138. löggjafarþing — 16. fundur
 23. október 2009.
aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 69. mál (almenn greiðslujöfnun o.fl.). — Þskj. 119.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[14:49]

Frv.  samþ. með 32:1 atkv. og sögðu

  já:  AMG,  APS,  ÁPÁ,  ÁRJ,  BÁ,  BjörgvS,  BVG,  DSt,  GuðbH,  GStein,  GErl,  JóhS,  JRG,  KJak,  KaJúl,  LRM,  LMós,  MSch,  ÓÞ,  PHB,  RR,  SER,  SII,  SF,  SVÓ,  TÞH,  UBK,  VBj,  VigH,  ÞSveinb,  ÞrB,  ÞBack.
nei:  ÞSa.
30 þm. (AtlG,  ÁI,  ÁJ,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  BirgJ,  BJJ,  BjarnB,  EyH,  EIS,  GLG,  GÞÞ,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JBjarn,  JónG,  KÞJ,  KLM,  MT,  ÓN,  REÁ,  SDG,  SIJ,  SJS,  SSv,  ÞKG,  ÖJ,  ÖS) fjarstaddir.
5 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[14:44]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari einróma niðurstöðu sem hér er komin. Það er mikið ánægjuefni að sjá að fulltrúar allra flokka hafa treyst sér til að vinna saman að þessu máli og treyst sér til að styðja það allt til enda. Það lofar mjög góðu um það samstarf sem fram undan er og ég hlakka til starfs þeirrar þverpólitísku nefndar sem við munum nú setja á fót. Það skiptir miklu að við nálgumst þetta erfiða verkefni á þeim forsendum að við ætlum að vinna saman, við ætlum að leita sameiginlega lausna og við ætlum að fylgja þeim eftir alla leið þegar við höfum náð þeim.



[14:45]
Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Um leið og ég fagna líka samstöðunni og vinnubrögðunum vil ég taka fram að ég styð þetta mál með fyrirvara. Ég styð málið í trausti þess að hér sé um að ræða fyrsta skrefið í aðgerðum til bjargar skuldsettum heimilum á Íslandi. Ég legg áherslu á að farið verði af festu í það að stíga næstu skref sem lúta að því að taka á himinháum höfuðstól íslenskra lána, koma fasteignamarkaðnum af stað aftur, búa til lánamarkað á Íslandi sem er heilbrigður og í anda þess sem gerist á Norðurlöndum, óverðtryggðan, heilbrigðan lánamarkað. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Þórs Saaris í þessum efnum.

Hér er um bráðaaðgerð að ræða. Ég styð hana. Hún kemur til hjálpar íslenskum heimilum en næstu skref þarf að taka. Ég bendi á tillögur Framsóknarflokksins í þeim efnum. Ég vona að væntanlegur starfshópur muni stíga næstu skref hratt og örugglega. Ég styð málið.



[14:46]
Davíð Stefánsson (Vg):

Frú forseti. Farið er í gríðarlega flóknar aðgerðir á miklum hraða við óvenjulegar aðstæður. Ég varð afskaplega glaður yfir því hversu mikil sátt var í nefndinni um málið. Í ljósi þess hve vanmáttug staða skuldara er gagnvart fjármálakerfinu í heild sinni lagði ég ríka áherslu á það í nefndinni að stofnaður yrði umboðsmaður skuldara. Þær áherslur náðu inn í verkefnalista starfshópsins sem skilar niðurstöðum í mars 2010 og er það vel þótt ég hefði kosið að tilvist umboðsmanns hefði verið tryggð í sjálfu frumvarpinu og þannig stigið fastar til jarðar í þágu skuldara.



[14:47]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að við séum komin þetta langt, þ.e. að hafa náð að fara með málið í gegnum þingið með breiðri samstöðu. Ég tek undir með Þór Saari að það er ekki til fyrirmyndar að vinna mál með þessum hraða. Málið er hins vegar brýnt. Það sem er mikilsverðast er að sú tillaga sem uppi hefur verið hjá mörgum hverjum, m.a. hjá okkur sjálfstæðismönnum, að farið verði í þverpólitískt starf við að leysa skuldavanda heimilanna, er orðin að veruleika. Þess vegna hrósa ég öllum þeim sem komið hafa að málinu og þakka enn og aftur fyrir gott samstarf. Ég segi já.



[14:48]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að nú skuli sjá fyrir endann á lagasetningunni þannig að heimilin megi búast við því að greiðslubyrði þeirra lækki um næstu mánaðamót. Hraðinn sem er á málinu endurspeglar það náttúrlega að verið er að reyna að koma aðgerðum í gegn út af þessum tímasetningum.

Ég vil hins vegar benda á að ég lít á þetta mál sem fyrsta skref. Þetta tekur á greiðsluvandanum, við eigum eftir að taka á skuldavanda heimilanna. Í framhaldinu býst ég við og á von á að farið verði að tillögum okkar sjálfstæðismanna, eins og hefur verið gert að mörgu leyti í þessu máli, og að næsta skref sé að taka á skuldavandanum.

Ég lýsi mig samþykkan málinu.