hljóðar upp á um það bil 730 milljarða kr. auk vaxta sem nema um 40 millj. kr. á ári en með umfjöllun sérfræðinga munu þeir falla á ríkið í heild.

Í merkilegri grein Jóns Daníelssonar prófessors í Morgunblaðinu í dag kemur fram sú afstaða hans að samninginn verði að fella. Sníða þurfi af samningunum lagalega agnúa og gæta þess að fjárhæðin sem falli á Ísland verði ekki svo há að hagkerfið nái ekki að greiða skuldina og öðlast fyrri styrk. Jafnframt er gagnrýnt að samninganefndin var skipuð mönnum sem fæstir hafa komið nálægt alþjóðlegri samningagerð af þessu tagi áður. Í ljósi þess að málið varðar alla fjárhagslega framtíð landsins tel ég rétt að beina eftirfarandi spurningum til hv. formanns fjárlaganefndar:

1. Telur hv. þm. Guðbjartur Hannesson að sá samningur sem fyrir liggi sé glæsilegur? Telur hann að það hafi verið mistök af ríkisstjórninni að skipa pólitíska embættismenn í forsvar fyrir nefndina og telur þingmaðurinn að nægilegt tillit hafi verið tekið til sérstakrar stöðu íslensks efnahagslífs þannig að forsvaranlegt sé að samþykkja samninginn?

2. Ætlar hv. þingmaður Guðbjartur Hannesson að samþykkja ríkisábyrgð á samningunum?



[13:43]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér kemur Icesave-málið enn einu sinni á dagskrá. Ég veit ekki hvort hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefur tekið eftir því að ég hef hvergi fjallað um þetta mál opinberlega. Það er vísvitandi einfaldlega vegna þess að ég hef beðið eftir því að það komi formlega inn í þingið, þ.e. að krafan og óskin um ríkisábyrgðina með öllum þeim gögnum sem henni fylgja verði flutt af þar til bærum aðila. Ég áskil mér rétt til að skoða þau gögn og meta afstöðu mína í framhaldi af því. Nú eygjum við þá von að þetta mál komi inn í þingið á einum eða tveimur dögum.

Ég ætla samt ekki að sneiða hjá því að svara þessum spurningum. Ég hef aldrei heyrt þær yfirlýsingar um að samningur um Icesave sé glæsilegur. (Gripið fram í.) Það getur ekki glatt einn einasta mann að þurfa að gera slíkan samning og það hljóta allir að harma að við skulum vera búin að setja þjóðina með því umhverfi sem við sköpuðum bönkum og fjármálalífinu á undanförnum árum í þá stöðu að við skuldum erlenda innlánsreikninga til jafns við íslenska innlánsreikninga upp á hundruð milljarða. Ég held að það sé aldrei hægt að kalla það glæsilegan samning.

Varðandi skipun embættismannanna mætti sömuleiðis spyrja um hvort ég sé hæfur til þess sem formaður fjárlaganefndar að taka málið til umfjöllunar. Ég tel svo vera einfaldlega vegna þess að ég tel að það sé hlutverk okkar, þótt ekki sé um að ræða sérstaka fagmenntun í Icesave, að kalla til aðstoðarfólk og menn sem hjálpa til við slíka vinnu. Ég hef svo sem ekki hlýtt mönnum yfir það, þeim pólitísku embættismönnum, eins og hv. þingmaður kallar það, hvernig þeir leituðu ráða en auðvitað er það hluti af því sem þarf að fjalla um í Icesave-málinu hvernig staðið var að samningagerðinni.

Varðandi áhrifin á íslenska efnahagslífið mun það væntanlega koma fram í þeim gögnum sem lögð verða fram með Icesave. Það verður þá væntanlega hlutverk Alþingis að meta það hvort við stöndum undir þeim skuldbindingum sem gefnar hafa verið, (Forseti hringir.) meta það hvort við eigum að samþykkja þennan samning og vera þannig inni í alþjóðasamfélaginu (Forseti hringir.) eða að hafna honum.



