138. löggjafarþing — 19. fundur
 4. nóvember 2009.
störf án staðsetningar.
fsp. BJJ, 34. mál. — Þskj. 34.

[14:03]
Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Það var í aðdraganda alþingiskosninga árið 2007 að Samfylkingin hélt mikla flugeldasýningu og boðaði að 1.200 ný störf yrðu auglýst á því kjörtímabili sem í vændum var þar sem fólk vítt og breitt um landið gæti sótt um störf án staðsetningar þannig að einstaklingur norður í landi gæti sótt um starf sem til að mynda hefði verið á höfuðborgarsvæðinu og unnið það í sinni heimabyggð. 1.200 störf voru stefnumál Samfylkingarinnar þá og ég spyr hæstv. forsætisráðherra, verkstjóra ríkisstjórnarinnar, um það hversu mörg störf án staðsetningar hafi verið auglýst af hálfu hins opinbera frá og með síðustu áramótum. Samfylkingin endurnýjaði þetta kosningaloforð sitt nú í kosningunum árið 2009 þannig að maður skyldi ætla að einhver stórkostleg afrek hafi verið unnin á þessum mánuðum þar sem hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur haft verkstjórn í forsætisráðuneytinu.

Reyndar höfum við rætt það á þingi en margir hafa efast um hvort hugur hafi fylgt máli, hvort Samfylkingin hafi ekki í raun og veru farið vítt og breitt um landið í atkvæðaleit. Við munum þegar starf forstöðumanns Vatnajökulsþjóðgarðs var auglýst, það var eitt fyrsta opinbera starf sem auglýst var eftir að ríkisstjórnin hafði kynnt þessar áætlanir sínar. Í stað þess að forstöðumaður Vatnajökulsþjóðgarðs yrði staðsettur í þjóðgarðinum sjálfum fékk sá ágæti einstaklingur atvinnu í Reykjavík. Okkur þótti mörgum þetta vera alger andhverfa þess sem Samfylkingin boðaði og talaði fyrir í þeirri kosningabaráttu sem þá var háð. Ég man að hv. þm. Bjarni Harðarson sem þá var þingmaður Framsóknarflokksins var mjög duglegur á Alþingi við að benda á þetta. Það er ágætt að hæstv. utanríkisráðherra skuli vera viðstaddur þessa umræðu því að hann lét mikið að sér kveða fyrir hönd Samfylkingarinnar í orðræðunni sem þá var og hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra sagði þann 4. febrúar árið 2008, fyrir einu og hálfu ári síðan, að í undirbúningi væri að skilgreina störf hjá 40 opinberum stofnunum sem störf án staðsetningar. Tveir fjármálaráðherrar hafi sett á laggirnar starfshóp til að undirbúa verkefnið og skoða bæði tæknileg atriði og kjarasamninga.

Nú ætla ég að viðurkenna það í lok fyrirspurnar minnar að ég hef ekki séð gríðarlega mörg störf auglýst sem störf án staðsetningar og það er kannski eðlilegt, í ljósi þess sem ég hef rakið hér, að (Forseti hringir.) forsætisráðherra er spurð hvers sé að vænta í þessu og hversu mörg störf hafi verið auglýst frá síðustu áramótum.



[14:06]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Upphaf umræðu um störf án staðsetningar má rekja til þingsályktunar Alþingis frá 17. mars 2007 þar sem Alþingi fól ríkisstjórninni að skilgreina öll störf á vegum ríkisins sem unnt er að vinna að mestu eða öllu leyti óháð staðsetningu, meðal annars í því skyni að jafna aðstöðu fólks til að sækja um og sinna margvíslegum störfum á vegum hins opinbera, að auka möguleika fólks á landsbyggðinni á að gegna störfum á vegum ríkisins, stækka hóp hæfra umsækjenda, auka skilvirkni og draga úr kostnaði við opinberan rekstur. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá árinu 2007 var m.a. kveðið á um að skilgreina skuli þau störf á vegum ríkisins sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar og þannig stuðla að fjölgun starfa á landsbyggðinni. Sérstakur starfshópur skipaður fulltrúum iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra vann tillögur að skilgreiningu hugtaksins störf án staðsetningar og tillögur starfshópsins lutu einkum að eftirtöldum atriðum: Að við allar ráðningar hjá ríkinu verði framvegis vegið og metið hvort vinna megi viðkomandi starf óháð staðsetningu í samræmi við yfirlýstan vilja ríkisstjórnarinnar og að stjórnendur þurfi á hverjum tíma að rökstyðja ef þeir telja að ekki sé hægt að skilgreina auglýst starf sem óháð staðsetningu. Að ráðist verði í þróunarverkefni þar sem þeir kostir og gallar sem fylgja starfinu verði kortlagðir með það í huga að sníða vankantana af, nýta sem best kostina og auka tiltrú á fyrirkomulaginu.

