138. löggjafarþing — 19. fundur
 4. nóvember 2009.
málefni Sementsverksmiðjunnar.
fsp. EKG, 30. mál. — Þskj. 30.

[15:12]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið frá því greint að Sementsverksmiðjan á Akranesi glími við erfitt rekstrarumhverfi og þess vegna vakti það mikla athygli og jákvæða athygli þegar það gerðist að ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum þriðjudaginn 25. ágúst að fela iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra að kanna þessi mál og skila um það áliti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók að sér að vera eins konar fréttafulltrúi þessa máls og greindi frá málinu með eftirfarandi hætti, virðulegi forseti:

„Ég tók málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi upp í ríkisstjórn í morgun. Mikilvægt er að allt sé gert sem mögulegt er til að verja stöðu og framtíð íslenskrar sementsframleiðslu. […] Það ríkja nú neyðarlög á sviði fjármála- og viðskiptalífs landsins. Í gildi eru lög um gjaldeyrishöft og barist er fyrir hverju starfi sem skilar verðmætum í þjóðarbúið og sparar erlendan gjaldeyri. Það skýtur því skökku við að opinberir aðilar skulu áfram kaupa innflutt sement til sinna framkvæmda á sama tíma og barist er fyrir lífi og framtíð íslenskar sementsframleiðslu.“

Hæstv. ráðherra segir jafnframt að stjórn Verkalýðsfélags Akraness hafi ályktað og hvatt ríkisstjórnina til að standa vörð um Sementsverksmiðjuna og sjá til þess að fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins styddu íslenska framleiðslu og notuðu íslenskt sement.

Þegar tveimur ráðherrum í ríkisstjórn er falið að fara yfir málefni tiltekins fyrirtækis með þessum hætti eru bundnar við það miklar vonir og væntingar sem eðlilegt er og því verður að gera ráð fyrir að þessi nefnd tveggja ráðherra ríkisstjórnarinnar hafi farið yfir þessi mál og hafi markað einhverja stefnu um það hvernig bregðast beri við þeim vanda sem við er að glíma. Forsvarsmenn Sementsverksmiðjunnar á Akranesi hafa bent á að þeir standi í ósanngjarnri samkeppni við annan aðila. Samkeppnisaðilinn, sem er danskt fyrirtæki sem flytur hingað inn sement, verðleggur sitt sement þannig að mati forsvarsmanna Sementsverksmiðjunnar að greinilega sé um stöðugt undirboð að ræða. Þeir vekja athygli á því að danskt sement sé helmingi ódýrara hér en það er í Danmörku sem sé vísbending um að um sé að ræða einhvers konar undirboð.

Mér vitanlega hafa ekki komið fram með einhverjum opinberum hætti viðbrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu máli að öðru leyti en því að í fjárlagafrumvarpinu er boðuð sérstök skattheimta sem mun augljóslega leggjast mjög þungt á Sementsverksmiðjuna. Á fundi sem boðað var til af bæjarstjórn Akraness og verkalýðsfélaginu kom það t.d. fram hjá forstjóra Sementsverksmiðjunnar að áformaður orkuskattur, gæti, miðað við gefnar forsendur, numið 20 millj. kr. í aukaútgjöld fyrir verksmiðjuna. Og kolefnisskatturinn, sem einnig er áformað að leggja á, mundi, miðað við þær hugmyndir sem hæstv. fjármálaráðherra reifaði í greinargerð í sumar, þýða 140 millj. kr. aukaskatt á Sementsverksmiðjuna, 160 millj. alls sem eru (Forseti hringir.) 10% af útgjöldum Sementsverksmiðjunnar.

Þetta er það eina sem við höfum heyrt um þessi mál en ég vænti þess að hæstv. iðnaðarráðherra upplýsi (Forseti hringir.) í svari við þeim fyrirspurnum sem ég hef lagt fram með hvaða hætti verði brugðist við vanda verksmiðjunnar.



[15:15]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt að taka fram, þar sem hér hefur verið ákveðið að ræða málefni eins einstaks fyrirtækis sérstaklega á Alþingi, að Sementsverksmiðjan er einkafyrirtæki og eru eigendur þess bæði innlendir og erlendir, norskir og íslenskir, þannig að það liggi alveg klárt fyrir. Auðvitað er rekstrarumhverfi á Íslandi erfitt mjög víða í dag, hjá mörgum fyrirtækjum, og við eigum að horfa til þess að grípa til almennra aðgerða.

