138. löggjafarþing — 18. fundur
 3. nóvember 2009.
umræður utan dagskrár.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:06]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við búum við öfluga heilbrigðisþjónustu, á því er enginn vafi. Allar samanburðartölur sýna það. Allir vilja standa vörð um þessa grundvallarþjónustu. Það þýðir samt ekki að stöðnun eigi að ríkja í málaflokknum. Það má halda þjónustunni áfram góðri en með minni tilkostnaði. Til að ná fram breytingum þarf pólitískt þrek. Það þarf líka öfluga umræðu þar sem hlutirnir eru skýrðir út fyrir fólki á mannamáli. Ég vil taka þátt í slíkum breytingum þótt það kosti óvinsældir um stundarsakir. Ég er tilbúin til að beita mér fyrir slíkum breytingum.

Mörgum kann að þykja skrýtið að stjórnarandstöðuþingmaður hafi slíkan vilja. Að mínu mati geta stjórnmálaflokkarnir náð saman miklum árangri ef þeir bera gæfu til að vinna saman að breytingum sem spara peninga án þjónustuskerðingar. Á næstu árum þarf að spara í opinberum rekstri, og ekki bara á næstu 2–3 árum, miklu fleiri ár liggja undir. Á næsta ári á að spara um 5% í heilbrigðisþjónustunni og maður spyr: Er þetta hægt? Svarið er: Já, þetta er hægt.

Ég minni á að þegar ríkisstjórnin sem tók við árið 2007 lagði fram fjárlagafrumvarp sitt jukust útgjöld um 20% milli ára. Þetta var strax eftir kosningar. Mjög sérstakt, virðulegur forseti. En hvernig er best að spara? Á að skera flatt, á að skera niður um ákveðna prósentu eða á að forgangsraða? Að mínu mati er rétta svarið: Það á að forgangsraða. Spurningin er bara hvernig. Það þarf að ná fram kerfislægum breytingum og það er hægt. Á sínum tíma tókum við á slíkum kerfislægum breytingum í öldrunarþjónustunni og náðum fram miklum sparnaði án þess að skerða þjónustu. Núna þarf að ná fram kerfislægri breytingu á svokölluðum kragasjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu. Það er komin út skýrsla sem heitir Frá orðum til athafna og heilbrigðisnefnd hefur fengið kynningu á henni sem er aðgerðaáætlun um forgangsröðun á kragasjúkrahúsunum á næsta ári.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra: Hve langt eru stjórnvöld komin með að forgangsraða á kragasjúkrahúsunum? Hvenær fáum við að sjá meira? Sú sem hér stendur telur að unnt sé að byggja áframhaldandi vinnu á þessari skýrslu.

En er nóg að stokka upp og ákveða hver gerir hvað á sjúkrahúsunum? Að mínu mati er svarið: Nei, það þarf að gera meira. Það eru möguleikar á verulegri hagræðingu án þess að skerða þjónustu, en hvernig er það unnt? Jú, við getum farið sömu leið og nágrannalönd okkar. Við getum ákveðið að standa í fullri alvöru undir þeim orðum að við viljum að heilsugæslan sé það þjónustustig sem nýtast eigi sem best, hún eigi að vera fyrsti viðkomustaður sjúklings. Þar á að halda utan um heilbrigðismál fólksins í landinu. Þar er þjónustan ódýrust.

