138. löggjafarþing — 8. fundur
 15. október 2009.
nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála, frh. fyrri umræðu.
þáltill. BjarnB o.fl., 3. mál. — Þskj. 3.

[13:59]
Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Hér er komin fram tillaga til þingsályktunar um úrbætur í efnahagsmálum. Að vissu leyti má fagna því að slíkt komi fram frá fleirum en ríkisstjórninni enda kannski ekki sérlega burðugt það sem hefur komið frá þeim bæ. Ég náði að borða áður en ég þurfti að tjá mig um þessa þingsályktunartillögu og þess vegna mun ég fara mildari höndum um hana en ég ætlaði mér í fyrstu og kannski mildari en efni standa til.

Ég held að þessi tillaga sé að mestu leyti afspyrnu vond. Þetta er náttúrueyðingar- og landeyðingartillaga af þeim toga sem aldrei nokkurn tíma hefur litið dagsins ljós hér á landi. Þar eru í gangi sömu gömlu hugmyndirnar frá Sjálfstæðisflokknum og voru árin 2002, 2003, 2004, 2005, 2006 og 2007 um að það eigi að taka hverja einustu sprænu sem rennur til sjávar, eyðileggja hana og breyta farvegi hennar í nafni atvinnuuppbyggingar. Gott og vel. Atvinnuuppbyggingin sem slík er nauðsynleg og góð í eðli sínu en hugmyndafræðin á bak við þessa atvinnuuppbyggingu gengur ekki upp. Í fyrsta lagi býr hún ekki til næga atvinnu miðað við umfang og í öðru lagi býr hún til þannig atvinnu að við munum sjá undir iljarnar á ungu fólki úr landi frekar en að það flykkist út á land til að vinna. Í þriðja lagi er þessi uppbygging allt of dýr og kostnaðarsöm.

Í upphafi ætlaði ég ekki að tjá mig um þetta. Ég leit lítillega yfir þetta í gær en hnaut strax um nokkur orð og þess vegna ákvað ég að fara vandlega í þetta mál og skoða það vel. Að mestu leyti eru þetta sömu frasarnir og voru í gangi í upphafi þessarar aldar, þ.e. að hér þurfi að gera stórátak í stóriðju- og virkjunarmálum, blása í herlúðra og moka fósturjörðinni upp á vörubílspalla, keyra hana fram og til baka um landið, flytja hana til og vera með jarðvinnuframkvæmdir. Hér þarf að blása allt upp í geðveikisútþenslukasti, ekki einu sinni heldur tvisvar, þrisvar, fjórum eða fimm sinnum. Ráð um hvernig eigi að laga hagkerfið eru talin upp hvert á fætur öðru alveg eins og Kárahnjúkaóskapnaðurinn gerði en skemmdi samt.

5.000 störf segir hérna á fyrstu blaðsíðu, 4.000 störf, 5.000 störf, 20.000 störf sagði hv. formaður Sjálfstæðisflokksins áðan. Mér finnst dapurlegt að svona nokkuð skuli koma frá þeim því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla burði og fólk innan sinna vébanda sem hefur tíma og möguleika á því að búa til efnahagsstefnu sem getur verið góð til frambúðar og stuðlað að jafnvægi. Þetta er enn ein röðin af skyndilausnum sem eiga að kippa hlutum í lag. 10.000 ársverk og hvað svo þegar virkjunin er búin? Þá er það bara næsta virkjun og svo næsta virkjun. Við vorum þarna árið 2007, góðir sjálfstæðismenn. Vaknið þið nú og hugsið málið upp á nýtt. Sumt er að einhverju leyti jákvætt en flest neikvætt. Það á að gefa út skuldabréf í evrum. Það þýðir einfaldlega að erlendar skuldir aukast. Gjaldeyrishöft verði afnumin og krónunni leyft að fljóta. Gott og vel, það er mjög mikilvæg efnahagsaðgerð en á meðan verðtryggingunni er ekki kippt úr sambandi um leið mun hún einfaldlega rústa endanlega hag heimilanna í landinu. Þarna er ekki orð um að afnema verðtryggingu, ekki orð. Við skulum ekki gleyma því að skuldavandi heimilanna í landinu er stærsti efnahagsvandinn sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það er ekki mikill efnahagsvandi að það skuli ekki vera álver á Bakka. Það er skuldavandi heimilanna sem er efnahagsvandinn í dag og við skulum einbeita okkur að því að taka á honum.

Það eina sem stendur hér um skuldavanda heimilanna er að leiðrétta verði of mikla skuldsetningu heimilanna í landinu og að mynda skuli sérfræðihóp. Sjálfstæðismenn vita jafn vel og ég að það þarf að fella niður skuldir heimilanna í landinu til að þau nái að rétta úr sér en vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bannar það vilja þeir ekki gera það. Inni í þessu plaggi er ákveðið dufl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þeir virðast gengnir í sæng með Samfylkingunni hvað varðar að vilja halda honum inni. Það er áherslubreyting sem er ný fyrir mér. Þar er ákvæði um fiskveiðar, sama gamla kerfið og rústaði strandbyggðum allt í kringum landið þegar framsal aflaheimilda var leyft. Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði. Við skulum ekki gleyma því hvað hefur gerst vegna þessa. Það á ekki að þurfa að endurtaka það úr þessu púlti að sú stefna rústaði landsbyggðinni. Hér er boðað meira af því sama. Til að hámarka arðsemi útgerðarinnar þarf að sjálfsögðu að taka þær aflaheimildir sem til falla á hverju ári og bjóða þær út. Þannig hámarka menn arðsemi, ekki með því að afhenda sérhagsmunahópum milljarða á silfurfati.

Það sama á að gerast með orkuauðlindirnar. Það á að taka orkuauðlindirnar og afhenda þær á silfurfati tilteknum fyrirtækjum og sérhagsmunahópum í staðinn fyrir að hugsa málið öðruvísi og segja sem svo: Hér höfum við þetta mikla orku sem ásættanlegt er að virkja, leitum tilboða í orkukaupin á alþjóðamarkaði og virkjum svo að því marki að náttúru landsins verði ekki gjöreytt. Hugsunin í þessu frumvarpi er einfaldlega gömul og á ekki við í dag.

Það væri hægt að gera alvarlegar athugasemdir við margt fleira varðandi þessa tillögu en það sem ég geri þó mestar athugasemdir við er hvað hún er algerlega steingeld af nýjum hugmyndum. Að viðhalda þeirri ríku hefð að fjölskyldur búi í eigin húsnæði er sérstakt hagsmunamál. Í annað skipti á 25 árum eru þúsundir fjölskyldna farnar á hausinn vegna þess að það var talið nauðsynlegt að viðhalda þeirri ríku hefð að fjölskyldur byggju í eigin húsnæði. Þessi stefna gengur ekki upp nema fyrir hluta þjóðarinnar og það hefur sýnt sig. Hún gengur ekki upp á meðan verðtryggingin er við lýði í landinu. Þetta þarf að hugsa upp á nýtt. Það þurfa að vera til staðar fjölbreyttari búsetuúrræði fyrir fólk. Það vilja einfaldlega ekki allir eiga eigið húsnæði. Það vilja ekki allir þurfa að skulda í 40 ár til að eignast þak yfir höfuðið heldur vill margt fólk geta leigt sína íbúð, borgað af henni leigu og flutt svo úr henni eitthvað annað ef því býður svo við að horfa. Þessar úrbætur eru brýnar fyrir almenning í landinu.

Hér er ýmislegt fleira athyglisvert eins og að opna eigi eins og kostur er á aðkomu erlendra fjárfesta. Erlendir fjárfestar standa í röðum og bíða eftir því að komast með peningana úr landi í dag en ekki inn í landið, svo við höldum því til haga. Síðan eru það störfin. Hvert starf í endurbyggingunni í Straumsvík kostar 2.250 millj. og hvert starf í Helguvík kostar 296 millj. Hvert starf í orkufrekum iðnaði kostar eitt megavatt af orku. Ef hugmyndin er að nota orkuna til atvinnuuppbyggingar er hægt að fá miklu fleiri störf fyrir hvert megavatt af orku en fyrir þá orku sem fer í stóriðju. Ef hugmyndin er að nota peningana til að búa til mörg störf er hægt að búa til miklu fleiri en eitt starf fyrir 2.250 millj. Hvað er hægt að búa til mörg störf í kvikmyndagerð fyrir 2.250 millj.? Ég bara spyr.

Upptalningin heldur áfram: Orkuver tengd Bakka, gagnaver II, gagnaver III, Tomahawk, BPI, framleiðsluaukning, koltrefjaverksmiðja, pappírsverksmiðja, orkuver 200 megavött. Talandi um orku, þessi tillaga er algerlega orkulaus.



[14:09]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir þetta tækifæri til að andmæla honum. Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Við getum t.d. byrjað á stefnu okkar sjálfstæðismanna sem flestir Íslendingar virðast fylgja, þ.e. að búa í eigin húsnæði, en um 85% fjölskyldna í landinu búa í eigin húsnæði. Sú stefna virðist hafa verið mjög farsæl fyrir okkur Íslendinga, alla vega líta aðrar þjóðir til okkar öfundaraugum hvað þetta varðar. Það er þó alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það hefur gefið á bátinn. Það gaf á bátinn í lok 8. áratugarins og aftur núna hjá húsnæðiseigendum og þess vegna viljum við koma þeim til hjálpar við þær erfiðu aðstæður sem þeir búa við.

Hvað varðar atvinnustefnuna er alveg rétt að við leggjum áherslu á að hér verði orkunýtingariðnaður og það verði virkjað m.a. til stóriðju. Hv. þingmaður þylur upp þessa rullu sem ég fæ ekki til að ganga upp rökfræðilega. Hvað kemur það okkur Íslendingum við hvað hvert starf í stóriðju kostar þegar erlendir aðilar borga það og eru tilbúnir til þess? Ég fæ engan veginn skilið hvernig vera má að það sé eitthvað slæmt. (Forseti hringir.) Í seinna andsvari mínu mun ég væntanlega finna til fleira.



[14:11]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð búinn að telja hv. þingmanni hughvarf um seinna andsvarið ef vel tekst til. Varðandi húsnæðismálin er mjög margt gott við þessa eigendastefnu í húsnæði sem verið hefur hér á landi undanfarna áratugi. Mesti kosturinn við hana er að sjálfsögðu að hún byggir upp eign fyrir einstaklingana. Það hentar hins vegar ekki öllum að þurfa að standa í slíku vafstri. Fólk vill hafa lausari bönd og geta haft fleiri möguleika og það á að bjóða fólki upp á þá. Þessi húsnæðisstefna undanfarna áratugi hefur ekki verið nægilega farsæl vegna þess að efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafa rústað henni með reglulegu millibili, núna í tvígang á 25 ára fresti. Fólk flytur úr landi vegna þessa og því er kominn tími til að hugsa um fleiri möguleika.

Hvað varðar uppbyggingu á stóriðju getur vel verið að útlendingar borgi fyrir byggingu á verksmiðjunni en Íslendingar borga fyrir byggingu á orkuverunum og Íslendingar ákveða að sóa þeirri orku í allt of fá störf. Það er hægt að nota þá orku í miklu fleiri störf. Eitt starf fyrir hvert megavatt er ekki sérlega góð nýting á orku ef hugmyndin er að nota hana til atvinnuuppbyggingar. Þá þarf að hugsa málið frá öðrum hliðum. Ég hef sjálfur starfað við útflutning á áli, komið oft í álver og þekki vel til vaktavinnu í verksmiðjum. Það er einfaldlega hægt að bjóða ungu fólki á Íslandi upp á betri vinnu en það, ekki endilega merkilegri vinnu en betri vinnu en 12 tíma vaktir vikuna út og inn. (Gripið fram í.) Það er til eitthvað sem heitir betri vinna, þægilegri og betur borguð vinna.



[14:13]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt starf fyrir eitt megavatt, það er ekki nákvæmt. Ég held að þetta séu tvö til þrjú störf fyrir eitt megavatt að meðaltali þegar talin eru bein og óbein störf.

Hvað varðar húsnæðisstefnuna er ég sammála því sem hægri maður að fólk eigi að hafa val. Einmitt í því augnamiði var reglum um Íbúðalánasjóð breytt þannig að leigufélög gætu fengið lánað hjá sjóðnum til að byggja upp íbúðarhúsnæði til að leigja síðan út. Sú þróun hefur verið síðustu ár. Jafnframt höfum við séð félög eins og Búsetafélögin skjóta hér rótum en aftur á móti hafa þessi úrræði sem eru valkostur við séreignarstefnu í íbúðarhúsnæði ekki verið sérstaklega vinsæl. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það er auðvelt að fá leigt á góðum kjörum á Íslandi, fullvissað hann um það.

Hvað varðar þessa erlendu fjárfestingu, orkunýtingu og annað slíkt held ég að það sé mjög mikilvægt að sýna ekki hræðslu gagnvart peningum þótt þeir beri annað nafn en íslenskt. Erlend fjárfesting er ekkert verri eða betri en íslensk fjárfesting.

Að lokum langar mig, vegna þess að hv. þingmaður segir að þetta sé gamaldags úrræði en við erum væntanlega sammála um að þetta sé heildstæð stefna og planið gangi upp þrátt fyrir að vera gamaldags eins og þingmaðurinn heldur fram — mig langar til að auglýsa eftir þeim úrræðum sem hv. þingmaður hefur (Forseti hringir.) og hans hópur.



[14:16]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er þetta heildstæð stefna. Ég veit ekki hvort endilega ber að fagna því en Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa safnað vopnum sínum og telur að sókn sé besta vörnin. Það versta við þessa stefnu er kannski að sóknin er til suðurs þegar orrustan er í norðri og þess vegna gengur þetta einfaldlega ekki upp.

Hvað varðar leiguíbúðalán þá er það rétt að það var boðið upp á slík lán hjá Íbúðalánasjóði þar sem menn gátu sótt um lán til byggingar leiguíbúða. Þetta var mjög þarft framfaraskref í því að auka fjölbreytni á húsnæðismarkaði en það sem hins vegar gerðist var að þegar Íslendingar urðu allt í einu svo gerviríkir að þeir gátu keypt sér hvað sem var ákváðu eigendur þessara leiguíbúða að setja þær allar á markað og selja þær þannig að leigumarkaðurinn sem átti að byggjast upp fyrir þessi hagstæðu lán hvarf. Þarna vantaði einfaldlega varnagla við reglurnar.

Svona er hægt að gera hlutina. Það er hægt að lána sérstaklega til leiguíbúða en þá þurfa að vera reglur um að það megi ekki henda út leigjendum óforvarandis og hikstalaust. Það gengur ekki upp. Við sem höfum búið annars staðar en á Íslandi vitum hvaða öryggi felst í því að geta leigt sér íbúð og treyst á að verða ekki hent út á götu eftir mánuð eða þrjá. Þannig leigumarkaður þarf að vera á Íslandi. Það er ekki spurning um framboð og eftirspurn þegar íbúðareigandi getur hent út leigjandanum sínum. Þetta er spurning um réttindi og réttindaleysi og það þarf einfaldlega að koma skikki á þau mál til að hægt sé að koma á valkosti í íbúðamálum.

Hvað varðar orkuna eru samkvæmt þessu í kringum 0,8–1 megavatt á hvert starf í þessari orkuuppbyggingu, sums staðar minna en það er talað um gríðarlega fjármuni í orkuframkvæmdum og orkuver sem hvergi virðast vera til á teikniborðinu nema í höfðum flutningsmanna.



[14:18]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem betur fer var hv. þingmaður búinn að borða áður en hann fór í ræðustól fyrst hann upplýsti að hann ætlaði að fara mjúklega að úr því að hann var orðinn saddur.

Varðandi stóriðjuna og störfin í kringum hana þá mega menn heldur ekki gleyma því að það eru mörg afleidd störf í kringum stóriðjuna. Menn verða líka að horfa sanngjarnt á þann þátt. Í stað þess að segja að þetta sé sama gamla tuggan hjá sjálfstæðismönnum að byggja þetta upp skulum við setja hlutina í samhengi. Það eru ákveðin verkefni milli erlendra fjárfesta, sveitarfélaga og ríkisvaldsins um hvernig skuli staðið að atvinnuppbyggingu. Það hefur verið unnið að þeim samningum bæði í Helguvík og á Bakka, það er búið að leggja tugi milljarða í þessi verkefni og þetta verður að halda áfram. Það þýðir ekkert að leggja stein í götu þessa verkefnis sem þegar er búið að taka ákvörðun um.

Ég vil árétta varðandi það þegar talað er um að menn séu mjög umhverfisvænir að á Snæfellsnesi er eina vottaða Green Globe-svæðið á Íslandi og það er undir forustu sjálfstæðismanna. Sjálfstæðismenn stýra öllum þeim sveitarfélögum sem standa að þeirri vegferð sem er til mikils sóma fyrir land og þjóð. Menn mega ekki taka hlutina svona úr samhengi.

Síðan tek ég heils hugar undir með hv. þingmanni um að við þurfum að ræða mun betur skuldavanda heimilanna. Þar eigum við að leggja saman krafta okkar og í okkar tillögum kemur fram að við viljum skipa þverpólitískan hóp til að fara einmitt yfir þessi mál. Ég kalla eftir hv. þingmanni og hans tillögum þar. Ég er líka sammála honum um að menn verði að komast út úr verðtryggingunum, það er grundvallaratriði. Þess vegna kemur það fram í tillögum okkar, þvert á það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera, að við óskum eftir liðsinni annarra og hugmyndum til að útfæra þær, m.a. frá hv. þingmanni, hagsmunasamtökum og fleirum. Þetta á að vera sameiginlegt markmið okkar.



[14:20]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að heyra frá hv. þingmanni að hér vantar inn grundvallaratriði eins og t.d. afnám verðtryggingar. Ég er meira en fús til þess að aðstoða Sjálfstæðisflokkinn við að endurprenta þetta plagg enda er búið að prenta það einu sinni og ef þeir vilja prenta það aftur með minni hjálp er það sjálfsagt mál.

Að sjálfsögðu er Green Globe-verkefnið á Snæfellsnesi til fyrirmyndar. Það er fyrirmynd en það er ekki notað sem fyrirmynd. Flestir líta á það sem einangrað fyrirbæri og við skulum ekki gleyma því að þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð var undir stærsta ósnortna landsvæði í allri Norður- og Vestur-Evrópu. Þetta svæði var einstakt á mælikvarða heillar heimsálfu og það var eyðilagt.

Við skulum ekki heldur gleyma því að afleidd störf af stóriðju eru einhver og kannski mörg en það eru afleidd störf af öllum öðrum atvinnugreinum líka. Það að telja upp störf í áliðnaði og bæta svo við afleiddum störfum sem sérstökum bónus áliðnaðarins er einfaldlega ekki rétt. Það eru miklu fleiri afleidd störf í mörgum öðrum atvinnugreinum en áliðnaði. Ég leyfi mér að benda á að þau afleiddu störf sem voru t.d. fólgin í að flytja ál frá landinu og súrál til landsins voru lögð af undir forustu Sjálfstæðisflokksins þegar kaupskipaflotanum var flaggað út til Bermúda.



[14:22]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég benti á þá fjallar þetta ekki um að prenta frumvarpið upp á nýtt heldur sögðum við í okkar frumvarpi að við óskuðum eftir þverpólitískri samstöðu um að komast að niðurstöðu. Um það fjallar þetta og það er viðhorfið í okkar vinnubrögðum og margra annarra.

Hv. þingmaður kemur inn á áliðnaðinn enn eina ferðina. Ég hvet hann til að fara t.d. upp á Akranes. Þegar ég var að byrja að skipta mér af pólitík var staðan þannig að á Akranesi var alltaf mesta atvinnuleysið, þar voru alltaf lægstu tekjur á mann og mesta vandamálið í gamla Vesturlandskjördæminu. Þessu er einmitt öfugt farið núna.

Hv. þingmaður talaði í ræðu sinni um auknar aflaheimildir. Hugsun okkar við að auka aflaheimildir er að við ætlum ekki að taka neina sénsa með fiskstofnana og ég hvet hv. þingmann til að hlusta á mig á eftir. Hins vegar getum við skapað aflaverðmæti til viðbótar upp á 33 milljarða. Það er þreföldun inn í hagkerfið vegna þess að öll fjárfestingin er til og þar erum við ekki að hugsa um neinn sérhagsmunahóp heldur íslenska þjóð. Það er grundvallaratriði í þessum tillögum okkar að við segjum: Við skattleggjum okkur ekki út úr vandanum. Við verðum að breikka skattstofnana, búa til fleiri störf, skaffa fólkinu tekjur, fækka þeim sem eru á atvinnuleysisbótum og þar af leiðandi gefa fjölskyldunum í landinu von. Um það erum við væntanlega sammála, ég og hv. þingmaður.

Í þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir á að skattpína fjölskyldurnar. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji raunhæft að skattleggja einstaklingana eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi við þær aðstæður sem nú eru, hvort það sé raunhæf leið að hans mati. Í framhaldi af því vil ég einnig spyrja: Hvað eigum við þá að gera til að vinna okkur út úr vandanum? Ég er meira en fús til að hlusta á tillögur hans í því og ætla mér ekki einungis að rakka það niður hvort sem ég er búinn að borða eða ekki.



[14:24]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að mörgu leyti sammála hv. þingmanni um að það sé ekki gerlegt og það eigi ekki að reyna að skattleggja sig út úr þessum vanda en þá þarf eitthvað að koma í staðinn. Ein af meginhugmyndunum er að auðlindir í eigu þjóðarinnar verði gerðar arðbærari með því að selja þær hæstbjóðanda frekar en afhenda þær einstökum hagsmunaaðilum eða fyrirtækjum.

Það hefur lengi loðað við Sjálfstæðisflokkinn að hann sé pólitískur armur LÍÚ. Stefna Sjálfstæðisflokksins, og Framsóknarflokksins áður fyrr, var sú að útgerðinni skyldi afhent auðlindin ókeypis á silfurfati og hún mætti síðan braska með hana að vild. Þetta rústaði sjávarbyggðum allt í kringum landið og gerði útgerðina að skuldugustu atvinnugrein þjóðarinnar í dag, við skulum ekki gleyma því. Þetta er stefna sem hefur einfaldlega brugðist og þess vegna þarf að hugsa hlutina upp á nýtt. Þú afhendir hana ekki sömu mönnum aftur, það gengur ekki upp nema menn vilji halda áfram að sóa hlutunum. (VigH: Rangt.) Ekki mikið lengur, nei, en það var líka stefna Sjálfstæðisflokksins sem ...

(Forseti (SVÓ): Forseti áminnir hv. þingmenn um að hafa ekki tveggja manna tal í þingsalnum.)

Varðandi annað sem hv. þingmaður sagði þá er ég búinn að gleyma því flestu. Það hefði kannski mátt vera minnisstæðara. Takk fyrir.



[14:26]
Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Yfirleitt er ekki ánægjulegt að horfa upp á aftökur en ég hafði óneitanlega nokkra skemmtun af því að sjá og heyra hv. þm. Þór Saari taka af lífi góðan slatta af þeim hugmyndum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú lagt fram. Ég ætla samt ekki að gleyma mér í blóðþorsta við að gleðjast yfir því að sjá hugmyndir Sjálfstæðisflokksins allar með tölu fá blóðugan og verðskuldaðan endi heldur ætla ég að fagna þessum tillögum. Þótt megnið af þeim sé úrelt hugsun, fornaldarsjónarmið, dólgakapítalismi og umhverfissvínarí þá er þarna að finna glætu inn á milli. Sjálfstæðisflokkurinn leggur mikla áherslu á að við skattleggjum okkur ekki út úr kreppunni og ég tek heils hugar undir það. Engu að síður finnst mér svolítið kaldhæðnislegt að það sem er kannski athyglisverðast í hugmyndum Sjálfstæðisflokksins eru hugmyndir um skattlagningu, þ.e. að breyta tilhögun skattlagningar á framlög og greiðslur til lífeyrissjóða og sömuleiðis hefur verið minnst á séreignarsparnað með svipuðum hætti. Þetta eru mjög athyglisverðar tillögur.

Ég vil taka fram og halda til haga að ég er þeirrar skoðunar að í grundvallaratriðum og í lífinu sjálfu eigi maður að taka það sem maður telur sig geta notað og reyna að gera það besta úr því en láta hitt fram hjá sér fara. Ég óska þess að ríkisstjórnin taki þessum tillögum með jákvæðu hugarfari, fari yfir þær í samvinnu við þá sem lögðu þær fram og síðar í samvinnu við aðra og reyni að velja úr það sem er brúklegt. Það mikilvægasta við þennan tillöguflutning að mínu mati er að í grundvallaratriðum er þarna að finna góða og nauðsynlega hugsun, sem sé þá hugsun að reyna að draga úr skatti á fjölskyldur og fyrirtæki og reyna að finna fleiri leiðir út úr kreppunni en niðurskurð, sparnað og skattpíningu.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að ríkisstjórnin setjist niður og hugleiði um stund í ró og næði hvort ekki sé tímabært að reyna að losa sig undan því þvingandi umsáturshugarfari sem hefur verið ríkjandi á lífdögum þessarar ríkisstjórnar. Það er mikilvægt fyrir stjórnina og ég tala af nokkurri umhyggju fyrir henni en mikilvægast er þetta þó og af mestri umhyggju tala ég vegna þjóðarinnar. Það er ekki hægt að bjóða íslenskri þjóð upp á það í því ástandi sem núna er að dögum saman séu einu fréttirnar af stjórnmálum landsins vangaveltur um hvort ríkisstjórnin skrimti til kvölds. Þetta er ekki boðlegt. Við lifum alvarlega tíma núna, ekki tíma sem prímadonnur í stjórnmálum eiga að nota til að skella hurðum og ganga út úr ríkisstjórn, væla um að þeim hafi verið stillt upp við vegg eða eitthvað því um líkt. Það er eðli stjórnmála, skoðanaskipti í stjórnmálum geta farið fram með mjög harkalegum og miskunnarlausum hætti vegna þess að það sama gildir um hugmyndir og skoðanir eins og í náttúrunni að þær hæfustu eiga að lifa af.

Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að ríkisstjórnin láti af þeirri þvermóðskupólitík sem hún hefur rekið og birtist í því að taka yfirleitt öllum hugmyndum sem ekki eru fæddar heima ýmist með hundshaus eða mjög illa. Það má deila um hversu skynsamleg og vel hugsuð Noregsferð Framsóknarflokksins var en mér fannst mikill óþarfi að taka henni af þeirri vanstillingu sem ríkisstjórnin gerði. Þessi þvermóðskupólitík er ekki sú pólitík sem þjóðin þarf á að halda núna. Við þurfum að leita allra lausna. Við þurfum að leita sem víðtækastrar samstöðu, vera reiðubúin að leggja fram allar okkar hugmyndir og þola það þó að megnið af þeim hugmyndum sem við leggjum fram séu skotnar í kaf vegna þess að það er öllum fyrir bestu að fram fari alvarleg leit að góðum hugmyndum. Á þessu augnabliki vill svo til að góðar hugmyndir eru verðmætari en peningar. Því miður virðast góðar hugmyndir vera af skornum skammti en það eru peningarnir líka. Mér finnst að með því að leggja fram þessar tillögur sínar hafi Sjálfstæðisflokkurinn boðið upp á þíðu sem geti opnað á aukið samstarf stjórnarandstöðu við ríkisstjórnina, samstarf og jafnvel samstöðu um ýmis grundvallaratriði í því hvernig við komum okkur út úr þeim vanda sem nú er við að etja.

Í þessum ræðustól tölum við oft um að þjóðin þurfi að stilla saman strengi sína og sameina krafta. Við skulum þó ekki gleyma því að við sem tölum þurfum líka að gera það og best væri að þau sem héðan tala til þjóðarinnar væru reiðubúin til að leiða þjóðina með góðu fordæmi. Við erum í sameiginlegri kreppu og við þurfum á því að halda að sameina krafta til að komast út úr þessari lægð. Ótrúlega mikill hluti af ræðutíma fer í furðulegt smáskítlegt þras um smáatriði eða aukaatriði sem engu máli skipta. Ég hvet þingmenn til að leggja þessi smávægilegu deiluefni sem engu máli skipta til hliðar, helst fyrir fullt og allt en alla vega á meðan ástandið er svo alvarlegt sem nú. Það verkefni sem er mest aðkallandi nú um stundir er ekki að hnotabítast um hvort sé betra, hægri eða vinstri. Við þurfum að nota báða handleggina, bæði þann vinstri og þann hægri til að koma okkur út úr kreppunni. Við gerum það ekki með annarri hendinni, um það er ég sannfærður. Ég vil að ríkisstjórnin taki í hægri höndina og líti á hana sem sáttarhönd í augnablikinu og að við reynum að sameinast (Forseti hringir.) að svo miklu leyti til að ganga tvíefld til þeirra verka sem öll þjóðin bíður eftir.



[14:36]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að tala um hagstjórnarhluta efnahagstillagna okkar sjálfstæðismanna sem tengist beint þessari svokölluðu AGS-áætlun. Það er ljóst að margt hefur út af brugðið þar. Í meginatriðum getum við sagt að samstarfsáætlun íslenskra stjórnvalda og AGS skiptist í tvennt. Annars vegar það sem snýr að ríkisfjármálunum, þ.e. krafa um að halla á ríkissjóði verði eytt á tilteknum tíma og fjármálin verði sjálfbær, og hins vegar það sem við getum kallað peningamálahluta áætlunarinnar, þ.e. hvernig við afnemum gjaldeyrishöftin, náum verðbólgu og vöxtum niður og fjármögnum gjaldeyrisvarasjóð okkar Íslendinga sem er óneitanlega einn hluti af því.