Í framhaldi af heimsókn okkar, iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra, í Sementsverksmiðjuna — og ekki vorum við í neinni sérstakri nefnd heldur óskuðum við eftir því að skoða þetta mál eða að við kynntum það út frá okkar hliðum þar sem málefni hennar geta komið inn á borð okkar beggja. Við fórum þangað í heimsókn einfaldlega vegna þess að okkur var boðið eins og gerist svo oft, við förum gjarnan í heimsóknir til fyrirtækja. Í kjölfar þess óskaði iðnaðarráðuneytið eftir upplýsingum bæði frá Sementsverksmiðjunni og frá samkeppnisaðilanum sem er Aalborg Portland um markaðshlutdeild og þróun sementsmarkaðar í heild á undanförnum árum. Þá kom í ljós að sveiflur á byggingarmarkaði í heild voru mjög afgerandi þáttur í hinum hraða vexti frá árinu 2004, eftir að fyrirtækið var einkavætt, til 2007. Var vaxandi eftirspurn mætt með innflutningi á sementi þannig að markaðshlutdeild Sementsverksmiðjunnar dróst saman á þessum tíma úr 60% niður í 52% þó svo að selt magn hennar ykist úr rúmlega 100 þúsund tonnum í rúmlega 153 þúsund tonn. Markaðshlutdeild Sementsverksmiðjunnar á móti innfluttu sementi var óbreytt í 52% á árunum 2006–2008. Tölurnar fyrstu sjö mánuði ársins 2009, og þetta er allt samkvæmt upplýsingum frá þeim, benda til þess að hinn mikli samdráttur í sementssölu sem þá varð bitni harðar á innflutningi en á innlendu framleiðslunni. Markaðshlutdeild innlenda sementsins virðist hafa aukist í 63% á fyrri hluta þessa árs. Það birtist einnig í því að innflytjandi danska sementsins hefur fækkað starfsfólki um rúmlega þriðjung á Suðurnesjum. Niðurstaða þessarar skoðunar leiðir í ljós að meginvandi bæði Sementsverksmiðjunnar og innflytjenda sements er hinn almenni samdráttur í byggingariðnaði. Tölur um markaðshlutdeild gefa ekki tilefni til að álykta að hlutur innlendrar framleiðslu sé lakari eftir en áður.

Í öðru lagi er spurt hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til að tryggja rekstrargrundvöll verksmiðjunnar, þ.e. Sementsverksmiðjunnar. Eins og ég sagði áður er, þar sem um er að ræða einkafyrirtæki í innlendri og erlendri eigu á samkeppnismarkaði, ekki ástæða að mínu mati til sértækra aðgerða gagnvart þessu eina fyrirtæki. Aðgerðir stjórnvalda í þágu atvinnulífsins hafa verið almennar og má þar nefna frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem var samþykkt á vorþingi. Þar var endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað hækkuð í 100% sem hefur jákvæð áhrif á störf í byggingariðnaði. Endurgreiðsla á virðisaukaskatti nær einnig til sumarbústaða og byggingar sveitarfélaganna. Þá má líka nefna að í öðru lagi hafa reglur um lán Íbúðalánasjóðs til viðhalds félagslegra íbúða verið rýmkaðar. Allt er þetta gert til að skapa störf í byggingariðnaði og auka um leið eftirspurn eftir byggingarefnum á borð við sement. Það mikilvægasta af öllu er almenn styrking á rekstrargrundvelli atvinnulífsins, m.a. með stuðningi við þær framkvæmdir sem raktar eru í minnisblaði með stöðugleikasáttmálanum en þar er þungamiðja verkefnis sem tengist byggingariðnaði óbeint. Það má nefna t.d. að hið opinbera hefur ákveðið að halda áfram framkvæmdum t.d. við tónlistarhúsið ásamt fleiri opinberum framkvæmdum. Hæstv. samgönguráðherra hefur lýst því að efst á hans forgangslista séu Vaðlaheiðargöng sem eru stærðarinnar framkvæmd á þessu sviði. Lífeyrissjóðirnir eru langt komnir með að vinna fýsileikakönnun á því eða taka ákvörðun um hvort farið verði í byggingu nýs landspítala. Þetta eru allt saman gríðarlega mikilvæg verkefni á meðan hinn almenni byggingarmarkaður er mettur. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að halda áfram og reyna að hefja nýjar opinberar framkvæmdir ásamt því að reyna með breytingu á lögum og sömuleiðis reglum Íbúðalánasjóðs að ýta undir að farið sé í viðhald á húsnæði.



