137. löggjafarþing — 30. fundur
 30. júní 2009.
um fundarstjórn.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:08]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér hefur verið til umfjöllunar á dagskrá fundarins sérstakur liður sem heitir Störf þingsins. Það sem hefur gerst í dag er að hann hefur í raun breyst í óundirbúinn fyrirspurnatíma frá einstökum þingmönnum til annarra þingmanna. Ég tel að þetta fyrirkomulag sé ekki í samræmi við þingsköp og ég tel að hæstv. forseti þurfi að taka það til umfjöllunar hvort ekki þurfi að breyta þessum lið.

Síðan eru sum mál sem hér eru tekin upp þess eðlis að þau ættu í raun heima undir liðnum Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra vegna þess að það er verið að tala um yfirlýsingar sem ráðherrar hafa verið að gefa. Ég tel að það eigi að taka það til skoðunar að breyta þessum lið, jafnvel óundirbúnum fyrirspurnatíma þannig að fleiri þingmenn komist að í þeim umræðum en bara fyrirspyrjandinn og ráðherra líkt og gerist með hefðbundnar fyrirspurnir. Ég tel líka að það þurfi að vera meira skikk á þessum umræðum um störf þingsins og menn taki fyrir einstök tiltekin mál og fleiri komist í efnislega umræðu um þær en þær snúist ekki í óundirbúnar fyrirspurnir til einstakra þingmanna.



[14:10]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Nú eru þingmenn Vinstri grænna farnir að barma sér í umræðum. Öðruvísi mér áður brá, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson.

(Forseti (ÁRJ): Um fundarstjórn.)

Það er einfaldlega þannig — um fundarstjórn forseta — að liðurinn um störf þingsins hefur verið framkvæmdur þannig að við gefum út rammann, einstakir þingmenn gefa út rammann um umfjöllunarefnið og beina svo spurningum að hv. þingmanni. Það gerði ég áðan. Ég sendi tölvupóst á hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um skoðanir hennar á þjóðaratkvæðagreiðslum og það var einmitt það sem ég spurði út í, einmitt það. Ef Árni Þór vill breyta þessu þannig að við komum með skriflegar fyrirspurnir til (Forseti hringir.) einstakra þingmanna

(Forseti (ÁRJ): Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson.)

þá bara breytir ríkisstjórnin því, hv. þingmaður,

(Forseti (ÁRJ): Árni Þór Sigurðsson.)

að öðrum kosti er ég sammála því, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson,

(Forseti (ÁRJ): Tíminn er liðinn, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson.)

— nei, það er smá eftir — (Forseti hringir.) að það megi nýta þennan tíma (Forseti hringir.) eins og fyrirspurnatíma til ráðherra og ég benti á í dag.

(Forseti (ÁRJ): Tíminn er liðinn og gott betur.)



[14:11]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að hártogast við hv. þm. Höskuld Þórhallsson um þetta atriði. Ég var að benda á að ég tel að hér sé kominn upp nýr siður varðandi liðinn um störf þingsins. Hann var ekki með þessum hætti þegar hann var fyrst tekinn upp. Reyndar er þessi liður ekki gamall í þeirri mynd sem hann er í nú því að honum var breytt með þingskapalögunum 2007. Það var hugsunin að hér færu fram umræður um álitamál í samfélaginu en hann er að breytast yfir í óundirbúinn fyrirspurnatíma.

(Forseti (ÁRJ): Þetta er ekki um fundarstjórn.)

Ég er að benda á, frú forseti, að það eigi að gera breytingar á þingsköpunum hvað þetta snertir.



[14:12]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Menn verða að ræða fundarstjórn forseta undir þessum lið en ekki fara út í efnislega umræðu um þingstörfin.



[14:12]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta, en ég ætti kannski að nýta frekar liðinn til að bera af mér sakir vegna þess að mér þótti liggja í orðum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að spurningarnar sem voru bornar upp hefðu ekki verið nógu góðar. Ég frábið mér þann málflutning vegna þess að í 50. gr. þingskapa segir að undir þessum lið, störf þingsins, geti þingmenn kvatt sér hljóðs um störf þingsins, gefið yfirlýsingu eða beint spurningum til formanna nefnda, formanna þingflokka eða annarra þingmanna. Liðurinn er ansi opinn og ég tel einfaldlega að þingið hafi nýtt sér þennan lið og umræðurnar hafi farið ágætlega fram og verið tiltölulega málefnalegar og jafnvel svolítið líflegar sem er vissulega ágætt fyrir okkur nýja þingmenn. Ég upplifi þennan lið þannig að þetta sé frjálslegt form, einmitt til þess að eiga skoðanaskipti við félaga sína og sessunauta á þinginu, til að fá fram þeirra afstöðu til ýmissa mála. Þetta er einn af mínum uppáhaldsliðum, ég lýsi því hér með yfir. [Hlátrasköll í þingsal.]



[14:14]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki athugasemdir við það þó að þingmenn beini fyrirspurnum hver til annars og ræði hér almenn þjóðfélagsmál undir liðnum um störf þingsins. En ég get ekki orða bundist lengur vegna ástandsins hér í þingsalnum, það er eiginlega farið að ganga fram af mér. Það er eins og maður sé staddur inni í skólastofu, (Gripið fram í.) það er nákvæmlega þetta sem ég er að gera athugasemd við.

(Forseti (ÁRJ): Fundarstjórn forseta.)

Já. Ræðumenn í ræðustól hér á Alþingi fá ekki frið til að ljúka máli sínu fyrir frammíköllum og ókyrrð í salnum. (Gripið fram í.) Það er ekki vinnufriður í salnum fyrir ókyrrð, frammíköllum og leiðindum. (Gripið fram í.) Ég vil bara beina því til forseta (Forseti hringir.) að hann tryggi betri vinnufrið hér í alvöru, mér er full alvara.