138. löggjafarþing — 6. fundur
 13. október 2009.
almenn hegningarlög, 1. umræða.
stjfrv., 16. mál (upptaka eigna, hryðjuverk, mansal o.fl.). — Þskj. 16.

[18:34]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum.

Frumvarpið hefur áður verið lagt fram á fyrri þingum en var ekki afgreitt. Það er nú lagt fram á ný og tekur þessi útgáfa mið af athugasemdum og breytingartillögum allsherjarnefndar frá því í apríl sl. en nefndin lagði m.a. til að ákvæði um fjármögnun og hvatningu til hryðjuverka, sem var í fyrri frumvörpunum, yrðu felld brott.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga er m.a. varða upptöku eigna, hryðjuverk, mansal og peningaþvætti. Er um að ræða endurskoðun umræddra ákvæða vegna alþjóðlegra skuldbindinga, annars vegar vegna fullgildingar samnings um alþjóðlega brotastarfsemi og hins vegar vegna tilmæla frá alþjóðlegum nefndum sem Ísland á aðild að. Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði um skipulagða brotastarfsemi, sem er nýmæli.

Helstu efnisákvæði frumvarpsins eru í fyrsta lagi þau að lagt er til að lögfestur verði nýr kafli um upptöku eigna, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Um er að ræða heildstæðar breytingar sem taka að verulegu leyti mið af gildandi ákvæðum í dönsku og norsku hegningarlögunum. Lagt er til að lögfest verði ákvæði sbr. c-lið 2. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir því að unnt verði að gera upptæk verðmæti án þess að sýnt sé fram á að þau megi rekja til tiltekins refsiverðs brots hafi viðkomandi gerst sekur um brot sem er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og geti brotið varðað a.m.k. sex ára fangelsi. Að þessum skilyrðum uppfylltum megi gera upptæk verðmæti sem tilheyra viðkomandi nema hann sýni fram á að þeirra hafi verið aflað með lögmætum hætti. Við þessar aðstæður og að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum megi jafnframt gera upptæk verðmæti sem tilheyra maka eða sambúðarmaka viðkomandi og verðmæti sem runnið hafa til lögaðila sem viðkomandi hefur einn eða með sínum nánustu ráðandi stöðu í sé ekki sýnt fram á að þeirra hafi verið aflað með lögmætum hætti. Er því gert ráð fyrir fráviki frá meginreglunni um sönnunarbyrði ákæruvaldsins við þessar aðstæður. Sem dæmi um beitingu ákvæðisins má nefna þá aðstöðu þegar einstaklingur sem hefur verið gripinn á flugvelli með fíkniefni í farangri sínum, sem ætluð eru til sölu, er sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Þótt enginn ávinningur hafi þannig hlotist af brotinu er ljóst miðað við eðli þess og umfang að það var til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning. Við rannsókn ákæruvalds á eignastöðu og fjárhag viðkomandi kemur í ljós að hann á verulegar eignir og fjármuni sem ekki eru í samræmi við uppgefnar tekjur hans eða aðrar fjárhagslegar upplýsingar sem aflað hefur verið. Við slíkar aðstæður getur ákæruvaldið krafist upptöku á þessum verðmætum, þó svo að þau verði ekki rakin til þess brots sem viðkomandi hefur verið sakfelldur fyrir og nær slík krafa fram að ganga nema viðkomandi sýni fram á að verðmætanna hafi verið aflað með lögmætum hætti. Mikilvægt er að árétta að endanlegt mat á þessu er í höndum dómstóla og ættu því hagsmunir sakbornings að vera nægjanlega tryggðir. Í IV. kafla frumvarpsins og í sérstökum athugasemdum við c-lið 2. gr. er fjallað ítarlega um þessa tillögu.

Í öðru lagi vil ég nefna að lagt er til að lögfest verði nýtt ákvæði sem gerir það refsivert að taka þátt í skipulagðri brotastarfsemi og á ég þá við 5. gr. frumvarpsins. Samkvæmt henni yrði refsivert að fremja í félagi við annan afbrot ef framkvæmdin er liður í starfsemi skipulagðra glæpasamtaka.