Fjármálahlutinn, þ.e. það sem snýr að ríkissjóði, er nokkuð á áætlun. Hér hefur verið lagt fram fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir því að útgjöld séu skorin niður og tekjur auknar með skattlagningu á fólk og fyrirtæki þannig að áætlunin sé uppfyllt. Ef við skoðum aftur á móti peningamálahlutann hefur þar allt farið úr skorðum út af þessu stóra Icesave-máli og því að starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa ekki treyst sér til að taka endurskoðun áætlunarinnar fyrir í stjórn sjóðsins, að sögn vegna ótta við að áætlunin eða endurskoðunin verði felld af fulltrúum ríkja Evrópusambandsins. Það er kominn nokkuð mikill halli á þessa áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Peningamálahlutinn hefur tafist í a.m.k. 9 mánuði og ekki er útlit fyrir það í bráð að áætlunin fái afgreiðslu. Það er komin skekkja í þetta vegna þess að fjármálahluti áætlunarinnar, þ.e. ríkisfjármálin, byggði á því að áætlun í peningamálahlutanum stæðist líka, þ.e. gjaldeyrishöft, vextir og annað slíkt. Það er því kominn tími til að endurskoða þessa áætlun, ekki vegna þess að við sjálfstæðismenn teljum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hjálpi ekki til eða við viljum reka hann frá landinu heldur af því að þetta er allt komið á skjön. Jafnframt er fjármögnun áætlunarinnar sennilega vitlaust hönnuð, það er gert ráð fyrir of miklum peningum í hana.

Hvernig getum við komist út úr þessu? Ég held að við Íslendingar ættum núna að taka örlögin í okkar eigin hendur. Það er ljóst að við getum ekki treyst á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í að fjármagna þennan flótta hræddra króna. Við leggjum til í heildstæðri áætlun að sett séu fram fjárlög sem blása til sóknar fremur en leggjast í vörn, þ.e. við viljum ekki skattleggja okkur út úr vandanum. Nægilega mikið hafa ráðstöfunartekjurnar skerst samt og greiðslubyrði lána og annað slíkt hækkað.

Eftir að við höfum fengið trúverðuga áætlun í ríkisfjármálunum viljum við gefa út flokk skuldabréfa sem verða endurgreidd á næstu fjórum, sex, átta árum. Þau verði boðin svokölluðum krónueigendum sem eru með hræddar krónur og settar verða fram aðgerðir til að koma þeim inn í þau bréf. Með því lækkum við þrýsting á íslensku krónuna. Þörfin fyrir gjaldeyrisvarasjóðinn minnkar og þá styttist í að gjaldeyrishöftin verði felld. Við þurfum að byrja á því að huga að ríkisfjármálunum, eins og ég segi, og það þarf að gefa út þessi bréf. Með því að lækka vexti hrekjast krónur yfir í þessi bréf vegna þess að erlendir krónueigendur vilja væntanlega ekki hafa fjármuni sína á stórkostlega neikvæðum vöxtum. Eftir að þeir hafa verið hraktir þangað, ef við getum orðað það svo, þá afnemum við gjaldeyrishöftin. Með þessu minnkar jafnframt mjög lánsfjárþörfin fyrir gjaldeyrisvarasjóðinn. Við viljum þá setja þau lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn býður okkur á bið og reyna að ná samkomulagi við Norðurlöndin, Pólland og Færeyjar — Færeyjar eru reyndar óskilyrt — um að breyta lánsloforðum í lánalínur. Það lækkar vaxtakostnað gríðarlega en eitt stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna er einmitt mikill vaxtakostnaður. Við sjáum t.d. í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár að íslenska ríkið mun að óbreyttu greiða í kringum 100 milljarða í vaxtakostnað. Það er næststærsti útgjaldaliðurinn, meiri fjármunum er eytt í vexti en heilbrigðismál.

Við höfum reiknað út að sparnaðurinn í vöxtum fyrir ríkissjóð geti numið allt að 16–22 milljörðum á ári ef þessi leið verður farin og ef hún heppnast eins og við leggjum upp með og trúum á. Jafnframt höfum við bent á leiðir til að bæta afkomu ríkissjóðs um 85–90 milljarða þannig að þá erum við komin með yfir 100 milljarða, um 110–115 milljarða, í bætta afkomu ríkissjóðs ef farið verður að okkar tillögum. Við teljum að allt sé til vinnandi að reyna að nálgast málið á þennan hátt og höfum fulla trú á því. Okkur er í raun og veru sama hvort við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu að því leyti, við viljum gefa ríkisstjórninni góðar hugmyndir til að fara eftir til hagsbóta fyrir Íslendinga. Hvað það varðar tek ég undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Þráni Bertelssyni, að nú er ef til vill lag að leggja vopnin til hliðar og hugsa um og hlusta á tillögur hver annars.

Við höfum ekki fengið fram neitt heildstætt plan í efnahagsmálum, nema frá Framsóknarflokki í febrúar og okkur sjálfstæðismönnum í júní og aftur í október, síðan áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var samin í október, nóvember á síðasta ári. Ríkisstjórninni hefur mistekist að koma fram með heildstætt plan um hvað á að gera. Það hefur leitt til óvissu heimila, fyrirtækja og erlendra fjárfesta um hvað mun gerast í framtíðinni. Við erum mötuð á einu og einu máli, það þarf að leysa þetta mál og þá leysist þetta mál o.s.frv. en okkur er aldrei sýnt heildstætt fram á hvernig þetta á að gerast og það er bagalegt. Ég ætla samt ekki að vera í skotgröfum með það heldur bjóða ríkisstjórninni upp á allt það samstarf sem hún vill til reyna að leysa þessi mál sem ég hef lýst. Ég tel að þessi áætlun okkar gangi upp hagfræðilega og við teljum að hún gangi upp pólitískt líka.



[14:46]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðu hans. Mig langar til að spyrja hann nánar út í hugmyndir sjálfstæðismanna varðandi afléttingu á gjaldeyrishöftunum. Ég sakna þess svolítið í greinargerðinni með tillögunni að ekki skuli vera farið nánar út í hvernig þeir sjá fyrir sér nákvæmlega að gera þetta.

Einnig langar mig til að heyra skoðun þingmannsins á hugmyndum Stiglitz sem hann kynnti fyrir þingnefndum í heimsókn sinni þar sem hann benti á reynslu Malasíu. Þeir voru með gjaldeyrishöft þar og notuðu skattlagningu á útstreymi til að aflétta þeim, byrjuðu í 40% og enduðu síðan í 0%. Þeir opnuðu líka fyrir erlenda fjárfestingu og Stiglitz talaði um mismunandi skattlagningu og mismunandi meðhöndlun á fjárfestingum og fjármálatengdum gjörningi eða flæði. Það væri mjög áhugavert að heyra skoðanir þingmannsins á því — ég er nokkuð sannfærð um að hann er búinn að kynna sér þessar hugmyndir og fleiri — hvort þetta sé eitthvað sem hann sjái falla undir hugmyndir sjálfstæðismanna eða hvort þetta sé utan við þann pakka.

Ég vil líka benda á að í þeim efnahagstillögum sem framsóknarmenn lögðu fram í febrúar var talað um uppboðsmarkaði. Mér skilst að þetta séu nokkurn veginn tvær hliðar á sama peningnum en það væri mjög áhugavert að fá að heyra frá þingmanninum nánari útfærslu varðandi gjaldeyrishöftin og ef hann er ósammála Stiglitz um það, hver séu rökin fyrir því.



[14:48]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágætar spurningar Aflétting gjaldeyrishaftanna átti að vera að við mundum ná þessum hræddu krónum inn í langtímaskuldabréf. Með því mundum við minnka þrýstinginn á krónuna og gætum aflétt höftunum. Að vísu er þarna millistig sem ég lýsti áðan með vaxtalækkun. Þessu er lýst vel í greinargerð með þingsályktunartillögunni og ég bendi á hana.

Varðandi reynslu Malasíu. Það er alveg rétt að Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, talaði af mikilli aðdáun um hvernig Alþjóðabankanum tókst að leysa gjaldeyrishöft í því landi og sagði að þeir hefðu náð sér jafnvel fyrr upp úr kreppunni en nágrannaríkin Tæland og Suður-Kórea. Það fylgdi kannski ekki sögunni hjá Stiglitz að Malasía hafði ekki úr eins háum söðli að detta og þau lönd. Þar var ekki jafnmikið af erlendum fjárfestingum inni. Almennt held ég að það að skattleggja útstreymi á gjaldeyri sé skaðlegt til meðallangs og langs tíma litið og að erlendir fjárfestar séu ekki öruggir um fjármuni sína. Ég held að við höfum gert nóg á þeirra hlut í bili alla vega.

Hvað varðar uppboðsmarkað er það hugmynd sem kom upp í Seðlabankanum en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagðist eindregið á móti því vegna þess að þeir telja, og ég tek undir þau sjónarmið að nokkru leyti, að allt sé til þess vinnandi að búa ekki til fleiri en eitt gengi í landinu.



[14:50]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin. Nú er hins vegar ýmislegt í þessari þingsályktunartillögu sem ég tel að falli Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ekkert sérstaklega vel og sé ekki honum að skapi. Ég get því varla séð að það séu rökin fyrir því að menn voru ekki tilbúnir að skoða þessar hugmyndir.

Við töluðum í okkar tillögu um að setja á fót svona uppboðsmarkað. Malasíu tókst einhvern veginn að koma í veg fyrir viðskipti með mynt sína erlendis en það er náttúrlega markaður erlendis fyrir íslenskar krónur. Mér skilst að sá markaður velti allt að 30 milljörðum á mánuði. Ég tel að þessum hræddu krónum sem þingmaðurinn talaði um hafi fækkað eitthvað á þessum tæplega 12 mánuðum frá því að hrunið varð þannig að pressan er kannski ekki jafnmikil. Það væri áhugavert að heyra hv. þingmann svara þeim spurningum sem ég bar fram og klára sérstaklega þetta varðandi uppboðsmarkaðinn. Við erum nú þegar með gengi hér á Íslandi og annað erlendis en þau hafa að vísu verið að nálgast hvort annað. Sér hv. þingmaður önnur rök með og móti því af hverju mætti skoða þetta með uppboðsmarkaðinn?

Ég tek svo sem undir að varðandi reynslu Malasíu þurftu þeir t.d. ekki á láni að halda frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og að því leyti voru þeir mun frjálsari til að fara sínar eigin leiðir en við virðumst vera því við verðum að leita eftir láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum ríkjum líka. Eitt af því sem þessi nóbelsverðlaunahafi í hagfræði benti okkur á var að við ættum að vera frumleg í hugsun og koma okkar hugmyndum á framfæri. Þess vegna vildi ég gjarnan (Forseti hringir.) heyra meira frá þingmanninum um hans skoðun á þessu.



[14:53]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég reyni að útskýra aðeins þetta með tvöfalda gengið sem myndast vegna uppboðsmarkaða og bera það saman við stöðuna eins og hún er í dag er ljóst að þessi aflandsmarkaður á krónum er ekki í þökk stjórnvalda og hann endurspeglar raunverulega lekann sem er á gjaldeyrishöftunum. Þetta er slæmt vegna þess að ef þetta er rétt tala hjá hv. þingmanni, að það séu 30 milljarðar sem velt er þarna á mánuði, þá er 10% munur á þessum tveim gengisskráningum sem er þá væntanlega 3 milljarðar á mánuði. Það endurspeglar hve mikið svigrúm er fyrir spillingu og mismun og þess vegna er þetta mjög slæmt.

Það yrði náttúrlega ekki með skipulögðum uppboðum en aftur á móti fáum við með uppboði fram eitt gengi og með þessari hefðbundnu gengisskráningu sem við erum með núna fáum við fram annað gengi. Þá er stutt í hluti eins og bátagengi, innflutningsgengi, útflutningsgengi og að við vefjum okkur inn í haftaárin aftur. Aftur á móti er ég alls ekki á móti því að skoða uppboð ef þau hjálpa við að losa gjaldeyrishöftin og lýsi mig alls ekki mótfallinn því. Auðvitað eru þó gallar við það eins og ég hef bent á en það þyrfti að skoða. Almennt tel ég að þetta plan sem við höfum sett fram um hvernig losa megi gjaldeyrishöftin sé raunhæft (Forseti hringir.) og kæmi þá væntanlega í staðinn fyrir uppboð og annað slíkt.



[14:55]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni ágætis framsetningu á þessu vandamáli sem við stöndum frammi fyrir sem er efnahagsmál. Mig langar að spyrja hann að tvennu. Annars vegar varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og það prógramm allt og þau vandræði sem við erum í vegna þessara svokölluðu hræddu krónueigenda. Vandamálið er skiljanlegt en það sem er á bak við það hefur ekki enn komið upp á yfirborðið og það er hverjir þessir hræddu krónueigendur eru. Þar erum við enn þá föst í viðjum ársins 2007 þar sem enginn vissi hver átti hvað, hver gerði hvað og hvenær. Það er ekki lengra síðan en tveir dagar að forsvarsmenn Íslandsbanka reyndu á fundi efnahags- og skattanefndar að sannfæra nefndina um að þessir krónueigendur sem áttu svo afskaplega bágt vegna þess að þeir þurftu að borga aflandsskatt af útflutningi á gjaldeyri væru ítalskir og kínverskir bændur. Þegar síðan var gengið á þá höfðu þeir náttúrlega ekki hugmynd um hverjir þessir hræddu krónueigendur voru.

Ég vil fá upp á yfirborðið, og það er ágætt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er hér sem og fjármálaráðherra, hverjir þessir hræddu krónueigendur eru. Þessir krónubréfaútgefendur hafa oft verið taldir vera íslenskir aðilar með heimilisfesti erlendis. Ef svo er þarf það að koma upp á yfirborðið því þetta fólk veldur stórfelldu tjóni á íslensku efnahagslífi. Það er svo sem ekkert nýtt að íslenskir kapítalistar valdi stórfelldu tjóni á íslensku efnahagslífi en er ekki hv. þingmaður sammála mér um að það þurfi að upplýsa hverjir eru á bak við þetta?



[14:57]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er rétt að einhverjir eiga þessar hræddu krónur og einhverjir vilja taka sitt fjármagn úr landi. Þannig er mál með vexti að þetta kom mikið til út af svokölluðum jöklabréfum þar sem menn stunduðu vaxtamunaviðskipti. Það liggur nokkuð ljóst fyrir hvaða bankar það voru sem tóku þátt í því, m.a. Alþjóðabankinn sem mér skilst að hv. þingmaður hafi einhvern tímann unnið fyrir þannig að það eru vinnuveitendur hans sem eiga þessar krónur.

Almennt séð fóru um 70% af þessum svokölluðu jöklabréfum í gegnum kanadískt fyrirtæki og voru seld í gegnum Credit Suisse. Eins og þetta hefur verið lagt á borð fyrir menn voru þetta hefðbundnir smáfjárfestar sem tóku smáskammta inn í portfólíuna hjá sér en síðan voru náttúrlega stóru bankarnir eins og Alþjóðabankinn að ávaxta sína peninga á hagkvæman hátt með því að skipta vöxtum með íslensku bönkunum. Ég hef ekki hugmynd hvort sögur um að Íslendingar eigi hluta af þessu eigi við rök að styðjast. Þetta hefur maður heyrt meira í samsæriskenningakreðsunum en í bankakreðsunum og mér er algerlega ómögulegt að svara þeirri spurningu. Ég held þó að þetta séu ekki vondir kapítalistar frekar en eitthvað annað.



[14:59]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, þetta er kannski ekki spurning um vonda og góða heldur að fólk viti við hverja er að eiga í þessu máli. Eins og hv. þingmaður sagði eru þetta að nafninu til erlend fyrirtæki, erlendir bankar og jafnvel Alþjóðabankinn en enginn veit aftur á móti hver er á bak við það.

Annað sem mig langaði að inna hv. þingmann eftir er að það er mikið talað um skattlagningu og hvernig best sé að styrkja skattstofna ríkissjóðs án þess að setja allt á hliðina. Ég hef lagt fram, óformlega enn þá að vísu, ákveðnar hugmyndir um algera uppstokkun og endurskipulagningu á þeim aðferðum sem notaðar eru við skattlagningu á fyrirtæki. Eins og menn væntanlega vita margir hverjir er þetta endalaus eltingaleikur, að reyna að elta hagnað í fyrirtækjum til að skattleggja. Fyrirtækin kaupa sér einfaldlega 20 skrifborð í staðinn fyrir tvö til þess að sleppa við skattlagningu sem leiðir til óhagkvæmra fjárfestinga. Nú er lag að mínu mati að stokka þetta kerfi upp frá grunni. Eitt af því sem mig langar til að beina til hv þingmanns er hvort hann hafi einhverjar hugmyndir sjálfur um algera uppstokkun á þessu fyrirbæri þar sem þessi mál yrðu færð í einfaldara horf og fyrirtækjunum gert hægara um vik og auðveldara að ráða sínum málum sjálf með því að þurfa ekki að vera alltaf í þessum endalausa feluleik og bókhaldsleik. Þessi leikur veldur miklum tilkostnaði, einnig hjá ríkinu þar sem verið er að eltast við peninga sem hefðu farið í skatta eða skyldur en fóru í staðinn í skrifborð. Þessi eltingaleikur er búinn að standa yfir allt of lengi og skilar í rauninni ekki því sem efni standa til. Þess vegna vildi ég heyra meira frá hv. þingmanni um hvað væri heppilegt að gera í þeim málum.



[15:01]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef heyrt þessa hugmynd hv. þingmanns áður og finnst hún koma úr óvæntri átt. Þetta er mjög róttæk hugmynd og hún á raunverulega heima yst í frjálshyggjunni, eða kannski er þetta anarkismi, ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. Ég held að það sé allt í lagi að skoða að skattleggja einkafyrirtæki, hvort sem eigandi og fyrirtæki er þá skattlagt saman með veltusköttum eða einhverju öðru, en ég held að varðandi fyrirtæki á almennum markaði verði alltaf að vera einhvers konar yfirlit yfir hagnað, kostnað og annað slíkt til þess að hlutabréfaverð geti myndast. Án þess að ég hafi mikið spáð í þetta.

Ég hef aftur á móti hugsað mikið um bókhaldsreglur fyrirtækja í kjölfar þessa hruns og skrifaði m.a. fræðiritgerð um það sem birtist held ég í nóvember á síðasta ári. Þar leiddi ég líkur að því að partur af því hvernig fór sé vegna þess hvernig alþjóðlegar reikningsskilareglur eru, hvernig verðmæti eigna er bókfært og hvernig farið er með svokallaða velvild eða góðvild í reikningum fyrirtækja. Þar held ég að sé að leita hluta skýringanna fyrir hruninu. Auðvitað voru þær miklu fleiri en að bókhaldsreglurnar hafi raunverulega drifið áfram (Forseti hringir.) hegðun fyrirtækjastjórnendanna.



[15:03]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi, eins og kom fram í andsvörum mínum við hv. þm. Bjarna Benediktsson fyrr í dag, þakka fyrir þær tillögur sem hér eru lagðar fram. Um þær má segja að þarna er eitt og annað sem má teljast raunhæft, þótt það sé ekki beinlínis margt nýtt í þessum tillögum. Flest hefur ýmist komið fram áður af hálfu Sjálfstæðisflokksins eða frá öðrum í umræðu um efnahagsmál, svo mikil sem hún hefur verið á síðustu vikum og mánuðum. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að við í efnahags- og skattanefnd munum taka þessar tillögur til vandlegrar umfjöllunar, ekki síst þann þátt sem lýtur að skattlagningu lífeyrisiðgjalda eða skattalegri meðferð á lífeyrisþættinum hér í samfélaginu. Ég held að þær hugmyndir séu þess eðlis að þær kalli á vandaða rýni, að við drögum fram hér á vettvangi þingsins kosti og galla við það að fara í einhvers konar skattlagningu á því sviði, hvort sem það er með sérstakri áherslu á séreignarlífeyrissparnaðinn eins og mér þótti formaður Sjálfstæðisflokksins boða við upphaf umræðunnar, og var kannski nokkur áherslubreyting frá því þegar tillögurnar komu fyrst fram, eða hvort menn líta til annarra aðferða sem aðilar vinnumarkaðarins hafa fremur nefnt frá því þessar hugmyndir komu fyrst fram.

Það gríðarlega mikla verkefni sem við stöndum frammi fyrir í tekjuöflunarmálum ríkissjóðs er einfaldlega með þeim hætti að hver einasta tillaga eða ábending um eitthvað sem skoða eigi í því efni er mikilvæg og við eigum að fara vel og vandlega yfir alla kosti og galla, ekki síst þar sem fyrir liggur að eitthvað er að sækja. Sannarlega er það í lífeyrissparnaðinum okkar því fyrir utan samtryggingarsjóðina — sem við hljótum auðvitað að leggja mjög mikla áherslu á að standa vörð um og gæta vel að því samtryggingarsjóðirnir í landinu eru sú stoð sem stendur uppi í íslensku samfélagi eftir hrunið og gríðarlega mikinn styrk er í þá að sækja. Þarna eru miklir fjármunir annars vegar og í séreignarsjóðunum hafa þeir til að mynda nýst í viðbrögðum við hruninu, með að vísu óverulegum heimildum en heimildum þó til fólks til að taka út úr sjóðunum og bregðast að einhverju leyti við hruninu. Úttekt upp á um eina millj. króna hefur líka skilað umtalsverðum skatttekjum í ríkissjóð sem ekki hafði áður verið gert ráð fyrir og hjálpar okkur við að rétta af núna í ár.

Ég fagna því líka að Sjálfstæðisflokkurinn skuli leggja áherslu á áframhaldandi samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég held að allir séu sammála um að áætlunin kemur til endurskoðunar. Þetta er auðvitað áætlun okkar, samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ýmsa þætti þarf að rýna í og seðlabankastjóri hefur m.a. nýverið fjallað um að það geti vel verið ástæða til að endurskoða fjárhæð lánanna, enda var áætlunin auðvitað upphaflega gerð á grundvelli frekar ófullkominna gagna og upplýsinga um stöðuna hér. Ýmislegt hefur breyst frá því hún var gerð og full ástæða er til þess að fara yfir það og skoða allar tillögur í því efni.

Mér finnst mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn stígi svona ákveðið fram í þessari umræðu, sem hefur undanfarnar vikur á köflum verið mjög skringileg, og taki af öll tvímæli um að hann telji ákjósanlegt að við höldum áfram samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og að það sé mikilvægur þáttur í því að byggja upp trúverðugleika okkar. Sumir hafa í þessari umræðu talað eins og að við getum bara látið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn róa og það sé ekkert mál. Flestir vita að það er mikilvægur þáttur í að byggja upp traust og trúverðugleika á Íslandi að við gerum það í samstarfi við þjóðir heims, í samstarfi við traustan og trúverðugan aðila sem býr að sérþekkingu sem er almennt viðurkennd. Það mun hjálpa okkur í leiðangrinum þó að við eigum auðvitað að hafa okkar eigin skoðanir á áætluninni, rökræða við sjóðinn um ýmis atriði, halda fram okkar sjónarmiðum o.s.frv. þá skiptir máli og væri ákjósanlegt að gera það í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Því er gott að heyra þessar áherslur hér. Mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn skera sig nokkuð úr í stjórnarandstöðunni með því að taka þessa ábyrgu afstöðu og falla ekki í þann popúlisma að benda á vonda menn í útlöndum í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem gera okkur lífið óbærilegt. Hér varð hrun af okkar eigin völdum og það er verkefni okkar að vinna úr því. Til þess vinnum við að áætlun í samstarfi við erlenda aðila, um leið og við höldum því auðvitað til haga að það á að vera löngu búið að endurskoða þessa áætlun í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er mjög gagnrýnisvert að málið hafi ekki komið þar á dagskrá stjórnar fyrir löngu síðan.

Varðandi umfjöllunina um skattamálin yfir höfuð hjá Sjálfstæðisflokknum þykir mér skorta nokkuð á raunsæi, satt að segja, og hugmyndirnar að hluta til vera eins og við þekktum fyrir 2007, að við eigum að lifa af eintómum uppgangi og einhverri bólu. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Það eru ekki til neinar töfralausnir í tekjuöflun ríkissjóðs þótt það sé sjálfsagt að skoða lífeyrisþátt málsins. Skattar voru lækkaðir óhóflega í stjórnartíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Það er einsýnt að við munum ekki standa undir því þjónustustigi sem við viljum hafa og ég held að það sé þverpólitísk samstaða um að það sé tiltölulega augljóst að flestar þær skattalækkanir sem við höfum ráðist í á síðustu árum þurfi að ganga til baka. Um það er OECD t.d. sammála okkur. Ég held að það sé einfaldlega óraunsæi af hálfu Sjálfstæðisflokksins að hafna því að við þurfum að fara í þann leiðangur. Við getum svo að auki þurft að skoða aðra þætti eins og auðlindagjöld, umhverfisgjöld, lífeyrissjóðina eða hvað annað sem mönnum dettur í hug, en það er alveg klárt að ef við eigum að standa undir þeirri samfélagsþjónustu sem kallað er eftir þurfum við að afturkalla þær skattalækkanir sem orðið hafa á síðustu árum, því miður.

Við skulum hafa í huga að ríkissjóður ætlar sér ekki nema liðlega 27% af þjóðarkökunni á næsta ári, þ.e. rétt liðlega fjórðung. Það hlutfall varð nærri þriðjungur þegar bólan var sem stærst. Sannarlega er ríkissjóður því að herða mjög að sér en ég held að það sé óhjákvæmilegt að horfast í augu við að um árabil lifðum við Íslendingar því miður um efni fram og um of á væntingum um uppgang og bólur í framtíðinni. Okkur er nauðsynlegt að taka okkur tak í þeim efnum og stilla neyslu okkar í samræmi við þær tekjur sem við höfum. Hluti af því er að styrkja tekjustofna ríkissjóðs með því að afturkalla óraunhæfar skattalækkanir jafnhliða því sem við förum í niðurskurð.

Ég fagna því að Sjálfstæðisflokkurinn skuli taka svona eindregið undir þær tillögur um hagræðingu í ríkisrekstrinum sem hafa verið kynntar í fjárlagafrumvarpinu og treysti því að flokkurinn muni standa með ríkisstjórninni í þeirri erfiðu umræðu sem fram undan er um það efni. Það er sannarlega ekki létt verk að ráðast í þann samdrátt útgjalda sem nauðsynlegur er til þess að við færum tekjur okkar og gjöld nær hvort öðru.

Eins og ég hóf mál mitt á, virðulegi forseti, vil ég fyrst og fremst færa flutningsmönnum þakkir fyrir málefnaleg innlegg í þá mikilvægu umræðu sem við eigum fram undan og höfum verið í og vænti góðrar samvinnu við nefndarmenn í efnahags- og skattanefnd um hana.



[15:14]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir sitt innlegg og jafnframt þakka ég honum fyrir hlý orð í okkar garð.

Það er hárrétt hjá þingmanninum að því fylgir trúverðugleiki að vera í áætlun með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þegar svo er komið eins og fyrir okkur Íslendingum. Vandamálið í þessu öllu er þó að vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur verið misbeitt af þjóðum Evrópu, þar sem starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa ekki verið tilbúnir til þess að fara með afgreiðslu endurskoðunarinnar til stjórnarinnar af ótta við að hún verði felld, hefur tafist sú uppbygging á trúverðugleika sem þarf að eiga sér stað hér á Íslandi. Að einhverju leyti er því hugsanlegt að það sé farið að skemma fyrir okkur að vera í þessari áætlun fyrst að hún getur ekki lotið hefðbundnum lögmálum slíkra áætlana og ber að undirstrika það.

Það að óraunsæi sé falið í því að segja að nýta þurfi orkuna, að það beri vott um einhvers konar 2007-hugsunarhátt — það þarf svo sem ekki að finna nein djúp rök til þess að slá það út af borðinu vegna þess að það er náttúrlega bara ómerkileg aðför að (Forseti hringir.) hugmyndinni.



[15:16]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur misskilið mig ef hann telur að ég hafi á móti því að við Íslendingar nýtum orku í landinu. Það er langt í frá, auðvitað eigum við að nýta hana til atvinnuuppbyggingar og að því hef ég staðið bæði sem stjórnarmaður í Landsvirkjun og varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um langt árabil.

Ég vara hins vegar við því að við reynum að leysa vanda okkar í ríkisfjármálum í dag með því að ímynda okkur miklar framtíðartekjur og mikla uppsveiflu á næstu missirum og árum eða einhverja bólu. Við þurfum að taka ákveðin skref í veruleika dagsins í dag, tekjuöflun á grundvelli tekna okkar í dag, niðurskurð á grundvelli útgjalda okkar í dag, til að rétta af þann rekstur sem við erum í. Mér finnst það ekki raunsætt hjá Sjálfstæðisflokknum að vera ekki tilbúinn til að afturkalla þær óraunhæfu skattalækkanir sem farið var í á allra síðustu árum.

Af því að við erum að tala um atvinnulífið þá er það býsna einkennileg afstaða að ekki eigi að skila inn í þetta sameiginlega verkefni rétt eins og ætlast er til að lífeyrissjóðirnir geri. Ef við skoðum nýjustu úttekt OECD til að mynda á skattgreiðslum úr atvinnulífi sjáum við að hér er hlutfallið liðlega 2% af landsframleiðslu. Það er hvergi lægra í öllum löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Víðast er þetta 1% meira en í Noregi kannski 4–5 sinnum hærra hlutfall af landsframleiðslu en hér er. Það að fara í auðlinda-, orku- og umhverfisgjöld er því rétt að mjaka okkur í átt að því sem önnur ríki gera á því sviði. Mér finnst ekki raunsætt að vera ekki tilbúinn til að skattleggja neina þá tekjustofna sem við erum með í dag heldur vænta þess að við munum hafa tekjur fyrst og fremst af vexti (Forseti hringir.) á næstu árum.



[15:18]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna fengum við að sjá inn í hugskot hv. þingmanns hvað hann átti við með þessum sköttum og hver stuðningur hans er. Það er ljóst að þegar menn tala um skattlagningu orkufyrirtækjanna, eða réttara sagt orkunýtingarfyrirtækja eins og stóriðjunnar, getur maður ekki einn daginn talað eins og aðstoðarmaður fjármálaráðherra Indriði Þorláksson um að það sé engin arðsemi af þessu og ekkert sé á þessu að græða og hinn daginn um að það sé hægt að skattleggja þetta til djöfulsins vegna þess að það sé svo mikill hagnaður af þessu. Þetta gengur bara ekki upp.

