138. löggjafarþing — 18. fundur
 3. nóvember 2009.
meðferð sakamála, 1. umræða.
stjfrv., 83. mál (frestun á stofnun embættis héraðssaksóknara). — Þskj. 84.

[14:41]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála. Í frumvarpinu er lagt til að frestað verði fram til 1. janúar 2012 að setja á fót embætti héraðssaksóknara.

Þann 1. janúar í ár tóku gildi ný lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er leystu af hólmi lög um meðferð opinberra mála frá 1991. Í hinum nýju lögum er m.a. mælt fyrir um að sett skuli á fót embætti héraðssaksóknara er vera skal nýtt stjórnsýslustig innan ákæruvaldsins. Í kostnaðarmati því sem fylgdi frumvarpinu kemur fram að ef frumvarpið verði að lögum leiði það til 62 millj. kr. hækkunar rekstrarkostnaðar á þessu sviði dómsmálaráðuneytisins. Einnig var gert ráð fyrir að við stofnun embættisins félli til tímabundinn stofnkostnaður sem næmi um 10 millj. kr. Gerði kostnaðarumsögnin þannig ráð fyrir því að viðbótarútgjöld á ársgrundvelli næmu um 72 millj. kr. Vegna sparnaðaraðgerða á útgjöldum ríkisins fyrir árið 2009 var því frestað fram til 1. janúar 2010 að setja embættið á fót. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 er ekki gert ráð fyrir neinum framlögum til embættis héraðssaksóknara. Er því ljóst að enn um sinn verður að fresta því að setja embættið á fót og er lagt til að því verði frestað um tvö ár, þ.e. fram til 1. janúar 2012.

Virðulegi forseti. Hér er ekki lagt til að ákvæði um héraðssaksóknara verði felld úr gildi. Markmið þess að setja á fót þetta embætti var einkum að auka réttaröryggi með því að bæta stjórnsýslustigi við ákæruvaldið. Horfir það til aukinna réttinda borgaranna með því að þá aukast tækifæri til að kæra til æðra stjórnsýslustigs ákvarðanir sem tengjast saksókn. Því er lagt til að gildistökunni verði frestað um sinn í stað þess að ákvæði verði felld niður.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.



[14:43]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framsöguna um þetta mál. Að mörgu leyti er hæstv. ráðherra mjög mikil vorkunn að þurfa að sitja í þessu embætti þar sem niðurskurðarkrafa ríkisstjórnarinnar gengur þvert á þann viðkvæma málaflokk sem hún stendur fyrir rekstri á. Þarna eru viðkvæmustu málaflokkarnir raunverulega sem þarf að takast á við, fangelsismál og dómsmál, og við erum að etja við hrun í leiðinni. Í þessu frumvarpi er lagt til að gildistöku héraðssaksóknara verði frestað. Ég harma það mjög því að það hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra að markmiðið með því að setja á stofn embætti héraðssaksóknara var að auka réttaröryggi borgaranna, en því miður virðist þessi ríkisstjórn gera lítið í því að sinna þessum málefnum sem vissulega eru brýn til þess að hér þrífist yfir höfuð það réttarríki sem við viljum búa í.

Þetta er sorglegt, en svo sem ekki við öðru að búast af þessari vinstri stjórn sem nú er við völd. Ég sit í allsherjarnefnd og við fjöllum nánast á hverjum fundi um að skera niður grunnþjónustu hjá þeim sem kannski minnst mega sín og þeim sem ekki mega við því.

Fyrst búið er að gefa út þær skipanir að fresta þessu gildistökuákvæði um héraðssaksóknara einu sinni og nú er lagt til að það verði gert aftur, með dagsetningunni 1. janúar 2012, er þá ekki hreinlegra að fresta þessu gildistökuákvæði ótímabundið en að koma með þetta mál aftur og aftur fyrir þingið og breyta hér ártölum?