[13:46]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Í ljósi umræðu hér í gær um samgöngumál langar mig að spyrja hv. 1. þm. Suðurk., Björgvin G. Sigurðsson, út í afstöðu hans til forgangsröðunar samgöngumannvirkja. Öll mannvirki eru mjög mikilvæg, hvort sem það eru göng í gegnum Vaðlaheiði, samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll eða tvöföldun Vesturlandsvegar, Suðurlandsvegar eða önnur þau mannvirki sem nauðsynleg eru. En annars vegar í ljósi umræðu við hæstv. samgönguráðherra í gær og hins vegar vegna fundar sem hæstv. samgönguráðherra og hv. þáverandi þingmaður Suðurkjördæmis, núverandi 1. þm. þess, Björgvin G. Sigurðsson, áttu og boðuðu til alla sveitarstjóra Árborgarsvæðisins, sveitarstjórnir, stjórn og samgöngunefnd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga þar sem kynnt var, fyrir kosningar, að ákveðinn hluti vegarins væri búinn í skipulagsmálum og tilbúinn til útboðs sem yrði nú í júní- eða júlímánuði langar mig að heyra álit hans á þeirri breytingu á forgangsröðun sem hæstv. samgönguráðherra kynnti hér í gær.

Mig langar að vitna aðeins í sjöttu skýrslu samgöngunefndar SASS sem búin er að vinna ötullega að þessu máli. Þar segir að umferðin um Suðurlandsveg frá Reykjavík til Selfoss sé á bilinu 6.700–10.000 bílar eftir því hvar talið er og hefur aukist um 35–40% á sjö árum. Fólk sem fór þennan veg um helgina var reyndar í stærri bílaflota því að á laugardeginum fóru þar um 14.500 og tæplega 16.000 á sunnudeginum. Sumir héldu að þeir væru að keyra að slysi, svo hægt gekk umferðin. Það er heldur ekki skrýtið, síðustu sex árin, 2002–2007, urðu þar 10 banaslys og allt að 764 óhöpp, meiri háttar, minni háttar (Forseti hringir.) eða banaslys. Því langar mig að beina fyrirspurninni til hv. 1. þm. Suðurk. hvort hann sé sammála forgangsröðun hæstv. samgönguráðherra.



[13:48]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vegakerfið í kringum Stór-Reykjavíkursvæðið og á suðvesturhorninu, Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur, er löngu sprungið. Þar eru hættulegustu vegarkaflarnir á landinu, langhættulegustu og dýrustu slysin á hverju einasta ári eru á Suðurlandsvegi. Þess vegna hefur sá sem hér stendur og margir aðrir þingmenn og sveitarstjórnarmenn um árabil, sérstaklega síðustu 4–5 árin, barist mjög fyrir því að skilið verði á milli akstursstefna á veginum og vegurinn breikkaður. Það hefur unnist ágætlega áfram. Það var ákveðið í vetur að fara ekki með það í einkaframkvæmd, heldur bjóða út tiltekinn kafla sem er tilbúinn til útboðs. Síðustu tvo daga hefur umræðan hins vegar verið mjög villandi og byggð á þeim grundvallarmisskilningi að núna hafi allt í einu átt sér stað forgangsröðun á milli vegaframkvæmda, Suðurlandsvegar, Vaðlaheiðarganga og samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni, en það er mikill misskilningur. Engin forgangsröðun á milli vegaframkvæmda hefur átt sér stað. Það er kjarninn í málinu. Engu hefur verið slegið á frest nema þeim útboðum sem áttu að eiga sér stað á hefðbundnum ríkisframkvæmdum. Sumar þeirra hafa frestast út af niðurskurði í vegamálum en Suðurlandsvegur, sá kafli og áfangi sem var kynntur í vetur, stendur eins og stafur á bók, sá kafli verður boðinn út við fyrsta tækifæri um leið og ríkið fer aftur að bjóða út.