Skattlagning á atvinnulíf á Íslandi er algerlega í molum fyrir utan örfá fyrirtæki sem eru í útflutningi og hagnast tímabundið á því hve gengi krónunnar er veikt, þessi málflutningur gengur ekki upp. Ef hann gengi upp værum við á algerum villigötum, þá væri ekkert að í þessu atvinnulífi. Ef ekkert væri að í þessu atvinnulífi á Íslandi mundi ég glaður taka undir: Jú, jú, við skulum bara skattleggja fyrirtækin. Við erum aftur á móti að hindra fyrirtækin í að fjárfesta og ráða til sín fólk með skattlagningu. Það er nákvæmlega sama hvað er sagt í sölum Alþingis, þetta lögmál gildir. Því meiri kostnaður sem fyrirtæki verða fyrir því minni fjárfesting verður og því ólíklegra er að þau fjárfesti. Þetta er engin 2007-speki. Venjulegt fólk skilur að ef kostnaður er hár fer það ekki út í fjárfestingu.



[15:20]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað er meðalhófið í öllum hlutum best og það þarf að fara gætilega í álögur í nýjum gjöldum og sköttum. Það verður að leitast við að finna breiða tekjustofna og sækja inn á þau svið í samfélaginu þar sem eru fjármunir og hagnaður og það er mikilvægt að ekki sé skattlagt í drep. Sannast sagna er mikilvægt að það sé skattlagt hóflega en það er mikilvægt að atvinnustarfsemi hagnist, það sé hagnaður í samfélaginu og hjólin drífist áfram.

Hins vegar held ég ekki að það sé ástæða til að við vermum neðsta sætið í skattlagningu á þessu sviði. Ég held að það sé eðlilegt að landsmenn við þessar aðstæður geri kröfu til þess að sem flestir aðilar í samfélaginu reyni að deila þessum byrðum. Ég vek athygli á því að þau gjöld sem gert er ráð fyrir að auðlindirnar skili skattgreiðendum gera að verkum að það þarf að fara í nærri 2,5% minni hækkun á tekjuskattinum á allt venjulegt vinnandi fólk í landinu en ella þyrfti. Rúmlega 2% af brúttótekjum allra landsmanna er hægt að hlífa bara með því að gera svipaðar kröfur og gert er í þeim ríkjum sem skemmst ganga í skattlagningu innan OECD.

Ég held því að hér sé sannarlega ekki verið að ganga óhóflega langt. Ég held að það sé nauðsynlegt að við höfum ákveðið raunsæi í þessari skattlagningarumræðu vegna þess að við rekum ríkissjóð ekki með afgangi nema við séum tilbúin til að skattleggja þá tekjustrauma sem eru í dag, þó að auðvitað sé ekki nema fallegt að láta sig dreyma um nýja tekjustrauma og nýjar skatttekjur í framtíðinni.



[15:23]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að hv. þm. Helgi Hjörvar gerir sér grein fyrir því að arðbær atvinnustarfsemi í landinu er nauðsynleg til að atvinnulíf þrífist yfir höfuð. Þetta er grundvallaratriði í rekstri fyrirtækja. Það er nákvæmlega nálgun okkar sjálfstæðismanna og felst í okkar tillögum, að efla atvinnulíf okkar þannig að það geti skilað meiri sköttum og meiri og öflugri atvinnustarfsemi en í dag, meiri en þær tillögur sem ríkisstjórnin ber á borð fyrir okkur í sínum tillögum í fjárlagafrumvarpinu.

Ég er ánægður að heyra að ríkisstjórnarflokkarnir virðast vera farnir að hlusta á Sjálfstæðisflokkinn. Það má segja að við séum búin að stappa þessar tillögur vel ofan í þá. Þetta er orðið eins og barnamatur og tiltölulega auðvelt fyrir þau að innbyrða. Þau virðast átta sig á að það er eitthvað til í því sem við höfum sagt frá því fyrr á þessu ári og þótt fyrr hefði verið því að ef við hefðum farið t.d. þessa skattlagningarleið á lífeyrissjóðina eins og við lögðum til í upphafi frá 1. júní væri staðan kannski allt önnur. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra hefði getað þegið kannski hátt í 20 milljarða sem kæmu í kassann á þessu ári.

Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því í þessari umræðu að sú leið snýr að því að falla frá þeim skattlagningarhugmyndum sem ríkisstjórnin hefur áform um. Hún snýst um að leysa málin með allt annarri nálgun og allt öðrum hætti, með því að breikka skattstofnana, skapa atvinnu, leggja ekki auknar álögur á heimilin og fyrirtækin í landinu og skapa von og trú á framtíðina. Um það snýst þetta en ekki aukna skattheimtu á einstaklinga og fyrirtæki við þær erfiðu aðstæður (Forseti hringir.) sem mun hefta allan framgang á næstu árum ef af verður.



[15:25]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þurfi engan barnamat. Þegar menn koma með raunhæfar hugmyndir og málefnalega umræðu á þessum vettvangi er því auðvitað vel tekið þó að við séum, eins og þingmaðurinn dregur fram, ósammála um skattalegan þátt málsins. Þar gengur Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega skemmra en raunhæft er og sýnir að mínu viti ekki nægilega ábyrgð í ríkisfjármálum. Auðvitað er ágætt að keppa að því að fá ný verkefni og nýjar tekjur en þar er fátt í hendi. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við veruleikann eins og hann er, skapa tekjustofna af þeim veruleika sem er í dag og við þurfum að gera það með hóflegum hætti þannig að það hrekji ekki frá fjárfestingu. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Ég held þó að þær hugmyndir sem hafa verið reifaðar, til að mynda af hæstv. fjármálaráðherra hvað varðar orkuskattinn, um 20–30 aura á kílóvattstundina, séu ekki af þeirri stærðargráðu að það muni hrekja frá fjárfestingu. Ég held að t.d. sveiflurnar í launagjöldum stóriðjufyrirtækjanna hafi verið umtalsvert meiri á síðustu missirum þannig að þetta séu ekki neinar stærðargráður í þeim rekstri að það þurfi að hrekja menn frá því að fjárfesta í landinu. Margt hefur verið hagfellt í þróuninni hér fyrir þá, öfugt við ýmsar aðrar greinar.

Megináhersla mín í þessu er að við fórum í óraunsæjar skattalækkanir og það er grundvallaratriði í ábyrgri afstöðu í ríkisfjármálum að eftir þetta hrun þurfum við að afturkalla þær að mestu. Reyndar er það leið sem OECD hefur til að mynda bent okkur á og ég held að flestir sem fara vandlega ofan í ríkisfjármálin komist að raun um að hún sé einfaldlega óhjákvæmileg því það er ekki bara hægt að tala um fugla í skógi.



[15:27]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. OECD hefur einmitt sagt að Íslendingar hafi það forskot að vera ríkt af náttúruauðlindum og á grundvelli þeirra munum við ná viðspyrnu í samfélaginu aftur. Þó er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það er fátt í hendi í þeim efnum og auðveldara um að tala en í að komast að fá fyrirtæki til að koma til landsins og fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Dæmin hafa sýnt okkur það í gegnum árin. Við höfum ekki farið einfalda leið við að ná inn öflugum fyrirtækjum til samstarfs við okkur og það gerir þessa leið ríkisstjórnarinnar svo hættulega. Einmitt í þessari miklu baráttu og samkeppni sem við erum um þessi fyrirtæki er sú leið til þess fallin að fæla þau frá.

Við Íslendingar höfum haft ákveðið forskot gagnvart þessum fyrirtækjum sem felst fyrst og fremst í þeim stöðugleika sem hér hefur ríkt og því að fyrirtækin geta treyst því að við séum með umhverfi sem er ekki mikið rót á. Það höfum við haft umfram t.d. lönd í Suður-Ameríku og Afríku sem eru kannski rík að náttúruauðlindum að mörgu leyti en hafa ekki boðið upp á þann stöðugleika sem þetta land hefur boðið upp á fram að þessu. Einmitt það er núna að setja okkur við sama borð og þessar þjóðir og þá fer mælikvarðinn að vega þyngra sem vinnur í ódýrara vinnuafli og jafnvel ódýrari orku en við getum boðið hér. Orkuskattur eins og hann er orðaður er algerlega út úr kortinu við þær aðstæður sem hér eru núna. Við þurfum umfram allt að halda því samkeppnisforskoti sem við höfum haft og öll barátta okkar á að snúast um það. Leið okkar sjálfstæðismanna, tillögur okkar í þessum efnahagsmálum, snýr einmitt að því að halda stöðugleika gagnvart vinnumarkaðnum, (Forseti hringir.) aðilum vinnumarkaðarins og þeim fyrirtækjum sem gjarnan vilja leita hingað.



[15:29]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að fátt er í hendi í þessum efnum. Ég held að ein 8 ár séu síðan við tókum fyrstu skóflustunguna að Búðarhálsvirkjun, svo dæmi sé nefnt, og enn eru engar framkvæmdir hafnar þar þótt menn tali mikið um orku og stóriðju. Ég held að við eigum aðeins að íhuga hve gjarnir stjórnmálamenn eru á að stíga upp og kalla á stóriðju þegar á bjátar í atvinnumálum. Ég held raunar að það skipti miklu meira máli og sé miklu farsælla að við stjórnmálamenn einbeitum okkur að því að skapa almenn skilyrði fyrir atvinnulífið í landinu í stað þess að ákveða hvar fjárfestingarnar eigi að vera og að þær eigi að vera í einni grein. Ég held að þeir sem eru úti á vettvangi atvinnulífsins á degi hverjum séu miklu betur til þess fallnir en við sem hér sitjum að velja skynsamleg fjárfestingarverkefni og skynsamlegar atvinnugreinar til að ráðast í. Ég held að þar sé útlitið alls ekki eins dökkt og hv. þingmaður vill vera láta.

Við fáum betri tölur um atvinnustigið nú en við áttum von á. Við fáum fréttir af nýjum fjárfestingarverkefnum, t.d. í heilsugeiranum, úr kjördæmi hv. þingmanns í Mosfellsbænum, úr umhverfistækni í nýjum fjárfestingum úti í Svartsengi. Við fáum í dag væntanlega kröfuhafa sem taka yfir Íslandsbanka en það er gríðarlega mikilvægur þáttur í að búa íslensku atvinnulífi bakhjarla, fjármálastofnanir sem eru í færum til að fjármagna ný verkefni á ýmsum sviðum. Það er í raun og veru það sem við eigum að leggja höfuðáherslu á. Þar með þurfum við auðvitað að ljúka Icesave-málinu og koma samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í gegnum endurskoðun svo við getum lækkað vextina og knúið enn fremur öll hjól atvinnulífsins í stað þess að kalla bara „stóriðja, stóriðja“ því það er, eins og hv. þingmaður segir, fugl í skógi.



[15:31]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að fá að skjótast inn í umræðuna því ég hef því miður ekki aðstöðu til að vera hér í allan dag en ég fagna því að sjálfsögðu að fá þessar tillögur sjálfstæðismanna á borðið. Það er alltaf gagnlegt að fá hugmyndir fram og gefa tilefni til að þær séu ræddar og skoðaðar. Ég held að það sé að vísu ástæðulaust hjá þeim sem að þeim standa að láta eins og ekkert annað sé til staðar í þessum efnum. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kvartaði yfir því að engar heildaráætlanir lægju fyrir. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður hlýtur að hafa verið annars staðar þegar lögð var fram skýrsla á þinginu sl. vor um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013. Það plagg á sér ekki hliðstæður í þingsögunni, að ég hygg, þar sem rammi um fjárlög næstu ára var lagður og þau markmið í aðhaldsaðgerðum, sparnaði og tekjuöflun sem við þyrftum að ná fram til að ná tökum á ríkisbúskapnum og koma honum í jafnvægi á næstu árum. Innan þess ramma er unnið og það er reyndar athyglisvert að ef maður tekur tillögur sjálfstæðismanna falla þær að mestu leyti inn í hann. Þar virðist vera um svipuð áform að ræða í sambandi við sparnað í ríkisrekstrinum og reyndar afkomubata ríkissjóðs þar sem talað er um 80–90 milljarða kr. á næsta ári. Sú tala er mjög hliðstæð þeirri sem fjárlagafrumvarpið byggir á, þ.e. 95 milljarða kr. afkomubata milli áranna 2009 og 2010.

Þegar tillögur sjálfstæðismanna eru skoðaðar sé ég að varðandi hagræðingarmarkmið í ríkisrekstrinum er þar mjög svipuð nálgun á ferðinni og sú sem er þegar til staðar og unnið er samkvæmt frá og með sparnaðaraðgerðunum sl. vor. Þar var að vísu um að ræða 5% í grunnrekstri mennta- og félagsþjónustunnar, 7% í menntun og 10% í öðrum þáttum. Markmiðið er að spara útgjöld upp á 35–40 milljarða miðað við fjárlög þessa árs sem er svipað eða reyndar ívið minna en fjárlagafrumvarpið sjálft gerir ráð fyrir. Meginmunurinn er kannski sá að sjálfstæðismenn telja sig geta náð þessum afkomubata ríkissjóðs án þess að hækka skatta. Það byggir á tvennu. Stóra trixið í því, ef svo má að orði komast, er tvíþætt. Annars vegar að taka að láni framtíðartekjur ríkis og sveitarfélaga úr væntum skatttekjum lífeyriskerfisins upp á 30–40 milljarða og hins vegar að gefa sér fyrir fram að auknar framkvæmdir og fleira slíkt gefi fyrir fram í hendi 15 milljarða kr. tekjuauka á næsta ári. Þetta eru athyglisverðar hugmyndir en þær eru innan þessa ramma þegar betur er að gáð.

Varðandi lífeyrissjóðahugmyndina fagna ég því að tillagan er sett fram með opnari hætti en sjálfstæðismenn gerðu sl. vor. Í raun og veru er skilið eftir opið og velt upp að þar megi hugsanlega fara mismunandi leiðir til að sækja þetta fé inn í lífeyrissjóðakerfið en um það snýst þetta. Mér finnst það vera allrar skoðunar vert og í raun og veru er þegar í gangi ákveðin aðgerð í þeim efnum að heimila útgreiðslu séreignarsparnaðar, aðgerð sem gengur vel og mun fleiri hafa nýtt sér en ráð var fyrir gert í byrjun. Um eða yfir 40 þúsund manns nýta sér eða hafa sótt um það úrræði. Ég hef fengið tölvupósta frá fjölmörgu fólki sem þakkar fyrir þetta úrræði og upplýsir að það hafi breytt miklu fyrir það til að takast á við sín fjármál og fleytt þeim í gegnum erfiðleikana. Fleiri en maður gat átt von á nýta sér ekki bara þennan möguleika í daglegum rekstri eða eyðslu heldur beinlínis nýta tækifærið til að lækka skuldir og búa þannig í haginn fyrir sig og komast í gegnum erfiðleikana. Mér finnst sjálfsagt mál að skoða hvort framhald geti orðið á þeirri aðgerð. Hún skilar tekjum svo nemur allt að sex milljörðum fyrir ríkið og þremur milljörðum fyrir sveitarfélögin miðað við það umfang sem nú er á árinu 2009 og inn á árið 2010.

Ég held hins vegar að menn þurfi að hugsa sig mjög vel um áður en farið verði í þá grundvallarkerfisbreytingu á skattalegri meðferð lífeyrisgreiðslna sem sjálfstæðismenn lögðu til í vor. Þar er að mjög mörgu að hyggja. Þá eru menn í raun fyrst og fremst að taka að láni væntar skatttekjur ríkis og sveitarfélaga í framtíðinni. Menn draga úr sparnaðinum og það er vissulega viðurkennt í tillögunni, ég sé það. Þetta hefur umtalsverð áhrif. Þetta eru stærðir af því tagi í hagkerfinu að það þarf að huga vel að því hvað þá gerist. Þá hægir auðvitað á lífeyrissjóðsuppbyggingunni og það þarf að hyggja að aldurssamsetningu þjóðarinnar og því eðli kerfisins að hver kynslóð taki sparnaðinn með sér og eigi hann til staðar þegar þar að kemur. Þessi áhrif á væntar framtíðartekjur ríkis og sveitarfélaga eru auðvitað eitt skærasta ljósið í skammdeginu í þessum efnum þegar við horfum til þess hvernig ríki og sveitarfélög á komandi árum koma til með að axla skuldir sínar og greiða þær niður. Þá eru þessar væntu og auknu tekjur ríkis og sveitarfélaga ár frá ári kannski einn helsti styrkur kerfisins.

Í þriðja lagi er uppbygging á lífeyrissjóðakerfinu ávísun á sparnað í útgjöldum bótakerfanna í vaxandi mæli á komandi árum þannig að það þarf að hyggja að mjög mörgum þáttum. Þótt erfiðleikarnir séu miklir í núinu og eðlilegt sé að leita leiða sem hafa í för með sér minni sársauka en skattahækkanir sem sjálfstæðismenn eru ekki mjög hrifnir af þá þarf engu að síður að hugsa til framtíðar og velta vöngum yfir því hvaða afleiðingar kerfisbreytingin sem slík hefur. Það má heldur ekki taka neina áhættu með því að rjúfa þann sáttmála kynslóðanna sem í raun er innbyggður í lífeyrissjóðakerfið. Við verðum að hafa fullvissu fyrir því ef við förum þá leið að gera skil í kerfinu og skipta því upp, því það yrði að gera og það er viðamikil kerfisbreyting, að við gætum síðan staðið við fyrirheitin um að útgreiðslurnar yrðu skattfrjálsar þegar þar að kemur. Það væri ekki gaman ef svo færi eftir sem áður hjá okkur að menn teldu sig ekki hafa ráð á því þegar að því kæmi að hverfa ætti frá sköttuðu útgreiðslunum yfir í hinar skattfrjálsu í fyllingu tímans

Hvort lífeyrissjóðirnir geta með öðrum hætti, t.d. eins og þeim sem hér er bent á, að skoða það að færa fram og greiða út væntar skatttekjur séreignarsparnaðarhlutans er ein möguleg leið að sjálfsögðu. Þar eru miklir fjármunir á ferð. Auðvitað er ekkert óeðlilegt að velta þá upp möguleikunum sem einfaldlega eru fólgnir í því að spyrja spurningarinnar: Höfum við ráð á jafnmikilli og hraðri uppbyggingu í gegnum þetta erfiðleikatímabil og er í gangi í kerfinu í dag, t.d. með því að fella niður skattfrelsi séreignarsparnaðarins á báðar hliðar þannig að þeir peningar kæmu þá til ráðstöfunar. Það yki kaupmátt og skatttekjur en þeir sem vildu engu að síður leggja til hliðar gætu áfram gert það með frjálsum hætti en án skattfrelsis.

Það má líka velta fyrir sér áhrifunum af því að lækka einfaldlega lágmarksskyldusparnaðinn. Hvert prósentustig í inngreiðslum setur mikla fjármuni í umferð, 7 milljarða kr. hið minnsta, og af því leiðir kaupmáttaráhrif og skattáhrif. Ýmsar leiðir eru til í þessum efnum, jafnvel að fjármagnstekjuskattur kæmi á ávöxtunarhluta lífeyrissjóðanna eins og sums staðar er. Allt þetta finnst mér geta komið til skoðunar ef menn fara inn á þessa braut á annað borð. Að sjálfsögðu er eðlilegt að lífeyrissjóðirnir séu hafðir í huga, jafnstórir og mikilvægir og þeir eru í þessum efnum.

Margt annað í þessari tillögu er hliðstætt því sem er í gangi hvort eð er. Hér er fjallað um skuldavanda heimilanna. Kynntar hafa verið ráðstafanir sem koma á borð þingmanna innan skamms. Hér er rætt um gjaldeyrishöftin og hvernig eigi að afnema þau. Þar hafa ýmsar leiðir verið skoðaðar og ákveðin áætlun er í gangi. Menn tala um mikilvægi þess að lækka vexti og við vitum mörg hver hvað þarf til þess.

Varðandi áherslur á framkvæmdir og að halda uppi eftirspurn í samfélaginu er það auðvitað það sem við vildum. Ef ríkissjóður og sveitarfélög væru fær um að standa fyrir umtalsverðum hvetjandi aðgerðum við þessar aðstæður þá væri það hið æskilega en þannig er staðan ekki beinlínis. Þess vegna eru í gangi viðræður við lífeyrissjóðina um að þeir komi að fjármögnun ýmissa framkvæmda til þess að ríki og sveitarfélög geti dregið sig meira til baka, sinnt sínum brýnustu þjónustuverkefnum og beint kröftum sínum að því en aðrir aðilar leggi þá sitt af mörkum til að halda uppi eftirspurn og framkvæmdum.

Ég tel aðeins einn umtalsverðan veikleika vera í þessum áherslum Sjálfstæðisflokksins og það er trú þeirra á að fáar stórar framkvæmdir geti leyst þennan vanda. Ég held að við megum ekki missa sjónar af því að mikilvægast af öllu í endurreisninni er að hið almenna atvinnulíf, nýsköpun og þróun á fjárfestingum í því á breiðum og almennum grundvelli komist í gang. Sem betur fer eru ýmsir góðir hlutir að gerast í útflutnings- og samkeppnisgreinum, ferðaþjónustu, matvælaiðnaði, framleiðsluiðnaði og fjölmörgum fleiri sviðum. Satt best að segja verð ég (Forseti hringir.) bjartsýnni með hverjum degi sem líður eftir því sem ég fæ fleiri góðar fréttir úr þeirri átt.



[15:42]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessa ræðu. Ég er sérstaklega ánægður með að hann virðist ekki hafa fundið neitt gat í röksemdafærslu okkar sjálfstæðismanna. Þetta var meira almennt rövl. (Fjmrh.: Almennt hvað?)

Það sem þessi áætlun okkar gengur út á — hún er þríþætt. Hún gengur út á skuldastöðu heimilanna, ríkisfjármálin og hagstjórnina og mestu púðri var eytt í ríkisfjármálin. Sú áætlun sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram fyrir skemmstu byggir á áætlun AGS sem hæstv. fjármálaráðherra kom hvergi nálægt. Það var gert í annarri ríkisstjórn sem hann var ekki í.

Hvað varðar lífeyrissjóðahugmyndina er ágætt að fara yfir kosti og galla hennar. Það er ljóst að tekjutengingar í framtíðinni á bótaflokkum (Forseti hringir.) munu minnka þörf ríkisins fyrir skatttekjur þannig að það kemur hvert upp á móti öðru eftir því sem tekjur frá lífeyrissjóðum aukast.



[15:43]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef sprenglærður sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í þessum málum kallar mitt innlegg í umræðuna almennt rövl þá sé ég ekki ástæðu til að þreyta menn meira á slíku.



[15:44]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nota þá þetta síðara andsvar mitt til að útskýra betur hvað ég á við með hvernig tekjutengingar bóta leiða til þess að skattþörf ríkisins minnkar í framtíðinni og þar af leiðandi þessa helstu gagnrýni hæstv. fjármálaráðherra á að við séum að taka skatttekjur af framtíðinni og færa þær hingað, sem er rétt, og það muni geta leitt til vandamála í framtíðinni. Það er ekki rétt út af tekjutengingunum. Megnið af tekjum eldra fólks í framtíðinni mun koma af lífeyrissjóðunum en ekki úr almannatryggingakerfinu eins og kannski er núna. Almannatryggingakerfið vegna tekjutenginganna mun hverfa og þar með þörfin fyrir skatta.



[15:45]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Það skiptir miklu máli almennt upp á að við hugum að því að reyna að róa í sömu áttina, að koma íslensku samfélagi á lappirnar.

Margt athyglisvert kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Mér finnst hann ekki fetta fingur út í mörg atriði en eðlilega er hann með sínar vangaveltur og pólitísku skoðanir einnig þegar kemur að nálgun á viðfangsefnið.

Ég hef nokkrar spurningar til hæstv. fjármálaráðherra varðandi afstöðu til ákveðinna þátta í frumvarpinu. Ég spyr: Í ljósi þess að flokkarnir sem og frjáls félagasamtök eins og hagsmunasamtök heimilanna og fleiri hafa mismunandi skoðun á því hvernig eigi að leysa skuldavanda heimilanna, hefði ekki verið affarasælast að setja þverpólitískan hóp í þá vinnu til að ná sem breiðastri sátt um það sem okkur skiptir miklu máli í þessu efni? Þ.e. þverpólitískan hóp um skuldir heimilanna. Í öðru lagi, hvert er álit hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) á tillögum okkar um aukningu á aflamarki, þ.e. á þorski, ýsu og ufsa? Í síðara andsvari mínu mun ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra þeirra spurninga sem eftir sitja.



[15:46]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er vandlifað í þessum heimi. Ég reyndi að vera ákaflega jákvæður í garð þessarar tillögu sjálfstæðismanna vegna þess að mér finnst í sjálfu sér gott að menn leggi sínar hugmyndir á borðið. Sjálfur var ég oft í þeim sporum að flytja tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum á árunum 2005–2008 sem ég leyfði mér að halda fram að menn hefðu mátt veita meiri athygli á þeim tíma. Þar var lagt til að ýmislegt væri gert í sambandi við ofvöxt bankakerfisins og áhættu sem þar var að myndast en það var ekki gert með slæmum afleiðingum. Þær voru reyndar þykkari en þessi tillaga sjálfstæðismanna vel að merkja. Ég verð þó að hryggja þá með því að kannski var það misskilningur af minni hálfu að vera svona jákvæður. Ef á að túlka það þannig að ég skrifi upp á þetta sem skothelda áætlun hjá sjálfstæðismönnum þá geri ég það ekki. Í henni eru mörg göt að mínu mati. Ég tel t.d. að (ÞKG: Þú verður að ákveða hvort þú ert að svara honum eða mér.) það að gera þetta án nokkurrar tekjuöflunar sé algerlega óraunhæft.

Tillögurnar um skuldaaðgerðir heimilanna voru unnar af ráðherranefnd sem leitaði fanga víða og ræddi við fjölmarga hagsmunaaðila. Það var kannski ekki þverpólitískt samstarf í skilningnum milli stjórnar og stjórnarandstöðu inni á þingi en þetta var unnið með mjög mörgum aðilum og hagsmunasamtök heimilanna, aðilar vinnumarkaðarins og fjölmargir fleiri komu að því.

Varðandi aflamarkið held ég að menn verði að stíga varlega til jarðar. Ég get ekki gefið upp afstöðu mína til þess hvort á einu bretti eigi (Forseti hringir.) að hækka kvóta í öllum tegundum án tillits til ástands viðkomandi fiskstofna. Það er ekki hægt.



[15:48]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einmitt spurning um vinnubrögð. Það er einmitt það sem við sjálfstæðismenn lögðum áherslu á. Það skiptir máli að um þetta sé þverpólitísk samstaða, að þverpólitískur vinnuhópur fari í þetta gríðarlega mikla mál sem er skuldastaða heimilanna. Fyrir vikið er þetta allt í hökti og ég held að betur hefði farið á því að allir flokkar hefðu komið að þessari vinnu.

Gott og vel. Það er ljóst að við fjármálaráðherra erum algerlega ósammála um hvort hægt sé að fara leiðir til úrbóta sem sneiða hjá skattahækkunum. Við komum einmitt með leiðir sem sýna fram á að það er hægt að komast hjá skattahækkunum. Hluti af því er m.a. lífeyrissjóðaleiðin sem við höfum bent á en ekki síður að fara í mannaflsfrekar framkvæmdir og ég frábið mér tal um að það séu eingöngu álver. Við erum líka að tala um gagnaver, virkjanakosti í víðu samhengi fyrir íslenskt atvinnulíf. Þar skilur okkur að, sjálfstæðismenn og vinstri græna. Við viljum fara í framkvæmdir og stuðla að því að við höldum uppi atvinnulífinu með aðgerðum (Forseti hringir.) sem ýta undir það en kaffæra það ekki með skattahækkunum. Þar skilur okkur að, það er rétt.



[15:49]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil endurtaka að tillögur um úrbætur vegna skuldavanda heimila og reyndar fyrirtækja hafa auðvitað verið unnar í samráði við þá aðila sem þurfa að koma að framkvæmd þeirra. Þar hefur viðamesta samstarfið verið við banka og fjármálastofnanir, að laða alla þá aðila til samstarfs um aðgerðir sem væru samræmdar og samstilltar, sem og helstu hagsmunasamtök sem að þessu koma.

Ég held að það sé óraunsætt að halda því fram að hægt sé ná tökum á þessum vanda án þess að fara í tekjuöflunaraðgerðir. Mér finnst það líka dálítið athyglisvert sjónarmið ef menn telja að það sé bannorð, t.d. eitthvað af skattalækkunum frá umliðnum árum, gagnvart þeim aðilum sem eru þó í færum til að borga áfram skatta, eru með háar tekjur eða góða afkomu, að þeir geri það. Blönduð leið af þessu tagi. Það að taka að láni væntar skatttekjur framtíðarinnar og hlífa sér þar með við því í núinu er í raun og veru tillaga sjálfstæðismanna. Ég útiloka ekki að slíkt sé skoðað sem hluti af blandaðri lausn en ég held því miður að þetta sé ekki svo einfalt (Forseti hringir.) að það sé hægt að leysa vandann þannig á einu bretti.



[15:51]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera við þessa umræðu og taka þátt í henni. Ég tel að það sé mjög gott og þakka honum fyrir það. Hins vegar kemur það svo sem ekkert á óvart að ég og hæstv. ráðherra erum og verðum víst sammála um fátt sem viðkemur þessum efnum.

Hæstv. ráðherra sagði í sinni ræðu „að gera þetta án nokkurrar tekjuöflunar [er] algerlega óraunhæft“ og á þar við að við sjálfstæðismenn leggjum ekki til skattahækkanir við að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum og koma okkur út úr þessari kreppu. Þá spyr ég hæstv. ráðherra, af því að ég er með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir framan mig: Telur ráðherrann það vera fullkomlega raunhæft að ætla að fá 40 milljarða til viðbótar í skatttekjur af tekjuskatti einstaklinga þegar laun eru að lækka og tekjur almennt í þjóðfélaginu eru að lækka? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að ná því? Hin spurning mín til hæstv. ráðherra er: Telur hann raunhæft að fá 16 milljarða með nýjum orku- og auðlindasköttum sem samkvæmt frumvarpinu þyrftu 1 kr. á kílóvattstund? (Forseti hringir.) Hæstv. forsætisráðherra sló það út af borðinu í umræðum fyrr í dag.