Að verkefninu komu iðnaðarráðuneytið, utanríkisráðuneytið, sjávar- og landbúnaðarráðuneytið og stofnanir á þeirra vegum. Iðnaðarráðuneytið réðst í þróunarverkefni haustið 2008 þar sem m.a. var rætt við nokkra aðila um reynslu þeirra af því að vera í starfi án staðsetningar. Verkefninu er nýlokið og verið er að ganga frá niðurstöðum þess. Forsætisráðuneytið óskaði í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns upplýsinga um þau störf án staðsetningar sem auglýst hafa verið af hálfu hins opinbera frá og með síðustu áramótum.

Í svörum dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, sjávar- og landbúnaðarráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis kom fram að engin slík störf hafa verið auglýst af viðkomandi ráðuneytum eða stofnunum þess frá síðustu áramótum. Sama gildir um forsætisráðuneytið.

Í svari utanríkisráðuneytisins kemur fram að snemma á þessu ári auglýsti ráðuneytið lausar stöður þýðenda á landsbyggðinni og skyldi staðsetning þeirra ákveðin með tilliti til umsækjenda og skilyrði fyrir fjarvinnu. Ekki kom til ráðningar á grundvelli auglýsingarinnar þar sem áðurnefndum markmiðum um fjarvinnu var ekki náð. Ráðuneytið hefur ekki auglýst störf án staðsetningar að nýju. Hins vegar bendir ráðuneytið á að undanfarin ár hefur það byggt upp starfsstöð þýðingamiðstöðvar ráðuneytisins á Akureyri og Ísafirði þar sem starfa samtals sjö þýðendur. Þessar stöður hafa verið auglýstar og tekið fram að starfsstöðvarnar séu á áðurnefndum stöðum.

Í svari umhverfisráðuneytisins kemur fram að Umhverfisstofnun auglýsti fimm störf sérfræðinga lausar án staðsetningar. Þeir umsækjendur sem uppfylltu hæfniskröfur voru allir búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Þá auglýsti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið eftir og réð til sín vefstjóra sem staðsettur er í Vestmannaeyjum. Iðnaðarráðuneytið hefur auglýst eitt starf án staðsetningar og er sá starfsmaður staðsettur í Reykjavík.

Loks hefur Heilbrigðisstofnun Þingeyinga auglýst störf ráðgjafa fyrir reyksíma sem er um 70% staða án staðsetningar.

Ljóst er að óháð störf má vinna án ákveðinnar staðsetningar svo framarlega sem góð fjarskipti eru fyrir hendi. Ég nefni sem dæmi að þegar ég starfaði í félags- og tryggingamálaráðuneytinu var ráðinn þar sameiginlegur vefstjóri félags- og tryggingamálaráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins með starfsstöð í Vestmannaeyjum og hefur sú tilhögun reynst vel.

Ég vænti þess að niðurstöður þróunarverkefnisins sem nú er unnið að á vettvangi iðnaðarráðuneytisins muni verða ráðuneytum og opinberum stofnunum leiðbeinandi þegar skilgreina skal störf án staðsetningar. Það er eindreginn vilji stjórnvalda að sem flest störf standi fólki til boða, ekki síst fólki sem búsett er á landsbyggðinni. Forsætisráðuneytið mun í samræmi við það leggja áherslu á það við önnur ráðuneyti að ávallt verði vakin athygli á því í auglýsingum þegar slíkt á við og um er að ræða verkefni sem hægt er að vinna hvar sem er á landinu.



[14:10]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að fagna þessari umræðu sem er þörf og mikilvæg nú um stundir. Við þingmenn Norðausturkjördæmis og væntanlega fleiri þingmenn í þessu húsi vorum nýverið í kjördæminu. Þar er áberandi að ótti fólks almennt er í þá veru að opinberum störfum muni fækka úti á landi og að ekki verði gripið helst niður á þenslusvæðunum suðvestanlands í því efni heldur fyrst og fremst úti á landi. Það verður því sérstaklega horft til þess hvernig stjórnvöld fara með nýja sóknaráætlun þegar kemur að byggðum landsins.