Í V. kafla greinargerðarinnar með frumvarpinu er ítarlega fjallað um þær réttarpólitísku röksemdir sem liggja til grundvallar þessari tillögu og er því nánar lýst í sérstökum athugasemdum við greinina.

Í þriðja lagi er lagt til að gerðar verði ýmsar breytingar á a-lið 227. gr. almennra hegningarlaga um mansal, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Skilgreining á mansalsbroti er gerð skýrari og í samræmi við Evrópuráðssamning um aðgerðir gegn mansali og bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um fjölþjóðlega skipulagða brotastarfsemi, svokallaða Palermó-bókun. Þá bætist við ný málsgrein sem lýsir refsinæmi athafna sem tengjast ferða- og persónuskilríkjum. Ég vil nefna það að í ráðuneytinu er í vinnslu frumvarp til laga um breytingu á útlendingalögum sem lýtur að því að gefa fórnarlambi mansals umþóttunartíma þannig að það dveljist ekki ólöglega í landinu meðan á honum stendur.

Í fjórða lagi er lagt til að gerðar verði verulegar breytingar á 264. gr. almennra hegningarlaga um peningaþvætti, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Er m.a. lagt til að almenn verknaðarlýsing peningaþvættis verði gerð skýrari og gildissvið hennar rýmkað. Þá er refsihámark fyrir peningaþvættisbrot hækkað úr fjórum árum í sex. Það skal tekið fram að ekki er hróflað við reglu 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga þar sem kveðið er á um að refsing geti orðið allt að tólf árum ef um ræðir ávinning af fíkniefnabroti.

Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram hefur frumvarp þetta verið flutt áður. Rétt er að nefna sérstaklega að hér er um að ræða mikilvægar réttarbætur fyrir refsivörslukerfið, m.a. til handa lögreglunni í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi og því tel ég afar mikilvægt að frumvarpið verði afgreitt á þessu löggjafarþingi.

Leyfi ég mér að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og til 2. umr.



[18:40]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að mikilvægt sé að þetta mál verði að lögum á þessu þingi. Ég vildi aðeins spyrja hæstv. ráðherra út í þær breytingar sem eru á frumvarpinu miðað við fyrri frumvörp sem hafa komið fram og eru að mestu leyti samhljóða. Hvaða breytingar eru það og hvernig stendur á því að frumvarpið er ekki óbreytt frá því sem var þegar það var lagt fram á þingum haustið 2008 og 2007?



[18:41]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stendur þannig á því að allsherjarnefnd fjallaði um þetta frumvarp og lagði til ákveðnar breytingar á því. Af því hefur verið tekið mið en það sem í rauninni skiptir miklu máli er að ákvæði um hvatningu til hryðjuverka og fjármögnun þeirra eru ekki í frumvarpinu heldur eru núna í sérstakri athugun hjá refsiréttarnefnd. Til stendur að leggja fram annað frumvarp um þau atriði sérstaklega.



[18:41]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi spyrja ráðherra hvort það væri ekki rétt munað hjá mér að refsiréttarnefnd hefði samið frumvarpið sem upphaflega var lagt fram, með þeim ákvæðum sem um var að ræða varðandi hryðjuverk og hvatningu til hryðjuverka og hvort með því að leggja fram þær tillögur hafi þáverandi ráðherra og ráðuneytið ekki talið að það væri að fylgja eftir samþykktum Evrópuráðsins um viðkomandi efni.



[18:42]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hið fyrra frumvarp var að mati refsiréttarnefndar og ráðuneytisins fullnægjandi til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar. Hins vegar bárust okkur ákveðin sjónarmið sem við töldum sjálfsagt að yrðu athuguð nánar. Þetta frumvarp er hins vegar óvenjulegt að því leyti að þarna er slegið saman fullgildingum margra alþjóðlegra samninga og við mátum það svo að það eitt að frumvarpið tæki á svona mörgum og margslungnum atriðum gæti valdið töfum á afgreiðslu þess. Við ákváðum því að gera þetta svona og fela refsiréttarnefnd að athuga betur hvort umrædd ákvæði um hryðjuverk væru þannig orðuð að í raun þyrfti að breyta þeim út frá refsipólitískum sjónarmiðum. Það er ástæðan fyrir því að frumvarpið er í þessari mynd.