[15:52]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það reyndar svo að það fyrsta sem Sjálfstæðisflokknum varð til eftir að áfallið dundi á í nóvember, desembermánuði sl. var að hækka skatta. Sagan geymir því dæmi um að Sjálfstæðisflokkurinn getur líka gert það. Tekjuskattur, útsvar, bensíngjöld, áfengi og tóbak og fleira var hækkað um síðustu áramót eins og kunnugt er. Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann. Það reyndist nú vera þannig að Sjálfstæðisflokkurinn gat líka hækkað skatta þegar hann stóð frammi fyrir alvöru málsins enda var hann þá í ríkisstjórn.

Ég held að það sé engin leið fær út úr þessu önnur en blönduð leið, að draga úr útgjöldum og spara eins og kostur er en afla líka tekna eftir því sem hægt er með viðráðanlegum og bærilegum hætti. Ég sagði í framsöguræðu minni um fjárlagafrumvarpið að hvorug leiðin ein og sér væri fær. Það er augljóslega hvorki hægt að gera þetta með einum saman niðurskurði eða einni saman tekjuöflun. Við getum rætt um blönduna, hlutföllin þarna á milli og hvernig við eigum að bera niður. Það er í mikið ráðist að ná þeim 95 milljarða kr. afkomubata milli ára í fjárlögum ríkisins sem ætlunin er að reyna að gera. (Forseti hringir.) Það reynir á þanþol til hins ýtrasta, bæði á niðurskurðar- og tekjuöflunarhlið.



[15:53]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að endurtaka spurningu mína til hæstv. ráðherra vegna þess að hann svaraði henni ekki: Telur hæstv. ráðherra raunhæft að fá 40 milljarða í auknar skatttekjur með tekjuskatti einstaklinga þegar á landinu eru lækkandi tekjur og atvinnuleysi? Með pólitíkinni sem Vinstri grænir reka í atvinnumálum? Hitt líka varðandi auðlindaskattinn. Mér fannst kostulegt að þegar ég spurði hæstv. ráðherra um skattahækkanir og skattapólitík ríkisstjórnarinnar og horfði til framtíðar fór hann að tala um fortíðina og hvað Sjálfstæðisflokkurinn gerði þegar hann var í ríkisstjórn. Ég held, virðulegi forseti, að þetta komi úr hörðustu átt vegna þess að ég veit ekki betur en sá ráðherra sem ég á hér orðaskipti við sé sá ráðherra sem stóð hér og æpti sig hásan yfir því hvað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri forpokuð og ömurleg stofnun. Núna gerir hann allt til að viðhalda samningnum við hann sem var komið af stað í fyrri ríkisstjórn, til að allrar sanngirni sé gætt. (Forseti hringir.) Auk þess veit ég ekki betur en hæstv. fjármálaráðherra sé á góðri leið með að fara með okkur öll inn í Evrópusambandið en ég vissi ekki til að hann væri stuðningsmaður þess.



[15:55]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ætli ég haldi mig ekki við umræðuefnið. Það er reyndar ekki svo að það eigi að ná 40 milljörðum að raungildi í viðbótartekjuöflun með tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti. Þegar verðlagsbreytingar og fleira er haft í huga er það nokkru lægri upphæð. Engu að síður er þar ráðist í mjög mikið. Já, svar mitt er að það sé raunhæft að það sé hægt að ná þessum árangri sem við ætlum okkur, bæði í sparnaði og tekjuöflun, en það er mjög erfitt. Það er gengið út á ystu þolmörk í báðum tilvikum og það verður mjög erfitt.

Ég minni líka á að þetta er stærsti og erfiðasti einstaki hjallinn á þessari vegferð. Ef við náum þessum árangri í ríkisfjármálum á árinu 2010 erum við búin að taka út langmesta sársaukann og þá verður framhaldið mun auðveldara. Það hefur ótvíræða kosti (Gripið fram í.) að takast á við þessa ábyrgð strax. Það hefur ótvíræða kosti, hv. sjálfstæðismenn, að velta þessum vanda ekki á undan sér en takast á við þessa ábyrgð strax, draga úr hallarekstrinum (Gripið fram í.) og uppsöfnun vaxtakostnaðar. (Forseti hringir.) Annars er ég að hugsa um, frú forseti, að afhenda sjálfstæðismönnum salinn. (Gripið fram í.)



[15:56]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að vera viðstaddur þessa umræðu og hans innlegg í hana líka. Ég met það mikils (Gripið fram í.) og ég meina það sem ég segi. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að eiga í þessum rökræðum vegna þess að það eru kostir og gallar við allar leiðir. Ég fagna því að ráðherrann skuli taka undir sumt af því sem við segjum en ég átti reyndar aldrei von á að hann tæki undir þær allar. Ég held þó að þetta skili okkur áfram veginn að vitrænni niðurstöðu. Það er ekki hægt að segja um marga aðra ráðherra í salnum að þeir hafi áhuga á því, þannig að það er virðingarvert hjá hæstv. ráðherra.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra í sambandi við það ef við ykjum þorskaflann um 40.000 tonn. Það gæfi 18 milljarða í tekjur sem þýddi 60 milljarða inn í hagkerfið og með þessari aðgerð mundi veiðistofninn hækka um 14.000 tonn og hrygningarstofninn vera nánast sá sami. Hvað finnst honum um þessa hugmynd?



[15:57]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki rekist á þetta í tillögunni. Ég taldi mig hafa lesið hana en sá ekki tillögur um að auka kvóta. (EyH: Engar tölur?) Nei, en kannski er þetta einhvers staðar í greinargerðinni. (JónG: Lestu betur.) Það væri gaman að vita hvort full samstaða sé um það meðal sjálfstæðismanna að bæta svona myndarlega við kvótann. Auðvitað hefur þetta oft verið rætt og við þekkjum deilurnar um það hvort menn eigi að halda sig við ráðgjöf þar til bærra aðila eða ákveða þetta á öðrum forsendum að hluta til.

Ég mundi segja að við þessar aðstæður væri ákaflega freistandi að fara vel yfir það í hvaða tilvikum það væri talið vera vel innan ásættanlegra áhættumarka miðað við sjálfbæra nýtingu og uppbyggingu fiskstofna að auka eitthvað veiðiheimildir. Því miður gerðist það ekki í síðustu ráðgjöf heldur hið gagnstæða, þar voru tillögur um að draga úr sókn í marga mikilvæga nytjastofna. Eftir standa þó kannski tveir, þrír sem hugsanlega þyldu meiri veiði auk þess sem spurningin er hvort við eigum að ætla okkur meiri hlut í sumum deilistofnum sem standa vel. Við gætum fært ýmis rök, (Forseti hringir.) bæði efnahagsleg og líffræðileg, fyrir því að við ættum að fá vaxandi hlutdeild í t.d. makríl og norsk-íslenskri síld.



[15:59]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er reyndar ekki skrifað í greinargerðina, það er hárrétt, en það sem við leggjum áherslu á er að bæta 40.000 tonnum við þorskinn. Það hefur þó ekki áhrif á stofnstærðina sem slíka heldur erum við að seinka uppbyggingunni ef það má orða það þannig. Þá hefurðu það. Þessar tölur eru teknar beint upp úr skýrslum Hafrannsóknastofnunar.

Eins langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi ekki verulegar áhyggjur af því og sé kannski í raun og veru skelkaður við að fara í þessar gríðarlegu skattahækkanir á einstaklinga og fjölskyldur í landinu við þær aðstæður sem nú eru uppi, þ.e. minnkandi kaupmátt og aukið atvinnuleysi. Er hann ekki hræddur við það? Eins hver skoðun hans er á því, sem komið hefur fram á undanförnum dögum, hvort ekki mætti endurskoða áætlun AGS og hugsanlega minnka þessi lán sem menn stefna á að taka og taka frekar lánalínur. Hver er skoðun hans á því?



[16:00]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hef ég ekki áhyggjur af því að bæði skattahækkanir og niðurskurðaraðgerðir hafi óæskileg áhrif í sjálfu sér og líka í efnahagslegu hagstjórnarlegu tilliti? Jú, ég hef það. Ef við ættum eitthvert val þá mundum við ekki gera þetta en aðstæður okkar eru eins og þær eru. Menn verða að horfast í augu við það. Íslenska ríkið er ekki í aðstöðu til þess að velja sér góðar aðgerðir í þessum efnum. (Gripið fram í.) Þær marka okkur mjög þröngan bás, þessar aðstæður sem við stöndum frammi fyrir. Við verðum að takast á við vandann núna og við getum ekki frestað því, þá fer mjög illa á skömmum tíma. Hallarekstur af því tagi sem við sáum á ríkissjóði á síðasta ári og þessu ári kollsiglir okkur mjög hratt í bullandi vaxtakostnaði.

Varðandi gjaldeyrislánin er það einmitt til endurmats hversu mikið af raunverulegum forða við þurfum, lánsréttur eða línur ef þær væru í boði eru að sjálfsögðu mikilvægar. Það mun aldrei verða þannig að menn taki meiri lán en þeir telja sig þurfa. Í reynd er getur lántökuréttur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virkað eins og lánalínur. Við þurfum ekki að hefja meira en við viljum hverju sinni (Forseti hringir.) af þeim lánsrétti sem við eignumst þar. Norðurlandalánin eru aðeins öðruvísi, þar þurfum við að taka vissan lágmarksskammt af hverjum fjórðungi ef við ætlum að nýta þau á annað borð. Í raun má þó þróa þetta meira í áttina frá því að taka öll þessi lán og yfir í að eiga lántökurétt. (Forseti hringir.) Ég tel mjög líklegt að það verði niðurstaðan.



[16:01]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir mjög áhugaverða og skemmtilega umræðu. Ég verð hins vegar að lýsa yfir áhyggjum mínum af hæstv. fjármálaráðherra. Í ræðu hans var mikið af áhugaverðum punktum og hann virtist taka undir margar af hugmyndum sjálfstæðismanna. Spurningin er hvort það sé orðið of mikið álag á ráðherranum því menn voru virtust tala hvor í sína áttina hér áðan. Við gerum okkur öll grein fyrir því að það hefur verið geysilegt álag á forustumenn ríkisstjórnarinnar undanfarnar vikur og mánuði.

Hins vegar eru hér mjög margar áhugaverðar tillögur. Þær bætast við, eins og kom fram áður, hóp tillagna annarra flokka, svo sem Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar. Þetta er náttúrlega mál sem við öll höfum áhyggjur af. Við gerum fátt annað hér á þinginu en að ræða efnahagsmál nú orðið. Eins og kemur fram í ályktuninni er í fyrsta lagi bent á hvernig umfang hins opinbera hefur aukist. Ég tel að hér sé að vissu leyti verið að taka undir tillögur ríkisstjórnarinnar varðandi samdrátt í útgjöldum. Það er lagt til að dregið sé saman um 5% í heilbrigðis,- mennta- og velferðarkerfinu og 10% á öðrum sviðum, ívið meira en ríkisstjórnin hefur talað um.

Hv. þm. Helgi Hjörvar kom upp í ræðustól og flutti möntru Samfylkingarinnar um að það virðist vera skattalækkunum Sjálfstæðisflokksins að kenna hvernig staðan er í ríkisfjármálunum. Ég benti á í andsvari við hv. þm. Bjarna Benediktsson að svo virtist sem Samfylkingin hefði ekki sérstaklega miklar áhyggjur af þessum miklu skattalækkunum samstarfsflokks síns þegar þeir voru í ríkisstjórn, enda hækkuðu þeir held ég útgjöldin til sinna eigin ráðuneyta um fleiri tugi prósenta. Þar á meðal held ég að þeir geti ekki einu sinni sagt að það hafi verið vegna þess að þeir hafi haft svo mikinn áhuga á velferðarmálum, því í þeirri ríkisstjórn voru þeir með eitt svokallað velferðarráðuneyti, sem er félagsmálaráðuneytið. Þó var það nú svolítið frekt til fjárins enda með núverandi hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur þótt fremur frek til fjárins.

Ég verð hins vegar að segja að mér finnst mjög athyglisvert að flokkur sem hefur einmitt talað mikið fyrir skattalækkunum komi með mjög áhugaverða tillögu varðandi skattahækkanir. Það er náttúrlega það sem lagt er hér til varðandi skattlagningu á inngreiðslum í lífeyrissjóði. Ég segi fyrir mig að mér finnst þetta mjög áhugaverð tillaga og fannst hún strax áhugaverð þegar hún kom fram í sumar. Mér skilst að t.d. hafi viðskiptaráð tekið undir þessa tillögu og frekari útfærslu á henni. Síðan er viðbót í greinargerðinni sem var ekki í þeirri tillögu sem var lögð fram á sumarþinginu um að hugsanlega mætti fara fram einhvers konar uppgjör á séreignarsparnað. Í greinargerðinni er talað um að þar gæti hugsanlega komið til eingreiðslu til ríkissjóðs upp á 115 milljarða og síðan væru 13 milljarðar árleg skattlagning á inngreiðslunni.

Ég vil taka undir það sem kemur líka fram í þessari greinargerð, þ.e. mikilvægi þess að þetta sé gert í góðu samstarfi og samráði við aðila vinnumarkaðarins og það sé þess háttar samráð að menn setjist saman við borð en ekki séu haldnir upplýsingafundir eins og við í stjórnarandstöðunni höfum fengið að upplifa undanfarnar vikur og mánuði þegar talað er um hið svokallaða samráð við okkur. Mér hefur fundist eins og hv. þm. Helga Hjörvar, formanni efnahags- og skattanefndar, sem tók undir þessa tillögu að vissu leyti og sagði að hún væri áhugaverð og þetta væri þess virði að skoða.

Ég gat ekki skilið ræðu hæstv. fjármálaráðherra öðruvísi en að hann væri tilbúinn til þess að skoða þessa tillögu líka og hann ræddi sjálfur aðrar útfærslur sem hann sá fyrir sér. Ég vona því svo sannarlega að þegar við loksins sjáum þessi blessuðu frumvörp sem varða tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins verði þetta ein af þeim tillögum sem menn skoði mjög alvarlega. Ýmsir þættir eru inni í núverandi fjárlagafrumvarpi og reyndir menn sem þekkja til vinnu við fjárlagafrumvarp ríkisins benda á að vandamálið við þá vinnu er aldrei gjaldahliðin. Vandamálið er alltaf tekjuhliðin. Svo virðist sem menn hafi farið í ýmis hókus-pókus-trix við að klára gatið á núverandi fjárlagafrumvarpi og síðan eigi nánari útfærsla að koma seinna í viðkomandi skattafrumvörpum.

Ég tel að þessi tillaga um 16 milljarða sem eigi að koma með auðlindaskattinum sé einmitt tilraun til þess að loka gati. Það vantar 16 milljarða og þá þótti brilljant að leggja til auðlindaskatt. Síðan tala menn um að það þurfi að breikka skattstofninn varðandi virðisaukann. Það sem maður stoppar svolítið við er að gert er ráð fyrir því að það sé hægt að breikka hann það mikið að hann aukist töluvert frá 2009 til 2010, þrátt fyrir þennan fyrirhugaða samdrátt og auknar álagningar svo sem í gegnum tekjuskatt á heimilin í landinu. Ég tel því að ýmislegt þyrfti að skýra betur og þessar hugmyndir varðandi skattlagningu á inngreiðslu gætu hugsanlega komið á móti til þess að fylla upp í það gat sem ég tel vera til staðar í núverandi fjárlagafrumvarpi.

Annað sem kemur fram hér er að töluvert er talað um mikilvægi atvinnurekstrar. Þessa hugsun held ég að við framsóknarmenn eigum sameiginlega með sjálfstæðismönnum, að það skipti máli að við höfum sterkt og öflugt atvinnulíf og að ríkið búi ekki til tekjur heldur atvinnulífið. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn og framsóknarmenn lýst yfir miklum áhyggjum af því t.d. hvernig atvinnustefna ríkisstjórnarinnar hefur birst á undanförnum vikum. Sérstaklega hvað það varðar, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar sagði, að þótt búa eigi til almenn skilyrði fyrir atvinnulífið virðast þessi almennu skilyrði sem er verið að búa til núna vera stórvarasöm og einmitt draga úr hvötum fyrir fyrirtæki eða einstaklinga til þess að fjárfesta í framtíðinni.

Ég vil benda á að bæði á Húsavík og Suðurnesjum hafa menn í mörg ár verið að reyna ýmislegt annað, allt frá því að einhverjir fengu þá flugu í höfuðið að fara hugsanlega í krókódílarækt fyrir norðan yfir í að byggja upp sjúkrahús, gagnaver, álver og ýmiss konar aðra atvinnustarfsemi eins og á Suðurnesjum. Menn hafa virkilega reynt að vinna í að fá fjárfestingu og byggja upp atvinnulífið. Það er náttúrlega mjög erfitt að horfa upp á það að ríkisstjórnin eða fulltrúar hennar setji hreinlega fótinn fyrir þessa uppbyggingu.

Mér fannst líka annað mjög áhugavert sem kemur hér fram og það eru þessar tillögur um endurskoðun á aflaheimildum. Ég hef sjálf heyrt að þessi niðurskurður sem var farið í núna, t.d. á ýsu, geri það að verkum að það mjög erfitt reynist að fara í þorskveiði. Það er nú því miður þannig að fiskarnir vilja blanda sér saman í sjónum og þegar þeir gera það og skipið er ekki með aflaheimildir í viðkomandi tegund verða menn annaðhvort að hætta veiðum eða, eins og því miður getur gerst, fara í brottkast.

Ég fór líka upp í andsvar þar sem ég var að velta fyrir mér þessum hugmyndum varðandi gjaldeyrishöftin. Þá kemur upp eins og ég benti á að við erum auðvitað öll sammála um að við viljum losna við þetta. Við erum hins vegar núna að rökræða um hugmyndafræði og sjálfstæðismenn hafa lagt fram eina ákveðna tillögu. Ég tek líka undir það sem lagt er til í tillögu sjálfstæðismanna um að reyna frekar að horfa á möguleikann á lánalínum til þess að draga úr vaxtakostnaði og raunar líka frystingu til þess að nota peninga sem maður á inni á reikningum, eins og m.a. Joseph Stiglitz (Forseti hringir.) benti á að gæti alltaf verið ákveðin áhætta, bæði fyrir stjórnmálamenn og embættismenn í seðlabanka.



[16:12]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum fyrir þá ágætu vinnu sem liggur að baki því plaggi sem hér er til umræðu. Vitaskuld er ég ekki eins og við er að búast sammála öllu sem þar kemur fram. Ég tel að þetta sé ágætt innlegg í umræðuna og ekki nema gott eitt um það að segja að stjórnarandstaðan skuli leggja á sig þá vinnu sem þarf til að koma með tillögu sem þessa. Ég vil af því tilefni taka undir margt af því sem hv. þm. Þráinn Bertelsson ræddi áðan um samspil og samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu og það hvernig menn ættu ekki, hvorum megin víglínu sem þeir eru, ávallt að slá út af borðinu allt sem kemur yfir víglínuna frá þeim sem hinum megin sitja.

Hvað sem því líður ætla ég ef tíminn leyfir að fjalla stuttlega um tvö eða þrjú atriði af þeim sem fram koma í þessum tillögum og næ augljóslega ekki að fjalla um nema lítinn hluta plaggsins.

Það fyrsta snýr að því hvort æskilegt sé að í stað þess að taka lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum látum við nægja að hafa lánsloforð eða lánalínur. Vegna þessa er rétt að benda á að í fyrsta lagi liggur ekki fyrir að lánveitendur séu reiðubúnir að veita okkur lán á þessu formi, þ.e. að veita okkur lánalínur í stað lána sem við greiðum vexti af, a.m.k. liggur ekkert fyrir að þeir séu tilbúnir til þess að öllu leyti en fyrir liggur að það kann að vera hægt að semja um að hluti lánanna sé afgreiddur með þeim hætti.

Síðan er jafnframt rétt að vekja athygli á því að almennt gildir það í viðskiptum sem þessum, ekki bara á óvenjulegum tímum eins og þeim sem við lifum heldur almennt í fjármálakerfinu, að lánalínum fylgir ákveðinn kostnaður, þ.e. gjald sem lánveitandi innheimtir af lántaka og endurspeglar þá í raun kostnað lánveitanda af því að afla sér langtímafjármagns og liggja með það laust og geta afhent það fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Því er við því að búast að við þyrftum að einhverju marki að greiða slíkan kostnað fyrir lánalínur sem þyrfti ekkert endilega að vera minni en sá sem við mundum þurfa að greiða ef við tækjum langtímalán og ávöxtuðum það í öruggum eignum til skamms tíma, sem er það sem verður að gera við gjaldeyrisforða. En ég vil alls ekki láta sem svo eða skilja þann skilning eftir að ég sé alfarið á móti þessari hugmynd. Ég tel að eðlilegt sé að við reynum að hafa a.m.k. hluta af því fjármagni sem tengist áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þessu formi. Auðvitað munum við reyna að gera það með sem minnstum tilkostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur. Raunar vil ég bæta því við að ég tel að afar litlar líkur séu á því að útkoman úr þeim lánasamningum verði sú að við tökum meira en fimm milljarða dollara lán. Ég held að við munum aldrei nýta alla þá upphæð sem lán og tel raunar að við getum fært rök fyrir því að við höfum ekki þörf fyrir slíka upphæð, nema að allar efnahagsforsendur reynist rangar, þ.e. ástandið hér verði mun verra en menn gera nú ráð fyrir.

Annað atriðið sem ég vil víkja að er hugmyndin sem fram er sett um að taka á þeim vanda sem stundum er nefndur krónubréfavandi, eða vandinn vegna hræddra króna, með því að fá þá sem eiga slíkar krónur til að skipta þeim og skuldabréfum til 4–8 ára í erlendri mynt, sem þá væntanlega verður hægt að taka út úr landinu í erlendri mynt þegar bréfin koma á gjalddaga. Því er til að svara að þetta er góðra gjalda vert sem hugmynd og raunar er þetta ein af þeim aðferðum sem nota á til að taka á þeim vanda og er inni í þeim hugmyndum sem Seðlabankinn hefur kynnt um hvernig unnið verður að afnámi haftanna. Ég tel hins vegar afar litlar líkur á því að þetta sé sú allsherjarlausn sem virðist mega lesa út úr plagginu. Það má m.a. byggja einfaldlega á því að ef þeir sem eiga þessar krónur telja, eins og lagt er upp með í plagginu, að gjaldeyrishöftin verði afnumin mjög fljótlega, þá kann að vera að þeir sjái sér hag í því að bíða frekar en taka slíku tilboði um langtímaskuldabréf og losna þá mun fyrr heldur en ef þeir hefðu bundið fé sitt til 4–8 ára. Þó að vextir séu lækkaðir í krónum er ólíklegt að það dugi til þess að fæla menn yfir í þessa lausn, ef við orðum það svo, vegna þess að lágir vextir skipta litlu máli ef þeir eru einungis til skamms tíma. En lausnin er í grundvallaratriðum ágæt. Ég tel bara að hún dugi ekki sem sú heildarlausn sem gefið er í skyn í því plaggi sem hér er til umræðu.

Raunar vil ég bæta því við fyrst við erum farin að ræða þessar hræddu krónur, að mat mitt er að þær séu talsvert kjarkmeiri en menn virðast telja. Því eru góðar líkur á að þær mundu ekki allar flæða úr landi í gegnum þann þrönga krana sem íslenski gjaldeyrismarkaðurinn er þótt höftunum verði aflétt.

Það síðasta sem ég ætla að víkja að er reyndar talsvert flókið mál og næ ég líklega ekki að gera því góð skil á þeim stutta tíma sem eftir er. Það er það sem kallað er í plagginu kerfisbreyting á skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Það er reyndar ekki útfært þar en áður hefur komið fram að til greina komi að leggja skatt á iðgjöld frekar en útgreiðslur úr lífeyrissjóðum og flýta þannig tekjustreymi til hins opinbera.

Um þetta er hægt að tala í löngu máli en í grundvallaratriðum verðum við að átta okkur á að í því verkefni að leysa fjármál hins opinbera á líðandi stundu hlýtur alltaf að þurfa að horfa ekki bara á tölur ársins og efnahagsreikning ríkisins eins og hann er á hverjum tíma heldur einnig fram á við, á tekjustreymi og útgjaldastreymi eins og því er spáð til alllangs tíma. Með því að færa til tekjur á þann hátt, færa þær fram eða nær okkur í tíma, þá eru menn í raun ekki að bæta stöðu hins opinbera þegar litið er á heildarmyndina. Hún að vísu lítur aðeins betur út á pappírnum þegar ársreikningur eða ríkisreikningur hvers árs er gerður upp en heildarstaðan breytist í rauninni ekkert. Það er bara búið að færa tekjufærslu til í tíma. Það er á alveg sama hátt hægt útgjaldamegin að seinka gjaldfærslu gjaldaliða með svokallaðri einkafjármögnun, þ.e. að í staðinn fyrir að reisa eitthvert mannvirki eins og brú, flugvöll eða höfn með einhverju útboði og gjaldfæra það allt saman þegar mannvirkið er tilbúið, þá er það leigt af einkaaðilum til langs tíma og síðan eru einungis gjaldfærðar leigugreiðslurnar, sem þýðir að gjöld falla til á pappírnum mun síðar en ella en í reynd er ekkert verið að bæta stöðu ríkissjóðs þótt hún líti betur út þegar til skamms tíma er litið.

Sú hugmynd að innheimta í reynd hluta af þeim varasjóði sem ríkið á utan efnahagsreiknings, ef má orða það svo, því að lífeyrissjóðir landsins eiga mikið af óskattlögðu fé, þá eru menn í reynd ekki að bæta heildarstöðu ríkissjóðs þegar allt er tekið til greina. Menn eru hins vegar að láta ríkissjóð líta betur út þegar til skamms tíma er litið. Einnig má svo sem segja að með því að skattleggja ekki iðgjöld séu menn að láta ríkissjóð líta verr út en staða hans í reynd er, vegna þess að menn eru þá að búa til eign fyrir ríkið sem er hvergi skráð í ríkisreikningnum. Þó að hún sé að einhverju marki vonarpeningur verður samt að viðurkennast að voða litlar líkur eru á því að miklar greiðslur úr lífeyrissjóðum landsmanna muni skila ríkissjóði umtalsverðum tekjum á næstu áratugum.

Því má allt eins spyrja: Er ekki skynsamlegra, í staðinn fyrir að ganga í gegnum mjög róttækar breytingar á lífeyriskerfinu til að ná fram á pappírnum betri stöðu sem bætir í reynd ekkert stöðu ríkisins, að ríkið taki einfaldlega lán hjá lífeyrissjóðunum — reyndar er óhjákvæmilegt að ríkið taki umtalsvert fé að láni hjá lífeyrissjóðunum til að fjármagna hallarekstur sinn á næstu árum — og greiði síðan þau lán niður með m.a. tekjum af skattlagningu lífeyrisgreiðslna á næstu árum og áratugum?



[16:22]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka viðskiptaráðherra fyrir ágætisinnlegg.

Ferðalangur sem kemur að hóteli með óendanlega mörgum herbergjum spyr hvort hann geti fengið gistingu. Hóteleigandinn svarar: Nei, það eru öll herbergi full. Þá svarar ferðalangurinn: Biddu þá alla að færa sig um eitt herbergi vegna þess að það eru óendanlega mörg herbergi.

Þessi greining viðskiptaráðherra gerir ráð fyrir því að líftími Íslands sé endanlegur og hann veit að það er verið að færa til í tíma. Þetta eru því ekki pappírsviðskipti, ekki nema líftími Íslands sé endanlegur. Auk þess er þetta ekki tilfærsla í tíma sem kemur vel út á pappírum út af vaxtakostnaðinum, við skuldum næstum því tvö þúsund milljarða. Með því að gera þetta getum við lækkað vaxtakostnaðinn umtalsvert sem er næstmesti útgjaldaliðurinn núna. Þetta þekkir hann allt saman, sérfræðingur í „overlapping generations“ módelum.

Hvað varðar fjármögnunina er alveg rétt hjá ráðherranum að þetta er engin lausn. Hugsunin er sú að gefin verði út bréf sem eru aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta, lækkaðir vextir þannig að raunvextir hjá þeim verði stórkostlega neikvæðir í krónum svo að þeir hrekist yfir í evrur, evru/ríkisbréfin, og þegar nægilega mikill hluti þeirra er kominn yfir í evru/ríkisbréfin eru gjaldeyrishöftin afnumin. Ef þeir vilja vera á neikvæðum raunvöxtum, þá þeir um það, en sem fjárfestar munu þeir eflaust taka þessu tilboði.



[16:24]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að mér endist örugglega ekki tíminn til að fara í smáatriðum yfir hótelsögu þingmannsins, ég ætla að spara mér það. Ég leyfi mér þó að fullyrða að niðurstaða mín byggði engan veginn á því að endalok Íslands væru í nánd eða fyrir lægi hvenær þau yrðu. (Gripið fram í.) Við skulum fara yfir málið þegar okkur gefst betri tími til þess.

Tvennt varðandi vexti. Það er grundvallarmisskilningur að ríkið spari vaxtakostnað með því að færa til tekjur með þeim hætti sem hér er rætt um, þ.e. með því að færa skattlagningu á lífeyristekjum fram í tíma. Það er af þeirri einföldu ástæðu að eignir lífeyrissjóða ávaxtast. Þegar greiddir eru skattar af lífeyrisgreiðslum, þá hækkar það með tíma einfaldlega í takti við ávöxtun lífeyrissjóðanna. Í reynd breytir það væntanlega sáralitlu fyrir ríkið, jafnvel þó tekið sé tillit til vaxta, hvort tekjurnar eru innheimtar nú eða eftir einhver ár eða áratugi eins og núgildandi skattareglur kveða á um.

