138. löggjafarþing — 19. fundur
 4. nóvember 2009.
fjármögnun endurbóta á Suðurlandsvegi.
fsp. UBK, 101. mál. — Þskj. 107.

[15:48]
Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Eins og öllum hér og öllum sem hlýða á mál mitt er kunnugt hafa endurbætur á Suðurlandsvegi verið mjög í umræðunni undanfarin ár og virðist vera ákveðin samstaða um að rétt sé að ráðast í þetta verkefni og þessa framkvæmd. Hins vegar eru að sjálfsögðu breyttir tímar sem allir gera sér grein fyrir og erfitt með fjármögnun. Því tel ég rétt að beina þeirri fyrirspurn til samgönguráðherra hvað líði fjármögnun þessa verkefnis, enda mikilvægt að menn séu upplýstir um stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli sem öðrum.

Helstu rök fyrir þessari framkvæmd hafa verið talin þau að það er mikil og vaxandi umferð um Suðurlandsveg, þar sé há slysatíðni og í þriðja lagi liggur fyrir að arðsemi tvöföldunarinnar er mikil, samanber skriflegt svar samgönguráðherra á Alþingi 11. ágúst sl. við fyrirspurn hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga um miðjan síðasta mánuð var áréttuð afstaða sunnlenskra sveitarstjórnarmanna um nauðsyn þessarar tvöföldunar og þetta er forgangsatriði hjá sunnlenskum sveitarstjórnarmönnum. Það liggur fyrir að almenningur telur þessar framkvæmdir einnig mikilvægar samkvæmt nýgerðri skoðanakönnun Gallups. Þá liggur fyrir að skipulagsmál standa ekki í vegi fyrir því að hægt sé að hefja verkið.

Nú er hluti leiðarinnar tilbúinn til útboðs hjá Vegagerðinni, eftir því sem mér skilst. Arðsemismat liggur fyrir samkvæmt skýrslu frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens í ágúst 2007 og miðað við fréttir í fjölmiðlum er tvöföldun Suðurlandsvegar efst á lista Vegagerðarinnar í sambandi við átak með aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun. Hins vegar hefur fylgt þeim fréttum að lífeyrissjóðirnir setji það skilyrði fyrir aðkomu sinni að fjármögnuninni að tekin verði upp veggjöld á viðkomandi leið. Því held ég að það sé sérlega kærkomið tækifæri fyrir hæstv. samgönguráðherra að upplýsa okkur hér, þingið og íbúa Suðurkjördæmis, gesti þar og gangandi, um það hvort til standi að fjármagna þessa framkvæmd með veggjaldi. Það er einfaldlega brýnt að það liggi fyrir vegna þess að þetta kemur til með að hafa áhrif á það hvernig horft er til þessarar framkvæmdar.

Þess vegna hef ég beint til hæstv. samgönguráðherra fyrirspurn sem hljóðar svo:

Hvað líður fjármögnun ríkissjóðs á endurbótum á Suðurlandsvegi, annars vegar á kaflanum „Hólmsá – Hveragerði“ og hins vegar á kaflanum „Hveragerði – austur fyrir Selfoss“?



[15:51]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir beinir til mín fyrirspurn út af endurbótum á Suðurlandsvegi, annars vegar á kaflanum „Hólmsá – Hveragerði“ og hins vegar á kaflanum „Hveragerði – austur fyrir Selfoss“.

Það kom fram í máli hv. þingmanns sem er alveg hárrétt að í sáttmálanum sem gerður var og unnið er eftir, stöðugleikasáttmálanum, er fylgiskjal um samgönguframkvæmdir. Þar er Suðurlandsvegur inni, bæði það sem menn kalla fyrsta áfanga, sem er Reykjavík – Hveragerði, og annan áfanga, sem er Hveragerði – Selfoss, sem eitt þýðingarmesta og mest áríðandi verkið að fara í. Það hefur ekkert breyst hvað það varðar. Þetta er umferðarmesti vegur landsins. Þetta er þýðingarmest og okkur liggur mest á að fara þarna í ákveðnar framkvæmdir, sem kortlagðar hafa verið í mikilli sátt um sambland af 2+1 og 2+2 vegi, útfærslu sem ég held að sé mjög góð, sem er auðvitað aðalatriði líka í að skapa meira umferðaröryggi og aðskilja akstursstefnur. Eins og ég segi er þetta þýðingarmesta atriðið í samgöngumálum, það er flokkað þannig og unnið eftir því.

Ég er sæmilega bjartsýnn á það, virðulegur forseti, að innan skamms komi til útboðs á fyrsta áfanganum, þ.e. þeim áfanga sem var tilbúinn til útboðs þegar við þurftum að stoppa eftir hin miklu og mörgu útboð í upphafi þessa árs. Þá var sem sagt komið að þessum kafla sem er frá Lögbergsbrekku að Litlu kaffistofu, 7–8 km ef ég man rétt.

Þetta er mikið verk allt saman og það tekur okkur aðeins lengri tíma að undirbúa skipulagsmál og umhverfismál og allt þetta, sérstaklega hvað varðar Hveragerði – Selfoss en annað ætti að vera til.