[18:43]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tel að á þessu stigi sé ekki þörf á að hafa langt mál um þetta frumvarp. Hæstv. ráðherra hefur gert ágæta grein fyrir efni þess og eins og fram hefur komið hefur þetta mál komið til umræðu í þinginu á undanförnum tveimur vetrum. Haustið 2007 og haustið 2008 lagði Björn Bjarnason, þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, fram frumvörp sem voru að mestu leyti samhljóða því frumvarpi sem hér er lagt fram. Málið hefur fengið allgóða og ítarlega meðferð í allsherjarnefnd Alþingis, ekki síst á fyrsta vetrinum eftir að það var lagt fram, 2007–2008. Meðferð málsins í vor var öllu snubbóttari enda tíminn takmarkaður í ljósi þess að alþingiskosningar voru um vorið og takmarkaður tími til að fjalla um það að því leyti. Engu að síður liggja fyrir sjónarmið í þessu máli bæði frá því í fyrra og hittiðfyrra og sannast sagna er allgóð samstaða um flesta meginþætti þessa máls. Því er það auðvitað von mín og ég vænti þess af öðrum þingmönnum að þetta mál fái góða afgreiðslu.

Það má segja að við meðferð málsins á vettvangi allsherjarnefndar hafi tveir þættir í rauninni staðið út af borðinu. Annars vegar sá þáttur sem kom fram í orðaskiptum okkar hæstv. ráðherra áðan sem varðar breytingar á ákvæðum sem snúa að hryðjuverkum en eins vöknuðu við umræður í allsherjarnefnd á sínum tíma nokkrar spurningar um samspil þeirra reglna sem þarna voru settar fram og skattareglna. Þegar allsherjarnefnd lauk umfjöllun málsins síðasta vor var það á þeim nótum að þessi atriði stæðust ágætlega hvað varðar þetta frumvarp en því var hins vegar vísað til fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytis af hálfu nefndarinnar í nefndaráliti að tekið yrði til skoðunar hvort breyta þyrfti einhverjum ákvæðum skattalaga þannig að ekki yrði um árekstra að ræða. Til að rifja upp var málið með þeim hætti að það var einkum skattrannsóknarstjóri sem gerði athugasemdir við ákveðin ákvæði og taldi að það kynni að vera um að ræða árekstra eða misræmi milli reglna sem er að finna í þessu frumvarpi og skattareglna. Allsherjarnefnd tók því þá afstöðu, í raun í samræmi við ráðleggingar lögfræðinga sem fyrir nefndina komu, að þetta gengi vel upp frá refsiréttarlegum sjónarmiðum eða forsendum. Hins vegar var það skilið eftir að hugsanlega þyrfti að gera breytingar á skattalögum ef þetta frumvarp yrði að lögum. Ég vil spyrja ráðherra hvort hún viti til þess að fjármálaráðuneytið hafi tekið einhverja slíka skoðun á síðustu mánuðum frá því að allsherjarnefnd lauk umfjöllun um þetta mál síðasta vor, í byrjun apríl ef ég man rétt.

