138. löggjafarþing — 4. fundur
 7. október 2009.
umræður utan dagskrár.

nýting orkulinda til orkufreks iðnaðar og stöðugleikasáttmálinn.

[14:09]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Tilgangur umræðunnar sem hér er hafin er að þingmenn, og þá ríkisstjórnin sérstaklega, nái að átta sig á stöðu fjárfestingarverkefna og greiða götu þeirra á næsta ári til þess að Ísland nái að vinna sig út úr kreppunni með því að efla hagvöxt og auka atvinnu, samanber ákvæði stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera frá 25. júní sl. Þeir sem að stöðugleikasáttmálanum standa hafa mjög skamman tíma til stefnu þar sem skýrar línur þurfa að liggja fyrir um framkvæmd verkefna eigi síðar en 27. október þegar reyna mun á endurskoðunar- og framlengingarákvæði kjarasamninga og framhald stöðugleikasáttmálans. Tekið skal fram að enn er ólokið viðræðum við lífeyrissjóði landsmanna um aðkomu þeirra að fjármögnun verkefna. Viðræðunum átti að ljúka fyrir mánuði síðan og enn sér ekki til lands.

Meginmarkmið stöðugleikasáttmálans er að aðilar sáttagerðarinnar sameinist um aðgerðir til að vinna þjóðina út úr vandanum sem við er að glíma, stuðla að endurreisn efnahagslífsins með því að styrkja stöðu heimilanna, verja undirstöður velferðarkerfisins, standa vörð um menntakerfið og verja störf jafnt á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera eins og aðstæður frekast leyfa.

Til að ná fyrrgreindum markmiðum sameinuðust aðilar sáttmálans m.a. um framkvæmdir til að stuðla að aukinni atvinnu.

Í 4. tölulið sáttmálans segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda, sbr. þjóðhagsáætlun, svo sem framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, svo sem gagnaverum og kísilflöguframleiðslu. Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009.

Einnig verði unnið skipulega að úrvinnslu áforma um aðrar stórfjárfestingar í atvinnulífinu þannig að taka megi ákvarðanir sem fyrst um hugsanlegan framgang þeirra.“

Það er samdóma álit flestra þeirra sem að gerð þessa sáttmála komu að ríkisstjórn Íslands hafi með háttalagi sínu á síðustu vikum beinlínis gengið gegn sáttinni sem gerð var í þjóðfélaginu um þessi efni. Boðaðar skattahækkanir í fjárlagafrumvarpinu og dæmalausar stjórnsýslutafir beinast með afar einbeittum hætti gegn öllum áformum um erlenda fjárfestingu í landinu og ganga þvert á markmið stöðugleikasáttmálans.

Orkufyrirtæki og sveitarfélög á Norðurlandi hafa undanfarin 20 ár leitað samstarfs við fyrirtæki um uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Fyrir fjórum árum náðust samningar við fyrirtækið Alcoa um samstarf um byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Ómældum tíma og gríðarlegum fjármunum hefur verið varið í verkefnið. Ríkisstjórnin telur ekki lengur ástæðu til að hafa mögulegan orkukaupanda inni í viljayfirlýsingu vegna orkunýtingar á Norðausturlandi. Þar eigi þess í stað að gera eitthvað annað, sem enginn getur upplýst hvað er. Gríðarleg óvissa var sköpuð um byggingu álvers í Helguvík þegar umhverfisráðherra ákvað að bregða fæti fyrir verkefnið og fleiri orkufrekar framkvæmdir á Suðurnesjum. Í uppnámi eru áætlanir um stækkun álþynnuverksmiðju við Krossanes á Akureyri og stækkun álversins í Straumsvík. Fyrirtækið Elkem er einnig að leggja drög að sólarkísilframleiðslu. Þrír staðir koma þar til greina, Kanada, land í Asíu og Ísland. Þar yrði um að ræða 350 manna vinnustað.

Framganga ríkisstjórnarinnar og fyrirætlanir um sérstaka skattlagningu á orkufrekan iðnað setja fyrrgreind áform öll í uppnám. Ég vil líka nefna að boðuð fyrning aflaheimilda, eða innköllun fiskveiðiheimildanna, sem hefja á 1. september 2010 drepur í dróma frumkvæði og sköpunarkraft í sjávarútvegi landsins. Mjög alvarlegur afturkippur er þar af leiðandi kominn í fjárfestingu í atvinnulífinu og í nýrri þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir samdrætti á næsta ári. Ef sú verður raunin mun margt annað bresta. Af þeim spilum sem ríkisstjórnin hefur sýnt á síðustu vikum er ljóst að hún er bara með hunda á hendi og vill spila nóló — þegar annað er í boði.

