137. löggjafarþing — 46. fundur
 23. júlí 2009.
tímabundin ráðning starfsmanna, 2. umræða.
stjfrv., 78. mál (EES-reglur, ráðningarsamningar). — Þskj. 90, nál. 202.

[15:39]
Frsm. fél.- og trn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna.

Frumvarpinu er ætlað að innleiða með fullnægjandi hætti tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 1999 um rammasamning um tímabundna ráðningu.

Tilgangur framangreindrar tilskipunar er að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningum. Samkvæmt íslenskum lögum er óheimilt að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt lengur en í tvö ár. Hefur ákvæðið því þau áhrif að líði lengri tími en þrjár vikur þar til nýr samningur er gerður telst ekki vera um framlengingu eða endurnýjun samnings að ræða heldur sé kominn á nýr samningur. Í frumvarpinu er því lagt til að þessi tími verði lengdur úr þremur vikum í sex vikur sem þyki þá hæfilegur tími og talinn ná tilgangi laganna til að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningum.

Nefndin telur rétt að benda á að í dómi Evrópudómstólsins kemur ekki fram hver hæfilegur tími sé, einungis að 20 virkir dagar eða fjórar vikur sé ekki nægjanlega langur tími enda gætu starfsmenn oftar en ekki þurft að sætta sig við svo langt tímabil milli starfssamninga við vinnuveitanda sinn. Þannig mætti leiða að því líkur að taki starfsmenn sér sumarfrí við lok tímabundins samnings og nýr samningur sé ekki gerður fyrr en að sumarleyfi loknu geti hafa liðið þrjár til fjórar vikur sem leiði þá til þess að nýtt ráðningarsamband myndast og tveggja ára hámarkstímabil tímabundinnar ráðningar byrjar að telja að nýju. Af þessum sökum áréttar nefndin mikilvægi þess að launafólki með tímabundna ráðningu sé veitt nægileg vernd og sá tími sem frumvarpið kveður á um verði lengdur leiði reynslan í ljós að þörf sé á því.

Nefndin hefur fjallað um málið og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þuríður Backman, Guðbjartur Hannesson og Guðmundur Steingrímsson.

Fjarverandi voru hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Jón Gunnarsson og Ólína Þorvarðardóttir.



[15:42]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er komin upp til þess að lýsa ánægju minni með breytinguna í þessu frumvarpi. Ég tel þetta vera mestu réttarbótina af þessum þremur málum sem hafa verið lögð fram og kannski það sem skiptir mestu máli. Þarna vegur þungt, eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir fór yfir, að lengja frestinn úr þremur vikum upp í sex vikur vegna sumarleyfisákvæðisins.

Umboðsmaður Alþingis hefur aðeins fjallað um þetta í máli nr. 4929 frá 2007, auk þess sem Evrópudómstóllinn hefur fjallað um þessi mál. Oft er á mjög gráu svæði hvenær þetta tekur gildi og hvað má líða langur tími. Ég ætla því fyrir hönd Framsóknarflokksins að lýsa hér yfir ánægju með þetta frumvarp og við komum til með að styðja það.



[15:44]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ráðningarsamningur er samningur milli tveggja aðila og væntanlega er beggja hagur að gera ákveðinn samning. Það ætti að vera þannig en þó myndast oft misvægi. Þegar skortur er á vinnuafli eða skortur á vinnu, atvinnuleysi, getur myndast misræmi. Þegar fólk ræður sig í vinnu getur vel verið að launþeginn vilji gjarnan hafa vinnuna tímabundna og ekki hafa ótímabundinn ráðningarsamning, það er ekki endilega alltaf atvinnurekandinn sem knýr á um að samningar séu tímabundnir. Þessi tilskipun og þessar reglur sem við erum að setja í lög skerða í rauninni samningsfrelsi launþeganna líka.

Ég vildi bara benda á þetta, það er ekki alltaf fyrirtækið sem stjórnar því hvernig ráðningarsamningar eru heldur líka launþegarnir. Sú staða gæti komið upp að einhver vildi ráða sig fram á haustið, þá vildi hann vera laus og ekkert þurfa að segja upp sérstaklega vegna þess að hann ætlar að fara í nám t.d. Vel má vera að þessi lög og þessar reglugerðir geri slíkt ómögulegt. Hafi maður verið í starfi tímabundið fram á vor, af því að þá þurfti hann að fara í vorpróf eða eitthvað slíkt, getur hann lent í því að vera kominn í ótímabundna vinnu og þurfa að segja upp með formlegum fyrirvörum eins og um ótímabundinn samning væri að ræða.



[15:46]
Frsm. fél.- og trn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu taka undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og fagna innleiðingu þessarar tilskipunar sem felur í sér réttarbót fyrir fólk sem er ráðið tímabundið. Þess er að geta að í kjölfarið á bankahruninu á Norðurlöndunum fjölgaði mjög þeim á vinnumarkaði sem voru aðeins með tímabundna ráðningu. Flestir þeirra sem féllu undir þann hóp voru ungt fólk og þá sérstaklega háskólamenntað fólk. Það er því mikilvægt að innleiða þessa tilskipun núna þegar við erum að fara í gegnum svipað ástand og tryggja frá byrjun að það fólk sem mun bara eiga kost á tímabundinni ráðningu njóti sem mestra réttinda.