137. löggjafarþing — 46. fundur
 23. júlí 2009.
Ríkisútvarpið ohf., 2. umræða.
stjfrv., 134. mál (gjalddagar útvarpsgjalds). — Þskj. 187, nál. 254.

[14:02]
Frsm. menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá menntamálanefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson og Auði B. Árnadóttur frá menntamálaráðuneyti, Ástu Garðarsdóttur og Guðjón Á. Ríkharðsson frá Fjársýslu ríkisins, Skúla Eggert Þórðarson og Ingvar J. Rögnvaldsson frá ríkisskattstjóra, Daða Sverrisson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Ástrúnu Björk Ágústsdóttur frá Íslandsbanka og Grétu Berg Ingólfsdóttur og Jón Örn Guðmundsson frá Landsbankanum. Umsagnir bárust frá Ríkisútvarpinu ohf. og ríkisskattstjóra.

Með frumvarpinu er lagt til að gjalddögum útvarpsgjalds fjölgi úr einum í þrjá hjá einstaklingum en hjá lögaðilum verði einn gjalddagi. Gert er ráð fyrir að gjalddagar hjá einstaklingum verði 1. ágúst, 1. október og 1. desember en 1. nóvember hjá lögaðilum. Markmiðið með þessari breytingu er að skapa fjárhagslegt hagræði fyrir einstaklinga með dreifingu á greiðslu útvarpsgjaldsins.

Í kostnaðarumsögn frá fjárlagaskrifstofu kemur fram að áætlað er að útgjöld ríkissjóðs gætu aukist um 9 millj. kr. með auknum fjölda útsendra innheimtuseðla og að þessi viðbótarútgjöld muni falla til hjá Fjársýslu ríkisins sem heyrir undir fjármálaráðuneytið.

Á fundi með nefndinni kom fram hjá fulltrúum frá Fjársýslu ríkisins að fyrirkomulag á innheimtu gjaldsins sé með þeim hætti að þeir greiðendur sem ekki eru launagreiðendamerktir í kerfi hennar fái senda sérstaka greiðsluseðla. Fjölgun gjalddaga úr einum í þrjá mun því hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð þar eð greiðsluseðlum, sem sendir eru gjaldendum sem ekki eru launagreiðendamerktir hjá innheimtumönnum ríkissjóðs, muni fjölga.

Í frumvarpinu er eins og áður segir gert ráð fyrir að gjalddagar hjá einstaklingum verði 1. ágúst, 1. október og 1. desember. Fram kom hjá Fjársýslu ríkisins að ef gjalddagaskiptingin er miðuð við þá gjalddaga hefur það í för með sér kostnaðarauka sem nemur u.þ.b. 11,5 millj. kr. Sé gjalddagaskiptingin hins vegar ákvörðuð 1. ágúst, 1. september og 1. október mun kostnaður lækka um u.þ.b. 4 millj. kr. og verða 7,5 millj. kr. Útvarpsgjaldið fari á greiðsluseðil með eftirstöðvum gjalda til innheimtu eftir álagningu og skýringin á kostnaðarlækkuninni sé sú að eftirstöðvum gjalda við álagningu er skipt á fimm gjalddaga en þó sé miðað við að ekki sé til innheimtu lægri fjárhæð en 2.000 kr. á hverjum gjalddaga, sbr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þannig að útsendum greiðsluseðlum fækkar eftir því sem líða tekur á árið. Fram kom að í fyrra voru sendir út 42.000 greiðsluseðlar 1. ágúst en 1. desember 15.000. Þá kom fram hjá Fjársýslunni að misræmi milli kostnaðarmats hennar og fjárlagaskrifstofu helgist af óvissu um hversu margir greiðendur eru ekki launamerktir. Í upphafi var talið að þeir væru mun fleiri en áætlað var en nú sé jafnvel gert ráð fyrir að þeir séu mun færri.