[15:21]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og umræðu um Sementsverksmiðjuna. Það er auðvitað erfitt að ræða um fyrirtæki sem var í ríkiseigu og er eina sinnar tegundar á íslenskum markaði sem því miður var svo afhent einkaaðilum til rekstrar og gerir allar aðgerðir í sambandi við þessa verksmiðju erfiðari.

Það sem þarf að skýra og fylgjast betur með er hvort dönsku framleiðendurnir á sementi niðurbjóða markaðinn eða koma með undirboð inn á markaðinn. Það er ótrúlegt að fylgjast með því að þeir skuli geta haldið sig í samkeppninni þrátt fyrir tvöfalt gengi. Ég hef væntingar um að Samkeppniseftirlitið taki þetta mál upp og skoði hvort um óeðlilega viðskiptahætti sé að ræða, eins og sumir hafa bent á og margt bendir til.

Því miður fórum við í þvílíka framleiðsluaukningu á nokkrum árum að við notuðum 350 þúsund tonn af sementi og það er náttúrlega augljóst (Forseti hringir.) að íslenski markaðurinn eða verksmiðjan annaði því ekki. Síðan kemur tómarúm á eftir þessari miklu þenslu (Forseti hringir.) og samdráttur sem bitnar illilega á verksmiðjunni, sem er mikilvægt fyrirtæki í heimabyggð og við þurfum að gera allt til að halda (Forseti hringir.) á Skaganum.



[15:22]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir það hvað hún fór vel yfir þetta mál en það sem mér finnst þurfa að koma fram, og það hefur reyndar komið fram hjá ýmsum, er að það þarf að skoða mjög gaumgæfilega hvort stundað sé undirboð á markaðnum. Það er mjög sérkennilegt að verð á sementi sé hugsanlega 52% af því sem það kostar í Danmörku, það vekur hjá manni tortryggni.

Síðan vil ég líka geta þess að allir starfsmenn Sementsverksmiðjunnar hafa minnkað starfshlutfall sitt um helming og eru núna í hálfu starfi til að auka möguleikann á því að fyrirtækið geti lifað. Þá langar mig að beina því til hæstv. iðnaðarráðherra, vegna þess að boðaðir orkuskattar, sem koma henni reyndar jafnmikið á óvart og mér, munu að mati forsvarsmanna fyrirtækjanna, ef þeir ganga eftir, ganga af fyrirtækinu dauðu. Það liggur alveg klárt fyrir að ef það verður að veruleika mun það drepa niður fyrirtækið. Mig langar að beina því til hennar hvort hún hafi ekki verulegar áhyggjur af því.



[15:23]
Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka þessa umræðu upp í dag. Staða Sementsverksmiðjunnar hefur verið til umræðu og farið hefur verið inn á þegar hún var einkavædd. Það er kapítuli út af fyrir sig sem hv. fyrirspyrjandi hefði kannski átt að ræða aðeins frekar. Því er ekki að neita að það er mikilvægt núna að taka stöðu með sementsframleiðslunni, með íslenskri framleiðslu, leita allra leiða. Er verið að beita undirboðum á markaði? Við þurfum að halda í það fólk og þá verkþekkingu sem þarna er, hvort sem verksmiðjan er í eigu hins opinbera eða ekki. Það hefði verið heppilegt að hún hefði verið áfram í eigu hins opinbera, ég neita því ekki, en iðnaðarráðherra á minn stuðning allan í þessu máli og ég treysti því að hún beiti öllum þeim mögulegu aðgerðum sem hún getur til að liðka fyrir íslenskri sementsframleiðslu.



[15:24]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og sömuleiðis þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Það er rétt að Sementsverksmiðjan er fyrirtæki í einkaeign og verksmiðjan hefur gripið til margvíslegra aðgerða til að reyna að bregðast við þeim mikla vanda sem við er að glíma.