Það væri ný ákvörðun að hætta við ríkisframkvæmdina og tvöföldun og setja hann allan í einkaframkvæmd sem hefur alltaf komið mjög vel til greina, t.d. kaflann Hveragerði – Selfoss eins og rætt var um, þannig að hér er um að ræða mikinn misskilning, engin forgangsröðun hefur átt sér stað og engu verið frestað. Ég óskaði eftir því í gær við Samband sunnlenskra sveitarfélaga, samgönguráðherra og Vegagerð að við héldum sameiginlegan fund í þessari viku með öllum þingmönnum kjördæmisins um þetta mál, einkaframkvæmd og vegamálin almennt, út af þessari villandi misskilningsumræðu og sá fundur verður, vænti ég, með samgönguráðherra, Vegagerð, SASS og þingmönnum á morgun.



[13:50]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á þeim orðum sem komu fram hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni. Hann segir að engu hafi verið frestað þegar kemur að vegaframkvæmdum og hljótum við öll að fagna því. Hann talaði sömuleiðis um að forgangsröðunin yrði ekki í þá veru sem hér hefur verið í umræðunni þannig að við erum að sjá þá væntanlega Vesturlandsveginn og Suðurlandsveginn framar í forgangi.

Mér þótti athyglisvert að hlusta á þessa umræðu í dag. Þá er ég ekki að vísa í það að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var, ef ég skildi hana rétt, að útskýra að þrátt fyrir að Vinstri grænir væru mjög fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu væru þeir orðnir andvígir henni núna sökum þess að Framsóknarflokkurinn var það á síðasta kjörtímabili. Eru Vinstri grænir einhvern veginn að verða að Framsóknarflokknum eins og hann var og þetta er allt saman hið athyglisverðasta.

Hér var rætt mál sem ég vek athygli þingmanna á, það er verið að breyta lögum um sparisjóði. Það á að gera með mjög miklum hraða án þess að fyrir því hafi komið fullnægjandi rök. Það er svolítið kaldhæðnislegt að á sama tíma og við vorum að gera þetta fyrir nokkrum dögum afgreiddum við mál með miklum hraða um fjármálafyrirtæki þar sem sérstaklega var varað við að það yrði gert með þeim hraða. Rökin fyrir hraðanum voru þau að það ætti að greiða laun starfsmanna í uppsagnarfresti. Nú hefur það komið í ljós, virðulegi forseti, að það stenst ekki og í fyrramálið mun viðskiptanefnd setjast yfir þessi lög, þessi mál sem (Forseti hringir.) meiri hlutinn klúðraði fyrir nokkrum vikum. Aftur á að gera það núna hratt og vel (Forseti hringir.) með sparisjóðina og þar undir liggja ekki litlir hagsmunir, virðulegi forseti. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna þingmenn á að virða ræðutíma.)



[13:53]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Svo virðist sem það sé hálfflókið fyrir stjórnarþingmenn að skilja þetta. Þessi liður heitir störf þingsins, við gefum upp hvert umræðuefnið er og síðan beinum við fyrirspurnum til einstakra þingmanna. Þær eiga ekki að vera skriflegar, þetta á að vera óundirbúið og ég vonast til þess að aðrir þingmenn treysti sér í framtíðinni til að svara spurningunum.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi nokkur mál sem hún vildi að færu í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma. Icesave-deilan ein og sér, fullyrði ég, er stærra mál en öll hin sem hún nefndi áðan, jafnvel þó að þau hafi verið mjög brýn. Það skal ekki dregið úr því.

Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði að þetta mál væri of flókið fyrir ríkisstjórnina þegar það var borið á hann í fjölmiðlum núna um daginn. Engu að síður sagði hann, með leyfi forseta:

„Stundum heyrist að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði. Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég heyri.“

Ég beini enn á ný spurningu minni til hv. þingmanns um hvaða skoðun hún hafi á því hvort Icesave-deilan eigi að fara í þjóðaratkvæði og hvort hún sé sammála hæstv. fjármálaráðherra, þá annars vegar gamla hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem var þá hv. þingmaður eða núverandi sem finnst þetta of flókið fyrir þjóðina. Ég held að málið sé einfaldlega of flókið fyrir ríkisstjórnina. Þar liggur kannski hundurinn grafinn. Ég treysti þjóðinni mun betur en núverandi ríkisstjórn til að leysa úr þessu máli.

Það er líka ágætt að velta öðru upp: Er Icesave-málið flóknara en ESB-umræðan? (Forseti hringir.) Á ekki að senda það í þjóðaratkvæðagreiðslu?