Við getum minnkað álagið á dýrari úrræði, t.d. sérfræðiþjónustuna. En hvernig gerum við það, virðulegur forseti? Jú, með því að koma á svokölluðu valfrjálsu stýrikerfi að danskri fyrirmynd. Það má einnig kalla það valfrjálst tilvísanakerfi. Það byggist á því að sjúklingur getur valið um tvær leiðir. Hann getur valið að fara til heilsugæslunnar til að fá úrbót meina sinna og eftir atvikum tilvísun til sérfræðings ef á þarf að halda. Þessi leið er orðin ódýr, bæði hjá heilsugæslu eða eftir atvikum hjá sérfræðingi. Hann gæti líka farið hina leiðina, gæti valið að fara beint til sérfræðilæknis en þá mundi hann ekki njóta niðurgreiðslu frá ríkinu eins og í dag heldur borga reikninginn upp í topp sjálfur. Önnur norræn ríki hafa farið þá leið. Þau bjóða fólki ekki upp á það að fara beint í dýrustu úrræðin og gera kröfu á að skattpeningarnir fari í að borga reikninginn að mestu leyti. Þau hafa eðlilegt þjónustuflæði milli þjónustustiga.

Þeir erlendu aðilar sem hafa komið hingað margoft spyrja okkur: Hvernig í ósköpunum hafið þið efni á þessu eins og þið gerið þetta? Af hverju breytið þið þessu ekki? Þetta voru spurningarnar sem þið fenguð löngu fyrir bankahrun. Við höfðum kannski efni á þessu þá. Við höfum ekki efni á þessu núna, enda er þetta ekki betri þjónusta þegar upp er staðið. Á landsbyggðinni má segja að þar sé þetta danska kerfi í dag. Þar fer fólk yfirleitt til heilsugæslulæknis og svo eftir atvikum til sérfræðilæknis. Á höfuðborgarsvæðinu er þessu öfugt farið að verulegu leyti.

Að mínu mati mun það taka nokkur ár að koma þessu nýja kerfi á. Það þarf að efla heilsugæsluna, það þarf að ná inn fleiri heilsugæslulæknum og það lítur þokkalega vel út með það miðað við upplýsingar frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ég vil því að endingu, virðulegur forseti, spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Er vilji til að fara í stærri skipulagslegar breytingar (Forseti hringir.) eins og þá að efla heilsugæsluna og minnka álagið á sérfræðiþjónustuna?



[14:12]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur kærlega fyrir það tækifæri að fá að ræða heilbrigðisþjónustuna og forgangsröðun í henni sem er mjög brýn, ekki síst á þeim tímum sem við lifum.

Ég minni á að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að heilbrigðisþjónustan verði tekin til endurskoðunar með heildstæðri stefnumörkun í þeim tilgangi að draga úr kostnaði við hana og nýta fjármuni skynsamlega. Það er lögð áhersla á að leiða saman heilbrigðisstarfsmenn, sjúklingasamtök og sérfræðinga til að skipuleggja og ná sátt um örugga heilbrigðisþjónustu um land allt. Í samræmi við þessi fyrirheit hefur á undanförnum mánuðum verið haft víðtækt samráð við fjölda aðila um að hrinda í framkvæmd fyrrgreindum stefnumiðum.

Ég ætla ekki að þreyta menn á því að lesa meira úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um heilbrigðismál en þar er af ýmsu að taka. Ég ætla aðeins að minna á að meginmarkmiðin eru jöfnuður, gott aðgengi og góð þjónusta, öryggi og hagkvæmni en þar er einnig punktur um að heilsugæslan skuli í þessu samhengi sett í öndvegi sem fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu.

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði áðan, ekki verður komist hjá því að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni líkt og í öðrum opinberum rekstri, ekki síst á þessum krepputímum. Við skulum ekki ímynda okkur að ekki verði eitthvað dregið úr heilbrigðisþjónustu á komandi árum. Spurningin er bara hvar og hvernig. Það kann að vera að biðlistar lengist, það kann að vera að ekki verði eins auðvelt að komast til sérfræðings en við þurfum að stýra þessu þannig að öryggið sé í öndvegi og að niðurskurður og aðhald bitni ekki á þeim sem minnst mega sín. Ég minni á að það er skýr forgangsröðun í áætlun ríkisstjórnarinnar um það hvernig taka skuli niður fjárlagahallann þar sem gerð er 5% aðlögunarkrafa á heilbrigðisþjónustu á næsta ári, 7% á menntamál og 10% á stjórnsýsluna, þar með talið stjórnsýsluna í heilbrigðisþjónustunni.

