137. löggjafarþing — 48. fundur
 10. ágúst 2009.
styrking krónunnar.

[15:11]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Fátt veldur líklega Íslendingum meiri áhyggjum núna í yfirstandandi efnahagsþrengingum en gengi krónunnar sem hefur kannski aldrei verið jafnveikt og það er nú. Ríkisstjórnin hefur gefið ýmsar ástæður fyrir því að gengið ætti að styrkjast. Það þyrfti bara að yfirstíga ákveðna hluti, fyrst átti það að reka seðlabankastjóra að styrkja gengi krónunnar. Það var ekkert smáræði sem gekk á til þess — og ekki styrktist gengið við það.

Svo gekk heil kosningabarátta út á að það eitt að sækja um aðild að Evrópusambandinu mundi strax auka trúverðugleika Íslendinga stórlega og styrkja þannig gengið. Það er skemmst frá því að segja, eins og þið kannski munið eftir öll, að þetta var samþykkt — en gengi krónunnar hreyfðist ekki neitt.

Núna þurfum við nauðsynlega að taka á okkur alveg gífurlegar erlendar skuldir, skuldir í erlendri mynt, og með því á trúverðugleiki Íslendinga að aukast svo rosalega að krónan styrkist. Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að gengið styrkist? Getur verið að ríkisstjórnin trúi því enn, þrátt fyrir að Íslendingar eigi að þekkja það manna best að þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig, að hægt sé að styrkja gengið til lengri tíma litið með lántöku? Var það ekki einmitt óhófleg lántaka Íslendinga, eins bankanna sérstaklega í erlendri mynt, sem varð til þess að gengi krónunnar varð óeðlilega sterkt og afleiðingin af því gat aðeins orðið ein, hrun gjaldmiðilsins? Ætlar ríkisstjórnin að halda áfram á þessari sömu braut, að reyna að styrkja gjaldmiðilinn, ekki með afgangi af gjaldeyristekjum heldur með lántökum og endurtaka þannig mistök bankanna nema núna á enn þá stærri skala? Þá yrði ekki aftur snúið. Ríkisstjórnin hefur ekki sýnt fram á það hvernig þessi lán frá Norðurlöndunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem sögð eru svo mikilvæg eiga að breyta nokkrum sköpuðum hlut eða hvernig þau eiga að styrkja gengi gjaldmiðilsins.



[15:13]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega áhyggjuefni eins og fram kemur hjá hv. þingmanni að gengi krónunnar skuli ekki styrkjast meira og betur en verið hefur á undanförnum vikum. En það er alveg ljóst að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðast að því að við getum haft styrkara gengi á krónunni en verið hefur og líka það sem hv. þingmaður nefndi varðandi þá aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þó að það gerist ekki á sömu stundu og við setjum aðildarumsókn fram held ég að það muni gerast til lengri tíma.

Mér fannst hv. þingmaður ýja að því að hér tækjum við allt of mikil lán og það væri óþarfalán sem væri verið að taka bæði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hjá Norðurlöndunum, sem við höfum að vísu ekki fengið enn þá, en ég er algerlega ósammála hv. þingmanni um það. Ég tel nauðsynlegt, m.a. til þess að styrkja gengi krónunnar, að við fáum með eðlilegum hætti aðgang að erlendu fjármagni og ég tel það lið í því að endurreisa hér atvinnulífið og efnahagslífið að við fáum aðgang að fjármagni. Að vísu er það fjármagn sem við fáum frá Norðurlöndunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hugsað til að auka og styrkja gjaldeyrisvaraforða okkar. Það er alveg ljóst. Engu að síður er það líka nauðsynleg forsenda til að endurreisa trúverðugleika að fá þessi lán inn í landið og það mun örugglega greiða fyrir því að við getum fengið lán erlendis sem okkur er nauðsynlegt, m.a. til að byggja upp atvinnulíf okkar, vegna þess að allt það mun stuðla að því að við styrkjum gengi krónunnar.



[15:15]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að útskýra það hvernig aukin skuldsetning eigi að gera okkur auðveldara til að fá lán í framtíðinni og hvernig aukin skuldsetning í erlendri mynt eigi að styrkja gengi íslensku krónunnar. Eins og ég nefndi áðan þá var það einmitt þessi aðferðafræði sem okkur svo í koll. Það var einmitt þetta, þ.e. óhófleg lántaka í erlendri mynt til þess að halda uppi gengi gjaldmiðilsins eða með þeim afleiðingum sem kom okkur í þau gríðarlegu vandræði sem við erum í nú. Á þessari braut ætlar ríkisstjórnin, að því er virðist, að halda áfram.

Það má ekki nota gjaldeyrisforðann, eftir því sem sagt er, til þess að halda uppi genginu og viti menn af því að það megi ekki þá skiptir hann náttúrlega engu máli. Maður hefur hins vegar grun um að gjaldeyrisvaraforðinn verði notaður til þess að kaupa upp gengið og þá eru menn að gera nákvæmlega það sama og fyrirtæki gera þegar þau taka lán til þess að kaupa hlutabréf í sjálfu sér. Slíkt er ekki sjálfbært og getur aðeins leitt til enn stærra hruns.



[15:16]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst að hv. þingmaður geti ekki borið saman óhóflega lántöku sem var hér á umliðnum árum meðal annars fyrir tilstilli bankanna sem hefur haft áhrif til þess að leiða okkur í þetta hrun og kreppu sem við erum í við það að við séum nú og hér að taka lán til þess að styrkja gjaldeyrisforðann. (Gripið fram í.) Það er bara algjörlega ósamanburðarhæft. Ég ætla að vekja athygli hv. þingmanns á því ef það hefur farið fram hjá honum sem fram kom í fréttum í gær að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins leggur mikla áherslu á það að við eflum okkar gjaldeyrisforða og tökum þessi lán sem við (Gripið fram í.) höfum ekki enn fengið inn til landsins, sem er meðal annars forsenda þess að fá inn nýtt fjármagn í landið til atvinnuuppbyggingar. Ég bið því hv. þingmann að bera ekki saman svart og hvítt í þessu efni. (Gripið fram í: Er Vilhjálmur forsætisráðherra?)