Mér finnst mjög mikilvægt að hafa eitt að leiðarljósi í þessu efni. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að hafa störf úti á landi. Það hefur verið skoðað og niðurstaðan er augljós. Leiguhúsnæði er ódýrara, starfsmannavelta minni og viðvera fólks meiri þannig að ég held að einmitt á þessum tímum eigi að hafa þjóðhagslega hagkvæmni í huga þegar við förum að beita ríkissjóð aðhaldi.



[14:11]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get borið vitni um að ötullega var unnið að því á síðasta kjörtímabili undir forustu hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra að undirbúa þetta verkefni, um störf án staðsetningar, þrátt fyrir að margir flækjufætur reyndu að bregða fæti fyrir þessa vinnu. Hins vegar hefur núverandi ríkisstjórn tekið upp alveg nýja stefnu sem er ekki stefna um störf án staðsetningar heldur störf með staðsetningu.

Það sem verið er að gera núna með fjárlagafrumvarpinu er einfaldlega það að verið er að leggja drög að því að færa verkefni sem áður voru unnin úti á landi á höfuðborgarsvæðið. Í gær ræddum við lengi dags um hugmyndir hæstv. dómsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna um að veikja héraðsdómstólana úti um landið. Þannig sjáum við hvarvetna, hvar sem borið er niður, að ríkisstjórnin vinnur mjög ötullega að þessu verkefni sínu, störf með staðsetningu, með því að veikja stofnanir úti á landi þannig að hægt sé að flytja verkefnin suður.



[14:12]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það ber að þakka þá fyrirspurn sem hér er borin upp, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað á undanförnum vikum um mögulega starfsemi ríkisins vítt og breitt um landið. Sporin hræða óneitanlega í þessum efnum og ég minni t.d. á Vatnajökulsþjóðgarð þegar auglýst voru störf þar. Þá var gert að skilyrði að skrifstofumaður sem ráðinn var til þeirrar ágætu stofnunar átti að vera búsettur í Skuggasundi af öllum stöðum í veröldinni og ekki var gefinn kostur á neinu öðru þar. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni í umræðunni áðan um svokallað dómstólafrumvarp. Hvernig í ósköpunum er hægt að segja að menn hvar sem er á landinu geti starfað við héraðsdóminn í Reykjavík? Horfum þá til sýslumannanna og löggæslunnar. Á að hringja í lögreglumanninn á Reykjanesi þegar útkall er á Þórshöfn? Nei, því miður, ég kemst ekki, ég er upptekinn við útkall á Reykjanesi. Er hugsunin sú að menn eigi að geta sinnt þessum störfum hvaðan sem er af landinu? Það er útilokað. Það þarf ákveðna handstýringu í þessum efnum.



[14:14]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Reynslusaga úr utanríkisráðuneytinu. Fyrr á þessu ári auglýsti ég störf án staðsetningar sem átti að vinna á vegum utanríkisráðuneytisins. Þá hafði atvinnuleysi brostið á, ekki síst á suðvesturhorninu. Það komu fram mótmæli gegn þessu frá fólki sem taldi að verið væri að sniðganga það og brjóta lög og stjórnarskrá með því að auglýsa þau á landsbyggðinni. Það varð til þess að sú auglýsing var afturkölluð og það var lagalegur rökstuðningur sem þessu fylgdi. Þetta finnst mér vera dálítið mikilvægt og merkilegt.

Þegar við hófumst handa um að reyna að ryðja störfum án staðsetningar braut vorum við að hugsa um landsbyggðina. Í dag er staðan þannig að það er minna atvinnuleysi þar en á suðvesturhorninu. Það gerir það að verkum að hér á suðvesturhorninu er fjöldi fólks sem telur sig hafa sama og jafnvel siðferðislega meira tilkall til þessara starfa en fólk á landsbyggðinni. Ég lenti í þessu og varð að afturkalla auglýsinguna.



[14:15]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefði ekki þurft að nota fimm mínútur til þess að svara spurningu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Hún hefði bara getað svarað með einni setningu: Það hefur ekkert orðið úr þessu verkefni. (Utanrrh.: Það er ekki rétt.) Ekki neitt. Að vísu hafa verið skrifaðar skýrslur, það hafa verið stofnaðar nefndir, menn hafa ýtt pappírum fram og til baka í stjórnkerfinu — en niðurstaðan er engin. Og þetta er, því miður, það sem einkennir hennar ágæta flokk, Samfylkinguna. Það eru fögur fyrirheit, mikil loforð, síðan eru menn auðvitað mjög góðir í því í Samfylkingunni að búa til nefndir og pappírsfargan í kringum hlutina, en niðurstaðan er bara núll. Samfylkingin fer í þessu máli fram í tvennum kosningum (Forseti hringir.) og skilar engu af því sem lofað er.