Leiðarljósin við þessar aðgerðir eru líka skýr, þ.e. að verja störfin, verja laun sem eru undir 400 þús. kr. og lækka hæstu laun, þ.e. að ná fram launajöfnuði. Það er ærið verkefni í heilbrigðisþjónustunni þar sem launamunur hefur verið gríðarlegur og þar hefur enn ekki náðst tilætlaður árangur.

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði um stöðu kragaverkefnisins, hversu langt stjórnvöld væru komin í forgangsröðun á því svæði. Eins og menn muna var í upphafi þessa árs lagt upp með gríðarlega mikla uppstokkun á þessum svokölluðu kragasjúkrahúsum og tengingu þeirrar þjónustu sem þar er veitt við þjónustu á Landspítalanum. Það er miður að þær tillögur sem kenndar eru við Huldu Gunnlaugsdóttur, þáverandi forstjóra Landspítalans, frá 22. september náðu ekki fram áður en fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október sl. Þær komu þess vegna ekki inn í fjárlagafrumvarpið og það er enn verið að vinna með þær. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir á grunni þeirra en faghópar hafa verið að störfum sem hafa verið að meta ábata og kostnað af þeim tillögum sem þar er lagt upp með og talið er að gætu skilað 500–600 millj. kr. í hagræðingu fyrir kerfið í heild. Ákvarðanir eða niðurstöður munu liggja fyrir á allra næstu dögum og þær munu byggja á góðum gögnum. Ég legg áherslu á að tölur séu ábyrgar og sannreyndar þannig að aðgerðir skili tilætluðum árangri hvað fjármuni varðar. Markmiðið er sem fyrr að nýta mannafla og fjármuni betur og með sem minnstri skerðingu á þjónustu, en jafnframt hef ég lagt áherslu á að horft skuli til atvinnuástands á viðkomandi svæðum.

Það er margt annað en tillögur sem kenndar eru við þessa nefnd Huldu Gunnlaugsdóttur frá 22. september sem er til skoðunar varðandi sjúkrahúsin í kraganum. Ég vil nefna sérstaklega hugmyndir um að flytja fleiri legusjúklinga út af Landspítalanum á kragasjúkrahúsin og einnig að líta til nýrra hugmynda fæðingar- og kvensjúkdómalækna um heildarskipulag fæðingarþjónustu á þessu svæði. Tillögur um breytingar á henni hafa vægast sagt verið mjög umdeildar.

Að lokum, frú forseti, tími minn er að renna út, legg ég áherslu á það sem segir í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um eflingu heilsugæslu og ég tek heils hugar undir það sem hv. þingmaður sagði, ég tel mikilvægt að skoða heilbrigðisþjónustuna og tilvísanakerfið í nágrannalöndunum, þá einkum danska kerfið. Ég vek athygli á því að það mun taka kannski 2–4 ár að ná fram slíkum breytingum (Forseti hringir.) en ég tel þær mjög mikils virði og mun setja þá vinnu af stað.



[14:17]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Það er skemmtilegt að heyra hæstv. heilbrigðisráðherra Álfheiði Ingadóttur kenna nú við Huldu Gunnlaugsdóttur skýrslu síðan 22. september sem byggir á tillögum sem lagðar voru fram í tíð hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Svona geta menn, eða köttur, farið í kringum heitan graut af því að þeim þóknast ekki að halda sannleikanum á lofti hvað þetta varðar.

Í þessu verkefni stöndum við frammi fyrir viðamiklum og vandasömum verkefnum innan heilbrigðisþjónustunnar eins og við stöndum frammi fyrir viðamiklum verkefnum alls staðar í ríkisrekstri. Það kallar á fjárhagshagræðingu og það kallar á aukna faglega þróun. En það kallar á lykilspurningar, frú forseti, lykilspurningar sem eru spurningar um pólitískan vilja. Þær eru: Hvaða þjónustu á að veita? Hvar á að veita hana og hver á að veita hana? Þetta eru lykilspurningar sem þarf að svara.

