138. löggjafarþing — 19. fundur
 4. nóvember 2009.
eftirlit og björgunarstörf á Norður-Atlantshafi.
fsp. SIJ, 52. mál. — Þskj. 52.

[18:28]
Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Á árinu 2007 ályktaði Vestnorræna ráðið um að auka samvinnu og samráð um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlanda og einnig við önnur ríki við Norður-Atlantshaf. Einnig var lögð fram þingsályktun um stuðning við aukið samstarf milli slysavarnafélaga og björgunarsveita á sjó og í landi í vestnorrænu löndunum. Í framhaldi þessa, þ.e. á árinu 2008, var síðan haldin björgunar- og leitaræfing í tengslum við þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Færeyjum, sem danski sjóherinn tók m.a. þátt í, svokallaður Grönlands Kommando. Í kjölfarið bauð yfirmaður þeirra, varaaðmíráll Henrik Kudsk, að halda þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins síðasta sumar í aðalstöðvum hersins í Grænadal á suðvesturströnd Grænlands. Ástæðan fyrir þessu öllu saman var mikill vilji aðmírálsins og hersins til að efla samstarf Íslands, Grænlands og Færeyja, auk annarra, eins og Norðmanna, sem koma að björgun, leitar- og eftirlitsstörfum á Norður-Atlantshafi. Einnig vildi varaaðmíráll Henrik Kudsk koma því að hve miklir möguleikar væru að opnast í tengslum við opnun siglingaleiða í Norður-Íshafi, bæði vestan við Grænland og eins norðan og vestan við Noreg. Samhliða möguleikunum eru vaxandi áhyggjur og vandamál sem fylgja mun meiri siglingum á svæðinu og þó ekki sé komið að því að flutningaskip hlaðin olíu eða öðru slíku sigli hér um farvötnin hefur það nú þegar gerst að skemmtiferðaskip eru farin að fara mun lengra upp með austurströnd Grænlands og koma gjarnan við hér á Íslandi og sigla á áður óþekktu hafsvæði. Stærð Grænlands er gríðarleg, við uppgötvuðum það í þessari ferð til Grænlands, og það getur tekið marga daga fyrir skip að fara frá vesturströndinni þarna lengst norður austanmegin.

Það kom fram í máli hersins að helsti samstarfsaðili þeirra á þessu svæði öllu er Landhelgisgæslan. Maður skyldi því velta því fyrir sér með hvaða hætti við erum í stakk búin til þess. Landssamband smábátaeigenda hefur einnig fjallað um slíka hluti á liðnum árum og hefur haft áhyggjur af því að vaxandi þörf sé á eftirliti og aðstæðum til björgunar á þessu svæði. Ég velti því upp, og það er tillaga frá framkvæmdastjóra landssambandsins, hvort ekki sé ástæða til að hefja nú þegar viðræður við Færeyinga, Dani, Norðmenn, Hjaltlendinga og Grænlendinga um stofnun sameiginlegrar björgunarmiðstöðvar við Norður-Atlantshaf með aðsetur hér á landi.

Spurningarnar snúast því um það hvernig eftirliti með björgunarstörfum er háttað og samstarfinu við Grænlendinga, Færeyinga og Norðmenn og hvort unnið sé að áætlun um aukið eftirlit og björgunarstörf í ráðuneytinu í kjölfar opnunar þessara siglingaleiða. (Forseti hringir.) Ég spyr einnig hvort Landhelgisgæslan sé í stakk búin til að taka við þessum auknu verkefnum.



[18:31]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar spurningar sem eru þrjár, ég ætla að svara þeim í eins stuttu máli og mér er unnt en ég gæti í rauninni talað hér í mun lengri tíma en mér er gefinn.

