138. löggjafarþing — 10. fundur
 19. október 2009.
greiðslubyrði af Icesave.

[15:23]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Nú hafa efnahagslegir fyrirvarar sem Alþingi setti í lög um ríkisábyrgð í sumar verið felldir úr gildi. Í þeim efnahagslegu fyrirvörum sem samþykktir voru í ágúst var sett hámark á greiðslur Íslendinga til Breta og Hollendinga, hámark sem nam 6% af hagvexti eftir að greiðslur hæfust. Þetta var gert í anda hinna sameiginlegu viðmiða, Brussel-viðmiða. Þessu hefur nú verið breytt þannig að nú borga Íslendingar aldrei meira en 6% af höfuðstól á ári — en alltaf áfallna vexti. Þetta þýðir að ef t.d. skuldin 2016 verður 350 milljarðar og hagvöxtur enginn verður ekkert greitt af höfuðstól en vextir eru alltaf greiddir. Höfuðstóllinn verður óbreyttur.

Segjum sem svo að ekki verði hagvöxtur á þessu tímabili og þá verða vaxtagreiðslur áranna 2016–2024 um 120 milljarðar en höfuðstóllinn verður sá sami. Hann liggur enn í 350 milljörðum árið 2024. Með þeirri breytingu sem ríkisstjórnin leggur til hefur þessi efnahagslegi fyrirvari enga þýðingu lengur. Í versta falli kann þessi varnagli að vinna gagn hagsmunum þjóðarinnar.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hefur verið lagt mat á væntanlega greiðslubyrði miðað við mismunandi hagvaxtarforsendur, miðað við þessar breytingar, og ef svo er, gæti hæstv. fjármálaráðherra þá upplýst Alþingi um útkomur úr þeim útreikningum?



[15:25]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það gildir svipað um þessa spurningu og fyrri spurningar formanns Sjálfstæðisflokksins, ef hv. þingmenn hefðu biðlund í kannski eins og sólarhring gefst vonandi tækifæri á að ræða þetta undir dagskrárlið um málið sjálft.

Staðan er sú að á efnahagslegu fyrirvarana er fallist og þeir eru felldir inn í samþykktar- og viðaukasamning nákvæmlega eins og þeir voru útfærðir af Alþingi þannig að miðað er við 4% af uppsöfnuðum hagvexti í tilviki Bretlands og 2% af uppsöfnuðum hagvexti frá 2008–2016 í tilviki Hollands. Með batnandi horfum á endurheimtum til búsins eru hverfandi líkur á öðru en að þessi uppsafnaði hagvöxtur nægi fyrir vöxtum á hverjum tíma og væntanlega gott betur. Sömuleiðis eru mjög minnkandi líkur á því að nokkrar eftirstöðvar verði af láninu árið 2024.

Að sjálfsögðu geta þeir þingmenn sem það kjósa dregið upp kolsvarta mynd af því að hér verði enginn hagvöxtur og bara miklir erfiðleikar á komandi árum og áratugum. Þá verður að takast á við það ef þeir skyldu reynast sannspáir, ég ætla nú ekki að segja verða að ósk sinni, að sjálfsögðu ekki, en færi svo illa mundi ýmislegt annað kalla á aðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda. Veruleikinn er sá að greiðslurnar eru varðar að þessu leyti, þó með því gólfi að vextir séu jafnan borgaðir enda fá dæmi um lánasamninga þar sem það á ekki við. Seðlabankinn hefur haft gögn undir höndum frá því að sá til lands í þessum viðræðum til að endurmeta þetta í ljósi nýrra ákvæða og m.a. núvirt skuldbindingarnar eins og líklegt sé að þær standi miðað við nýjustu upplýsingar um endurheimtur úr búinu. Þá er talið að núvirt gæti upphæðin verið um 174 milljarðar kr. þegar kemur að greiðslum árið 2016. Miðað við líklegar horfur um vöxt landsframleiðslu á þeim tíma og í ljósi þess að hér er um að ræða óverðtryggt lán á föstum vöxtum held ég að hv. þingmaður hafi meira en nóg af fræðiþekkingu til að vita (Forseti hringir.) að það horfir þá til þess að greiðslur verði mun léttari og mun lægra hlutfall af þjóðartekjum á þeim tíma (Forseti hringir.) en margir óttuðust upphaflega.



[15:27]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að Seðlabanki Íslands hefur metið núvirta skuldabyrði í byrjun árs 2016 upp á eina 170 milljarða. Ég get reyndar gert betur, ég get notað ávöxtunarkröfu upp á 20% og þá verða þetta ekki nema kannski 20 milljarðar, eitthvað svoleiðis. Ég gæti gert enn betur og notað 100% ávöxtunarkröfu. Þá verður ekki neitt eftir og engin vandamál.

Þetta er blekkingaleikur. Þetta er algjör blekkingaleikur. Ef það verður ekki hagvöxtur hérna er stór hætta á því að við stefnum þjóðarbúinu í greiðsluþrot, alveg sama hvaða leikir eru leiknir. Við megum ekki taka neina áhættu með það, við Íslendingar erum búnir að sýna hversu klárir við erum í að taka svona sénsa og meta þessa áhættu. Ef fjármálaráðuneytið ætlar að leika þennan leik, að taka þessa áhættu (Forseti hringir.) sem gæti kallað yfir okkur stórkostlega greiðslubyrði í framtíðinni, þá það. Þá ber hæstv. fjármálaráðherra ábyrgð á því. Það segi ég með mína fræðiþekkingu eins og það var orðað.



[15:29]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég veit að hv. þingmaður er fljótur að reikna og það er gagnlegt að setja upp ýmis dæmi. Ég held að fáum detti samt í hug ávöxtunarkrafa af því tagi sem hann nefndi hér. Dæmi eru í sjálfu sér alltaf góð og gagnleg til að læra af þeim og ef kommurnar eru settar á réttan stað eru útreikningarnir gagnlegir.

Brussel-viðmiðin eru færð inn í viðaukasamninginn þannig að þau hafa sterkari stöðu nú en þau hafa áður haft. Þar er m.a. kveðið á um (TÞH: Það á ekki að lyppast niður.) að það er ætlað að stuðla að því að Ísland geti endurreist efnahag sinn og það er markmiðið með þessu öllu saman. (Gripið fram í: Þetta reddast.) Væntanlega eru aðrir hlutir og nærtækari okkur í tíma alvarlegri ógn við efnahagslega velferð Íslands til framtíðar en það sem hugsanlega gerist 2016 eða 2024. (Gripið fram í.)

Síðan verð ég bara að segja alveg eins og er að það er engum samboðið, og ekki fyrirspyrjanda hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, að tala eins og einhver vilji af ásetningi velja þetta, að einhver eigi (Forseti hringir.) eitthvert val í þessum efnum sem hægt sé að komast hjá … (Gripið fram í.) Nei. (Gripið fram í.) Þú skalt segja mér um það, (Gripið fram í.) já, þú ert nú hár í loftinu. (Gripið fram í: Þetta var …) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … Þetta er ekki hægt.)