Frú forseti. Við þurfum að koma okkur út úr þeim þankagangi sem við erum nú í, við þurfum að hætta að hugsa um hús þar sem þjónustan hefur verið veitt fram til þessa. Við þurfum að fara að hugsa um þjónustuna sjálfa eins og ágætur læknir, Þorvaldur Ingvarsson á sjúkrahúsinu á Akureyri, mælti svo snyrtilega í morgun á fundi heilbrigðisnefndar, hætta að hugsa um húsin og fara að hugsa um þjónustuna. Það er þankagangurinn sem við þurfum að tileinka okkur. Það mun kalla á sársaukafullar ákvarðanir. Mér er til efs að sá pólitíski kjarkur sé hjá þessari ríkisstjórn. Hún hefur ekki sýnt það í öðrum greinum í uppbyggingu atvinnulífs að hún hafi kjark. Hún hefur fram til þessa (Forseti hringir.) dregið úr í staðinn fyrir að gefa í.



[14:19]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Já, það þarf að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni eins og öðrum þáttum ríkisrekstrarins. Mig langar til að ganga út frá fjórum atriðum helst í þessari umræðu og þau byggja öll á því að til þess að fara í slíkar skipulagsbreytingar þarf að líta á landið sem eina heild, landið sem eitt þjónustusvæði fyrir 320.000 íbúa.

Hvernig gerum við það? Við gerum það m.a. með því að fylgja eftir tillögum sem eru kenndar við Huldu Gunnlaugsdóttur sem er auðvitað, alveg eins og hér hefur verið bent á, í raun það verkefni sem hófst í ráðherratíð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Það er með þetta verkefni eins og önnur í ríkisrekstrinum um þessar mundir að það skiptir kannski ekki öllu hverjir eru ráðherrar, verkefnin fara ekkert og það þarf að leysa þau.

Hvernig gerum við það? Það þarf að endurskipuleggja starfsemi kragasjúkrahúsanna í kringum LSH þannig að þau nýtist saman rekstrarlega og með öðrum hætti. Það þarf að greina það eftir verkefnum eins og segir í skýrslu Huldu Gunnlaugsdóttur. Það þarf að styrkja Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem mótvægi á landsbyggðinni við LSH og að sjálfsögðu þarf að styrkja heilsugæsluna og þær forvarnir sem þar eiga sér stað. Þar þarf líka að ganga út frá verkefnum heilsugæslunnar en ekki öðrum hlutum, t.d. um heimahjúkrun. Og jú, það þarf líka að byggja nýjan spítala en hann verður ekki sá sem fyrst var lagt upp með, heldur spítali sem við þurfum að fá þegar búið er að fara í gegnum skipulagsbreytingarnar.

Þetta er það sem við þurfum að gera og ég er þess fullviss að núverandi heilbrigðisráðherra, ríkisstjórn og hv. heilbrigðisnefnd hafa hið pólitíska þrek sem þarf til að gera þessar breytingar af því að til þess að gera þetta þurfum við þverpólitíska samstöðu (Forseti hringir.) og ég hygg að hún sé að myndast.



[14:22]
Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Heilbrigðisþjónusta er einn þeirra hluta sem við Íslendingar getum verið stolt af. Maður er ekki stoltur af öllu sem hefur gengið yfir á Íslandi á undanförnum árum, en það verður þó ekki frá okkur tekið að suma hluti gerum við vel og þeir eru okkur til sóma. Þar vil ég nefna heilbrigðisþjónustuna fyrst og fremst. Um hana vil ég standa vörð á þessum tímum boðaðs niðurskurðar. Það sem virkar, það sem eykur hamingju þjóðarinnar og starfsgetu skulum við verja af öllum kröftum og finna aðferðir til að hagræða í stað þess að skera niður og ef við þurfum að skera niður skulum við gera það á sviði þar sem eitthvað má missa sín.

