137. löggjafarþing — 48. fundur
 10. ágúst 2009.
gjaldeyrismál.

[15:26]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var frágengið í október á síðasta ári og fyrsta greiðsla samkvæmt því prógrammi barst hingað til lands um það bil mánuði síðar og greiðslur samkvæmt þessari áætlun áttu að skila sér síðan ársfjórðungslega eftir það. Veruleikinn er hins vegar sá að enn hafa engar frekari greiðslur borist og umræðan um þessa fyrirgreiðslu hefur kannski fyrst og síðast snúist allt frá þessum tíma um það hvort við fáum lánin í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða ekki.

Það er hins vegar nú á síðustu dögum og vikum að umræðan er farin að tengjast því sem meðal annars hefur komið upp hér við þessa umræðu í dag, þ.e. að spurningin sé sú hvort þetta sé ólán í láni sem þjóðin er að fá í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Meðal annars hafa virtir hagfræðingar tjáð sig í þá veru að þau lán sem ráðgert er að taka, erlendu lán, að það megi setja spurningarmerki við þau. Þær upplýsingar hafa farið út í umræðu að næsti gjalddagi erlendra lána ríkisins sé ekki fyrr en 2011 og því er eðlilegt að spurt sé hvort menn séu að ofmeta þörfina fyrir þennan gjaldeyrisforða sem menn hyggjast byggja upp.

Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort fyrir liggi sjálfstætt mat hjá ríkisstjórninni á þörf fyrir gjaldeyrisforða ríkissjóðs þá í ár og jafnvel á næsta ári einnegin. Það væri ágætt að fá upplýsingar um það.



[15:28]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Að sjálfsögðu má deila um það örugglega bæði hagfræðilega og á fleiri forsendum hversu stóran gjaldeyrisvaraforða sé nauðsynlegt að halda til þess að endurheimta trúverðugleika, ná að styrkja gengi krónunnar og halda því stöðugu, ná tiltrú og hafa það afl á bak við í Seðlabankanum að hægt sé að grípa inn í, ekki til þess að hafa varanlega áhrif á gengi krónunnar heldur til þess að jafna út sveiflur og mæta óvæntum frávikum þegar útstreymi verður á ákveðnum tímum, að leggja þá gjaldeyri inn á markaðinn og endurheimta hann síðan þegar betur gengur. Allt snýst þetta líka um að eyða óvissu sem er skaðleg og hefur sem slík sjálf áhrif í þessum efnum.

Nú er ekki endilega víst í hvaða mæli og hvenær öll þessi lán verða tekin. Reyndar er ekki víst að þau skili sér öll í hús þó eftir verði leitað. Allir vita að viðræður við Rússa eru skammt á veg komnar en Norðurlandalánasamningarnir bíða tilbúnir og viðræðum við Pólverja hefur miðað vel. Það er einfaldlega mat þeirra sem að þessu hafa komið og unnið hafa að bæði efnahagsmálum hér innan lands sem og þeim erlendu aðilum sem við höfum verið í samstarfi við að það sé óumflýjanlegur og mikilvægur liður í þessari endurreisn að hafa verulegan gjaldeyrisvaraforða upp á að hlaupa til að mæta sveiflum sem kunna að vera á markaði. Það eru vaxtagreiðslur og afborganir og gjalddagar á jöklabréfum eða stöðum útlendinga hér í innlendum krónum sem þarf að mæta og síðan tilfallandi afborganir bæði ríkis og annarra aðila sem þurfa að fara yfir gjaldeyrismarkaðinn út úr landinu. Á þetta hefur verið lagt mat af hálfu Seðlabankans auðvitað sérstaklega, síðan fjármálaráðuneytisins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri aðila. Niðurstaðan er sú að nauðsynlegt sé að tryggja þennan gjaldeyrisvaraforða, vonandi til þess að nota sem (Forseti hringir.) minnst af honum og jafnvel að taka lánin eða hefja ekki endilega lánin í öllum tilvikum fyrr en þörf er fyrir þau.



[15:30]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að vissulega má deila um forsendurnar fyrir því mati sem fram þarf að fara. En ég held að það gæti verið ágætt, fróðlegt og upplýsandi fyrir þing og alþjóð einnig að fá að sjá þetta mat og fá það lagt fram. Það er hins vegar umdeilanlegt og væri vissulega líka athyglinnar og umræðunnar virði að fá frekari umræðu og dýpri um það í hverju sú hjálp ætti að vera fólgin sem í þessu láni felst og haldið er fram af talsmönnum þess fyrir íslenskt efnahagslíf og endurreisn þess sem allir kalla eftir að hefjist sem fyrst. Nánari greiningu og umræðu um þær forsendur sem menn vilja sjá í þeirri lántöku sem fyrirhuguð er væri mjög gott að fá fram. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að upplýsa sínar skoðanir og sína sýn á það hvernig þessi erlenda lántaka muni gagnast beint í því (Forseti hringir.) mikilvæga verkefni sem fram undan er.



[15:31]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að ákaflega margt hangi á spýtunni í þessum efnum sem tengist hvað öðru. Við vitum mikilvægi þess að ná stöðugu gengi og að gengi krónunnar styrkist. Við vitum þörfina fyrir að verðbólga lækki og að við getum lækkað hérna vexti. Við vitum hver þörfin er til að opna aðgang að erlendu fjármagni þannig að fyrirtæki geti endurfjármagnað eldri skuldir og eftir atvikum sótt sér nýtt fjárfestingarfé. Allt hangir þetta saman og snýst um það að skapa hér aftur eitthvert eðlilegt ástand, að eyða óvissu þannig að við byggjum upp endurnýjað traust og trúverðugleika á íslenskum efnahagsmálum. Þetta er hluti af stórri heildarmynd sem öll verður að ganga upp saman. Við þurfum að ryðja hindrunum úr vegi hverri á fætur annarri. Okkur hefur orðið talsvert ágengt í því en það eru brekkur eftir svo sannarlega sem við þurfum að komast upp.