[14:45]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli mínu kom ég inn á að ef þessu er frestað ótímabundið þá er í raun verið að fella þessi ákvæði úr gildi. Og með vísan til þess að ákveðin rök eru fyrir því að setja á fót embætti héraðssaksóknara, þá taldi ég vænlegra að leggja það til að gildistökunni yrði frestað enn um sinn í stað þess að ekkert yrði úr þeim áformum. Í rauninni er það þannig þegar við hugsum um stofnanir ákæruvaldsins að embætti ríkissaksóknara býr við þröngan kost og ríkissaksóknari hefur einmitt bent á að ef aukafjárveitingar fyndust til málaflokksins væri nær að styrkja embætti ríkissaksóknara eins og staðan er núna, því þar er mjög mikið álag.



[14:46]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir skýr svör. Sá tímapunktur er kannski kominn að við þurfum að fella þetta alveg úr lögunum, því samkvæmt því sem við stöndum frammi fyrir þá er nokkuð skrýtið að hafa ákvæði í lögunum þar sem sífellt er verið að fresta gildistökunni, sérstaklega í ljósi þess að ekki er vilji hjá framkvæmdarvaldinu til að stofnsetja þetta embætti þó að það kosti ekki mikinn pening. Þetta embætti var hugsað þannig að það tæki öll þyngstu málin og það yrði þá jafnræði á milli þeirra. En þar sem tillaga er komin um það í þessum sparnaðartillögum og niðurskurði að frekar ætti að styrkja embætti ríkissaksóknara finnist til þess eitthvert fjármagn, þá styðjum við framsóknarmenn það að sjálfsögðu. En ég bendi aftur á að þetta er nokkuð einkennileg staða sem við þingmenn erum settir í á þessum tímum, þar sem við viljum öll að vel takist til við endurreisnina eftir hrunið, að við erum alltaf, eins og ég hef sagt áður, að gera hér einhverjar lagabætur. Þetta er afar einkennilegt. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er þá ekki eðlilegast að þetta ákvæði verði fellt út úr lögunum og sérstök lög sett um héraðssaksóknara þegar birtir til í efnahagslífi okkar?



[14:48]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ákveðin rök séu fyrir því að halda sig við það að embætti héraðssaksóknara verði sett á fót og því legg ég það til í þessu frumvarpi. Svo það sé alveg á hreinu þá er það vissulega vilji framkvæmdarvaldsins að þetta embætti verði sett á fót svo sem löggjafinn samþykkti. Ég hef litið svo á að aðstæður séu einmitt óvenjulegar og að þetta sé tímabundið, þannig að þegar birti til sé hægt að taka upp þráðinn að nýju. Þannig að úr því að þessi faglegu rök eru til að setja á fót þetta embætti, hefði ég talið farsælast að fresta því um þennan tíma, í stað þess að hætta alveg við það.



[14:49]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framsögu sína um þetta mál. Í sjálfu sér þarf kannski ekki að hafa eða setja á langar ræður um þetta mál, enda felur þetta í raun og veru bara í sér frestun eins og hæstv. ráðherra gerði ágætlega grein fyrir. En mig langar aðeins til að bregðast við orðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur varðandi þetta mál þar sem hún efaðist um vilja framkvæmdarvaldsins til þess að láta þetta verða að veruleika.

Eins og kom fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra, þá er það skýr vilji að þetta verði með þessum hætti, en miðað við þær aðstæður sem uppi eru í samfélaginu í dag er það einfaldlega þannig að menn verða að reyna að spara á öllum sviðum samfélagsins, bæði þessu og öðrum. Þess vegna er lagt til hér að gildistöku frumvarpsins verði frestað.