Í íslensku heilbrigðisþjónustunni er eitt djásn í krúnunni, sú heilbrigðisþjónusta sem stendur alkóhólistum og vímuefnafíklum til boða á vegum SÁÁ. Mér vitanlega eru íslenskir alkóhólistar eini sjúklingahópurinn sem hefur tekið sig til og reist spítala handa sjálfum sér. Ekki nóg með það, heldur hefur hann líka (Forseti hringir.) rekið þennan spítala með frábærum árangri á heimsmælikvarða í nokkra áratugi og lagt fram u.þ.b. 20% af rekstrarkostnaði. Um þetta skulum við standa sérstakan vörð. (Forseti hringir.)



[14:24]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að við skulum ræða um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu á vettvangi þingsins. Ég tek undir með hv. þm. Þráni Bertelssyni um að ég er stoltur af íslenskri heilbrigðisþjónustu sem við höfum byggt upp á undangengnum árum. Nærtækast er að líta til þess hvernig að málum er staðið núna þegar mikil flensa gengur yfir landið þar sem fólk á einum stærsta vinnustað landsins, á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, og reyndar víðar í þessari þjónustu vinnur ómetanlegt starf og stendur sig mjög vel undir miklu álagi.

Ég fagna því, frú forseti, að menn hafa gefið það út að standa eigi sérstakan vörð um grunnþjónustuna og heilsugæsluna í landinu. Það er þannig að þegar fólk ákveður búsetu og hugar að flutningi vakna fyrst upp spurningarnar: Hvernig er skólamálum háttað og hvernig er heilbrigðismálunum háttað? Þetta er hluti af grunnþjónustu sem hver fjölskylda þarf á að halda. Þess vegna er mikilvægt núna þegar við þurfum að hagræða í heilbrigðisþjónustunni að við göngum ekki um of á heilsugæsluna sem gegnir lykilhlutverki vítt og breitt um landið. Það er undirstaðan fyrir hverri byggð að til staðar sé öflug heilsugæsla vítt og breitt um landið. Því legg ég áherslu á að menn standi vörð um þá mikilvægu þjónustu.

Um leið og ég hvet hæstv. ráðherra til að hrinda ákveðnum verkefnum í framkvæmd, sem m.a. hefur verið unnið að að undanförnu, að sjálfsögðu þarf að skoða það vel, vil ég nefna sérstaklega hlutverk Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri í því samhengi. Það er undirstöðuheilbrigðisstofnun á landsbyggðinni sem við þurfum að standa vörð um. Við þurfum að vanda okkur fyrst og fremst í því verkefni sem fram undan er. Við gerum okkur öll grein fyrir því að það þarf að hagræða, við þurfum að spara og ég tel að það sé hægt, en við þurfum að standa vörð um ákveðin grunngildi eins og heilsugæsluna, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og náttúrlega þessi stóru sjúkrahús á suðvesturhorni landsins. Ég óska hæstv. ráðherra góðs gengis í verkefninu fram undan sem verður vandasamt.



[14:27]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu. Vegna þrenginga í þjóðarbúskapnum er ljóst að grípa verður til aðhaldsaðgerða í rekstri heilbrigðiskerfisins, nýta fé skynsamlega og aftengja sjálfvirka útgjaldaþróun í kerfinu. Að þessari vinnu við forgangsröðun og endurskipulagningu í heilbrigðisþjónustunni verður að leiða saman heilbrigðisstarfsmenn, sjúklingasamtök og sérfræðinga og ná sem mestri sátt um markmið og leiðir. Tryggja verður að heilsugæslan verði undirstaða heilbrigðisþjónustunnar og að hún tengist öðrum forvarnaverkefnum, svo sem manneldis- og lýðheilsuverkefnum, og að aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu standi öllum til boða og áhersla verði lögð á heilsuvernd og forvarnir. Unnið verði að því að þróa valfrjálst stýrikerfi sem leiði til hagkvæmustu úrræða hverju sinni. Nauðsynlegt er að sérhæfð heilbrigðisþjónusta verði aðgengileg öllum óháð búsetu og efnahag.