Hvað varðar fyrstu spurninguna þá hefur Landhelgisgæslan, með fulltingi dómsmálaráðuneytisins undanfarin ár eftir að ljóst varð að varnarliðið færi af landi brott, lagt mikla vinnu í að efla samstarf við nágrannaþjóðir á sviði eftirlits, leitar og björgunar á hinu víðfeðmna leitar- og björgunarsvæði umhverfis landið sem Ísland ber ábyrgð á. Samningur við danska sjóherinn, sem fer með yfirstjórn þessara mála umhverfis Grænland og aðstoð við Færeyjar, hefur verið í gildi síðan 1996. Þá var gerður samningur dómsmálaráðherra og danska varnarmálaráðherrans á árinu 2007 um nánara samstarf Landhelgisgæslunnar og danska flotans við eftirlit, leit og björgun á Norður-Atlantshafi. Við brotthvarf varnarliðsins hefur samstarfið aukist til muna og hefur samningurinn verið endurskoðaður. Lokadrög að endurskoðun samningsins bíða þess að verða undirrituð, en í drögunum hefur m.a. verið lögð áhersla á aukin upplýsingaskipti í tengslum við eftirlit. Dönsk varðskip og eftirlitsflugvélar á siglingu eða flugi austur af Grænlandi láta Landhelgisgæslunni í té staðsetningu sína, enda nær ábyrgðarsvæði Landhelgisgæslunnar vegna leitar og björgunar upp að austurströnd Grænlands.

Undanfarin ár hafa dönsk varðskip, þyrlur og eftirlitsflugvélar danska flotans margoft aðstoðað Landhelgisgæsluna vegna eftirlits innan efnahagslögsögunnar þegar þau eru þar á ferð sem og aðstoðað margsinnis við leitar- og björgunaraðgerðir. Sams konar upplýsingaskipti eiga sér stað við dönsk varðskip og eftirlitsflugvélar umhverfis Færeyjar. Þá eru ágætissamskipti við færeysku fiskveiðieftirlitsstofnunina en hún rekur m.a. leitar- og björgunarmiðstöðina í Þórshöfn og tvö varðskip. Þessi samvinna er þó ekki bundin samningi.

Samskipti við Norðmenn á sviði eftirlits og í tengslum við leit og björgun hafa aukist mikið undanfarin ár. Skrifað var undir samning við Kystverket í Noregi um gagnkvæm upplýsingaskipti um skipaumferð á hafinu á milli Íslands og Noregs. Vaktstöð siglinga í Noregi sem staðsett er í Vardö upplýsir Landhelgisgæsluna um alla hugsanlega skipaumferð sem gæti verið á ferð frá norsku hafsvæði áleiðis til Íslands eða um íslenska efnahagslögsögu. Það sama gerir stjórnstöð Landhelgisgæslunnar gagnvart norsku stjórnstöðinni í Vardö.

Síðla árs 2008 var undirritaður samningur á milli yfirstjórnar varnar- og eftirlitsmála í Norður-Noregi og Landhelgisgæslunnar. Samkvæmt samningnum skal skipst á upplýsingum um sérstaka skipaumferð, hafa sérstaka tengiliði tiltæka vegna samvinnu, bjóða upp á gagnkvæma þjálfun og gagnkvæma starfsþjálfun einstakra starfsmanna. Nú þegar hefur þessi samvinna orðið til þess að tvö norsk varðskip hafa haft viðkomu á Íslandi og æft og starfað með einingum Landhelgisgæslunnar, ásamt því að yfirmaður í norsku strandgæslunni hefur verið í starfsþjálfun hjá Landhelgisgæslunni og skipstjórnarmaður hjá Landhelgisgæslunni hefur verið í starfsþjálfun hjá norsku strandgæslunni.

Samskipti stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar við leitar- og björgunarmiðstöðina í Bodö og Stafangri, og þá sérstaklega Bodö sem sér um slíkar aðgerðir fyrir Norður-Noreg, hafa um árabil verið mikil og fagmannleg, en þær tilheyra norsku Redningstjenesten og eru í nánu samstarfi við Kystverket, norsku strandgæsluna og yfirstjórn varnar- og eftirlitsmála í Norður-Noregi. Þá fær Landhelgisgæslan einn af stofnaðilum að North Atlantic Coast Guard Forum árið 2007, en samtökin samanstanda af 20 löndum sem eiga hagsmuna að gæta við norðanvert Atlantshaf og Eystrasaltið.

Síðla árs 2008 var skrifað undir samkomulag við bandarísku strandgæsluna um nánara samstarf á sviði eftirlitsleitar og björgunar og bandaríska strandgæslan gerir m.a. út langdrægar eftirlits- og björgunarflugvélar sem staðsettar eru á Nýfundnalandi yfir ákveðinn hluta ársins vegna hafísseftirlits og tekur það vélarnar einungis nokkrar klukkustundir að fljúga að suðvesturmörkum ábyrgðarsvæðis Landhelgisgæslunnar vegna leitar og björgunar á Norður-Atlantshafi. Þá hefur undanfarin ár verið unnið að því að bæta Íslandi, og þá Landhelgisgæslunni, sem ábyrgðaraðila inn í samkomulag milli Bretlands, Kanada og Bandaríkjanna er varðar leit á Norður-Atlantshafi.