Ég vil líka nota þetta tækifæri, frú forseti, til að hrósa hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra og starfsfólki hennar í ráðuneytinu, sérstaklega fyrir vinnu við fjárlagagerðina. Við áttum fund í allsherjarnefnd í morgun með fulltrúum ráðuneytisins þar sem farið var yfir fjárlagafrumvarpið og fjárlagarammann. Það er alveg ljóst að þessi tiltekni ráðherra og starfslið hennar hafa algerlega haldið sig innan þess ramma sem lagt var upp með í fjárlagafrumvarpinu, þó svo að við getum haft mismunandi skoðanir á því hvort rétt sé að þetta tiltekna ráðuneyti hafi fengið 10% hagræðingarkröfu eða einhverja lægri kröfu. Ég hef lýst því áður í þessum ræðustól að ég er þeirrar skoðunar að þetta ráðuneyti hefði átt að flokkast með ráðuneytum heilbrigðis- og félagsmála, sem grunnþjónusturáðuneyti og hefði þar af leiðandi átt að fá á sig hagræðingarkröfu í samræmi við það, en það er ekki veruleikinn sem við búum við. Við verðum einfaldlega að spila úr því sem við höfum. Og eins og ég segi, ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir það.

Það er auðvitað svolítið sérkennilegt, frú forseti, það liggur við í hverju málinu á fætur öðru sem kemur til kasta Alþingis, hvort sem það er úr þessu ráðuneyti eða einhverju öðru, að alltaf eru einhverjir tilteknir hv. þingmenn sem telja að hægt sé að gera allt fyrir alla. Það má hvergi spara. Það má hvergi skera niður. Það má hvergi auka álögur. Það má hvergi auka tekjur. Það má hvergi hækka skatta. Ég velti því stundum fyrir mér þegar ég sit í þessum sal og hlusta á ræður þessara tilteknu hv. þingmanna, hvort hrunið sem varð hér sl. haust hafi farið fram hjá þeim, vegna þess að hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá erum við hér með ákveðinn ramma. Það má segja að við séum hér með ákveðinn debetlista og kreditlista, sem verða einfaldlega að stemma. Þá verða menn að hafa kjark til þess og dug og djörfung og pólitískt hugrekki að horfast í augu við það og forgangsraða, þá þýðir ekki að koma hér upp í ræðustól í hverju málinu á fætur öðru og segja að það megi ekki skera hér, það megi ekki skera þar, það megi ekki hækka þetta og það megi ekki hækka hitt. Þá hlýtur maður að gera þá kröfu til þessara háttvirtu tilteknu þingmanna að þeir komi þá með einhverjar tillögur á móti, að þeir segi þá raunverulega hvernig þeir vilji að hlutirnir eigi að vera, í stað þess að standa hér sí og æ og gagnrýna. (Gripið fram í.)

Ég vil segja það hér í þessari umræðu, frú forseti, að þó að þetta hafi kannski verið svolítill útúrdúr hérna undir það síðasta í umræðum um þetta tiltekna mál, þá er þetta þó angi af því sem hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra var að gera grein fyrir áðan að hér er um tímabundna frestun að ræða vegna efnahagsástandsins. Það liggur fyrir skýr vilji, bæði löggjafans og framkvæmdarvaldsins, um að þetta eigi að vera með þessum hætti. Það verður ekki með þessum hætti fyrst um sinn, en það verður þannig þegar fram líða stundir og birtir til í efnahagslífi þjóðarinnar.



[14:54]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, en hér virðist fara fram mikill uppeldistími. Því miður get ég ekki tekið þennan uppeldistíma sem var fluttur í þessari ræðu til mín, því ég raunverulega veit ekki hvert hv. þm. er að fara. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa nægar tillögur líka, meira að segja er horft til sjálfstæðistillagnanna í Danmörku, eins og kom fram í máli eins hv. þingmanns hér í ræðum í dag, þannig að ríkisstjórnarflokkana vantar frekar tillögur og þurfa að grípa til þeirra eldgömlu vinnubragða á krepputímum að hækka skatta og auka þar með atvinnuleysi. Hv. þm. ætti að líta sér nær og leggja frekar eitthvað betra til málanna en að ala hér upp aðra hv. þingmenn.

Ég hef gagnrýnt það áður að það er með ólíkindum að þessi ríkisstjórn fari fram á það við dómsmálaráðuneytið að þessir viðkvæmu málaflokkar þurfi að taka þátt í þessum niðurskurði og því frosti sem raunverulega er verið að búa til, því þetta eru mikilvægustu og viðkvæmustu málaflokkar sem nokkur þjóð getur fengist við.