Til þess að vinna þjóðina út úr þeim efnhagsþrengingum sem yfir hana ganga verður að fá fjárfestingu inn í hagkerfið strax á næsta ári. Aðeins þegar það hefur gerst er mögulegt að ná í aukna skatta. Er nema von að spurt sé hvort skjaldborginni sem ríkisstjórnin ætlaði að reisa sé fremur ætlað að verja pólitíska helför vinstri stjórnarinnar en heimilin í landinu?



[14:14]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns var alveg makalaus, þvílíkt og annað eins svartagallsraus hef ég ekki heyrt í langan tíma. Hér er unnið hörðum höndum að því að endurreisa íslenskt samfélag. Virðulegi forseti. Við getum verið sammála, ég og hv. þingmaður, um að við verðum að fá fjárfestingu inn í landið vegna þess að meginþungi endurreisnarinnar mun byggjast á verðmætasköpun. Um þetta erum við sammála og við eigum að haldast í hendur til þess að svo megi verða.

Í þessari umræðu vil ég leggja áherslu á þrjú lykilatriði:

Í fyrsta lagi eru endurnýjanlegar orkuauðlindir okkar mikilvægar aflvélar í endurreisn efnahagslífsins á næstu árum. Þær eru sérstaða okkar og sóknarfæri til að laða hingað erlenda fjárfestingu og stytta þannig samdráttarskeiðið og draga hratt úr óásættanlegu atvinnuleysi.

Í öðru lagi hef ég sem iðnaðarráðherra unnið að því að greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda, eins og kveðið er á um í stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði. Við þann sáttmála verðum við að standa, ekki bara af efnahagslegri nauðsyn heldur einnig af virðingu við þær fórnir sem launafólk hefur samþykkt að færa í þágu stöðugleikans, t.d. með því að fresta lögvörðum launahækkunum.

Í þriðja lagi vinnum við í iðnaðarráðuneytinu að því að móta stefnu um hvernig endurnýjanlegir orkugjafar geti nýst til að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi til framtíðar og skotið fleiri og styrkari stoðum undir efnahagslíf okkar og lífskjör.

Virðulegi forseti. Þegar litið er til stórframkvæmda í orkufrekum iðnaði sem vísað er til í þjóðhagsspá og stöðugleikasáttmála blasir við að stærsta vandamálið tengist fjármögnun verkefna. Það á jafnt við um Búðarhálsvirkjun í þágu framleiðsluaukningar í Straumsvík, virkjanir HS orku og Orkuveitu Reykjavíkur fyrir álver í Helguvík og framkvæmdir álfyrirtækjanna sjálfra. Ég hef lagt mitt af mörkum til að auðvelda fjármögnun álvers í Helguvík með undirritun fjárfestingarsamnings. Fjármálaráðuneytið hefur ritað Evrópska fjárfestingarbankanum til að liðka fyrir afgreiðslu bankans á 27 milljarða kr. lánsloforði til Orkuveitu Reykjavíkur. Auk þess hefur iðnaðarráðuneytið haft frumkvæði að því að leiða menn saman í stefnumörkun um nýjar leiðir við fjármögnun orkumannvirkja.

Vaxtakjörin sem orkuframleiðslufyrirtækjunum standa til boða og lágt eiginfjárhlutfall þeirra gætu leitt til þess að hefðbundnar fjármögnunaraðferðir flyttu arðinn af framkvæmdunum úr landi og þar með eru almannahagsmunir að mínu mati fyrir borð bornir. Því verðum við að leita nýrra leiða. Vegna þessa er nú unnið að stofnun orkusamlaga þar sem einstakar virkjanir eru verkefnafjármagnaðar sérstaklega. Nýleg lög um orkuauðlindir eru afar mikilvæg í þessu samhengi því að þau tryggja að auðlindir í opinberri eigu verði það til frambúðar, á sama tíma og einkafjármagn, innlent eða erlent, geti komið að sjálfri orkuframleiðslunni. Ríkisstjórnin hefur því beint því til Landsvirkjunar að hefja framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun sem allra fyrst og eru viðræður við lífeyrissjóði um aðkomu þeirra að fjármögnun virkjunarinnar þegar hafnar.