Mikilvægt er að leggja aukna áherslu á eflingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu við aldraða. Það eykur lífsgæði þeirra og er öllu samfélaginu til hagsbóta. Einnig að hjúkrunarrými standi þeim til boða sem þurfa á því að halda. Störf heilbrigðisstétta eru ómetanleg og í þessum þrengingum verður að gæta þess að ekki verði of nærri þeim gengið í kjörum og vinnuálagi. Setja verður í forgang að verja störfin eins og kostur er.

Öflugt velferðarkerfi er ein af forsendum alhliða atvinnuuppbyggingar í landinu. Traustar heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um landið eru íbúum þar forsenda búsetuöryggis og að fólk geti haldið áfram að búa í sinni heimabyggð á fullorðinsárum. Afleiðingar efnahagshrunsins eru m.a. heilsubrestur margra sem standa höllum fæti og annarra áhættuhópa sem veikir eru fyrir. Tryggja verður að allir þeir einstaklingar sem þurfa á þjónustu heilbrigðis- og velferðarkerfisins að halda fái hana þegar þeir þurfa á henni að halda og þétta verður öryggisnetið (Forseti hringir.) og tryggja að þar falli enginn útbyrðis.



[14:29]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Ég fullyrði það, eftir að vera búinn að hlusta á umræðurnar, að aldrei áður hefur heilbrigðisráðherra haft jafnmikinn stuðning við að fara í nauðsynlegar aðgerðir og núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra hefur. Það er algjörlega ljóst þegar við hlustum á þessar ræður, og ég tek bara ræður hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, og í rauninni töluðu allir aðrir á sömu nótum, að það er samstaða um að nú þurfum við að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna. (Gripið fram í.) Við verðum að forgangsraða þannig að það sé tryggt að það sé þjónusta fyrir alla þegar þeir þurfa á henni að halda og við vitum alveg hvað það þýðir. Það þýðir að það þarf að taka ákvarðanir sem oft eru erfiðar en þær eru nauðsynlegar til þess að við getum haldið uppi þessu þjónustustigi.

Hv. þm. Þráinn Bertelsson bendir réttilega á að við getum verið stolt af heilbrigðisþjónustunni okkar. Við erum í 3. sæti í heiminum og við getum haldið okkur nálægt því þrátt fyrir að við þurfum að fara í nauðsynlegar sparnaðaraðgerðir, en þá þurfum við að hafa pólitískt þrek og vilja til að taka nauðsynlegar ákvarðanir.

Hæstv. ráðherra sagði eitt hér áðan sem stendur upp úr, að það væri miður að tillögur Huldu Gunnlaugsdóttur hefðu ekki verið komnar inn fyrir fjárlögin. Nú er það bara einn aðili sem ræður því, virðulegi forseti, það er hæstv. ráðherra, og ég hvet hæstv. ráðherra til að fylgja þessu máli eftir. Hæstv. ráðherra er í þeirri einstöku stöðu að vera með þverpólitískan stuðning í þinginu við það að fara í þetta nauðsynlega og svo sannarlega ekki auðvelda verkefni.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu og hvet hæstv. ráðherra til dáða, hún fær stuðning okkar til að gera nauðsynlega hluti.



[14:31]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þessa mjög þörfu umræðu. Ég vil segja í þessari pontu að þessa umræðu þurfum við að taka oftar, miklu oftar, vegna þess að hér erum við komin að grunngildi samfélagsins sem við köstum ekki til höndum.