Hv. þm. talaði um að hér inni væru einhverjir þingmenn sem létu sem svo að hrunið hefði ekki orðið. Ég ætla að varpa því til baka. Svo virðist vera að samfylkingarþingmenn átti sig ekki á því að hér hafi orðið bankahrun, því sparnaðartillögur þeirra ganga út á það að veita ekki fjármagn í fangelsi, til dómstóla eða neinna þeirra stofnana sem þurfa þó að taka á hruninu þegar sérstakur saksóknari hefur lokið störfum. Því spyr ég hv. þm. á hvaða villuvegi hún er og hvernig stendur á því að hún sjái sig knúna til þess að standa hér upp og skamma aðra þingmenn fyrir, að hún heldur, þröngsýni?



[14:57]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Heldur finnst mér viðkvæmni 8. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður vera mikil í þessari umræðu. Ég beindi orðum mínum ekkert sérstaklega til hennar. Hún hefur hins vegar kosið að taka því svo að ég hafi sérstaklega verið að ræða um hana og sérstaklega verið að ala hana upp. Ég var bara alls ekkert að gera það. Ég talaði almennt um tiltekna hv. þingmenn (VigH: Hverjir eru það?) — tiltekna hv. þingmenn. Ég kýs ekkert sérstaklega að nefna þá á nafn, en það er augljóst að sumir eru viðkvæmari fyrir þessari umræðu heldur en aðrir og svo sem ekkert við því að gera.

Varðandi þær spurningar sem hv. þm. beindi til mín, þá held ég að fjárlagafrumvarpið og sú fjárlagagerð og þær niðurskurðartillögur og tekjuöflunartillögur sem þar eru sýni glöggt þær áherslur og þá stefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur í fjárlagagerðinni og í fjárlagafrumvarpinu. Þar er byggt á ákveðinni forgangsröðun. Þar er verið að taka sársaukafullar og oft og tíðum mjög erfiðar ákvarðanir. En það er nú einu sinni þannig, ágætu hv. þingmenn sem eru inni í þessum sal, að til þess erum við kosin að sýna hér kjark og dug og taka stundum ákvarðanir sem eru ekkert sérstaklega þægilegar eða skemmtilegar. En það er nú einu sinni hlutverk okkar þingmanna þó að sumir hv. þingmenn kjósi að líta ekki þannig á.



[14:58]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á sama hátt segi ég nú bara hér úr þessum ræðustól: Ekki get ég áttað mig á því út af hverju hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir beindi þessum orðum til mín, því ég talaði almennt um að hv. þm. væri að ala hér upp þingmenn, en beindi því ekki sérstaklega til mín eða annarra.

Það er klifað á þessum kjarki, djörfung og þori sem hv. þingmaður telur að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir búi yfir og noti óspart í þessum niðurskurði. Ég sé ekki málið með þeim augum, því eins og ég sagði áðan þá er verið að grípa til gamalla, löngu úreltra tillagna og aðgerða sem hafa verið notaðar hér í fjölda ár og virka ekki. Þessi ríkisstjórn þarf að horfa út fyrir kassann og koma með nýjar og djarfar tillögur til þess að hlífa heimilunum í landinu. Ég minni aftur á tillögur sjálfstæðismanna með innsköttun á lífeyrissjóðsgreiðslur. Þannig væri hægt að koma með á milli 30 og 60 milljarða og heimilin mundu ekki finna fyrir því og niðurskurðurinn yrði ekki (Forseti hringir.) nærri eins harður.