Nefndin telur mikilvægt með hliðsjón af stöðu ríkissjóðs, og í ljósi þess að fjárlög ársins 2010 munu innihalda mikinn niðurskurð á öllum sviðum, að nauðsynlegt sé að leita leiða sem hafa í för með sér hagræðingu eða sparnað. Nefndin leggur því til þá breytingu að gjalddagar verði miðaðir við 1. ágúst, 1. september og 1. október. Nefndin bendir á að bankar bjóði upp á þann greiðslumöguleika að þeir aðilar sem eru í greiðsludreifingu geti dreift greiðslunni á lengra tímabil. Með vísan til þessa telur nefndin að breytingin hafi í för með sér bæði sparnað fyrir ríkissjóð og nái því markmiði sem upphaflega var stefnt að með frumvarpinu, að veita gjaldendum aukið hagræði við greiðslu útvarpsgjalds.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað orðanna „1. október og 1. desember“ í 1. gr. komi: 1. september og 1. október.

Hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Eftirfarandi hv. þingmenn skrifa undir nefndarálitið: Oddný G. Harðardóttir, Eygló Harðardóttir, Árni Þór Sigurðsson, Skúli Helgason og Unnur Brá Konráðsdóttir.



[14:08]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þegar ákveðið var að fara frá því kerfi sem var við lýði um innheimtu útvarpsgjalds þar sem það var lagt á og innheimt gegnum mjög dýrt kerfi sem var auk þess ekki mjög skilvirkt því talið var að stór hluti notenda greiddi ekki þó þeir notuðu sér þjónustu Ríkisútvarpsins, þá gerðu menn veigamikil mistök að mínu mati. Þeir ákváðu að leggja á sérstakt útvarpsgjald í staðinn fyrir að lækka persónuafsláttinn í skattkerfinu og færa hluta af þeim persónuafslætti sem útvarpsgjald. Það virkar nákvæmlega eins fyrir velflesta, er réttlátara fyrir þá sem eru á mörkunum vegna þess að nú er það þannig að ef tekjur manna hækka um eina krónu og þeir fara upp fyrir skattleysismörkin þá borga þeir í fyrsta lagi útvarpsgjald sem er umtalsverð upphæð og gjald til aldraðra einnig þannig að ein króna getur valdið því að menn borga eitthvað um 25 þús. kr. í heildina í þessa tvo skatta. Þetta eru nefskattar sem eru mjög ófélagslegir sem kunnugt er þar sem menn borga þá án tillits til tekna. Mér fannst vera mjög eðlilegt að menn notuðu tækifærið og tækju þann skatt sem er neikvæður nefskattur, sem er persónuafslátturinn, og bara hreinlega lækkuðu hann á móti báðum þessum gjöldum. Það hefði mátt hafa það í kerfinu sérmerkt að þessi stóri hluti af persónuafslættinum sé vegna útvarpsgjalds og annar hluti vegna gjalds í Framkvæmdarsjóð aldraðra. Þá liggur það alveg fyrir og það hefði alveg mátt gefa það upp í yfirliti eftir áramót að menn hafi borgað þetta og þetta mikið í þessi gjöld. Nei, menn ákváðu að fara þá leið að vera með sérstakt gjald með sérstöku innheimtukerfi, með sérstöku kerfi í kringum þetta og þá kom í ljós að fólk átti erfitt með að borga þetta allt í einum gjalddaga. Menn fóru að fjölga gjalddögunum upp í tíu og nú er verið að breyta því, það er aftur verið að breyta því og ég mundi segja að þetta væri allt meira og minna rugl vegna þess að til er afskaplega einföld leið til að gera þetta. Ég sé ekki að hv. menntamálanefnd hafi nokkurn skapaðan hlut fjallað um það að setja þetta inn í skattkerfið. Við erum með ýmis gjöld í skattkerfinu. Ég vil minna á barnabætur, sjómannaafslátt, vaxtabætur. Það eru sem sagt þrjú bótakerfi inni í tekjuskattslögunum. Það þykir mér öllu verra. En um þessa innheimtu sem er í rauninni skattur eru sett sérlög. Hér er verið að breyta því og flytja fram og til baka.