Það er á margan hátt óþolandi fyrir stjórnmálamenn, sérstaklega þá yngri og þá sem nýir koma inn í pólitík, að enn skuli það vera svo árið 2009 að þau grunngildi sem varða heilsugæslu, grunnþjónustu í menntun og málefnum aldraðra og fatlaðra skuli vera skiptimynt þegar kemur að alvarlegum niðurskurði. Það er mjög alvarlegt að svo skuli vera, að okkur skuli ekki enn þá hafa tekist að búa til þverpólitíska samstöðu um það sem við ætlum að verja hvað sem á gengur. Þar er að mínu viti heilsugæslan og þjónusta spítalanna um allt land mjög mikilvæg. Við verðum að viðurkenna í þessari umræðu hverju við ætlum að verja til þessa málaflokks. Við getum ekki endalaust gengið þannig til verka að þessi viðkvæma þjónusta liggi löskuð eftir vegna þess að, eins og ég gat um, hún er viðkvæm og það er erfitt að koma henni aftur af stað. Ég get nefnt sem dæmi af því að við vorum með gesti í heilbrigðisnefnd í morgun frá sjúkrahúsinu á Akureyri að sá spítali er með um 4 milljarða á fjárlögum og fram til ársins 2013 kann svo að fara að það verði búið að skera niður fjórðung af þeirri upphæð. Viljum við það? Viljum við almennt taka svoleiðis á heilbrigðismálum okkar, þessari grunnþjónustu? Ég segi nei og ég skora á ráðherra að taka nú við þeirri þverpólitísku samstöðu sem heyrist úr pontu, ganga hraustlega til verks í verkaskiptingu spítalanna og þiggja þann breiða stuðning sem mér heyrist koma héðan.



[14:34]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Hér ræðum við forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Þeir sem taka þær ákvarðanir eru ekki öfundsverðir, enda líf, heilsa, öryggi og framtíð fólks af holdi og blóði í húfi. Ég hef verulegar áhyggjur af því að á niðurskurðarborði því sem blasir við okkur muni hvers lags forvarnir mæta afgangi. Það er auðvelt og e.t.v. freistandi að skera niður í forvarnastarfi því að áhrifin koma ekki strax fram, en ef slík nálgun verður ofan á mun það koma rækilega í bakið á okkur síðar meir. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða vímuefnavarnir, flúorskolun, hreyfingu barna og ungmenna, skimun fyrir brjóstakrabbameini, tóbaksvarnir eða annars konar forvarnaverkefni. Ef vel á að takast til þarf samstarf við aðra þjónustuaðila og aðra í samfélaginu.

Sem dæmi má nefna að nú þegar matvæli hækka í verði er stór hætta á minnkandi gæðum og hollustu þeirra matvæla sem þjóðin neytir. Við vitum einnig að því ástandi sem nú ríkir fylgir álag og við því verðum við að bregðast strax. Rannsóknir sýna einnig að neysla áfengis og annarra vímuefna eykst hjá ýmsum hópum þegar kreppir að. Því er mikilvægt að muna að það er alltaf ódýrara að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann. Það bið ég þá sem koma að forgangsröðun í heilbrigðismálum að hafa í huga.



[14:35]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt að það er brýnt að huga að forvörnunum líka. Ég get bara minnt þingheim á að það hefur sparast alveg ótrúlega mikill peningur við það að við höfum náð að minnka reykingar. Sú samstaða náðist hér að lokum að banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum og það hefur þegar sparað talsverðar upphæðir.

Það sem mig langar að bregðast við, virðulegur forseti, eru þær yfirlýsingar sem hér komu fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði að það væri miður að forgangsröðunartillögurnar hefðu ekki náð inn í umræðuna um fjárlagafrumvarpið þannig að það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra vill gera tillögur Huldu Gunnlaugsdóttur og nefndar hennar að sínum, eða ég túlka það sem svo, og þá bíðum við bara spennt eftir því að fá þær tillögur hér inn með einhverjum hætti í frekari vinnslu og munum þá skoða þær frekar. Það er alveg ljóst að þar eru sparnaðarhugmyndir sem ég tel að gegnumsneitt sé hægt að hrinda í framkvæmd án þess að skerða þjónustu.