[13:55]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Nú held ég áfram ræðu minni frá því áðan. Ég lýsti því áðan hvernig framsóknarmenn hafa allan þann tíma sem ég hef fylgst með þeim barist gegn þjóðaratkvæðagreiðslum (Gripið fram í.) og ég vil aðeins minna á það að núna eru þeir allt í einu orðnir helstu forvígismenn þeirra. (Gripið fram í: En þú?) Batnandi fólki er best að lifa, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Ég verð að minna menn á það að fyrir tveimur mánuðum kaus þjóðin, hún kaus m.a. um Icesave. Hún kaus sér 63 nýja þingmenn. (Gripið fram í.) (Háreysti í þingsal.) (Gripið fram í: Ha? Kaus hún um Icesave?) (Gripið fram í: Já.) (Gripið fram í: Nú?) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Bið ykkur um að gefa ræðumanni hljóð.)

Má ég aðeins fá að klára að svara? Það er ekki mjög þægileg aðstaða þegar maður reynir eftir fremsta megni að fá að koma að svörum og fær ekki nokkurt einasta tækifæri til þess. Ég var að segja að nýlega fól þjóðin okkur, þessum 63 þingmönnum, að leysa úr bankahruninu, að leysa úr því sem fráfarandi stjórnarliðar í 20 ár skildu eftir sig. Þar á meðal er Icesave. Þar á meðal er núna 9% atvinnuleysi. Þar á meðal er skuldaklafi heimila og fyrirtækja, 500 milljarðar í nýtt bankakerfi. Ég verð að segja, hv. þingmenn, að Icesave er ekki stærsta málið af þessum málum í mínum huga og ég treysti þessari ríkisstjórn og þingheimi (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) til að leiða þetta Icesave-mál til lykta. (Gripið fram í.) Ég tel ekki nauðsynlegt að fara með það í þjóðaratkvæði. Það er bara þannig. Þetta er ekki stærsta málið sem á okkur hvílir og áður en ég fer úr ræðustól (Forseti hringir.) vil ég segja að það er rangt eftir haft, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, að Steingrímur J. Sigfússon hafi sagt að Icesave-málið væri of flókið (Forseti hringir.) til að leggja það í þjóðaratkvæði. Það sem hann hefur sagt er að það væri vandi að stilla því upp hver hinn valkosturinn ætti að vera. (Gripið fram í.)

Ég vona að ég hafi svarað (Forseti hringir.) þessari spurningu þingmannsins. Ég hefði mátt vita að það skiptir engu máli (Forseti hringir.) hvað hv. framsóknarmenn (Forseti hringir.) spyrja um. Þeir eru bara með Icesave á heilanum.



[13:58]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Ég vil biðja þingmenn um að virða tímamörk og gefa ræðumönnum hljóð til að svara þeim fyrirspurnum sem berast til þeirra.



[13:58]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Það er í hæsta máta óeðlilegt að þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir stendur í ræðustól Alþingis og er að svara fyrirspurn hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, sem er sessunautur minn á þingi, varpi hún til mín fyrirspurn eða geri nákvæmlega eins og henni er títt ef henni fellur ekki þegar setið er úti í sal og eru frammíköll — að segja fólki pent og prúðmannlega að þegja.

Ég geri þá kröfu, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) að forseti berji í borð og bjöllu undir slíkum kringumstæðum því að hæstv. forseti ber nú í bjöllu af minna tilefni.



[13:59]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég held að við séum enn á ný að sjá þessi miklu umskipti sem hafa orðið á Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Menn virðast algjörlega hafa misst sjónar á þeim hugsjónum, þeirri hugmyndafræði sem þeir gáfu kost á sér í fyrir þessar kosningar þannig að það er mjög undarlegt að heyra hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fullyrða að þjóðin hafi kosið Vinstri hreyfinguna – grænt framboð til að gera það sem þeir eru að gera. Ég veit ekki betur en að sú stjórnmálahreyfing og þeir hv. þingmenn sem tilheyra þeim flokki séu einmitt að gera það sem þjóðin kaus þá ekki til að gera. Þetta eru mjög einkennilegar fullyrðingar.