Það er ekki hægt að tala um þetta gjald án þess að tala um gjaldið sem var lagt á fyrirtæki. Nú er það svo að fyrirtæki hlusta ekki á útvarp og horfa ekki á sjónvarp. Ég hef aldrei séð trillu hlusta á útvarp eða horfa á sjónvarp. Í því tilfelli er því ekki um að ræða þjónustugjald. Það er hreinn og klár skattur á atvinnulífið í landinu. Núna mun koma í ljós að það kostar 19 þús. kr., eða hvað gjaldið er, að reka eitt stykki fyrirtæki á Íslandi. Þá eiga menn að kalla það það, frú forseti, og segja bara að þetta sé tilvistargjald eða lífsgjald eða hvað á að kalla það sem fyrirtæki borgar fyrir að vera á lífi og fá að vera virkt í kerfinu, en ekki kalla það útvarpsgjald því í því liggur að fyrirtæki séu einhvern veginn að hlusta á útvarp og horfa á sjónvarp. Sumir hafa sagt að það sé eðlilegt að fyrirtæki, til dæmis rakarastofur og slíkir borgi útvarpsgjald af því að útvarpið sé í gangi og svona. En það vill svo til að fólkið sem hlustar á útvarpið á rakarastofunni er allt saman búið að borga útvarpsgjald heima hjá sér. Það er búið að borga fyrir þessa notkun þannig að þetta er mjög skrýtin skattlagning og ég gagnrýndi hana mikið á sínum tíma og gagnrýni hana ekki minna núna. Ég er nærri viss um að það eiga eftir að koma upp einhver jafnvel málaferli þar sem menn munu kæra það að fyrirtæki þar sem ekki einu sinni er starfsmaður, þ.e. fyrirtæki sem er bara með rekstur og ekki með starfsmann eða neitt er að borga útvarpsgjald og það liggur í orðinu að það sé eitthvað tengt útvarpi, þetta getur jafnvel verið skip á hafi úti sem nær ekki í útvarp eða inni í afdölum. Mér finnst þetta vera mjög slæmt.

Mér finnst sérstaklega slæmt að hv. menntamálanefnd hafi ekki munað eftir umræðum þegar þetta gjald var sett á og ekki munað eftir þeirri einföldu lausn sem fólst í því hreinlega að lækka persónuafsláttinn um þetta gjald, lækka gjaldið í Framkvæmdarsjóð aldraðra um þetta gjald og við erum komin með afskaplega einfalt kerfi sem kostar ekki neitt í rekstri, ekki krónu því það er innbyggt inn í skattkerfið. Það hefði mátt prenta eina línu á álagningarseðla og segja fólki að það sé búið að borga þetta útvarpsgjald þar.



[14:13]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal kærlega fyrir ræðuna og fyrir ábendingarnar. Ég mundi kannski segja að það væri ástæða til að kalla málið aftur inn á milli 2. og 3. umr. til að ræða jafnvel þessar ábendingar því verið er að tala um að ákveðnir aldurshópar ættu í raun ekki að borga þetta útvarpsgjald. Þá er jafnvel spurning hvort setja þurfi einhverjar reglur líka varðandi lögaðila, að lögaðilar til dæmis þyrftu að vera á launaskrá til að þeir væru skyldugir til að borga þetta útvarpsgjald miðað við það sem þingmaðurinn var að nefna. Það er náttúrlega mikið áhyggjuefni að ef þú ert með fyrirtæki — ég skal bara viðurkenna að ég á fyrirtæki sem er ekki með neinn rekstur en heldur utan um ákveðna eign — en það er enginn starfsmaður sem starfar hjá fyrirtækinu. Þetta fyrirtæki mun þá væntanlega þurfa að borga útvarpsgjald samkvæmt því sem þingmaðurinn er að segja. Væntanlega þarf fjöldi svona fyrirtækja þá að borga þessa skatta þó að viðkomandi eigendur séu hvort sem er líka að borga útvarpsgjald sem einstaklingar.

Ég mælist því til þess að þetta mál fari aftur í nefnd milli 2. og 3. umr. og ég efast ekki um að það er ýmislegt sem við getum rætt áfram varðandi þessa breytingu þar inni.



[14:15]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og stundum áður er mér svara vant af því að þetta var ekki andsvar heldur meðsvar. Ég tek undir með hv. þingmanni og held að alveg sé ástæða til þess, af því að við erum að gera ýmislegt í þjóðfélaginu til þess að spara og gera kerfin einfaldari, að setja þetta gjald ásamt gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra inn í persónuafsláttinn. Það kemur nákvæmlega eins út fyrir einstaklinga.