Ég gæti rakið fleira hér en tíminn leyfir það ekki.

Hvað varðar aðra spurningu þá hefur undirbúningur einkum snúið að eflingu tækja auk eflingar alþjóðlegs samstarfs sem ég rakti áðan. Starfsemi Gæslunnar er miðuð við þau verkefni sem eru í gangi hverju sinni og verkefnisstjórn Landhelgisgæslunnar tekur ávallt mið af þeim breytingum sem kunna verða á aðstæðum.

Varðskipin Týr og Ægir voru bæði send til endurbóta frá 1997–2006, þá er nýtt varðskip sem við ræddum í þessum sal, ný fullkomin eftirlits- og leitar- og björgunarflugvél hefur komið til landsins og þyrlureksturinn hefur þó þrátt fyrir allt aukist undanfarin ár en brotthvarf varnarliðsins stuðlaði náttúrlega að breytingum í því sambandi.

Hvað varðar það að Landhelgisgæslan sé í stakk búin að taka við auknum verkefnum, þá hefur Landhelgisgæslan stefnt að því að geta gert það á sem bestan hátt en ég mun kannski nota tækifærið í seinna svari að koma aðeins betur inn á það.



[18:36]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er hreyft þörfu máli. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, Sigurðar Inga Jóhannssonar, hefur Vestnorræna ráðið látið þetta mál til sín taka og gert samþykktir um aukið samstarf þessara vestnorðlægu landa í öryggis- og björgunarmálum í Norðurhöfum. Alþingi Íslendinga hefur líka samþykkt þingsályktun um þetta mál, hún var samþykkt í maí 2008, en þetta samstarf er reyndar nú þegar hafið og hafnar samæfingar eftir því sem næst verður komist. En það er líka vert í þessu samhengi að árétta að Vestnorræna ráðið beitir sér líka mjög fyrir samstarfi björgunarsveita og sjálfboðaliðasveita varðandi björgunar- og öryggismál í Norður-Atlantshafi og m.a. fyrir stofnun þeirra eins og í tilviki Grænlendinga. (Forseti hringir.) Það er líka mál sem þarft er að hafa í huga í þessu samhengi og mikilsvert, að ég tel, að fylgja þessum áformum eftir.



[18:38]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil líka taka undir orð hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar um mikilvægi þessa samstarfs. Við höfum átt um langt árabil mjög uppbyggilegt samstarf við danska sjóherinn og einnig núna nýlega er aukið samstarf við norsku strandgæsluna. Ég tel þetta vera óhemju mikilvægt samstarf og við þurfum að hlúa að Landhelgisgæslunni svo hún geti haldið þessu samstarfi áfram. Það er búið að koma hér inn á skemmtiferðaskipin og olíuskipin og ég vil líka bæta við að við höfum reynslu af því að t.d. danski sjóherinn hefur aðstoðað okkur í fíkniefnamálum, elti hér skútu með fíkniefni sem var svo tekin. Þetta var geysilega mikilvægt framlag.

Varðandi skemmtiferðaskipin þá er það þannig að á síðasta ári komu 60 þúsund manns á skemmtiferðaskipum til Íslands og fleiri komu í ár. Þetta er geysilegur fjöldi og ef eitt svona skip sekkur þarf að bjarga því sem bjargað verður. Og samstarfið verður að vera öflugt þannig að við getum gert eins vel og hægt er í slíkum aðstæðum. Ég vil undirstrika það og tek heils hugar undir orð fyrirspyrjanda að þetta samstarf þarf að vera í góðu lagi.