Hins vegar verður að geta þess í sambandi við hitt málið sem ágreiningi hefur valdið í þessu sambandi, varðandi þann þátt sem sneri að hryðjuverkum, að ráðherra gat þess ekki að þar hefur verið ákveðinn pólitískur ágreiningur. Ástæðan fyrir því að þetta mál hefur stundum lent í hnút á þessari vegferð, svo maður noti það orðalag, hefur verið andstaða ákveðinna þingmanna við þau ákvæði sem snúa að viðbrögðum eða viðurlögum við hryðjuverkum og efasemdir á pólitískum forsendum um það. Þetta vantaði inn í þá mynd sem hæstv. ráðherra dró upp af þessu vegna þess að við meðferð málsins bæði veturinn 2007–2008 og eins í fyrravetur hefur fyrst og fremst verið andstaða af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við að gerðar yrðu breytingar á ákvæðunum sem vörðuðu hryðjuverkin. Án þess að ég ætli að fara í efnislega umræðu um það er rétt að halda þessu til haga vegna þess að í því er skýringin fólgin á því að þetta mál hefur ekki fram til þessa verið afgreitt á Alþingi, svo við höfum það á hreinu. Ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði ekki ítrekað sett fótinn fyrir afgreiðslu málsins vegna andstöðu sinnar við ákvæðin um hryðjuverkin hefði þetta mál trúlega verið afgreitt vorið 2008. Mér finnst nauðsynlegt að í upprifjun okkar og stuttum orðaskiptum um forsögu málsins komi þetta fram. Það hefur legið fyrir að aðrir flokkar sem hafa staðið að málum í þinginu og á vettvangi allsherjarnefndar voru sáttir við frumvarpið í megindráttum eins og það kom fram haustið 2007. Í raun og veru hafa ótrúlega litlar efnislegar breytingar átt sér stað eða athugasemdir verið gerðar við þá þætti en andstaða Vinstri grænna hefur komið í veg fyrir að þetta mál hafi verið afgreitt.

Til að fresta þeim ágreiningi er sú leið valin nú að taka þennan þátt sem greinilega er viðkvæmur frá pólitísku sjónarmiði út fyrir rammann, taka hann út fyrir frumvarpið og afgreiða þá þætti sem góð sátt er um. Það er aðferðafræði sem í sjálfu sér er ekkert athugavert við en skilur auðvitað eftir ágreiningsmálið sem varðar það hvort við eigum og þurfum að breyta ákvæðunum sem varða hryðjuverkin. Ég tel reyndar að svo sé en ætla ekki að fara nánar út í þá umræðu af því að það er í sjálfu sér ekki á dagskrá hér. Hins vegar skipta aðrir þættir málsins verulegu máli eins og viðbrögð við skipulagðri glæpastarfsemi, ákvæði um upptöku eigna, ákvæði sem varða mansal og annað þess háttar. Góð samstaða hefur náðst um það og í sjálfu sér hefur ekki verið talin ástæða til að hrófla mikið við því. Þess vegna held ég í rauninni að maður geti lýst yfir miklum stuðningi við frumvarpið eins og það er þó að auðvitað hefði verið gott ef hægt hefði verið að klára málið miklu fyrr og þá í þeirri mynd sem það kom upprunalega fram.

Hvað um það. Töluvert mikil vinna hefur verið lögð í þetta á vettvangi allsherjarnefndar en auðvitað var um að ræða aðra nefnd og síðan hafa komið kosningar og miklar mannabreytingar verið þannig að sennilega mun málið krefjast þess að allsherjarnefnd fari ofan í efnisþætti málsins í meðferð sinni en láti ekki nægja að styðjast við vinnu fyrri nefndar enda sátu fáir af núverandi nefndarmönnum í allsherjarnefnd í nefndinni á síðasta kjörtímabili. Við þurfum því að vinna í þessu. Hins vegar sýnir sú samstaða sem hefur náðst um þá þætti málsins sem eru í frumvarpinu að undirbúningurinn hefur verið góður, vel hefur verið staðið að verki og full ástæða er til að styðja þetta frumvarp og hraða framgangi þess eins og kostur er.



[18:53]
Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég hef svo sem litlu við ágæta framsögu hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra að bæta. Komið hefur fram að málið er nú flutt í fjórða sinn og það náði ekki fram að ganga vegna ýmissa aðstæðna. Ég þakka fyrir það sem kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að það sé Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að kenna. Ég flutti ýmsar ræður um þetta mál á sínum tíma og lagði fram breytingartillögur. Ég held að það sé fullmikið sagt að málið hafi strandað á andstöðu Vinstri grænna þótt hún hafi haft eitthvað að segja, kannski talsvert. Málið var tilbúið, ef ég man rétt, við 2. eða 3. umr. vorið 2008 og ég hef ekki alveg áttað mig á því enn þá af hverju það var ekki sett fram. Ég hygg þó að þar hafi ráðið ágreiningur milli þáverandi ríkisstjórnarflokka.