Það sem mér fannst kannski merkilegra í þessari umræðu, virðulegur forseti, var hve vel var tekið í þá hugmynd að taka upp þetta danska valfrjálsa stýrikerfi. Ekki einn einasti maður talaði hér gegn því, enginn. Flestir töluðu með því eða sögðu lítið um það. Hæstv. ráðherra sagði að hún vildi skoða danska kerfið og setja af stað vinnu við það og sagði að hún teldi að það gæti tekið 2–4 ár að koma þessu á. Það er frekar bjartsýn spá að mínu mati. Ég held að það gæti tekið lengri tíma, en miðað við þá samstöðu sem ég skynja hér um að fara í svona kerfislæga breytingu sem er nokkuð umfangsmikil má vel vera að okkur takist að koma þessu á hraðar en ég hélt. Það er samt alveg ljóst að það eru hagsmunaaðilar innan heilbrigðisþjónustunnar sem munu sumir hverjir tala gegn þessari breytingu og hafa hagsmuni af því að halda málunum áfram í sama farvegi og þau eru í núna.

Ég fagna því sérstaklega að kannski erum við núna að taka fyrsta skrefið á réttri leið í að breyta kerfinu okkar þannig að við leggjum meiri (Forseti hringir.) áherslu á heilsugæsluna og minni áherslu á algjörlega óheft aðgengi að sérfræðilæknaþjónustu. Við eigum að nýta þjónustuna þar sem hún er hagkvæmust.



[14:38]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur orðið um heilbrigðismál og tek undir það sem sagt var áðan, það er vert að taka þessi mál oftar og ítarlegar til umræðu. Tíminn verður eitthvað svo óendanlega stuttur þegar maður er kominn í pontuna, eins og ég hef séð hjá flestum ræðumönnum. Og nú er tími minn að verða hálfnaður. [Hlátur í þingsal.] Hér hefur verið drepið á margt og ég vil bregðast við á þann hátt að ég ítreka að þær tillögur sem kenndar hafa verið við Huldu Gunnlaugsdóttur voru alls ekki fullbúnar í lok september og gátu þess vegna ekki ratað inn í neina áætlanagerð strax. Það vantaði alla verðmiða á það sem þar kom fram og það er unnið að því að finna sem gleggstar og bestar upplýsingar um það. Það verður gert og það verður kynnt hv. heilbrigðisnefnd.

Verkefni dagsins eru ærin. Við erum að taka ákvarðanir sem munu hafa mikil áhrif á heilbrigðisþjónustuna og á heilbrigði landsmanna til lengri tíma. Við þurfum að minnka áhættuna í þessari ákvarðanatöku og við skulum muna að við erum ekki með neina viðbragðsáætlun í þessu efni gagnvart kreppunni, eins og við vorum með gagnvart svínaflensunni. Þess vegna er hætt við að ákvarðanir geti orðið tilviljanakenndar og jafnvel bitnað á þeim sem síst skyldi ef ekki er fylgt þeim leiðarljósum sem lagt hefur verið upp með og ef ekki er horft til þess hvernig áhrifin af niðurskurðinum koma við einstaka hópa. Það er verkefni dagsins, að efla vaktina, efla velferðarvaktina, efla eftirlitshlutverk landlæknis og vera viðbúin því að taka aftur ákvarðanir ef þær skila ekki tilætluðum árangri eða bitna öðruvísi en menn ætluðu. Á þetta vil ég leggja mikla áherslu.

Til framtíðar erum við að horfa á, eins og hér var sagt, byggingu nýs háskólasjúkrahúss og við horfum til þess að styrkja heilsugæsluna, taka upp valfrjálst tilvísanakerfi, efla menntun í heilsugæslunni og forvarnir því að þetta á að vera sú framtíðarsýn sem við höfum og skiptir miklu (Forseti hringir.) máli í miðjum niðurskurði að hafa skýra framtíðarsýn. Ég þakka fyrir umræðuna.