[18:39]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma hér upp og þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að dreifa huga okkar á Alþingi og láta okkur hugsa norður á bóginn og vestur eins og hefur komið fram hér í fyrirspurnatíma í dag. Það eflir manni bjartsýni og kjark að sjá og heyra þessi svör og þær spurningar sem þingmaðurinn lagði hér fram í dag. Auðvitað liggja hagsmunir okkar Íslendinga á þessum stöðum í Norður-Atlantshafi með Kanadamönnum, með Grænlendingum, með Dönum, með Norðmönnum, með þessum þjóðum sem við eigum þessa gríðarlegu og sameiginlegu hagsmuni með. Ég þakka þingmanninum fyrir spurninguna og hæstv. ráðherra fyrir mjög góð og skýr svör, þau eru mjög fróðleg og uppbyggjandi. Ég hvet landsmenn til að kynna sér betur það mikla starf sem Landhelgisgæslan er að vinna á þessum slóðum.



[18:40]
Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra kærlega fyrir skilmerkileg svör. Sá stutti tími sem við höfum hér í pontu gerir það að verkum að umræðan verður dálítið knöpp en það er ekki við það að sakast, við verðum að nýta það sem við höfum.

Ég velti því fyrir mér í framhaldi af svörum hæstv. ráðherra þar sem greinilega hefur verið gert verulegt átak í því að ná skipulegum samningum eða samstarfi við okkar ágætu nágrannaþjóðir, hvort sú hugmynd að reyna að koma á sameiginlegri stofnun sem hefði björgunarsveit eða eitthvað slíkt sem hefði þá aðsetur hér á landi því að það væri væntanlega besti staðurinn, hvort það er ekki eitthvað sem við gætum átt frumkvæði að við þessa ágætu nágranna.

Ég vil einnig þakka öllum þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni og lögðu gott til. Og þær þingsályktanir sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir nefndi hér eru einmitt mikilvægar og hafa sprottið upp úr Vestnorræna ráðinu og verið samþykktar á þinginu, og maður veltir þá kannski fyrir sér hvað síðan hefur verið unnið með þær áfram í ráðuneytinu. Það var kannski að nokkru leyti komið svar varðandi Landhelgisgæsluna og danska herinn og norsku strandgæsluna en varðandi kannski hina ályktunina um frjálsu félagasamtökin til að efla og styrkja samstarf slysavarnafélaga og björgunarsveita í löndunum þremur. Nú þekkjum við að það er mjög sterkt og öflugt innra starf sem við höfum byggt upp hér á landi en við vitum líka að það er ekki með sama hætti, sérstaklega ekki í Grænlandi og Færeyjum. Við gætum svo sannarlega lagt þeim lið og þakkað góðan hug og stuðning á öðrum vettvangi með þeim hætti.



[18:42]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka einnig þessa umræðu. Það er alltaf mikilvægt að tala um Landhelgisgæsluna. Ég ætlaði að koma inn á það að þótt svæðin sem um er að ræða séu á ábyrgð Landhelgisgæslunnar að öllu eða hluta, þá sinnir Gæslan þó ekki þessum svæðum ein og óstudd heldur kemur alþjóðleg samvinna þar til hjálpar eins og ég hef lýst. Miðstöð þessarar alþjóðlegu samvinnu er síðan stjórnstöð Landhelgisgæslunnar eða Vaktstöð siglinga og með samvinnu Landhelgisgæslunnar, Neyðarlínunnar og Siglingamálastofnunar, auk Slysavarnafélagsins Landsbjargar, hefur undir forustu Landhelgisgæslunnar undanfarin ár tekist vel til að gera þessa miðstöð að alþjóðlegri öryggis-, eftirlits- og björgunarmiðstöð sem sinnir aðgerðum á stórum hluta Norður-Atlantshafsins.

Hvað varðar hugmyndir um sameiginlega björgunarmiðstöð hér á landi og aðrar góðar hugmyndir sem hv. fyrirspyrjandi kom með, þá tel ég að þetta sé akkúrat rétti tíminn að bera fram slíkar hugmyndir vegna þess að nú hef ég skipað starfshóp alþingismanna og embættismanna til að fara yfir málefni Landhelgisgæslunnar. Slík umræða á einmitt heima í þessum starfshópi, að ræða frekari möguleika á samvinnu og jafnvel að festa hana í form eins og hér hefur verið nefnt, auk þess hvernig við getum verið sem best búin að sinna eftirliti og björgun og leit á þessu hafsvæði. Raunar liggur ekki fyrir hversu mikil aukning verður á skipaumferð, það á eftir að koma í ljós en við verðum að vera við öllu búin.