138. löggjafarþing — 20. fundur
 5. nóvember 2009.
nauðungarsala, 2. umræða.
stjfrv., 90. mál (frestun uppboðs). — Þskj. 92, nál. 159.

[11:04]
Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir máli sem lætur ekki mikið yfir sér og er í raun og veru bara framlenging á fresti um nauðungarsölu fram yfir 31. október, að það verði 28. febrúar 2010. Engu að síður er þetta mál sem skiptir mjög marga einstaklinga og heimili máli.

Ég ætla þá, með leyfi forseta, að lesa hér nefndarálitið sem hljóðar svo:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti.

Umsagnir bárust um málið frá Neytendasamtökunum, Alþýðusambandi Íslands, Íbúðalánasjóði, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sýslumanninum á Höfn, tollstjóranum í Reykjavík, sýslumanninum í Reykjavík, sýslumanninum á Selfossi, Samtökum fjármálafyrirtækja, Sýslumannafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands.

Eins og ég sagði hér í upphafi er með frumvarpinu lagt til að heimild sýslumanns til að verða við ósk gerðarþola um að fresta nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði verði framlengd fram yfir 31. janúar 2010. — Ég sé hér, frú forseti, að það er villa í nefndarálitinu, það er ósamræmi í dagsetningum þannig að ég hygg að það verði að laga áður en þetta er afgreitt.

Með lögum nr. 23/2009, er breyttu m.a. ákvæðum laga um nauðungarsölu, var ákveðið að fresta skyldi að ósk gerðarþola nauðungarsölum fasteigna fram yfir 31. október 2009. Sá frestur er liðinn og því komið að lokasölu í nokkrum tilvikum. Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að fresturinn væri hugsanlega ekki nægilega langur fyrir fólk sem er í greiðsluvandræðum til þess að endurskipuleggja fjármál sín með þeim úrræðum sem í boði eru, svo sem greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Nefndin telur því rétt að leggja til að fyrirhugaður frestur verði framlengdur til 28. febrúar 2010, sem er sú dagsetning sem er rétt í nefndarálitinu. Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir frekari frestun á nauðungarsölum eftir þennan tíma. Vill nefndin af því tilefni taka fram að hún telur ekki rétt að útiloka þann möguleika heldur telur hún eðlilegt að það mál verði skoðað sérstaklega í ljósi reynslunnar og þá hvort nauðsyn krefji.

Það er rétt að taka það fram, frú forseti, að þetta er sett hér í nefndarálitið vegna þess að þessi klásúla var í greinargerð með frumvarpinu, ekki frumvarpstextanum sjálfum, og nefndin gat þar af leiðandi ekki breytt þá frumvarpstextanum. En við setjum þessa klásúlu þarna inn vegna þess að við viljum ekki útiloka þann möguleika að það kunni að koma til þess að fresturinn verði lengdur enn frekar án þess að við vitum það á þessari stundu.

Nefndin telur rétt að taka fram að sömu skilyrði gilda varðandi þessa frestun og fyrr, þ.e. að gerðarþoli eða gerðarþolar þurfa sjálfir að óska eftir framlengdum fresti og húsnæðið sem um ræðir þarf að vera íbúðarhúsnæði samkvæmt nánari skilgreiningu.

Loks telur nefndin rétt að taka fram að niður er fallin sú sérregla að kröfur í eigu ríkisins, ríkisstofnunar eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins skuli ekki bera dráttarvexti heldur einungis þá vexti sem krafa hefði borið ef ekki hefði komið til vanskila á henni. Það er rétt að árétta að þessi sérregla gilti fram til 1. nóvember sl. og munu þessar kröfur því í framtíðinni bera lögbundna dráttarvexti frá sama tíma. — Ég bendi á að þarna á sér stað breyting.

Nefndin leggur til smávægilega lagfæringu á frumvarpinu þar sem ekki er ætlunin að fresta byrjun uppboðs heldur framhaldi uppboðs og/eða ráðstöfun á almennum markaði til fullnustu kröfu skv. 6. gr. laganna.

Við leggjum því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Í stað orðanna „31. janúar 2010“ tvívegis í 1. efnismgr. 1. gr. komi: 28. febrúar 2010. — Það er rétt að árétta það sem ég sagði hér áðan, frú forseti, að þarna er dálítið ósamræmi í dagsetningum í nefndaráliti þannig að það þarf að laga áður en málið er klárað.