Síðan önnur ábending um hugmyndina um skuldabréf fyrir hræddu krónurnar og hvernig hægt er að fæla fólk yfir í skuldabréf með lágum vöxtum. Það er auðvitað alveg rétt að almennt væri hægt að fæla fjárfesta úr einum fjárfestingarkosti yfir í annan með því að hafa lága vexti á öðrum og hærri á hinum. Það gefur augaleið og ég dreg það ekkert í efa. En hér þarf að hafa í huga að krónubréfin eru ekki einu eignirnar sem geta farið úr landi. Ef menn hefðu mjög lága og mjög neikvæða vexti á krónum almennt, þ.e. neikvæða raunvexti, er allt eins víst að Íslendingar vildu einnig fara með sitt fé úr landi og þá mundum við vera búin að auka þennan vanda til muna, alls ekki leysa hann.



[16:26]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar, að lykilatriðið í þessu er hótelsagan en við skulum ekki fara lengra út í hana.

Það er vissulega rétt að eignir lífeyrissjóðanna bera ávöxtun, vonandi. Það er algjörlega tryggt að við munum þurfa að borga vexti af lánum, en það er aftur á móti óvissara með ávöxtunina sem við fáum af eignunum eins og sagan hefur sýnt. Ég held að sú leið að fæla hræddu krónurnar yfir í ríkisbréf sé leið sem vert er að skoða. Ég tek því svo að við séum næstum því í akademískum umræðum, ég og hæstv. viðskiptaráðherra, og lítið beri á milli nema einhverjar akademískar vangaveltur.



[16:28]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var beðin um að láta akademíuna vera úti í sal og að hlustað verði á mig meðan ég kem með ábendingar mínar.

Búið er að fara yfir lífeyrissjóðsleið okkar sjálfstæðismanna, það var gert áðan, ég ætla ekki að fara út í hana. En ég hjó eftir því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra talaði um víglínur strax í upphafi ræðu sinnar — ég vil sérstaklega þakka fyrir að hann skuli vera hér og taka þátt í umræðu með okkur um efnahagstillögur okkar — og að fara yrði yfir víglínurnar. Já, það er alveg rétt, en það sem við höfum hins vegar orðið vör við í hverju málinu á fætur öðru að ekki er hlustað á okkur, það er ekki einu sinni talað við okkur. Við höfum verið að koma fram með tillögur, m.a. strax í sumar, og af því utanríkisráðherra var hér á vappi áðan, þá fagnaði hann tillögum okkar sjálfstæðismanna og fleiri. Hluti af tillögum okkar var að setja á stofn og setja á laggirnar þverpólitískan stýrihóp, vinnuhóp, til að fara yfir allar þær tillögur, allar þær fjölmörgu en ólíku tillögur sem ýmsir aðilar hafa verið að setja fram varðandi skuldavanda heimilanna. Það hefur ekki enn þá hlotið náð fyrir augum ríkisstjórnarinnar.

Það sem ég velti hins vegar fyrir mér og skiptir mestu núna og er þungavigt í okkar plaggi er atvinnustefnan. Þá komum við að atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar að mínu mati mun stuðla að því að við verðum seinni að koma okkur út úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir en ella væri.

Ég spyr hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann sé sammála því að fara þá leið hvað varðar ofurskatta á orkufyrirtæki, að ná þar í 16 milljarða. Og hvort það sé raunhæft og raunhæf áætlun í ríkisfjármálum að krefjast 16 milljarða hvað þetta varðar og þá hversu háa skatta hann telur vera raunhæfa sem slíka.

Síðan vil ég spyrja hvort hann telji það líka farsælt að einn ráðherra í ríkisstjórninni skuli vera að tala niður orkufyrirtæki, sem eru okkur lífsnauðsynleg, núna þegar við þurfum að fara í verulega uppbyggingu? (Forseti hringir.)



[16:30]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nefna að ég tel að orku- og auðlindaskattar og reyndar auðlindagjöld jafnframt séu mjög eðlilegur tekjustofn fyrir hið opinbera. Þótt ástandið í fjármálum hins opinbera væri með eðlilegu móti teldi ég ekki nema eðlilegt að tekið væri gjald fyrir notkun á sameiginlegum auðlindum landsmanna. Þessi tala í fjárlagafrumvarpinu, 16 milljarðar, er að mínu mati ekki óhófleg en auðvitað þarf að gæta að því hvernig henni er dreift á þá skattstofna sem þarna eru undir. Þegar hefur komið fram að það stendur ekki til að leggja einnar krónu gjald á kílóvattstund. Að mínu mati hefði það verið talsvert of langt gengið. Ég tel að það sé engu að síður hægt að ná talsverðum peningum sem um munar í ríkisrekstrinum með því að skattleggja þennan geira og auðlindir almennt. Ég tel hins vegar að vitaskuld þurfi að gæta alls hófs í skattlagningu á þennan geira eins og alla aðra þannig að ekki sé grafið undan samkeppnishæfni landsins. Við verðum auðvitað í því samhengi að hafa í huga að ef þessi auðlind sem orkan er og að einhverju marki fiskurinn á að vera raunveruleg auðlind hlýtur hún líka að skila raunverulegum arði sem hægt er að skattleggja án þess að drepa viðkomandi atvinnugrein. Vitaskuld eru þó takmörk fyrir því hve há þau skatthlutföll mega vera.



[16:32]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikill misskilningur ef menn halda að sjávarútvegs- eða orkufyrirtækin greiði ekki skatta í ríkissjóð. Í máli hæstv. forsætisráðherra voru nefndir 16 milljarðar í orkuskatt og í raun í máli hæstv. fjármálaráðherra og núna efnahags- og viðskiptaráðherra. Þessi 16 milljarða tala er ekki raunhæf, hún er sett fram en það á greinilega eftir að útfæra hana.

Ég hef tvær spurningar. Telur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ekki hættu á því að með þessari skattlagningu eins og hún er lögð upp séum við að skattleggja okkur út úr samkeppnishæfni okkar varðandi orkumálin? Í öðru lagi vil ég sérstaklega benda á að við sjálfstæðismenn — það voru ekki allir sammála því en við sjálfstæðismenn, og þá komum við að vinnubrögðum, í samvinnu við aðra stjórnmálaflokka, stjórn, stjórnarandstöðu og aðila málsins á sínum tíma, lögðum eftir nokkra missira yfirlegu á auðlindaskatt sem er skattur á sjávarútveginn. (Forseti hringir.) Það var gert að yfirlögðu ráði eftir mikið samráð. Það getur vel verið að við þurfum að tala um orku- og auðlindaskatt (Forseti hringir.) en það á ekki að gera það svona. Það verður að hafa víðtækt samráð og það verður að vera ígrundað og hugsað vel út hvernig á að gera það. (Forseti hringir.) Það var ekki gert í dag.

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)



[16:34]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þessarar umræðu vil ég taka fram að ég tel að almennt eigi sú regla að gilda að atvinnuvegir séu skattlagðir nokkurn veginn með sama hætti, óháð því um hvaða atvinnugrein er að tefla. Ég tel hins vegar einnig að þær atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir, hvort sem það er orka, fiskur eða annað, eigi jafnframt að greiða auðlindagjald og það eigi að endurspegla þau verðmæti sem þeim hafa verið afhent. Ef þannig er staðið að málum á það ekki að koma í veg fyrir samkeppnishæfni þessarar atvinnustarfsemi á Íslandi af þeirri einföldu ástæðu að gjaldið væri í eðlilegu samræmi við þau hlunnindi sem greinarnar njóta.



[16:35]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir hans innlegg í þessa umræðu. Það var ágætt, sérstaklega innlegg um séreignarsparnaðinn þar sem hann sagði með réttu að það væri eins konar bókhaldsfiff að færa til tekna í dag eitthvað sem ríkissjóður á nú þegar. Það er verið að „realisera“ eign. Ég hins vegar lít þannig á að á því augnabliki sem lífeyrissjóðirnir greiða eða afhenda skuldabréf inn í ríkissjóð fyrir þessari eign sé það orðin eign ríkissjóðs og tekjur á því ári.

Í því sambandi vil ég minna hæstv. ráðherra á að hæstv. fjármálaráðherra í umboði hans skrifaði undir Icesave-samning þann 5. júlí, ef ég man rétt. Það er gífurleg skuld, miklu stærri en þetta, 700 milljarðar. Sú upphæð hefur borið á þessu ári 35 milljarða í vexti og Alþingi er búið að samþykkja lög sem negla þetta niður með ríkisábyrgð. Hvers vegna í ósköpunum er ekki getið um þetta í fjáraukalögum eða í fjárlögum fyrir næsta ár, þessa skuld og þessa vexti? Þetta er nákvæmlega það sama og séreignin sem er færð yfir til tekna, nema með öfugum formerkjum. Þetta á að sjálfsögðu að færa til skuldar því það er búið að ganga frá þessu, það er búið að „realisiera“ þessa skuldbindingu inn í ríkissjóð. Ég spyr því hæstv. ráðherra sem fól fjármálaráðherra í umboði ríkisstjórnarinnar að skrifa undir þetta samkomulag: Af hverju er þetta ekki í fjáraukalögum, 35 milljarðar og skuldin öll og síðan 35 milljarðar á næsta ári sem vextir af þessu fé?



[16:37]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Péturs H. Blöndals um gjaldfærslu og bókhaldsfærslu á vöxtum af Icesave-skuldbindingum verð ég að svara því til að hér er ekkert verið að fela. Það liggur alveg fyrir og búið er að ræða það opinberlega, með miklum hávaða raunar, hversu miklar þessar skuldbindingar og vextir eru þannig að hér er ekki verið að blekkja neinn. Ég kann hins vegar ekki svo vel á þá staðla sem notaðir eru við að útbúa þjóðhagsreikninga að ég geti svarað því til nákvæmlega á hverju þessi ákvörðun er byggð en augljóslega er ekki verið að fela neitt því að þjóðinni er vel kunnugt um þessar upphæðir allar, bæði heildarupphæðina og vaxtagreiðslurnar. Þær hafa verið raktar ítarlega bæði hér í ræðustól og í fjölmiðlum.

Varðandi það sem hv. þingmaður ræddi um séreignarsparnaðinn og tekjufærslur á honum þá finnst mér það áhugaverð hugmynd hvort ríkið ætti ekki að hafa með, kannski í skýringum eða viðaukum en alla vega hafa með í ríkisreikningi, væntanlegar tekjur af þáttum eins og skattfrestun á lífeyrisgreiðslum. Jafnframt að hafa með væntanleg gjöld vegna t.d. húsaleigusamninga til langs tíma eða einkafjármögnunar sem frestar gjaldfærslu útgjalda. Ég tel að það væri til bóta í ríkisreikningnum ef allt slíkt væri tilgreint, hvort sem það væri í skýringum eða tekið inn í meginmálið, og þær tölur sem almennt er vísað til þegar rætt er um fjárlagahallann.



[16:39]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi um daginn að það vantar miklu stærri tölur inn í skuldbindingar ríkissjóðs. Þar er t.d. krafan vegna B-deildar LSR, það eru 200 milljarðar. Einnig vil ég nefna Tryggingastofnun ríkisins, ekki hættum við að borga lífeyri einn daginn. Þar er gífurleg skuldbinding til allrar framtíðar, 30 milljarðar á ári eða meira sem við erum að borga og hvergi er fært að það sé framtíðarskuldbinding. Þetta tal um framtíðareignir og framtíðarskuldbindingar er mjög áhugavert fræðilega séð en að sjálfsögðu þurfum við að líta á hvað er fært til bókar.

Mig langaði líka að spyrja hæstv. ráðherra um atvinnuleysið. Hver maður sem er atvinnulaus kostar ríkissjóð en þegar hann fer að vinna gefur hann ríkissjóði tekjur. Ég tel að hver maður spari ríkissjóði 3–4 milljónir með aukinni atvinnu. Getur ekki verið skynsamlegt að hafa halla á ríkissjóði til þess að virkja fólk og gera það að skattgreiðendum?



[16:40]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-) (andsvar):

Frú forseti. Ég get heils hugar tekið undir síðasta punkt hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég tel einmitt að við vinnum að ákveðnu marki í þessum anda þótt vissulega megi deila um hversu langt er gengið. Með því vísa ég til þess að við í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn höfum tekið ákvörðun um að loka ekki fjárlagagatinu á einu ári eða í einu vetfangi heldur taka til þess um það bil fjögur ár. Ég tel að með því komum við í veg fyrir að atvinnuleysi vaxi mjög mikið umfram það sem það er núna. Við leyfum okkur því að ákveðnu marki að vera með halla á fjárlögum, meira að segja mjög umtalsverðan halla, til að kæla ekki efnahagslífið um of. Það hefði vitaskuld falið í sér almennt umtalsverðan vanda vegna atvinnuleysis og vanda í þeim skilningi að framleiðsluþættir þjóðfélagsins, sem eru ekki bara vinnuafl þótt það sé sá mikilvægasti, hefðu legið vannýttir.

Það hefði verið mjög gaman að hafa svigrúm til að ganga enn lengra í þessa átt og örva jafnvel atvinnulífið með frekari aðgerðum í ríkisfjármálum til þess að ekki bara draga úr atvinnuleysi heldur búa til meira af vörum og þjónustu sem er í sjálfu sér æskilegt en skilar auk þess umtalsverðum skatttekjum inn til þess opinbera. Ég held þó því miður að kaldi veruleikinn sé sá að svigrúm til að ganga mikið lengra í þessa átt en við gerum sé ekki til staðar. Þótt ég hefði mjög gjarnan viljað ganga lengra fæ ég ekki séð að það væri forsvaranlegt (Forseti hringir.) að hafa meiri halla en þetta til langs tíma.



[16:42]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram efnahagstillögur í annað sinn frá því síðast var kosið til Alþingis. Í sumar gerðum við ítarlega grein fyrir hugmyndum okkar og nú aftur við upphaf þessa þings teljum við rétt að leggja fram okkar sýn, tillögur okkar um hvernig eigi að leysa þann efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir. Ég tel að það sé skylda stjórnarandstöðu við þessar aðstæður að gera slíkt. Ekki sé hægt að fara í gegnum umræður um þann vanda sem Ísland stendur frammi fyrir núna án þess að þeir sem vilja láta taka sig alvarlega leggi fram á greinargóðan hátt þær tillögur sem þeir telja að séu til bóta fyrir land og þjóð.

Það sem ég hef haft mestar áhyggjur af varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar, og ég tel að sú leið sem við leggjum fram sé mótvægi við, er sú staðreynd að vissulega, eins og komið hefur fram hjá hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum, er nauðsynlegt að draga úr ríkisútgjöldunum til að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum, það liggur fyrir. Á sama tíma hyggst ríkisstjórnin hækka skatta. Nú liggur það fyrir að hagkerfið hefur dregist mjög mikið saman á þessu ári. Ég leyfi mér að efast um að sú aðgerð að draga saman ríkisútgjöld og hækka skatta sérstaklega á þann atvinnuveg sem líklegastur er til, ásamt reyndar sjávarútvegi, að draga efnahagslífið upp úr þeim vanda sem nú er, sé ekki bara umdeilanlegt eða óheppilegt, ég held að þetta muni ekki skila árangri. Ég held að með þeirri leið munum við keyra okkur dýpra ofan í vandann en við fáum ráðið við þegar upp verður staðið. Þess vegna höfum við nálgast þetta vandamál á annan hátt. Við höfum sagt: Það þarf að skera niður ríkisútgjöld, enda hafa ríkisútgjöld vaxið á síðustu tíu árum um ein 30% að raunvirði. Það er reyndar pínulítið undarlegt að hlusta á hv. þingmenn sem hér hafa komið upp í umræðunni tala eins og eina aukningin sem hafi orðið í velferðarmálum á Íslandi hafi hafist árið 2007 með innkomu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Það er auðvitað fjarri öllu lagi. Menn geta síðan velt fyrir sér hversu skynsamlegt það var að auka ríkisútgjöldin svona mikið en það er staðreynd. Þau hafa aukist svona mikið og þar af leiðandi er tækifæri til að draga úr þeim.

En við höfum sagt: Það eru aðrar leiðir til að mæta þeim vanda. Annars vegar að við flýtum fjárfestingum, reynum að fá erlenda fjárfestingu inn í landið, reynum að flýta fyrir að losa fjármagn sem fer úr bönkunum og inn í atvinnulífið. En fyrst og fremst höfum við verið að horfa á erlenda fjárfestingu. Hún mun strax skila tekjum í ríkissjóð.

Forustumenn Samtaka iðnaðarins hafa á undanförnum dögum verið að heimsækja þingflokka, bæði í þessari viku og síðustu. Á þeim fundum hefur komið fram að þegar menn horfa t.d. á Norðurál og framkvæmdirnar í Helguvík er verið að tala um framkvæmdir upp á u.þ.b. 100 milljarða á tveimur árum sem þýðir 50 milljarðar á ári og af því má reikna með að um 20 milljarðar falli á ári innan lands í laun og annan kostnað sem þýðir fyrir ríkissjóð 7 milljarða í tekjur. Þetta þýðir raunverulega 7 milljarða í skatttekjur af slíkri framkvæmd. Hér erum við að tala um að hækka skattana um 16 milljarða, bara þessi eina framkvæmd getur skilað slíkum upphæðum. Fyrir liggur að í Straumsvík voru þeir komnir nokkurn veginn af stað með að fjárfesta fyrir eina 13 milljarða þegar fréttist að ríkisstjórnin ætlaði sér að setja á þessa háu skatta á orku og þar með var allt stoppað. Í staðinn fyrir að nú væru að koma hingað til landsins einir 13 milljarðar sem við gætum síðan notað til framkvæmda er sett á stopp vegna þess að ríkisstjórnin er að nálgast vandann með röngum hætti.

Því er mikilvægt að við förum frekar þá leið sem við sjálfstæðismenn leggjum upp með, flýtum þessu og skoðum möguleikana á að breyta skattlagningu á lífeyrissjóði, þ.e. flýta skattgreiðslunum. Ég staðnæmist einmitt mjög við hugmynd um séreignarsparnaðinn. Hún er einföld, hún hreyfir ekki við því kerfi sem hæstv. fjármálaráðherra ræddi skilmerkilega í ræðu sinni en skilar mjög miklum peningum fyrir hið opinbera. Og það er alveg rétt að verið er að færa til peninga. Það er bara með þetta eins og stundum er með rekstur fyrirtækja, og þeir þekkja það sem að slíku hafa komið, að stundum verða menn að fá fé. Stundum er það nauðsynlegt til að komast í gegnum vandræðin að menn fái fé. Það dugar ekki fyrir menn að eiga von á miklu síðar meir ef þeir geta lent í því að keyra í svo mikinn vanda að þeir komist ekki mikið inn í framtíðina.

Nú er ég ekki, virðulegi forseti, að láta mér detta það í hug, eins og var í umræðum áðan á milli ágætra hagfræðiprófessora, hvort kominn væri endapunktur í íslenskt þjóðlíf eða ekki. En það sem ég á við er að ef við keyrum okkur of mikið niður þýðir það það að við höfum of litla peninga til að fjárfesta í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu o.s.frv. Við raunverulega drögum úr heildarlífsgæðum þjóðarinnar til langs tíma. Þess vegna eigum við að vera opin fyrir því að skoða þær lausnir sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram.

Ég fór yfir það í máli mínu hvaða áhrif það hefur fyrir fjárfestingarnar þegar verið er t.d. að setja af stað eða hóta orkusköttum eins og hefur verið gert hvað varðar t.d. Norðurál og Straumsvík og mörg önnur verkefni sem eru núna í pípunum og eru stopp út af þessu, því miður.

Síðan held ég að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að við skoðum alla þá möguleika sem við höfum til að komast út úr gjaldeyrishöftunum. Það sem skiptir mestu máli er að skapa traust á íslenskt efnahagslíf vegna þess að það er alveg rétt að það eru ekki bara hinar svokölluðu hræddu krónur sem geta farið úr landinu, það eru líka íslenskir peningar íslenskra ríkisborgara. En til að koma í veg fyrir það verðum við að skjóta þeim stoðum undir hagkerfið sem eru nauðsynlegar til að menn fái trú á íslenska hagkerfið. Menn segi: Það er ágætt að vera með peningana á Íslandi af því að þeir skila góðri ávöxtun.

Hugmyndir okkar um að ríkið geti gefið út skuldabréf í erlendri mynt, í evrum, til að létta á þeim krónubréfavanda sem er uppi, afleiðingum jöklabréfainnflæðisins, eru ekki allsherjarlausn, það er alveg rétt. Þær eru ekki settar fram sem einhver allsherjarlausn á þeim vanda en sem hluti af þeirri lausn sem við leggjum upp með, sem hluti af þeirri lausn að ýta undir atvinnu með fjárfestingum með því að koma í veg fyrir skattahækkanir, með því að leysa hluta vandans með útgáfu slíkra bréfa og fyrir liggur að við ætlum okkur að fara að lækka vexti, þá er þetta allt samverkandi og mun gera það að verkum að við verðum miklu fljótari en ella að fella niður höftin. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að við vinnum áfram með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég hef tekið eftir því nokkuð í umræðunni að menn hafa misskilið það og talið að við sjálfstæðismenn vildum hætta slíku samstarfi. Það er auðvitað ekki svo. En við teljum að endurskoða þurfi þessa áætlun. Hún hefur dregist von úr viti og nauðsynlegt er að við aðlögum hana að þeim aðstæðum sem nú hafa skapast. Þess vegna setjum við fram þær hugmyndir sem grundvöll fyrir þá umræðu og fyrir slíkar viðræður við sjóðinn.

Frú forseti. Mig langar að víkja máli mínu aðeins áfram að skattamálunum af því að í umræðunni hefur nokkuð borið á þeirri skoðun sem hefur komið fram hjá nokkrum hv. þingmönnum að því miður hafi það verið svo að skattar hafi lækkað í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og því sé ekki hægt annað en að hækka skatta núna. Þetta hefur nokkuð komið fram í máli hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Við sem tókum þátt í kosningabaráttu árið 2007 munum það vel að ein helstu rök Samfylkingarinnar voru að þáverandi ríkisstjórn væri algerlega ómöguleg, að hún hafi með aðgerðum sínum hækkað svo skatta í landinu að vart væri við það búandi. Muna menn nú margir ábyggilega ýmsa lærða fyrirlestra sem komu héðan og þaðan úr þjóðfélaginu um þær vondu skattahækkanir Sjálfstæðisflokksins.

Skattar voru lækkaðir á Íslandi, það er alveg rétt. En að skattar hafi verið lækkaðir er ekki sjálfkrafa einhvers konar röksemd fyrir því að núna eigi að hækka skatta. Það er ekki sjálfkrafa röksemd fyrir því. Menn verða að horfa á þá stöðu sem uppi er. Og hvaða staða er uppi? Hún er einmitt sú að við erum í samdrætti, við þurfum að draga niður útgjöld ríkisins og ætla þá ofan á það að fara að hækka skatta og gera atvinnulífinu erfiðara með að ráða það fólk sem kannski missir vinnuna hjá hinu opinbera, draga úr eftirspurn í hagkerfinu, getur ekki verið skynsamleg hagstjórn. Þess vegna höfum við sett fram hugmyndir okkar sem valkost við þá leið.

Ég er algerlega sannfærður um að sú leið sem ríkisstjórnin ætlar að feta sig inn á mun ekki leiða til neins góðs fyrir íslensku þjóðina. Það er miður og ég tel að nauðsynlegt sé að stjórnarandstaðan setji fram hugmyndir sem geti komið að gagni til að mæta slíkri leið.

Að lokum vil ég segja þetta: Ég tel að ef rétt er á haldið eigi Ísland alveg frábæra möguleika og það kom skýrt fram t.d. hjá þeim ágæta hagfræðiprófessor, Joseph Stiglitz, þar sem hann fjallaði um málefni Íslands eftir að hafa verið hér, að auðvitað eigum við góðan séns. En það þarf að halda rétt á málum og það eigum við að gera.



[16:52]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu í salnum í dag sem hefur verið ákaflega góð, held ég, og margt gagnlegt sem komið hefur fram í tillögum sjálfstæðismanna sem ber að taka til umræðu í nefndum Alþingis á milli umræðna um frumvarp til fjárlaga. Ég fagna því innleggi sjálfstæðismanna í þá umræðu.

Í morgun komu fram í máli formanns Sjálfstæðisflokksins athyglisverð ummæli þar sem hann sagði frá því að fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi hefði fundað með þingflokki sjálfstæðismanna, farið þar yfir stöðuna og talið að íslenska ríkið væri búið að uppfylla öll þau skilyrði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti fyrir endurskoðun á stöðu mála á Íslandi, eins og formaðurinn sagði. Búið er að haka í öll boxin, sagði formaður Sjálfstæðisflokksins í morgun. En mér fannst vanta upp á að það fylgdi þá útskýring, annaðhvort formanns Sjálfstæðisflokksins eða annarra sjálfstæðismanna, á því hvað vantaði þá upp á, á hverju strandaði þá og hvernig menn sæju fram úr því að ætla sér að leysa það. Þessi ummæli formannsins komu fram í andsvari hans í morgun, ég hafði því ekki tök á að bregðast við því þá en spyr hv. þm. Illuga Gunnarsson, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins: Hvaða skýringar gaf fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og hvað telur þingmaðurinn að valdi þessum töfum? Í hvaða box á eftir að haka?



[16:54]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom reyndar ekki fram hjá fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hver skoðun hans var nákvæmlega á því hvað ylli því að málið var ekki klárað en ég skal gefa mína skoðun á því. Ég held að það sé alveg ljóst mál, það er vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gerst einhvers konar innheimtumaður fyrir Breta og Hollendinga sem er auðvitað fullkomið reginhneyksli. Einnig hefur komið fram, m.a. í máli seðlabankastjóra í sjónvarpsviðtali, að hann teldi að það væri þannig að sjóðurinn sjálfur vildi gjarnan klára þetta mál en þyrði það vart vegna ofríkis ESB. Það eitt og sér er heilmikið áhyggjuefni og segir manni að verið er að beita Ísland miklu harðræði. Verið er að koma mjög ósanngjarnt fram vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að við Íslendingar höfum með samþykkt Alþingis nú í haust sýnt mikinn samningsvilja, teygt okkur mjög langt til að ná fram sáttum í máli þar sem liggur ekki fyrir með neinum óyggjandi hætti að okkur beri skylda til að greiða en við höfum sagt að við viljum ná samkomulagi og höfum gert það sem við höfum getað gert.

Þess vegna er ekki við það búandi að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skuli ekki klára þau mál sem hann hefur heitið að gera. Lengi vel var því haldið fram, bæði af sjóðnum og reyndar íslenskum ráðamönnum, að það væru einfaldlega tæknilegar ástæður fyrir því að ekki væri búið að taka mál Íslands fyrir hjá sjóðnum. Ég get vitnað til margra ummæla hæstv. ráðherra, bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra, sem trekk í trekk héðan úr þessari pontu sögðu: Það eru einungis tæknileg vandamál sem valda því að ekki er búið að afgreiða þetta og um leið og þau liggja fyrir þá mun ekki standa á afgreiðslu. Um þetta var margsinnis spurt af hálfu stjórnarandstöðunnar. Getur það verið að ekki sé hægt að klára þetta vegna þessa Icesave-máls? Svarið var alltaf nei.



[16:57]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef það hefur ekki fylgt með í svörum fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þingflokksfundi sjálfstæðismanna hvaða skýring er á þessum drætti, á endurskoðun efnahagsáætlunar á Íslandi, fyrst hann telur svo vera að íslenska ríkisstjórnin hafi fullnægt öllum þeim skilyrðum sem hafa verið sett til þeirrar skoðunar, þ.e. að haka í öll boxin eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í þingræðu í morgun. Það er reyndar ekki langt síðan, ekki lengra síðan en í síðustu viku að hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði úr þessum sama stól að endurskoðun eða samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefði engu skilað og við værum ekkert að þokast áfram í því samstarfi og ekki væri á neinu góðu að vænta úr þeirri áttinni.

Í þingsályktunartillögum sjálfstæðismanna um nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála á Íslandi kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn hyggst halda áfram samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þó að einhver vafi hafi leikið á því um tíma ef marka má orð þingmanna í þessum sal. Formaður Sjálfstæðisflokksins tók af öll tvímæli um það í morgun og undirstrikaði það að Sjálfstæðisflokkurinn mundi halda þessu samstarfi áfram. Formaður þingflokksins gerði það sömuleiðis. Þá hlýt ég að spyrja: Hvaða hugmyndir hafa sjálfstæðismenn um að leysa þá deilu? Hvernig ætla þeir að halda því starfi áfram með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ef á eftir að haka í þetta eina box til að við getum þróað málin áfram? Munu þeir styðja þá lausn að Icesave-deilunni sem fer að birtast innan fárra daga eða munu þeir mótast við áfram og reyna að spyrna við fótum?



[16:59]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að við höldum áfram samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það verður að láta á það reyna til fulls hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlar sér að starfa með okkur. Ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir: Heyrið þið ágætu Íslendingar, ef þið gangist ekki undir afarkosti Breta og Hollendinga munum við ekki starfa með ykkur. Þá er bara sú staða uppi. Ég trúi ekki að það verði niðurstaða málsins.

Við Íslendingar höfum með samþykkt Alþingis hér á dögunum sýnt að við höfum mikinn og ríkan samningsvilja í þessum málum. Við höfum sett upp með samþykki Alþingis aðferð eða aðferðafræði til að greiða, ef allt gengur eftir með bestu forsendum, alla þá skuld sem af Icesave-samningnum kann að hljótast. Ef ekki þá höfum við líka sagt: Það er eðlilegt að áætluninni sé breytt. Við Íslendingar sitjum ekki einir uppi með samninginn. Ég er sannfærður um að hv. þingmaður er mér sammála um að við Íslendingar höfum gengið mjög langt í þessum efnum. Ég er sannfærður um að innst í hjarta sínu er hann það.