Virðulegi forseti. Önnur verkefni sem snúa að iðnaðarráðuneytinu eru t.d. aflþynnuverksmiðja Becromal við Eyjafjörð, en sl. sumar undirritaði ég fjárfestingarsamning vegna hennar sem gerði erlendum aðilum kleift að koma hingað með fjármuni til uppbyggingar þrátt fyrir gjaldeyrishöftin. Verksmiðjan hefur nú verið ræst og stefnt er að enn frekari stækkun hennar.

Fjárfestingarsamningur við Verne Holding vegna gagnavers á Reykjanesi er á lokastigi og verður vonandi undirritaður bráðlega.

Þetta eru þau verkefni sem stöðugleikasáttmálinn tekur beinlínis til en ég vil líka nefna önnur verkefni því að þau geta haft mikla þýðingu á næstu árum. Iðnaðarráðuneytið og sveitarfélög í Þingeyjarsýslum vinna að gerð viljayfirlýsingar sem hefur að markmiði að tryggja að orkurannsóknum á svæðinu geti lokið hratt og örugglega. Með þessu viljum við rjúfa kyrrstöðuna sem ríkt hefur í orkumálum fyrir norðan og tryggja að orkan verði nýtt í þágu uppbyggingar í heimabyggð. Ég held að hv. þingmaður ætti að koma með okkur í þann leiðangur (Gripið fram í.) og bíða eftir að við klárum þessa viljayfirlýsingu frekar en að gera þetta mál að pólitísku bitbeini, vegna þess að ég held að við deilum þessum markmiðum. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Mikilvægi nýrra fjárfestinga í íslensku atvinnulífi er algjörlega óumdeilt. Þess vegna er nú unnið að gerð frumvarps um rammalöggjöf um ívilnanir vegna erlendra fjárfestinga sem leysir af hólmi þunglamalegt og ógagnsætt ferli fjárfestingarsamninga við einstök fyrirtæki. Skýr lagarammi um ívilnanir mun bæta samkeppnisstöðu okkar og auðvelda alla kynningu á Íslandi sem fjárfestingarkosti. Þá er, virðulegi forseti, mikilvægt að horfa ábyrgt til þess hvernig við byggjum upp til framtíðar, svo að lífskjör og lífsgæði geti haldið áfram að aukast hér á landi. Við eigum hvorki endalausa orku né óþrjótandi auðlindir, svo sem fiskinn í sjónum, og því er aðkallandi verkefni, sem við vinnum að í ráðuneytinu, hvernig við getum nýtt orkuna sem (Forseti hringir.) kemur upp úr jörðinni enn þá betur en við gerum.



[14:19]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta var um margt athyglisverð ræða hjá hæstv. iðnaðarráðherra. Það er unnið hörðum höndum, verið er að skrifa skýrslur og búa til stefnur en síðan er verið að koma með tilkynningar um skattheimtu á móti sem slekkur á flestu því sem hæstv. ráðherra talar um. Það er nefnilega mjög ótrúlegt að hlusta á þessar ræður sem haldnar eru af stjórnarliðunum um að vandamálið felist í fjármögnun framkvæmda í orkugeiranum, og svo á einni nóttu kemur ríkisstjórnin fram með stórauknar skattálögur, hún boðar skattálögur á þessi fyrirtæki. Hvers vegna í ósköpunum ættu þau að sýna ríkisstjórninni og orðum hennar mikið traust?

Ég ætla nú að vera jákvæður hér á endanum. Mér þykir leitt að ráðherra skyldi ekki hafa verið á morgunfundi Samorku í morgun þar sem kynnt var skýrsla sem Jóhannes G. Sigurgeirsson vann. Hún hefur verið yfirfarin af sérfræðingum hjá rannsóknardeild Háskólans á Akureyri og í niðurstöðum kemur m.a. fram að stærra raforkukerfi með meiri sölu til orkufreks iðnaðar hefur leitt til lækkunar á raforku á almenna innlenda markaðnum. Þarna kemur fram að fyrir meðalfjölskyldu, sem er tekin hér til viðmiðunar, hefur kostnaðurinn frá 1997 til 2008 farið úr 74.500 kr. niður í 52.400 kr.