Það er rétt að talað hefur verið um það sem einkaframkvæmdarverk. Þetta er mikið verk. Þetta eru um 50 km og áætlaður kostnaður á öllu verkinu er 16 milljarðar kr., sem skiptast þannig að Suðurlandsvegur að Hólmsá, 6,4 km, er áætlað að kosti 3,4 milljarða, Hólmsá – Hveragerði, 30 km, er áætlað að kosti 5,2 milljarða og Hveragerði – Selfoss, með nýrri Ölfusbrú, 13,6 km, yrði 7,2 milljarðar, samtals um 50 km og 16 milljarðar kr. Það er sú umræða sem er í gangi við fulltrúa lífeyrissjóðanna, um hvernig eigi að útfæra þetta og setja fram.

Við sáum í fréttum í dag að á vegum ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðanna var undirritaður mikilvægur og góður sáttmáli um það hvernig á að vinna að byggingu nýs Landspítala. Það var auðvitað forgangsmál í þessu. Ég held að við Íslendingar eigum það inni að byggja okkur nýjan Landspítala, en umræðan um samgönguframkvæmdir er líka í gangi. Þá koma til greina nokkrar leiðir um hvernig eigi að gera þetta. Ein er t.d. þannig að ríkið eigi einhvers konar hlutafélag sem tekur að sér að byggja vegi í einkaframkvæmd og þá er ekki tekið af hefðbundnu ríkisfé, vegaframkvæmdir sem væru settar í forgang fram yfir hefðbundna samgönguáætlun, eða hvort við þurfum að fara útboðsleið og bjóða út sérleyfið, bjóða út hver vill taka að sér og byggja, reka og fjármagna. Þetta er sú vinna sem er í gangi og henni er ekki lokið. Fyrr getum við ekki sagt neitt um hver niðurstaðan verður, hvaða leið verður farin, vegna þess að það var talsvert miklu auðveldara þegar Hvalfjarðargöng voru gerð, þá voru ekki ýmsar kröfur sem eru á okkur í dag um gegnsæi og að allir sitji við sama borð o.s.frv. Þá var hægt að afhenda það einu félagi sem nú er ekki lengur hægt.

Þessi vinna er í gangi og vonandi verður sem fyrst komin niðurstaða í hana vegna þess að þetta eru auðvitað hlutir sem ekki hefur verið klárt hingað til hvernig á að standa að. Við þurfum að skrifa það svolítið í stein núna, við þurfum að marka leiðina og við erum m.a. að viða að okkur gögnum og upplýsingum frá nágrannaþjóðunum um hvernig þetta hefur verið gert þar. Ég á von á því, virðulegur forseti, að þetta gangi sem fyrst.

Ég vil aðeins segja að vonandi kemur til þess að — ja, ég sé að tími minn er búinn þannig að ég kem að því í seinna svari mínu.



[15:56]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er mikið fagnaðarefni að fyrsti áfanginn í tvöföldun og breikkun á Suðurlandsvegi sé í uppsiglingu, að aðskilnaður akstursstefna á þessum slysaháa og umferðarþunga vegi verði jafnvel á næstu dögum eða vikum, a.m.k. fyrir lok þessa árs eins og mátti skilja hæstv. ráðherra áðan þó að hann hafi ekki nefnt dagsetningarnar. Það skiptir gífurlega miklu máli að hefjast handa við þetta verkefni eftir að ágæt samstaða náðist um útfærsluna á því sem ég held að sé bæði hagkvæm og sanngjörn á þessari leið. Hér er um að ræða gífurlega mikilvæga framkvæmd sem á fimm árum, frá því að umræðan hófst í rauninni um tvöföldun og breikkun á Suðurlandsvegi, hefur skapast mikil samstaða, bæði þverpólitísk og meðal þjóðarinnar, um að þetta sé mikilvægasta samgönguframkvæmd utan þéttbýlis á landinu öllu. Það er svo annað mál hvað varðar einkaframkvæmd og gjaldtöku. Það kemur aldrei til álita að tekin verði upp gjaldtaka á eina stofnbraut en ekki aðrar, það yrði þá að vera algjört jafnræði og einhverjar tæknilegar lausnir sem við sjáum ekki í dag. Á næstu mánuðum og missirum hljótum við að taka mjög djúpa og efnismikla umræðu um þau mál áður en nokkur ákvörðun verður tekin um það gagnvart nokkurri stofnbraut (Forseti hringir.) utan eða innan höfuðborgar.



[15:57]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hefja máls á þessu mjög mikilvæga máli. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Björgvins Sigurðssonar hefur það hæstu arðsemi, mesta umferð og einna hæsta slysatíðni þannig að verkefnið er mikilvægt. Það er búið að standa lengi til. Stærsti hluti þess er klár skipulagslega og það gengur auðvitað ekki endalaust að við bíðum eftir því að einhver endir náist í vangaveltur um með hvaða hætti endurgreiðslur til að mynda til lífeyrissjóðanna verða. Það hefur komið fram að umræðurnar hafa staðið alveg allt frá því — þær hófust reyndar ekki fyrr en í júní þrátt fyrir að menn væru með hugmyndir um að hefja þetta strax í febrúar. Vinnan virðist ekki hafa gengið sérstaklega vel í sumar. Það mikilvægasta er að ljúka þessum hugmyndum og fara að hefja (Forseti hringir.) framkvæmdir. Það er mjög mikilvægt að koma þeim skilaboðum út til fólks og verktakanna að eitthvað sé á döfinni, eitthvað í pípunum, einhver störf.