Það sem er hins vegar sérstakt við þetta mál er það sem ég vakti athygli á. Málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi voru tekin upp í ríkisstjórn í lok ágúst. Tveimur ráðherrum var falið að fara yfir málið og skila áliti í þessum efnum. Það er alveg ljóst mál að með þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar voru vaktar miklar væntingar. Nú hefur hæstv. ráðherra greint frá því að skilað verði auðu, það verði engar sérstakar tillögur gerðar í þessu sambandi. (Gripið fram í.) Heimsóknin í Sementsverksmiðjuna í september hafi verið eins konar kurteisisheimsókn (Gripið fram í.) og hæstv. ráðherra var síðan með sagnfræðilegar vangaveltur um hver þróunin á sementsverksmiðjumarkaðnum hefði verið.

Þessi mál hafa verið rædd í ríkisstjórn. Tveimur ráðherrum var falið málið og einn hæstv. ráðherra greindi frá því opinberlega að ekki væri hægt að gera ráð fyrir öðru af hálfu ríkisstjórnarinnar en að komið yrði fram með sérstakar tillögur til að bregðast við vanda verksmiðjunnar. Ég greindi síðan frá því að það eina sem sést hefði til ríkisstjórnarinnar í þessu máli væri að vera með hótanir um skattlagningu sem geta numið allt að 10% af veltu verksmiðjunnar. Það er alveg augljóst mál að hún mun gera það að verkum að rekstrargrundvöllur verksmiðjunnar fer endanlega veg allrar veraldar. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún vilji þá a.m.k. ekki greina okkur frá afstöðu sinni til þess að leggja þennan orkuskatt á Sementsverksmiðjuna og kolefnisskattinn. Hæstv. ráðherra hefur talað gegn því að þessi skattur verði lagður til að mynda á stóriðjuna (Gripið fram í.) en það hefur enginn ráðherra mér vitanlega talað um að hverfa eigi frá kolefnisskattinum sem hluta af þeim orkusköttum sem verið er að boða. Það er auðvitað sá hluti skattlagningarinnar sem verður erfiðastur fyrir verksmiðjuna. En aðalatriðið við þetta er að búið er að leika mikinn blekkingaleik, það er búið að vekja upp miklar væntingar og hæstv. ráðherra hefur núna í þessari ræðu, skotið þær allar niður.



[15:27]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fer mikinn í ræðustól. Eins og ég sagði frá áðan fórum við, sú er hér stendur og umhverfisráðherra, í heimsókn í Sementsverksmiðjuna eftir að okkur var boðið af hálfu starfsmanna þangað. Það er vissulega rétt að þessi málefni voru tekin upp hjá ríkisstjórn þar sem hæstv. umhverfisráðherra var beðin um að fylgja eftir hugmyndum um ný sóknarfæri fyrir Sementsverksmiðjuna sem felast í ákveðinni endurvinnslu, sem hv. þingmenn geta spurt hana um og eru gríðarleg tækifæri fólgin í. Sjálfri var mér falið að gefa „rapport“ um stöðuna og það er það sem ég hef gert. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvað hv. þingmaður óskar eftir. Vill hann að við kaupum Sementsverksmiðjuna aftur? Það sem við erum búin að gera er að grípa til almennra aðgerða til að þessi markaður geti farið af stað aftur og það er það sem er vandamálið.

Ég hef sagt frá aðgerðum okkar til að ýta undir frekara viðhald á húsnæði. Það höfum við gert með margþættum aðgerðum. Ég hef sagt frá því að við erum að gefa í hvað varðar opinberar framkvæmdir og það hefur verið margsinnis farið yfir það í þessum stól. Það eru þessar aðgerðir sem skipta öllu máli vegna þess að öll störf eru mikilvæg. Það má ekki heldur gera lítið úr þeim störfum sem tapast hafa suður með sjó vegna samdráttar í hinu innflutta sementi. Öll störf eru mikilvæg, virðulegi forseti. En ég er sammála þeim sem hér hafa talað að verkþekkingunni verðum við að halda og þess vegna erum við að grípa til þessara margþættu aðgerða til að efla þennan markað aftur sem Sementsverksmiðjan er með 63% hlutdeild í. Þannig er staðan. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég skal ræða orkuskatta við hv. þingmann síðar en spurningarnar voru sértækar og vildi ég því svara þeim beint. Varðandi samkeppnisbrot af hálfu hins aðilans á þessum markaði, um undirboð á markaði, ætla ég ekki að vera sá ráðherra sem stendur í ræðustól og tekur slíka umræðu (Forseti hringir.) vegna þess að slíkt á sitt kæruferli og skal fara þá leið í ríki (Forseti hringir.) sem kallar sig réttarríki.