Með þessari skýrslu tel ég að verið sé að sýna fram á kosti þess að vera með stórt og öflugt raforkukerfi, verið sé að sýna fram á að hagkvæmnin felist í því að nýta betur það kerfi sem við erum með og þeim virkjunum fjölgar í raun. Og þetta sýnir okkur líka að orkufrekur iðnaður er til hagsbóta fyrir okkur á margan annan hátt en við höfum séð hingað til. (Forseti hringir.) Ég hvet þingmenn til þess að kynna sér þessa skýrslu og ég mun óska eftir því að hún verði kynnt í iðnaðarnefnd.



[14:21]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við þær erfiðu aðstæður sem þjóðin býr í dag er okkur aldrei mikilvægara að nýta orkuauðlindir landsins með skynsamlegum hætti fyrir komandi kynslóðir. Sú nýting verður að byggja á endurnýjanlegum orkugjöfum og leggja verður áherslu á græna atvinnustarfsemi. Við verðum að vanda vel til þeirra verkefna sem ráðist verður í í framtíðinni. Tryggja verður eign íslensku þjóðarinnar á orkuauðlindum landsins og hafa þar með áhrif á hvers konar atvinnusköpun við ráðumst í í framtíðinni, hvort sem um er að ræða gufuaflsvirkjanir á Norðurlandi eystra, Hellisheiði eða á Reykjanesi eða vatnsaflsvirkjanir á Suðurlandi.

Staðreyndin er sú að við getum ekki virkjað endalaust. Í vetur mun liggja fyrir rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þar sem orkukostir verða greindir og hvaða svæði ber að vernda til framtíðar. Tími áframhaldandi stóruiðjuuppbyggingar er liðinn. Þær framkvæmdir sem þegar eru hafnar, eins og í Helguvík, ráðast af möguleikum á orkuöflun og fjármögnun. Hvort tveggja er í óvissu í dag. Viljayfirlýsing um álver á Bakka var ekki endurnýjuð og verið er að skoða umhverfisvænni atvinnusköpun á því svæði þar sem orkan mun nýtast atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi eystra. Verið er að kanna möguleika á gagnaveri á Blönduósi og unnið er að uppbyggingu gagnavers í Reykjanesbæ.

Stöðugleikasáttmálanum sem ríkisstjórnin gerði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög er ætlað að stuðla að endurreisn efnahagslífsins og tekur til fjölda efnahagsþátta og þar ræður uppbygging áframhaldandi stóriðju ekki ferðinni. Mikilvægt er að horfa til atvinnusköpunar fyrir konur því að fjöldi kvenna hefur misst vinnuna við bankahrunið og samdráttur hjá hinu opinbera bitnar hart á kvennastörfum.



[14:24]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég er með örstutta spurningu til hæstv. iðnaðarráðherra: Stendur til að skoða það að lækka orkuverð til garðyrkjubænda eða til ylræktar, og ef það stendur til að skoða það, hvenær kemur það þá til framkvæmda?



[14:24]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni hér á þingi í vikunni eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Allt í kringum okkur eru jákvæð teikn úr atvinnulífinu, menningu, félagsstarfi og stjórnsýslu sem ættu að örva okkur og hvetja. Jákvæð teikn um samtakamátt, samheldni, áræðni og dugnað sem áður en langt um líður munu skila okkur breyttu og betra samfélagi.“

Er hæstv. forsætisráðherra í tengslum við þjóð sína og gerir hún sér einhverja grein fyrir stöðunni í landinu með þessum ummælum sínum? Varla.

Forsætisráðherra sagði líka að mesta áskorun ríkisstjórnarinnar væri að koma í veg fyrir atvinnuleysi, Ísland sé land tækifæranna og okkar sé að vinna úr þeim tækifærum. (Gripið fram í.) Tækifærin eru fyrir hendi en það verður ekkert úr þeim ef þau eru ekki nýtt. Tækifærin liggja í dugmiklu fólki og nýtingu náttúruauðlinda landsins til eflingar atvinnulífs og verðmætasköpunar. Lausnirnar liggja á borðinu. Viðspyrnan liggur í eflingu atvinnulífsins. Tafarlaus lækkun vaxta er grunnurinn að því að gefa heimilum og fyrirtækjum von auk þess sem það er leið til að létta á þeim þrýstingi sem er á gjaldmiðlinum.

