137. löggjafarþing — 47. fundur
 24. júlí 2009.
Ríkisútvarpið ohf., 3. umræða.
stjfrv., 134. mál (gjalddagar útvarpsgjalds). — Þskj. 293, frhnál. 297.

[12:09]
Frsm. menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá menntamálanefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið að nýju milli 2. og 3. umr. Fram hefur komið að eðli innheimtunnar hefur breyst úr innheimtu á afnotagjöldum í skattheimtu. Áður sá Ríkisútvarpið um innheimtu afnotagjalds en við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um Ríkisútvarpið í lok síðasta árs var gjaldtakan færð til skattyfirvalda. Á þeim tíma sem Ríkisútvarpið sá um innheimtu afnotagjaldanna var m.a. samið sérstaklega við Öryrkjabandalag Íslands um afslátt frá gjaldinu til handa lögblindum og heyrnarskertum.

Nefndin telur eðlilegt að litið verði til sanngirnissjónarmiða við gjaldtökuna eins og verið hefur og beinir því til ríkisstjórnarinnar að skoðað verði sem allra fyrst hvaða afslættir voru veittir á gjöldunum og hvernig unnt er að viðhalda þeim.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Hv. þm. Skúli Helgason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Eftirfarandi hv. þingmenn skrifuðu undir nefndarálitið auk þeirrar sem hér stendur: Ásmundur Einar Daðason, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Eygló Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Margrét Tryggvadóttir.



[12:10]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég skrifa undir þetta nefndarálit sem er verið að leggja hérna fram á fundi milli 2. og 3. umr. og fagna því að þetta var eitthvað sem við gátum sameinast um í nefndinni. Það voru hins vegar ýmis önnur álitamál sem komu upp við 2. umr. og þá sérstaklega hvað varðar innheimtu á þessum skatti gagnvart lögaðilum. Hv. þm. Pétur Blöndal benti sérstaklega á að það virðist reglan, eins og hún er núna, að allir lögaðilar verða skyldugir til þess að greiða þennan skatt. Tel ég að það sé ákveðið misræmi þarna á meðhöndlun á lögaðilum og einstaklingum því að í ákvæðunum um þennan skatt er talað um að það sé ákveðið lágmark á tekjum, það er ákveðið tekjuviðmið. Ef fólk uppfyllir ekki þetta tekjuviðmið er það undanskilið frá því að greiða þennan skatt. Ég tel mjög mikilvægt að það verði skoðað hvort það ætti að gilda það sama um lögaðila að þeir þurfi að vera með einhvers konar lágmarkstekjur áður en þeir fara að borga þennan skatt.

Ég held að við höfum verið nokkuð sammála í nefndinni að það kannski félli ekki algjörlega undir það sem við værum að ræða hérna um gjalddagana en hins vegar væri ástæða til að taka þetta upp seinna í nefndinni og skoða það frekar. Ég held að við höfum verið nokkuð sammála um að þetta væri eitthvað sem menntamálanefnd mundi vilja skoða frekar.



[12:12]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér framhaldsnefndarálit menntamálanefndar vegna skattheimtu, gjalds sem renna þarf til Ríkisútvarpsins. Hér er grundvallarbreyting á ferðinni frá því sem áður var þegar um var að ræða gjald til útvarpsins annars vegar og nú með breyttum lögum þegar úr verður skattur. Þá er hugmyndin að hann verði lagður á á sama hátt og skatturinn um Framkvæmdasjóð aldraðra hefur verið lagður á.

Það er ljóst að erfiðara er að fást við afslætti af sköttum en almennum afnotagjöldum. Hins vegar hafði Ríkisútvarpið samið við ákveðna aðila um afslátt af þeim gjöldum sem þar voru, og þótti það sjálfsagt, og var Ríkisútvarpið þá og er í eigu ríkisins. Það var því sanngjarnt að þessi þáttur yrði skoðaður nú, hvort sömu aðilar ættu með einhverjum hætti að njóta afsláttar frá þessum skatti og þá hvernig. Það er ekki á færi menntamálanefndar að ákveða breytingar á skattalöggjöfinni. Því vísar nefndin þeirri skoðun sinni til hæstv. ríkisstjórnar um að hún skoði þá hvort og hvernig hægt er að fara í að veita afslátt af þessum skatti.

Það er hins vegar rétt eins og hv. 7. þm. Suðurk., Eygló Harðardóttir, ræddi hvort allir lögaðilar eigi að greiða þennan sama skatt. Á að horfa til þeirra með tilliti til tekna fyrirtækjanna? Þar erum við komin í einhvern allt annan farveg en upphaflega var gert ráð fyrir en sjálfsagt að skoða og þá með hvaða hætti.

Þá komum við kannski að kjarna málsins að þegar við breytum þáttum eins og þessum og erum að fara úr afnotagjöldum í skatta þurfum við kannski að skoða töluvert nánar hvernig við erum að breyta, af hverju við erum að breyta og hvað á að fylgja í kjölfarið. Við stöndum kannski frammi fyrir því hér og nú að sú löggjöf sem Alþingi afgreiddi um Ríkisútvarpið hefur líklegast ekki verið jafnvönduð og Alþingi taldi vera. Á þessu er ákveðinn galli sem menntamálanefnd beinir til hæstv. ríkisstjórnar að hún skoði og fari yfir. Þetta er enn einn þáttur í því að á hinu háa Alþingi þurfum við sem hér sitjum að vanda okkur við löggjöfina, skoða vel alla þætti í þeim breytingum sem hér eru gerðar þannig að þingið þurfi ekki sí og æ að vera að fá til baka lög vegna tæknilegra ágalla eða einhverra annarra ágalla á einhverri löggjöf sem Alþingi hefur samþykkt. Það sýnir okkur að við þurfum að vanda okkur betur við löggjöfina og fara yfir alla þá þætti sem hún kann hugsanlega að snerta til þess að ekki komi til þess aftur og aftur að við þurfum að taka inn löggjöf, breyta henni eða vísa til aðila um að skoða frekar.

Frú forseti. Þetta er sanngirnismál sem menntamálanefnd er sammála um að beina til ríkisstjórnarinnar að skoða frekar.



[12:16]
Frsm. menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið eru undanþegnir gjaldinu þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þetta eru börn inn 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru undanþegnir gjaldinu einstaklingar sem hafa tekjuskattsstofn samkvæmt 1. og 3. tölulið 61. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og þar er miðað við ákveðin árslaun. Einnig skal skattstjóri fella niður gjald af öldruðum og öryrkjum undir 70 ára aldri sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Nefndin var sammála, eins og fram hefur komið, um að beina því til hæstv. ríkisstjórnar að þessu til viðbótar verði skoðað hvaða afslættir voru veittir á gjöldunum áður og hvernig unnt væri að viðhalda þeim afsláttum. Nefndin vísar í áliti sínu til afsláttar til handa lögblindum og heyrnarskertum Í þessu samhengi eru aðstæður lögaðila allt aðrar og augljóslega ekki sambærilegar þó að sjálfsagt sé að skoða það síðar.