Varðandi unga fólkið og þá sem eru undir skattleysismörkum, þá er gert ráð fyrir því í gjaldinu að þeir sem eru undir skattleysismörkum borgi ekki þetta gjald og ekki heldur í Framkvæmdasjóð aldraðra, þannig að segja má að þeir séu varðir, t.d. unglingar sem búa heima hjá foreldrum sínum. En ef þeir fara eina krónu umfram borga þeir allt í einu 19 þús. kr. í útvarpsgjaldið og síðan 6 eða 7 þús. kr. í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þeir geta borgað 25 þús. kr. fyrir þessa einu krónu sem þeir höfðu í tekjur umfram mörkin. Þau áhrif mundu hverfa ef menn hefðu þetta inni í persónuafslættinum, þá kemur þetta ekki upp.

Ég er því hlynntur því að hv. þingmaður leggi til að þetta verði tekið inn til nefndar milli umræðna og nefndin hugi virkilega að því að gera breytingar á tekjuskattslögunum og lækka persónuafsláttinn.



[14:16]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski ástæða til þess að fara að breyta nafninu á þessu, í staðinn fyrir að tala alltaf um andsvar getum við kallað þetta and- og meðsvör.

Hins vegar var fór ég að velta því fyrir mér í framhaldi af ræðu þingmannsins að segja má að þetta mál falli ekki undir það sem við fjöllum almennt um í menntamálanefnd. Þetta er fyrirkomulag sem ætti mun frekar heima innan efnahags- og skattanefndar sem hv. þingmaður situr í og sérstaklega þessar athugasemdir sem hafa komið frá honum. Ég skrifa undir nefndarálitið og vil benda á að þó að talað sé um ákveðinn kostnaðarauka við þessar breytingar er samt sem áður sparað í heildina miðað við hvernig fyrirkomulagið hefur verið á gjaldinu eða skattlagningunni, hvort sem við viljum kalla það. Í kostnaðarumsögn með frumvarpinu kemur fram að útgjöld geti hugsanlega aukist um 9 millj. kr. við þessa breytingu en mér skilst að miðað við hvernig innheimt var áður hafi kostnaðurinn verið einhver hundruð milljóna.

Hins vegar eru mjög áhugaverðar vangaveltur og ábendingar hjá þingmanninum, sem virðast hafa verið ræddar áður innan efnahags- og skattanefndar og hérna í þinginu, um hvort hægt væri að samnýta það skattakerfi sem er þegar til staðar. Þess vegna spyr maður enn á ný hvort þetta mál hefði ekki frekar átt heima undir efnahags- og skattanefnd og meðhöndlun hjá henni frekar en hjá okkur sem erum frekar sérfræðingar í mennta- og menningarmálum.



[14:18]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég lagði til að sínum tíma að það yrði lagt í hendur efnahags- og skattanefndar að fjalla um þetta, sem er klárlega skattamál. Eins og ég gat um áðan gagnvart fyrirtækjunum hefur þetta ekkert að gera með þjónustu af því að þau nota ekki þjónustuna og gagnvart einstaklingum er þetta óháð því hvað menn horfa mikið og hvort menn noti sjónvarp yfirleitt. Sumir horfa eiginlega ekkert á sjónvarp lengur og ég þar með talinn, ég horfi bara á það á netinu. Eins með útvarp, margir hlusta mjög lítið á útvarp og aðrir meira, þannig að þetta er í rauninni ekki lengur þjónustugjald, þetta er skattur. Það verða allir að borga hvort sem þeir nota kerfin eða ekki og þess vegna finnst mér eðlilegra að þetta eigi heima hjá efnahags- og skattanefnd.



[14:19]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Við erum að fjalla um ákveðnar formbreytingar, að breyta gjalddögum útvarpsgjalds, að þeir fari úr því að vera einn niður í þrjá hjá einstaklingum en að hjá lögaðilum verði áfram einn gjalddagi.

Þegar maður situr í nefndum þingsins lærir maður alltaf eitthvað nýtt og kannski getum við sagt að einna helst hafi maður lært við meðferð þessa máls að það er hægt að setja skatt í greiðsludreifingu hjá bönkunum. Þetta þyrfti kannski að benda almenningi á því að þetta kom mörgum nefndarmönnum svolítið á óvart — talandi um áhugaverða þjónustu hjá bönkunum.