Ég vísa að öðru leyti í ræður mínar á fyrri þingum. Gerðar hafa verið breytingar á frumvarpinu sem voru mér mestur þyrnir í augum. Ég taldi þau ákvæði sem hér hafa orðið að umtalsefni ganga of langt og vera of óljós. Það var mín skoðun. Ég lagðist ekki gegn frumvarpinu í heild, það var um margt vel unnið og er að mínu mati í ágætisformi í dag.

Það mikilvægasta í þessu máli er að hér er verið að lögleiða Palermó-samninginn frá 15. nóvember 2008 og bókun við þann samning frá sama tíma um að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn. Í öðru lagi er verið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hægt sé að fullgilda Evrópusamninginn um aðgerðir gegn mansali frá 3. maí 2003. Ég fagna því sérstaklega að í ráðuneytinu er í gangi vinna til að bæta úr útlendingalögum þannig að þolendur mansals eigi greiðari rétt til dvalar hér á landi en verið hefur. Það er mikið fagnaðarefni.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á greinargóðum athugasemdum í greinargerðinni á bls. 7 um Evrópuráðssamninginn um aðgerðir gegn mansali og íslensk refsilög þar að lútandi. Mansal og vændi eru í dag grafalvarleg vandamál sem þarf að taka á, ekki bara hér á Íslandi heldur á alþjóðlega vísu því þetta er brotastarfsemi af þeirri tegund sem fer yfir landamæri. Það sama má í raun segja um klámvæðinguna sem hér ríður húsum. Ég vek athygli á því að þessir þættir, mansal, vændi og klámiðnaður, ganga gegn mannréttindum og kynfrelsi sem er veigamikill hluti af friðhelgi einkalífs okkar sem verndað er af stjórnarskránni. Ég veit hins vegar fullvel að allsherjarnefnd mun fara faglega í þetta mál og nýta sér þá vinnu sem þegar hefur verið unnin við fyrri frumvörp.



[18:56]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í efnislega umræðu við hv. þm. Atla Gíslason um hryðjuverkaákvæðin núna. Ég hugsa miðað við orð hæstv. dómsmálaráðherra að við fáum tækifæri til að gera það síðar.

Það er rétt sem hv. þm. Atli Gíslason sagði að andstaða Vinstri grænna var auðvitað ekki eina ástæðan fyrir því að málið náði ekki fram að ganga. Það er allt í lagi að segja þá sögu eins og er að vegna andstöðu Vinstri grænna fékk alla vega hluti þingflokks Samfylkingarinnar mikinn skjálfta í hnén og taldi sér ekki fært að standa að þessum ákvæðum miðað við að Vinstri grænir höfðu uppi stór orð um að mæta þessum ákvæðum með mjög harðri umræðu um málið. Þá gerðist það eins og oft hefur gerst við ýmsar aðstæður að þegar á móti blæs fer Samfylkingin á taugum.



[18:58]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir skörulegan flutning á þessu frumvarpi til breytinga á almennum hegningarlögum. Ég tel mjög mikilvægt miðað við það sem farið hefur fram í umræðunni þar sem reyndir þingmenn hafa farið yfir söguna á bak við þetta mál. Ég fagna því að það sé komið fram og vonast til að það nái fram að ganga í þinginu og verði að lögum á þessu þingi.

Varðandi þann kafla sem fallið hefur út þá vonast ég til þess að allsherjarnefnd skoði og fari vel yfir það en jafnframt kom fram hjá hv. þm. Atla Gíslasyni og Birgi Ármannssyni að mikil vinna hafi farið fram í allsherjarnefnd á fyrri þingum varðandi þetta mál. Með vísan til þess að fyrri þing hafi farið ítarlega yfir mál þá upplifðum við það í sumar að mál, þ.e. náttúruverndaráætlun, var afgreitt út úr umhverfisnefnd án umræðu. Slík vinnubrögð tel ég ekki vera til fyrirmyndar og ekki líðandi. 27 nýir þingmenn sitja á þessu þingi og ég tel að við höfum fulla burði til að fara vel yfir mál. Ég tel að þessir 27 nýju þingmenn hafi vilja til þess að setja sig sjálfir inn í þau mál sem fá framgang í þinginu og ég vonast til þess að þetta mál sem önnur verði beitt þeim vinnubrögðum að farið verði yfir þau, leitað verði umsagna og fengnir gestir á fund nefndarinnar til að fara yfir þessi mál.