Þá er spurningin: Ef við beygjum okkur ekki undir Breta og Hollendinga, alfarið og algerlega, getum við þá ekki unnið með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Á það verðum við að láta reyna. Ég segi um leið þetta: Þegar menn skoða efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins er náttúrlega lagt upp með að allt sem skiptir máli sem við getum gert nú þegar í okkar eigin landi og á okkar eigin forsendum, t.d. að kalla inn erlenda fjárfestingu sem bíður við dyrnar en er stopp vegna þess að flokksfélagar hv. þingmanns hafa því miður gripið til aðgerða sem hafa gert það að verkum að framkvæmdir í Straumsvík og Helguvík sem hefðu skapað þúsundir starfa, milljarða í skatttekjur á næsta ári strax fyrir ríkið, hafa verið settar á ís. Það er það sem við eigum að gera, út á það ganga þessar tillögur. Ég skal glaður eiga orðastað við hv. þingmann um allt sem snýr að Icesave-málinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en þetta er það sem skiptir máli í þessum umræðum.



[17:01]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að í þessari umræðu virðast flestir vera að leita lausna á þeim mikla efnahagsvanda sem við glímum við en það vill oft brenna við að í þessum sal sé meira um hnútuköst en uppbyggilegar umræður, því miður.

Ég er fegin því að það hefur komið skýrt fram, t.d. hjá síðasta ræðumanni, að Sjálfstæðisflokkurinn er eindregið þeirrar skoðunar að halda eigi áfram samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn því ég er sannarlega ein af þeim sem hélt að það væri mjög á gráu svæði hvort þeir vildu gera það. Varðandi framhald þess samstarfs er náttúrlega alveg ljóst, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að það er tengt lausn á Icesave-deilunni. Ég verð að segja að ég deili því með hæstv. fjármálaráðherra sem ég heyrði hann segja í útvarpinu að ég sé eftir hverjum degi sem dregst að leiða þá deilu til lykta.

Í tillögum sjálfstæðismanna, sem ég fagna því í þeim er margt fróðlegt og athyglisvert, kemur fram að það er samhljómur með þeim og tillögum í fjárlagafrumvarpinu, sem lagt var fram í síðustu viku, um að draga þurfi verulega úr ríkisútgjöldum. Mér hefur reyndar heyrst á sumum hv. fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að það sé kannski ekki mjög mikill vandi því að ríkisútgjöld hafi aukist svo mikið upp á síðkastið eða á undanförnum árum. Ég held samt sem áður að það verði svolitlum erfiðleikum háð að ná ríkisútgjöldunum niður en ég tel að það sé engu að síður nauðsynlegt.

Ég deili þeirri skoðun sem hefur komið fram hjá nokkrum þingmönnum í þessari umræðu og í umræðum undanfarna daga að við eigum að nota tækifærið til að gera gagngeran uppskurð á ríkisbúskapnum og uppstokkun í ríkiskerfinu. Ekki er vanþörf á því. Það er vel mögulegt og eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði fyrr í umræðunni benti fundur í heilbrigðisnefnd í morgun til þess að í þeim málaflokki er hugsað eftir þeim leiðum. Svo er reyndar einnig í ýmsum tillögum sem komið hafa fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra. Ef til vill tekst ekki að koma þeim hugmyndum öllum í gagnið 1. janúar en þá er um að gera að binda sig ekki svo við dagsetningar og fjárlög sem taka til eins árs að gagngerar breytingar geti ekki orðið í hvaða mánuði ársins sem er.

Í dag hefur verið gagnrýnt að fjárlagafrumvarpið sé ekki tilbúið. Ég hlýt að viðurkenna að ég skil ekki alveg þá umræðu því síst held ég að við vildum fá fjárlagafrumvarp sem væri hoggið í stein enda er væntanlega hugsunin með því að skylda fjármálaráðherra til að leggja fjárlagafrumvarp fram strax í upphafi þings sú að gefa þinginu tíma til að fjalla um það og væntanlega breyta því á ýmsa kanta og máta. Ég vil jafnvel leyfa mér að halda því fram að það geti verið kostur að ekki sé búið að njörva alla hluti niður. Alla vega er það ekki reynsla mín á þeim tíma sem ég hef setið á þingi að mönnum sé mjög auðvelt að skipta um skoðun eða láta tala um fyrir sér þótt kannski séu einhverjar undantekningar frá þeirri reglu.

Það er rétt að í fjárlagafrumvarpinu er ekki búið að útfæra hvernig á að ná inn þeim skatttekjum sem þörf er á í ár. Kem ég þá að því sem mér finnst mest spennandi í tillögum sjálfstæðismanna sem hér eru til umræðu en það er tillagan um að skattleggja inngreiðslur lífeyrissjóðanna. Eins og kemur fram í tillögunni er lögð til kerfisbreyting. Sumir geta kallað það bókhaldsfiff en þetta er kerfisbreyting. Ljóst er að þessari tillögu er ekki tekið með miklum fagnaðarlátum á skrifstofum hagsmunasamtaka atvinnulífsins og margra launþegasamtaka. Lífeyrissjóðirnir eru hins vegar ekki eign þeirra sem starfa á þeim skrifstofum heldur launþeganna í landinu og ef þessi leið er fær mun hún létta mjög skattbyrði almennra launþega sem annars verður nauðsynlegt að skattleggja mjög þungt til að ná inn þeim tekjum sem nauðsynlegar eru til að loka fjárlagagatinu. Ég fagna því mjög yfirlýsingum formanns hv. efnahags- og skattanefndar um að hann hyggist beita sér fyrir því að nefndin skoði þessa tillögu af fullri alvöru.

Ýmislegt annað má taka undir í tillögum sjálfstæðismanna sem hér liggja fyrir. Ég vil t.d. taka undir að það þurfi að stöðva það sem kallað er ólympískar veiðar á makríl og ég geri ráð fyrir að það þýði að keppast við að veiða sem mest. Eftir því sem fram kemur í greinargerðinni með tillögunni er áætlað að með því megi tvöfalda aflaverðmæti hans. Ég vil líka velta því fyrir mér hvort í þeim umbótum eigi ekki að bjóða upp þann afla sem leyft verður að veiða.

Í tillögunni eru önnur atriði sem ég tek ekki undir. Ég er sammála því að nauðsynlegt er að aflétta gjaldeyrishöftum en ég hef efasemdir um aðferðina sem lögð er til. Í mínum huga er það heldur ekki sáluhjálparatriði að allir búi í eigin húsnæði en auðvitað er nauðsynlegt að koma upp því kerfi að þeir sem kjósa að eiga ekki húsnæðið sem þeir búa í hafi samt sem áður húsnæðisöryggi.

Virðulegi forseti. Ég hef tæpt á nokkrum atriðum sem koma fram í þessari þingsályktunartillögu og tek undir með öðrum sem hafa fagnað því að hún sé lögð fram og geri ráð fyrir að við eigum eftir að ræða mörg þau atriði sem hér koma fram mikið á næstu vikum.



[17:08]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota þetta andsvar mitt til að þakka fyrir góðar undirtektir. Þetta er það viðmót og andrúmsloft sem maður vildi fá fyrir tillögur sínar. Takk fyrir.



[17:09]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum bráðaaðgerðir í efnahagsmálum sem við sjálfstæðismenn lögðum fram. Ég vil byrja á því að fagna þeirri umræðu sem hefur átt sér stað í dag og sérstaklega hrósa stjórnarþingmönnum fyrir þeirra innlegg í málið. Mér finnst að þeir hafi komið mjög málefnalega að þessari umræðu og þetta eru ákveðin vatnaskil í því að menn fari að bera virðingu fyrir skoðun hver annars en mér hefur oft þótt vanta upp á það. Það er nefnilega mjög hættulegt ef einhver heldur að hann sé sá eini sem hafi allar réttu lausnirnar. Ég vona að það sama verði varðandi fleiri tillögur sem verða ræddar í þinginu.

Þessar tillögur ganga helst út á að það er boðaður niðurskurður og þar erum við svo sem ekki mikið á skjön við það fjárlagafrumvarp sem lagt hefur verið fram. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að það þurfi að skera niður í ríkisútgjöldum, það væri ósanngjarnt og óábyrgt af okkur að halda öðru fram. Hins vegar er ekki sama hvernig það er gert og það er mjög hættulegt að fara í svokallaðan flatan niðurskurð og eins og einn hv. þingmaður sagði í síðustu viku í umræðum um fjárlagafrumvarpið er það kallað stjórnsýsluleti. Hins vegar fagna ég yfirlýsingum margra stjórnarþingmanna og hæstv. ráðherra um að menn eru farnir að sjá ágallana á því og skoða það með öðrum hætti.

Það sem kannski ber mest á milli í þessum tillögum okkar er kerfisbreyting á skattkerfi, hvernig við öflum skatttekna. Ég hef sagt í umræðum um fjárlagafrumvarpið að ég hræðist mjög þessa aðgerð ríkisstjórnarinnar, að skattleggja fjölskyldurnar meira en nú er gert. Ég er rosalega hræddur við það. Ég er hræddur um að það muni ekki skila neinum árangri enda kemur í ljós við endurskoðun á fjáraukalögum að skatttekjurnar eru mun minni en reiknað var með. Það eru ákveðin þolmörk. Síðan geta menn fært ákveðin rök fyrir því að menn ætli að að færa þau í 27% miðað við landsframleiðslu eins og var fyrir 3–4 árum en þá voru aðstæður í þjóðfélaginu allt öðruvísi. Þá var ekki þessi niðursveifla, nú höfum við 11,4% samdrátt í hagvexti og kaupmáttarrýrnun, atvinnuleysi og þar fram eftir götunum, þannig að ég tel að þessi leið sé ófær. Við sjálfstæðismenn leggjum hins vegar fram tillögu um breytingu á skattgreiðslum í lífeyrissjóðakerfinu sem hefur fengið góðar undirtektir og ég vænti þess að við munum skoða hana betur.

Við leggjum líka til að hlúa þurfi að og byggja upp öflugt atvinnulíf, hvort heldur sem er stóriðja eða að bæta við aflaheimildir. Það hefur stundum verið skrumskælt í dag að þessir orku- og auðlindaskattar séu sanngjarnt gjald á þessa stóriðju sem er en ég vil vekja athygli á því að þessir skattar fara alls ekki allir beint þangað. Þetta fer líka á heimilin í landinu, öll önnur fyrirtæki í landinu, sjávarútvegsfyrirtækin, sama hvar er. Menn verða að átta sig á því.

Síðan viljum við bæta við aflaheimildir en ég ætla að koma betur inn á það á eftir. Við þurfum að komast út úr þessum gjaldeyrishöftum og okkur greinir örlítið á um hvernig skynsamlegt sé að gera það en ég ætla að vona að við ræðum okkur niður á sameiginlega lausn í þeim málum.

Síðast en ekki síst er mjög mikilvægt að við tökum á skuldavanda heimilanna. Við lögðum fram efnahagstillögur á vormánuðum sem gengu einmitt út á það. Þær fengust ekki ræddar eins og þær tillögur sem við erum að ræða núna en það hefði kannski verið betur hlustað á okkur fyrr í vor. Við vorum kannski þroskaðri í umræðunni þá og hefði verið gripið til þeirra aðgerða þá værum við kannski betur stödd í dag. Ég vil hins vegar nota tækifærið og fagna þeim tillögum sem hæstv. félagsmálaráðherra boðar og verða kynntar á morgun eða á útbýtingarfundi. Ég tel þær reyndar ganga aðeins of stutt en ég fagna því að það er þó spor í rétta átt.

Mig langar að koma aðeins inn á það sem við viljum gera í sambandi við veiðiheimildir. Það er gert með mjög ábyrgum hætti. Hér koma ekki fram tölur en ég ætla að gera grein fyrir þeim hugmyndum sem við höfum uppi um það. Við viljum að 40 þús. tonnum verði bætt við þorskkvótann strax. Það eitt og sér mun skaffa 18 milljarða í beinar tekjur, 18 milljarða inn í hagkerfið. Þetta er gert með þeim hætti að það mun ekki minnka hrygningarstofninn eða minnka veiðistofninn. Veiðistofninn mun meira að segja vaxa örlítið sem þýðir í raun og veru að við ætlum að fresta uppbyggingu stofnanna núna og halda þeim í skefjum eins og sagt er. Við þurfum þessa innspýtingu í hagkerfið. Við viljum að 7 þús. tonnum verði bætt við ýsuna sem gefur um 2 milljarða í tekjur og það er mjög varlega farið. Síðan viljum við að 15 þús. tonnum verði bætt við ufsann sem skapar um 2,5 milljarða í tekjur. Bætt verði 3 þús. tonnum við grálúðuna og það skapar 2 milljarða. Það er líka mjög sérkennilegt að grálúðan skuli vera skorin niður við þessar aðstæður vegna þess að þetta er stofn sem er ekki búið að ná samkomulagi um hvernig á að veiða. Hvorki Færeyingar né Grænlendingar munu skera sínar veiðiheimildir niður í þeim stofni þannig að það er ekki skynsamlegt að gera það með þeim hætti. Annars vegar hníga mörg önnur rök að því að við vitum mjög lítið um grálúðuna og eins hefur t.d. aldrei veiðst smágrálúða við Íslandsstrendur. Ég tel þetta mjög skynsamlegt enda er þetta það sama og við höfum veitt mörg undanfarin ár og minna á árinu á undan.

Einnig þyrfti að bæta við skötuselinn að lágmarki 1.500–2.000 tonnum sem skaffar tæpan milljarð í tekjur. Það er reyndar alveg óskiljanlegt að þessi ránfiskur skuli vera friðaður því útbreiðsla hans hefur aukist mjög mikið á undanförnum árum. Hann er alltaf að færast norðar og norðar, hann veiddist djúpt suður í köntum til að byrja með en nú er hann kominn fyrir Norðurlandi. Þetta er alger ránfiskur. Að upplifa núna í upphafi kvótaársins að menn skuli þurfa að hætta veiðum vegna þess að þá vanti örfá tonn í skötusel vegna meðalafla er með ólíkindum. Við erum í raun og veru að kasta verðmætum á glæ með því að nýta þessa tegund ekki meira.

Síðast en ekki síst höfum við hagað okkur mjög illa og gengið mjög illa um makrílstofnana og því þarf að breyta. Við höfum verið í ólympískum veiðum en þær ganga út á að menn reyna að búa sér til aflareynslu. Menn hafa nýtt lítinn hluta, einungis 30 þús. tonn af 116 þús. tonna veiði er nýtt til manneldis. Ef við bara veiddum sama magn af makríl og mundum skikka skipin til að veiða hann til manneldis sköpuðum við 8 milljarða til viðbótar í tekjur. Þarna erum við ekki ábyrg í því sem við erum að gera. Þetta er eingöngu vegna þess að menn eru í keppni af því að það er heildarkvóti og menn moka þessu í bræðslu. Það væri skynsamlegast fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra, vegna þess að um þetta standa deilur af því að það er deilistofn á milli ríkja, að hann mundi gefa það út að þeir sem stunduðu þessar veiðar fengju eingöngu úthlutað til þess sem þeir veiddu til manneldis eða hreinlega banna að veiða þennan stofn nema eingöngu til manneldis. Þá þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Það mundi skapa 8 milljörðum meiri tekjur. Þetta erum við að gera á þessum tímum og það er mjög óábyrgt. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Bara þessar tölur sem ekki eru inni í heildartölum okkar sjálfstæðismanna í þessum efnahagstillögum þýða auknar tekjur eða þjóðarframleiðslu upp á 33 milljarða. Ragnar Árnason og fleiri hafa skilað af sér mjög merkilegri skýrslu en þar kemur fram að öll fjárfestingin er til staðar í greininni. Við þurfum ekkert að fjárfesta. Það þarf bara að taka ákvörðunina og þá koma peningarnir inn. Við eigum skipin, húsin og markaðina þannig að þetta er þreföldun inn í hagkerfið sem þýðir tæpra 100 milljarða innspýtingu í hagkerfið.

Virðulegi forseti. Þessu þurfum við á að halda núna. Við verðum að nýta þetta og við getum horft til hvernig Færeyingarnir unnu sig út úr kreppunni. Menn verða að framleiða, búa til störf og búa til tekjur en við getum ekki skattlagt íslenskar fjölskyldur og heimili meira en gert er í dag. Innst inni erum við öll í þessum sal sammála um að íslenskar fjölskyldur þola ekki frekari álögur við þessar aðstæður sem eru núna. Það versta er þó að þegar menn fara að hækka bæði tekjuskattinn og allt saman, síðan á að hækka óbeinu skattana og við erum með þessa verðtryggingu sem við þurfum að vinna okkur út úr og komast frá, annars hækka öll lánin. Þetta er katastrófa og þessu verðum við að snúa á betri veg. Það er skylda okkar að gefa fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu von því þau þurfa svo sannarlega á því að halda um þessar mundir.



[17:19]
Guðrún Erlingsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hugmynd sjálfstæðismanna um skattlagningu inngreiðslu lífeyrissjóðsgreiðslna er að mínu mati aðför að launafólki landsins. Það að leggja þetta fram undir þeim formerkjum að kerfisbreyting sem þessi leggi ekki meiri byrðar á herðar launafólks og lífeyristaka hvorki nú eða síðar er beinlínis röng.

Allir geta verið sammála um nauðsyn þess að að leita allra leiða til þess að auka tekjur ríkissjóðs, ekki síst við þær aðstæður sem hér ríkja í dag. Það er virðingarvert að reyna nýjar leiðir en þessi leið sjálfstæðismanna er ekki fær. Aðilar vinnumarkaðarins sem og lífeyrissjóðirnir hafa skoðað þessa hugmynd og eru sammála um að skattlagning inngreiðslu sé einungis skerðing fyrir eigendur sjóðanna, þ.e. sjóðsfélaga sem greiða 4–8% af launum sínum til þess að tryggja sér lífsviðurværi þegar starfsævinni lýkur. Ég er í raun undrandi á því að sjálfstæðismenn skuli halda þessum hugmyndum til haga þegar ljóst þykir að það leiðarljós sem lagt var af stað með gengur ekki upp.

Það þarf enga hagfræðinga eða aðra stórsnillinga til þess að sjá að 4–8% skattlagning af launum sem áður voru þýðir ekki að sjálfstæðismenn ætli að seilast í buddu heimilanna til þess að sækja þangað meiri skatttekjur. Vissulega ætla þeir að nota þessa skattlagningu til þess að minnka skattlagningu annars staðar og hvaða tilgangi þjónar það?

Látum nú vera þessar tilfærslur úr einum vasa í annan, það er í raun ekki stærsta málið þótt vissulega taki það í budduna. Tillögur sjálfstæðismanna eru í mínum huga til þess fallnar að fresta þynnkunni og hingað til hefur það ekki talist góð aðferð. Þingmenn verða að hafa kjark til að taka á óþægilegum málum. Sækja verður skatttekjur í vasa heimila og fyrirtækja og það er heiðarlegra að gera það strax og takast á við eftirköst hinnar miklu veislu liðinna ára. Því miður verða þeir sem ekki sátu við veisluborðið líka að taka afleiðingum gleðskaparins og bera byrðarnar ásamt þeim sem í veislunni voru. Það er ekki sanngjarnt að leggja meira en orðið er á komandi kynslóðir.

Hvað þýða tillögur sjálfstæðismanna um skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna? Jú, þær kollvarpa því lífeyrissjóðakerfi sem byggt hefur verið upp undanfarin 40 ár og margar þjóðir hafa horft til. Þær rjúfa þá sátt sem verið hefur milli kynslóða um að hver og ein kynslóð standi undir eigin lífeyri og þjónustu án þess að velta kostnaðinum yfir á þá næstu. Breyting á kerfinu úr sjóðssöfnun í gegnumstreymiskerfi leggur meiri byrði á komandi kynslóðir. Nú er einn ellilífeyrisþegi á hverja sex vinnandi menn, árið 2020 er áætlað að hlutfallið verði einn á móti fjórum og árið 2030 einn á móti þremur. Með tillögum sjálfstæðismanna eiga unga fólkið og börn þessa lands að taka á sig byrðarnar í framtíðinni.

Ég trúi því ekki að það sé raunverulegur vilji neins stjórnmálamanns að skipa málum þannig. Ég kýs að líta svo á að flutningsmenn hafi ekki alveg gert sér grein fyrir því hvað tillaga þeirra þýddi þegar allar hliðar hafa verið skoðaðar. Þær þýða lakari ávöxtun lífeyris. Það munar um þá upphæð sem frestun skattgreiðslu gefur í ávöxtun nokkurra áratuga.

Þær þýða lægri lífeyri til lífeyrisþega í framtíðinni og hærri framlög úr almannatryggingakerfinu þegar til lengdar lætur. Dæmi hafa verið tekin um að 40 ára inngreiðsla á sömu launum með 3,5% ávöxtun þýði í raun 15% skerðingu réttinda.

Þær þýða lokun á núverandi kerfi og uppgjör miðað við áfallna stöðu sjóðanna. Slíkt uppgjör nú þýðir verulega skerðingu réttinda m.a. vegna aldurssamsetningar sjóðfélaga, sem nú er neikvæð, þrátt fyrir að framtíðarstaðan líti betur út. Það segir sig sjálft að gera upp sjóð í dag í því umhverfi og neikvæðu ávöxtun sem ríkir er eingöngu ávísun á skerðingu.

Það er rétt að benda tillöguflytjendum á að almenna lífeyriskerfið gengur í gegnum breytingaferli vegna upptöku aldurstengdrar réttindaávinnslu í stað flatrar. Heyrst hafa tölur um að þetta geti þýtt allt að 25% skerðingu í sumum sjóðum. Þegar umrædd breyting var gerð var gert ráð fyrir að hún tæki nokkra áratugi.

Þessar tillögur sjálfstæðismanna þýða líka að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna minnkar sem leiðir til þess að þeir hafa ekki sömu möguleika á að taka myndarlega þátt í uppbyggingu og endurreisn þjóðfélagsins

Þær þýða enn meiri mismunun milli lífeyrisréttinda í almenna og opinbera kerfinu. Ef allir landsmenn ættu að sitja við sama borð þyrfti að skerða lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna bæði í A og B deild LSR og lífeyrissjóðum sveitarfélaga. Eru sjálfstæðismenn að boða slíka skerðingu eða er hugmynd þeirra að auka enn á þá mismunun sem felst í lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og launþega á almenna vinnumarkaðnum?

Þau rök sem ég hef lagt fram hér á undan eiga að miklu leyti líka við um skattlagningu inngreiðslna séreignarsparnaðar. Ég hvet sjálfstæðismenn til þess að draga þann hluta tillögunnar til baka sem snýr að skattlagningu inngreiðslna lífeyrissjóðsiðgjalda. Hugmyndin var án efa góðra gjalda verð af hendi hugmyndasmiðanna en reikningurinn sem sendur yrði til komandi kynslóða er með öllu óásættanlegur.



[17:24]Útbýting:

[17:25]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Ég vil byrja á því að óska síðasta ræðumanni til hamingju með jómfrúrræðu sína. Hér var rætt um kerfisbreytingu á lífeyrissjóðsgreiðslum, að skattleggja inngreiðslur í stað útgreiðslna ef svo mætti að orði komast, en ég tel að málflutningur hv. þingmanns hafi verið á misskilningi byggður. Þessi tillaga er ekki aðför að launafólki. Þarna er einfaldlega verið að horfa til þess að frestaðar skatttekjur ríkissjóðs liggja inni í lífeyrissjóðunum. Það er ekki aðför að launafólki í sjálfu sér að fara í kerfisbreytingar á lífeyriskerfinu og taka út frestaðar skatttekjur ríkisins eins og þær liggja inni hjá lífeyrissjóðunum.

Ég fagna því hins vegar að þessar tillögur okkar sjálfstæðismanna hafa fengið þær umræður í dag sem raun ber vitni og margir þingmenn hafa tekið með jákvæðum hætti en misjöfnum þó í þær tillögur. Ríkisstjórnin í þessu landi hefur oftar en ekki kallað á samráð og samvinnu en jafnharðan slegið út af borðinu allar þær tillögur sem fram hafa komið frá stjórnarandstöðunni frá því hún tók við sem minnihlutastjórn 1. febrúar 2009. Það er því fagnaðarefni að við þingmenn skulum sjá breytt vinnubrögð í þessum sal, að þessi mál séu rædd hér og nú. Það er alveg ljóst að við erum hvorki sammála um allar þær aðgerðir og umræðu sem hér á sér stað né þær tillögur sem við sjálfstæðismenn leggjum fram en við tökumst þó á um þær og það er vel.

Megintillögur okkar sjálfstæðismanna, fyrir utan þessa kerfisbreytingu á lífeyrissjóðum eða inngreiðslum og útgreiðslum í lífeyrissjóðina, eru að hér eigi að efla verðmætasköpun og blása lífi í atvinnulífið. Þar eiga að koma til auknar tekjur vegna þess að við teflum atvinnu fram gegn atvinnuleysi og tekjum gegn inngreiðslum í Atvinnuleysistryggingarsjóð. Það er meginhugmyndin. Hún kemur fram í þessum tillögum og einnig m.a. í þeim tillögum sem hv. 1. þm. Norðvesturkjördæmis, Ásbjörn Óttarsson, nefndi hér áðan um aukaaflaheimildir sem gætu skilað þjóðarbúinu hátt í 100 millj. á næsta ári. Allt er þetta vert skoðunar og engar af þessum tillögum á að slá út af borðinu. Menn eiga að taka þær til umræðu á þeim viðeigandi vettvangi og innan þeirra nefnda þar sem þær eiga við og ræða þær í þaula. Síðan má sníða af þeim galla eins og öllum öðrum tillögum og laga þær að þeim úrræðum sem við stöndum frammi fyrir og þurfum að klára með fjárlögum sem við ljúkum hér í desember.

Í þessum tillögum Sjálfstæðisflokksins stendur líka að það megi og eigi að skoða þá aðgerðaáætlun sem vinnum samkvæmt í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Menn hafa rætt hér á undanförnum dögum að líklega sé þörf okkar fyrir lán ekki jafnmikil og lagt var upp með í þeirri aðgerðaáætlun og það er vel. Engin áætlun á að vera þannig niðurnjörvuð að hún geti ekki kallað á endurskoðun ef aðstæður breytast. Aðgerðaáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslensku ríkisstjórnarinnar er ekki undanskilin hvað það varðar en það er ekki verið að henda Alþjóðagjaldeyrissjóðnum út af borðinu ef menn halda það. Það væri að mínu mati í hæsta máta óábyrgt í því ástandi sem við erum nú.

Síðast en ekki síst, frú forseti, komum við sjálfstæðismenn með tillögur um skuldavanda heimilanna. Skuldavandi heimilanna er nátengdur þeim tillögum okkar að efla frekar atvinnu og auka tekjur en að draga úr atvinnu og borga enn frekar inn í Atvinnuleysistryggingasjóð. Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðarkerfisins og þess að heimilin geti staðið við skuldbindingar sínar. Öllum er ljóst að það er forsendubrestur í íslenska hagkerfinu. Þessum forsendubresti verður að mæta með einhverjum hætti, frú forseti. Menn eru ekki á eitt sáttir um hvernig þeir vilja ganga í skuldavanda heimilanna. Margar tillögur eru uppi á borðinu og þær allar verður ríkisstjórnin að skoða.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt fram sínar tillögur sem verða væntanlega ræddar í þinginu í næstu viku en mörgum þykir sem þær gangi eigi nógu langt og þar þurfi að gera betur.

Við leggjum hér fram tillögur sem við viljum að verði skoðaðar og óskum þess að hv. félags- og tryggingamálanefnd taki þær til skoðunar með opnum hug en hendi ekki út af borðinu því sem lagt er til. Ég ítreka, frú forseti, þau orð sem margir stjórnmálamenn hafa notað og nýtt að það sé þörf fyrir samráð og samvinnu. Ef einhvern tímann er þörf fyrir slíkt þá er það nú. Margir stjórnmálamenn hafa líka sagt að vinnubrögð fyrri ára hafi verið óásættanleg og vilja breyta þeim. Þá eiga þeir sömu aðilar, sem nú sitja í ríkisstjórn og hafa talað hvað hæst um að vinnubrögð fyrri ríkisstjórna hafi verið ómöguleg, að beita sér fyrir nýjum og breyttum vinnubrögðum, taka þátt og skoða þær tillögur sem lagðar eru fram.

Mönnum hefur líka verið tíðrætt um að sá vandi sem við stöndum frammi fyrir sé í boði Sjálfstæðisflokksins. Þá vil ég bara benda hæstv. ríkisstjórn á að hún hlýtur þá að sitja hér sem ríkisstjórn í boði Sjálfstæðisflokksins. Ég veit ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, hugnast það sérstaklega vel að vera sagður sitja í embætti fjármálaráðherra í boði Sjálfstæðisflokksins en ef vandinn sem við er að glíma er allur í boði Sjálfstæðisflokksins þá sitja þeir þar í boði hans, taka við því boði og vinna þá samkvæmt því.

Ég held að skuldavandi heimilanna sé miklu brýnni en við mörg hver gerum okkur grein fyrir. Unga fólkið okkar stendur hvað verst hvað þetta varðar. Því er afar brýnt að þessar tillögur, og þá tillögur sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt fram, verði teknar inn fljótlega og skoðaðar af fullri alvöru, sem og þær tillögur sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram. Menn henda ekki út af borðinu niðurfellingu skulda eða leiðréttingu á höfuðstóli miðað við þann forsendubrest sem er í hagkerfinu. Það er einfaldlega ekki hægt, frú forseti.

Ríkisstjórnin hlýtur að taka við skoðunum og öðru sem þessar tillögur sýna því þær draga úr álögum á fólkið í landinu og það hlýtur að vera keppikefli ríkisstjórnar sem kennir sig við velferð. Þær eru líka lagðar fram til eflingar atvinnulífs sem dregur úr atvinnuleysi, eykur skatttekjur og minnkar inngreiðslur í Atvinnuleysistryggingasjóð. Sú ríkisstjórn sem kennir sig við velferð, frú forseti, hlýtur að taka tillögum sem þessum opnum örmum og hnýta þær inn í sínar tillögur um lausn þess vanda sem við blasir.