Við verðum að setja í gang framkvæmdir við Búðarháls- og Hverahlíðavirkjun samhliða því að taka ákvörðun um nýtingu á hagkvæmasta virkjunarkosti okkar í Neðri-Þjórsá. Við verðum að endurnýja viljayfirlýsingu vegna framkvæmda á Bakka auk þess að leggja framkvæmdum við Helguvík allan þann stuðning sem við getum. Forustumenn ríkisstjórnarinnar sjá ekki þessi tækifæri, virðulegi forseti, ríkisstjórnin er alveg blind á þessi tækifæri. Og í stað þess að vinna þeim veg vinna þau hér skemmdarverk gagnvart þjóðinni og atvinnulífinu í hverri viku. Þau eru föst í viðjum fortíðar sem blindar þeim sýn á framtíðina. Ósamstaðan innan þessarar ríkisstjórnar er algjör og hún birtist okkur í sinni verstu mynd í hverri einustu viku og nánast í hverju einasta máli, ekki síst í stóriðjumálum og í þeim tækifærum sem þar liggja.

Það verða aðrir sem hafa þor og kjark hér á þingi að koma að stjórnarborðinu. Það gengur ekki að þessi ríkisstjórn stýri hér málum lengur, (Forseti hringir.) hún er algjörlega vanhæf til þess. (Gripið fram í: Er þetta bónorð?)



[14:26]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Um áramótin er von á rammaáætlun um nýtingu og orkukosti og þá skýrist mjög hvaða orkumöguleikar eru fyrir hendi. Það er alveg ljóst að grundvöllur endurreisnar á íslensku atvinnulífi og efnahagsbata okkar byggir á því hvernig til tekst við raforkunýtingu á næstu mánuðum og missirum, alveg eins og endurreisn veikra byggða úti á landi hvílir á því hvernig til tekst að nýta orkulindir í nágrenninu til að byggja upp fjölþættan og öflugan iðnað sem tengist og byggist á raforku.

Við stöðugleikasáttmálann verður að sjálfsögðu staðið í hvívetna. Hæstv. iðnaðarráðherra vísaði til þess að í vor rétt fyrir kosningar var gengið frá fjárfestingarsamningi vegna álvers við Helguvík sem liggur þeim áformum og þeim framkvæmdum, sem að hluta til eru hafnar, algjörlega til grundvallar. Ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra á dögunum um suðvesturlínu þarf ekki að valda neinni verulegri töf á þeim framkvæmdum (Gripið fram í.) og má ekki hafa neina töf á þeim framkvæmdum í för með sér. Það er gífurlega mikilvægt að ná þessum verkefnum á fullan skrið, álveri í Helguvík, gagnaverum vítt og breitt um landið, sem nú er í bígerð að byggja og byrjað er að byggja sum þeirra, álþynnuverksmiðjur og fleira slíkt.

Núna þegar krappasti samdrátturinn gengur yfir landið skiptir gríðarlegu máli að okkur takist að koma af stað framkvæmdum eins og Búðarhálsvirkjun og ýmiss konar annarri orkunýtingu sem verður í fjölbreyttu formi atvinnuhátta, að sjálfsögðu. Þá er mjög mikilvægt það sem hæstv. iðnaðarráðherra undirritaði um daginn og tengist nýtingu á orku á Norðausturlandi. Það skiptir mjög miklu máli að það er allt galopið hverjir komi þar að borðinu til að byggja upp fjölbreyttan iðnað sem byggir á orkunni þar á svæðinu.