Ég hefði óskað þess að eiga orðastað við formann allsherjarnefndar en því miður er formaðurinn, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, ekki við þessa umræðu í dag. Það er spurning hvort hv. þm. Atli Gíslason geti upplýst mig um hvort þessi vinnubrögð verði viðhöfð vegna þess að ef ég man rétt þá tók hv. þm. Atli Gíslason undir athugasemdir okkar við afgreiðslu náttúruverndaráætlunar í gegnum þingið fyrr í sumar. Ég vonast til þess að ég eigi stuðning hjá honum í þessu máli sem öðrum að við nýju þingmennirnir fáum að fara yfir málin á sjálfstæðan hátt og mynda okkur sjálfstæða skoðun á þeim.

Mér þykja mjög athyglisverðar þær umræður eða skoðanaskipti sem áttu sér stað milli hv. þm. Birgis Ármannssonar og Atla Gíslasonar sem báðir eru í allsherjarnefnd varðandi þau hryðjuverkaákvæði sem þarna voru klippt út á milli þinga. Ég vonast til að nefndin fari jafnframt yfir þau ákvæði.

Ég tel að svo komnu máli, hæstv. forseti, ekki ástæðu til að fleiri orðum um þetta en vonast enn og aftur til að vönduð vinnubrögð verði í nefndinni og að við fáum að fjalla um málið efnislega.



[19:01]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka fram að formaður allsherjarnefndar er löglega forfölluð frá umræðunni og lét mig vita af því með fyrirvara.

Ég átti við í minni fyrri ræðu að auðvitað getur maður nýtt sér þá vinnu sem undanfarin þing hafa unnið að málum. Hvað varðar náttúruverndaráætlun 2009–2012 gerði ég undantekningu frá þeirri skoðun minni að sú vinna ætti ekki að fara fram engu að síður að mati nefndarinnar hvað yrði gert. Svo var ástatt um það mál að það er lögbundið að leggja fram náttúruverndaráætlun til fjögurra ára. Slík áætlun sem lá frammi var fyrir árin 2009–2012 og ég taldi ótækt að þingið á þeim forsendum afgreiddi ekki málið frá sér. Ég er algerlega sammála því að hér er fjöldinn allur af nýjum þingmönnum sem þurfa að skoða málið frá öllum hliðum og ég var sjálfur ekki í allsherjarnefnd á vorþinginu frá febrúar fram að kosningum í apríl.



[19:02]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir að koma því á hreint að forföll formanns allsherjarnefndar liggja fyrir og er í fínu lagi með það.

Ég þakka honum fyrir að taka undir að við förum vel yfir þetta mál í nefndinni. Ég veit ekki hvort ástæða er til að rifja upp frekar þessa deilu um náttúruverndaráætlunina en engu að síður fór áætlunin ekki í gegnum þingið. Hún var einfaldlega tekin út úr nefnd og fór ekki í gegnum þingið, var ekki afgreidd að fullu þannig að hún kemur til með að fara aftur í meðferð umhverfisnefndar á þessu þingi. Ég krefst þess að hún fái þar málefnalega umfjöllun. Það er ekki hægt að gera undanþágur frá grundvallaratriðum eins og þeim að fara vel yfir mál. Það er einfaldlega ekki lýðræðislegt.

Ég trúi því í hjarta mínu að þetta hafi farið svona með náttúruverndaráætlunina í sumar vegna þess að fólk var orðið þreytt og ætlaði sér eitthvað sem það hefði í venjulegu ástandi aldrei ætlað sér að standa fyrir. Ég vona að í öllum þeim málum sem hér liggja fyrir og eru gríðarlega mikilvæg, bæði þau sem hér eru til umræðu og eins varðandi náttúruverndaráætlunina, fái lýðræðislega og góða meðferð á þessu þingi.