[15:00]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri freistandi að blanda sér í þessa skemmtilegu deilu sem hér upphófst um hverjir tilteknir þingmenn eru, en ég ætla að láta það liggja milli hluta að sinni. En ég ætla að taka undir það í ræðu hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sem ég var sammála og var nákvæmlega það að athygli vekur þegar fjárlög eða fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár er skoðað að dómsmálaráðuneytið virðist öðrum ráðuneytum framar hafa tekið alvarlega þá stefnu sem ríkisstjórnin markaði í sambandi við hagræðingu. Satt að segja eftir stutta yfirferð um ráðuneytin sýnist mér dómsmálaráðuneytið vera eina ráðuneytið t.d. sem gerir ráð fyrir því að skera niður á aðalskrifstofu sinni svo einhverju nemi, um 11% ef ég man rétt. En mörg ráðuneytanna gera hins vegar ráð fyrir aukningu á framlögum til aðalskrifstofa ráðuneytanna, sem er athyglisvert í ljósi þess að á sama tíma eru þessi sömu ráðuneyti, sumir ráðherrar, að gera miklar kröfur til undirstofnana sinna sem sumar hverjar hafa mjög mikilvægt hlutverk. Þetta er athyglisvert. Ráðuneytið á hrós skilið fyrir þetta.

Sá böggull fylgir þó skammrifi, eins og vakin hefur verið athygli á, að eins og ráðuneytið stendur sig vel í hugmyndum sínum um hagræðingu og sparnað er verið að skera mjög nærri mikilvægum málaflokkum eins og hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir nefndi og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir.

En það var eitt sem ég hnaut um í ræðu hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur þegar hún sagði að hún hefði verið ósátt við þá ákvörðun að gera 10% hagræðingarkröfu til málaflokka dómsmálaráðuneytisins sem telja má til grunnþjónustu, en svo sagði hún: „Það er ekki veruleikinn sem við búum við.“ Og talaði um það eins og búið væri að ákveða fjárlögin. Ég vek athygli á því að fjárlagaumræðan er enn í fullum gangi, málin eru (Forseti hringir.) til vinnslu í fjárlaganefnd og þar er auðvitað hægt að taka ákvarðanir um framlög til málaflokka (Forseti hringir.) óháð því hvað kemur fram í áliti ríkisstjórnarinnar.



[15:02]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir málefnalegt innlegg í þessu andsvari. Það sem ég átti við varðandi það sem ég sagði um fjárlagafrumvarpið og þann raunveruleika sem við búum við er sú staða sem við erum að vinna við í augnablikinu, hv. þingmaður. Það í raun og veru felur ekki í sér að það geti ekki breyst. Fjárlagafrumvarpið er, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, í meðförum hér. Hv. allsherjarnefnd á eftir að gefa álit sitt til hv. fjárlaganefndar um frumvarpið og það hvernig hún lítur á þær tillögur sem hafa komið frá dóms- og mannréttindaráðuneytinu. Ég útiloka svo sem ekki að eitthvað muni breytast í því þó ég vilji ekkert fullyrða eða lofa neinu í þeim efnum, því eins og ég sagði fyrr í dag erum við í þeirri stöðu að við þurfum að láta hlutina ganga upp. Við erum í mjög erfiðri efnahagslægð í augnablikinu og ef við bætum í á einhverjum einum stað verðum við auðvitað að taka úr einhvers staðar annars staðar, það er bara sá raunveruleiki sem við búum við. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það hafandi verið stjórnarþingmaður mjög lengi og hefur sýnt í þessari umræðu mjög ábyrgan málflutning og fleiri hv. tilteknir þingmenn mættu taka sér það til fyrirmyndar.



[15:04]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að vera ekki tiltekinn þingmaður. En ég tek undir það sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir að ríkisstjórnin byggir fjárlagafrumvarpið á ákveðnum ramma, ákveðinni stefnu sem hún leggur upp með. En hins vegar er fjárlagafrumvarpið þannig úr garði gert að það hefur trúlega aldrei verið jafnófrágengið þegar það kemur inn í þingið og þess vegna verðum við að ætla að að því leyti sé meira svigrúm til þess að gera breytingar en oft áður. Nú getur það verið bæði til góðs og ills. Það er trúlega um að ræða ofmat á tekjumöguleikum og annað þess háttar sem þarf að taka tillit til.