Ég held að það hafi líka komið fram í orðum hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar að á ný virðist Vinstri hreyfingin – grænt framboð vera búin að missa sjónar á hugmyndafræði sinni hvað varðar sparisjóðina. Það er mikil sorg í hjarta mínu yfir að sjá að svo sé vegna þess að þótt ég hafi ekki kosið þann flokk trúði ég (Gripið fram í: Nú, nú.) [Hlátrasköll í þingsal.] á orð þeirra þegar þau sögðu að þau ætluðu að standa vörð um sparisjóðina, (Gripið fram í.) ætluðu að standa vörð um stofnfjáreigendur og um landsbyggðina. Með þeim tillögum sem koma fram í þessu frumvarpi og sem ég þekki ágætlega sem nefndarmaður í viðskiptanefnd sé ég fram á að mörg sveitarfélög og margir einstaklingar muni lenda í miklum vandræðum ef farin verður sú leið sem hér er lögð upp af ríkisstjórninni.

Bara í Sparisjóði Bolungarvíkur eru 260 stofnfjáreigendur, langflestir einstaklingar sem sjá fram á að tapa allt að 733 millj. kr. í stofnfé án þess að hafa nokkurn tímann gengið á varasjóðinn með arðgreiðslur, selt stofnbréf í sjóðnum til þriðja aðila eða átt hlut í Existu, Kistu eða Kaupþingi.



[14:01]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér þótti fátt um skýr svör í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar þegar hann kom upp áðan til að svara spurningum mínum þannig að ég ætla að reyna aftur.

Varðandi þau ummæli hv. þingmanns að hann gæti jafnframt efast um hæfi okkar þingmanna til að fjalla um Icesave eins og ég get leyft mér að efast um hæfi hinna pólitísku sendinefndar sem send var til að semja þá finnst mér þetta frekar skrýtin afstaða vegna þess að það var þjóðin sem kaus hv. þm. Guðbjart Hannesson á þing einmitt til þess að taka ákvarðanir. Í dag er einfaldlega þörf á stjórnmálamönnum með bein í nefinu sem þora að taka ákvarðanir og það hefur verið fjallað mikið um þetta mál og mér skilst að í þingflokki Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) hafi einnig verið fjallað mikið það. Því ætti hv. þingmaður að geta veitt mér skýr svör: Ætlar hann að styðja þetta mál eða ætlar hann ekki að styðja þetta mál? Var ríkisstjórnin ekki með umboð frá þingflokki Samfylkingarinnar til að ganga frá þessum samningum? Hv. þingmaður hlýtur að hafa einhverjar skoðanir í þessu máli og hann skuldar okkur það, eða a.m.k. mér sem ber fram þessa fyrirspurn, að svara einhverri af þeim spurningum sem ég bar fram tiltölulega skýrt. Ég vonast svo sannarlega til þess að ég fái einhver svör við spurningum mínum.



[14:03]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Stundum þegar spurt er og menn fá ekki þau svör sem þeir vilja þá finnst þeim að þeim hafi ekki verið svarað. Ég sagði að samningurinn væri ekki glæsilegur. Ég sagði að pólitískir embættismenn gætu vel unnið í samninganefndum að því gefnu að þeir hefðu leitað sér ráða hjá þar til bærum mönnum, líkti því við Alþingi og tók það sérstaklega fram að ég treysti þingmönnum mjög vel og teldi þá hæfa til að vinna sitt verk og hæfasta til margra hluta, aftur að því gefnu að þeir leiti sér ráða og það er það sem við ætlum að gera við Icesave-málið. Þess vegna er málið að koma inn í þingið, þess vegna á það að afgreiðast hér og það á að leita til allra þeirra kunnáttumanna sem við eigum völ á og ég hlýt að áskilja mér rétt til að fá að skoða niðurstöðuna þegar þar að er komið. Ef ég ætti að sitja á flokksstjórnarfundum Samfylkingarinnar og taka ákvarðanir um það hvað þar fer inn í þingið þá eru það vinnubrögð sem þekkjast einhvers staðar annars staðar en hjá okkur.