[14:29]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu efni hér á Alþingi. Hér hefur verið rætt um stöðugleikasáttmálann, að hann sé í uppnámi vegna þess að ríkisstjórnin sýnir af sér mikla linkind í þessum málum. Ég legg áherslu á að þessi mál komast ekki á rétt ról hér á landi fyrr en iðnaðarráðuneytið verður lagt niður og sameinað ráðuneyti sett á stofn sem mundi kallast auðlinda- og umhverfisráðuneyti. Eins og málin standa núna veit hægri höndin ekki hvað sú vinstri gerir, samanber atburði síðustu vikna þar sem umhverfisráðherra sló „trekk í trekk“ á puttana á iðnaðarráðherra og iðnaðarráðherra gerði það sama við Norðlendinga og fleiri. Þessi mál eru því í fullkomnu uppnámi hjá þessari ríkisstjórn enda kannski ekki nema von þegar litið er á samsetningu ríkisstjórnarinnar. Annar flokkurinn sem þar er innbyrðis vill hvorki standa að stóriðjuframkvæmdum né uppbyggingu á álverum eða annarri stóriðjustarfsemi.

Það sem gleymist mjög oft í þessari umræðu þegar verið er að tala um orkufrekan iðnað er það vandamál sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð þar sem umhverfisráðherra afsalaði sér fyrir hönd þjóðarinnar einum 15 milljörðum á því tímabili sem Kyoto-bókunin nær yfir. Það á ekki að sækja um og fylgja eftir því að við eigum þær loftslagsheimildir áfram sem við höfum fengið að nota. Þeim verður afsalað 31. desember 2012, þá verður málið í algjöru uppnámi.

Því langar mig til að kasta hér fram spurningu til iðnaðarráðherra, því að hún á eftir að tala aftur í umræðunni: Hvað hefur iðnaðarráðherra hugsað sér að gera þar sem hún er mjög hlynnt stóriðjuuppbyggingu af ýmsu tagi? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að framfylgja því að við endurheimtum þær losunarheimildir sem við höfum nú þegar til ráðstöfunar í gegnum Kyoto-bókunina?



[14:31]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mér hefur þótt heldur dapurlegt að hlusta á talsmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í þessari umræðu (Gripið fram í.) fara með þann málflutning sem þeir hafa fram að færa í þessu efni. Það sem einkennir málflutning þeirra er afturhvarf til fortíðar, það er málflutningurinn sem hér er haldið á lofti af hálfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. (Gripið fram í.) Þeir vilja greinilega hverfa aftur til þess tíma, fyrir 2007 og lengra aftur e.t.v., þegar stóriðjustefnan réð hér ríkjum, þegar hún átti að vera eina lausnin í atvinnumálum og verðmætasköpun þjóðarinnar til framtíðar. (Gripið fram í: … ríkisstjórn.)

Við erum öll sammála um að við þurfum að byggja upp atvinnulíf okkar og reisa það úr rústum. Við erum öll sammála um að þá þarf að tryggja verðmætasköpun í samfélaginu, öðruvísi gerist það ekki. (Gripið fram í: Hvernig?) Við erum líka öll sammála um að við þurfum að nýta auðlindir okkar, (Gripið fram í.) en það verður að sjálfsögðu að gera það á sjálfbærum forsendum og til framtíðar. Það er ekki boðlegt að koma hér haustið 2009 og segja: Nú skulum við skrúfa klukkuna aftur á bak, nú skulum við virkja allt sem við mögulega getum (Gripið fram í.) og nú skulum við fara í álverin af fullum þunga. (Gripið fram í.)

Við skulum gera okkur grein fyrir því, (Gripið fram í.) ef ég fæ tíma til þess að tala hér fyrir frammíkalli hv. þingmanna, að ef það á að virkja fyrir þessi tvö álver í Helguvík og á Bakka er öll orkan okkar farin. Hvernig ætlum við að hugsa á sjálfbærum nótum til framtíðar? Hvernig ætlum við að mæta öðrum kostum (Gripið fram í.) sem horfið hefur verið frá vegna þess að hér hefur áherslan verið svo mikið á álver undanfarin ár? (Gripið fram í.) Hvernig ætlum við að tryggja framleiðslu fyrir vistvænar samgöngur o.s.frv.? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Við þurfum að nýta orkuna með sjálfbærum hætti til framtíðar en ekki á þann hátt sem hér hefur verið haldið fram af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:33]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram þó að hún hafi verið á stundum dálítið niðurdrepandi. Ég var að velta því fyrir mér hvort hæstv. iðnaðarráðherra líkaði illa sú raunsanna og hlutlæga lýsing sem ég gaf á mati aðila stöðugleikasáttmálans þegar hún kallaði ræðu mína svartagallsraus. Þetta er einfaldlega lýsing á þeim veruleika sem aðilar þessa sáttmála hafa sett fram á síðustu dögum. Og af ræðu hv. þm. Árna Þórs mátti helst skilja að hann hefði verið með formanni sínum úti í Istanbúl og hefði ekki heyrt umræðuna síðustu daga. Þeir þingmenn Vinstri grænna sem hér hafa tekið til máls hafa lýst því yfir, m.a. hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, að tími orkufrekrar stóriðju væri liðinn og undir það tók hv. þm. Árni Þór Sigurðsson.

