137. löggjafarþing — 51. fundur
 13. ágúst 2009.
horfur á vinnumarkaði.

[10:39]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Sú fyrirspurn sem ég ætla að beina til hæstv. ráðherra snýr að vinnumarkaðnum og tengist óneitanlega því sem þeir voru að ræða, hæstv. ráðherra og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson. Ráðherra upplýsti okkur um að það væri alger óvissa í efnahagsmálum og það tengist því sem ég ætla að spyrja hann um, hvort ekki sé alger óvissa varðandi vinnumarkaðinn, varðandi stöðu vinnuveitenda á Íslandi, varðandi stöðu þeirra sem vinna hjá fyrirtækjunum. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann sé ekki búinn að setja vinnu í gang til að kanna hvort hér sé gert ráð fyrir miklum uppsögnum, hópuppsögnum, á næstu mánuðum. Er hann búinn að setja sig í samband við t.d. 200 stærstu fyrirtækin hér á landi til að kanna hvernig staðan er hjá þeim? Er ráðherrann búinn undir uppsagnahrinu sem kann að verða í haust? Við vitum að fyrirtæki hafa verið að fleyta sér í gegnum sumarið, það hafa ekki verið miklar uppsagnir í sumar. Er ráðherrann búinn að gera ráðstafanir til að bregðast við eða er hann með eitthvert plan ef þessi staða skyldi koma upp varðandi uppsagnir? Er verið að meta hvaða áhrif það hefur t.d. á heimilin og þá stöðu sem hv. þm. Einars K. Guðfinnsson lýsti í ræðum sínum?

Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki jafnmikil óvissa í þessum málum hjá ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra upplýsti að væri í efnahagsmálum. Er ríkisstjórnin ekki algerlega bjargarlaus þegar kemur að vinnumarkaðnum líkt og varðandi efnahagsmálin? Hvaða áætlanir eru í gangi? Hvað ætlar ráðherrann að gera ef upp kemur sú staða að hópuppsagnir verði í ágúst, september, október? Hvaða úrræði eru í pípunum? (Gripið fram í: Um það ríkir óvissa.) Um það ríkir nefnilega óvissa, hv. þingmaður, þakka þér fyrir og ég hef nefnilega grun um að það svar sem við fáum á eftir undirstriki að það ríkir alger óvissa eða þá að sú vinna sé ekki farin í gang. Það gæti verið búið að skipa nefnd, gera áætlanir, starfshóp eitthvað slíkt. (Gripið fram í.) — Einmitt, áætlun um að gera áætlanir. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða vinna er í gangi og hvað ætlar hann að gera?



[10:41]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er engin óvissa um efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Hún er skýr, ríkisstjórnin hefur sett fram mjög skýra stefnu um hvernig vinna á á þeim efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum. Við höfum lagt fram … (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Er hægt að fá hljóð í salinn?

Við höfum lagt fram skýra sýn á það hvernig stöðugleika verði náð í efnahagsmálum á næstu árum. Ríkisstjórnin byrjaði þetta sumarþing á því að leggja fram áætlun um ráðstafanir í ríkisfjármálum jafnt fyrir næsta ár og til næstu fjögurra ára.

Það liggur fyrir samkvæmt spám að við höfum ekki séð verstu dýfuna enn hvað atvinnuleysi varðar og búist er við að við getum jafnvel séð frekara atvinnuleysi í haust. Það er alveg rétt að sumarið er tími þar sem framboð starfa eykst, sérstaklega vegna ferðaþjónustunnar. Efnahagsleg óvissa er í dag fyrst og fremst afleiðing þess að við vitum ekki enn hvað verður og við höfum ekki getað sagt skýrt við atvinnulífið að botninum sé náð. Grundvallaratriðið til að við getum farið að treysta grunn efnahagslífsins, að fyrirtækin geti farið að gera áætlun til næstu ára, er að við eyðum þeirri óvissu sem er um frágang þeirra grunnstoða sem við höfum verið að tryggja og þar er það samkomulag sem liggur fyrir Alþingi núna um ríkisábyrgð vegna Icesave-samkomulagsins grundvallaratriði. Það er grundvallaratriði og það veit hv. þingmaður og það er staðfest af öllum þeim sem um mál fjalla jafnt innan lands sem utan að samþykkt þeirrar ríkisábyrgðar mun greiða fyrir því að okkur takist að styrkja lánshæfismat ríkisins, að okkur takist þar með að treysta grunnstoðir fyrir fjármögnun atvinnulífsins, (Gripið fram í.) aðgang fyrirtækja að erlendum mörkuðum jafnt og aðgang íslenskra fyrirtækja að nauðsynlegri lánsfjárfyrirgreiðslu. Það er grundvallarforsenda (Forseti hringir.) þess að atvinnuleysið versni ekki meira en þegar er spáð.



[10:43]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég skal gjarnan hitta hæstv. ráðherra og lesa fyrir hann leiðara Financial Times ef hann hefur ekki gert það sjálfur en hins vegar spurði ég ekki um þetta. Ég spurði hvaða plön og hvaða áætlanir ráðherrann hefur gert og hvað hann hefur uppi ef hér verður aukning atvinnuleysis. Ef hér verða fleiri hópuppsagnir en áður hefur þekkst, hvað ætlar ráðuneytið að gera? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Er hún búin að athuga það? Er hún búin að kanna það, er hún búin að hringja í þessi stærstu fyrirtæki, segjum þau 200 stærstu? Ég skal hjálpa honum að hringja ef það er málið og spyrja: Hver er staðan, hverjar eru áætlanir ykkar? Búist þið við uppsögnum? Það hlýtur að vera að hlutverk ríkisstjórnarinnar að athuga þessa hluti til að geta brugðist við og hvernig á þá að bregðast við? Á að fjölga fólki sem vinnur hjá Vinnumálastofnun? Á að fjölga enn þá meira hjá Ráðgjafarstofu heimilanna? Hverjar eru áætlanir ríkisstjórnarinnar? Er búið að kanna þetta? Ég held nefnilega að það sé ekki búið að kanna þetta. Ég held að það ríki alger óvissa um hvað tekur við um næstu mánaðamót og þar næstu mánaðamót (Forseti hringir.) vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekkert skoðað þessa hluti og er búin að gleyma sér í Evrópusambandsumræðum sem hæstv. ráðherra er mjög áhugasamur um.



[10:44]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég trúi ekki á að búa til plástra heldur eigum við að reyna að ráðast að grunnrót vandans. Það liggur ekkert annað fyrir um áætlanir íslenskra fyrirtækja en það sem þau hafa sjálf sagt sem er að ef það tekst að koma á efnahagslegum stöðugleika geta þau vonandi komist hjá frekari uppsögnum. Það sem til okkar friðar heyrir er að leggja þær grunnstoðir fyrir efnahagslegan stöðugleika að við getum komist hjá frekari uppsagnahrinum. Ef menn ætla ekki að horfast í augu við þann veruleika sem við blasir, ef menn ætla ekki að horfast í augu við að við verðum að axla ábyrgð og ganga frá því sem til okkar friðar heyrir varðandi Icesave-skuldbindingarnar er verið að kalla yfir fólk atvinnuleysi og erfiðleika í efnahagslífi að óþörfu. Það vita menn. Það er staðfest af hagsmunasamtökum atvinnulífsins, það er staðfest af öllum helstu greiningaraðilum. Og ef menn ætla að berja hausnum við steininn valda þeir fólki tjóni og erfiðleikum að óþörfu.