137. löggjafarþing — 40. fundur
 13. júlí 2009.
uppgjör vegna gömlu bankanna.

[15:13]
Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú er gert ráð fyrir að uppgjörið vegna ráðstöfunar eigna og skulda gömlu bankanna til nýju bankanna ljúki eigi síðar en 17. júlí eða á föstudaginn. Samkvæmt upplýsingum sem komu fram á fundi viðskiptanefndar er ætlunin að flytja bæði slæmar og góðar eignir íslenskra fyrirtækja úr gömlu bönkunum yfir í nýju bankana í stað þess að skilja þær einfaldlega eftir í gömlu bönkunum að öllu eða einhverju leyti.

Ég spyr því hæstv. viðskiptaráðherra: Hefur samninganefnd ríkisins gefist upp á að reyna að skila einum eða tveimur af nýju bönkunum til kröfuhafa í stað þess að semja við kröfuhafa um verðmatið á eignum nýju bankanna?

Ég spyr því að það er mikill ávinningur fyrir íslenskt samfélag að fara þessa leið. Ég nefni sem dæmi að ef við færum þessa leið þyrfti eigið fjárframlag ríkisins að vera minna en gert er ráð fyrir, m.a. af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og kröfuhafar munu ekki aðeins njóta ávinningsins af rekstri bankanna heldur líka að taka á sig tapið. Síðan er líklegt að bankar í eigu erlendra kröfuhafa eigi auðveldara með að fá lán erlendis en bankar sem eru í eigu íslenska ríkisins.

Ég vil einnig spyrja hæstv. viðskiptaráðherra: Hver verður stærð efnahagsreikninga nýju bankanna og er gert ráð fyrir að ríkið leggi nýju bönkunum 280 milljarða kr. eða verður sú upphæð hærri?

Að lokum: Mun þetta framlag, þ.e. 280 milljarðar, duga fyrir afskriftum nýju bankanna og lánum sem færð hafa verið yfir frá gömlu bönkunum?



[15:15]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Það er vitaskuld rétt hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur að föstudagurinn nk., 17. júlí, verður að öllum líkindum talsverður merkisdagur í sögu íslenska bankakerfisins vegna þess að þá verður stórt skref stigið til þess að gera upp og skilja á milli gömlu og nýju bankanna. Það er jafnframt rétt hjá henni að það er í grundvallaratriðum gert eins og að var stefnt sl. haust, nýju bankarnir taka til sín íslenskar eignir, bæði góðar og slæmar, en í gömlu bönkunum verða fyrst og fremst eftir erlendar eignir. Þær forsendur eru því allar réttar, ég tek undir það.

Hins vegar vil ég ekki gangast við því að samninganefnd ríkisins — sem reyndar er ekki bara á forræði viðskiptaráðuneytisins, en látum það liggja á milli hluta — hafi gefist upp á að skila einum eða fleiri af nýju bönkunum til hinna gömlu. Það er enn á borðinu að kröfuhafar gömlu bankanna eða jafnvel gömlu bankarnir sjálfir eignist hlut, jafnvel 100%, í nýju bönkunum en það er ekki frágengið. Það er einfaldlega eitt af því sem enn er á borðinu og verður væntanlega ekki frágengið núna á föstudaginn en ég á ekki von á öðru en að sá möguleiki verði áfram inni í myndinni og að það verði jafnvel niðurstaðan varðandi einn eða fleiri banka.

Það er jafnframt rétt að rætt hefur verið um að 280 milljarðar verði eiginfjárframlag nýju bankanna frá hinu opinbera. Sú upphæð á ekki að ganga beint á móti afskriftum vegna lána sem ekki verða greidd að fullu, þær afskriftir eiga að eiga sér stað þegar eignirnar eru færðar frá gömlu bönkunum (Forseti hringir.) til hinna nýju eða gert er ráð fyrir þeim við það mat.



[15:17]
Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir greinargóð svör og vil í þessu sambandi minna á orð Görans Perssons sem kom hingað í haust og skýrði frá reynslu Svía af fjármálakreppunni þar í landi. Hann var með þau varnaðarorð að við skyldum passa okkur á að taka ekki of mikið á okkur af skuldum við endurreisn bankanna en ekki síst hvað varðar Icesave.

Það er nú orðið ljóst að kröfuhafar okkar eru ekki tilbúnir að gefa mjög mikið eftir af kröfunum vegna þess að þeir sjá hér miklar eignir, m.a. í lífeyrissjóðunum og líka mjög digran gjaldeyrisvarasjóð. Því tel ég mjög mikilvægt að farið verði varlega í að taka yfir slæm lán sem ættu að vera í þessum gömlu bönkum. Ég skora á hæstv. viðskiptaráðherra að hafa (Forseti hringir.) hagsmuni skattgreiðenda fyrst og fremst að leiðarljósi en ekki sanngirnissjónarmið.



[15:19]
viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég get að mestu tekið undir orð hv. þm. Lilju Mósesdóttur um nauðsyn þess að hið opinbera taki á sig sem minnst af þeim áföllum sem dunið hafa á íslenska fjármálakerfinu. Það er vissulega eitt af þeim mikilvægustu leiðarljósum sem horft er til við endurskipulagninguna. Ég get jafnframt tekið undir það að það væri að flestu leyti afar æskilegt ef erlendir kröfuhafar mundu verða beinir eigendur nýju bankanna þótt ekki væri nema að hluta. Það mundi auðvelda bönkunum aðgengi að erlendum mörkuðum, það mundi auðvelda okkur að gera upp í eins þokkalegri sátt og hægt er að vonast eftir við kröfuhafa gömlu bankanna. Það mundi þýða að álagið á fjárhag okkar allra, sameiginlegan fjárhag ríkisins, yrði minna en ella. Það væri því í alla staði ákjósanleg niðurstaða ef hægt er að semja um hana.