[17:34]
Guðrún Erlingsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur vil ég taka fram að málflutningur minn er ekki á misskilningi byggður. Þau rök sem ég kom fram með í málinu sýna hversu gríðarleg skerðing getur orðið á lífeyri framtíðarinnar ef kerfisbreyting sú sem sjálfstæðismenn hafa boðað nær fram að ganga. Sem stjórnarformaður í lífeyrissjóði tel ég mig hafa þó nokkra þekkingu á núverandi lífeyrissjóðakerfi og tel skyldu mína að benda á þá hættu sem af tillögunni getur hlotist.



[17:35]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Við deilum í það minnsta ekki þeirri skoðun að þær kerfisbreytingar á lífeyrissjóðunum sem hér liggja fyrir séu þess virði að þær verði skoðaðar nákvæmlega og farið verði yfir hvað þær þýði, hvað þær kosti og hvort þær séu, eins og hv. þingmaður sagði, aðför að launafólki. Ég tel að svo sé ekki. Ég tek undir þau orð sem féllu hér í gær að lífeyrissjóðirnir eru eign þeirra sem þar eiga inni. Þeir eru ekki eign stjórnarmanna eða þeirra sem fara með og fjárfesta fjármuni lífeyrisþega. Þeir eru eign launþeganna og það er þeirra að skoða og fara yfir hvað er rétt og hvað rangt. Ég tel að það að taka út þessar frestuðu skatttekjur sem talað er um sé ekki og aldrei muni vera hægt að kalla það aðför að launafólki.



[17:36]
Guðrún Erlingsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek hjartanlega undir það sem Ragnheiður sagði. Lífeyrissjóðirnir eru eign sjóðsfélaganna (Gripið fram í: Hv. þingmaður.) — hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Ég sit í sjóðnum sem fulltrúi launþega. Ég hef sett hér fram rök fyrir máli mínu og við þau rök stend ég. Þessar áherslur eru aðför að launþegum þar sem þetta kemur til með að rýra til muna lífeyri þeirra í framtíðinni. Hins vegar sagði ég áðan að ég fagna því að menn reyni að koma með nýjar tillögur. Það er gott. Þessi tillaga gengur hins vegar ekki upp með þeim rökum sem ég benti á.

Fyrst ég hef smátíma í viðbót vil ég taka undir orð hv. þm. Ásmundar hér áðan varðandi að fá innspýtingu í þjóðlífið með því að bæta við fiskveiðikvótann. Ef það er hægt þá er það sannarlega þess virði og vonandi er það hægt.



[17:37]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessar tillögur verða væntanlega vegnar og metnar af þar til bærum aðilum þegar kemur að því að þær fara til umræðu í þeirri nefnd sem þær eiga að fara til. Það verður þá að skoða rök með og á móti. Hv. þingmaður leggur fram sín rök. Við sjálfstæðismenn höfum önnur rök að baki þeim tillögum sem við leggjum hér fram. Við teljum að þetta sé framkvæmanlegt og sé alls ekki undir nokkrum kringumstæðum — og ég ítreka það, frú forseti — þessi kerfisbreyting á lífeyrissjóðum, inngreiðslur í stað útgreiðslna, er ekki á nokkurn hátt aðför að launafólki í landinu. Þetta er leið til þess að koma fjármagni inn í hagkerfið til þess að efla atvinnulífið, auka tekjur og fara hraðar út úr þeim vanda sem við blasir.



[17:38]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur þegar hún ræðir um kerfisbreytingar varðandi lífeyrisgreiðslur. Það vita allir sem vilja vita, hvort sem það eru tryggingastærðfræðingar eða aðrir, að þetta hefur engin áhrif á sjóðfélaga. Þetta hefur engin áhrif á það hvað sjóðfélagi fær. Færa má rök fyrir því að það megi gera hlutina öðruvísi. Sterkustu rökin snúa væntanlega að hagsmunum lífeyrissjóðanna, að þeir hafi minna umleikis til að fjárfesta, en það hefur engin áhrif á sjóðfélaga hvenær skatturinn er tekinn, hvorki fyrir eða eftir. Það getur hver og einn séð sem vill skoða það.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um þátt sem kannski hefur ekki verið mikið ræddur hér í dag en hann snýr að aðhaldi í ríkisfjármálum. Nú spyr ég hv. þingmann, vegna þess að hv. þingmaður er fyrrverandi bæjarstjóri og bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ. Það er athyglisvert að hæstv. fjármálaráðherra missti út úr sér að hann hefði kannski átt að byrja fyrr að taka á rekstri í ríkisfjármálunum og sagði að sveitarfélögin væru komin mun lengra. Ég var á ágætis fundi í gær með borgarstjóranum í Reykjavík sem upplýsti að Mosfellsbær hefði náð miklum árangri þegar snýr að gæðum í skólastarfi og sömuleiðis varðandi aðhald í rekstri. Hver grunnskólanemi kostar 800 þús. í Mosfellsbæ á meðan hann kostar 1,1 millj. í Reykjavíkurborg. Ég vildi þess vegna fá fram sjónarmið hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur — af því hér erum við að tala um lausnir, hvernig við eigum að leysa þennan vanda — um það hvernig menn hafa hagað málum í Mosfellsbæ þar sem hún stjórnaði með miklum glæsibrag áður fyrr (Forseti hringir.) og hvort hún geti deilt reynslu sinni (Forseti hringir.) með okkur hvað þessa þætti varðar.



[17:41]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég nefndi í ræðu minni um fjárlögin að það þyrfti að taka á því agaleysi sem ríkti í ríkisfjármálum. Á nákvæmlega sama hátt taldi ég þegar ég sinnti starfi mínu sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ að taka þyrfti á vandamálum sem ríktu í því sveitarfélagi þar sem æðimargir litu á fjárhagsáætlunina sem heimild til þess að fara fram úr henni en ekki sem tölur sem þeir ættu að fara eftir. Til þess að koma í veg fyrir agaleysi í ríkisfjármálum þarf einfaldlega, frú forseti, að fara í heildaruppstokkun á kerfinu eins og það liggur fyrir. Síðast en ekki síst þarf að vera til staðar afar virkt eftirlit þeirra sem bera ábyrgð á stofnunum, sem eru þá ráðuneyti versus undirstofnanir, að það sé samvinna og samráð á milli ráðuneytis og stofnana og þar hittist aðilar, fari yfir og skoði alla liði að jafnaði mánaðarlega eða á tveggja mánaða fresti til þess að agi ríki í meðferð fjármuna ríkisins. Þetta er hægt að gera á nákvæmlega sama hátt og varðandi aga í meðferð fjármuna sveitarfélaga. Ávinningurinn við slíka vinnu, þótt hún sé tímafrek, er margþættur. Hún eflir þekkingu forstöðumanna stofnana á rekstri fyrirtækjanna sem eru í eigu ríkisins eða sveitarfélaganna og á móti veitir hún þeim forstöðumönnum sem þar eru virkt eftirlit. Þetta er gagnkvæmt og á að geta skilað ríki eins og sveitarfélögum verulegum árangri í hóflegri meðferð fjármuna og metnaðarfullri meðferð (Forseti hringir.) fjármuna sem borgaðir eru með skattfé borgaranna.



[17:43]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að deila þessu með okkur. Ég held að það skipti nefnilega afskaplega miklu máli að við tölum hreint út þegar kemur að ríkisfjármálum. Hv. þingmaður lýsti reynslu hjá opinberum aðilum, nánar tiltekið sveitarfélaginu Mosfellsbæ sem heldur uppi mjög góðri þjónustu. Ég held að væri ágætt að heyra í stærri tölum við hverju hv. þingmaður tók sem bæjarstjóri á sínum tíma og hvernig var síðan skilið við það, því ég veit að það var gengið af mikilli ákveðni í þau mál. Þannig var skilið við málin og þannig er þjónustan enn þá í Mosfellsbæ eftir því sem ég best veit, hún er til fyrirmyndar.

Auðvitað hefði alltaf átt að gera þetta en staðreyndin er sú að við hefðum átt að byrja á þessu núna á þessu ári. Þeir aðilar sem eru í fjárlaganefnd vita og það hefur verið upplýst hér að við erum búnir að missa þetta dýrmæta ár. Stofnanir hafa farið fram úr fjárlögum á þessu ári og það þýðir að þær þurfa að taka það á sig á næsta ári. Með öðrum orðum, út af agaleysinu er búið að magna vandann. Sjúklingar munu finna fyrir því að þessi stjórn hafði ekki aga á ríkisfjármálunum. Það mun koma beint niður á sjúklingum og starfsmönnum og þeim sem þurfa á þjónustu að halda.

Ég held að þegar við ræðum þessi mál sé mjög gott að menn tali í dæmum og ég hefði áhuga á því að hv. þingmaður upplýsti okkur um það ef hún hefði einhverjar tölulegar staðreyndir um þá reynslu sem hún hefur (Forseti hringir.) af því stóra sveitarfélagi sem hún stýrði fyrir (Forseti hringir.) fáeinum missirum síðan.



[17:45]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég hef ekki haldbærar tölur en árið 2002 var sveitarfélagið Mosfellsbær undir eftirliti eftirlitsnefndar sveitarfélaga. Það var næstum því komið í gjörgæslu vegna bágrar stöðu. Nákvæmlega eins og núna var ekki um annað að ræða, hvort sem mönnum líkaði betur eða verr, en að fara í heildarendurskoðun á kerfinu og athuga hvar væri hægt að skera niður, hvar væri hægt að hagræða, hvernig væri hægt að samræma störf o.s.frv.

Að sjálfsögðu, frú forseti, eru þetta alltaf afar sársaukafullar aðgerðir, hvort sem er hjá sveitarfélögum eða ríki. Stjórnmálamenn verða þó að átta sig á því að þótt þeir séu í þjónustu þeirra sem kjósa þá, hvort heldur er í sveitarstjórnum eða á Alþingi, verða þeir að hafa kjark til þess að taka sársaukafullar ákvarðanir. Það er hluti af hlutverki þeirra, til þess eru menn í kjöri og til þess eru menn annaðhvort endurkjörnir eða þeim er hent út. Það er ekki flóknara. Menn verða að hafa kjark til þess að ráðast í sársaukafullar aðgerðir.

Þess vegna þykir mér í sjálfu sér miður að núverandi ríkisstjórn velur svona auðvelda leið að mínu mati t.d. með því að skera niður allar samgönguframkvæmdir í staðinn fyrir að efla þær og styrkja þannig atvinnulífið. Það er auðvelt að skera niður með einu pennastriki en erfiðara að fara í margar aðgerðir innan ráðuneytanna og þurfa að lækka laun fólks, sameina störf eða hugsanlega færa fólk til í störfum. Það er sársaukafullt og þar skortir kjark.



[17:47]
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. 25. apríl sl. voru kosningar. Af hverju nefni ég það hér? Jú, vegna þess að mér finnst tíminn hafa staðið í stað. Lausnir á hinum brýnu viðfangsefnum sem blöstu við þjóðinni til endurreisnar á íslensku efnahagslífi og ganga átti í af öryggi og festu af nýrri ríkisstjórn virðast enn vera langt undan. Því vil ég taka undir með hv. þingmönnum sem hafa komið hingað upp í dag og fagna þeirri umræðu sem hefur farið fram af hálfu allra þingmanna í öllum flokkum og verið mjög upplýsandi fyrir mig. Öll þjóðin skilur að rekstur ríkissjóðs er erfiður og taka þarf á málum, það þarf að auka tekjur ríkisins ásamt því að hagræða í rekstri og um þetta er ekki deilt. Í þeirri tillögu til þingsályktunar sem er hér til umræðu eru lagðar til leiðir í ríkisfjármálum sem fela í sér hagræðingu, niðurskurð ríkisútgjalda og breikkun skattstofna, aðrar leiðir en fjármálaráðherra leggur til í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010. Þær leiðir sem þar eru lagðar til boða að mínu mati stöðnun og stórfellt atvinnuleysi.

Við hagræðingu og niðurskurð í opinberum rekstri er mikilvægt að markmiðin séu skýr og að þeim sé unnið í samráði og samstarfi við þá sem best þekkja til, starfsmenn og stjórnendur hlutaðeigandi málaflokka, en ekki sé valin leið flats niðurskurðar. Enginn er öfundsverður af að þurfa að taka ákvarðanir sem leiða til uppsagna starfsmanna og samdráttar í þjónustu. Það þekki ég á eigin skinni sem sveitarstjóri. Því er nauðsynlegt að vanda vel til verka og forgangsröðun þarf að vera skýr. Benda má á þá vinnu sem flest sveitarfélög landsins fóru í sl. haust, þ.e. það verkefni að skilgreina og draga fram hvað er grunnþjónusta við íbúa. Sama verklag þarf að viðhafa í ríkisrekstrinum, óháð búsetu íbúa landsins.

Ég dreg þetta fram vegna þess að það er morgunljóst að ef tillögur til niðurskurðar sem lagðar eru til í frumvarpi til fjárlaga ná fram að ganga mun sú aðferðafræði sem þar er viðhöfð fækka mjög opinberum störfum á landinu öllu. Slíkt boðar í mínum huga að höggvið verður fast að landsbyggðinni. Niðurskurðarkrafa ríkisins gagnvart stofnunum úti um allt land er uggvænleg og dæmi um mun hærri niðurskurðarprósentu en á stofnunum á höfuðborgarsvæðinu.

Sem íbúi á landsbyggðinni alla mína tíð get ég ekki orða bundist yfir þeirri ógn sem steðjar að ef þau opinberu störf sem íbúar og sveitarfélög á landsbyggðinni hafa barist fyrir með blóði, svita og tárum að ná til sín í gegnum tíðina verða lögð niður eða flutt til höfuðborgarinnar undir merkjum hagræðingar. Við sjáum þess glögglega merki hvað varðar tillögur um hagræðingu. Ég nefni sérstaklega sýslumannsembættin. Við verðum að hafa markmiðin skýr á tímum niðurskurðar og hagræðingar.

Ásamt hagræðingu og niðurskurði í ríkisrekstri þarf að auka tekjur ríkisins eins og kostur er. Það væri betur gert með því að koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað en að ráðast í stórfelldar skattahækkanir. Þar skiptir miklu máli að efla atvinnulífið og að mínu áliti munu framleiðslugreinar, gjaldeyrisskapandi greinar, gegna þar lykilhlutverki. Í þessu sambandi vil ég draga fram sérstaklega sjávarútveginn og ferðaþjónustuna.

Sjávarútvegurinn hefur löngum verið undirstöðuatvinnugrein og sterk rök hníga að því að auka aflaheimildir. Tryggja þarf störf við veiðar og vinnslu auk þess sem gjaldeyrir sem skapast er efnahagslífinu og þjóðinni ómetanlegur. Sú óvissa sem steðjar að þessari undirstöðuatvinnugrein vegna aðgerða stjórnvalda er algerlega óviðunandi. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir auknum sköttum á greinina. Stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir að innkalla skuli veiðiheimildir og boðað hefur verið að sú innköllun hefjist 1. september 2010. Á sama tíma hefur verið sett af stað vinna í nefnd sem hefur það að markmiði að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið með það að leiðarljósi að leita leiða til sátta við greinina. Allt þetta hefur sett sjávarútveginn í uppnám og þar með það hlutverk hans að vera kjölfesta við endurreisn atvinnulífs þjóðarinnar.

Ferðaþjónustan er orðin burðarás í atvinnulífi og gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Greininni þarf að skapa viðunandi starfsskilyrði og standa vörð um þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í markaðssetningu og stefnumótun. Það verður ekki gert með þeim samdrætti á framlögum til landkynningar og markaðsmála og sérstakri skattlagningu í formi gistináttagjalds sem boðuð er í margnefndu frumvarpi til fjárlaga 2010. Þá vitum við öll í hvaða uppnámi stöðugleikasáttmálinn er gagnvart atvinnulífinu og varðar uppbyggingu atvinnufyrirtækja sem ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í.

Virðulegi forseti. Það er hlutverk stjórnvalda hverju sinni að skapa þau skilyrði fyrir atvinnulífið að það geti blómstrað. Einungis með þeim hætti tekst okkur að koma efnahagslífinu í gang. Þá fyrst förum við að vinna okkur út úr lægðinni hægt og bítandi.

Ég nefndi hér í upphafi að liðið væri u.þ.b. hálft ár frá kosningum. Gjaldeyrishöft, jöklabréf, stýrivextir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, þetta voru aðalumræðuefni framboðsfunda. Kallað var eftir tillögum frambjóðenda um hvernig væri best að ganga til verka svo hægt væri að ná tökum á hagstjórn landsins. Í þessari þingsályktunartillögu hafa verið lagðar fram raunhæfar tillögur sem miða að því að koma þjóðinni út úr þeirri efnahagslægð sem hér er. Þá verður enn og aftur að draga fram þá staðreynd að stöðugleikasáttmálinn er í uppnámi þar sem markmið um lækkun stýrivaxta hefur ekki náðst.

Virðulegi forseti. Í þessari tillögu til þingsályktunar sem hér er til umræðu eru lagðar til leiðir til að leysa skuldavanda heimila og fyrirtækja. Hvað varðar heimilin er lögð til pólitísk samstaða um leiðir. Ég tel þetta algert lykilatriði ef takast á sátt um aðgerðir. Það ríkir vonleysi í samfélaginu, greiðsluvilji fólks og fyrirtækja fer þverrandi. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar koma að nokkru til móts við greiðsluvanda heimilanna en leiðrétta þarf þann forsendubrest sem varð fyrir rúmu ári síðan. Hér á ég við að ekki er tekið á þeirri staðreynd að óvissa ríkir um meðferð á höfuðstólum lána, þ.e. hve stór hluti lána verður að lokum afskrifaður með tilheyrandi áhrifum á fasteignamarkað. Setja þarf skýra og samræmda stefnu um hvernig standa skuli að endurskipulagningu fyrirtækja í landinu. Sjónum okkar hefur of mikið verið beint að stærstu fyrirtækjum landsins en á meðan hafa úrræði til lítilla og meðalstórra fyrirtækja ekki verið kynnt. Á þessu þarf að taka af festu því það er jú staðreynd að langflest störf eru hjá þessum fyrirtækjum. Við verðum að hefja okkur yfir þá umræðu að leiðrétting á þeim forsendubresti sem varð fyrir rúmu ári síðan verði til þess að einhver hljóti meiri ávinning en annar. Við eigum að nálgast þetta á þann hátt að við hljótum öll ávinning af því að fara þessa leið því hún verður til þess að flest heimili og fyrirtæki fá aftur svigrúm til athafna. Það er ekkert nema jákvætt við þessa tillögu.

Það afl og sú þekking sem býr í fólki og fyrirtækjum þessa lands er ómetanleg auðlind. Heimili og fyrirtæki eru aðframkomin vegna aðgerðaleysis. Við verðum að leysa þetta afl úr læðingi. Tillögur okkar sjálfstæðismanna miða að því að gera einmitt þetta. Ég hvet ríkisstjórnina til að skoða þennan valkost sem samstarfsgrundvöll þjóðinni til heilla.



[17:56]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er búin að vera mjög góð umræða og að mestu leyti málefnaleg. Okkur er óneitanlega mikill vandi á höndum eftir hrunið. Mikill halli ríkissjóðs blasir við, það er atvinnuleysi og gjaldþrot í þjóðfélaginu, fyrirtæki fara á hausinn og fólk er orðið atvinnulaust.

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar birtist í fjárlagafrumvarpinu sem var dreift hér 1. október. Því miður verður að segjast, frú forseti, að þar birtist sú stefna að skattleggja tekjur, skattleggja sparnað, skattleggja orku og að skera niður velferðarkerfið og sá niðurskurður virðist vera því miður nokkurn veginn flatur. Það eru engar sérhugmyndir um hverju eigi að hlífa. Mér finnst að þessi stefna ríkisstjórnarinnar rífi niður í stað þess að byggja upp. Hún getur valdið ákveðnum vítahring þar sem hvert leiðir af öðru og við stefnum alltaf í verri og verri stöðu. Það vantar auk þess mjög stóra þætti inn í fjárlagafrumvarpið sem og fjáraukalagafrumvarpið, t.d. varðandi tónlistarhúsið og Icesave, en ríkisstjórnin er búin að taka ákvörðun um hvort tveggja.

Einnig þarf að ræða um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann kom okkur til aðstoðar en þar sem hann er notaður til að neyða upp á okkur samninga um Icesave finnst mér hann vera farinn að verða ansi dýr. Það er því spurning hvort ekki sé betra að borga eitthvað hærri vexti af lánum eða lægra lánshæfismat en að borga þau ósköp sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kostar. Auðvitað þarf að ræða við hann um hvernig hann hefur verið misnotaður, auk þess sem sá niðurskurður sem hann krefst getur verið hættulegur. Það er nefnilega hættulegt að skera velferðarkerfið of mikið niður, sérstaklega þegar farið er að skerða t.d. menntun.

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst núna, ári eftir hrun, margt vera miklu bjartara og betra en ég hugði fyrir ári síðan. Í lok febrúar sl. hafði ég sérstaklega miklar áhyggjur og þá ekki af stöðunni á Íslandi heldur alþjóðlega. Allt virtist vera á niðurleið um allan heim, alls staðar. Síðan gerist það eftir 6. mars, það er dálítið merkileg og dularfull dagsetning, að allar vísitölur, olíuverð og annað virðist aftur hjarna við og staðan batnaði. Þá má segja að myndast hafi forsenda fyrir því að Íslendingar gætu tekið á sínum vandamálum því við erum mjög háð gengi alls heimsins í viðskiptum.

Það sem er jákvætt hér á Íslandi er gífurlegur sparnaður almennings. Krónan hefur fallið sem mörgum finnst náttúrlega mjög slæmt, sérstaklega þeim sem skulda í erlendri mynt, en það hefur búið til sveigjanleika fyrir atvinnugreinarnar, sérstaklega útflutning. Þær þrjár greinar sem standa eftir, þ.e. sjávarútvegur, áliðnaður og iðnaður almennt og ferðamannaþjónusta njóta þess að krónan hefur fallið svona mikið. Atvinnuleysi er minna en ætlað var, það er 7,2%, og núna er loksins farið að sjá fyrir endann á vandamálum bankanna. Þessa dagana, í morgun og í næstu viku. Fyrir viku síðan var Landsbankinn leystur úr höftum, núna er farið að sjá til lands með að þeir geti dælt þessum óhemjusparnaði aftur út í atvinnulífið. Margt er því jákvætt.

Það verður að taka á vanda þeirra heimila og fyrirtækja sem verst eru sett og efnahagstillögur sjálfstæðismanna ganga út á það. Þeir einstaklingar sem eru atvinnulausir eru að sjálfsögðu verst settir. Það er hræðilegt fyrir utan bölið sjálft að takast á við tekjumissinn og óöryggið sem fylgir því og við Íslendingar eigum ekki að láta svona mikið atvinnuleysi viðgangast. Út á það ganga hugmyndir okkar sjálfstæðismanna, að skapa atvinnu, atvinnu, atvinnu. Þá lagast hitt af sjálfu sér. Ef fólk getur unnið virðast önnur vandamál minni.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, nefndi að sjálfstæðismenn ætluðu hvorki að skattleggja heimilin né fyrirtækin og hvað þá? Það er einmitt málið. Hvað þá? Þá kemur þessi hugmynd um lífeyrissjóðina. Ég ætla að fara sérstaklega inn á það. Ég ætla t.d. ekki að tala um að auka aflaheimildir eins og menn hafa nefnt hér sem er afskaplega skynsamlegt til þess að brúa þetta bil. Þetta eru ekki nema tvö, þrjú ár, frú forseti, sem þjóðin þarf virkilega að komast yfir. Það er bara spurningin um hvort eftir þessi tvö, þrjú ár við sitjum uppi með spíral sem leiðir okkur alltaf dýpra og dýpra eða hvort við verðum þá komin yfir gjána. Þess vegna getur verið skynsamlegt að veiða örlítið meiri þorsk í tvö, þrjú ár og eins getur verið skynsamlegt að skattleggja lífeyrissjóðina. Reyndar hafði ég miklar efasemdir um skattlagningu sameignarsjóðanna vegna þess að fólk með lágan lífeyri borgar oft ekki skatt. Ef inneign þeirra eða eign yrði skert með flatri skattlagningu mundi það fólk líða fyrir það auk þess sem skipta þyrfti sjóðunum upp í tvennt.

Þá kemur hugmyndin um séreignarsjóðina. Í séreignarsjóðunum munu verða um næstu áramót u.þ.b. 309 milljarðar, ég hef metið það þannig. Metin iðgjöld eru 35 milljarðar á árinu 2010. Staðgreiðsla af þessum upphæðum ef við skattlegðum alla inneign lífeyrissjóðanna yrði 113 milljarðar og síðan 12 eða 13 milljarðar á ári hverju. Það mundi skiptast þannig að sveitarfélögin fengju 40 milljarða, og veitir nú ekki af því efnahagur þeirra er ekki það beysinn, og ríkissjóður fengi 75 milljarða á næsta ári. Nú hafa margir haldið því fram, þar á meðal SA, að þetta gæti verið slæmt en svo er ekki vegna þess að hjá flestum sem eru með séreignarsparnað og taka hann út lendir hann fyrir ofan skattleysismörk. Ég fullyrði, nánast allir. Þeir munu borga 37,2% eða þá staðgreiðsluprósentu sem verður í gildi á þeim tíma. Síðan mætti leysa þetta þannig að það skipti engu máli fyrir einstaklinginn hvort þetta væri tekið strax af eða þegar verður greitt út. Ef hann fær ávöxtun á þetta, á sína innistæðu, er hún skattlögð líka þegar þetta er tekið út. Það breytir því engu fyrir einstaklinginn hvort skatturinn er tekinn af lífeyrissjóðnum strax eða þegar séreignin er greidd út.

Síðan er spurningin hvað gerist ef lífeyrissjóðirnir þurfa að borga 40 milljarða til sveitarfélaganna og 75 milljarða inn í ríkissjóð. Það mætti leysa mjög einfaldlega, frú forseti. Lífeyrissjóðirnir hreinlega gefa út skuldabréf sem sveitarfélögin og ríkissjóður meta gild. Þessi skuldabréf gætu verið til mjög langs tíma og ef ríkissjóður þarf fjármuni getur hann jafnvel selt þessi skuldabréf á markaði og losað þannig um fé. Ég er viss um að margir mundu vilja kaupa skuldabréf sem t.d. Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur gefið út til að greiða skatt af séreignarsparnaði. Það yrði örugglega mjög trygg ávöxtun á því. Með þessum hætti má leysa það vandamál sem menn standa frammi fyrir núna að brúa þessa gjá. Við gætum ekki gert ríkissjóð alveg hallalausan en við færum mjög langt með það með því að taka inn þessa 75 milljarða auk þeirra 8 milljarða sem ríkissjóður þarf á hverju ári eftir það af séreignarsparnaðinum. Með því mætti minnka halla ríkissjóðs verulega og þar með skatttekjur og skattgjöld ríkissjóðs.

Ég get því ekki séð annað en þessi leið leysi þennan vanda. Auðvitað er hún þó bara einu sinni, frú forseti. Það er nákvæmlega eins með þorskinn, hann er veiddur einu sinni. Ef við gerum þetta í eitt eða tvö ár getur það hjálpað þjóðinni til að komast yfir þessa gjá og þau vandræði sem hún stendur frammi fyrir. Eftir tvö, þrjú ár hef ég þá trú að hér muni aftur ríkja bjartsýni, vonandi ekki jafnmikil og árið 2007 en það mikil bjartsýni að við getum byggt upp aftur þjóðfélag sem byggir á ráðdeild og sparsemi. Á því hefur því miður verið skortur á undanförnum áratug.



[18:06]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu okkar sjálfstæðismanna um nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála. Ég held að það sé alveg rétt sem kom fram í ágætri jómfrúrræðu hv. þm. Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur hér áðan að það er eins og tíminn hafi staðið í stað í sex mánuði. Við sjálfstæðismenn lögðum fram tillögu í sumar um margar af þeim aðgerðum sem við ítrekum nú. Því miður hafa þær ekki komist til framkvæmda og ekki einu sinni verið teknir til umræðu nema þennan ágæta dag í þinginu í sumar.

Ég vil taka undir með þeim ræðumönnum sem talað hafa á undan mér og þakka þeim stjórnarliðum sem hafa tekið þátt í umræðunni, sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem hlýddu á umræðuna í dag og tóku þátt í henni. Hæstv. fjármálaráðherra var reyndar ansi önugur í andsvörum, byrjaði vel en missti gleðina þegar leið á andsvörin, því miður. Ég óttast að hann muni gera minna með þessar tillögur en ræða hans gaf kannski til kynna en við höldum áfram að hamast í honum. Það er ekki nóg að taka þátt í umræðunni til málamynda heldur þarf eitthvað meira að gerast. Það er ekki nóg að tala um samráðið heldur verður samráðið að vera í alvörunni ef það á að þýða eitthvað.

Það sem sló mig í máli hæstv. fjármálaráðherra var setning sem hann sagði þegar við í andsvörum vorum að ræða þann augljósa hugmyndafræðilega ágreining sem er á milli flokks hæstv. fjármálaráðherra og okkar sjálfstæðismanna, það er hugmyndafræði um skattamál. Tillögur okkar sýna mjög vel þann hugmyndafræðilega ágreining sem þarna er á milli miðað við fjárlagafrumvarpið sem hæstv. fjármálaráðherra leggur fram. Hæstv. fjármálaráðherra skildi ekki hvernig tillögur okkar sjálfstæðismanna ættu að ganga upp hvað varðar að við legðum til auknar tekjur í ríkissjóð án þess að hækka skatta. Þá sagði hann að ef við ættum eitthvert val væri þetta mjög fínt. Það sem hæstv. fjármálaráðherra átti við var að við hefðum ekkert val, við yrðum að fara leið skattahækkana og niðurskurðar. Þessu mótmæli ég hástöfum og vísa þessu algjörlega út á hafsauga vegna þess að í þessu tilfelli eins og í flestu öðru í lífinu höfum við yfirleitt alltaf val. Í þessu samhengi trúi ég því innilega að við höfum val. Þessar tillögur sem við leggjum hér fram, þær eru valkostur. Við sýnum fram á það með gildum rökum og mikilli vinnu sem færustu sérfræðingar hafa lagt í þessar tillögur, bæði innan þingflokksins og utan, að við höfum raunhæfa möguleika á að bæta stöðu ríkissjóðs, koma atvinnulífinu í gang og koma okkur hraðar út úr þessari kreppu án þess að fara í þessar ömurlegu skattahækkanir sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu.