En varðandi það verkefni sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir nefndi, að gera tillögur um aukningu útgjalda á sumum sviðum og meiri niðurskurð á öðrum sviðum, þá held ég að það sé spennandi verkefni sem við eigum núna fram undan á næstu tveimur mánuðum, en þar held ég að sé hægt að gera heilmikið.



[15:05]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara lýsa því yfir að ég er hjartanlega sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni hvað varðar síðustu orð hans. Ég held líka að það sé mjög spennandi verkefni fram undan hjá nefndinni að fara í gegnum málaflokka ráðuneytisins, þ.e. dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, en bendi þó á að ef menn ætla að bæta í, hvort sem það eru fangelsismálin, löggæslan, dómstólar, Hæstiréttur o.s.frv., verða menn auðvitað að koma með einhverjar tillögur á móti og það kann vel að vera að slíkar matarholur leynist í einhverjum öðrum ráðuneytum, því það er rétt sem hv. þingmaður benti á að dóms- og mannréttindaráðuneytið hefur staðið sig afar vel í niðurskurðartillögum sínum. Það sem ég hef kynnt mér og skoðað í fjárlagafrumvarpinu hjá öðrum ráðuneytum þá sýnist mér að þau mættu taka sér þetta ráðuneyti til fyrirmyndar. Það kann því vel að vera að við getum fundið matarholu þar og sett í þennan málaflokk.



[15:06]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst byrja á að segja að mér fannst ræða hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur mjög málefnaleg þar til hún fór í útúrdúrinn. Og þar ætla ég að vera — þó ég sé kannski ekki einn af þeim mönnum sem tekur þetta sérstaklega til sín, en ég staldra þó við það þar sem hún sagði að þingmenn mættu ekki koma hér og leggja eingöngu til að ekki mætti spara en koma svo ekki með tillögur um hvernig ætti þá að auka tekjur og það þyrfti bæði pólitískan kjark, djörfung og þor til þess að takast á við verkefnin og ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það.

Ég held að það sem þarf að gerast í þessu sé að forgangsraða upp á nýtt í samfélaginu. Ég held, og tek alveg heils hugar undir það með hv. þingmönnum sem hafa nefnt það hér, að hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra hafi staðið sig einstaklega vel í þessu og tekið starf sitt mjög alvarlega. Það er ekki hægt að segja um önnur ráðuneyti að þau hafi gert það með þeim hætti, eins og sést í fjárlagafrumvarpinu og eins í fjáraukalögunum. Menn hafa margir hverjir frestað vandamálunum og ekki sýnt það þor og kjark sem hv. þingmaður benti á.

Ég vil hins vegar benda á að við sjálfstæðismenn höfum lagt fram ítarlegar efnahagstillögur sem sýna einmitt að menn eru tilbúnir að skoða alveg nýja vinkla í þessum málum og síðan eigum við eftir að fá að klára að ræða þær, væntanlega í lok vikunnar. En þá langar mig að velta því upp við hv. þingmann — af því að hún segir að þá verði að raða upp á nýtt, ég er mjög efins um það og geri ekkert lítið úr vandamálum stjórnvalda að skera þurfi niður því að við erum með 183 milljarða gat, og ég geri ekkert lítið úr því, enda höfum við sjálfstæðismenn ekki gert ágreining um að skera þurfi niður — hvernig henni finnist það þá eðlilegt að jafnmargir til að mynda skuli starfa hjá Ríkisútvarpinu og hjá löggæslunni á höfuðborgarsvæðinu, almennri löggæslu. Og hvort það væri eðlileg forgangsröðun að sleppa því þá að byggja tónlistarhús og hlúa frekar að þeim (Forseti hringir.) innviðum sem þar eru.



