137. löggjafarþing — 46. fundur
 23. júlí 2009.
innstæðutryggingar.

[10:50]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og hefur komið fram í fjölmiðlum gengur mikið á í efnahagslífi okkar eins og búið er að vera síðustu mánuði. Það hefur verið í fréttum að menn telja að nú sé að nálgast og væntanlega komin fyrir vind, endurreisn íslenska bankakerfisins og þar er rætt um að erlendir aðilar muni eignast bankana að einhverju leyti eða öllu leyti o.s.frv.

Í október á síðasta ári þegar allt dundi á okkur lýstu stjórnvöld því yfir að allar innstæður í íslenskum bönkum, sparisjóðum og öðru slíku væru tryggðar að fullu, þ.e. innstæðurnar væru tryggðar líka umfram það sem tryggingarsjóðurinn ábyrgist. Því langar mig að spyrja og velta því upp við hæstv. fjármálaráðherra hvort þessar yfirlýsingar gildi enn þá og vil þá gjarnan fá hann til að segja að allar innstæður fyrirtækja og einstaklinga í þessum bönkum séu tryggðar óháð því hver muni eignast bankana. Það skiptir miklu máli fyrir okkur að fá þetta alveg á hreint. Ég hef hlustað á ræður hæstv. fjármálaráðherra í fjölmiðlum um þetta mál, kannski ekki náð að fóta mig alveg nákvæmlega í því hvað felst í orðum hans, hvort hann er að tala um eingöngu það sem tryggingarsjóðurinn ábyrgist eða allar innstæður, eins og rætt var um og gefin fyrirheit fyrir tæpu ári. Ég vil því gjarnan að það sé sett á prent í þingtíðindum og fyrir okkur þingmenn, að þetta eigi við enn þá og spyr því fjármálaráðherra: Eru allar innstæður fyrirtækja og einstaklinga tryggðar í íslenskum bönkum og þá á ég við á Íslandi og þeim bönkum sem verða reknir áfram á Íslandi, eins og gefin voru fyrirheit um?



[10:52]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að gefnar voru pólitískar yfirlýsingar um að séð yrði til þess að allar innstæður bæði einstaklinga og fyrirtækja sem falla undir innlánstryggingakerfið eða flokkunina, sem sagt innstæður í þeim skilningi sem innlánstryggingarnar taka til, yrðu að fullu varðar. Við þær hefur verið staðið. Aðgerðir vetrarins og vorsins hafa falið það í sér. Sömuleiðis má segja að sú aðgerð að koma nú á fót fullfjármögnuðum og sterkum nýjum bönkum þar sem þessar innstæður eru í skjóli séu liður í því að tryggja þetta. Sama gerðist í vetur þegar sparisjóðir komust í erfiðleika, í öllum tilvikum var innstæðum borgið með því að færa þær til annarra fjármálastofnana. Yfirlýsingar fyrri og þessarar ríkisstjórnar um að við þetta yrði staðið eru í fullu gildi þangað til annað er boðað.

Það er hins vegar mikilvægt að menn hafi það í huga að þetta er hluti af tímabundnum og sérstökum aðstæðum og fyrr eða síðar munu auðvitað þessir hlutir koma til endurskoðunar og færast yfir í það framtíðarfyrirkomulag sem verður um innstæðutryggingar og fjármálakerfið í heild. Hvorki á Íslandi né annars staðar er held ég reiknað með því að tímabundnar og sérstakar aðgerðir af þessu tagi standi um aldur og ævi. Þar á meðal munu til að mynda neyðarlögin koma til endurskoðunar enda eru endurskoðunarákvæði í þeim sjálfum þannig að ég held að það sé alveg ljóst að þessir hlutir verði síðan skoðaðir í framhaldinu þegar við færum okkur smátt og smátt yfir í það sem hægt er að kalla venjubundið ástand en það er von okkar allra að við komumst út úr þessum sérstöku neyðarlögum og neyðaraðstæðum sem við höfum búið við. En bara til að það sé algerlega á hreinu, yfirlýsingar bæði fyrri og núverandi ríkisstjórnar í þessum efnum eru í fullu gildi þangað til eitthvað annað er boðað.



[10:54]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svör hans. Ég skil þau þannig og ég tel að skýrt hafi verið kveðið uppi með það, hann leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál, að það eru allar innstæður tryggðar eins og áður hafði verið gefið út um. Hins vegar kom fram í máli ráðherrans: „þangað til annað hefur verið ákveðið“, og ég geri þá ráð fyrir að hann eigi við að þegar ljóst er orðið að bankakerfið og fjármálakerfið sé orðið sjálfbært og geti staðið undir sér þá verði þetta endurskoðað, fyrr ekki.

Ég vil þakka ráðherranum fyrir að lýsa því yfir með skýrum hætti að allar innstæður fyrirtækja og einstaklinga eru áfram tryggðar óháð því hversu háar þær eru.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að nota hefðbundin ávarpsorð í þingsal.)



[10:55]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu er ekki miklu við þetta að bæta. Ég vil bara leggja áherslu á að stærstur hluti innstæðna í landinu er nú í höndum nýju bankanna þriggja sem eru með um a.m.k. 4/5 af innstæðusafninu í landinu og það er að sjálfsögðu verið að búa eins vel um þær og hægt er með því að fjármagna bankana að fullu og vel. Þeir munu fá a.m.k. 12% eiginfjárhlutfall A, vel yfir lágmörkum, og til viðbótar eru lausafjárráðstafanir sem munu tryggja enn frekar stöðu þeirra ef á þarf að halda. Ég tel því að í raun og veru ættum við ekki að þurfa að vera að ræða um það sem einhverja áhættu í hinum nýju og fullfjármögnuðu bönkum að innstæður væru ekki fulltryggðar en ég vil samt segja þetta: Í því ólíklega tilviki að einhvers staðar kæmi upp vandamál af þessu tagi þá stendur ekki til að fara að gera þar mismunun á þeim ráðstöfunum sem þá yrðu gerðar til að koma innstæðum í skjól og því sem gert hefur verið í vetur og vor.