Reyndar eru skattahækkanirnar í fjárlagafrumvarpinu meira í orði en á borði. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri algjörlega óraunhæft að ætla að við gætum náð þessum tekjum í bættri afkomu ríkissjóðs með þeim hætti sem við leggjum til. Ég fór þá í andsvar við hann og spurði hvort honum þætti þá ekkert óraunhæft að leggja til að tekjuskattar einstaklinga hækkuðu úr 106,7 milljörðum í 143,5 milljarða án þess að það væri nokkuð útfært á tímum þegar tekjur lækka í þjóðfélaginu og atvinnuleysi er að aukast. Hvernig í ósköpunum getur hæstv. fjármálaráðherra haldið því fram að það sé raunhæft að ætla að fá 40 milljarða í kassann í auknar tekjur af tekjusköttum? Jafnvel þótt hann hækkaði skattprósentuna upp í rjáfur fengi hann ekki þessa prósentu vegna þess að við færum öll á hausinn á leiðinni. Hæstv. fjármálaráðherra sneri reyndar út úr þeirri spurningu minni og sagði að þetta væri ekki svo mikil hækkun eins og þarna er lögð til að raungildi. Hann fór í þannig útúrsnúning við mig að hann svaraði náttúrlega ekki spurningunni en það er önnur saga.

Það sem við þurfum núna er ekki gamaldags skattahækkunar-gjaldeyrishaftapólitík sem lagt er til að verði hér áfram heldur þurfum við að sýna djörfung. Það kemur fram í tillögum okkar. Þær eru djarfar. Þær eru með nýja hugsun og við stöndum og segjum: Við erum ekki tilbúin til að fara í gegnum annað tímabil gjaldeyrishafta, haftatímabil eins og við höfum farið í gegnum áður í sögu þessarar þjóðar.

Ég held að það hafi verið þingflokksformaðurinn okkar, Illugi Gunnarsson, sem sagði við mig í samtali þegar við ræddum þessi mál í upphafi: Hvað ætlum við að segja við börnin okkar þegar þau spyrja af hverju við létum viðgangast að hafa gjaldeyrishöft hér í 20 ár. Lærðuð þið ekkert af sögunni? Mér fannst þetta afar góð spurning hjá mínum ágæta félaga, hv. þm. Illuga Gunnarssyni, vegna þess að nákvæmlega þannig eigum við að hugsa. Við hljótum að geta flett til baka í sögubókunum og séð að það eina sem gerist þegar höft eru sett á er að höftin dragast á langinn ef ekki eru teknar djarfar ákvarðanir. Við verðum núna að taka djarfar ákvarðanir og við verðum að sýna kjark. Við verðum að fara í sókn og við verðum að sýna hugrekki til þess að koma von og þrótti til okkar ágætu þjóðar. Það er okkar hlutverk á hinu háa Alþingi að leiða þjóðina út úr þessum vanda.

Það sem við verðum líka að gera, og þess sakna ég hjá hæstv. ríkisstjórn, er að hafa trú á verkefninu. Ég er algjörlega sannfærð um að ef við legðumst á eitt og framkvæmdum þessar tillögur með eldmóð og áræði í farteskinu kæmumst við út úr þessu. Ef við legðumst saman á eitt gætum við komist út úr þessu saman.

Sem þingmaður Suðurkjördæmis leitar hugur minn til Vestmannaeyja. Ég fór á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í sumar. Eyjamenn eru þekktir fyrir einmitt þessa eiginleika sem við þurfum að hafa sem þjóð núna, djörfung, kjark, þor og óbilandi trú á verkefninu. Þegar ég sat í brekkunni og hlustaði á brekkusönginn með tíu, tólf, fjórtán þúsund manns í brekkunni hugsaði ég einmitt þetta: Það er náttúrlega galið að svo margir séu saman komnir hér úti á þessari litlu eyju, allir syngjandi og trallandi, hafa gaman og skemmta sér og allt gengur snurðulaust fyrir sig. Af hverju? Vegna þess að skipuleggjendurnir fara fram af kjarki og dugnaði og fyrst og síðast með óbilandi trú á verkefninu. Það þurfum við að gera hérna núna. Við þurfum að trúa því að við komumst út úr þessu. Við verðum að trúa því að við höfum val.

Þess vegna vil ég hvetja hæstv. fjármálaráðherra, sem því miður er ekki hérna, til þess að gefa þessum tillögum gaum en ekki afskrifa þær bara vegna þess að sjálfstæðismenn setja þær fram. Hæstv. viðskiptaráðherra byrjaði í dag strax að tala um víglínur. Það á ekki að tala um víglínur í þessu efni, við erum öll í þessu sama verkefni. Það sem við þurfum að gera núna er að fá þessa þingsátt sem ég nefndi í stefnuræðunni, þingsátt um að við ætlum koma okkur út úr þessari kreppu. Það gerum við ekki með því að skattleggja okkur út úr vandanum. Við gerum það með því að skapa atvinnu, ryðja úr vegi hindrunum, hætta við þessa ömurlegu fyrningarleið, leyfa fólki að byggja upp í sjávarútvegi og halda því áfram, hætta við þessar ömurlegu fyrirætlanir um orkuskatta og hætta að leggja steina í götu góðra verkefna sem skapa atvinnu um allt samfélagið. Þannig komumst við út úr þessu.



[18:16]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og nokkrir þingmenn í dag fagna þeim sinnaskiptum sem hafa orðið hjá mörgum hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna þegar þeir eru loksins farnir að hlusta á góðar tillögur sem fram eru lagðar, og betra ef fyrr hefði verið vegna þess að ef lagt hefði verið af stað með suma af þeim þáttum í tillögum okkar sem lagðar eru fram í dag, sumar voru lagðar fram í vor, væri staðan strax önnur við að glíma. Ég fagna þeirri málefnalegu umræðu sem hefur átt sér stað. Hún er í allt öðrum anda en þegar ræddar voru í utandagskrárumræðu í dag hugmyndir framsóknarmanna um að leita eftir frekara láni í Noregi en þar var m.a. hv. þm. Helgi Hjörvar að hæðast að mönnum í ræðustól og það er ekki við hæfi. Það er ömurlegt að hlusta á slíkan málflutning eins og þá var viðhafður þegar menn leggja á sig mikla vinnu og eru að koma fram með alvörutillögur um lausnir á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir.

Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst grípa til og liggja kannski að meginefni til í fjárlagafrumvarpinu og öðru því sem fram hefur komið frá henni á síðustu vikum er í raun eins og blaut tuska framan í þjóðina. Maður veltir því fyrir sér hvað ríkisstjórnarflokkarnir hafa eiginlega verið að hugsa allan þennan tíma. Þeir eru búnir að hafa um níu mánuði til að takast á við verkefnið og síðan koma fram tillögur sem munu auka á eymdina. Ég hef enga von, þær munu drepa atvinnulíf í dróma og leggja enn þyngri byrðar á heimilin í landinu. Ég veit ekki hvað þeim gengur eiginlega til að láta sér detta í hug að þetta sé eitthvað sem geti gengið upp við núverandi aðstæður. Við verðum að hafa miklu meiri sóknarkraft í hugmyndum okkar, miklu meiri sóknarkraft í aðgerðum okkar og um það snúast þær tillögur sem hér eru til umræðu. Þær eru ekki eins og þær sem lagðar hafa verið fyrir okkur af hálfu ríkisstjórnarinnar sem felast í því að auka byrðar heimila og fyrirtækja og eru í raun bara gamaldags aðferðafræði.

Uppbygging atvinnulífs er í uppnámi hvert á land sem litið er, t.d. í grunnatvinnugreinum okkar eins og sjávarútvegi þar sem í raun er að verða mjög mikið stopp vegna yfirlýsinga ríkisstjórnarflokkanna um aflamarkskerfið og aðgerða sem þeir boða þar fyrst og fremst. Í fjölbreyttum iðnaði okkar og stóriðju eru hlutirnir í uppnámi út af þeim fyrirhuguðu sköttum sem fyrirhugað er að leggja á þær greinar og það sama má segja um ferðaþjónustuna. Er þetta gott veganesti inn í komandi vikur og mánuði þegar við þurfum að vinna bug á mestu meinsemdinni í samfélaginu í dag, þ.e. atvinnuleysi? Vandræði okkar kristallast mjög mikið í því.

Það er alveg ljóst að sá margrómaði stöðugleikasáttmáli sem skrifað var undir snemma í sumar, kringum 25. júní, hefði aldrei verið undirritaður af hálfu aðila vinnumarkaðarins ef á borðinu hefðu legið þær ákvarðanir sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið og sent frá sér. Á ég þar ekki síst við ákvarðanir hæstv. umhverfisráðherra. Það sama má líka segja um þau atriði sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu, enda er það svo að þessi stöðugleikasáttmáli, grundvöllur hans, hangir á bláþræði. Aðilar vinnumarkaðarins hafa gefið það út að líf hans sé í raun í höndum ríkisstjórnarinnar og miðað við núverandi aðstæður sé hann dautt plagg en ekki eins og hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, sagði, þ.e. að hann stæði eins og stafur á bók, hann sagði þetta í umræðu á þinginu í gær.

Það sem er mikilvægast fyrir okkur núna, auk eflingar atvinnulífs, er að auka ekki álögur á heimili og fyrirtæki. Það er framtíðarsýn okkar að drepa ekki allt í dróma.

Í þessari þingsályktunartillögu sem er mjög víðtæk, mikil og góð vinna hefur verið lögð í hana og margir komið að þeirri vinnu, er lagður grunnur að nýrri sókn í íslensku samfélagi. Lagður er grunnur að því að gefa von og væntingar heimila og fyrirtækja um að hér megi byggja upp, gefin er von til þeirra sem í dag standa í mestu vandræðunum og fólks sem horfir til þess að flytja úr landi af því að það hefur engar framtíðarvonir. Við gerum okkur vel grein fyrir því að hagræða þarf verulega í rekstri ríkisins og það er svigrúm til þess. En við höfnum leið ríkisstjórnarinnar í þeim málum og viljum að farið verði í þetta af mikilli kostgæfni og reynt verði að skerða grundvallarþjónustuna í samfélaginu sem minnst.

Í umræðunni í dag kom fram að samtryggingarkerfið væri eitt það mikilvægasta sem við búum við og það er alveg rétt. Þar er samt víða örugglega hægt að líta þar til og gera betur og nýta betur þá fjármuni sem í það eru settir. En einföld leið hæstv. ríkisstjórnar var að byrja að skera niður hjá hópi aldraðra og öryrkja á vordögum, það var hennar fyrsta verk, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa talað sem mest um í gegnum tíðina að séu skjólstæðingar þeirra. Svona er það stundum að „þeim var ég verst er ég unni mest“, á pappírnum alla vega.

Þær aðgerðir og tillögur sem við boðum gefa svigrúm til mildari aðgerða og lögð er áhersla á þá forgangsröðun. Síðan er hin umtalaða kerfisbreyting á skattlagningu lífeyrisinngreiðslna sem er í raun grunnurinn að því að nálgast skattálögurnar á annan hátt. Margir eru búnir að fara yfir þetta og skrifaðar hafa verið lærðar greinar um þetta mál. Það er fásinna að við sjálfstæðismenn séum að setja fram svo vel undirbúið mál án þess að hugsa fyrir því hvort þetta hafi áhrif á lífeyrisgreiðslur framtíðarinnar — þetta hefur ekki áhrif á lífeyrisþega, þetta hefur ekki áhrif á fyrirtæki og ekki heldur á heimilin í landinu.

Við viljum líka að umhverfi atvinnurekstrar verði bætt og það skiptir öllu máli núna. Það er alveg með ólíkindum það skemmdarverk sem þegar hefur verið unnið, að kannski skuli sú helsta vonarstjarna sem við eigum í vændum núna, álverið í Helguvík sem á að skapa nokkur þúsund störf á næstunni, vera í algerri óvissu. Menn segja sem til þekkja að það muni ekki lifa þessar hremmingar af nema í örfáa daga til viðbótar. Þá verði hreinlega að blása það verkefni út af borðinu. Ekki er líklegt að aðrir verði tilbúnir að koma og hjálpa þar til.

Tillögur okkar geta skilað því sem þarf í ríkissjóð og gott betur vegna þess að þær tekjur sem skapast með aukningu aflamarks eru ekki reiknaðar þar inn í, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom inn á í ræðu sinni fyrr í dag. Það er alveg stórkostlegur ávinningur af því. Við höfum áður beitt þeirri aðferð að fara í hægfarari uppbyggingu fiskstofna til að styrkja efnahagslífið. Þetta er sjálfsögð til að beita núna og alveg bráðnauðsynleg. Hún mun gefa nýja von, nýja von úti um allt land, von og bjartsýni þar sem yfirvofandi ógn um aukna skattbyrði heimila og fyrirtækja verður ýtt úr vegi og fólk fær einhverja sýn sem við getum unnið eftir. Auknar skatttekjur munu koma vegna vaxandi atvinnuleysis og minni atvinnuleysisbóta. Þetta verða skýr skilaboð og hvatning til erlendra jafnt sem innlendra fjárfesta til að koma af fullum krafti inn í atvinnulífið og nýta þau tækifæri sem við okkur blasa. Það sem meira er, aðgerðir af þessu tagi mundu sætta aðila vinnumarkaðarins, þær mundu gera það að verkum að sátt yrði á vinnumarkaði, aðilar mundu ná saman um að taka þetta stríð saman en það er núverandi ríkisstjórn að setja í uppnám.



[18:26]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögur sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sett fram og því ber að fagna að þingmenn skuli hafa frumkvæði að því að koma með slíkar tillögur. Ég vil þó í upphafi máls míns lýsa yfir undrun minni á þeim viðbrögðum sem þessar tillögur og aðrar hafa fengið hjá stjórnarflokkunum og talsmönnum þeirra á Alþingi.

Ég undrast mjög að þegar settar eru fram tillögur og hugmyndir eða þingmenn reyna að beita sér fyrir hag lands og þjóðar þá sé ráðist að þeim með hæðni og útúrsnúningum og látið eins og þetta sé einskis vert sem þeir þingmenn leggja á sig. Það er fyrst og fremst til marks um það hvaða augum ríkisstjórnin lítur á Alþingi, á starf þingmanna. Hún er í raun að gjaldfella sjálf þau orð sem stjórnarflokkarnir hafa viðhaft um samráð og nú skuli taka upp ný vinnubrögð og slíkt. Ég hygg að sjaldan eða aldrei hafi verið jafngróflega gengið fram af hálfu stjórnvalda gagnvart tillögum og viðleitni þingmann að leggjast á árar til að koma samfélaginu út úr því umhverfi sem það er í í dag.

Sú ríkisstjórn sem situr er ríkisstjórn margra orða en fárra verka. Líklega er það það sem skýrir þau viðbrögð að stjórnarflokkarnir gera sér grein fyrir því að þeim eru mislagðar hendur í að koma þjóðinni út úr því umhverfi sem hún er í núna. Það vill gjarnan vera þannig að þegar aðrir koma með góðar hugmyndir og benda á leiðir — þetta er eins og með krakkana á leikskólunum, þeir fara í fýlu af því að þeir eiga ekki sjálfir hugmyndina. Þetta minnir mann helst á það og er ábyrgðarhluti að bregðast svona við.

Ríkisstjórnin er líklega komin út í horn í þeirri vegferð sinni að reyna að koma samfélaginu út úr vandanum. Ríkisstjórnin hefur bundið sig algerlega við prógramm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og svo virðist sem ekki megi hnika því. Ríkisstjórnin hefur viðurkennt að erlendar þjóðir, sérstaklega þjóðir Evrópusambandsins, séu að kúga okkur til að greiða skuldir sem ekki er búið að sanna að íslenska þjóðin eigi að greiða. Þetta eru sömu þjóðir og ríkisstjórnin vill skríða upp í bólið hjá í faðmi Evrópusambandsins. Því er ekki að undra að við séum í þeirri stöðu að allt skuli látið yfir sig ganga til þess eins að komast í það hlýja ból að því er þeir telja.

Þær tillögur sem lagðar eru fram eru margar hverjar mjög forvitnilegar. Ég hef áhuga á að skoðuð verði sérstaklega sú kerfisbreyting sem talað er um varðandi skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Í því árferði sem er í dag finnst mér mjög freistandi að skoða það vandlega þó ekki væri nema sem tímabundna aðgerð hugsanlega.

Síðan er í tillögunum rætt um hagræðingarkröfuna og ég hef velt því fyrir mér, og auðvitað geta menn hártogað það, hvort þessar prósentur eru það eina rétta. Ég tek undir það sem kemur fram í tillögum sjálfstæðismanna að horfa ber á hvert og eitt tilvik fyrir sig. Það er óeðlilegt að setja fram flata sparnaðarkröfu eða hagræðingarkröfu eins og málin horfa.

Ég get tekið undir það sem snýr að umhverfi atvinnurekstrar. Það er gríðarlega mikilvægt að núverandi ríkisstjórn hætti að senda þau skilaboð sem hún sendir í sífellu til atvinnulífsins, og til heimilanna um leið því að heimilin væru betur stödd eða ættu bjartari framtíð ef jafnbjart væri yfir atvinnulífinu, að atvinnulífið eigi að borga hærri skatta og nánast segja það í ræðustól eins og mátti skilja suma stjórnarþingmenn. Menn tala eins og atvinnulífið greiði enga skatta. Það er mjög furðulegt að hlusta á slíkan málflutning. Menn segja þetta ekki berum orðum en hér standa menn og segja við stjórnarandstöðuna: Finnst ykkur eðlilegt að atvinnulífið taki ekki þátt í því að reisa samfélagið? Atvinnulífið greiðir skatta alveg eins og einstaklingar og aðrir (Gripið fram í: Og borgar laun.) og borgar laun, ég þakka fyrir þessa ábendingu, launin sem heimilin þurfa til að greiða af skuldum sínum og öðru. Nei, hugmyndirnar eru að skattleggja fyrirtæki og almenning meira og um leið að skera niður. Ég held að þetta geti ekki gengið upp.

Það sem mér finnst hins vegar vanta inn í þessar ágætu tillögur sjálfstæðismanna er að skýrar komi fram tafarlaus viðbrögð við ástandi fjármála heimilanna. Það er óásættanlegt að bíða lengur, það er óásættanlegt að skipa starfshóp til að fara yfir stöðu heimilanna. Það þarf að bregðast við núna strax. Þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur sett fram, sem ég hef hingað til sagt að væru jákvæðar — það er jákvætt skref t.d. hjá félagsmálaráðherra að fara þá leið sem hann hefur farið, en ég er farinn að efast um að það sé mjög jákvætt skref því að dæmin sem við þingmenn erum nú að fá og heyra sögur af eru ekki mjög jákvæð. Það verður að leiðrétta höfuðstól skulda heimilanna strax og það verður að gera í almennri aðgerð. Ég held því miður, ágætu þingmenn, að sá tími sé að renna frá okkur að það sé hægt. Ég vona að það sé rangt hjá mér en ég er búinn að reyna að átta mig á því hvað gerist þegar bankarnir og þessar skuldir eru komnar í eigu útlendinga, erlendra kröfuhafa, hvaða tækifæri íslenska ríkið eða ríkisstjórnin hefur til að beita sér í þessu. Tillögurnar í dag gera eingöngu ráð fyrir heimild til að afskrifa skuldir, það er algerlega óásættanlegt.

Það er fullt af tækifærum fyrir Íslendinga og íslenska þjóð til að komast út úr þeim vanda sem hún er í í dag. Þessar ágætu tillögur eru skref í þá átt. Við framsóknarmenn og þingflokkur Framsóknarflokksins munum leggja fram endurnýjaðar efnahagstillögur, sem lagðar voru fram í febrúar sl., á næstu dögum eða vikum þar sem við tökum mið af þeim aðstæðum sem hafa breyst síðan. En í grunninn erum við enn þá að tala um sömu hlutina. Atvinnulífið verður að ganga og það verður hjálpa heimilunum til að lifa af þessa stöðu. Ég fagna því skrefi sem er í þessari þingsályktunartillögu þar sem lögð er áhersla einmitt á þetta þó svo okkur muni eflaust aðeins greina á um aðferðir og annað.

Það er óásættanlegt, eins og ég nefndi í upphafi máls míns, að tillögur sem koma frá stjórnarandstöðunni, tilraunir til að afla Íslandi fylgis erlendis, skuli slegnar út af borðinu sem bjánaskapur með hæðni og öðru slíku. Við eigum að hlusta á allar góðar hugmyndir. Við höfum hlustað jákvætt í stjórnarandstöðunni á þær hugmyndir sem hafa komið fram eins og ég sagði áðan, t.d. frá félagsmálaráðherra. Ég vænti þess að slíkt hið sama sé gert hjá ríkisstjórninni með það sem við höfum fram að færa því eingöngu þannig, með því að hlusta hvort á annað, stjórn og stjórnarandstaða, munum við finna veginn út úr þessu.

Ég hvet til þess og hvet ríkisstjórnina til að pakka saman þeim tillögum sem hún hefur lagt fram, pakka saman þessu andstyggðarfjárlagafrumvarpi, eins og ég hef kallað það, sem er algerlega marklaust plagg. Það hefur komið í ljós dag eftir dag að þetta er algerlega marklaust plagg. Forsendur eru ekki til staðar sem eru lagðar til grundvallar frumvarpinu. Meira að segja ríkisstjórnin er farin að viðurkenna að þær grundvallarforsendur varðandi kerfisbreytingu t.d. hjá sveitarfélögum, svæðaskiptingu og annað, séu ekki hugsaðar eins og í fjárlagafrumvarpinu. Orkuskatturinn á sér enga stoð í raunveruleikanum virðist vera, nema hvað ríkisstjórnin vill skattleggja fyrirtækin. Því þarf að taka höndum saman og finna taktinn í þessu. Sú tillaga sem er til umræðu er skref í þá átt. Við munum að sjálfsögðu bæta í sarpinn og ég vona að þessi tillaga eins og aðrar tillögur fái jákvæða meðhöndlun hjá þeirri nefnd sem hún fer til því að við getum ekki leyft okkur að hunsa af gömlum pólitískum kreddum eins og ríkisstjórnin leikur sinn leik dag eftir dag þær tillögur sem fram koma. Þess er krafist af okkur, þess er krafist af Alþingi að við komum okkur saman um að reyna að finna leiðir út úr ástandinu. Þá þýðir ekki að skella skollaeyrum við því eins og hæstv. ríkisstjórn gerir.



[18:36]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans innlegg í þessa umræðu og ég heyri að hann deilir með okkur skoðunum. Hann kemur inn á að honum finnist vanta frekari útfærslur á skuldavanda heimilanna í þessum tillögum okkar sjálfstæðismanna en margoft hefur komið fram í okkar ræðum í dag að það er mjög brýnt að gera það strax. Eins og hv. þm. fögnum við þessum tillögum sem félagsmálaráðherra kynnti nú á dögunum, en betur má ef duga skal.

Þegar við unnum að þessari tillögu gekk okkur mjög erfiðlega að fá upplýsingar um nákvæma stöðu hvernig þetta var. Eitt sem mig langar að velta upp við hv. þingmann er, vegna þess að nú vitum við að bankarnir færa húsnæðislán heimila frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana, hvort hann hafi einhverjar upplýsingar um á hvernig afskriftum það er gert. Maður heyrir tölur alveg frá 20 upp í 40% og jafnvel hærra. Okkur finnst eðlilegt að það fengi þá að ganga alla leið. Hefur hv. þingmaður einhverjar upplýsingar um með hvaða hætti það verður gert?

Í tillögum okkar er líka fjallað um að auka aflaheimildir sem geta skaffað allt að 100 milljörðum inn í hagkerfið strax án þess að taka neina áhættu í því að ganga á fiskstofnana heldur hægja á uppbyggingunni. Hver er afstaða hv. þingmanns til þess? Eins tek ég heils hugar undir með honum með að niðurskurður af þessu tagi sem verður að fara í og skattahækkanir á sama tíma eru einfaldlega hlutur sem gengur ekki upp.

Eins langar mig að velta því upp við hv. þingmann að manni sýnist sem svo að niðurskurðurinn gæti orðið hastarlegri á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu. Ég hitti framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi í dag og hann upplýsti mig um að gerð væri 13% krafa um niðurskurð á sjúkrahúsinu á Blönduósi þegar talað var um 5% (Forseti hringir.) í heilbrigðisþjónustunni.



[18:38]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar athugasemdir. Ég þarf að taka þetta í öfugri röð. Hv. þingmaður ræddi um landsbyggðina og ég er sammála honum um að þemað í þessu svokallaða sparnaðarfrumvarpi gengur mikið út á að taka stofnanir og slíkt á landsbyggðinni og reyna að kroppa í þær. Það er mjög forvitnilegt að heyra þessa tölu. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki búinn að heyra hana nákvæmlega. Ég vissi að hún var töluvert hærri heldur en almennt er talað um en eftir því sem ég kemst næst er 11–12% krafa t.d. á heilsugæslunni á Sauðárkróki, ef það er rétt, nota bene. Það er svo margt í þessu frumvarpi sem er ekki rétt þannig að maður verður að taka því með öllum fyrirvörum sem hægt er að fá.

Varðandi aflaheimildirnar er ég sammála því að við eigum að auka þær. Ef við eigum einhvern tímann að gera það þá er það núna meðan við höfum góða sölu og hátt verð. Hjá okkur framsóknarmönnum voru í gær sérfræðingar í húsnæðismálum sem fóru yfir möguleika varðandi það að lækka höfuðstól og koma heimilum til hjálpar. Þeir lögðu fram ákveðnar tillögur fyrir okkur sem eru mjög samhljóða þeim tillögum sem við höfum áður lagt fram. Við munum taka tillögur þeirra og velta þeim fyrir okkur. Í máli þeirra kom hins vegar fram að það er þeirra mat, og nú vil ég undirstrika að þetta eru sérfræðingar sem þekkja vel til bankakerfisins, að þau lánasöfn sem verið er að færa yfir séu færð yfir á verðmæti 50–60% sem segir okkur að þarna inni er gríðarlega mikið svigrúm til að láta afskriftir ganga til heimilanna. Það er að mínu viti óskiljanlegt af hverju ríkisstjórnin beitir sér ekki fyrir því að það sé gert. Með því að gera það ekki er verið að vernda kröfuhafana og lánardrottnana, (Forseti hringir.) enga aðra.



[18:41]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni með að það er mikilvægt að það komi upp á yfirborðið hvað þessi prósenta er í raun og veru mikil sem verið er að færa á milli því maður heyrir alls konar tölur. Það deila ábyggilega allir í þessum þingsal þeirri skoðun þótt verkið sé ekki eins hjá öllum að það verður að fara núna í skuldavanda heimilanna því fólkið er að gefast upp. Ef þetta gengur yfir, allar þessar skattahækkanir og aukið atvinnuleysi, munu fjölskyldurnar flosna upp og gefast upp. Það er ekki flóknara í mínum huga og þetta er ófær leið.

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki jafnmiklar áhyggjur og við sjálfstæðismenn af embætti sýslumannanna. Það er byrjað að grafa undan þeim með því að taka frá þeim hugsanlega tryggingarþáttinn og færa hann yfir til félagsmálaráðuneytisins til að geta réttlætt að það sé auðvelt að skera niður af því þetta sé ekki nokkur skapaður hlutur sem eftir er. Eins langar mig að lokum að velta því upp við hann hvort hann sé ekki örugglega sammála okkur um að það sýnir sig oft þegar menn eru í þessum aðgerðum að einfaldast er að skera niður það sem er fjærst. Það er gríðarlega mikilvægt að við verjum landsbyggðina í þessu vegna þess að það hefur tekið ár og áratugi að fá hvert einasta starf þangað.

Þá veltir maður líka fyrir sér þessum hugmyndum sem menn eru með t.d. varðandi skertar ferðir Breiðafjarðarferjunnar Baldurs. Það er alveg með ólíkindum þar sem suðurhluti Vestfjarða býr við þannig samgöngur að án ferjunnar eru fyrirtækin ekki samkeppnishæf á markaði. Þetta fjallar um búsetuskilyrði og jöfnun búsetuskilyrða á landsbyggðinni að alltaf skuli farið í þessa vegferð. Ég hef miklar áhyggjur af því að það þurfi að verja og fylgjast mjög vel með því sem er að gerast í sambandi við niðurskurð í þessu fjárlagafrumvarpi.



[18:43]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er m.a. gert ráð fyrir að framlag til jöfnunar á námskostnaði verði lækkað um 30%. Það er nefnilega víða höggvið að landsbyggðinni í þessu frumvarpi. Ég gagnrýni ekki að allir þurfi að taka ákveðna hluti á sig í þessu ástandi en það að byrja þar, eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns — menn eru búnir að eyða tugum ára í að ná einu, tveimur opinberum störfum og þá eru þau það fyrsta sem er tekið. Það eru sýslumenn, dómarar, Vinnumálastofnun, Fæðingarorlofssjóður, samgöngur, vegaframkvæmdir, þetta er allt undir, því miður. Þemað í frumvarpinu er mikið í þessa átt.

Ég ætla að nefna eitt dæmi áður en ég fer úr þessum ræðustól. Einstaklingur sem rekur fyrirtæki á sinni kennitölu skuldaði í kringum 60 millj. kr. fyrir skömmu síðan en hefur lán upp á 160–170 millj. í dag á sinni kennitölu. Heimilið er undir, þetta er þannig rekstur. Það eru engin úrræði í boði fyrir þennan ágæta einstakling önnur en að fresta greiðslum í smá tíma, í þrjú ár, og treysta svo á að biðreikningurinn og það sem eftir stendur verði afskrifað. Þá spyr ég: Hvaða líkur eru á því að það verði gert þegar hollenskir og þýskir tannlæknar verða búnir að eignast bankana?