Þegar hefur komið fram hérna, í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals, að fyrir lágu aðrar hugmyndir um hvernig væri hægt að innheimta þennan skatt. Ég verð að segja sem nýr fulltrúi í menntamálanefnd að mér finnst slæmt að við skyldum ekki ræða þetta aðeins frekar, ræða aðeins víðar hvort það sé rétta leiðin sem við leggjum til, þ.e. að þetta verði rukkað sérstaklega Mér þætti mjög áhugavert ef við gætum tekið það upp í nefndinni á milli 2. og 3. umr.

Ég verð líka að segja að hef svolitlar áhyggjur af Ríkisútvarpinu. Mikill halli hefur verið á rekstri þess og mikil fór vinna fram í þinginu þegar sem við vorum að búa til nýja löggjöf um RÚV. Eitt af því sem ég man eftir frá því þegar ég kom sem varamaður inn í menntamálanefnd var sú áhersla sem var lögð á að réttlætingin fyrir því að ríkið ræki útvarp væri sú áhersla sem stofnunin eða þetta opinbera hlutafélag ætti að leggja á íslenskt sjónvarpsefni og það ætti að vera í forustu fyrir gerð þess. Ég verð að segja að síðan þá hef ég ekki séð miklar breytingar verða á sjónvarpsdagskránni hjá RÚV og ég mundi telja að hæstv. menntamálaráðherra, með sinn bakgrunn í bókmenntum, hefði mikinn áhuga á hvernig RÚV getur raunverulega sinnt þessu forustuhlutverki og verið í forsvari fyrir íslenska menningu í gerð sjónvarpsefnis.

Við getum nefnt sem dæmi Silfur Egils, það er þáttur sem ég held að við stjórnmálamenn flestir horfum gjarnan á, sá þáttur á ekki uppruna sinn hjá RÚV. Sama má segja um Popppunkt, sem er mjög áhugaverður spurningaþáttur um tónlist. Oft virðast hugmyndir verða til hjá öðrum sjónvarpsstöðvum, hjá hinum einkareknu sjónvarpsstöðvum, og þegar viðkomandi sjónvarpsþáttur eða þáttastjórnandi er búinn að sanna sig er hann keyptur yfir til RÚV. Ég held að það sé ekki sú hugmyndafræði sem við lögðum upp með við þessa vinnu innan menntamálanefndar. Þar var núverandi hæstv. menntamálaráðherra einmitt mjög virkur og kröftugur í gagnrýni sinni á þá löggjöf sem var verið að setja um Ríkisútvarpið.

Það sem ég á við með þessu er að við erum hér að fjalla um skatt sem er hugsaður til þess að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins. Þó að við séum fyrst og fremst að tala um að breyta gjalddögunum skiptir máli í hvað á að nota þessa peninga, að við séum sátt við hvernig viðkomandi hlutafélag, sem er í eigu hins opinbera, notar þessa fjármuni. Það er umræða sem má ekki lognast út af heldur verðum við að halda henni lifandi innan þingsins og í samfélaginu og gera kröfur. Við eigum að gera kröfur til Ríkisútvarpsins, sérstaklega í ljósi þess að verið er að leggja þennan nefskatt á núna, að vísu með þrjá gjalddaga í staðinn fyrir einn hjá einstaklingum en hjá lögaðilum verður áfram einn gjalddagi.

Þetta eru helstu athugasemdir mínar varðandi þetta mál og ég hefði mikinn áhuga á að við skoðuðum það aðeins betur á milli 2. og. 3. umr.



[14:24]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um breytingar á innheimtu útvarpsgjaldsins svokallaða sem er í rauninni skattur. Menntamálanefnd hefur fjallað um málið og ágætissamstarf hefur verið í nefndinni um það enda svo sem ekki margt annað sem nefndin er að sýsla þessa dagana á sumarþinginu. Uppleggið með þessu máli er að lagt er til að gjalddögum útvarpsgjalds verði fjölgað úr einum í þrjá hjá einstaklingum en hjá lögaðilum verði einn gjalddagi.

