137. löggjafarþing — 33. fundur
 2. júlí 2009.
tvöföldun Suðurlandsvegar.

[10:44]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra um þau áform sem nú eru uppi í vegamálum. Um árabil hefur tvöföldun Suðurlandsvegar verið forgangsverkefni með fullum rökum vegna mikils umferðarþunga, margra hættulegra staða, margra slysa og þar á meðal dauðaslysa. Komið var að því að ganga til verka. Fyrsti áfangi af þeim fjórum sem um er að ræða í tvöföldun vegarins frá Reykjavík til Selfoss var tilbúinn og þá slær í bakseglin eftir því sem skilja má hæstv. samgönguráðherra. Það er eitthvert los á málinu og því er ástæða til að biðja hæstv. ráðherra að skerpa á því hvað er í vændum, hvaða tímasetningar um er að ræða og hvaða rök fyrir eru fyrir einhverju öðru ef breyting er ætluð í þessum efnum. Það þýðir ekkert að skjóta sér á bak við vinnu embættismanna eða starfsmanna, ráðherra hefur það í hendi sér að stýra þessu eins og skipstjóri á að gera á skútunni og þess vegna verður að krefjast þess af hinum mæta samgönguráðherra og skelegga þingmanni til margra ára að svara nú hispurslaust.



[10:46]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að taka þetta upp og fyrir ánægjulegan fund sem við áttum í gær í samgönguráðuneytinu með fulltrúum Sambands sunnlenskra sveitarfélaga og þeim þingmönnum úr kjördæminu sem þar komu. Þar var farið yfir mál varðandi Suðurlandsveginn. Það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði, fyrsti kaflinn, sem átti að vera frá eins og það heitir Draugahlíðarbrekku að Fossvöllum, átti að fara í útboð á árinu 2009, 6–7 km kafli sem er tilbúinn til útboðs eða var að verða tilbúinn til útboðs skulum við segja, þegar það kom upp að framlög til vegamála á þessu ári eru skorin niður um 3,5 milljarða vegna ástands í ríkisfjármálum sem ekki þarf að rifja upp í þessum ræðustól.

Það breytti auðvitað mjög miklu þeim útboðsáformum sem voru hjá Vegagerðinni en ekki hefur verið hætt við nokkurn skapaðan hlut heldur kemur bil núna um hásumarið þar sem ekki verða útboð. Hvenær útboð hefjast á ný getum við ekki sagt til um, það fer eftir því hvernig málum vindur fram við þau verk sem eru í gangi þannig að Vegagerðin eigi peninga fyrir þeim verkum sem eru í gangi núna og þær skuldbindingar sem hún hefur tekist á hendur.

Hitt atriðið varðandi þau einkaframkvæmdarverk sem mikið hefur verið rætt um þá er í minnisblaði sem fylgdi stöðugleikasáttmálanum rætt um nokkur verk sem hægt væri að fara í einkaframkvæmd með eins og það heitir þar. Þar er talað um sjúkrahús, Hvalfjarðargöng, Vaðlaheiðargöng, Suðurlandsveg, bæði fyrsta og annan áfanga, Sundabraut, fyrsta og annan áfanga, Vesturlandsveg, tvöföldun á Kjalarnesi, og ýmis fleiri verkefni.

Eins og kom fram á fundi í gær hefur hæstv. fjármálaráðherra skipað nefnd sem á að fara í gegnum þetta. Nefndin er skipuð fulltrúum ýmissa ráðuneyta og Samtökum atvinnulífsins. Ég hef sagt það, virðulegi forseti, og skal endurtaka það hér að ég vona svo innilega að lífeyrissjóðirnir komi með peninga til samgönguframkvæmda til að gefa í á móti því sem skera þarf niður af hefðbundinni (Forseti hringir.) ríkisframkvæmd og þá er Suðurlandsvegur að sjálfsögðu eitt af þeim forgangsverkum sem þar þarf að fara í út af því sem hv. þingmaður nefndi, þar er mesta umferðin (Forseti hringir.) og mesta slysatíðnin.



[10:48]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki nóg, hæstv. samgönguráðherra, að tala um Suðurlandsveg sem eitt af forgangsverkefnunum. Það var ákveðið í fyrri ríkisstjórn að tvöföldun Suðurlandsvegur yrði forgangsverkefni og yrði einkaframkvæmd. Þar opnaðist fyrst umræða um það að stórar framkvæmdir í almennum vegamálum yrðu einkaframkvæmd. Síðan leggur núverandi hæstv. samgönguráðherra það til að fyrsti áfanginn verði hefðbundin framkvæmd á vegum Vegagerðarinnar en ekki einkaframkvæmd. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt miðað við það að reyna að flýta gangi verka af því að Vegagerðin hefur ekki verið liprust allra stofnana við að flýta fyrir gangi mála nema síður sé og þess vegna er það skýr og eindregin krafa að þetta mál verði sett í eðlilegan forgang. (Forseti hringir.) Það gengur ekki þegar hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. samgönguráðherra koma allt í einu úr Norðaustur- og Norðvesturkjördæmi að þá sé tekinn nýr kúrs. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það gengur ekki. (Gripið fram í.) Nei, það var búið að ákveða það fyrir löngu með fullum rökum og forsendum.



[10:50]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það átti öllum að vera ljóst í mars þegar ákveðið var hvernig standa skyldi að breikkun vegarins frá Reykjavík til Selfoss að talað var um að setja fyrsta kaflann á Hólmsár – Hveragerðiskaflanum í hefðbundið ríkisframkvæmdarútboð til að vinna tíma. Við fórum yfir í gær allan þann tíma sem þarf að vinna enn í skipulagsmálum varðandi Selfoss – Hveragerði, sem hefði sannarlega verið best að komast í fyrst vegna þess að þar er meiri umferð, en tefst vegna skipulagsmála og þá var talað um það sem mjög góðan einkaframkvæmdarvalkost.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ef nú er svo að skapast að lífeyrissjóðirnir vilja koma með meiri peninga í verklegar framkvæmdir, þar með talið vegaframkvæmdir að þá sé hægt að taka allan kaflann með því þá fagna ég því mjög og ítreka það sem ég hef áður sagt, þetta er þýðingarmesti kaflinn til að fara í hvað varðar tvöföldun út af umferðarþunga og umferðaröryggismálum.