[14:16]
Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég átti nú satt best að segja von á þessu svari frá hæstv. forsætisráðherra, þ.e. efnislega, að Samfylkingin hefur í raun og veru ekki fylgt eftir helsta kosningamáli sínu árin 2007 og 2009 þegar hún lofaði 1.200 störfum án staðsetningar. Hæstv. ráðherrum sem sitja hér á bekkjunum til upprifjunar sögðu þingmenn og frambjóðendur Samfylkingarinnar að þetta snerist um jöfn tækifæri fólks til að sækja um störf hjá hinu opinbera. Jöfn tækifæri, hæstv. utanríkisráðherra, þ.e. að einstaklingur norður í landi gæti sótt um starf án staðsetningar. Og hver er svo staðreynd málsins? Samfylkingin er búin að fara undangengnar tvennar kosningar hringinn í kringum landið, hefur lofað 1.200 störfum sem yrðu auglýst án staðsetningar. Hver er svo raunveruleikinn þegar hæstv. forsætisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, kemur hér upp og svarar fyrir það hvað ráðuneyti hennar hafa gert á síðustu 10 mánuðum? Ekki neitt. Þetta er til skammar. Samfylkingin hefur svikið fjöldann allan af fólki vítt og breitt um landið. Og skyldi það verða svo fyrir næstu kosningar að Samfylkingin muni halda áfram að beita sér fyrir störfum án staðsetningar?

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa sagt að þegar við, þingmenn landsbyggðarinnar, höfum komið hér upp og reynt að standa vörð um þá starfsemi sem er þegar á landsbyggðinni horfum við upp á að mikilvægum störfum er þar fækkað. Og þegar þetta loforð er svo rifjað upp hér og það kemur í ljós að ekkert hefur verið gert spyr maður sig: Hvernig ætli því fólki á landsbyggðinni sem kaus Samfylkinguna árin 2007 og 2009 líði núna? Ég hugsa að því líði þannig að það hafi verið svikið, ósköp einfaldlega. (Forseti hringir.)



[14:18]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé ansi miklum fullyrðingum haldið fram, að ekkert hafi verið gert í þessum málum. Ég held að menn þurfi að fara yfir stöðuna, það hefur ýmislegt verið gert í gegnum ýmsar áætlanir á umliðnum missirum, Norðvesturáætlun, Norðausturáætlun, Vestfjarðaáætlun. Þar hafa verið aukin störf, en það er alveg ljóst að það þarf að gera betur í auglýsingum. Það er það sem ég sagði að þyrfti að hnykkja á, að í auglýsingum yrði þessa ávallt getið ef um var að ræða störf sem væri hægt að vinna hvar sem væri á landinu. Það er það sem ég sagði að yrði gert í framhaldi af þessari fyrirspurn, það verður hnykkt á því við ráðuneytin að það verði tekið fram þegar störf eru auglýst.

Ég held að full ástæða sé alveg líka til þess að vekja athygli á því enn frekar en utanríkisráðherra gerði hér áðan að atvinnuleysi um þessar mundir er miklu meira á höfuðborgarsvæðinu en úti á landsbyggðinni. Á það verða menn líka að horfa, til að mynda langtímaatvinnuleysi. Eins og við horfum á kreppuna núna kemur hún miklu harðar niður á suðvesturhorninu en úti á landsbyggðinni þannig að menn verða að hafa alveg heildarmyndina af þessu.

Eins og ég sagði vænti ég líka mikils af því verkefni sem var unnið á vegum þriggja ráðuneyta í tíð fyrri ríkisstjórna, það var samgönguráðuneyti ef ég man rétt, sjávarútvegs- og iðnaðarráðuneytin, sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra kom hérna inn á. Það er verið að vinna með þær niðurstöður sem þar komu fram, niðurstöður þróunarverkefnis sem á að vera leiðbeinandi og skilgreina þessi störf án staðsetningar. Ég vænti mikils af því.

Ég get alveg tekið undir að kannski hefur orðið misbrestur á því að ráðuneytin haldi sig við það að auglýsa þau störf sem hægt er að vinna óháð staðsetningu og ég vona að úr því verði bætt í framhaldi af þessari fyrirspurn.