[19:04]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef verið þeirrar skoðunar að mál eigi að fá faglega umfjöllun í nefndum. Þó að ég hafi ekki átt langa þingsetu á þingi var ég þó stjórnarandstöðuþingmaður frá vori 2007 til stjórnarslitanna sem urðu núna í janúar og er ýmsu vanur. Ég óska þess að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefði þá verið í stjórn og svarað fyrir þau vinnubrögð sem þá voru.

Nauðsyn brýtur lög og lög kunna að víkja þingmönnum. Það var eingöngu á þeim forsendum að Alþingi bar skylda til að setja þessa náttúruverndaráætlun fyrir árin 2009–2012 að þessi leið var farin. Engar breytingar höfðu orðið á tillögunni frá vorþinginu og ég taldi það réttlætanlegt. Vinnubrögðin eiga að vera í þeim anda sem hv. þingmaður lýsir þótt auðvitað eigi að notfæra sér forvinnu þingsins en ekki að byrja allt upp á nýtt.



[19:05]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það urðu einmitt breytingar á náttúruverndaráætlun á síðasta vorþingi. Þær breytingar fylgdu hins vegar ekki málinu inn á sumarþingið heldur duttu einfaldlega út. Umhverfisnefndin sem sat á sumarþinginu stóð í þeirri meiningu, eða meiri hluti hennar, að engar breytingar hefðu verið gerðar en það er ekki rétt. Umhverfisnefndin fór ekki betur yfir málið og þessa vönduðu vinnu sem unnin var í umhverfisnefnd á vorþinginu en svo að hún tók ekki eftir því að nokkur atriði höfðu fallið brott, m.a. varðandi hvannastóð í Vík í Mýrdal. Fjögur atriði duttu út ef ég man rétt. Ég sat í umhverfisnefnd sem varamaður á þessum fundi og á þessum 10 mínútum sem fundurinn tók náði ég að sjá það. Vinnubrögðin voru ekki vandaðri en svo. Við megum því ekki þrátt fyrir að tímarnir séu erfiðir, það liggi á og einhver frestur sé að líða henda frá okkur öllum prinsippum. Ég skil alveg og veit, hv. þm. Atli Gíslason, að vinnubrögð fortíðarinnar hafa ekki í öllum tilvikum verið til fyrirmyndar. Það þýðir samt ekki að ég ætli að kvitta upp á hvaða vitleysu sem er.

Ég tel að við sem sitjum á þingi eigum að líta út fyrir pólitískar víglínur og einsetja okkur að viðhafa vönduð vinnubrögð, líka hvað varðar náttúruverndaráætlun. Þótt brýnt sé að standa tímafresti þar þá verður engu að síður a.m.k. að lesa yfir hvaða niðurstöðum fyrri nefndir hafa komist að þegar verið er að tala um vönduð vinnubrögð í fyrri nefndum. Það er lágmarksviðmið.



[19:07]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðurnar um þetta frumvarp. Til að svara hv. þm. Birgi Ármannssyni verð ég að viðurkenna að álits fjármálaráðherra hefur ekki verið leitað sérstaklega. Það gæti verið afsökun að allsherjarnefnd beindi því á sínum tíma til fjármálaráðherra að kanna hvort breytingar á skattalöggjöfinni væru nauðsynlegar. Þetta hefðum við í rauninni samt átt að kanna í dómsmálaráðuneytinu og býðst ég til að þetta verði kannað þannig að allsherjarnefnd geti fengið þau gögn til upplýsingar.

Hvað varðar það að fella út ákvæði frá fyrri frumvörpum þá ítreka ég það sem ég sagði áðan um að þarna er í rauninni harla óvenjulegt frumvarp á ferðinni þar sem mörgum og í raun ólíkum samningum er slegið saman. Ég taldi ákveðin rök fyrir því að taka út þessi umdeildu ákvæði og láta athuga þau betur því að, virðulegi forseti, það er ákaflega mikilvægt að þau tefji ekki að hægt sé að fullgilda þá samninga sem hér eru til umfjöllunar. Það er mjög mikilvægt að fullgilda þessa alþjóðasamninga, lögfesta þessi ákvæði um upptöku og síðast en ekki síst að lögfesta þessi ákvæði gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem því miður er farin að skjóta rótum á Íslandi.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.