Hvar í ósköpunum voru þingmenn Vinstri grænna þegar stöðugleikasáttmálinn var gerður 25. júní? Hvers vegna í ósköpunum komu þessi sjónarmið ekki fram? Ég dreg þá ályktun hér og nú að þessir sömu þingmenn, væntanlega sömu megin í flokknum, muni beita sér fyrir því að stöðugleikasáttmálinn renni út, eins og í stefnir að öllu óbreyttu nú um næstu mánaðamót. (Gripið fram í.) Hann tekur á miklu fleiri þáttum en stóriðjumálum, hv. þm. Árni Þór, miklu fleiri. Og það skal upplýst hér einfaldlega vegna þess sem kom fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra að áformin og uppbyggingin hjá Becromal í álþynnuverksmiðjunni á Akureyri eru í uppnámi að mati forsvarsmanna þess verkefnis, sérstaklega með vísan til þeirra áforma sem koma fram í margumræddu fjárlagafrumvarpi um þá 16 milljarða skattheimtu sem þar er lagður grunnur að. Í það minnsta skulda stjórnvöld forsvarsmönnum aðilum vinnumarkaðarins skýringar á því hvernig (Forseti hringir.) þetta muni ekki að stöðva þau áform sem í bígerð eru.



[14:36]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst til að svara hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um lækkun orkuverðs til garðyrkjubænda og hvenær það gerist ef af verður, þá er nefnd að störfum á vegum landbúnaðarráðherra sem sinnir þessu máli. Ég get ekki sagt til fyrir fram um hvað út úr því kemur.

Virðulegi forseti. Það er svolítið merkileg umræða hér um að við, þessi ríkisstjórn, séum að hrekja burtu fjárfesta með aðgerðum okkar, hrekja burtu hugsanlega nýja fjárfestingu. Mér þykir þetta merkilegur málflutningur frá stjórnmálaflokkum sem finnst það í alvörunni vera möguleiki að stefna dag eftir dag í þinginu samstarfi við aðrar þjóðir í hættu. (Gripið fram í.) Með þessu eru þessir hv. þingmenn að senda þau skilaboð að þeim sé alveg sama um íslenskt atvinnulíf bara ef þeir halda sínu pólitíska lífi. (Gripið fram í.) Þetta er staðreyndin. Ef þetta gerist verður líka stökkt á flótta þeim alþjóðlegu fyrirtækjum sem hér eru. (Gripið fram í.)

Við þurfum að horfa fram til næstu skrefa hér á landi og við þurfum að nýta betur orkuna sem upp kemur úr iðrum íslenskrar jarðar en við höfum verið að gera hingað til. Við þurfum að byggja á þeim framkvæmdum sem þegar hafa farið fram. Við höfum fengið ánægjulegar fréttir á þessu sviði og vil ég sérstaklega nefna að fréttir hafa borist af því að bygging verksmiðju Carbon Recycling International er að fara af stað við Svartsengi þar sem útblæstri jarðvarmavera og álvera verður breytt í eldsneytið metanól. Iðnaðarráðuneytið hefur einmitt stutt verkefni af þessum toga til þess að við getum tekið næstu skref í orkunýtingu.

Lykilatriði, virðulegi forseti, er að við klárum verkefni sem kveðið er á um í stöðugleikasáttmálanum og við gerum það með myndarbrag enda hafa verið færðar fórnir fyrir það. Samtímis verðum við að horfa til framtíðar varðandi það hvernig við ætlum að nýta hér orkuna til að bæta lífskjör okkar Íslendinga. Að þessu erum við að vinna heils hugar (Forseti hringir.) og ég vona að hv. þingmenn séu frekar til í að snúast á sveif með okkur í ríkisstjórninni og iðnaðarráðuneytinu í þessum verkefnum en að stunda þann málflutning sem hér hefur stundum farið fram.