„2. Í stað orðanna „við byrjun uppboðs eða framhald þess eða á almennum markaði“ í 2. málsl. 1. efnismgr. 1. gr. komi: við framhald uppboðs eða á almennum markaði.

Ásmundur Einar Daðason og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þór Saari sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir þetta skrifa, auk þeirrar sem hér stendur, Atli Gíslason, Róbert Marshall, Valgerður Bjarnadóttir, Birgir Ármannsson, Vigdís Hauksdóttir og Þráinn Bertelsson.

Ég hef þá lokið við að mæla fyrir þessu nefndaráliti, frú forseti, en hef þó gert grein fyrir ákveðnu ósamræmi sem ég rakst á í textanum þegar ég fór yfir hann, sem við munum laga á seinni stigum málsins.



[11:09]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrir yfirferð þessa frumvarps. Ég hef svo sem litlu við það að bæta, það eru margar fjölskyldur sem eiga um mjög sárt að binda og eru þannig staddar að fyrir liggur uppboð á eignum þeirra. Þetta frumvarp er lagt hér fram með stuðningi allra flokkanna á Alþingi til þess að lina aðeins þau áhrif sem af þessu kunna að skapast, þá er fresturinn lengdur áður en fólk þarf að yfirgefa húsnæði sitt.

Fyrst var talað um að sá frestur ætti að gilda til 31. janúar en það var samkomulag í nefndinni um að fresta því enn frekar þannig að áhrifa þessara laga gæti til 28. febrúar 2010. Það er gert í ljósi þess að hér urðu miklar hörmungar á síðasta ári og við þingmenn Framsóknarflokksins höfum ætíð sagt að við erum tilbúin til að gera allt sem við getum til þess að bjarga heimilum og fjölskyldum í þessu landi eftir þær ógöngur. Þetta er einn þáttur í því og þess vegna tekur Framsóknarflokkurinn heils hugar undir þessi orð og styður þetta frumvarp.



[11:11]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar bara að leggja áherslu á það, eftir að hafa verið áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd, að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og þörf úrbót fyrir almenning sem er í þeirri ömurlegu stöðu að missa hugsanlega heimili sitt eða íbúðarhúsnæði. Á þessum umbrotatímum eru svona úrræði, þótt tímabundin séu, alveg sjálfsögð og er það mjög virðingarvert að þingmenn skuli beita sér fyrir svona þörfum úrbótum.

Mig langar að benda á í tengslum við þetta mál að hér síðar í dag verður vonandi tekið á dagskrá frumvarp til laga um samningsveð, flutningsmaður er Lilja Mósesdóttir og fleiri. Þar kemur einnig fram mjög mikilvæg úrbót fyrir almenning hvað varðar samningsveð, en eins og kunnugt er lenda íbúðareigendur og lántakar í mörgum tilvikum í þeim hremmingum að veðið í eigninni er orðið miklu hærra en eignin. Þar með gerist það sjálfvirkt að lánveitandinn tekur veð í lántakanum sjálfum, þ.e. í hans eigin persónu, og menn sitja kannski uppi með það árum saman að vera hundeltir af lánveitendum út og suður og er nánast ómögulegt að koma undir sig fótunum aftur. Hér er einnig um að ræða mjög mikilvægar úrbætur sem eru fyllilega tímabærar vegna þess efnahagsumróts sem við búum við og er ánægjulegt að sjá bæði þessi mál hér í þinginu á einum og sama deginum.



[11:13]
Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er stundum þannig hér í þessum ræðustól þegar maður flytur mál og les tyrfinn lagatexta að maður ruglast stundum í ríminu og ekki kannski síst ef maður er ekki löglærður. Ég vil bara vekja athygli á því að mér urðu á smámistök hér varðandi dagsetningarnar þegar ég kynnti nefndarálitið því að í meðförum nefndarinnar var ýmist rætt um 31. janúar 2010 eða 28. febrúar 2010 og okkar niðurstaða varð sú að breyta því í 28. febrúar 2010 úr 31. janúar 2010. Það er að segja, í frumvarpstextanum stendur 31. janúar 2010 en breytingin sem nefndin er að gera er 28. febrúar 2010 þannig að það er ekkert ósamræmi í nefndarálitinu, eins og ég hélt fram í fyrri ræðu minni.