138. löggjafarþing — 17. fundur
 2. nóvember 2009.
endurskipulagning skulda.

[15:03]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það berast fregnir úr bankakerfinu og viðskiptalífinu um að þar sé unnið að endurskipulagningu skuldastöðu. Því miður hafa mál þróast á þann veg að fólk skilur ekki hverjir eiga rétt á því að fá skuldir felldar niður, hverjir eiga rétt á því að fá að koma áfram að þeim atvinnurekstri sem þarfnast endurskipulagningar skulda, í hvaða tilvikum bankarnir ætla að taka yfir eignarhaldið og segja þá skoðun sína að núverandi eigendur þurfi að víkja frá rekstrinum. Hvenær eru bankarnir í stöðu til að selja kröfur sínar, eins og nú berast fregnir af frá fjölmiðlum, að einstakir bankar hafi gripið til þess ráðs, jafnvel meðan verið var verið að semja við skuldara, að framselja kröfuna öðrum? Við hljótum að gera kröfu um að íslenskur almenningur skilji hvernig málum er háttað í bankakerfinu, að á sama tíma og fjölskyldurnar reyna að standa undir skuldabyrði sinni og við hér á þinginu setjum lög og reglur um þessi efni, sé það með sama hætti gagnsætt í atvinnulífinu á hvaða forsendum menn fá felldar niður skuldir, hvert gagnsæið á að vera.

Staðreyndin er sú að ekki er endalaust hægt að skýla sér á bak við bankaleynd í þessum málum. Það á að vera tiltölulega auðvelt að setja skýrar reglur sem allir geta skilið þar sem tryggt er að sambærileg mál fá meðhöndlun, þar sem bankarnir geta tjáð sig um að þeir telji að í tilteknum tilvikum sé áframhaldandi eignarhald viðkomandi eigenda mikilvægt en ekki í öðrum tilvikum.

Nú spyr ég fjármálaráðherra sem hefur með eignarhald á bönkum að gera hér á landi: Hvaða hugmyndir hefur ríkisstjórnin til að eyða þeirri óvissu og því skilningsleysi sem ríkir um meðhöndlun þessara mála? (Forseti hringir.) Hvað stendur til að gera til að efla að nýju traust á fjármálastofnunum í landinu? Við þurfum að hafa allt annað andrúmsloft við þá (Forseti hringir.) mikilvægu endurskipulagningu sem fram undan er fyrir atvinnufyrirtæki?



[15:06]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Sem betur fer sér fyrir endann á því að endurreisa eða koma á fót nýju bankakerfi með fjármögnun nýju bankanna og koma því á fastan grunn. Þá hefur orðið sú breyting á að forræðið fyrir eignarhaldinu á stóru bönkunum þremur er farið frá fjármálaráðuneytinu til Bankasýslunnar í samræmi við lög þar um. Það er Bankasýslunnar að halda eignarhlutinn og skipa í bankaráð að fengnum tillögum valnefnda og síðan að fylgjast með því að eigendastefnu ríkisins, að því marki sem hún á við og í samræmi við eignarhlut ríkisins, sé framfylgt. Þetta hlutverk hefur Bankasýslan með höndum samkvæmt lögum. Bankarnir hafa verið að móta sína aðferðafræði og hafa sumpart kynnt hvernig þeir hyggist fara í og vinna að þeim gríðarlega stóru, flóknu og erfiðu viðfangsefnum eins og að fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu drjúgs hluta íslensks atvinnulífs. Það er því miður veruleikinn sem við okkur blasir að mörg fyrirtæki eru skuldsett. Sum þeirra munu ekki eiga sér lífsvon, önnur geta með stuðningi og fjárhagslegri endurskipulagningu komist á traustan grunn með rekstur sinn. Að sjálfsögðu er bönkunum upp á lagt að vinna þetta samræmt, faglega og viðhafa það gagnsæi eins og kostur er, samanber þá eigendastefnu sem ég hef áður vitnað til. Það snýr því að sjálfsögðu að þeim að veita sínar upplýsingar um vinnureglur í þessum efnum. Það snýr að Bankasýslunni að fylgja því eftir að eftir þeim sé farið, að unnið sé faglega og samræmt og er sjálfsagt mál að miðla síðan upplýsingum til Alþingis um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig.

Það hefur verið ætlun mín að koma með skýrslu um endurreisn bankakerfisins og stöðu þeirra mála en það hefur dregist nú um nokkurra vikna skeið einfaldlega vegna þess að stórar ákvarðanir eru að ráðast í þeim málum einmitt á þessum vikum.



[15:08]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er liðið ár frá því að ljóst varð að taka þyrfti þessi mál mjög miklu traustataki og það er eflaust rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að bankarnir hafi verið að móta sína aðferðafræði. Vandinn liggur í því að það er ekki traust á þessum ferlum. Fólk skilur ekki hvenær skuldir eru afskrifaðar og hvaða reglur gilda. Þegar íslenskur almenningur þarf að leggja sig allan fram um að standa undir skuldabyrðinni og stendur í sjálfu sér ekki annað til boða núna en að fá nýtt greiðsluplan, berast fregnir af miklum afskriftum og ólíkri meðferð í kerfinu. Þetta ástand mun ekki tryggja neinn frið um skuldaaðlögun fyrir heimili og það mun líka leiða til gríðarlega mikillar sóunar og undanskots eigna í atvinnulífinu. Við verðum að laga þetta ástand og ef bankarnir rísa ekki undir því hlutverki að skýra miklu betur hvaða reglur eiga að gilda hér þurfum við að grípa inn í. Við treystum því að þeir sem fara með þessi mál geri það betur en við höfum orðið vitni að hingað til og hafi vökul augu með þessu, það dugar okkur ekki að fá skýrslu eftir einhverjar vikur. Það er augljós vandi núna sem hægt er að taka á með því að gera kröfu um að verklagsreglurnar verði gerðar opinberar og skýrar.



[15:10]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé ekki að fara fram á pólitísk afskipti eða pólitíska íhlutun í einstök mál af þessu tagi. (Gripið fram í.) Á þingi í vetur var réttilega rætt um hvernig menn tryggðu að einmitt um slíkt yrði ekki að ræða. Ekki síst þess vegna er Bankasýslan til komin, að búa til armslengd frá hinu pólitíska valdi og setja þessi mál í faglegan umbúnað og faglegan farveg þar sem unnið er faglega og samræmt að þessum hlutum.

Ég hygg að hv. þingmaður þurfi ekki annað en skreppa í smástund á netið, þá fái hann talsvert af þeim upplýsingum sem hann biður um. Ég veit ekki betur en að allir bankarnir, a.m.k. sumir þeirra, veit ég fyrir víst vegna þess að ég hef skoðað það sjálfur, hafi sett nákvæmlega sínar verklagsreglur um þessa skuldaúrvinnslu á heimasíðu undir liðnum Umboðsmaður viðskiptavina. Svo er annarra að fara yfir það og fylgjast með því að reglunum sé framfylgt, eins og ég fór yfir áðan. Verði misbrestur á því þarf að sjálfsögðu að taka það föstum tökum.