Það er auðvitað þingið sem á að fá að ráða í málinu. Við tökum ákvarðanir um hvort málið fari fyrir þingið og það hefur verið gert nú þegar og það kemur væntanlega fljótt og vel inn í þingið. Það fær vonandi vandaða umfjöllun eins og önnur mál, við tökum okkur þann tíma sem til þarf. Ég get alveg sagt hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að ég hef fyrir fram þá skoðun að það eigi að ganga frá þessu máli með samningum. Það sé gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðarbúið og þjóðfélagið og ég hef líka þá skoðun fyrir fram að við ráðum ágætlega við það en ég ætla að fá að sjá öll gögnin í málinu og heyra umfjöllun allra þeirra sem hafa verið með gagnrýni í málinu áður en ég tilkynni það með atkvæði mínu í Alþingi og ég vona að þannig sé með fleiri þingmenn. Þannig eigum við auðvitað að vinna og ég ætla ekki að láta nudda mér út í að fara í einhvern annan farveg með málið.

Varðandi önnur mál sem hafa verið rædd hef ég miklar áhyggjur af því sem hér hefur komið fram varðandi sparisjóðina. Það er afsprengi af því umhverfi sem við höfum búið við, fáránleikanum sem var í gangi á undanförnum árum þar sem menn toguðu og teygðu ákveðnar stofnanir langt út fyrir það sem þeim var ætlað áður og sitja svo uppi með að reyna að bjarga þeim málum í framhaldinu. Ég ætla að vona að það gerist farsællega en málið er ekki auðvelt.



[14:05]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þetta er búið að vera með fjörugri umræðum undir dagskrárliðnum um störf þingsins í langan tíma og gaman að því. En ég ætla að blanda mér í umræðuna um Suðurlandsveginn og forgangsröðunina í vegamálum.

Ég er mjög ánægð með að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson segir að þetta sé allt á misskilningi byggt og ég fagna því að við séum að fara að funda um þetta mál á morgun og þakka fyrir það frumkvæði þingmannsins. Ég óttast hins vegar að þetta sé ekki allt á misskilningi byggt og það er þess vegna sem ég kveð mér hljóðs því að hv. þingmaður sagði í svari sínu að það væri ekki verið að fresta neinu, þetta yrði boðið út við fyrsta tækifæri þegar ríkið færi í gang að nýju. Það er það sem ég hef áhyggjur af vegna þess að ég held að ríkið sé ekki að fara í gang að nýju neitt fljótlega, en það er allt í lagi, segir ráðherrann, vegna þess að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hefur ákveðið að treysta á einkaframtakið í þessum efnum og bjóða út í einkaframkvæmd ýmsar samgöngubætur. Ég tel það vissa nýlundu, sérstaklega hjá Vinstri grænum, og fagna því en þá og einmitt þá kemur forgangsröðunin í ljós og það er það sem verið er að gagnrýna. Þá eru Vaðlaheiðargöngin sett fram fyrir og Suðurlandsvegurinn settur aftar í þeirri röð. Í Morgunblaðinu í gær var haft eftir ráðherranum að það væri vegna þess að skipulagsmálin væru lengra komin í Vaðlaheiðargöngunum. Því vil ég koma hér og mótmæla vegna þess að samkvæmt öllum þeim fundum og yfirlýsingum sem hafa verið gefnar og sérstaklega fyrir kosningar. Ég veit það frá sveitarstjórnarmönnum, t.d. bæjarstjóranum í Ölfusi sem var á fundi með umdæmisstjóra Vegagerðarinnar fyrir viku síðan og sagði að það væri hægt að bjóða veginn út með vikufyrirvara ef það kæmi grænt ljós frá hæstv. samgönguráðherra. Ég geri því ráð fyrir að (Forseti hringir.) Vaðlaheiðargöngin þurfi kortersfyrirvara til að toppa það, (KÞJ: 10 mínútur.) 10 mínútur segir hv. þm. Kristján Þór Júlíusson en (Forseti hringir.) þetta er það sem við höfum áhyggjur af. Þetta er forgangsröðunin sem mönnum líkar ekki.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður menn að virða tímamörk.)