138. löggjafarþing — 17. fundur
 2. nóvember 2009.
skuldavandi heimilanna.

[15:11]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það gladdi marga þegar margra mánaða afneitun hæstv. félagsmálaráðherra lauk um mikilvægi þess og nauðsyn að ráðast í almennar aðgerðir til að koma til móts við skuldavanda heimilanna. Fyrir vikið vildu menn að sjálfsögðu sýna jákvæðni gagnvart þessari viðleitni og vísa ég þar til frumvarps hæstv. ráðherra sem var keyrt í gengum þingið með afar skömmum fyrirvara. En smátt og smátt hefur verið að koma í ljós að á því eru ýmsir ágallar og jafnvel hugsanlegt að frumvarpið geri töluvert meiri skaða en gagn. Spurningin er því sú: Getur hæstv. félagsmálaráðherra tekið undir að mikilvægt sé að ráðast í raunverulega höfuðstólslækkun, þ.e. raunverulega leiðréttingu á lánum íslenskra heimila? Eins og fyrirkomulagið er nú eru á því ýmsir gallar. Það eykur enn á vandann í framtíðinni og dregur þannig úr líkum á því að vandinn leysist nú. Þetta eykur á misskiptingu þegar laun hækka mishratt og þetta frystir nánast algerlega fasteignamarkaðinn og festir fólk þannig í skuldafangelsi.

Spurningin er því þessi, sérstaklega í samanburði við þær fregnir sem nú berast úr bönkunum af gríðarlegum afskriftum sem stefnir í hjá fyrirtækjum og þá kannski sérstaklega einu fyrirtæki: Er ekki ljóst að íslensk fyrirtæki verða að fá að njóta a.m.k. sambærilegrar meðhöndlunar og fá þá raunverulega leiðréttingu lána sinna?

Annar samanburður sem hlýtur að vekja athygli hvað þetta varðar eru fyrirhugaðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar. Gera þær ekki miklu meira en að éta upp þann skammgóða vermi sem felst í lagabreytingu hæstv. félagsmálaráðherra?



[15:13]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get ekki tekið undir að þessi nýsetta löggjöf geri meiri skaða en gagn. Það eru auðvitað engar fullkomnar lausnir til í ófullkomnum heimi. En ég held að með þessari löggjöf höfum við farið eins nærri því að finna þá lausn sem best gagnast stærstum fjölda fólks með almennum aðgerðum, þ.e. með því að gefa fólki fyrirheit um að greiðslur verði héðan í frá í samræmi við launaþróun frekar en í samræmi við annaðhvort verðlagsþróun eða gengisþróun. Hvort tveggja eru stærðir sem fólk hefur afskaplega litla stjórn á og lítil tengsl við og þær hafa óverulega tengingu til skemmri tíma litið við afkomu þorra fólks. Ég held þess vegna að sú hugmyndafræði sem byggir á því að gera fólk sem var í reynd í lagi fyrir hrun áfram svo sett eftir hrun þannig að það geti staðið í skilum með skuldbindingar sínar, sé skynsamlegasta og eðlilegasta leiðin til að taka á þessum vanda.

Ég held síðan að hvað varðar höfuðstólslækkun til viðbótar komum við alltaf að þeim vanda hvar finna eigi svigrúm til slíkra aðgerða. Það er auðvitað ljóst að ýmsar bankastofnanir bjóða nú höfuðstólslækkun sem felst í núvirðingu lána með tilboðum um breytingu á lánaformum og annað slíkt, einkum með umreikningum og núvirðingu lána úr gengistryggðum lánum yfir í innlend, óverðtryggð kjör eða úr verðtryggðum lánum í innlend óverðtryggð kjör. Það er auðvitað hverjum í sjálfsvald sett að gera það.

Að því er varðar frekari leiðir til að lækka höfuðstól sé ég ekki alveg hvert svigrúmið þar er. Hv. þingmaður vísar í afskriftir sem eru í bönkunum að öðru leyti í málefnum fyrirtækja og bankarnir verða auðvitað að útskýra svigrúm sitt þar. En það sem ég held að við endum alltaf á er spurningin: Hverjir eiga þá að greiða fyrir höfuðstólslækkanir sem eru umfram núvirðingu (Forseti hringir.) þeirra lána sem hér um ræðir?



[15:16]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Sama spurning hlýtur að vakna varðandi heimilin og afskriftir af lánum hjá þeim eins og þegar verið er að afskrifa verulegan hluta af lánum fyrirtækja. Það er yfirleitt gert með þeim rökum að ekki sé um annað að ræða, þetta sé nauðsynlegt til að fyrirtæki geti haldið áfram rekstri og til að allt efnahagslíf á Íslandi hrynji ekki.

Nú á það sama ekki við um heimilin. Við höfum bent á það og margreynt að útskýra fyrir hæstv. félagsmálaráðherra og öðrum að með því að ráðast í leiðréttingu strax, leiðréttingu þar sem vel að merkja er gert ráð fyrir við færslu lánanna frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju, megi koma í veg fyrir það tjón sem óumflýjanlega felst í því að hafa skuldabyrðina hangandi yfir heimilunum, skuldabyrði sem á endanum verður ekki hægt að greiða. Ég spyr þá hæstv. ráðherra hreint út: Hvað finnst ráðherranum um þær afskriftir sem nú er verið að ræða að verði veittar fyrirtækinu Högum og hvernig getur hann réttlætt að ekki sé ráðist í afskriftir til íslenskra heimila í samanburði við það?



[15:17]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú þekki ég ekki þau mál sem hv. þingmaður spyr mig um enda eru þau ekki á mínu borði. En ég geri einfaldlega ráð fyrir því að viðkomandi bankar séu að vinna að því að hámarka virði þeirra eigna sem þeir eru með í höndunum.

Það sem er alltaf veiki hlekkurinn í allri þessari umræðu sem hv. þingmaður stillir upp er einfaldlega að í yfirfærslunni á eignum gömlu bankanna yfir í þá nýju var gert ráð fyrir tiltekinni tapsáhættu af lánum. Með þeim aðgerðum sem við samþykktum í lagaformi fyrir tveimur vikum er gert ráð fyrir ákveðnu svigrúmi og að það verði nýtt til að mæta óhjákvæmilegri fjárhagslegri endurskipulagningu hjá þeim heimilum sem ekki ráða að óbreyttu við greiðslu skulda sinna. Það er því gert ráð fyrir að þetta svigrúm verði nýtt til fulls í þeirri sértæku skuldaaðlögun sem þar er gert ráð fyrir. Að öðru leyti er ekki um neitt svigrúm að ræða og auðvitað er ekki hægt að dreifa sömu afskriftinni út tvisvar.