[15:58]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Á fundum okkar þingmanna kjördæmisins í þarsíðustu viku kom mjög skýrt fram hjá sveitarstjórnum á Suðurlandi að þær teldu þessa framkvæmd, Suðurlandsveginn, vera langmikilvægasta verkefnið fyrir Suðurlandið, og landið allt eins og hefur komið fram hérna í tölum varðandi þjóðhagslega hagkvæmni og annað. Hins vegar höfum við takmarkað fé og menn hafa líka haft miklar áhyggjur af því að það eigi að rukka einhvers konar veggjöld fyrir veginn. Það hefur komið fram að lífeyrissjóðirnir telja grundvallarforsendu fyrir því að fara í þessa framkvæmd að þeir geti rukkað einhvers konar gjöld fyrir notkun á veginum. Spurningin er þá hvort það geti ekki verið mikilvægara að fara í einhvers konar aðrar framkvæmdir sem tryggja tekjur til framtíðar fyrir þjóðina. Þá er það eins og Búðarhálsvirkjunin sem skiptir geysilega miklu máli. Það er nefnilega þannig (Forseti hringir.) að við byrjum á því að skapa vinnuna, þar með kemur vöxturinn og þar með eigum við peninga til að byggja upp velferðina og infrastrúktúrinn í landinu.



[16:00]
Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin áðan og jafnframt þeim þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna. Eins og fram hefur komið er gríðarlega mikilvægt að fólk fái fullvissu fyrir því að ráðist verði í þessa framkvæmd. Jafnframt er gríðarlega mikilvægt að fólki verði ekki haldið í óvissu um það ef til stendur að rukka þá sem leið eiga um þennan fjölfarna veg um veggjald og að ekki sé svarað með jafnloðnum hætti um þetta atriði og gert var hér áðan.

Þess vegna óska ég eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi okkur hér um það hvort það komi til greina að hans mati að innheimta veggjald af vegfarendum um Suðurlandsveg miðað við þessi áform. Það kom fram í máli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar að það væri leið sem vert væri að skoða en hún ætti þá að gilda jafnt um alla og leggjast á allar stofnbrautir. Ég spyr hvort til standi að leggja slíkt veggjald jafnframt á Reykjanesbrautina og Vesturlandsveg. Þetta er í umræðunni í samfélaginu og þetta kemur til með að lita alla okkar umræðu um þessar samgöngubætur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Það er einfaldlega hlutverk stjórnvalda að koma með skýr skilaboð. Er þetta planið eður ei?



[16:01]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að við stöndum frammi fyrir því eins og við sjáum í gildandi samgönguáætlun, margskrifað um það þar og margar skýrslur hafa verið skrifaðar um það hvernig við munum afla fjár til vegagerðar og reksturs vegakerfisins á komandi árum. Við skulum hafa það í huga, virðulegi forseti, að sem betur fer mun umhverfisvænum bílum fjölga, þeim hefur fjölgað og þeim mun fjölga mjög á næstu árum. Megintekjustofn til vegakerfisins er í gegnum bensíngjald og olíugjald og lítils háttar í gegnum þungaskatt. Þetta eru allt saman tekjustofnar sem hafa lækkað mjög hlutfallslega á undanförnum árum og munu lækka mjög og kannski meira á næstu árum út af þessu. Aðilar sem keyra á bíódísli í dag greiða ekki hluta af olíugjaldi til Vegasjóðs enda er þegar í síðustu samgönguáætlun fjallað um leiðir sem eru til um hvernig eigi að gera þetta. Sú vinna hefur farið fram.

Ég hef lesið skýrslur um gjaldtöku á einkaframkvæmd í fjármögnun samgöngumannvirkja sem unnar voru í tíð forvera míns, Sturlu Böðvarssonar, (Gripið fram í.) og ég hef lesið um einkaframkvæmd í samgöngum sem er líka skýrsla sem þarna hefur komið fram. Ég hef kynnt mér stefnur flokkanna og eini flokkurinn sem sennilega hefur ályktað um það er Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur ályktað um að full ástæða sé til að kanna annars konar gjaldtöku á umferð en er í dag.

Það er það sem bíður okkar, virðulegi forseti, og við þurfum að vinna það eins og svo mörg önnur verk sem við þurfum að fara í og erum í til þess að kanna hvernig við getum náð meiri árangri í að byggja upp vegi, ég tala nú ekki um umferðarmesta veginn (Forseti hringir.) eins og við erum að tala um hér, til að skapa meira umferðaröryggi. Ég ætla að vona það líka, virðulegi forseti, að við komumst sem allra fyrst í útboð á fyrsta áfanga af Suðurlandsvegi.