[15:08]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að ræða mín fyrr í umræðunni hefur fallið í nokkuð grýttan jarðveg hjá sumum tilteknum hv. þingmönnum í þessum sal, þó ekki öllum. Ég held hins vegar að við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson séum mjög sammála um fjárlagagerðina, af því nú erum við farin að tala um fjárlagagerðina í tengslum við það mál sem hér er til umræðu. Hann þekkir það auðvitað sem sveitarstjórnarmaður að það eru erfiðir tímar og erfitt er að koma saman bæjarsjóðunum um þessar mundir, að láta allt stemma. Það er nákvæmlega eins með ríkissjóð, það er erfitt að láta allt stemma svo vel sé. Og það eru ýmsar óþægilegar ákvarðanir sem þarf að taka, bæði á sveitarstjórnarstigi og eins hérna. Síðan er þetta alltaf spurning um pólitíska forgangsröðun.

Hv. þingmaður spurði mig að því hvort ég teldi eðlilegt að það störfuðu fleiri hjá Ríkisútvarpinu en hjá löggæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Ég get í sjálfu sér ekki kveðið upp úr með það, ég þekki það tiltekna dæmi ekki. Hins vegar held ég að sé ákaflega mikilvægt og hollt fyrir okkur að fara einmitt með þeim gagnrýnu gleraugum í gegnum allt fjárlagafrumvarpið og forgangsraða í eitt skipti fyrir öll.

Ég átti sæti í hv. fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili og við gerðum heiðarlega tilraun þá að vinna fjárlagafrumvarpið með þeim hætti, það tókst því miður ekki. Ég vona að hrunið síðasta haust hafi ýtt aðeins við mönnum í breyttum vinnubrögðum og það kallar auðvitað nákvæmlega á það sem hv. þingmaður var að segja, að menn skoði tilteknar stofnanir og meti það raunverulega hvort þörfin sé þar en ekki annars staðar, það er bara sameiginlegt verkefni allra þingmanna hvar í flokki sem þeir standa.



[15:10]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að árétta það þá er ég ekki viðkvæmur fyrir þessari umræðu, svo það sé alveg á hreinu. Ég vildi bara taka boltann sem hv. þingmaður varpaði upp, benti á það að menn yrðu að forgangsraða upp á nýtt. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það þurfi að gera og einmitt núna þurfi að gera það með þeim hætti að menn fari í það mjög ábyrgt, þó ég sé ekki að halda því fram að það hafi ekki verið gert áður.

En menn mega ekki gleyma sér í gleðinni. Ég var aðeins að benda á þá einföldu staðreynd, því maður hnaut um þetta, að hjá Ríkisútvarpinu starfa jafnmargir og hjá löggæslunni. Ég tel mjög varasamt við þessar aðstæður og í ljósi efnahagshrunsins og það sem bíður þar, bæði að fara að skera niður hjá dómstólum og lögreglu, þá hefði ég einmitt haldið að við mundum reyna að forgangsraða í samfélaginu upp á nýtt. Það er af þeirri einföldu ástæðu sem ég vek máls á þessu. Og eins því sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu og atvinnumálastefnu ríkisstjórnarinnar, að lausn á því að fækka fólki á atvinnuleysisskrá sé að fjölga fólki á listamannalaunum. Þá teldi ég þeim peningum betur varið t.d. hjá lögreglunni við þær aðstæður sem nú eru uppi eins og við höfum orðið margoft vitni að.



[15:12]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson séum býsna sammála í þessum málum, að vinna hlutina með þessum hætti. Ég hins vegar held að það sé pínulítið varhugavert að draga út svona einstakar stofnanir og bera þær saman, því samanburðurinn er kannski ekki alltaf sanngjarn, að segja að það vinni jafnmargir hjá Ríkisútvarpinu og hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ég hef engar forsendur til að meta það.

Þess vegna tel ég afar mikilvægt að við förum sameiginlega í það verkefni að meta stofnanirnar alveg frá A til Ö. Það er auðvitað þannig og við vitum það að sumar stofnanir á vegum ríkisins og ráðuneytanna hafa bólgnað mjög út, ef svo má að orði komast, á síðustu árum sem er eðlilegt. Það gerist alltaf í góðæri. Þá þurfum við bara að hafa kjark til þess að fara með gagnrýnum augum í gegnum þær stofnanir og hugsanlega horfast í augu við það að leggja þurfi niður einhverjar stofnanir eða draga verulega úr starfsemi þeirra.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.