Við fengum ágæta gesti fyrir nefndina og þar með fæddist þessi breytingartillaga um að í stað þess að gjaldið yrði innheimt í ágúst, október og desember verði það í ágúst, september og október. Er þetta vegna hagræðingar við innheimtu og þarna næst að spara fjármuni. Um það snýst þetta nú allt saman, starf okkar hér á þessu sumarþingi, að fjalla um breytingar og reyna að ná sem mestri hagræðingu í öllum þeim ákvörðunum sem hér eru teknar, í ljósi þess efnahagsástands sem við búum við. Þetta er í sjálfu sér hollt fyrir okkur og að sjálfsögðu á stöðugt að hafa í huga hvernig kostnaður verður til og hvernig við ætlum að nýta sem best þær krónur sem til falla og við höfum til umráða í þessu ástandi.

Mig langar að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir athyglisverðar hugmyndir sem hann fram kom með og viðurkenni að þær voru ekki ræddar í nefndinni og komu ekki upp á fundi nefndarinnar. Því tel ég því fulla ástæðu til þess að við tökum þetta inn í nefndina á milli umræðna og ræðum það. Jafnframt væri ágætt að vita hvort mögulegt væri að fá einhvers konar umsögn þá frá efnahags- og skattanefnd þar sem þetta er í rauninni skattamál en ekki mál sem varðar menntamálin sem slík eða hlutverk menntamálanefndarinnar.

Jafnframt eru athyglisverðar þær hugmyndir sem hann er með varðandi fyrirtækin. Að sjálfsögðu gengur ekki eins og ástandið er hjá íslenskum fyrirtækjum að verið sé að bæta þessum skatti á fyrirtæki sem eru í rauninni kannski ekki í rekstri og eru ekki með starfsmenn í vinnu. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal komst svo skemmtilega að orði þá eru það ekki bátarnir sem horfa á sjónvarpið alla dagana. Þetta er því mál sem ég tel að við verðum að taka til umfjöllunar.

Við sitjum hér, hv. þingmenn, á þessu sumarþingi og förum yfir ýmis mál, við í menntamálanefnd erum að fara yfir þessi gjalddagamál meðan aðrar nefndir eru að fjalla um Icesave-samkomulagið, og það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að við vöndum okkur, að við köstum ekki til höndum og reynum að afgreiða málin hratt — sem er að sjálfsögðu alltaf kostur — en við þurfum að nota tímann vel og einbeita okkur að því að við náum þá a.m.k. sem bestri niðurstöðu þrátt fyrir að þingmenn séu að sjálfsögðu með hugann við önnur stærri mál. Við megum engu að síður, fyrst þetta mál er hér á dagskrá, og dagskráin eins og hún liggur fyrir í dag er sambland af ýmsum misstórum málum, aldrei missa sjónar á því að vanda okkur.

Ég tek því einfaldlega undir þessi sjónarmið hv. þm. Pétur H. Blöndals um að það er full ástæða til að ræða þetta í nefndinni og jafnframt þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur, sem situr með mér í menntamálanefndinni, að við þurfum að opna augun og vanda okkur í því sem við erum að gera í nefndinni.

Að öðru leyti vonast ég bara til þess að við eigum áfram gott samstarf í nefndinni um þetta mál og hef í rauninni ekki meiru við málið að bæta.



[14:29]
Frsm. menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 6, sem sett voru árið 2007, um Ríkisútvarpið ohf. Markmiðið með þessum breytingum sem fjallað er um er að skapa fjárhagslegt hagræði fyrir einstaklinga með dreifingu á greiðslu útvarpsgjaldsins. Ég tel að breytingin sem lögð er til hafi, eins og segir í nefndarálitinu, „í för með sér bæði sparnað fyrir ríkissjóð og nái því markmiði sem upphaflega var stefnt að með frumvarpinu, að veita gjaldendum aukið hagræði við greiðslu útvarpsgjalds“. Það hefur jafnframt komið fram að af þessu gjaldi fá fáir afslátt, svo sem öryrkjar, og er fjallað um þetta m.a. í Fréttablaðinu í dag.

Ég mun beita mér fyrir því að milli 2. og 3. umr. verði talað um þetta og óskað eftir því við menntamálaráðherra að hún taki málið til frekari skoðunar. Ég legg hins vegar áherslu á að það seinki ekki afgreiðslu þessa máls, þ.e. fjölgun gjalddaganna, en að við getum séð til þess að þetta mál fari í frekari skoðun jafnvel þó að við afgreiðum frumvarpið með breytingum eins og lagt er hér til.